Samráð fyrirhugað 28.10.2019—11.11.2019
Til umsagnar 28.10.2019—11.11.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 11.11.2019
Niðurstöður birtar

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði

Mál nr. 268/2019 Birt: 28.10.2019 Síðast uppfært: 29.10.2019
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (28.10.2019–11.11.2019). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Lagðar eru til breytingar á lögunum með það að markmiði að stuðla að hagræðingu í ríkisrekstri og bættri þjónustu.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 50/2014 um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Markmiðið er að skapa aðstæður svo ráðherra og sýslumenn geti náð fram fjárhagslegri hagræðingu í rekstri embættanna og stuðlað að nauðsynlegri framþróun í málefnum sýslumanna.

Til að ná settum markmiðum þykir mikilvægt að lögfesta heimild til handa ráðherra til að bregðast við á skilvirkan hátt ef embætti sýslumanns losnar. Þannig er lagt til að ráðherra verði heimilað að skipa annan sýslumann til allt að fimm ára til að gegna lausu embætti samhliða eigin embætti, teljist slíkt rekstrarlega hagkvæmt og skynsamt, án þess að auglýsa þurfi starfið laust til umsóknar. Með frumvarpinu er enn fremur lagt til að settum eða skipuðum sýslumanni yfir fleiri embættum verði heimilað að ákveða verkaskiptingu milli starfsmanna embættanna til að stuðla að aukinni sérhæfingu og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir sem leitt geta til fjárhagslegrar hagræðingar í rekstri og bættrar þjónustu. Með þessu móti má áætla að sýslumanni takist að hagræða í rekstri embættanna vegna samlegðaráhrifa, auk þess að stuðla að bættum afköstum og vandaðri og samræmdari stjórnsýslu. Um er að ræða sambærilega heimild og nú er að finna í bráðabirgðaákvæði IV laganna en þar sem sú lagaheimild var í upphafi hugsuð tímabundið vegna fyrri skipulagsbreytinga, þykir rétt að lögfesta varanlega heimild sýslumanns til að hagræða í rekstri og bæta þjónustu við framangreindar aðstæður. Samhliða er lagt til að ákvæði til bráðabirgða I-IV verði felld brott þar sem þau hafi takmarkaða þýðingu í dag.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Fljótsdalshérað - 11.11.2019

Umsögn bæjarráðs Fljótsdalshéraðs við frumvarpi til laga um breytingu á lögum um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði

Fulltrúar Fljótsdalshéraðs hafa ítrekað, á undanförnum árum, gert athugasemdir við að nægilegum fjármunum sé ekki varið til reksturs sýslumannsembættisins á Austurlandi. Allt frá því að umdæmum sýslumanna var fækkað úr 24 í 9 þann 1. janúar 2015 hefur legið fyrir að forsendur fjárveitinga til embættisins á Austurlandi eru rangar og hefur verið á það lögð áhersla að þetta verði leiðrétt þannig að embættið hafi tök á að sinna þeim verkefnum er því er ætlað.

Það að nú sé lagt upp með frumvarp er opnar á það að embættum sýslumanna verði fækkað en frekar vekur upp efasemdir um að þjónusta embættanna verði efld til að mæta þeim kröfum er til þeirra eru gerðar og mælir því bæjarráð Fljótsdalshérað gegn því að þetta skref verði stigið.

Afrita slóð á umsögn

#2 Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra - 11.11.2019

Hjálögð er umsögn stjórnar SSNV um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, mál 268/2019.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Sýslumannafélag Íslands - 11.11.2019

Umsögn Sýslumannafélags Íslands við drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, nr. 50/2014.

Um tilefni frumvarpsins segir að það sé til „að tryggja sýslumönnum úrræði til að geta unnið að úrbótum á skipulagi og verklagi embættanna þannig að bæta megi þjónustuna og ná fram fjárhagslegri hagræðingu í rekstri.“

Þáttur í því að bæta þjónustu skrifstofa sýslumanna og skapa sátt um hana er að skilgreina hver sú þjónusta eigi að vera og hver sé ásættanlegur málsmeðferðartími miðað við þær fjárheimildir sem fengnar eru embættunum. Þannig er óhjákvæmilegt að vinna að stefnumótun í málaflokknum og endurskoða reglugerð um umdæmi sýslumanna nr. 1151/2014.

Framtíðarsýn dómsmálaráðuneytisins „…miðar við að gera framkvæmdina miðlægari og sér- hæfðari en hún er í dag.“ Er þetta í samræmi við stefnu stjórnvalda um rafræna opinbera stjórnsýslu. Þessi framtíðarsýn krefst fjármuna langt umfram þá „fjárhagslegu hagræðingu í rekstri“ sem kann að hljótast af þeim breytingum, sem frumvarpið felur í sér. Þrátt fyrir vilja Alþingis og dómsmálaráðuneytis til að leiðrétta fjárhagsstöðu embætta sýslumanna, eins og henni er m.a. lýst í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis í mars 2019, er ljóst að sérgreindar fjárheimildir verða að koma til svo að framtíðarsýnin rætist.

Ætli fjárveitingarvaldið embættunum óbreyttar fjárveitingar með áframhaldandi aðhaldskröfum er óhjákvæmilegt að laga embættin og skipan þeirra að þeirri mynd.

Frumvarpið boðar heimild til ráðherra til að skipa annan sýslumann til að gegna lausu embætti samhliða eigin embætti, til allt að fimm ára, án þess að starfið sé auglýst laust til umsóknar.

Þessi nálgum er mjög óhefðbundin, enda er ekki að finna dæmi í íslenskri löggjöf þar sem gert er ráð fyrir að tvær eða fleiri ríkisstofnanir séu fengnar einum og sama forstöðumanninum til lengri tíma án auglýsingar. Ljóst er að slíkt frávik krefst verulegs undirbúnings og samráðs.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Skútustaðahreppur - 11.11.2019

Umsögn sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði:

Ekki verður annað séð en að með frumvarpinu sé opnað á það að embættum sýslumanna verði enn fækkað án þess að færð séu sérstök rök fyrir þörfinni þar að lútandi. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps hvetur til þess að litið sé til byggðasjónarmiða og að embætti sýslumanna á landsbyggðinni verði efld og þeim tryggt nægilegt fjármagn til að standa undir þeim fjölbreyttu verkefnum sem þau sinna.

F.h. Skútustaðahrepps

Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri

Afrita slóð á umsögn

#5 Sveitarfélagið Skagafjörður - 11.11.2019

Hjálögð er umsögn byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, mál 268/2019.

F.h. byggðarráðs,

Sigfús Ingi Sigfússon,

sveitarstjóri

Viðhengi