Efnisinntök umsagnanna voru almenns eðlis og hvöttu flestar þeirra ekki til framgangs áformanna, m.a. með þeim rökum að varhugavert sé að rýra tekjustofna ríkisins með þeim hætti sem lagt er upp með í áformunum.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 30.09.2019–07.10.2019.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 23.10.2019.
Í áformuðu frumvarpi eru lagðar til breytingar á lögum um erfðafjárskatt í tengslum við þrepaskiptingu erfðafjárskatts.
Í áformuðu frumvarpi verður í fyrsta lagi lagt til að erfðafjárskatturinn verði þrepaskiptur, þ.e. annars vegar 5% af fjárhæð allt að 75.000.000 kr. og hins vegar 10% af því sem er umfram 75.000.000 kr. Í öðru lagi verður lagt til að fjárhæðarmörk skattþrepa taki árlegum breytingum miðað við þróun vísitölu neysluverðs. Þá verður jafnframt lagt til að sökum þrepaskiptingu erfðafjárskatts verði erfðafjárskattur á fyrirframgreiddum arfi sá sami og í hærra skattþrepinu, þ.e. 10%.
Í viðhengi er umsögn BSRB.
Virðingarfyllst,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur
ViðhengiFjármála- og efnahagsráðuneytið
skrifstofa skattamála
Reykjavík, 7. október 2019.
Umsögn KPMG ehf. um boðuð áform um breytingar á lögum um erfðafjárskatt nr. 14/2004.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt til umsagnar áform um breytingar á lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. Áformaðar breytingar einskorðast við þrepaskiptingu erfðafjárskatts. KPMG ehf. sér ekki ástæðu til athugasemda við fyrirhugaða þrepaskiptingu, en telur hins vegar ástæðu vera til frekari breytinga á lögum um erfðafjárskatt.
Samkvæmt gildandi lögum getur greiðsla erfðafjárskatt af fasteignum, atvinnurekstri og eignahlutum í félögum sem hafa atvinnurekstur með höndum, leitt til þess að erfingjar sjái sig knúna til að selja viðkomandi eign til að ráða við greiðslu skattsins. Í löggjöf margra ríkja, sem Ísland gjarnan ber sig saman við og leggja á erfðafjárskatt, eru ákvæði um heimild til frestunar greiðslu erfðafjárskatts af slíkum eignum og/eða ákvæði um lægra skatthlutfall af slíkum eignum en almennt gilda. Í fjölmörgum ríkjum er ekki lagður á erfðafjárskattur, t.d. í Noregi og Svíþjóð.
Í dæmaskyni um ívilnandi ákvæði af umræddum toga bendir KPMG ehf. á danska löggjöf um erfðafjárskatt.
Í 36. gr. danskra laga um erfðafjárskatt (lov om afgift af dødsboer og gaver) er kveðið á um heimild til greiðslufrests erfðafjárskatts, án tímamarka af fasteignum og í allt að 15 árum af atvinnurekstri og ráðandi hlutum í félögum.
Í 1. gr. a dönsku laganna um erfðafjárskatt er kveðið á um mun lægri skatt af atvinnurekstri og eignarhlutum í félögum en af öðrum eignum. Erfðafjárskattur af slíkum eignum er 6% á árinu 2019, verður 5% á árinu 2020, en almennt skatthlutfall nákominna (d. nære slægtinger) er 15% og annarra erfinga 25%.
Reglur um erfðafjárskatt af atvinnurekstri og eignarhlutum í félögum, viðlíka dönsku reglunum, eru t.d. í finnskri, þýskri og hollenskri löggjöf.
KPMG ehf. telur æskilegt að ákvæði samsvarandi þeim dönsku verði tekin upp í lög nr. 14/2004.
Virðingarfyllst,
KPMG ehf.
ASÍ telur erfðafjárskatt skilvirka og réttláta leið til tekjuöflunar sem vinnur gegn ójöfnuði og óæskilegri samþjöppun auðs milli kynslóða. ASÍ telur engin rök mæla með lækkun erfðafjárskatts líkt og áformað frumvarp gerir ráð fyrir. Þá áréttar ASÍ afstöðu sína um að þegar hafi verið of hart gengið fram í að rýra tekjustofna ríkisins og rekstur ríkissjóðs er samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga í járnum á komandi ári. Frekari lækkun á tekjum, líkt og hér er lögð til, mun því að óbreyttu kalla á enn frekara aðhald og niðurskurð í opinberri þjónustu.
Henný Hinz
Hagfræðingur ASÍ
Viðhengi