Samráð fyrirhugað 16.10.2019—23.10.2019
Til umsagnar 16.10.2019—23.10.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 23.10.2019
Niðurstöður birtar 08.01.2021

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til einföldunar regluverks

Mál nr. 255/2019 Birt: 16.10.2019 Síðast uppfært: 08.01.2021
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Markaðseftirlit og neytendamál

Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna einföldunar regluverks var lagt fram á Alþingi á 150. lgþ. Í samráðskafla frumvarpsins kemur fram afstaða ráðuneytisins til umsagna sem bárust.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 16.10.2019–23.10.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 08.01.2021.

Málsefni

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum til einföldunar regluverks á málefnasviðum ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Frumvarpið er fyrsti áfangi af þremur í aðgerðaráætlun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um einföldun regluverks á málefnasviðum ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um verslunaratvinnu, iðnaðarlögum, lögum um samvinnufélög auk brottfalls úreltra laga.

Helstu breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru:

Skráningu verslana verði hætt.

Felld verði brott ýmis ákvæði úr lögum um verslunaratvinnu sem talin eru óþörf

Iðnaðarleyfi verði felld niður

Leyfi til sölu notaðra ökutækja verði felld niður

Brottfall úreltra laga

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Félag íslenskra bifreiðaeigenda - 23.10.2019

Meðfylgjandi er sameiginleg umsögn Bílgreinasambandsins (BGS) og Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) með athugasemdum við þau áform um málefni bifreiðasala sem fram koma í frumvarpsdrögunum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Guðmundur H Þórarinsson - 23.10.2019

Breytingin á iðnaðarlögum er vanhugsuð þar sem ekkert er hugað að skilgreiningum og orðskýringum.

Í skýringum með þessum breytingum, kafla 3.2. frumvarpsins, segir að lagðar er til breytingar á iðnaðarlögum þess efnis að iðnaðarleyfi er lagt af og lögin munu framvegis aðeins gilda um löggiltar handiðngreinar. Þá vaknar spurning um hvað eru löggildar handiðngreinar. Reglugerð nr. 940/1999 er um löggiltar iðngreinar.

Í fyrstu grein núgildandi laga segir að þau taki til rekstrar hvers konar iðnaðar í atvinnuskyni. Til iðnaðar telst bæði handiðnaður og verksmiðjuiðnaður, hvaða efni eða orka, vélar eða önnur tæki sem notuð eru og hvaða vörur eða efni sem framleidd eru. Heimilisiðnaður skal undanskilinn ákvæðum laganna.

Samkvæmt breytingartillögunni á greinin að verða ,,Lög þessi taka til rekstrar handiðnaðar í atvinnuskyni. Heimilisiðnaður skal undanþeginn ákvæðum laganna‘‘.

Ef ætlunin er að undanskilja verksmiðjurekstur lögunum, þarf mun betri skilgreiningar á hugtökum varðandi þann rekstur sem lögin eiga að ná til. Í núgildandi iðnaðarlögum er lítið um skilgreiningar og kannski ekki vanþörf á að bæta þar úr. T.d. segir m.a., í þriðju grein laganna, að hver maður getur fengið leyfi til að reka iðnað, handiðnað og verksmiðjuiðnað, ef hann fullnægir eftirgreindum skilyrðum. Þarna eru t.d. notuð þrjú óskilgreind hugtök (iðnaður, handiðnaður og verksmiðjuiðnaður).

f.h. VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna

Guðmundur Helgi Þórarinsson

Afrita slóð á umsögn

#3 Neytendasamtökin - 23.10.2019

Meðfylgjandi er umsögn Neytendasamtakanna.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Pálmi Finnbogason - 23.10.2019

(Sjá meðfylgjandi viðhengi.)

Vísað er til frumvarps í vinnslu sem felur í sér breytingu á ýmsum lögum til einföldunar regluverks. Í frumvarpinu eru m.a. lagðar til breytingar á lögum um verslunaratvinnu, iðnaðarlögum og lögum um samvinnufélögum, auk þess sem lagt er til að fjölmörg lög falli( úr gildi.

Samiðn hefur ekki haft tök á yfirgripsmikilli yfirferð á umræddu frumvarpi en ljóst er að þar eru tilgreindar ýmsar breytingar sem hafa áhrif á starfsemi ýmissa starfsstétta, m.a. iðnaðarmanna og þeirrra sem stunda viðskipta með bifreiðar.

Samiðn vill árétta að mikilvægt er að vanda þarf verulega til verka þegar slíkar breytingar eru lagðar til og áskilur sér rétt að koma að efnislegum athugasemdum þegar og ef umrætt frumvarp verður lagt fram af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra á Alþingi.

Loks vill Samiðn taka fram að félagið er reiðbúið til umræðna varðandi allar þær breytingar sem varða þá félagsmenn sem Samiðn er málsvari fyrir, hvort sem þær eru tilgreindar í umræddum frumvarpi sem er í vinnslu eða aðrar.

Fyrir hönd Samiðnar

Elmar Hallgríms Hallgrímsson, framkvæmdastjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Benedikt Sveinbj. Benediktsson - 23.10.2019

Meðfylgjandi er umsögn SAF - Samtaka ferðaþjónustunnar um frumvarpsdrögin.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Benedikt Sveinbj. Benediktsson - 23.10.2019

Meðfylgjandi er umsögn SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu um frumvarpsdrögin.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Sigurður Már Guðjónsson - 23.10.2019

Konditorsamband Íslands

Ef hugmyndir ráðuneytis um breytingar á iðnaðarlögum númer 42/1978 ná fram að ganga eru núverandi lög orðin ansi hol að innan. Þá er búið að fella á brott 6.greinar af 17 og raunverulega væri best að búa til ný handiðnaðarlög byggð á þeim gömlu. Við trúum ekki öðru en að íslenskir stjórnmálamenn standi við orð sín og sýni vilja í verki þegar þeir tala um að efla iðnnám og hafi forgang um að efla þá lagaumgjörð sem handiðnaðargreinum er nauðsynleg.

Framtíð handverks á Íslandi liggur í lausnum, ekki vanhugsuðum skammtímaaðgerðum. Af hverju voru iðnaðarlög sett? Jú til að efla menntun og fagmennsku iðnaðarmanna, neytendum til heilla. Það er nefnilega alltaf kaupandinn sem situr í súpunni, ef ekki er rétt staðið að hlutunum.

Árið 2004 var felld niður lögverndun á helmingi allra löggiltra iðngreina í Þýskalandi. Afleiðingin var faglegt hrun. Gríðarlega mikil fagþekking er að tapast, kostnaður samfélagsins af mistökum, gjaldþrotum og kærumálum hefur margfaldast og ungt fólk sér ekki lengur tilgang með að læra þessar greinar. Ástæða afnámsins var krafa Evrópusambandsins um aukið frjálst flæði vinnuafls á innri markaði sínum. Samtök iðnaðarmanna í Þýskalandi hafa um árabil staðið fyrir mikilli herferð sem nefnist „JA ZUM MEISTER“ til stuðnings meistarakerfinu. Hún hefur borið árangur og nú hefur náðst þverpólitísk samstaða að taka aftur upp lögverndun á helmingi þeirra iðngreina sem misstu hana árið 2004.

Við leggjum til að sett verði á stofn með lögum frá Alþingi handverksstofnun að þýskri fyrirmynd, þ.e. sjálfseignarstofnun sem myndar heildarramma um iðnað og iðnir í landinu og gera umhverfið allt gegnsætt, faglegt og skilvirkt og heldur utan um alla iðnmenntun og iðnaðarskrá. Eftirlit með brotum á iðnaðarlögum hefur verið í miklu lamasessi síðustu ár og lágar sektir ekki haft tilætlaðan fælingarmátt. Leggjum við til að sektir verði að lágmarki 500.000 kr fyrir brot á iðnaðarlögum. Við leggjum jafnframt til að löggiltar iðngreinar verði taldar upp í lögunum, en ekki í reglugerð eins og þetta er í dag. Iðngreinarnar á Íslandi verða hvorki efldar með styttingu náms né afnámi lög verndunar iðngreina.

Sigurður Már Guðjónsson

Bakara- og kökugerðarmeistari

Formaður ,

Konditorsambands Íslands

konditor@konditor.is

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Þórunn Stefanía Jónsdóttir - 23.10.2019

Varðandi breytingar á iðnaðarlögum, nr. 42/1978, með síðari breytingum.

Ég get ekki annað en verið sammála Guðmundi H. Þórarinssyni í hans umsögn að þarna vantar verulega upp á skilgreiningar. Handiðnaður er ekki skilgreindur og það eru ekki gefnar neinar skýringar á því af hverju verksmiðjuiðnaður á að vera undanskilinn þessum lögum.

Það er í raun ekki heldur gefin nein haldbær skýring á því af hverju það á að leggja niður iðnaðarleyfi. Að vísa í áfengisframleiðslu, tollalög og mengunarvarnir finnast mér ekki nothæfar skýringar.

Það er greinilegt bæði á efnistökum og texta að það vantar verulega uppá fagleg og vönduð vinnubrögð við gerð þessa frumvarps. Ég legg til að ráðuneytið kalli til fagfólk til að vinna þetta þannig að sómi sé að og lögin verði í raun nothæf og skýr.

Núverandi útgáfa af iðnaðarlögum er nokkuð gamaldags og því styð ég það að iðnaðarlögin verði nútímavædd. Ef það er hægt að einfalda þau er það hið besta mál en ef það á að gera verulegar efnisbreytingar þarf að rökstyðja þær með sannfærandi hætti.

Umsagnaraðili er með sveinsbréf í löggiltri iðngrein.

Afrita slóð á umsögn

#9 Samtök iðnaðarins - 23.10.2019

Gott kvöld,

meðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins um frumvarp til breytinga á ýmsum lögum til einföldunar regluverks, mál nr. 255/2019.

Virðingarfyllst,

Björg Ásta Þórðardóttir,

lögfræðingur SI

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Rafiðnaðarsamband Íslands - 29.10.2019

Viðhengi