Samráð fyrirhugað 09.10.2019—15.10.2019
Til umsagnar 09.10.2019—15.10.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 15.10.2019
Niðurstöður birtar 23.10.2019

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðafjárskatt (þrepaskipting)

Mál nr. 250/2019 Birt: 09.10.2019 Síðast uppfært: 23.10.2019
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Niðurstöður birtar

Alls bárust fjórar umsagnir við frumvarpið. Efnisinntök umsagnanna voru almenns eðlis og hvöttu flestar þeirra ekki til framgangs frumvarpsins, m.a. með þeim rökum að varhugavert sé að rýra tekjustofna ríkisins með þeim hætti sem lagt er upp með í frumvarpinu.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 09.10.2019–15.10.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 23.10.2019.

Málsefni

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, sem fela í sér þrepaskiptingu erfðafjárskatts.

Markmið þessa frumvarps er að við greiðslu á erfðafjárskatti verði tekið tillit til þess hvert verðmæti þeirra eigna sé sem liggja til grundvallar skattstofni erfðafjárskatts. Í fyrsta lagi er lagt til að erfðafjárskatturinn verði þrepaskiptur með þeim hætti að annars vegar reiknast 5% erfðafjárskattur af skattstofni að fjárhæð allt að 75 millj. kr. og hins vegar 10% af því sem er umfram 75 millj. kr. Í öðru lagi er lagt til að fjárhæðarmörk skattþrepa taki árlegum breytingum miðað við þróun vísitölu neysluverðs. Í þriðja lagi er lagt til að þrátt fyrir þrepaskiptingu erfðafjárskatts verði erfðafjárskattur af yrirframgreiddum arfi sá sami og í hærra skattþrepinu, þ.e. 10%.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Alþýðusamband Íslands - 10.10.2019

ASÍ telur erfðafjárskatt skilvirka og réttláta leið til tekjuöflunar sem vinnur gegn ójöfnuði og óæskilegri samþjöppun auðs milli kynslóða. ASÍ telur engin rök mæla með lækkun erfðafjárskatts líkt og áformað frumvarp gerir ráð fyrir. Þá áréttar ASÍ afstöðu sína um að þegar hafi verið of hart gengið fram í að rýra tekjustofna ríkisins og rekstur ríkissjóðs er samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga í járnum á komandi ári. Frekari lækkun á tekjum, líkt og hér er lögð til, mun því að óbreyttu kalla á enn frekara aðhald og niðurskurð í opinberri þjónustu.

Henný Hinz

Hagfræðingur ASÍ

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 BSRB - 14.10.2019

Í viðhengi er umsögn BSRB.

Virðingarfyllst,

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Indriði Haukur Þorláksson - 15.10.2019

Umsögn um drög að frumvarpi um erfðafjárskatt.

Í drögum að frumvarpinu eru tvær breytingar. Annars vegar að taka upp tveggja þrepa skatt (eða þriggja þrepa ef frímarkið er talið með) og hins vegar að vísitölubinda frímark og þrepaskil.

Markmið frumvarpsins er sagt “að við greiðslu á erfðafjárskatti verði tekið tillit til þess hvert verðmæti þeirra eigna sé sem liggja til grundvallar skattstofni erfðafjárskatts.” sem er undarleg skýring þar sem efni þess tengist á engan hátt mat á verðmæti eigna í skattstofninum, þ.e. arfinum. Enginn raunverulegur rökstuðningur kemur því fram í greinargerð draganna. Nefnt er að hækkun erfðafjárskattsins 2009 í 10% úr þeim 5% sem verið við lýði síðan 2004 hafi verið gerð vegna “sérstakra og erfiðra aðstæðna í ríkisfjármálum.” sem er út af fyrir sig rétt en sú ályktun að breytingin hafi verið ætluð til bráðabirgða fær ekki staðist. Þessi breyting var eins og fleiri á þeim tíma valdar í þeim tilgangi að auka jöfnuð og sanngirni skattkerfisins og er það markmið jafngilt og áður.

Meginbreytingin skv.frumvarpsdrögunum er að bæta við nýju skattþrepi 5% á fjárhæð heildararfs að 75 milljónum króna en ofna frímarksins sem er 1,5 m.kr. Í sambandi við hana skal bent á eftirfarandi:

I. Þótt erfðafjárskattur sé að formi til eignarskattur er hann efnislega tekjuskattur og sem slíkur ekki viðbótarskattlagning í einum eða neinum skilningi. Í íslenskum skattalögum eins og í flestm öðrum löndum er allur eignaauki talinn til tekna hvort sem um er að ræða gjafir, happdrættisvinning, arf eða annað. Allar tekjur eru skattskyldar nema þær séu sérstaklega undanskyldar i lögum. Þannig er arfur undanþeginn almennum tekjuskatti ef að af arfinum hefur verið greiddur erfðafjárskattur. Án þessa ákvæðis væri arfur skattlagður sem venjulegar tekjur. Með núverandi fyrirkomulagi er arfur því skattlagður vægar en aðrar tekjur með innan við 10% skatti samanborið við 22% skatt á fjármagstekjur og rúmlega 30 til um 50% skatti á launatekjur. Lækkun erfðafjárskatts er því augljóslega í engu samræmi við tekjuskattskerfið að öðru leyti.

Með hliðsjón af eignadreifingu hér á landi, sbr. t. d. nýlegar upplýsingar Hagstofu Íslands þar sem fram kemur að um 60% eigna er í höndum þeirra 10% framteljenda sem mest eiga, er augljóst að þessi ívilnandi skattlagning og aukning hennar er ójafnaðarauki. Ekkert kemur fram í greinargerðinni um það hvernig fyrirhuguð lækkun skattsins um 2 milljarða króna kemur niður á framteljendur eftir tekjum eða eignum.

II. Sé stefnt að þrepaskiptum skatti, sem út af fyrir sig kann að vera réttlætanlegt, væri augljóslega rökréttara og sanngjarnara og til aukins jöfnuðar í skattlagningu að bæta efra þrepi við í stað þess að lækka það sem fyrir er eða jafnvel að hækka almenna þrepið og bæta svo öðru við. Í Danmörku eru þrepin 15% og 25%. Áhrifin á lágan arf mætti dempa með því að hækka núverandi frímark.

III. Það að taka upp tvískiptan skatt sem miðast við heildarfjárhæð arfsins hlýtur að orka tvímælis frá jafnræðissjónarmiðum. Hin raunverulegu áhrif af skattinum eru áhrifin á arftakana. Þau verða mjög misjöfn eftir fjölda erfingja sem yfirleitt ræðst af fjölda barna hins látna. Þannig myndi einbirni manns eða konu sem ekki var í hjónabandi þegar andlát bar að og lætur eftir sig 100 m.k. eign fá með lægra þrepinu skattalækkun um 3.675 þús kr. en væru erfingjarnir 5 og arfurinn 100 m.kr. á hvern fengi hver um sig 735 þús kr. lækkun. Sé maki hins látna á lífi flækist málið enn frekar. Það er á allan hátt rökréttara að miða skattlagninguna við arftakana en ekki stöðu dánarbúsins.

IV. Umsagnir endurskoðunarfyrirtækjanna sem tjáðu sig um málið á fyrra stigi eru undarlegar og benda til ónógrar þekkingu á málefninu og slælegra vinnubragða eða dulinnar sérhagsmunagæsla. Tal þeirra um tvísköttun, sem reyndar hefur heyrst frá fleiri áhugamönnum um lækkun erfðafjárskatts, á sér enga stoð í reynd. Tvísköttun er þegar sama skattaðila er gert að greiða tvívegis skatt af sama skattstofni, t.d. að greiða tekjuskatt af sömu tekjum tvívegis t.d. í tveimur löndum eða tvívegis í sama landi. Í tilviki erfðafjárskatts getur ekki verið um slíkt að ræða þar sem arfgjafi og arftaki eru óhjákvæmilega sín persónan hvor. Þau rök að það sé tvísköttun að áður hafi verið greiddur skattur af þeim tekjum sem fóru í að mynda eignina standast enga skoðun. Þá ættu t.d. gjafir að vera skattfrálsar og reyndar flestar aðrar tekjur svo sem það sem maður notar til að kaupa vörur eða þjónustu. Rakarinn getur sagt að kúnninn sé búinn að greiða tekjuskatt af því fé sem hann notaði greiða raksturinn. Í öðru lagi má benda á að í mörgum tilvikum og nær öllum þeim tilvikum þar sem eignir eru miklar, skipta mörgum hundruðum eða milljörðum króna, er eignin ekki byggð upp af skattlögðum tekjum heldur miklu fremur af tekjum sem komist hafa framhjá skattlagningu með ýmsum hætti. Tilvitnun til niðurfellingar erfðafjárskatts í Noregi og í Svíþjóð er í besta falli dæmi um slakleg vinnubrögð því þess er að engu getið að því fylgdu aðrar breytingar á skattlagningu. Má nefna að í Noregi varð arfur skattskyldur hjá arftakanum með þeim hætti að stofnverð eigna t.d. fasteigna, hlutabréfa og verðbréfa sem viðkomandi fær sem arf reiknast vera stofnverðið í hendi arfgjafans, þ.e. óinnleystur söluhagnaður telst til tekna hjá arftakanum þegar til sölu kemur og skatturinn er á 22% eða hærri.

Samandregin niðurstaða.

Tvískipting skattstiga erfðafjárskatts er í sjálfu sér ekki slæm hugmynd en ókostirnir eru þeir að sú leið að setja nýtt lægra þrep í stað nýs hærra þreps mun auka á það ójafnræði sem þegar er fyrir í því að hafa þessar tekjur lítið skattlagðar í samanburði við aðrar tekjur. Þessi lága skattlagning á háar arfstekjur er einnig til þess fallinn að auka misskiptingu eigna og samþjöppun þeirra. Úr hvoru tveggja mætti draga með því að bæta við hærra skattþrepi í stað lægra skattþreps. Eða jafnvel að hækka núverandi þrep og bæta öðru við t.d. 15% og 25% að fyrirmynd Dana. Úr áhrifunum á lágan arð mættti draga með því að hækka frímark arfs sem nú er 1,5 mkr.

Frímarkið og fyrirhuguð þrepaskipting er gölluð að því leyti að hún miðast við dánarbúið en ekki arftakana sem eru hinir raunverulegu greiðendur skattsins. Þannig er einbirnum og fámennum erfingjahópum ívilnað miðað þau tilvik þegar erfingjar eru fleiri. Þetta mætti laga með því að miða frítekjumarkið og væntanlegt þrep við hvern lögerfingja í stað dánarbúsins. Um leið væri þá rökrétt að frítekjumarkið og þrepaskilin væru lægri en ella hefði verið.

Þá er nauðsynlegt að benda á að í frumvarpsdrögunum er ekki að finna neinn haldbæran rökstuðning fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til og engin greining er gerð á áhrifum breytinganna á mismunandi tekju- og eignahópa, þ.e. hverjum kemur hún til góða og hverjum ekki. Slíkar greiningar ættu að vera fastur liður í undirbúningi breytinga á skattalögum.

Indriði H. Þorláksson

fyrrv. ríkisskattstjóri

Afrita slóð á umsögn

#4 Gísli Tryggvason - 15.10.2019

Meginatriði umsagnar (mál nr. 250/2019 - erfðafjárskattur):

Lýst er ánægju með áformin - a.m.k. efnislegan tilgang - enda sé fjármögnun (um 2 milljarðar kr. árlega) tryggð þrátt fyrir skamman aðdraganda til fyrirhugaðrar gildistöku (1. janúar nk.).

Með vísan til framangreinds og ýmissa tæknilegra úrbótaatriða við skattalega meðhöndlun arfs, sem huga mætti að, svo og lýðræðissjónarmiða, er gagnrýndur sá skammi umsagnarfrestur (ein vika) sem veittur er. Þá er vakin athygli á að gefa mætti gaum að því hvort nálgun, sem viðhöfð er í frumvarpi þingmanna Viðreisnar (þskj. 177, 176. mál, 150. löggjafarþing), nær því markmiði betur að koma til móts við almenning m.t.t. skattlagningar á arfi úr venjulegum dánarbúum, sbr. einnig reglur um skattmeðferð á fyrirfram greiddum arfi, sbr. röksemdir með frumvarpinu í greinargerð með því.

Sjá:

https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=150&mnr=176

Við þinglega meðferð málsins er hvatt til þess að skoðað verði hvort skylduarfur og annar lögarfur annars vegar og lögarfur og bréfarfur hins vegar eigi að sæta sömu meðferð, þ.e. hvort máli skipti við álagningu erfðafjárskatts hvort arfur er til lögerfingja (þ.m.t. skylduerfingja) eða byggist á erfðaskrá (bæði svonefndar erfðagjafir og dánargjafir). Loks mætti huga að kynslóðaskiptum að fyrirtækjum og jörðum.

Sjá nánar skriflega umsögn um frumvarpið.

Virðingarfyllst,

Gísli Tryggvason lögmaður

gisli@advokat.is - S: 419 69 69

Gísli Tryggvason - Lögmannsstofa ehf.

Kringlunni 4-6, 8. hæð, 103 Reykjavík