Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, og sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, var sett inn á samráðsgátt Stjórnarráðsins þann 27. september 2019 og var frestur til að skila umsögnum til 14. október. Alls bárust fjórar umsagnir (skráðar fimm en ein umsögn var tvískráð).
Frumvarpið var lagt fram á Alþingi til umfjöllunar og afgreiðslu í nóvember 2019 og samþykkt þann 17. desember sama ár.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 27.09.2019–08.10.2019.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 27.05.2020.
Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að styrkja það lögbundna hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum til þeirra.
Frumvarpið er samið af hálfu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og er markmið þess fyrst og fremst að styrkja lögbundið hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Með það að markmiði var farið yfir regluverk sjóðsins, sbr. III. kafla laganna, reglna á grundvelli þeirra og vinnureglna sjóðsins sem staðfestar hafa verið af ráðherra, til að annars vegar styrkja forsendur og grundvöll úthlutana úr Jöfnunarsjóði og hins vegar skýra heimildir löggjafarinnar til skerðinga á framlögum úr sjóðnum í samræmi við dóm Hæstaréttar frá 14. maí 2019, í máli nr. 34/2018. Er frumvarp þetta afrakstur þeirrar vinnu og er tilgangur þess að færa frekari stoð undir þær reglur sem eiga að gilda um úthlutanir jöfnunarframlaga úr sjóðnum.
Skipta má meginefni frumvarpsins í þrjá flokka. Í fyrsta lagi er um ræða breytingar sem lagðar eru til í þeim tilgangi að uppfæra tilvísanir laganna og úreld ákvæði. Í annan stað eru lagðar til breytingar þar sem betur er gert grein fyrir forsendum og útreikningi framlaga sem áður var að finna í reglugerðum og reglum sem settar hafa verið á grundvelli laganna. Loks er í frumvarpinu að finna ákvæði sem heimila Jöfnunarsjóði að gera ákveðnar tilfærslur á úthlutun framlaga sjóðsins.
Umsögn Akureyrarbæjar við 9. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, og sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011
Akureyrarbær veitir svofellda umsögn við 9. gr. frumvarpsins:
Akureyrarbær tekur undir að veitt verði fjármagn til sameiningar sveitarfélaga. Hins vegar telur Akureyrarbær það með öllu óforsvaranlegt að ríkið ætli ekki að koma að fjármögnun sameininganna beint, vegna þess nýja verkefnis, sem sjóðnum er ætlað að styðja.
Jöfnunarsjóði er ætlað jafna aðstöðu sveitarfélaga með tekju- og útgjaldajöfnunarframlagi, en með þessu móti er verið að skerða þau framlög. Þetta hefur í för með sér að þau sveitarfélög sem ekki munu sameinast verða ekki aðeins af tekjum heldur er þeim beinlínis gert að greiða fyrir sameiningu annarra sveitarfélaga, með lægri framlögum úr jöfnunarsjóði en ella.
Því er það krafa Akureyrarbæjar að annað hvort komi sérstakt framlag úr ríkissjóði til að standa straum af sameiningu sveitarfélaga eða að hlutdeild jöfnunarsjóðs í skatttekjum ríkisins verði hækkuð, til að mæta sameiningarkostnaði.
Hvað varðar heimild til skerðingar á fasteignasjóði jöfnunarsjóðs þá telur Akureyrarbær að ríkissjóði beri að standa straum af hinni ólögmætu skerðingu sbr. dóm Hæstaréttar nr. 34/2018. Sérstök athygli er vakin á því að leiðréttingin nær sex ár aftur í tímann.
Hjálögð er sameiginleg umsögn með 4 öðrum sveitarfélögum, gerð af Óskari Sigurðssyni, hrl hjá Lex lögmönnum.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, og sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011.
ViðhengiMeðfylgjandi í viðhengi er umsögn Eyjafjarðarsveitar.
Viðhengi