Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 17.10.2019–31.10.2019.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 27.01.2020.
Drög að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024.
Drög að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024 er nú kynnt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar og verður opið fyrir athugasemdir og ábendingar til og með fimmtudeginum 31. október 2019.
Áætlanir þessar eru lagðar fram með hliðsjón af nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024 þar sem fjármagn til samgöngumála var aukið verulega. Auk þess er tekið tillit til:
a) Samgöngusáttmálans, en hann inniheldur m.a. framlag ríkisins til uppbyggingar Borgarlínu, stofnbrauta á höfuðborgarsvæðinu og hjólastíga.
b) Niðurstaðna starfshóps um fjármögnun samgönguframkvæmda.
c) Nýrra stefna ríkisins í flugmálum og almenningssamgöngum.
d) Niðurstaðna verkefnishópa um jarðgangakosti á Austurlandi og um lagningu Sundabrautar.
Að öðru leyti byggist áætlun þessi að mestu á þeirri sem lögð var fram og samþykkt var á 149. löggjafarþingi.
Ljóst er að viðfangsefni samgönguáætlunar snerta alla landsmenn. Um leið og öllum ábendingum um úrbætur stórum sem smáum er tekið fagnandi væri áhugavert ef umsagnaraðilar sæju sér fært að svara eftirfarandi:
Hvert er brýnasta úrlausnarefni samgöngumála á Íslandi?
*Fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024 uppfærð 18.10.19
*Drög að flugstefnu uppfært 22.10.19
Þessi samgönguáælun ber vott um vilja til að horfa faglega og raunsætt á þennan mikilvæga málaflokk til langs tíma. Þá er gott að sjá að í áætlunni er tekið tillit til hagkvæmni og örygissisjónarmiða sem er algert grundvallaratriði fyrir landið sem heild. Svo er vissulega metnaður að baki áætluninni.
En það er vikið út frá ofangreindum meginforsendum á nokkrum stöðum og svo vantar nokkur atriði inn í áætlunina. Hér er það helsta:
1. Áætlunin gerir ráð fyrir að leggja um 67 milljarða króna í jarðgöng á Austurlandi, þar á meðal veggöng undir Fjarðarheiði og tvö í viðbóta til að gera hringtenginu um Austurlöng. Þessi göng þurfa að koma, en það ætti að færa þau aftur fyrir mjög brýnar framkvæmdir á SV horninu. Færa sem sagt um 60 milljarða króna af Austurlandi á SV hornið. Taka svo Austurlandið síðar.
2. Byggja Borgrarlínuna hraðar, ljúka henni á næstu 10 árum. Ljúka við að aðskilja akstursstefnur megin stofnbrauta út frá Höfuðborgarsvæðinu hraðar. Nota til þess það fé sem áætlað er í veggöng á Austurlandi sbr. lið 1.
3. Leggja drög að nýjum alþjóðlegum flugvelli á Suðurlandi, að hluta í einkaframkvæmd.
Þarf ekki að kosta mikið fyrir skattgreiðendur.
4. Fluglest KEF-REY í einkaframkvæmd.
Gera ráð fyrir lestinni og taka hana með í áætlarnir.
Slík lest er mjög umhverfisvæn og mjög hagkvæmt.
Þessar breytingar á samgönguáætluninni myndu gera hana enn gagnlegri fyrir almenning.
Hún er gagnleg, en getur verið mun gagnlegri, ef tekst að laga hana betur að þeim viðmiðunum sem hún er byggð á.
Nánar um rökin fyrir ofangreindum tillögum hér https://gudjonsigurbjarts.com/samgongumal/
Geri það að tillögu minn - að framkvæmdir við veg 711 um Vatnsnes - verði færðar á fyrsta tímabil Samgönguáætlunar - og settar í algjöran forgang á því tímabili - vegur 711 er ónýtur og heilsuspillandi fyrir vegfarendur sem um hann fara - fólkið sem býr við veg 711 er í verulega aukinni slysahættu - svo og ferðamenn sem fara þar um - kostnaður vegfarenda er mikill - ökutæki dagsins í dag eru ekki hönnuð fyrir slíkar vegleysur.
Setjum veg 711 í algjörann forgang - kveðjur Hólmfríður Bjarnadóttir #ammapírati
Eftirfarandi er umsögn sveitarstjórnar Bláskógabyggðar sem samþykkt var hinn 17. október 2019:
Samgönguáætlun (5 ára áætlun og 15 ára áætlun) - 1910033
Erindi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 16. október 2019, varðandi kynningu á samgönguáætlun, 2020-2024 og 2020-2034.
Sveitarstjórn fagnar því að í samgönguáætlun 2020 til 2024 skuli vera gert ráð fyrir fjármagni til að ljúka framkvæmdum við Reykjaveg og Skeiða- og Hrunamannaveg á milli Einholtsvegar og Biskupstungnabrautar árið 2020. Varðandi þann hluta áætlunarinnar sem varðar greiðar samgöngur, þar sem tilgreind eru markmið hvað varðar fækkun einbreiðra brúa á hringvegi, vill sveitarstjórn Bláskógabyggðar benda á að rík þörf er fyrir fækkun einbreiðra brúa á umferðarmiklum stofnvegum, t.d. er umferðarmesta einbreiða brú landsins á Biskupstungnabraut yfir Tungufljót á milli fjölsóttra ferðamannastaða að Gullfossi og Geysi. Þá er einnig nauðsynlegt að tryggja Vegagerðinni fjármagn til að viðhalda malarvegum á svæðinu, en á mörgum þeirra er mjög þung umferð allt árið um kring, sama gildir um viðhald vega sem lagðir eru bundnu slitlagi. Sveitarstjórn fer þess á leit að tryggt verði að lagt verði bundið slitlag á Einholtsveg um Eystri-Tungu, sem er mikilvæg samgönguæð innan sveitarfélagsins. Sveitarstjórn fagnar því að veita skuli fjármagni til gerðar hjólastíga utan höfuðborgarsvæðisins.
Á 2. tímabili samgönguáætlunar 2025-2029 er gert ráð fyrir fjármagni í færslu Biskupstungnabrautar á svæðinu við Geysi og Tungufljót. Nauðsynlegt er að sú áætlun haldist, en svæðið ber mjög illa þann umferðarþunga sem þar er í dag. Loks vill sveitarstjórn minna á að nauðsynlegt er að sveitarfélögin hafi aðkomu að ákvarðanatöku um hugsanleg veggjöld og útfærslu þeirra.
ERU JARÐGÖNG LÚXUSVARA?
Það er frábært að það sé verið að flýta samgönguframkvæmdum um allt land, það veitir sannarlega ekki af því.
Ég er samt hugsandi yfir þeirri stefnu að taka sérstaklega upp veggjöld í öllum jarðgöngum. Af hverju ekki brýr, 2+2 vegi, mislæg gatnamót o.sv.frv.? Eða bara vegi almennt?
Nú er það þannig að jarðgöng eru gerð þar sem ófærurnar eru hvað mestar, og í flestum tilvikum styðja slíkar framkvæmdir byggðarlög sem hafa átt mjög undir högg að sækja. Eru það endilega breiðu bökin sem eiga að greiða sérstaklega fyrir samgöngubætur næstu ára og áratuga?
Ég er ekki viss um að það sé sanngjarnt að skattleggja sérstaklega íbúa á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri sérstaklega vegna Vestfjarðarganganna sem gerð voru fyrir aldarfjórðungi, Ólafsfirðinga vegna Múlaganganna fyrir þremur áratugum eða Siglfirðinga vegna Strákaganganna sem gerð voru fyrir hálfri öld.
Eða á að skattleggja Bolvíkinga sérstaklega fyrir að fara að heiman, þar sem eini vegurinn til og frá Bolungarvík liggur um jarðgöng? Eða íbúa í Fjallabyggð fyrir að fara milli kjarnanna tveggja í sama sveitarfélagi um Héðinsfjarðargöng? Íbúa á Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði eða Breiðdalsvík fyrir að sækja þjónustu innan Fjarðabyggðar?
Ég skil alveg að það þarf að finna aðrar leiðir en eldsneytisgjöld til að fjármagna vegaframkvæmdir þegar endurnýjanlegir orkugjafar eru á uppleið.
Ég skil líka að það er mikil andstaða við veggjöld á stofnæðum í kringum höfuðborgarsvæðið og jarðgöng hafa einhverra hluta vegna verið skilgreind sem lúxusvara landsbyggðanna.
En er þetta sanngjarnt?
Þarf þá ekki bara frekar að lækka eldsneytisgjöldin og samhliða setja vegtolla vítt og breitt um landið, óháð því hvort vegir liggi um mela og tún, brýr yfir ár og firði eða göng í gegnum fjöll?
Varðandi Innstrandaveg nr. 68, Heydalsá-Þorpar og Strandaveg nr. 643 Veiðileysuháls:
Hér eru tveir vegkaflar sem fólkið á Ströndum hefur beðið eftir í ansi mörg ár. Sjálfur bý ég á Hólmavík og hef gert í rúm 6 ár, en þar á undan var ég reglulega gestur hér fyrir norðan nánast alla þessa öld. Þegar ég kom hingað fyrst voru þessir ofangreindu tveir vegspottar og þær þörfu samgönguúrbætur rétt handan við hornið. Nú, árið 2019, hefur þetta horn breyst í hornskák þar sem engar reglur eru virtar og leyfilegt að svindla!
Það er sláandi að lesa Samgönguáætlun 2020-2034 fyrir okkur sem á Ströndum búa. Tímabilið 2020-2024 er ekkert á döfinni. Tímabilið 2024-2030 eru þessi tvö ofangreindu verkefni sett á áætlun. Tímabilið 2030-2034 er ekkert á döfinni. Ekkert!
Í ljósi reynslunnar þá á ég eftir að sjá það gerast að þessi verkefni tvö verði framkvæmd. Já, ég hef raunar enga trú á því! Og það er ekki bara ég. Fólkið hérna hefur sáralitla trú á þessari áætlun og er búið að mynda með sér ákveðið óþol gagnvart öllum loforðum. Umræðan um að byggðin sé í raun dauðadæmd grasserar, sem er vægast sagt glatað fyrir okkur hin sem búum hér og störfum, og viljum halda áfram að ala börnin okkar upp í því góða umhvefi sem hér er.
Varðandi tímabilið 2030-2034 get ég vart orða bundist. Þar er ekkert á pípunum, engar framkvæmdir fyrirhugaðar né einu sinni viðraðar. Í sumar sem leið varð banaslys á einbreiðri brú hér rétt við bæinn Hrófá á Innstrandavegi. Hræðilegur atburður og einstaklega sár fyrir fjölda fólks. Annað slys varð á sama stað í sumar, en blessunarlega urðu engin slys á fólki í því tilfelli. Aðstæður þar eru þannig að ca 100 m frá þessari einbreiðu brú er blindhæð, án nokkurra hraðatakmarkana og alveg síðan ég flutti hingað norður hef ég ekki skilið hvernig þessar aðstæður skuli fá að standa svona gagnrýnislaust.
Innstrandavegur (68) er ótrúlega falleg leið, þar sem hvalir, selir og hafernir eru tíðir gestir í umhverfinu þegar farið er þar um. En einbreiðu brýrnar (þær eru 13 talsins frá Staðarskála og inn á Hólmavík!) og óbundna slitlagið eru þó þeir hlutir sem fanga athygli fólks.
Ég skora á þann sem þetta les og hefur eitthvað með þessi mál að gera að endurskoða hug sinn til Stranda, eða, vonandi frekar, átta sig á að við séum til. Ellegar hreinlega viðurkenna það upphátt og fúslega að um deyjandi byggð sé að ræða! Viðurkenna það að það sé óhagstætt að gera nokkuð í vegamálum hér á Ströndum því verið sé að byggja upp Vestfjarðaveg hér norðan og vestan við okkur til að umferðin höfuðborgarsvæði - Norðanverðir Vestfirðir fari frekar þar í framtíðinni. Ef það er stefnan er ljóst að þögnin og kyrrðin mun einkenna Strandir, allt frá Hornbjargi til Hrútafjarðar, sem kann að vera einhverjum eftirsóknarvert.
Hugmynd að lausn: Ofangreind tvö verkefni verði sett á áætlun 2020-2024. Ekki spurning, og sýna það í verki að hér sé um þarft verkefni að ræða. Að fresta því, líkt og nú stendur til, sýnir hið gagnstæða í allra augum. Tímabilið 2024-2034: Unnið að því að gera Innstrandaveg traustan, öruggan og þær einbreiðu brýr sem þar eru verði fjarlægðar, byrjað á þeim mannskæðustu og hættulegustu.
Við þurfum einfaldlega að fá að finna fyrir því að það sé þess virði að fjárfesta í okkur sem byggðu landsvæði sem sé ekki haft út í kuldanum. Kuldinn frá stjórnvöldum í okkar garð er farinn að nísta meir en veturinn handan við hornið.
Eftirfarandi er umsögn bæjarráðs Ísafjarðarbæjar sem samþykkt var á 1079. fundi bæjarráðs sem haldinn var 21. október 2019:
Bæjarráð fagnar þeirri ákvörðun stjórnvalda að setja aukið fjármagn í vegaframkvæmdir um allt land. Flýting framkvæmda við Dynjandisheiði mun hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum og er Íslendingum öllum til hagsbóta. Á sama tíma telur bæjarráð vegskála milli Súðavíkur og Ísafjarðar til marks um skammsýni þar sem eina leiðin til að tryggja öryggi vegfarenda á svæðinu séu jarðgöng. Jafnframt kallar bæjarráð eftir nánari útlistun á áætlunum um veggjöld í jarðgöngum þar sem bæjarráð telur ekki boðlegt að íbúar þurfi að greiða veggjöld þegar aðeins er ein leið í boði milli byggðakjarna.
Varðandi Strandaveg nr. 643 Veiðileysuháls.
Hvaða skilaboð eru stjórnvöld að senda varðandi Árneshrepp og brothættar byggðir?
Það að fresta framkvæmdum á Veiðileysuhálsi enn einu sinni eru skýr skilaboð um að einungis er verið að bíða eftir því að ekki verði lengur þörf á þessari vegagerð. Auk þess eru engar frekari vegabætur á áætlun næstu 15 árin.
Það er ekkert hægt að treysta á að farið verði í þessar framkvæmdir, ekki einu sinni í öðrum áfanga. Ekki var það gert síðast þegar þessar framkvæmdir voru á áætlun.
Kostnaður við Veiðileysuháls er áætlaður aðeins 5% af því fjármagni sem á að nota til vegaframkvæmda fyrsta tímabilinu. Það eru því engin ástæða til að fresta þessu önnur en að senda skýr skilaboð um að það eigi bara að leggja þessa byggð af og loka veginum fyrir fullt og allt.
Er það virkilega það sem stjórnvöld vilja? Komið hreint fram!
Ég legg til að farið verði í þessar framkvæmdir strax á næsta ári, 2020. Það að færa þetta aftar hefur svo lítil áhrif á heildina en mjög mikil áhrif á þetta dýrmæta samfélag sem Árneshreppur er.
Framlögð drög að Samgönguáætlun eru mikil vonbrigði fyrir Akureyrarflugvöll og alla þá sem þykir eðlilegt að lífsgæði, möguleikar til atvinnu, menntunar og alþjóðlegs samstarfs séu þeir sömu óháð búsetu. Þetta gengur þvert gegn markmiðum um að jafna álag á landið og stuðla að atvinnu-uppbyggingu um land allt.
Samkvæmt framlagðri Samgönguáætlun skal ráðstafað 0,00 krónum til Akureyrarflugvallar á næstu 5 árum.
Það er mjög sérstakt að tillaga að Samgönguáætlun skuli beinlínis svelta stærsta flugvöll landsins utan höfuðborgarsvæðis og Suðurnesja.
Miklum kröftum hefur verið varið til að byggja upp ferðaþjónustu, afþreyingu, hótel og innviði og sem betur fer virðist markaðssetning heimamanna undanfarin ár vera að skila árangri með auknum áhuga erlendra flugrekenda, auk þess sem flestum flug-tæknilegum hindrunum hefur verið rutt úr vegi. Alþjóðleg flugumferð um Akureyrarflugvöll jókst um 70% á árinu 2018 og árið 2019 var farþegafjöldinn í ágúst-mánuði orðinn meiri en allt árið 2018. Útlit fyrir 2020 er enn fremur gott í ljósi fyrirætlana Transavia og Voigt-Travel, auk þess sem fjöldi annarra flugrekenda hefur Akureyri til skoðunar. Því er þessi tímasetning skemmandi og gengur gegn markmiðum áætlunarinnar . Það er ankannalegt að horfa upp á og þarfnast skýringa frá ráðamönnum málaflokksins.
Voigt Travel og Superbreaks hafa undanfarið flogið til Akureyrar með góðum árangri og jafnframt er töluverður vöxtur í leiguflugi frá Akureyri og út í heim. Helst þykir aðstöðuleysi í flugstöð hamla frekari vexti og virðist skv framlagðri áætlun ætlað að vera það. Heimagerður flöskuháls á frekari dreifingu ferðamanna um landið, í stað þess að styðja við að jafna álagið á landið, sbr yfirlýst markmið og tölusett í áætlun 2.1.4 og jafnframt markmið um fjölgun alþjóðagátta sbr 2.1.18.
-----
Svæðið frá Hvammstanga að Norðfirði hefur um 45-50,000 manns. Flestir eru í þriggja tíma aksturfjarlægð frá Akureyri. Þessi mannfjöldi er svipaður og mannfjöldi Færeyja, hvaðan 4-11 flug á dag eru til mismunandi staða í Evrópu.
Af hverju ekki um Akureyri?
Í samráðsgátt stjórnvalda eru drög að samgönguáætlunum til næstu 15 ára, annars vegar tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020 – 2024 og hins vegar tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020 – 2034. Í fyrri áætluninni bls. 14 kemur fram að reiðvegafé er óbreytt á árunum 2020 – 2024, 75 m.kr. á ári, eða 375 m.kr. á fimm ára tímabili. Í síðari áætluninni kemur fram á bls. 20 að á tímabilunum 2025 – 2029 og 2030 – 2034 að reiðvegafé er 400 m.kr. hvort tímabil eða 80 m.kr. á ári.
Framlög ríkis og sveitarfélaga undanfarna áratugi hafa ekki verið taldar nægar til að uppfylla fjárþörf til þess málaflokks sem reiðvegir eru.
Hestamenn telja ekki nóg lagt í þennan málaflokk hvað varðar uppbyggingu og viðhald reiðvega, sem er undirstaða hestamennsku og hestatengdrar ferðaþjónustu í landinu.
Undanfarin ár hafa umsóknir hestamannafélaganna í reiðvegafé verið á bilinu 280 – 330. m.kr. bæði til nýbygginga og viðhalds eldri reiðvega. Árið 2002 voru 39,9. m.kr. til reiðvega á vegaáætlun, árið 2009 er reiðvegafé orðið 70.0 m.kr. og hafði þá tekið mið af vísitöluhækkunum. Árið 2010 er reiðvegafé skorið niður í 60,0 m.kr. og er óbreytt til 2019 að það hækkaði í 75,0 m.kr. Grunnur byggingavísitölu breytist árið 2010 og er settur á 100, um sl. áramót er grunnurinn orðinn 142,1. Reiðvegafé ætti því að vera 107,6. m.kr. í ár 2019. Það hafa því engar raun hækkanir verið til þessa málaflokks frá árinu2009, heldur skerðist framlag ríkisins hlutfallslega.
Hestamennska og hestatengd ferðaþjónusta er að skapa þjóðarbúinu tuga milljarða kr. í tekjur á ársgrundvelli og nauðsynlegt að hlúa að greininni eins og kostur er. Í meðfylgjandi viðhengi eru tiltekin nokkur rök um framlög greinarinnar til þjóðarbúsins.
Halldór H. Halldórsson, formaður Ferða- og samgöngunefndar Landssambands hestamannafélaga ( LH ) og formaður reiðveganefndar hestamannafélagsins Spretts.
Hjálögð er umsögn stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um samgönguáætlun til fimm ára og samgönguáætlun 2020-2034.
ViðhengiAthugasemdir Markaðsstofu Norðurlands við Samgönguáætlun 2020-2034 (og 2020-2024)
Markaðsstofa Norðurlands (MN) sendir inn eftirfarandi athugasemdir við Samgönguáætlun 2020-2034:
• MN gangrýnir harðlega og mótmælir fjársvelti til flugvalla og flugleiðsöguþjónustu:
o Framlög til flugvalla og flugleiðsöguþjónustu fara minnkandi frá árinu 2020.
o Akureyrarflugvöllur fær aðeins 5,9 % af framlögum til viðhalds á alþjóðaflugvöllunum þremur utan Keflavíkurflugvallar.
o Framlög til stofnkostnaðar og nýframkvæmda á flugvöllum landsins, þ.m.t. alþjóðaflugvöllunum, er 0 kr. næstu 5 árin, að undanskildum 30 milljónum í Reykjavíkurflugvöll árið 2020.
• MN gerir kröfu á að haldið verði áfram með þróun á Akureyrarflugvelli sem alþjóðaflugvelli og farið verði í heilstæða uppbyggingu þannig að hann uppfylli þær þarfir sem alþjóðaflugvelli ber að gera og mögulegt sé að byggja þar upp aukið millilandaflug.
• MN hvetur stjórnvöld til að fjármagna án tafar nauðsynlega uppbyggingu á Akureyrarflugvelli.
• MN fagnar því að Vatnsnesvegur sé kominn á Samgönguáætlun, en harmar að það skuli ekki vera fyrr en á síðasta tímabili áætlunarinnar. Brýn þörf er á úrbótum fyrr.
• MN gerir athugasemdir við að framlög til vegaframkvæmda næstu 15 árin eru afgerandi minnst á Norðursvæði. Ríflega 30% af vegakerfi landsins er á Norðursvæði en framlög til nýframkvæmda næstu 15 árin eru tæplega 10% af heildarfjárframlögum.
• MN leggur áherslu á að fjármunir til vetrarþjónustu verði auknir til þess að tryggja aðgengi ferðamanna að náttúruperlum, s.s. vegi 862 að og frá Dettifossi og vegi 711 að og frá Hvítserk.
Athugasemdir um einstaka liði Samgönguáætlunar 2020-2024:
2. Flugvellir og flugleiðsöguþjónusta
2.1 Tekjur og framlög
MN gerir alvarlegar athugasemdir við misræmi í Samgönguáætlun milli þess sem sagt er nauðsynlegt að gera og því sem síðan er fjármagnað. Í þessum kafla segir:
"Nauðsynleg fjárþörf til viðhalds og framkvæmda á flugvallarmannvirkjum og flugleiðsögubúnaði innanlandsflugvalla hefur verið metin um 700 millj. kr. á ári að jafnaði. En uppsöfnuð þörf undanfarin ár auk kostnaðar vegna nýrra krafna í reglugerð um flugvelli þýðir að á næstu fimm árum þyrftu framlög að vera um 1.400 millj. kr. á ári ef koma á innviðum innanlandskerfis í viðunandi horf."
Jafnframt kemur fram að framlög til málaflokksins eiga að verða 527 milljónir 2020 og fara svo minnkandi, eða samtals 2.368 milljónir á næstu 5 árum. Það vekur furðu að það eigi einungis að veita tæplega 2,4 milljörðum til málaflokksins þegar þörfin er 7 milljarðar.
Framlög til viðhalds og reglubundinnar endurnýjunar á alþjóðaflugvöllunum þremur eru samtals 1.319 milljónir næstu 5 árin. Þar af er einungis 78 milljónir ætlaðar í Akureyrarflugvöll og 18 í Egilsstaðaflugvöll, eða samtals 96 milljónir fyrir Akureyri og Egilsstaði næstu 5 árin.
Þetta þýðir að innviðir Akureyrarflugvallar munu ekki komast í viðunandi horf á þessum tíma. Með öðrum orðum, það er meðvituð ákvörðun stjórnvalda að viðhalda ekki þeim verðmætum sem eru fólgin í flugvöllum landsins. Þetta gengur þvert á stefnu stjórnvalda um uppbyggingu innanlandsflugs sem almenningssamgangna og yfirlýstan vilja stjórnvalda til að byggja upp Akureyrarflugvöll sem alþjóðaflugvöll.
MN gerir mjög alvarlegar athugasemdir við þetta og hvetur stjórnvöld til að bæta hér úr og veita fjármunum til nauðsynlegs viðhalds og endurbóta á innanlandsflugvöllum landsins.
2.2 Gjöld
2.2.1 Rekstur og þjónusta
"Áætlun þessi gerir ráð fyrir óbreyttri þjónustu á flugvöllum og lendingarstöðum í grunnneti. Hugsanlegt er að þjónustan skerðist á nokkrum flugvöllum ef ekki næst að tryggja fjármagn svo hægt sé að uppfylla kröfur reglugerðar um flugvelli."
Hér er stefnt að óbreyttri þjónustu, en jafnframt viðurkennt að þjónustan geti skerst af því að fjármunir málaflokksins dugi ekki að óbreyttu til þess. Í Samgönguáætlun til 2034 er ekki gert ráð fyrir neinni aukningu á framlagi ríkisins til málaflokksins á næstu tímabilum. Sem getur aðeins þýtt að þjónustan mun skerðast smám saman næstu 15 árin. MN gerir alvarlegar athugasemdir við þetta fjársvelti málaflokksins.
2.2.2 Stofnkostnaður og viðhald
"Við gerð þessarar áætlunar er miðað við að forgangsraða á eftirfarandi hátt:
1. Viðhald flugbrauta.
2. Brýnasti flugleiðsögu- og fjarskiptabúnaður.
3. Aðflugs- og brautarljósabúnaður og tilheyrandi rafkerfi til að tryggja nákvæmni í aðflugi í slæmu skyggni auk innviða sem þegar liggja undir skemmdum. "
MN skilur þessa forgangsröðun vegna öryggissjónarmiða, en gagnrýnir hins vegar að aðbúnaður fyrir farþega komist ekki á þennan forgangslista, þrátt fyrir að eiga mögulega heima á eftir þessum þáttum sem hér eru nefndir. Með flugvélum ferðast fólk og aðbúnaður þessa fólks og þjónusta við það hlýtur að vera grundvallar þáttur í öllu farþegaflugi.
"Unnið er að innleiðingu svonefnds EGNOS-aðflugs (European Geostationary Navigation Overlay Service) fyrir flugvellina allt frá Norðurlandi eystra til Suðausturlands eða frá Akureyri til Hafnar í Hornafirði. EGNOS er evrópskt flugleiðsögukerfi sem byggist á gerfihnattaleiðsögu og auðveldar aðflug umtalsvert án þess að það þurfi að koma fyrir sérstökum búnaði á flugvelli. "
MN telur afar mikilvægt að vinna að þessu því þetta er framtíðin í flugleiðsögu og getur gert flugvöllinn aðgengilegri en hann er í dag og aukið öryggi hans.
"Ratsjárbúnaður Akureyrarflugvallar er kominn til ára sinna og er vandlega fylgst með virkni hans. Áætlaður endurnýjunarkostnaður nemur allt að 1.000 millj. kr. og er hann ekki inni í samgönguáætlun."
Akureyrarflugvöllur er einn stærsti flugvöllur landsins og sá sem er hvað mest notaður sem varaflugvöllur. Þar er miðstöð sjúkraflugs á Íslandi, þar hefur umferð millilandaflugs verið að aukast síðustu misseri og áform um að sú umferð aukist enn frekar. Árið 2018 var 80% aukning á umferð um flugvöllinn frá fyrra ári. Það er því mjög ámælisvert að ekki sé gert ráð fyrir fjármagni til endurnýjunar á þessum búnaði, sé hann orðinn gamall og/eða úreltur.
"Áætlað viðhaldsfé á árunum 2020–2024 er ekki nægjanlegt fyrir alla flugvelli í innanlandskerfinu. Því er ljóst að viðhald flugvalla og lendingarstaða verður í lágmarki innan þessa fjárhagsramma."
Aftur kemur fram að ekki séu nægir fjármunir til að viðhalda flugvallakerfinu. MN þykir með ólíkindum að það sé í raun stefna stjórnvalda að svelta flugvellina þannig að þeir verði óstarfhæfir. Til viðbótar er ekki settir neinir fjármunir til nýframkvæmda, sem þó eru grundvallarforsenda þess að hægt sé að framfylgja stefnu stjórnvalda um að opna fleiri gáttir inn í landið og byggja upp millilandaflug um Akureyrarflugvöll. Munur milli stefnu stjórnvalda í orði annars vegar og fjárframlaga til málaflokksins hins vegar er gríðarlega mikill.
28. október 2019
Virðingarfyllst,
Arnheiður Jóhannsdóttir
Framkvæmdastjóri
Athugasemdir Markaðsstofu Norðurlands við drög að Flugstefnu Íslands
sem var birt í október 2019 sem fylgiskjal með nýrri Samgönguáætlun
Markaðsstofa Norðurlands (MN) sendi inn ítarlegar athugasemdir við grænbók um Flugstefnu sem birt var á Samráðsgáttinni í lok júlí s.l. Svo virðist sem ekki hafi verið tekið mikið tillit til þeirra athugasemda og enn eru meginskilaboð Flugstefnunnar að ekki eigi að byggja neitt upp á Akureyrarflugvelli. Athugasemdir MN við grænbókina má finna í viðhengi við þessa umsögn.
Það er í Flugstefnunni talað um að stuðla að reglubundnu millilandaflugvelli um fleiri alþjóðaflugvelli en Keflavíkurflugvöll, en í næstu hendingu að innviðauppbygging eigi að miðast við að varaflugvallarhlutverk fremur en farþegaþjónustu og áhersla sé þar sett á Egilsstaðaflugvöll. Reglulegt millilandaflug krefst farþegaþjónustu og t.d. á Akureyrarflugvelli er afar brýnt að stækka flugstöðina.
Helstu athugasemdir MN við drög að flugstefnu Íslands eru eftirfarandi:
• Markaðsstofa Norðurlands gerir kröfu á að haldið verði áfram með þróun á Akureyrarflugvelli sem alþjóðaflugvelli og farið verði í heildstæða uppbyggingu þannig að hann uppfylli þær þarfir sem alþjóðaflugvelli ber að gera og mögulegt sé að byggja þar upp aukið millilandaflug.
• Tryggja þarf samkeppnishæfni Akureyrarflugvallar m.a. með jöfnun á flutningskostnaði á flugvélaeldsneyti, uppbyggingu flugstöðvar og flughlaðs.
• Öflugur alþjóðaflugvöllur hefur mikil jákvæð áhrif á atvinnulíf og samfélag og styður við jákvæða byggðaþróun á viðkomandi svæði. Því ætti að leggja meiri áherslu á að byggja upp alþjóðaflugvelli í fullri starfsemi en bara varaflugvelli.
Aðrar athugasemdir um einstaka liði flugstefnunnar:
Lykilviðfangsefni
„6. Skilvirkt kerfi alþjóðaflugvalla hér á landi sem er samþætt og á einni hendi. Stutt við möguleika á fleiri hliðum inn til landsins til að fjölga svæðum sem geta notið góðs af ferðaþjónustu.“
MN tekur heils hugar undir þetta markmið, en minnir á að það þarf meiri en bara stuðning Flugþróunarsjóðs sem er afar mikilvægur, það þarf líka fjárfestingu í innviðum.
Akureyrarflugvöllur er að flestu leyti vel í stakk búinn til að taka við meiri umferð millilandaflugs, unnið hefur verið að markaðssetningu flugvallarins fyrir millilandaflug og þar hefur náðst árangur. Það sem vantar á Akureyrarflugvelli er stærri flugstöð svo hægt sé að þjónusta þá farþega sem þangað koma með sóma og í framhaldinu að byggja ofan á þann árangur sem náðst hefur. Á næstu árum eru allar forsendur fyrir því að stórauka umferð millilandaflugs um flugvöllinn en það mun ekki gerast nema þar verði byggt upp – og stærri flugstöð er brýnasta verkefnið. Því verður að setja fjármuni í að það verkefni strax á næsta ári. Í framhaldinu þarf einnig að stækka flughlaðið til þess að völlurinn geti betur sinnt hlutverki sínu sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll.
„7. Byggja upp innviði alþjóðaflugvalla landsins með áherslu á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli. Egilsstaðaflugvellur verði í forgangi að því leyti.“
Hér er rætt um uppbyggingu innviða, en einungis horft til varaflugvalla. Nauðsynlegt er að horfa lengra, en tillögur grænbókar um alþjóðaflugvelli á landsbyggðinni snúast ekki um annað en byggja upp einn varaflugvöll. Markaðsstofa Norðurlands gerir kröfu á að haldið verði áfram með þróun á Akureyrarflugvelli sem alþjóðaflugvelli og farið verði í heilstæða uppbyggingu þannig að hann uppfylli þær þarfir sem alþjóðaflugvelli ber að gera og mögulegt sé að byggja þar upp aukið millilandaflug. Nauðsynlegt er að gera heildstæða efnahagslega og samfélagslega úttekt á áhrifum og tækifærum sem felast í að byggja upp alþjóðaflugvöll á Akureyri í fullri virkni, fyrir allar atvinnugreinar.
Á Norðurlandi erum við með áfangastað sem vantar uppbyggingu á innviðum til að geta nýtt þau tækifæri sem eru til staðar í auknum fjölda ferðamanna beint inn á svæðið. Árið 2018 jókst umferð um Akureyrarflugvöll um 80% miðað við árið á undan. Innviðir flugvalla þurfa að vera þannig að þeir geti tekið á móti þeirri umferð sem ætlað er að koma inn á svæðið og þjónustað farþega t.d. varðandi bílaleigubíla, rútur o.fl.
Beinar tekjur af flugferðum Super Break til Akureyrar frá Bretlandi síðustu tvo vetur eru metnar á um 750 milljónir króna, en til viðbótar er önnur neysla sem metin er á um 450 milljónir. Samtals hefur starfsemi Super Break aukið veltu ferðþjónustu á Norðurlandi um 1,2 milljarða. Að sama skapi má búast við að farþegar Voigt Travel skili um 600 milljónum í tekjur inn á svæðið með sínum flugferðum í sumar. Þessar tekjur skila umtalsverðum skatttekjum beint í ríkissjóð til viðbótar við annan ávinning.
Ef flugstefna er sett fram þannig að hún ákveði að ekki verði byggðir upp fleiri alþjóðaflugvellir þá er verið að taka ákvörðun um neikvæð áhrif á efnahagslíf á landsbyggðinni vegna tapaðra tækifæra. Er það ákvörðun sem er búið að reikna út til fulls, þ.e. hver verða efnahagsleg áhrif fyrir landið allt og fyrir ákveðin svæði? Sú niðurstaða virðist ekki vera í takt við stefnu stjórnvalda um byggðaþróun.
Sumarið 2015 fól starfshópur Forsætisráðherra um aukna möguleika í millilandaflugi Rannsóknamiðstöð ferðamála að vinna skýrslu um svæðisbundin og þjóðhagsleg áhrif af beinu millilandaflugi til Akureyrar eða Egilsstaða. Starfshópurinn byggði sínar tillögur á þessari skýrslu, sem sýndi fram á ótvíræðan þjóðhagslegan ávinning af auknu millilandaflugi um þessa flugvelli. Jafnframt kom fram að fjárfesting ríkisins í auknu millilandaflugi á Akureyri eða Egilsstöðum með hvatakerfi í gegnum Flugþróunarsjóð myndi skila sér tvöfalt til baka í ríkissjóð gegnum auknar skatttekjur.
Það er margt sem mælir með Akureyrarflugvelli sem fyrsta valkosti á eftir Keflavíkurflugvelli. Hér eru allir innviðir til að taka við fólki, bæði gisting, veitingar, farþegaflutningar og slík þjónusta, en einnig mjög vel búið sjúkrahús. Á Akureyrarflugvelli er miðstöð sjúkraflugs á Íslandi og bandaríski herinn velur Akureyrarflugvöll sem sinn fyrsta varaflugvöll á eftir Keflavík.
„8. Tenging innanlandsflugs við millilandaflug“
MN tekur heils hugar undir að tenging millilandaflugs og innanlandsflugs sé mikilvæg og í raun mjög mikilvæg fyrir framtíðartækifæri í ferðaþjónustu á Íslandi. Ekki kemur hins vegar fram í stefnunni hvernig á að bæta þessar tengingar. MN leggur áherslu á að það þurfi að bæta aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli til þess að svona tengingar séu mögulegar og skilvirkar í framkvæmd.
Meginmarkmið 2:
„Við forgangsröðun aðgerða verði tekið tillit til óska sveitarstjórna og sóknaráætlana landshluta.“
Beint millilandaflug um Akureyrarflugvöll hefur verið skilgreint í mörg ár sem stærsta hagsmunamál Norðlendinga í Sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra og hefur Flugklasinn Air 66N fengið stuðning úr Sóknaráætlun oftar en einu sinni vegna mikilvægi verkefnisins. Einnig er það ótvíræð ósk sveitarstjórna á Norðurlandi að uppbyggingu á Akureyrarflugvelli verði hraðað svo hægt sé að byggja upp millilandaflug til framtíðar. Frá 2011 hafa 12 sveitarfélög á Norðurlandi eystra og vestra stutt við og fjármagnað verkefni Flugsklasans Air 66N sem vinnur að því að efla millilandaflug um Akureyrarflugvöll.
Markmið 1: Greiðar flugsamgöngur
1.d) „Lögð sé áhersla á góða nýtingu alþjóðaflugvallanna með hvatakerfi og öðrum aðgerðum sem til þess henta.“
MN tekur undir þetta og það hefur sýnt sig hversu mikilvægur Flugþróunarsjóður hefur reynst við að koma á auknu millilandaflugi. Hann mun halda áfram að vera lykilþáttur í því að auka millilandaflug á Akureyri. Huga þarf að kostnaði flugrekenda við að lenda á Akureyrarflugvelli. Vitað er að eldsneytisverð og kostnaður við ýmsa þjónustu er hærri en á Keflavíkurflugvelli. Horfa þarf á áhrif gjalda á flugvellinum á samkeppnishæfni vallarins. Miðað við þann kostnað sem er á Akureyrarflugvelli í dag, býr hann við skerta samkeppnishæfni.
Áhrif á íslenskt samfélag:
„Þá er reglulegt millilandaflug til annarra flugvalla hér á landi en Keflavíkurflugvallar mikilvægt fyrir atvinnulíf utan höfuðborgarsvæðisins og eykur frekar lífsgæði íbúa.“
Hér kemur einmitt fram mikilvægi þess að auka millilandaflug utan Keflavíkurflugvallar. MN tekur undir mikilvægi þess fyrir atvinnulíf og búsetugæði.
Markmið 2: Öruggar flugsamgöngur
1.c) „Skoðað hvernig tryggja megi leiðréttingartækni vegna gervihnattaleiðsögu um allt land.“
Hér er væntanlega verið að ræða um EGNOS eða WAAS kerfi. MN telur afar mikilvægt að vinna að þessu því þetta er framtíðin í flugleiðsögu og getur gert flugvöllinn aðgengilegri en hann er í dag og aukið öryggi hans.
Markmið 3: Hagkvæmar flugsamgöngur
5. „Stofnun flugklasa“
Við stofnun slíks flugklasa er mikilvægt að allir hagsmunaaðilar hafi aðkomu. Flugklasinn Air 66N myndi gera kröfu um að taka þátt í svona flugklasa ef af stofnun verður.
Markmið 4: Umhverfislega sjálfbærar samgöngur
Nú á tímum aukinnar vitundar fólks um kolefnislosun og aukna áherslu á að draga úr henni eins og hægt er, má benda á að vistspor þeirra ferðalanga sem vilja heimsækja Norðurland er mun minna ef þeir hafa kost á því að fljúga beint inn til Akureyrar heldur en að lenda fyrst í Keflavík og ferðast svo með bíl og/eða innanlandsflugi þaðan norður. Sama gildir um Norðlendinga sem fara erlendis. Önnur gátt á Akureyri stuðlar þannig að minna vistspori ferðamanna og hjálpar Íslandi að framfylgja heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Markmið 5: Jákvæð byggðaþróun
1.b) „Góðar tengingar við aðra hluta almenningssamgöngukerfisins og millilandaflugið.“
Til þess að íbúar hafi góðan aðgang að almenningssamgöngum og millilandaflugi þá þarf nauðsynlega að gera ráð fyrir tengingu innanlandsflugs og millilandaflugs og gera endurbætur á Keflavíkurflugvelli til þess að greiða fyrir þessum tengingum. Svo þarf að taka með í reikninginn þau gífurlegu áhrif sem beint millilandaflug til Akureyrar myndi hafa í þessu tilliti. Það er fátt sem myndi hafa jafn mikil jákvæð áhrif á byggðaþróun á Norðurlandi eins og aukið beint millilandaflug um Akureyrarflugvöll.
28. október 2019
Virðingarfyllst,
Arnheiður Jóhannsdóttir
Framkvæmdastjóri
ViðhengiHjálögð er bókun byggðarráðs Húnaþings vestra um um fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024.
ViðhengiSveitarstjórn Grýtubakkahrepps bókaði eftirfarandi á fundi sínum í gær um flugstefnu og samgögnuáætlun;
"Sveitarstjórn tekur heilshugar undir athugasemdir Markaðsstofu Norðurlands við flugstefnu og samgönguáætlun 2020-2034."
F.h. sveitarstjórnar,
Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri
Akstursíþróttasamband Íslands (AKÍS) fer með málefni akstursíþrótta sem stundaðar eru á bifreiðum og tækjum með fjögur dekk á tveimur öxlum hið minnsta.
Fulltrúar AKÍS hafa í nokkur skipti frá árinu 2016 komið á fund umhverfis- og samgöngunefndar og kynnt hugmyndir um íþróttavegi. AKÍS hefur einnig kynnt starfsemi sína, aðstöðu akstursíþróttafélaga sem hafa byggt eða eru að byggja sínar keppnisbrautir og framtíðaráform.
ViðhengiSkógarstrandarvegur, stofnvegur 54
Nauðsynlegt er að Skógarstrandarvegur verði forgagnsverkefni í bætingu vegasamgangna á Vesturlandi á allra næstu árum. Ástæður:
1. Skógarstrandarvegur er mjög mikilvæg ferðamannaleið, þar sem geysimargir ferðamenn taka Snæfellsnes með í hringferð sinni um Ísland og fara þá Skógarstrandarveg og Laxárdalsheiði (og fáeinir Haukadalsskarð). Aukning umferðar er mikil undanfarin ár og vegurinn alls ekki hannaður miðað við þessa umferð.
2. Á Skógarströnd eru 14 einbreiðar brýr, hann er mjór og hættulegur á köflum, sem sjá má stað í vaxandi slysatíðni á þessum vegi undanfarin ár.
3. Dalamenn þurfa að sækja þjónustu á Snæfellsnes, t.a.m. er þar Sýslumaður svæðisins. Með betri vegi væri líka kominn góður valkostur til að sækja lágvöruverslun annað en í Borgarnes.
4. Hluti leiðarinnar er mjög mikilvæg hjáleið fyrir vetrarumferð frá Norðurlandi til Suðvesturhornsins, um Heydal, þegar Holtavörðuheiði og Brattabrekka eru lokaðar.
5. Lélegur vegur dregur úr möguleikum íbúa til að sækja vinnu úr sveitinni á Skógarströnd og minnkar möguleika barna þeirra á að stunda félagsstarf.
Með von um aðgerðir,
Bjarnheiður Jóhannsdóttir
Jörva í Haukadal
Skólastjóri Grunskóila Húnaþings vestra bendir á nauðsyn þess að flýta framkvæmdum við Vatnsnesveg 711. Á undanförnum árum hefur reynst erfiðara og erfiðara fyrir Vegagerðina að viðhalda veginum vegna aukinnar umferðar ferðamanna. Það hefur valdið því að oft hefur skólaakstur verið lengdur fyrir nemendur á Vatnsnesi. Þessir nemendur eiga flestir um langan veg að fara. Á akstursleið sem tekur undir venjulegum kringusmstæðum um 40 mínútur hefur þurft að lengja hann um allt að 30 mínútur á dag vegna ástands vegarins, aftur og aftur. Skólastjóri telur nauðsynlegt að fjármag sem nú þegar hefur verið áætlað á 3. tímabil verði dreift á öll tímabilin 3. Með þeim hætti fá börn sem nú stunda nám við skólann einhverja bót á daglegum ferðum sínum til og frá skóla.
Sigurður Þór Ágústsson
Skólastjóri Grunnskóla Húnaþings vestra
Varðandi endurbætur á Vatnsnesvegi.
Við íbúar við Vatnsnes tökum því fagnandi að sjá loksins veginn okkar kominn inn á Samgönguáætlun.
Við viljum þó þrýsta á að hann verði færður framar og að framkvæmdir við hann hefjist sem allra fyrst. Miðað við núverandi áætlun er gert ráð fyrir að framkvæmdir verði ekki hafnar fyrr en eftir 11 ár. Það er alltof langur tími. Þetta þýðir það að þau börn sem eru að hefja skólagöngu sína munu alla tíð þurfa að ferðast um veginn í því ástandi sem hann er núna. Nú í haust lengdist ferðatími þessara barna umtalsvert og vegurinn gerir það að verkum að börnin hreinlega kvíða því að fara í skólann.
Mig langar samt að benda á að samkvæmt lögum um skólaakstur í grunnskóla stendur: Daglegum skólaakstri ber að haga með þeim hætti að nemendum sé ekið heim sem fyrst eftir að lögbundnum skóladegi lýkur. Miða skal við að daglegur heildartími skólaaksturs, að meðtöldum biðtíma, sé að jafnaði ekki lengri en 120 mínútur.
Núna er það svo að börnin okkar sem sitja lengst í skólabílnum ná þessum hámörkum og fara yfir þau þegar vegurinn er í hvað verstu ástandi.
Viðhaldskostnaður á bílunum okkar er margfaldur miðað við það sem gengur og gerist og það sem verra er að endursöluverð á þeim er svo gott sem ekkert því bílarnir skemmast á stuttum tíma þegar þeim er boðin slík meðferð sem vegurinn býður upp á. Viðgerðarmenn á svæðinu segja að bílarnir okkar komi mun oftar inn á verkstæðið í viðhald sem er langt frá því sem getur talist eðlilegt.
Nær allir ábúendur hafa horft upp á eða komið að slysi. Alltof margir hafa komið að slysi þar sem fólk er slasað og kalla þurfti eftir sjúkrabíl. Það er ekkert eðlilegt við það ástand og kvíðvænlegt fyrir íbúa að búa við þann ótta að einn daginn þegar þú kemur að bíl utan vegar að einhver sé lífshættulega slasaður eða jafnvel látin.
Við bindum vonir við að rödd okkar nái eyrum stjórnvalda. Við þurfum endurbætur.
Í samráðsgátt stjórnvalda eru drög að samgönguáætlunum til næstu 15 ára, annars vegar tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020 – 2024 og hins vegar tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020 – 2034. Í fyrri áætluninni bls. 14 kemur fram að reiðvegafé er óbreytt á árunum 2020 – 2024, 75 m.kr. á ári, eða 375 m.kr. á fimm ára tímabili. Í síðari áætluninni kemur fram á bls. 20 að á tímabilunum 2025 – 2029 og 2030 – 2034 að reiðvegafé er 400 m.kr. hvort tímabil eða 80 m.kr. á ári.
Hestamenn telja ekki nóg lagt í þennan málaflokk hvað varðar uppbyggingu og viðhald reiðvega, sem er undirstaða hestamennsku og hestatengdrar ferðaþjónustu í landinu.
•
Undanfarin ár hafa umsóknir hestamannafélaganna í reiðvegafé verið á bilinu 280 – 330 m.kr. bæði til nýbygginga og viðhalds eldri reiðvega. Árið 2002 voru 39,9 m.kr. til reiðvega á vegaáætlun, árið 2009 er reiðvegafé orðið 70 m.kr. og hafði þá tekið mið af vísitöluhækkunum. Árið 2010 er reiðvegafé skorið niður í 60 m.kr. og er óbreytt til 2019 að það hækkaði í 75 m.kr. Grunnur byggingavísitölu breytist árið 2010 og er settur á 100, um sl. áramót er grunnurinn orðinn 142,1. Reiðvegafé ætti því að vera 107,6. m.kr. í ár 2019. Það hafa því engar raun hækkanir verið til þessa málaflokks frá árinu 2009, heldur skerðist framlag ríkisins hlutfallslega.
Framlög ríkis og sveitarfélaga undanfarna áratugi hafa ekki verið taldar nægar til að uppfylla fjárþörf til þess málaflokks sem reiðvegir eru.
Hestamenn vekja athygli á þeim gríðarlegu fjármunum sem hestatengd starfsemi er að skapa þjóðarbúinu á ársgrundvelli, sem eftirfarandi dæmi sýna.
•
1. Árið 2001 voru gjaldeyristekjur af hestamennsku 7,5 milljarðar kr. samkvæmt könnun Ferðamálaráðs og heimild Hagstofunnar. (Skýrsla Samgönguráðuneytisins; Nefnd um viðbótarfjáröflun til reiðvega febrúar 2003, bls. 5).
Árin 2001 – 2003 sóttu um 280 – 300 þús. erlendir ferðamenn landið heim, um 14% sóttu afþreyingu í íslenska hestinn að sumarlagi og um 8% að vetrarlagi.
Í ár 2019 sóttu rúmlega 2 milljónir erlendra ferðamanna landið heim.
•
2. Gjaldeyristekjur af útflutningi hrossa nemur á tólf ára tímabili 10,9 milljörðum kr. þ.e. frá 2007 – 2019. Útflutningur hrossa hefur farið jafnt og þétt vaxandi frá árinu 2010 að einu ári undanskyldu. (Grein Magnúsar Heimis Jónssonar í Morgunblaðinu 9. september 2019, byggð á gögnum Matvælastofnunar og viðtali við Gunnar Arnarsson hrossaútflytjanda).
•
3. Í skýrslu; Hestamennska og hestaferðaþjónusta - ýmsar tölur og gögn 15. apríl 2019 (DRÖG). ( Höf. Ingibjörg Sigurðardóttir lektor við ferðamáladeild Háskólans á Hólum ). Í kafla um hestatengda ferðaþjónustu kemur m.a. fram eftirfarandi:
Árið 2002 var fjöldi ferðamanna hérlendis 248.580 og var þá áætlað að 41.791 erlendur ferðamaður hefði farið á hestbak meðan á dvölinni stóð. Þar af fóru um 25 þúsund manns á hestbak að sumri (júni – ágúst). Ekki var vitað hvert var hlutfall þeirra sem fóru í hestaleigu og hestaferðir (Ingibjörg Sigurðardóttir, 2004).
Árið 2014 var á sambærilegum forsendum áætlað að um 120.150 erlendir ferðamenn hefðu farið á hestbak meðan á dvölinni stóð hérlendis (Tinna Dögg Kjartansdóttir, 2014).
Árið 2014 var áætlað að velta hestaleiga og hestaferðafyrirtækja hérlendis væri 2,5-3 milljarðar (Tinna Dögg Kjartansdóttir, 2014). Sé miðað við þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar í greiningu Tinnu Daggar má ætla að heildarvelta hestaleiga og hestaferðafyrirtækja hérlendis hafi verið 7-8 milljarðar á árinu 2018.
1. Í daglegu tali hérlendis er að jafnaði átt við hestaleigur (1 dagur eða minna) eða hestaferðir (meira en 1 dagur) þegar talað er um hestaferðaþjónustu. Samt sem áður hefur það verið rökstutt að „hestatengd ferðaþjónusta sé hvers kyns þjónusta sem fyrirtæki eða einstaklingar veita ferðamönnum í tengslum við hesta, hvort sem um er að ræða þjónustu sem tengist reiðmönnum, hestinum sjálfum, sögu hans, ímynd, afurðum eða þætti hans í menningar- og atvinnusögu þjóðarinnar“ (Ingibjörg Sigurðardóttir, 2004, bls. 6).
2. Rétt er að hafa í huga að fjölþætt starfsemi önnur en hestaleigur og hestaferðir geta talist til hestatengdrar ferðaþjónustu. Má þar nefna hestatengda viðburði. Þar ber hæst Landsmót hestamanna sem haldið er annað hvert ár og er gestafjöldi 8-10 þús. Um 1/3 gestafjöldans eru erlendir gestir. Varlega áætlað er talið að meðaleyðsla gesta á dag á Landsmóti hestamanna 2016 fyrir utan gistingu hafi verið 30.041 en erlendir gestir eyddu að meðaltali 34.955 ár dag en Íslendingar 26.706 krónum. Varlega áætlað hefur því verið áætlað að efnahagsleg áhrif Landsmóts hestamanna 2016 hafi verið um 160 milljónir króna án afleiddra áhrifa (Heldt, 2017).
3. Um þessar mundir er erfitt að nálgast nýjustu tölur um hversu hátt hlutfall ferðamanna nýtir ákveðna flokka afþreyingar svo sem hestaferðaþjónustu en það er vegna breytinga á skráningu og utanumhaldi um gögn hjá Ferðamálastofu en verið er að flytja helstu gögn inn í svokallað Mælaborð ferðaþjónustunnar. Miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir má þó gera ráð fyrir að um 287 þúsund erlendir ferðamenn hafi farið á hestbak árið 2018 meðan á dvöl þeirra stóð hérlendis.
•
Í dag er áætlað að um 35 þúsund Íslendingar stundi hestamennsku að staðaldri, þar af eru um 12 þúsund skráðir félagar í 45 hestamannafélögum.
ViðhengiFráleitt að setja Vatnsnesveg á tímabil 3 þar sem það er mjög aðkallandi að vegurinn verði lagaður. Búinn að vera slæmur virkilega lengi. Þar hefur fólk (innlent og erlent) slasast, börn þjást á hverjum degi (!!) við akstur í skóla. Útséð er að ferðamönnum sem allir eru á bíl á ekki eftir að fækka og síðast en svo sannarlega ekki síst ætti íbúum Vatnsness að vera mögulegt að aka heim til sín á öruggum vegi. Ég kalla eftir að vegurinn verði settur á 1. tímabil.
Vatnsnesvegur 711 - Ósk um að framkvæmdum verði flýtt sem kostur er
Á haustdögum tók fyrirtæki mitt Ghaukur slf að sér skólaakstur á vestanverðu Vatnsnesi næstu 4 árin eftir útboð. Það kom fljótt í ljós að vegurinn sem við reyndar vissum að var oft slæmur breytist í einum vetvangi í drullusvað með óteljandi holum þegar eitthvað rignir að ráði. Þrátt fyrir viðleitni vegagerðarinnar að hefla og reyna að viðhalda veginum endist það því miður oftast stutt og sækir fljótt í sama ófremdar farið þrátt fyrir góðan vilja og þeir aurar fara fyrir lítið sem varið er til viðhalds.
Í þessari áætlun er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í fyrsta lagi eftir 11 ár. Það er óásættanlega langur tími fyrir þau börn sem þurfa að fara um þennan veg til skóla tvisvar á dag. Ástand vegarins leiðir óhjákvæmilega til lengri veru í skólabíl. Börn sem nú eru að nálgast skólaaldur mega vænta þess að þau búi við þetta slæma ástand alla sína skólagöngu og ekki mun ásigkomulag vegarins batna á því tímabili.
Umferð ferðamanna um veginn eykst stöðugt, er mjög mikil yfir sumartímann og reyndar er núna fjöldi bílaleigubíla og annarra farartækja á þessum vegi allan ársins hring. Þetta hefur leitt til fjölda óhappa á þessum vegi sem er dýrt og óásættanlegt. Nú er ennfrekar verið að markaðssetja þessa leið með svokallaðri Norðurstarndarleið sem mun leiða enn til aukinnar umferðar á komandi árum.
Legg því til að Vatnsnesvegur 711 verði tekinn inn á framkvæmaáætlun sem allra fyrst helst á næstu fjórum árum og stefnt að því að honum verði lokið innan 10 ára. Legg til að haldið verði áfram þar sem frá var horfið fyrir nokkrum árum utan við Kárastaði og lagðir 5 km á ári og aðrir 5 km að austanverðu þar til hringtengi með slitlagi verður náð.
Guðmundur Haukur Sigurðsson
Hvammstanga
Vegur 711, Vatnsnesvegur
Ég legg til að veg framkvæmdum verði flýtt fram á 1 tímabil svo börn sem nú eru að byrja sína skólagöngu þurfi ekki að harka af sér veginn alla skólagönguna sína. Vegurinn á ekki eftir að batna með árunum og alls ekki á ferðamanninum eftir að fækka. Vegagerðin á orðið erfitt með að halda veginum við og lengist skólaakstur barnanna endalaust.
Góðan dag
Meðfylgjandi er umsögn Sveitarfélagsins Hornafjarðar vegna Samgönguáætlunar.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri
ViðhengiMeðfylgjandi er umsókn frá bæjarráði Vestmannaeyja v/ draga15 ára samgönguáætlunar 2020-2034 og 5 ára aðgerðaráætlunar 2020-2024
Með kveðju
Fjóla M. Róbertsdóttir
ViðhengiSem íbúi í Húnaþingi vestra þá legg ég til að vegur 711 Vatnsnesvegur verði færður fram í áætlun og framkvæmdir hefjist strax á næsta ári. Rökstuðningur fyrir þessi er einfaldur, skólaakstur barna er ekki boðlegur á þessum vegi og þetta er gríðarstórt atvinnumál fyrir alla vegna ferðamanna þarna sem eru mjög margir farnir að snúa við á leið sinni. Öryggismál eru ekki viðunandi fyrir neinn á þeim vegi sem nú er, mikil umferð og mikið álag á allt nærumhverfi.
Ef ekki er hægt að færa þessar framkvæmdir fram þá verða að koma til örþrifaframkvæmdir einsog rafmagnshlið á veginn þar sem einungis íbúar hafi aðgang að!
Vatnsnesvegur 711 er ekki boðlegur íbúunum á svæðinu. Börn þurfa að fara þennan veg til skóla og margir stunda vinnu frá búum sínum. Viðgerðarkostnaður á bílum,kerrum og svo framl. Er mjög hár. Íbúarnir borga skatta eins og aðrir landsmenn en fa ekki sömu þjónustu. Nú er verið að auka umferðina með þessari norðurstrandarleið. Maður óttast að þetta ástand endi mjög illa ef ekkert verði gert í málunum. Ég skora á samgöngunefnd að setja veg 711 fremst og byrjað verði næsta vor.
Sjá hjálagt umsögn samgönguáætlun 2020 - 2024
ViðhengiSem íbúi á Vatnsnesi fagna ég því að sjá Vatnsveg nr. 711 inná Samgönguáætlun en legg jafnframt til að framkvæmdum við Vatnsnesveg verði flýtt fram og byrjað á 1. tímabili áætlunar. Vegurinn er óboðlegur skólabörnum þá rúmlega 9 mánuði sem þau ferðast um hann nær alla daga vikunnar. Vegurinn er óboðlegur íbúum svæðisins sem margir sækja vinnu utan heimilis. Þá er vegurinn einnig óboðlegur þeim mikla fjölda ferðamanna sem aka um hann. Vegurinn er að stærstum hluta einbreiður, efnislítill malarvegur og þolir hvorki þá núverandi miklu umferð né úrkomusamt veðurfar. Þá hefur margsannast að vegurinn í núverandi ástandi er hættulegur og að á hverju ári missa margir ökumenn bifreiðar sínar utan vegar.
Vatnsnesvegur 711
Sem íbúi og skólabílstjóri á Vatnsnesi óska ég eftir að framkvæmdum við veg 711 verði flýtt og byrjað verði á framkvæmdum sem allra fyrst. Miðað við umferðaraukningu síðustu ára á þessum vegi er ljóst að ekki er hægt að gera varanlega lagfæringu á honum öðruvísi en að byggja hann upp, tvöfalda og leggja bundið slitlag á hann. Það er heldur ekki vanþörf á að hann verði breikkaður því oft mætir maður bílum sem slá ekkert af eða víkja lítið sem ekkert og getur svoleiðis háttalag endað með stórslysi. Þætti mér gaman að vita hvort það séu margir malarvegir á landinu með svipaðri umferð og vegur 711, því hún er ævintýraleg þegar hún er mest ef svo er hægt að komast að orði. Ljóst er að enginn malarvegur ber þessa miklu umferð sem er hér og þegar rignir mikið tekur það oft ekki nema dagstund að vegurinn verði hálf ófær útaf holum. Það fer því bara eftir tíðarfarinu nú í haust hvernig vegurinn verður í vetur því ekki er þægilegt að hefla þegar allt er orðið frosið. Aksturstími skólabarna, annara íbúa á Vatnsnesi sem og vegfarenda allra sem aka þennan veg getur því verið fljótur að breytast og viðhaldskostnaður á farartækjum sem um veginn keyra er stóraukinn, svo ekki sé minnst á aukna slysahættu og slysatíðni. Því óska ég eftir að framkvæmdir við veginn hefjist sem allra fyrst.
Guðmundur Jósef Loftsson
Ásbjarnarstöðum
Ég vil að farið verði í veg 711 nú þegar þar sem hann er varla fær oft á tíðum. Mikil aukning hefur orðið á ferðamönnum á þessum vegi en sumir snúa við vegna þess hvað vegurinn er slæmur. Þessi vegur ætti að fara í forgang.
Meðfylgjandi er umsögn sveitarfélagsins Vesturbyggð um drög að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaráætlun 2020-2024.
Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri.
ViðhengiÉg sendi þessa umsögn inn í nafni Strandabyggðar. Umsögn: Innstrandarvegur (68) í Strandabyggð er ein af lífæðum sveitarfélagsins og sá vegur sem stór hópur fólks og skólabarna keyrir um daglega. Innstrandarvegur er eina leið íbúa á Ströndum frá Hólmavík í Hrútafjörð, nema farin sé Laxárdalsheiði og Þröskuldar. Daglega keyrir fólk til vinnu frá Kollafirði inn til Hólmavíkur og yfir skólaárið keyra skólabílar um veginn við öll veður- og vegskilyrði.
Helstu ágallar, sem sveitarstjórnir og íbúar Strandabyggðar hafa mótmælt og vakið athygli á ítrekað í gegn um árin, eru:
- Ekkert vegrið er á nokkrum stórhættulegum köflum, líkt og í Kollafirði, en þar liggur vegurinn hátt uppi í hlíð og hallar frá fjallshlíðinni, svo i hálku rennur bíll útaf niður snarbratta hlíðina en ekki útaf upp fyrir.
- Á Innstrandarvegi er vegbúturinn Heydalsá - Þorpar, sem er um 4 kílómetrar og er ekki malbikaður. Þessi kafli er oft illa holóttur og/eða drullusvað eftir því hvernig viðrar og því afar erfiður, þrátt fyrir að vera heflaður af og til. Vegbúturinn hefur ítrekað verið inni á samgönguáætlun og að sögn vegagerðarinnar hefur hann oft verið kominn á framkvæmdastig. Engu að síður er framkvæmdum við hann ítrekað frestað og skiptir forsaga hans í kerfinu þá engu
- Á Innstrandarvegi við Hrófá er einbreið brú við blindhæð. Engin sjónlína er að brúnni þegar ekið er í átt að Hólmavík. Þarna varð hörmulegt banaslys í sumar og þrátt fyrir ábendingar og viðræður við fulltrúa Vegagerðarinnar hefur ekkert gert síðan þá til að efla öryggi við brúnna. Í Dalabyggð má sjá stórauknar merkingar og viðvörunarljós við einbreiðar brýr.
Innstrandarvegur er ekki bara mikilvægur allri byggð í Strandasýslu, heldur er mikil og vaxandi umferð ferðamanna um veginn. Á næstu árum sjáum við fram á enn frekari aukningu með tilkomu Dýrafjarðarganga sem tryggja (ásamt fullbúinni Dynjandisheiði) heilsárs hringakstur um Vestfirði. Að auki er unnið að verkefninu Hringvegur 2 á vegum Vestfjarðastofu, sem beinlínis gengur út á að markaðssetja veginn og svæðið og auka þannig enn frekar umferð um Innstrandaveg.
Niðurstaða.
Mikilvægi vegarins er óumdeilt. Í dag er hann slysagildra og þarna hafa orðið banaslys. Daglega er farið með skólabörn um veginn yfir skólaárið og fjöldi fólks ekur veginn daglega í atvinnusókn til Hólmavíkur. Vegagerðin hefur þráast við óskum Strandabyggðar varðandi aukið öryggi á veginum, þótt vissulega sé sumum, grundvallar þáttum vegaþjónustu sinnt eftir megni. Þjónustustigið er hins vegar ákvarðað útfrá umferðartalningu, sem styðst við teljara sem er staðsettur á Ennishálsi, eða utan við það svæði sem hér hefur verið tilgreint. Talningin er því marklaus. Á þetta hefur ítrekað verið bent, og óskað eftir fjölgun teljara, en Vegagerðin hefur sagt þetta fullnægjandi talningu. Vegagerðin er með þessari afstöðu að hundsa óskir og áhyggjur þess fólks sem fer um veginn daglega.
Sveitarstjórn Strandabyggðar krefst þess að Innstrandaervegur verði færður á fyrri hluta samgönguáætlunar, þar sem hann eitt sinn var og að frekari seinkanir komi ekki til greina.
Jafnframt er þess krafist að Vegagerðin í Strandabyggð verði efld í ljósi aukins mikilvægis svæðisins varðandi umferð á Vestfjörðum, og þá ekki bara vegna umferðar um Innstrandarveg, heldur einnig um Þröskulda og Steingrímsfjarðarheiði. Strandabyggð er þjónustusvæði fyrir alla umferð á svæðinu og mikilvæg tenging Stranda við norðanverða Vestfirði.
Að lokum er þess krafist, að stjórnvöld hætti tafarlaust merkingarlausum og haldlausum loforðum um vegaúrbætur, sem síðan eru slegnar af án nokkurs samráðs og að því er virðist án nokkurs skilnings á aðstæðum. Sveitarstjórn Strandabyggðar og Strandamenn almennt eru reiðubúin til að koma að þarfagreiningu og áhættumati sem þarf að liggja til grundvallar eflingu þjónustu á svæðinu og öllum eru ljós. Hér eru mannslíf í húfi á hverjum degi. Hér eru börnin okkar sett að veði.
Umsögn um Akureyrarflugvöll – Höldur Bílaleiga Akureyrar
Til að byrja með þakka ég fyrir hönd félagsins fyrir þá mörgu góðu hluti sem eru inní samgönguáætlun sem og það að fá tækifæri til að tjá sig um og vonandi hafa áhrif á endanlega áætlun.
Höldur – Bílaleiga Akureyrar (Höldur) gerir hins vegar mjög alvarlegar athugasemdir við að engu fjármagni skuli varið til uppbyggingar Akureyrarflugvallar, skv framlagðri samgönguáætlun. Það er undarlegt að sjá að til Akureyrarflugvallar skuli eiga að verja heilum 78 milljónum á 5 ára tímabili til viðhalds á húsakosti og búnaði sem nú þegar er til staðar og reyndar öskrar á viðhald en ekki krónu til uppbyggingar á þessum stærsta flugvelli utan Reykjanessins.
Sem stærsta bílaleiga landsins er félagið stór hagsmunaaðili í ferðaþjónustu og vill sjá hana vaxa og dafna í öllum landshlutum. Það að fjölga gáttum inní landið er gríðarlega mikilvægt, enda ljóst að ferðamönnum þykir mörgum orðið nóg um fjöldann á Keflavíkurflugvelli og suðurlandið á köflum sprungið, á meðan aðrir landshlutar hafa nægt rými. Höldur fjárfestir í fjölbreyttri atvinnu-uppbyggingu um land allt og vill sjá margþætta starfsemi sem víðast enda styður það við byggð í landinu sem og alla ferðaþjónustu. Vöxtur og uppgangur í ferðaþjónustu hefur fyrst og fremst orðið suð-vesturhluta landsins að gagni, en nú er sá landshluti á köflum orðinn ofseldur og vaxandi þörf á að opna fyrir fleiri flugmöguleika til og frá landinu. Það þarf að jafna álagið á landið og gera ferðaþjónustu að heilsársatvinnugrein um land allt, en hver landshluti hefur sitt að bjóða, oft á mismunandi árstíðum.
Miklum kröftum hefur verið varið til að byggja upp heils árs ferðaþjónustu, afþreyingu, hótel og innviði á norðurlandi og loks virðist sem markaðssetning heimamanna sé að skila árangri, sem sýnt hefur sig í auknum áhuga erlendra flugrekenda, auk þess sem flestum flug-tæknilegum hindrunum hefur loks verið rutt úr vegi.
Alþjóðleg flugumferð um Akureyrarflugvöll jókst um 70% á árinu 2018 og árið 2019 var farþegafjöldinn í ágúst-mánuði orðinn meiri en allt árið 2018. Útlit fyrir 2020 er enn fremur gott.
Til viðbótar við að vera vaxandi alþjóðaflugvöllur með sífellt vaxandi fjölda fluga, er Akureyrarflugvöllur einn þriggja varaflugvalla Keflavíkur, sem eins og dæmin sanna (síðast nú í vikunni og áður í Eyjafjallajökuls-gosinu), verða að vera í viðunandi ástandi til að sinna stórauknum vexti flugferða til Keflavíkur. Einnig hlýtur að skipta miklu máli þar að í nágrenni Akureyrarflugvallar eru til staðar allir þeir innviðir sem þarf til að taka á móti óvæntum fjölda flugvéla ef eitthvað bjátar á sbr. Hótel og gistiheimili, bílaleigur, hópbifreiðafyrirtæki sjúkrahús, löggæsla og 45.000 manna markaðssvæði heimamanna.
Sá vöxtur verður að vera studdur viðunandi varúðarráðstöfunum/ varaflugvöllum til að fyllsta öryggis í flugumferð til og frá landinu sé ávalllt gætt.
Þessi drög ganga þvert gegn markmiðum sem sett hafa verið í stjórnarsáttmála og ferðamálastefnu, í stað þess að styðja við að jafna álagið á landið, sbr yfirlýst markmið og tölusett eru í áætlun, sbr. 2.1.4. Jafnframt gengur framlögð áætlun þvert gegn markmiðum um fjölgun alþjóðlegra gátta, sbr 2.1.18.
Síðast en ekki síst, þá er það gríðarlega mikilvægt fyrir eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, sem er með höfuðstöðvar sínar á Akureyri, að heimamönnum sé kleift að fljúga til og frá landinu í einhverjum mæli frá sinni heimabyggð. Góðar samgöngur skipta sífellt meira máli þegar kemur að búsetuskilyrðum og það hlýtur að skipta stjórnvöld máli að atvinnutækifærum sé dreift um landið en þeim ekki öllum safnað saman á sama blettinn á suðurhorninu.
Við hvetjum því til að Akureyrarflugvöllur verði settur í forgang á Samgönguáætlun og nægjanlegum fjármunum varið til að byggja upp viðeigandi flugstöðvaraðstöðu og flughlöð til að sinna ört vaxandi þörf fyrir bæði erlenda ferðamenn sem og stóran heimamarkað og uppfylla þannig hlutverk sem varaflugvöllur nr.1 fyrir Keflavík ásamt því að bæta búsetuskilyrði norðanlands til muna og styðja við heilsárs ferðaþjónustu á svæðinu öllu.
Virðingarfyllst.
f.h. Hölds ehf – Bílaleigu Akureyrar
Steingrímur Birgisson
Til samgöngunefndar. Í alltof langann tíma hefur verið klipið af þeim smáaurum sem fallið hafa til Dalabyggðar svæðisins og hann runnið til ýmissa annarra verka á allt öðrum svæðum vegna einhverra mistaka þar.
Ég skora á samgöngunefnd og þingmenn svæðisins að standa upp fyrir okkur og berjast með til betri vegsamgangna í Dölunum. Þannig verður til umferðaröryggi og betri lífsgæði barna sem þurfa að nota skólabíla alla daga. Ég er ferðaþjónustu aðili og vil Skógarstrandarveginn fullkláraðann 2024, ég tek reglulega á móti erlendum ferðamönnum sem eru í áfalli yfir vegum á svæðinu. Að sjá svo Skógarstrandarveginn þetta aftarlega á listanum er ekki í boði gagnvart íbúum á svæðinu, þeim sem þurfa að nota þennann veg þegar lokað er yfir Bröttubrekku og Holtavörðuheiði, erlendum gestum þessa svæðis og bílum sem hér þurfa að keyra reglulega.
Fyrir erlendann gest að sleppa því að keyra Skógarströndina vegna vegarins er hreint tap því þarna er ægifagurt landslag, og að keyra þarna meðfram ströndinni og sjá eyjarnar þarna úti á Hvammsfirði yfir á Fellströndina er alveg ómissandi. Nú er kominn tími til á peningurinn skili sér heim og verði kyrr þar.
Reiðvegafé var 70 m.kr árið 2009. Á þessu ári 75 m.kr og í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020 – 2024, sem hér er til umsagnar, er gert ráð fyrir að sú fjárhæð verði óbreytt næstu 5 ár.
Árlegar umsóknir hestamannafélagan um reiðvegafé eru 280 til 330 m.kr. Af ofangreindu má ráða að 75 milljónir á ári til reiðvegagerðar á landsvísu er alls ófullnægjandi. Það er sanngjörn krafa að ríkið verji a.m.k. þrefalt hærri fjárhæð í reiðvegafé en nú er gert.
ViðhengiUmsögn undirritaðs f.h. Ferða- og samgöngunefndar Landssambands hestamannafélaga og hestamannafélagsins Spretts, liður 9 í umsögnum um drög að samgöngu- og aðgerðaráætlunum, þar hefur viðhengi misfarist og sendi því aftur.
Halldór H. Halldórsson
ViðhengiNauðsynlegar umbætur á Innstrandavegi nr. 68
Lagt er til að verkefni á Innstrandavegi 68, Heydalsá-Þorpar, sem nú er í tillögu að áætlun til 15 ára verði flutt í heild sinni af öðru tímabili áætlunar á fyrsta tímabil, í ljósi veikrar stöðu byggðar á Ströndum. Með hliðsjón af byggðaþróun á Ströndum verði fjármagn til þessarar breytingar flutt á verkefnið, úr öðrum verkefnum á Norðvestursvæði. Á annað tímabil 15 ára áætlunar verði einnig bætt við öðru verkefni á Innstrandavegi: Litla-Fjarðarhorn-Broddadalsá (í Kollafirði). Með vegagerð á þessum vegaköflum myndi mikilvægasta vinnusóknar- og skólaaksturssvæði Hólmavíkur vera komið með bundið slitlag.
Verkefnið Heydalsá – Þorpar, snýst um vegagerð á 4 kílómetra varasömum malarspotta við sunnanverðan Steingrímsfjörð. Þessu litla en mikilvæga verki hefur verið frestað margsinnis síðustu 20 árin.
Greinargerð:
Verkefnið var á samgönguáætlun árin 2015-18 sem samþykkt var á Alþingi 12. október 2016 og áttu framkvæmdir að hefjast 2018. Í Innstrandaveg var þá 50 milljón króna fjárveiting. Árið 2018 leið án þess að nokkuð gerðist og síðan voru Strandamenn sviknir um þessar sjálfsögðu umbætur.
Um Innstrandaveg er þörf á sérstakri greinargerð, þar sem þessum vegi og þörfinni á umbótum á honum hefur ekki verið haldið fram af nægilegu kappi sem þó er mikil þörf á fyrir byggð á Ströndum.
Innstrandavegur (nr. 68) er 100 km langur stofnvegur, en slíkir eru venjulega taldir mikilvægur hluti af grunnneti samgangna af yfirvöldum. Vegurinn liggur frá Hrútafjarðarbotni, rétt við Staðarskála, áleiðis til Hólmavíkur og tengist Djúpvegi (nr. 61) við bæinn Hrófá í Steingrímsfirði.
Umbætur á hluta af veginum hafa margoft verið á samgönguáætlun, bæði til lengri og skemmri tíma, án þess að þær hafi endilega komið til framkvæmda. Síðustu tvo áratugi hefur reglulega staðið til að ráðast í vegagerð á 4 km kafla milli bæjanna Þorpa og Heydalsár í sunnanverðum Steingrímsfirði. Þar er að hluta hættulegur vegur og einbreið brú og stundum ótrúlegt magn af holum. Þetta verkefni hafði t.d. fengið 50 millj. fjárveitingu á árinu 2018 í samgönguáætlun 2015-18 sem samþykkt var á alþingi 12. okt. 2016. Heimamenn biðu spenntir, en árið 2018 leið og hvarf í aldanna skaut, án þess að nokkuð gerðist.
Skólabörnum er ekið daglega eftir Innstrandavegi, annars vegar frá Bitrufirði til Hólmavíkur og hins vegar frá Bitrufirði að Hvammstanga. Einnig fer talsverð umferð um veginn daglega allt árið, mest er umferðin frá Broddadalsá í Kollafirði til Hólmavíkur, þar sem þetta svæði er langmikilvægasta vinnusóknarsvæðið á Hólmavík. Þegar ákvarðanir um vegagerð eru teknar eru þessi hugtök, skólaakstur og vinnusóknarsvæði, notuð til að ákveða forgangsröð framkvæmda. Það er ótækt að þessi mál skipti engu þegar kemur að stjórnvaldsákvörðunum um frestanir framkvæmda á Ströndum.
Teljari á umferðinni um Innstrandaveg er á Ennishálsi, sunnan við vinnusóknarsvæðið. Umferð á veginum þar fyrir norðan er því verulega vantalin og sveitarfélagið Strandabyggð hefur gert ítrekaðar athugasemdir við það, án árangurs. Heimamönnum virðist að þær lágu tölur sem fást úr teljaranum séu síðan notaðar til að réttlæta þjónustuskort og framkvæmdaleysi.
Á Innstrandavegi hafa orðið fjölmörg óhöpp og slys sem ratað hafa í opinber gögn, en einnig mörg óhöpp þar sem ekki verða slys á fólki og er ekki skráð í opinberar tölur. Nú síðast varð hörmulegt banaslys sumarið 2019 við hættulegar aðstæður við Hrófárbrúna, þar sem blindhæð er rétt við einbreiða brú. Ekkert hefur verið lagfært þar enn, sem er óásættanlegt. Fyrir utan nauðsynlegar og sjálfsagðar vegaframkvæmdir sem þarf að ráðast í á þessari leið, væri mikilvægt að gerð væri sérstök úttekt á öryggi vegfarenda.
Bundið slitlag er á 61 km á leiðinni um Innstrandaveg, en malarslitlag á 39 km. Malarvegirnir eru á þremur köflum. Malarkafli 4 km er á milli Þorpa og Heydalsár í Steingrímsfirði, 16 km frá Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði að Bræðrabrekku í Bitrufirði, þar á meðal um Ennisháls, og 19 km í Hrútafirði milli Guðlaugsvíkur og Prestbakka.
Á Innstrandavegi eru 13 einbreiðar brýr. Margar þeirra eru sérstaklega varasamar vegna nálægðar við aðra hættu, svo sem erfiðar beygjur eða blindhæðir.
• Hrófá í Steingrímsfirði – byggð 1972, 36 metra löng, 4 metra breið. Hættuleg blindhæð mjög nálægt brúnni.
• Miðdalsá í Steingrímsfirði – byggð 1980, 22 metra löng, 4 metra breið.
• Heydalsá í Steingrímfirði – byggð 1978, 10 metra löng, 4 metra breið. Á malarvegi.
• Fellsá í Kollafirði – byggð 1951, 14 metra löng, 3 metra breið. Á malarvegi. Varasöm beygja að brúnni norðanverðri.
• Þrúðardalsá í Kollafirði – byggð 1951, 10 metra löng, 3 metra breið. Á malarvegi.
• Broddaá í Kollafirði – byggð 1951, 11 metra löng, 3 metra breið. Á malarvegi. Blindhæð mjög nálægt brúnni og hættuleg beygja hins vegar við hæðina.
• Krossá í Bitrufirði – byggð 1950, 15 metra löng, 4,2 metra breið (breikkuð 1988). Varasöm beygja í aðkeyrslu að brúnni.
• Tunguá í Bitrufirði – byggð 1949, 34 metra löng, 3 metra breið. Varasöm beygja í aðkeyrslu að brúnni norðan megin.
• Þambá í Bitrufirði – byggð 1962, 24 metra löng, 3,2 metra breið. Varasöm beygja í aðkeyrslu að brúnni.
• Víkurá í Hrútafirði – byggð 1987, 20 metra löng, 4 metra breið.
• Hvalsá í Hrútafirði – byggð 1976, 24 metra löng, 4 metra breið. Á malarvegi.
• Prestbakkaá í Hrútafirði – byggð 1978, 27 metra löng, 4 metra breið. Varasöm beygja í aðkeyrslu að brúnni sunnanverðri.
• Laxá í Hrútafirði - byggð 1970, 24 metra löng, 4 metra breið. Varasamar brekkur niður að brúnni og blindhæðir uppi á hæðum beggja vegna.
Vegrið finnast ekki meðfram Innstrandavegi sem má kalla furðulegt. Á veginum út með norðanverðum Kollafirði eru verulega háskalegir staðir ef bílar lenda út af veginum, t.d. við Forvaðann og víðar. Aðstæður á mörgum öðrum stöðum á Innstrandavegi beinlínis hrópa á vegrið, s.s. á Ennishálsi, í Slitrunum í Bitru, á Stikuhálsi og Borgahálsi í Hrútafirði. Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur kallað eftir umbótum á þessu sviði á undanförnum árum, án árangurs.
Virðingarfyllst,
F.h. Ferðaþjónustunnar Kirkjuból við Steingrímsfjörð
Jón Jónsson, þjóðfræðingur og íbúi við Innstrandaveg
F.h. Sauðfjárseturs á Ströndum ses,
Ester Sigfúsdóttir, forstöðumaður og íbúi við Innstrandaveg
Sem atvinnurekandi í hestatengdri ferđaþjónustu vil ég benda á nauđsyn þess ad leggja meira opinbert fé í framkvæmdir sem tryggja öryggi vegfarenda um þjóđvegi landsins þar sem reiđvegir og bílvegir skarast. Um allt land eru flöskuhálsar á reidvegakerfum hestamanna þar sem ferdast þarf af illri nauđsyn eftir vegköntum þjóđvega um lengri eda skemmri vegalengdir oftar en ekki á þjóđvegum sem liggja ofan á fornum reidleidum. Bílaumferd hefur aukist gríđarlega á síđustu árum med meiri ferđamannastraumi til landsins og áhættan þar med magnast á
ad alvarleg slys verdi þar sem umferd bíla og hestamanna skarast. Nauđsynlegt er ad kortleggja sérstaklega þessa flöskuhálsa og gera markvisst átak í ađ útrýma þeim og adskilja algjörlega umferd ríđandi og akandi vegfarenda um landiđ okkar.
Auk þeirra raka sem hér er bent á og snúa fyrst og fremst ađ öryggismálum vegfarenda um þjóđvegina okkar skal bent á ađ hestatengd ferdaþjónusta skapar miklar og vaxandi tekjur fyrir þjóđarbúiđ og því eđlilegt ad framlög til þessa málaflokks séu til muna myndarlegri en gert er rád fyrir í þeim drögum ad samgönguáætlunum sem liggja fyrir. Tölulegar stadreyndir um mikilvægi þessarar atvinnugreinar koma skýrt fram í umsögn LH um þetta sama mál.
Fyrir hönd Saltvík ehf og Riding Iceland ehf sem eru hvort um sig fyrirtæki sem byggja starfsemi sína á hestatendri ferđaþjónustu.
Bjarni P. Vilhjálmsson
Stjórn Eyþings tekur heilshugar undir umsögn Markaðsstofu Norðurlands um samgönguáætlun.
Vatnsnesvegur #vegur711
Það var ánægulegt að sjá Vatnsnesveg loksins inná samgönguáætlun og því ber að fagna. Vegurinn er hinsvegar allur settur á þriðja tímabil og það er eitthvað sem ég sem íbúi við veginn get illa séð hvernig eigi að ganga upp. Umferðin fer ekki minnkandi og ekki lagast vegurinn. Vegagerðin hér heima stendur sig vel að reyna að halda veginum í einhverskonar ökuhæfu ástandi með því fjármagni sem þeir hafa úr að spila.
Börnin okkar verða einfaldlega að fara að komast í skólann sinn á betri vegi.
Ég vil sjá fjármagninu skipt niður á öll tímabilin, því það er alveg ljóst að það tekur tíma að hanna 77km af ónýtum veg og byggja upp.
Jón Ben. Sigurðsson
Böðvarshólum
Laxárdalsheiði nr. 59 og Laxárdalsvegur ættu að vera í algjörum forgangi á Vesturlandi, þessi vegur tekur alla umferð að norðan á veturnar þegar að Holtavörðuheiði lokast sem þýðir gífurlega mikla þungaflutninga sem þessi vegur ber ekki.
Skógarstrandarvegur nr. 54, stofnvegur, ætti að færast framar í röðina. Vegurinn er mikið ekinn, bæði af ferða- og heimamönnum og nauðsynleg tenging Snæfellsnesins við bæði Vestfirði og norðurland. Umferðarslys eru tíð og gífurlegt eignartjón hefur orðið á þessum vegi sem gerir það eitt að hækka tryggingar hjá almenning.
Klofningsvegur nr. 590, tengivegur, er á pari við Skógarstrandarveg; hann er ónýtur. Það er vegur sem einnig er mikið keyrður bæði af heima- og ferðamönnum og mikið eignartjón hefur verið á þessum vegi.
Það er sárt að sjá hvað Dalabyggð er fjársvelt á þessari áætlun og hefur reyndar verið í langan tíma og bera vegirnir í sveitarfélaginu þess merki. Urmull er af einbreiðum brúm, m.a. á vegi nr. 60, Vestfjarðarvegi, sem ber alla þungaumferð til og frá Vestfjörðum.
Það mætti taka meira tillit til skólabarna sem þurfa að ferðast eftir þessum vegum daglega yfir vetrartímann og á þetta við um allt landið, margir tengivegir eru gjörsamlega fjársveltir og hættulegir eftir því. Getum við endalaust boðið börnunum okkar uppá þetta?
Umsögn um drög að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaráætlun 2020-2024.
Sveitarfélögin Borgarfjarðarhreppur, Djúpavogshreppur, Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstaður fagna í öllum meginatriðum þeim drögum að samgönguáætlun sem nú liggja fyrir.
Einkum fagna sveitarfélögin því að nú sé sett fram sérstök jarðgangaáætlun og því að framkvæmdir eiga að hefjast við Fjarðarheiðargöng 2022. Það verkefni er einn af lykilþáttum í nýsamþykktri sameiningu sveitarfélaganna og mikilvægt að framkvæmdum við þau ljúki sem fyrst.
Í tengslum við sameiningu sveitarfélaganna er einnig ástæða til að fagna því að í sérstakri aðgerðaráætlun í samgönguáætlun sé lagt upp með það heillavænlega skref að flýta framkvæmdum við Axarveg frá fyrri áætlun. Um er að ræða mikla samgöngubót bæði innan svæðis sem og milli landshluta sem sveitarfélögin á Austurlandi hafa árum saman lagt áherslu á að af yrði. Fram hefur komið stuðningur, bæði hjá einstökum sveitarfélögum á svæðinu sem og sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, við þá hugmynd að framkvæmdin verði að hluta til fjármögnuð með gjaldtöku.
Þegar litið er til samgönguáætlunar 2020-2024 sem liggur fyrir til umsagnar þá er fært til bókar neðanmáls undir Axarvegi svohljóðandi texti:
Leitað verði leiða til að fjármagna Axarveg og Hringveg um Hornarfjarðarfljót í samstarfi við einkaaðila (50%).
Að mati sveitarfélaganna er ástæða til að í þessum texta felist skýrari stefnumörkun um að ráðast skuli í framkvæmdina á þeim forsendum að gjaldtaka standi undir helmingi kostnaðar við hana, burtséð frá því hvaða útfærsla verður endanlega á því. Til að orðalag valdi ekki mistúlkun eða feli í sér ónákvæma stefnu er lagt til að í stað framangreinds texta komi eftirfarandi:
Fjármögnun Axarvegar og Hornafjarðarfljóts verði tryggð að fullu þannig að 50% fjármögnunarinnar verði í samstarfi við einkaaðila sé sá kostur fyrir hendi en ellegar með lántöku af hálfu Vegagerðar. Að loknum framkvæmdum verði lagt á hæfilegt veggjald til uppgreiðslu framkvæmdakostnaðar.
Sveitarfélögin hvetja til þess að Egilsstaðaflugvöllur verði skilgreindur sem meginvaraflugvöllur alþjóðaflugs og Isavia verði falinn rekstur hans með skýrum fyrirmælum ríkisins um uppbyggingu og fjárfestingar á vellinum. Sé varaflugvallargjald, sem gert er ráð fyrir í áætluninni, forsenda uppbyggingar vallarins þarf að koma því á samhliða afgreiðslu samgönguáætlunar á Alþingi.
Kópavogi 31. október 2019
Efni: Drög að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024
Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) ítrekar umsögn sem send var Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þann 25. október 2018.
Það vekur furðu að í þeirri áætlun sem lögð er fram er aðeins gert ráð fyrir að 30 milljónir renni til nýframkvæmda á einum flugvelli næstu fimm árin.
Framkvæmdir við stækkun flughlaða og byggingu akbrauta á Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll þola ekki bið.
Þann 2. apríl 2018 skapaðist nokkuð alvarlegt ástand þegar sjö flugvélar þurftu að hverfa frá Keflavíkurflugvelli, ein lenti í Edinborg, tvær á Akureyri og fjórar á Egilsstöðum. Þeir kerfislægu brestir sem komu fram í þeirri atburðarás voru margir hverjir fyrirsjáanlegir og eru enn til staðar.
Isavia sem rekstraraðili hefur að mikilli fyrirhyggjusemi haldið saman lista um nauðsynlegt viðhald sem framundan er á flugvöllum landsins. Isavia sendi ítarlega umsögn umsamgönguáætlun á síðasta ári og á meðal fylgiskjala er níu blaðsíðna listi sem lýsir óviðunandi ástandi á flugvöllum landsins.
https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-800.pdf
Í þeirri áætlun sem nú er lögð er fram koma sannarlega fram hærri fjárhæðir til að sinna viðhaldi og endurnýjun búnaðar. Það er skref í rétta átt en nægir þó ekki til að fyrirbyggja frekari hrörnun flugvallanna.
Vanfjárfesting síðustu ára hefur valdið brestum í flugvallakerfinu sem almenningi eru huldir en eru engu að síður alvarleg ógn við flugöryggi.
Í skýrslu um Félagshagfræðilega greiningu á framtíð áætlunarflugs innanlands, sem Innanríkisráðuneytið gaf út árið 2014 kemur fram að flugvallarkerfið er í heild sinni þjóðhagslega arðbært. Í niðurstöðum kostnaðar-/ábatagreiningar var ábati af innanlandsflugvallakerfinu á landsbyggðinni metinn um 70,8 milljarðar króna miðað við arðsemistímann 2013-2053. Þjóðhagslegur ávinningur samfélagsins af útgjaldakrónu hins opinbera til flugvallanna og flugsins í heild er 1,48 kr, þ.e. þjóðhagsleg arðsemi fjárfestingarinnar í flugvallakerfinu og fluginu á landsbyggðinni umfram útgjöld er 48%. Ætti það því að teljast ábyrg ráðstöfun á almannafé.
Flug skiptir verulegu máli fyrir hagvöxt og atvinnusköpun landsins og er mikilvæg stoð í hagkerfinu. Í þessu sambandi vill ÖFÍA vinsamlega minna á skýrslu Oxford Economics frá árinu 2012 um flugstarfsemi á Íslandi. Þar kemur fram að flugrekstur hefur veruleg áhrif á íslenskt efnahagslíf og stóð þá undir 6,6% af landsframleiðslu. Eftir mikinn vöxt síðustu ára telja heimildarmenn okkar að framlagið sé nú að nálgast 13% miðað við sömu forsendur.
ÖFÍA skorar á stjórnvöld að ráðast í þær nauðsynlegu nýframkvæmdir sem flugiðnaðurinn hefur sýnt framá að séu nauðsynlegar og sinna viðhaldi flugvalla landsins með sómasamlegum hætti til þess að tryggja flugöryggi og augljósa almannahagsmuni.
Virðingarfyllst,
Ingvar Tryggvason
Formaður ÖFÍA
ViðhengiUmsögn um drög að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaráætlun 2020-2024.
Fljótsdalshérað fagnar því að fram komi í áætlun áhersla á viðhald tengivega og að leggja þá bundnu slitlagi. Slíkum fyrirheitum þurfa þó að fylgja fullnægjandi fjármunir. Einnig er mikilvægt að auknu fé verði ráðstafað í styrkvegi, sem og göngu- og hjólastíga meðfram þjóðvegum. Minnt er á að þörf fyrir slíka stíga er ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu heldur er þörf á stórátaki í uppbyggingu þeirra um land allt.
Þá vill Fljótsdalshérað sérstaklega hvetja til þess að framkvæmdum við Upphéraðsveg verði hraðað. Þar vantar sáralítið upp á að ljúka við að klæða allan veginn með bundnu slitlagi og vegurinn allur er mikilvæg aðkomuleið ferðafólks að og frá vinsælum ferðamannastöðum á Héraði.
Fljótsdalshérað fagnar fyrirhuguðum framkvæmdum á Jökuldalsvegi (Gilsá-Arnórsstaðir) en bendir á að á undanförnum tveimur árum hefur umferð ferðafólks um veginn stóraukist og að óhjákvæmilegt er að þar verði ráðist í frekari vegabætur á komandi árum. Þess sér þó ekki stað í langtímaáætlun og er brýnt að úr því verði bætt.
Fljótsdalshérað lýsir yfir vonbrigðum með að framkvæmdum við Borgarfjarðarveg seinki frá fyrri áætlun, enda brýnt að sá vegur verði að fullu lagður bundnu slitlagi sem fyrst. Hið sama gildir um byggingu nýrrar brúar yfir Lagarfljót. Sveitarfélagið leggur áherslu á að sá tími sem líður þar til framkvæmdir hefjast verði nýttur skynsamlega og að Vegagerðinni verði tryggðir fjármunir til að vinna að hönnun og ítarlegra kostnaðarmati framkvæmdanna.
Vatnsnesvegur 711
Ég er afskaplega þakklát fyrir að Vatnsnesvegur er kominn á samgönguáætlun. En framkvæmdir þurfa að hefjast sem allra fyrst helst næsta vor. Ég held að ráðamenn viti ekki ekki hversu slæmur þessi vegur er því með því að auglýsa og opna Norðurstrandaleið er stóraukin umferð, sem vegurinn þolir ekki og er nánasr ófær í rigningartíð.
Íbúar þurfa að sækja atvinnu eftir þessum ónýta vegi , og börn í skóla og leikskóla. Ferðamenn hafa sennilega aldrei keyrt slíka vegleysu og fá sennilega engar leiðbeiningar um akstur á svona vegi og vita ekki til hvers útskotin erusvo allir vegfarendur eru í stór hættu. Ég von þessvegna að umbætur komi sem allra fyrst.
Umsögn um samgönguáætlun.
Í drögum að samgönguáætlun fyrir árinn 2020 til 2024 er ekki að finna fjárveitingar til nýframkvæmda á Akureyrarflugvelli.
Þetta er með öllu óásættanlegt með tilliti til mikilvægis flugvallarins bæði fyrir íbúa á upptökusvæði hans, millilandaflug, flugöryggi almennt og sjúkraflug.
Samkvæmt drögum að flugáætlun er Akureyrarflugvöllur skilgreindur sem alþjóðaflugvöllur sem þá gegnir jafnframt hlutverki varaflugvallar fyrir millilandaflug.
Flugbraut vallarins hefur verið lengd og fullnægir því kröfum hvað það varðar. Á næstu dögum verður vonandi tekinn í notkun nýr aðflugsbúnaður sem eykur öryggi til muna sem þá verður með því besta sem gerist.
Með tilliti til þessa er það óforsvaranlegt að nýta ekki Þessa fjárfestingu með því m.a. að ljúka gerð flughlaðs sem er of lítið og bæta aðstöðu í flugstöð með stækkun hennar eða með nýbyggingu.
Hvað varðar nýtilkomnar hugmyndir Ísavia um umferð sem til þarf til að halda úti alþjóðaflugvelli er rétt að halda eftirfarandi til haga.
Efast má um áreiðanleika þeirra útreikninga sem lagðir eru til grundvallar.
Millilandaflug um Akureyrarflugvöll hefur farið vaxandi og mun halda áfram að vaxa svo fremi sem nauðsynlegar úrbætur verði gerðar.
„Dreifing“ erlendra gesta um landið hefur verið áhugamál margra ekki síst innan stjórnsýslunnar.
Óhófleg áhersla m.a. Ísavía á stækkun og viðbætur Keflavíkurflugvallar er úr takti við ofanskráð og á flestan hátt óviðunnandi. Í stað þess þenja völlinn út eins og gert hefur verið undanfarið á að beina umferð á aðra flugvelli svo sem Akureyrarflugvöll.
Því verður ekki trúað að drög að samgönguáætlun verði samþykkt eins og þau liggja fyrir og vænti ég þess að Alþingi sjái sóma sinn í því að hlúa að flugsamgöngum með viðunnandi fjárfarmlagi til flugvalla.
Franz Árnason
Hamarstíg 1
600, Akureyri
Sími 8944325
Netfang franz@nett.is
Ég undirrituð vil tjá mig um samgönguáætlunina 2020 -2034. Okkur í héraðinu er afar áríðandi að þessi áætlun verði flýtt, þá á ég við Vatnsnesveg. Er ég þá með í huga okkur heimamenn sem finnst ekkert sumar nema fara einu sinni í kringum fjallið, börnin sum hver sem verða að ferðast með skólabíl þessa löngu leið á ófærum vegi, íbúana fara í kaupstað og alla túristana sem hafa styrkt Kaupfélagið okkar og mjög margir einstaklingar sem hafa ágætar tekjur af þeim og þar með samfélagið í heild.
Virðingarfyllst Brynja Bjarnadóttir
Lækjargötu 8
530 Hvammstanga.
Gistiheimili Lækjargötu 8
530 Hvammstanga.Leyfishafi Brynja Bjarnadóttir.
Meðfylgjandi er umsögn SVÞ - Samtaka og verslunar og þjónustu um drög að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024.
ViðhengiHjálagt er umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga um drög að Samgönguáætlun 2020-2034. Kjarni umsagnarinnar er að með flýtingu verkefna innan samgönguáætlunar geti stjórnvöld hraðað byltingu í samfélögum og atvinnulífi á Vestfjörðum. Harðlega er mótmælt þeirri tillögu um að seinka framkvæmdum um Veiðileysuháls, en Árneshreppur er eina byggðarlag þar sem heilsársamgöngur við aðra landshluta eru ekki tryggðar á landi eða sjó.
ViðhengiNorlandair vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemd á samgönguáætlun eins og hún liggur fyrir núna. Er hér sérstaklega átt við þá staðreynd að ekki er fyrirhugað að veita neinu fé í nauðsynlega uppbyggingu / nýframkvæmdir á Akureyrarflugvelli næstu 5 árin.
Norlandair hefur sinnt leiguflugi og áætlunarflugi frá Akureyri til Nerlerit Inaat á austurströnd Grænlands, ásamt því að sinna áætlunarflugi til Vopnafjarðar, Þórshafnar og Grímseyjar.
Saga leiguflugs Norlandair til Grænlands og á Grænlandi á sér langa sögu og hófst fyrir alvöru í upphafi níunda áratugarins. Breytingar á markaðsaðstæðum gerðu það að verkum að það var farið í undirbúning árið 2012 að setja á fót reglulegt áætlunarflug til Grænlands frá Akureyri. Varð það úr að reglubundið áætlunarflug til Grænlands hófst þann 1.mars 2013 og stendur enn í dag, er þetta eina millilandaflug í áætlun á ársgrundvelli sem flogið er frá Akureyrarflugvelli.
Þegar verið var að undirbúa þetta flug, ásamt öðrum áætlunum um framtíðarvöxt félagins, var sótt um nýja lóð til ISAVIA á Akureyri til að byggja nýtt og betra flugskýli sem myndi henta betur núverandi og fyrirhuguðum framtíðarrekstri. Lóðarumsókn var undirbúin og send til ISAVIA þann 1.ágúst 2012. Neikvætt svar barst frá ISAVIA 24.apríl 2013 þar sem engar lóðir voru tiltækar, en sótt var um lóð á væntanlegri uppfyllingu norðan við núverandi flugstöð. Á þessum tíma höfðu bæði ráðherrar og aðrir þingmenn fullyrt í okkar eyru að það yrði gengið frá þessari uppfyllingu þannig að hægt væri að koma upp aðstöðu þar innan tiltölulega skamms tíma. Nú, árið 2019, heilum 7 árum frá því að farið var í umsóknarferli fyrir byggingarlóð, er staðan sú að það vantar töluvert af efni í uppfyllinguna og þar sem ekki er fyrirhugað að setja neina peninga í uppbyggingu á Akureyrarflugvelli þá gætu bæst við önnur 5 ár, eða 12 ára biðtími í heildina.
Í krefjandi rekstrarumhverfi sem flugrekstur er, þá gefur augaleið að 12 ára biðtími er óraunhæfur. Því hefur verið horft til annara svæða, t.d. Grænlands, til framtíðaruppbyggingar á félaginu og ef samgönguáætlun verður samþykkt eins og hún liggur fyrir þá er ljóst að það þarf að setja aukinn kraft í þá vinnu.
F.h. Norlandair
Arnar Friðriksson, Sölu- og Markaðsstjóri
Meðfylgjandi er umsögn sveitarstjórnar Skútustaðahrepps.
Virðingarfyllst,
Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri
ViðhengiUmsögn reiðveganefndar hestamannafélagsins Fáks, Reykjavík.
Í drögum að samgönguáætlunum til næstu 15 ára, bls. 14, kemur fram að gert er ráð fyrir að reiðvegafé á landsvísu verði óbreytt á árunum 2020 til 2024 þ.e. 75 m.kr. á ári, eða 375 m.kr. á fimm ára tímabili.
Hestamenn telja hvergi nærri nóg lagt í þennan málaflokk til uppbyggingar og viðhalds reiðvega, sem er undirstaða hestamennsku og hestatengdrar ferðaþjónustu í landinu. Framlög ríkis og sveitarfélaga undanfarna áratugi hafa hvergi nærri uppfyllt fjárþörf til reiðvegamála.
Undanfarin ár hafa umsóknir hestamannafélaganna í reiðvegafé verið á bilinu 280 til 330. m.kr. bæði til nýbygginga og viðhalds eldri reiðvega. Árið 2009 var reiðvegafé 70.0 m.kr.. Árið 2010 var reiðvegafé skorið niður í 60,0 m.kr. og hélst óbreytt til 2019 að það hækkaði í 75,0 m.kr. Ef horft er til þróunar byggingavísitölu hefði reiðvegafé átt að vera 107,6. m.kr. árið 2019. Það hafa því engar raun hækkanir verið til þessa málaflokks frá árinu 2009, heldur þvert á móti veruleg skerðing orðið á framlagi ríkisins til reiðvegamála.
Hestamennska er þriðja fjölmennasta íþróttagrein landsins skv. skráðum iðkendafjölda innan ÍSÍ og eru nú um 12 þúsund skráðir félagar í 45 hestamannafélögum. Það segir þó bara hálfa söguna því mikill fjöldi landsmanna stundar hestamennsku um land allt án þess að vera skráður í hestamannafélag og er í dag áætlað að um 35 þúsund íslendingar stundi hestamennsku að staðaldri.
Mikill fjöldi erlendra ferðamanna kemur gagngert til landsins vegna íslenska hestsins og hestatengd starfsemi skapar þjóðarbúinu gríðarlega fjármuni á ársgrundvelli. Sem dæmi má nefna:
• Árið 2001 voru gjaldeyristekjur af hestamennsku 7,5 milljarðar kr. samkvæmt könnun Ferðamálaráðs og heimild Hagstofunnar.
• Árin 2001 til 2003 sóttu um 280 til 300 þús. erlendir ferðamenn landið heim. Af þeim sóttu um 14% afþreyingu í íslenska hestinn að sumarlagi og um 8% að vetrarlagi.
• Gera má ráð fyrir að um 287 þúsund erlendir ferðamenn hafi farið á hestbak árið 2018 meðan á dvöl þeirra stóð hérlendis.
• Gjaldeyristekjur af útflutningi hrossa nemur á tólf ára tímabili 10,9 milljörðum kr. þ.e. frá 2007 – 2019.
• Árið 2014 var áætlað að velta hestaleiga og hestaferðafyrirtækja hérlendis væri 2,5-3 milljarðar. Ætla má að heildarvelta hestaleiga og hestaferðafyrirtækja hérlendis hafi verið 7-8 milljarðar á árinu 2018.
• Landsmót hestamanna er haldið annað hvert ár og er gestafjöldi 8-10 þús. Um 1/3 gestafjöldans eru erlendir gestir.
Allt þetta styður það að 75 milljónir á ári til reiðvegagerðar á landsvísu er alls ófullnægjandi. Þá fjárhæð þyrfti að fjórfalda til að koma til móts við umsóknir hestamannafélaganna um fé til reiðvegaframkvæmda.
Góðan dag,
meðfylgjandi er sameiginleg umsögn SA og SI um mál nr. 257/2019.
Virðingarfyllst,
Björg Ásta Þórðardóttir,
lögfræðingur SI
ViðhengiEfni: Athugasemdir Samherja hf. við drög að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024.
Samherji hf. kt. 610297-3079 gerir eftirfarandi athugasemdir við ofangreind drög að fimm ára aðgerðaráætlun 2020-2024.
- Ekki er gert ráð fyrir að ljúka við flughlað Akureyrarflugvallar.
Í mörg ár hefur verið beðið eftir að flughlað Akureyrarflugvallar verði stækkað án þess að því verki hafi verið lokið. Nú er búið að keyra umtalsverðu magni af efni í hlaðið en enn vantar að ljúka verkinu þannig að það geti nýst starfsemi á vellinum. Flughlaðið er forsenda þess að hægt sé að byggja upp atvinnulóðir á flugvellinum, en fyrirtæki á svæðinu hafa viljað byggja alllar götur síðan 2013. Þetta hamlar frekari uppbyggingu fyrirtækja sem starfa í tengslum við völlinn, þar með talið Norlandair ehf, sem Samherj hf. er hluthafi í. Meðan flughlaðið er ekki tilbúið getur Norlandair ekki byggt upp framtíðaraðstöðu eins og nauðsynleg er til uppbyggingar á fyrirtækinu. Eins er ástatt með önnur fyrirtæki sem eru í vexti.
- Ekki er gert ráð fyrir stækkun flugstöðvar Akureyrarflugvallar.
Núverandi flugstöð á Akureyrarflugvelli annar eingöngu innanlandsflugi svo vel sé. Aðstaða fyrir farþega í millilandaflugi er ekki boðleg og rúmar ekki farþega einnar vélar. Undanfarin ár hefur verið unnið að því að fá reglubundið millilandaflug með farþega, sem gæti m.a. nýst Samherja hf. fyrir flutning á ferskum fiski, en eitt af því sem stendur í veginum er bág aðstaða fyrir farþega í flugstöðinni. Flugfélög geta ekki boðið farþegum sínum upp á sómasamlega aðstöðu, hvorki við komu eða brottför. Farþegar þurfa t.a.m. að standa úti að vetri til í biðröð eftir vegabréfaskoðun.
Þá er það mjög mikilvægt, fyrir Samherja hf. og önnur fyrirtæki á svæðinu í alþjóðlegri starfsemi, að aðstaða í flugstöðinni á Akureyri sé boðleg til að flugfélög setji það ekki fyrir sig þegar þau meta kosti og galla þess að fljúga til Akureyrar. Samherji hf. er í miklum samskiptum við fjölda aðila erlendis og með um 1000 starfsmenn, sem margir eru mikið á ferðalögum og því skiptir miklu máli að það sé reglulegt millilandaflug um Akureyrarflugvöll. Það er sjálfsögð krafa að ríkisvaldið standi ekki í vegi fyrir þróun alþjóðaflugs með því að draga enn frekar að veita fjármunum í nauðsynleg verkefni til uppbyggingar, sérstaklega þegar um lágar upphæðir er að ræða í samhengi aðgerðaáætlunar til næstu 5 ára. Það er eðlileg krafa að aðstaða til fyrirtækjarekstrar, vaxtar og viðgangs sé fullnægjandi á landinu öllu.
Umsögn við fimm ára samgönguáætlun - Jarðböðin við Mývatn
Jarðböðin við Mývatn gera alvarlegar athugasemdir við nýja Samgönguáætlun og þá sérstaklega að engu fjármagni skuli vera varið í uppbyggingu Akureyrarflugvallar og einungis 78 milljónum til viðhalds Akureyrarflugvallar næstu 5 árin.
Jarðböðin við Mývatn er ferðaþjónustufyrirtæki sem starfar á heilsársgrundvelli. Það hefur sýnt sig vel hjá okkur hversu gríðarlega miklu máli það skiptir að fá beint flug til Akureyrar, þá sérstaklega yfir vetrartímann þegar færri ferðamenn heimsækja Norðurland. Fleiri heilsársstörf verða til og atvinnulífið á svæðinu styrkist í heild sinni. Þetta sáum við greinilega með tilkomu Superbreak og nú með Voigt Travel.
Samkvæmt tillögu til þingsályktunar eru markmið Samgönguáætlunar eftirfarandi:
- Þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum samfélagsins
- Sjálfbærar byggðir og sveitarfélög um land allt
o Eitt leiðarljósa þessa markmiðs er að ,,við forgangsröðun aðgerða verði tekið tillit til óska sveitarstjórna og sóknaráætlana landshluta”.
Í SVÓT greiningu fyrir Norðurland eystra er ein af ógnum svæðisins sú að samkeppnisskilyrði atvinnulífs eru skökk, s.s. í samgöngum og flutningum. Jafnframt kemur fram í sóknaráætluninni að byrja verði á því að tryggja millilandaflug.
Þegar tillaga til þingsályktunar fyrir árin 2020-2034 er lesin kemur fram undir lið 2.1.4, að samgöngukerfið eigi að taka tillit til þarfa ferðaþjónustunnar og dreifingu ferðamanna um landið. Farsælasta leiðin til þess er að augljóslega að opna fleiri gáttir inn í landið og ná þannig betri dreifingu. Jarðböðin við Mývatn finna vel fyrir aukinni eftirspurn eftir beinu flugi norður og það eru því mikil vonbrigði að sjá hversu litla athygli flugvellir utan SV-hornsins fá. Þá er vert að vísa í Flugstefnuna, þar sem segir að “reglulegt millilandaflug til annarra flugvalla hér á landi en Keflavíkurflugvallar er mikilvægt fyrir atvinnulíf utan höfuðborgarsvæðisins og eykur frekar lífsgæði íbúa”. Það er reyndar undarlegt að halda áfram lestri á Flugstefnunni, þar sem varaflugvellir á Egilsstöðum og Akureyri virðast eiga meira upp á pallborðið en eiginlegir millilandaflugvellir.
Er verið að taka tillit til óska sóknaráætlunar landshlutans? Er verið að fylgja eftir þeim markmiðum sem sett eru fram í Samgönguáætlun? Það gefur auga leið að samkeppnisskilyrði atvinnulífs á Norðurlandi eystra munu ekki eflast með þessu örlitla fjármagni og að tryggt millilandaflug hverfur okkur sjónum.
Ef vilji stjórnvalda er í raun að efla og jafna atvinnulíf, styrkja samgöngur, fjölga millilandaflugvöllum og dreifa ferðamönnum, þá hljótum við að sjá breytingu á drögum að Samgönguáætlun.
Að lokum taka Jarðböðin heilshugar undir með Markaðsstofu Norðurlands og fleiri góðum athugasemdum sem hér hafa borist varðandi uppbyggingu á nýjum fluggáttum til landsins.
Virðingafyllst.
f.h. Jarðbaðanna hf.
Guðmundur Þór Birgisson
Drög að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024, ásamt fylgiskjali
Viðhengi ViðhengiFyrir hönd hótelhaldara i Djúpavík í Árneshreppi mótmæli ég því harðlega að enn einu sinni á að draga lappirnar varðandi uppbygginu heilsárs vegar yfir svokallaðan Veiðleysuháls. Í um 35 ár höfum við fjölskyldan haldið úti heilsárs þjónustu á svæðinu og samhliða því höfum við kallað á betri samgöngur allt árið um kring. Það er skemmst frá því að segja að lítið hefur þokast í þeim málum en engar stórar vegabætur hafa átt sér stað innan sveitarinnar síðan 1994. Árneshreppur er eini hreppur landsins sem þarf að búa við það að vera lokaður af landleiðina í 3 mánuði á ári. Í því samhengi get ég bent á að það er verið að brjóta jafnræðisregluna á fyrirtækinu okkar þar sem okkur er gert ómögulegt að halda úti hefðbundnum rekstri í janúar, febrúar og mars. Á sama tíma gerum við ekkert annað en að hafna bókunum ferðamanna sem vilja upplifa Strandir í öllu sínu vetrarveldi. Ekki er hægt að benda á að ríkið heldur úti flugi á Gjögur en það nýtist lítið okkar viðskiptavinum en Kjörvogshlíðin er líka erfið yfirferðar á vetrum. Þar fyrir utan verður innanlandsflug seint fyrsti kostur erlendra ferðmanna til að ferðast um landið miðað við núverandi fyrirkomulag. Það er ljóst að ef enn einu sinni verður dráttur á vegauppbygginu á svæðinu (eða til 2029 í seinasta lagi) verður engin byggð við þennan enda vegarins. Þessi fyrirætlan er til skammar. Nú í dag er Árneshreppur flokkaður í hóp brotthættra byggða, því er þetta ekki í takti við svo kallaðar byggðaaðgerðir. Það yrði þessari ríkisstjórn undir forystu VG til ævarandi skammar ef þessi gamla heimasveit mín legði upp laupanna á þessu kjörtímabili sem er raunverulegur möguleiki á. Að lokum biðla ég til þingmanna allra að koma í veg fyrir þessa hneisu og sameinast um að hlúa að þessari merkilegustu sveit landsins. Horfa frekar í það sem sveitin gæti mögulega haft fram að færa og gera fólki kleift að virkja þau tækifæri sem eru þar til staðar. Staðan er erfið en ekki ómöguleg það býr enn harðduglegt fólk í sveitinni. Árneshreppur er ekki enn farinn í eyði!!
Hjálögð er umsögn byggðarráðs Dalabyggðar um samgönguáætlun til fimm ára og samgönguáætlun 2020-2034.
ViðhengiUmsögn byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkt á 886. fundi byggðarráðs þann 31. október 2019
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir yfir miklum vonbrigðum með tillögu að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaráætlun 2020-2024. Í áætlununum er gert ráð fyrir tæpum 400 m.kr til samgönguframkvæmda í Sveitarfélaginu Skagafirði, af 632,8 milljörðum króna sem alls er úthlutað til samgöngumála á tímabilinu. Þetta gerir 0,06% af úthlutuðu fjármagni til samgöngumála sem renna til framkvæmda í Skagafirði. Ef miðað væri við hlutfall íbúa Skagafjarðar af heildaríbúafjölda landsins og sama hlutfall rynni til Skagafjarða af úthlutuðu fé til samgöngumála, þá ættu ríflega 7,4 milljarðar króna að renna til framkvæmda í samgöngumálum í Skagafirði. Sérstök vonbrigði eru að ekki er tekið tillit til umsagnar byggðarráðs við grænbók um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi. Gerð er alvarleg athugasemd við að ekki sé gert ráð fyrir Sauðárkróksflugvelli sem hluta af flugvöllum í innanlandskerfinu. Um áratugaskeið hefur verið reglubundið áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Sauðárkróks og eru væntingar til þess að það hefjist að nýju við innleiðingu „skoskrar leiðar“ í stuðningi við notkun íbúa á landsbyggðinni á innanlandsflugi sem einn þátt nauðsynlegra almenningssamgangna. Ólíðandi er með öllu að Norðurland vestra sé eini landshlutinn utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar sem ekki nýtur flugsamganga við þessa miðstöð stjórnsýslu og þjónustu í landinu. Reglulegt áætlunarflug á milli höfuðborgarinnar Reykjavíkur og Sauðárkróks skiptir mjög miklu máli varðandi samkeppnisstöðu, þjónustu og mannlíf á Norðurlandi vestra. Þá skiptir reglulegt áætlunarflug mjög miklu máli í þjónustu við vaxandi fjölda ferðamanna sem sækja svæðið heim. Nauðsynlegt er að gera breytingar á samgönguáætlun sem gera ráð fyrir Sauðárkróksflugvelli sem hluta af flugvöllum í innanlandskerfi. Þá er ólíðandi með öllu að ekki séu markaðar fjárveitingar til neinna vegaframkvæmda í Skagafirði í samgönguáætlun. Enn fremur að ekki sé gert ráð fyrir neinum fjármunum til undirbúnings og framkvæmda við jarðgöng á Mið-Norðurlandi. Brýn þörf er fyrir jarðgöngum á milli Fljóta og Siglufjarðar sem leysa myndu af hólmi hættulegan veg um Almenninga, veg sem hvenær sem er getur sigið og hrunið í sjó fram. Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar og bæjarstjórn Akureyrar sendu jafnframt fyrr á þessu ári frá sér áskorun til stjórnvalda um að fjármagna grunnrannsóknir og samanburð á kostum á legu mögulegra jarðganga undir Tröllaskaga, auk rannsókna á samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkra ganga. Ekki er stafkrók að finna um þann undirbúning í samgönguáætlun. Athygli vekur enn fremur hve rýrar fjárveitingar eru til reiðvega í samgönguáætlun en bæta þarf verulega í þann lið. Þá vekur furðu að ekki sé gert ráð fyrir fé til hjólreiðastíga í Skagafirði, einu fjölmennasta sveitarfélagi landsbyggðarinnar þar sem er að finna 4. stærsta þéttbýliskjarnann á landsbyggðinni, utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar á Hvítár/Hvítársvæðinu. Þakka ber fyrir það fé sem veitt er til framkvæmda í höfnum Skagafjarðar. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir til Vegagerðar og samgönguráðuneytis er þó ekki að finna fjárveitingar til kaups á nauðsynlegum dráttarbát í Sauðárkrókshöfn né til framkvæmda við nýjan hafnargarð á Sauðárkróki. Nauðsynlegt er að endurskoða samgönguáætlun og veita fé til beggja verkefna á fimm ára samgönguáætlun.
Ágæti viðtakandi,
Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024.
Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.
Með góðum kveðjum
F.h. SAF
Gunnar Valur Sveinsson
ViðhengiBæjarráð Akureyrar lýsir yfir miklum vonbrigðum með framlagða Samgönguáætlun og Flugstefnu 2020-2034 sem liggur nú frammi til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda. Stefnurnar ganga þvert á markmið um að jafna álag á náttúru landsins og stuðla að atvinnuuppbyggingu um land allt.
Miklum kröftum hefur verið varið til að byggja upp ferðaþjónustu, afþreyingu, hótel og innviði á Norðurlandi á síðustu árum. Ennfremur er markaðssetning heimamanna undanfarin ár farin að skila árangri með auknum áhuga erlendra flugrekenda. Þá hefur flestum flugtæknilegum hindrunum verið rutt úr vegi á Akureyrarflugvelli.
Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að byggja upp varaflugvelli í landinu og í Samgönguáætlun er sérstaklega rætt um að leggja eigi á varaflugvallargjald til þess að mæta uppbyggingu varaflugvalla á Akureyri, Reykjavík og Egilsstöðum. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum til þessara framkvæmda sem er afar sérstakt.
Bæjarráð Akureyrarbæjar krefst þess að haldið verði áfram með þróun á Akureyrarflugvelli sem alþjóðaflugvelli. Það er algjört lykilatriði fyrir íbúaþróun á landsbyggðinni að Akureyrarflugvöllur verði byggður upp sem alþjóðaflugvöllur þannig að byggja megi upp millilandaflug en ekki síður að völlurinn uppfylli allar þarfir sem varaflugvöllur.
Þá vill bæjarráð benda á að framkvæmdir við stækkun flughlaðs hófust 2013 og ótækt að skilja við hálfklárað verk í bæjarlandinu.
Að öðru leyti tekur bæjarráð Akureyrarbæjar undir athugasemdir Markaðsskrifstofu Norðurlands við Samgönguáætlun og Flugstefnu 2020-2034.
Hér má finna athugasemdir Húnavatnshrepps
ViðhengiÍ viðhengi er umsögn frá sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar.
M.b.kv.
Katrín Sigurjónsdóttir,
sveitarstjóri.
ViðhengiAf ferð um landið er ljóst að ekki er hægt að gera allt í einni aðgerð því víða eru brotalamir
nokkur verkefni ættu að vera einfaldari og ódýrari en létta mörgum kostnað og erfiði.
1. setja strax brú og svo veg um Teigsskóg og sleppa viðhaldi á fjallvegum
2. Vatnesveg sem er löngu ófær.
3. Göng frá Siglufirði áður en hlíðin fellur í sjó fram sem nú er ekin. (á unda Tröllaskaga)
4. Ljúka flughlaði á akureyrarflugvelli (efni allt til í nærumhverfi)
5. Flýta vegagerð yfir Hornafjarðarós (klára strax umræðu um staðsettningu áður en fram er haldið).
6. klára sem fyrst tvöföldunina frá Hveragerði með áætlun um lokaframgang að nýrri brú yfir ölfusá.
Að þessu loknu (2 - 3 ár) setja s.k. Innstrandarvegaáætlun á framkævmdarlista sem og Seyðisfjarðargöng auk tengingar höfuðborgar við Kjalarnes.
Meðfylgjandi er bókun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar vegna samgöngustefnu, sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar 31.október 2019.
ViðhengiAtvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar fagnar þeirri miklu og góðu framtíðarsýn sem ríkir í Samgönguáætlun 2020-2034. Þar eru dregnir fram mikilvægir hlutir sem lýsa skýrri framtíðarstefnu í byggðarmálum alls landsins. Almenningssamgöngur á landi, lofti og legi eru gríðarlega mikilvægar fyrir land eins og Ísland. Mikilvægi Reykjavíkurflugvallar, nýjar gáttir inn í landið, uppbygging alþjóðaflugvalla utan Keflavíkur og styrking almenningssamgangana um allt land eru dæmi um mikilvæga innviðauppbyggingu. Það að innanlandsflug verði skilgreint sem almenningssamgöngur og að skoska-leiðin ( liður 4,5 og markmið nr.6) verði að veruleika eru dæmi um mikilvægar aðgerðir sem þurfa að verða að veruleika sem fyrst.
Þegar aðgerðaráætlun samgönguáætlunar 2020-2024 er skoðuð kemur hins vegar í ljós að sú framtíðarsýn og markmið sem upp eru talin í samgönguáætlun fá ekki fjármagn næstu 5 árin. Hér fara ekki saman orð og efndir og góð áætlun missir marks. Almennt er hægt að fullyrða að Norðurland eystra beri skarðan hlut frá borði við skiptingu fjármagns milli landshluta.
Í lið 2.1 kemur fram að 1.319 milljónum verði varið í Alþjóðaflugvelli næstu 5 árin. Þar af eru aðeins áætlaðir 78 milljónir í Akureyrflugvöll vegna reglubundins viðhalds. Þetta þýðir að Akureyrarflugvöllur mun ekki komast í viðunandi horf á þeim tíma og gengur því þvert á stefnu stjórnvalda um uppbyggingu innanlandsflugs sem almenningssamgangna og uppbyggingu Akureyrarflugvallar sem alþjóðarflugvallar líkt og kemur fram í samgönguáætlun.
Í lið 2.2. er gert ráð fyrir óbreyttri þjónustu á flugvöllum sem er óviðundandi og gerir Atvinnuþróunarfélagið alvarlegar athugasemdir enda mun þjónustan skerðast saman næstu árin að óbreyttu.
Í lið 2.2.2 gerir Atvinnuþróunarfélagið athugasemd við að aðbúnaður fyrir farþega komist ekki á þennan lista, þjónusta við farþega er grundvallar þáttur í farþegaflugi.
Í lið 4.4. nr. 7 aðgerðaráætlunarinnar kemur fram að velja skuli vistvæna kosti eins og kostur er í almenningssamgöngukerfinu. Samt er hvergi minnst á rafvæðingu Hríseyjarferju eða kaup á nýrri rafvæddri ferju, sem búið er að sýna fram á að borgi sig upp á örfáum árum.
Í lið 4.5 í markmiðum um jákvæða byggðaþróun kemur fram kemur að leiðakerfi almenningssamgangna verði endurskoðað með samræmdum viðmiðum um þjónustu. Í aðgerðaráætluninni er þetta markmið hvorki útfært frekar eða fjármagnað.
Líkt og kemur fram í þessari umsögn skiptir Akureyrarflugvöllur miklu máli fyrir byggðirnar í landinu enda er Akureyri stærsti þéttbýlisstaður utan höfuðborgarsvæðisins. Akureyri er miðstöð sjúkraflugs á Íslandi og hefur umferð millilandaflugs verið að aukast síðustu misseri og áform um að sú umferð aukist enn frekar. Árið 2018 var 80% aukning á umferð um flugvöllinn frá fyrra ári.
Skilvirkar, nútímalegar og umhverfisvænar almenningssamgöngur skipta fólk úti á landi líka miklu máli og mjög brýnt að þeim sé gert hærra undir höfði en gert er í þessari aðgerðaáætlun.
Varðar veg 52 – Uxahryggjaveg.
Í drögum að 15 ára samgönguáætlun, 2020-2034, er ekki gert ráð fyrir framkvæmdum á vegi 52 fyrr en á tímabilinu 2025-2029. Skorum á Alþingi að breyta þessu og flytja þessar framkvæmdir á tímabilið 2020-2024.
Samkvæmt ákvörðun Vegagerðarinnar verður frá og með áramótum 2019/2020, vegnúmerum á þessari leið breytt til fyrra horfs þannig að vegur 52 verður frá vegi 36 við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum yfir á veg 50, Borgarfjarðarbraut, við Götuás. Samkvæmt tölum vegagerðarinnar eru þetta um 60 km og sá kafli sem eftir er að byggja upp 23 km. Síðustu ár merkjum við heimamenn mikla aukningu umferðar á þessari leið allt árið. Það skýrist m.a. af áhuga margra ferðamanna á að fara ákveðin hring í ferðalagi sínu um landið. Frá höfuðborgarsvæðinu á Snæfellsnes síðan um Borgarfjörð á Suðurland, Þingvelli/Gullfoss Geysir og/eða aðra staði, og aftur til Reykjavíkur, eða öfugt. Með því að hafa þessa leið greiðfæra má ætla að umferðarálag í kringum höfuðborgina minki. Einnig viljum við benda á að þegar ófært er fyrir Hafnarfjall og/eða Kjalarnes vegna veðurs, getur verið allt annað veðurfar á Uxahryggjaleið. Í því fellst ákveðið öryggi.
Ítrekum áskorun okkar til Alþingis að færa þessa framkvæmd á tímabilið 2020-2024.
RúnarHálfdánarson
Inga Helga Björnsdóttir
Þverfelli
Lundarreykjadal
311 Borgarnes
S.435-1400 / 899-3721 / 896-4086
tverfell@vesturland.is
Eftirfarandi er umsögn Djúpavogshrepps um drög að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaráætlun 2020-2024.
Djúpavogshreppur áréttar mikilvægi þess að fyrirliggjandi umsóknir um framlag vegna hafnarframkvæmda í Djúpavogshöfn í tengslum við stóraukin umsvif vegna fiskeldis verði fundinn staður innan fimm ára aðgerðaáætlunar 2020-2024.
Umsvif í Djúpavogshöfn hafa aukist mikið undanfarin ár og horfur eru á að umferð vegna fiskeldis sérstaklega, sæbjúgnaveiða og skemmtiferðaskipa eigi eftir að aukast umtalsvert. Þetta kallar á endurnýjun á stálþili á viðlegukanti sem víða er orðinn mjög lélegur og þarfnast endurnýjunar. Bryggjukantur og þekja þarfnast einnig verulegra endurbóta.
Gert er ráð fyrir að komið verði upp sameiginlegri aðstöðu fyrir slátrun á eldisfiski í Innri Gleðivík sem myndi þjóna öllum Austfjörðum. Viljayfirlýsing þess efnis hefur verið undirrituð og viðræður um framtíðaruppbyggingu sláturhúss á Djúpavogi eru í farvatninu. Framkvæmdir við fyrirhugaðan skjólgarð þar er því gríðarlegt hagsmunamál fyrir atvinnuuppbyggingu á Djúpavogi sem hefur orðið fyrir verulegum áföllum undanfarin ár tengt sjávarútvegi s.s. þegar 90% aflaheimilda voru fluttar annað 2014.
Í ljósi þess að núverandi ríkisstjórn hefur sett það á stefnuskrá sína að sameina og fækka sveitarfélögum í landinu er illskiljanlegt hvernig forgangsraðað hefur verið verkefnum á samgönguáætlun næstu árin og áratugina. Þar hefur enn einu sinni verið slegið út af borðinu að leggja fjármagn í Veiðileysuháls í Árneshreppi. Eftir þeirri framkvæmd hefur verið beðið í áratugi og alltaf verið slegið á frest. Án bættra samgangna getur ekki orðið um að ræða neina sameiningu að okkar áliti.
Vegagerðin hefur þegar unnið að undirbúningsverkefnum, t.d. jarðvegsrannsóknum á fyrirhugaðri veglínu, og þarf að fá fjárheimildir til framhaldsverkefna á næsta ári/árum. Samkvæmt fyrri samgönguáætlun var fyrirhugað að setja í Veiðileysuhálsinn kr. 400 milljónir árið 2022, en fyrir okkar fámenna sveitarfélag kemur ekki til greina að bíða svo lengi og gæti þá jafnvel verið orðið of seint.
Það er orðið tímabært fyrir stjórnvöld og aðra ráðamenn að gera það upp við sig hvort þeir vilja láta heilsársbúsetu í Árneshreppi líða undir lok á sinni vakt, eða ekki.
Einnig er vert að minna á að fyrirhugaðar stórframkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar eru í farvatninu og hafa íbúar horft til þeirra framkvæmda með bjartsýni um að einmitt sú framkvæmd muni styðja við kröfu okkar um bættar samgöngur.
Endurbæturnar langþráðu yfir Veiðileysuháls myndu ennfremur, og ekki hvað síst, stytta til muna þá einangrun sem íbúar búa við á veturna, þegar vegurinn getur verið lokaður í allt að 3 mánuði. Slíkt er óboðlegt gagnvart íbúum þegar komið er árin 2020!!!, og þó fyrr hefði verið.
Árneshreppur sótti um að komast inn í verkefnið "Brothættar byggðir" árið 2014, en komst ekki að. Telja má nokkuð öruggt að ef það hefði tekist, stæði sveitarfélagið mun sterkara nú heldur en það gerði þegar það var tekið inn í verkefnið árið 2016/2017. Það má eiginlega segja að við höfum verið mölbrotin þegar kom að þeim tímapunkti, en með sameiginlegu átaki hefur aðeins ræst úr málum.
Ég skora á og geri kröfu til þess að Alþingi, ráðherrar, þingmenn NV-kjördæmis, sem og aðrir þingmenn sjái nú til þess að Árneshreppur fái þann stuðning sem til þarf til að umræddar vegabætur geti orðið sem fyrst. Leggja ætti höfuðáherslu á og setja í forgang þennan útvörð Stranda sem Árneshreppur er, ef okkar sveit fer í eyði þá raknar byggðin upp og fyrr en varir yrði Bjarnarfjörðurinn, Kaldrananeshreppur og jafnvel Strandabyggð orðin jaðarbyggðir. Slíkt væri ekki til sóma fyrir yfirvöld þessa lands.
Fyrir hönd Árneshrepps,
Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti.
Meðfylgjandi er umsögn Icelandair Group um drög að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024.
Virðingarfyllst,
Bogi Nils Bogason
Forstjóri
ViðhengiÉg vil taka undir með byggðaráði Húnaþings vestra um að vatnsnesvegur (711) þurfi bráðnauðsynlega að vera framar í þessari áætlun.
Að sjálfsögðu er ekki hægt að bjóða íbúum, skólabörnum, skólabílstjórum og fleirum sem keyra þennan veg reglulega upp á að ástandið haldi bara áfram að versna, jafnvel næstu 10 árin, þegar þetta er nú þegar orðið ómögulegt.
Vatnsnesið er líka aðal aðdráttaraflið á þessu landssvæði fyrir túristana og MJÖG mikilvægt fyrir ferðaþjónustuaðila á svæðinu að þetta sé í lagi.
Það drýpur ekki smjör af hverju strái hér eins og sumstaðar og ferðamenn sem lenda í erfiðleikum eða finnst þessi skelfilegi vegur eyðileggja upplifunina, skrifa í mörgum tilfellum um það á netið. Það getur undið fljótt upp á sig og farið að fæla fólk frá þegar það er að skipuleggja ferðir sínar með þeim afleiðingum að þeir keyra beint í gegn án þess að skilja neitt eftir sig. Þá eru mörg störf í hættu.
Kristinn Bjarnason
North West Hotel & Restaurant
Víðigerði, 531 Hvammstanga
Umsögn um Samgönguáætlun
Akureyrarflugvöllur – SBA-Norðurleið hf
SBA – Norðurleið hf gerir alvarlegar athugasemdir við að engu fjármagni skuli varið til uppbyggingar Akureyrarflugvallar, skv framlagðri samgönguáætlun. Ekki er að sjá að nokkru fjármagni skuli varið til uppbyggingar flugvallarins, en núverandi aðstaða er löngu sprungin og afrek út af fyrir sig að alþjóðaflugi skuli hafa geta verið sinnt í þeim vaxandi mæli sem nú er gert.
SBA er stór hagsmunaaðli í ferðaþjónustu og vill sjá hana vaxa og dafna í öllum landshlutum.
Vöxtur og uppgangur í ferðaþjónustu hefur fyrst og fremst orðið á suðvesturhorni landsins, en nú eru teikn á lofti með að sá landshluti kunni að vera ofseldur og vaxandi þörf sé á að opna fyrir fleiri flugmöguleika til og frá landinu. Það þarf að jafna álagið á landið og gera ferðaþjónustu að heilsársatvinnugrein um land allt, en hver landshluti hefur sitt að bjóða, oft á mismunandi árstíðum,
Miklum kröftum hefur verið varið til að byggja upp ferðaþjónustu, afþreyingu, hótel og innviði á Norðurlandi og loks virðist sem markaðssetning heimamanna sé að skila árangri, sem sýnt hefur sig í auknum áhuga erlendra flugrekenda, auk þess sem flestum flug-tæknilegum hindrunum hefur verið rutt úr vegi.
Alþjóðleg flugumferð um Akureyrarflugvöll jókst um 70% á árinu 2018 og árið 2019 var farþegafjöldinn í ágúst-mánuði orðinn meiri en allt árið 2018. Útlit fyrir 2020 er enn fremur gott.
Til viðbótar við að vera vaxandi alþjóðaflugvöllur með sífellt vaxandi fjölda fluga, er Akureyrarflugvöllur einn þriggja varaflugvalla Keflavíkur, sem eins og dæmin sanna (síðast nú í vikunni og áður í Eyjafjallajökulsgosinu), verða að vera í viðunandi ástandi til að sinna stórauknum vexti flugferða til Keflavíkur.
Sá vöxtur verður að vera studdur viðunandi varúðarráðstöfunum/ varaflugvöllum til að fyllsta öryggis í flugumferð til og frá landinu sé ávallt gætt.
Þessi drög ganga þvert gegn markmiðum sem sett hafa verið í stjórnarsáttmála og ferðamálastefnu, í stað þess að styðja við að jafna álagið á landið, sbr yfirlýst markmið og tölusett eru í áætlun, sbr. 2.1.4. Jafnframt gengur framlögð áætlun þvert gegn markmiðum um fjölgun alþjóðlegra gátta, sbr 2.1.18.
Við hvetjum því til að Akureyrarflugvöllur verði settur í forgang á Samgönguáætlun og nægjanlegum fjármunum varið til að byggja upp viðeigandi flugstöðvaraðstöðu og flughlöð til að sinna ört vaxandi þörf og uppfylla hlutverk sem varaflugvöllur nr.1 fyrir Keflavík.
Virðingarfyllst,
Gunnar M. Guðmundsson
Framkvæmdarstjóri hjá SBA-Norðurleið hf
Flugmálafélag Íslands eru regnhlífasamtök á sviði flugmála á Íslandi. Innan félagsins starfa nær öll félög, samtök og hópar sem tengjast flugstarfsemi og flugíþróttum á Íslandi. Aðildarfélög Flugmálafélagsins eru á þriðja tug og þar á meðal eru allt frá flugmódelfélögum til atvinnuflugfélaga, flugskólar, flugklúbbar auk annarra áhugamannafélaga um flug.
Á sama tíma og Flugmálafélagið fagnar því að nú sé stefna um flugmál sett fram í fyrsta sinn, á 100 ára afmæli flugs á Íslandi, og er þakklátt fyrir að hafa fengið að taka þátt í mótun grænbókar sem stefnan byggir á, þá lýsir félagið yfir þungum áhyggjum yfir því í hvaða farveg fjárveitingar til flugmála eru og hafa verið á síðastliðnum árum og áratugum. Það samgöngukerfi sem var byggt upp af miklum eldhugum og framfarasinnum í flugmálum hefur smátt og smátt molnað niður. Nú er svo komið nauðsynlegar endurbætur og uppbygging sem hefðu átt að koma til framkvæmda fyrir mörgum árum síðan eru ekki eingöngu tímabærar heldur nauðsynlegar til að Ísland haldi sinni sérstöðu sem flugþjóð. Það er því grafalvarleg staða að enga fjármuni eigi að setja í stofnkostnað til flugmála fyrir utan girðingarvinnu á Reykjavíkurflugvelli (30 milljónir) sem er líkast til komin vegna skerðingar flugvallarsvæðisins af hálfu Reykjavíkurborgar.
Þá er nær engum fjármunum ætlað í viðhald og reglubundin endurnýjun búnaðar á flugvöllum utan grunnnets og lendingarstöðum. Þessir lendingarstaðir hafa árum saman verið í vanrækslu og mörgum þeirra verið lokað á síðastliðnum árum. Með þeirri áætlun sem nú er lögð fram mun sú þróun halda áfram því flugvöllunum verður lokað af öryggisástæðum. Í heildarsamhenginu þarf eingöngu litla fjármuni til að sinna þessum lendingarstöðum en það hefur sýnt sig að þessir lendingarstaðir eru mjög mikilvægir til að viðhalda flugöryggi sem og almannavörnum og sjúkraflugi. Nú síðast voru til að mynda bæði Selfoss og Fagurhólsmýri notaðir við hópslys en næst gætu það verið aðrir lendingarstaðir sem væru mikilvægir í þessu samhengi. Árum saman hefur verið kallað eftir því að nauðsynlegir fjármunir yrðu settir í þessa lendingarstaði en enn og aftur eru þeir af skornum skammti.
Ekki er heldur hægt að sjá í samgönguáætlun að fjármunum sé úthlutað í rannsóknir, menntun og þróun í flugi þrátt yfir að drög að flugstefnu taki sérstaklega á því.
Nú er svo komið að þrátt fyrir kröftuga grasrót, mikinn almennan áhuga á flugi, öflug fyrirtæki í flugrekstri og mikla sérþekkingu á flugmálum þá er allt tal af hálfu stjórnvalda í þá veru að flugið sé mikilvægt efnahagi þjóðarinnar innantómt ef fjárveitingar til málaflokksins fylgja ekki með.
Flugmálafélagið tekur undir margt af því sem kemur fram í drögum að Flugstefnu Íslands. Margt af því sem þar kemur fram skilar sér aftur á móti ekki í samgönguáætlun til 2024.
Í stefnunni er talað um öruggar flugsamgöngur en þau markmið sem þar eru sett fram eru óraunhæf ef fjármunir fylgja ekki með og í raun ólíklegt þau náist að með núverandi fjárveitingum. Þá er eingöngu Samgöngustofa og Rannsóknarnefnd Samgönguslysa gerð ábyrg fyrir því að ná þeim markmiðum á meðan flugsamfélagið sjálft er best til þess fallið að ná árangri á því sviði.
Þá er jákvætt að tækjabúnaður bæði á jörðinni sem og í loftförum sé nefndur í flugstefnunni en aftur vantar fjármuni til að styðja við þessi markmið. Mikilvægt er að fjármunir verði settir í nútíma flugleiðsögu og nauðsynlegan leiðréttingarbúnað sem bæði eykur notagildi búnaðarins og lækkar kostnað.
Nánar varðandi ákveðna málaflokka má nefna að fyrir millilandaflugið er ástand varaflugvalla ekki ásættanlegt. Flugöryggi og um leið orðstýr Íslands í alþjóðlegu samhengi er ógnað. Nú þegar hafa skapast neyðaraðstæður sem mega ekki endurtaka sig. Staða varaflugvallanna og þjónustustigs þeirra er bein afleiðing þess að fjármunir til þessara valla hafa ekki verið fyrir hendi.
Auknar álögur hafa verið lagðar á innanlandsflugið og það óskilvirkt með slæmri tengingu við aðra samgöngumáta og millilandaflugið. Óskilvirknin leiðir af sér lægri tekjur og aukinn kostnað. Vegna skorts á fjármunum hefur rekstaraðili flugvallanna velt meiri hluta kostnaðarins yfir á notendur kerfisins.
Kennsluflugið hefur verið gert hornreka hjá Isavia af sömu ástæðu. Fjármunir til að reka kerfið eru ekki fyrir hendi. Nú er það svo komið að vegna þrenginga á þjónustutíma og aðstöðuleysi er samkeppni við erlenda aðila orðin það hörð að þrátt fyrir mikla aukningu í flugkennslu á síðastliðnum árum sér nú fram á samdrátt sem má eingöngu að hluta rekja til erfiðleika innlendu flugfélaganna. Engir fjármunir eru settir í þennan málaflokk í aðgerðaáætlunni.
Almannaflugið hefur mátt búa við aðstöðuleysi og sést best á lítilli endurnýjun verksmiðju loftfara að álögur eru háar og lítill vilji að fjárfesta í dýrum loftförum sem yrðu í framhaldinu á vergangi. Á sama tíma og styrkir eru veittir bæði í Bandaríkjunum og Evrópu til ísetningar öryggisbúnaðar er ekkert slíkt í farvatninu hér.
Flugmálafélagið er bjartsýnt á framtíð flugs á Íslandi á þeim tímamótum sem við nú stöndum. Þegar horft er á farinn veg, 100 ára sögu flugs á Íslandi, þá er ljóst að staða landsins væri langt frá því sem hún er ef ekki hefði verið fyrir áræðni og eldhug frumkvöðla í flugi. Frumkvöðla sem risu úr grasrótinni. Í gegnum tíðina hafa frumkvöðlarnir og þeir sem hafa fylgt í kjölfarið notið stuðnings stjórnvalda og ríkisvaldsins. Án hans hefðum við ekki náð þeim árangri sem við höfum nú náð. Við sem þjóð getum ekki látið jafn mikilvægan málaflokk og flugið afskiptalausan og vanræktan í jafn langan tíma og raun ber vitni.
Stuðningur við flugið í heild sinni er mikilvægur um þessar mundir en með samstilltu átaki getum við stigið inn í næstu 100 ár flug með stolti og náð fluginu í enn meiri hæðir landi og þjóð til heilla. Samgönguáætlun og Flugstefnan verða að styðja við þessa framtíðarsýn og kallar Flugmálafélagið eftir því.
ViðhengiUmsögn Ferðamálafélagsins í Húnaþingi vestra 31.10.2019
Ferðaþjónusta í Húnaþingi vestra hefur eflst í takt við aukinn ferðamannafjölda síðustu ára. Eitt helsta aðdráttarafl þessa svæðis eru náttúruperlurnar Hvítserkur, Illugastaðir og Borgarvirki, öll með sín séreinkenni. Til að komast að þeim þarf að keyra veg 711 í kringum Vatnsnes.
Aukin umferð ferðamanna um veginn hefur ekki verið til þess að bæta hann, heldur frekar rýrt gæði hans til muna á allann hátt. Vegurinn er mjór og ekki er mikið um útskot, holur djúpar og miklar sem geta reynst óvönum sem vönum bíltjórum stórhættulegar.
Viðhorf heimamanna eru meðal lykilþátta fyrir farsæla og sjálfbæra þróun og stýringu áfangastaða. Taka þarf tillit til:
a) Viðhorf heimamanna til fjölda ferðamanna
b) Áhrif ferðamanna á daglegt líf heimamanna
c) Áhrif ferðamanna og ferðaþjónustu á samfélag heimamanna, umhverfi og nátturu, lífsgæði heimamanna, efnahag og atvinnulíf.
Sjálfbærni í ferðaþjónustu til lengri tíma byggir á ríkri meðvitund um það, með hvaða hætti ferðaþjónustan getur eflt og styrkt byggð og samfélag. Vatnsnes er bændasamfélag þar sem bændur þurfa að komast á milli staða með stórar vinnuvélar á sama tíma og flestir ferðamenn eru hér á landi. Vegur 711 býður ekki upp á þessi vinnubrögð lengur og viljum við hér með hvetja til þess að framkvæmdum verði flýtt úr þriðja hluta samgönguáætlunnar yfir í þann fyrsta.
Öryggi ferðamanna og heimamanna liggur við, að vegur 711 verði til sóma. Ekki sýst þegar Norðurstrandaleið (Arctic Coast Way) er orðin að einum þriðja ákjósanlegasta áfangastað í Evrópu að mati Lonely Planet. Vegurinn liggur frá Hvammstanga til Bakkafjarðar og mun að öllum líkindum verða til þess að ferðamannastraumur mun aukast enn frekar á þessum slóðum.
Ábyrg ferðaþjónusta krefst samvinnu. „það sem er gott fyrir heimamenn er gott fyrir ferðaþjónustan“ (Dr. Harold Goodwin, 30.09.2017).
Anna Birna Þorsteinsdóttir
f.h. Ferðamálafélags Húnaþings vestra
Sveitarstjórn Rangárþings ytra leggur til að fjármagn til malartengivega verði a.m.k. þrefaldað svo hraða megi því verkefni að leggja bundið slitlag á þá umferðarmestu og lengstu.
Langir og fjölfarnir tengivegir eru innan Rangárþings ytra sem ekki hafa verið lagðir bundnu slitlagi, samtals um 80 km. Litlu sem engu fjármagni hefur verið varið í lagningu bundins slitlags á vegi í sveitarfélaginu á undanförnum árum og þessu þarf að breyta. Þess er krafist að gert verði sérstakt átak í að leggja bundið slitlag á fjölfarna tengivegi í sveitarfélaginu. Vegir sem sérstaklega þarf að horfa til eru Hagabraut (286), Þingskálavegur (268), Árbæjarvegur (271), Bjallavegur (272) og Rangárvallavegur frá Gunnarsholti að Keldum (264).
Hjálögð er umsögn Samgöngufélagsins um drög að tillögu til þinsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034, dags. í dag.
Virðingarfyllst,
Jónas Guðmundsson
ViðhengiAð gefnu tilefni vil ég tjá mig um veg númer 711 sem liggur um Vesturhóp og Vatnsnes í Húnaþingi vestra. Fyrirtækið föður míns Lag ehf sér um akstur skólabarna úr Vesturhópi til Hvammstanga og þarf að aka um 20km leið á malarvegi. Þessi vegur verður vægast sagt skelfilegur í rigningartíð. Komið hefur fyrir að ástand vegarins veldur því að skólabíllinn fer upp í að vera 55 mínútur að komast 20 km leið og getur það varla talist viðunandi. Nauðsynlegt er að vegagerðin fái nægjanlegt fjármagn til að endurbyggja og viðhalda þessum vegi. Umferðin er orðin allt of mikil fyrir malarveg og þolir það raunverulega enga bið að hafist verði handa við úrbætur á þessum vegi.
Meðfylgjandi er umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna um drög að tillögu til þingsályktunar um fimm og fimmtán ára samgönguáætlun, 2020-2034.
Virðingarfyllst,
Árni Davíðsson
formaður
www.LHM.is
ViðhengiVegna vegleysu í Árneshrepp.
Undanfarin 10 ár hf ég verið að byggja upp ferðaþjónustu í Norðurfirði og er frekari uppbygging fyrirhuguð en það getur tæpast gengið miðað við þau drög sem liggja fyrir.
Því er brínt að vegurinn um Veiðileysuháls verði ekki settur aftar í röðina eina ferðina en.
Það vantar betri veg um Veiðileysuháls og áfram í Norðurfjörð um Naustvíkurskörð.
Það er einstakt ef byggð sem er í flokki Brothættrabygða skuli vera skilin eftir
Arinbjörn Bernharðsson
Ferðaþjónustuni Urðartindi Norðurfirði
Gott kvöld.þetta er að mörgu leiti góð samgönguáætlun,en ég vil gera alvarlega athugasemd við ákveðin atriði.það fyrsta eru þau svik sem sem á að framkvæma með því að fresta enn og aftur vegabótum um veiðuleisháls í Árneshreppi.það verður að standa við það að straks á næsta ári verði boðið út vegagerð um veiðileisuháls.Allt annað er sem rítíngur í bak þeirra sem þar búa .það komið nó af svikum í þessu máli.Aðgerðir núna.Annað að ætla að rukka til dæmis í öll göng á landinnu er ekkert annað en landsbygðaskattur og er ekki til að efla byggð í þessu landi.kv.Kristján Andri Guðjónsson ísafirði.
Fyrirliggjandi samgönguáætlun, þó hún sé góðra gjalda verð, er engu að síður því marki brennd að hún virðist unnin af einstaklingum sem kunna einungis á einn ferðamáta. Innviðauppbygging er eðli málsins samkvæmt fyrir komandi kynslóðir og það þarf að handstýra okkur í átt að umhverfisvænni og hættuminni ökutækjum. S.l. 60 ár hefur okkur verið stýrt í átt ökutækjum sem eru fullstór til að nota í þéttbýli og fara stækkandi – það er ekki eðlileg forgangsröðun að það sé á allan hátt gert betur við þann sem stundar innanbæjarsnatt á hálendistrukk en þann sem velur hjólið.
Á þessu sama 60 ára tímabili hafa fullorðnir einstaklingar sem ekki vildu eða gátu tekið bílpróf fallið milli skips og bryggju, verið gerðir að annars flokks borgurum: sá sem er háður vinum sínum og vandamönnum um skutl getur aldrei talist frjáls ferða sinna. Þetta misrétti stendur okkur núna fyrir þrifum þegar það kemur í veg fyrir að eldri borgarar taki skynsamlega og tímanlega ákvörðun um eðlileg aksturslok. Á næstu 20 árum mun eldri borgurum fjölga mikið og því mikilvægt að bjóða þessum aldurshópi upp á raunhæfa og aðlaðandi valkosti, aðra en að keyra eigin bíl.
Örflæði (micromobility) er skilvirkasta og langódýrasta lausnin á umferðarvanda í þéttbýli: rafhjól, rafvespur, bílkríli, rafskutlur og ýmiss konar önnur faratæki sem flest eiga það sameiginlegt að vera rafknúin og undir 50kg. Í þessu samhengi er Vegagerðin, með sína þjóðvegi í þéttbýli, mikilvægasta einstaka stofnunin: það vantar ennþá sómasamlegar (hrað)hjólabrautir meðfram öllum stofnbrautum. Öll þau farartæki sem ekki eiga að nota stofnbrautina sjálfa eiga þá að fá boðlega (og jafngilda) aðstöðu til að komast hratt og örugglega leiðar sinnar, helst innan þess veghelgunarsvæðis sem Vegagerðin hefur yfir að ráða eða í allra næsta nágrenni. Einnig þarf að setja snjóbræðslu í allar þveranir yfir stofnbrautir; veðrið skiptir engu máli fyrir virka ferðamáta en færðin öllu.
Þeir íbúar höfuðborgarsvæðisins sem telja sig þurfa öfluga trukka til að komast í sumarbústaðinn sinn eða út á land almennt geta einnig fjárfest í kraftmiklu rafhjóli til að nota innanbæjar. Ríkið á að leggja sitt af mörkum til að hygla þeim íbúum ystu byggða stór-Reykjavíkursvæðisins sem sækja vinnu og/eða skóla miðsvæðis á minnstu farartækjunum, hver einasta ferð sem tekin er á léttu ökutæki sem ekki veldur loftmengun skiptir máli fyrir þá sem búa í 101-8 og léttir á umferðinni á sjálfum stofnbrautunum fyrir þá sem nauðsynlega þurfa að nota bifreið.