Samráð fyrirhugað 28.10.2019—12.11.2019
Til umsagnar 28.10.2019—12.11.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 12.11.2019
Niðurstöður birtar 19.11.2019

Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir (EES-reglur, plastvörur)

Mál nr. 269/2019 Birt: 28.10.2019 Síðast uppfært: 19.11.2019
  • Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál

Niðurstöður birtar

Tvær umsagnir bárust um áformin í gegnum Samráðsgátt. Í þeim fólust gagnlegar ábendingar sem hafðar verða til hliðsjónar við vinnslu frumvarpsins og við endanlegt mat á áhrifum lagasetningarinnar. Í greinargerð með frumvarpinu verður gerð nánari grein fyrir umsögnum og verða drög að frumvarpinu kynnt í Samráðsgáttinni.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 28.10.2019–12.11.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 19.11.2019.

Málsefni

Í áformuðu frumvarpi verða lagðar til breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir til innleiðingar á tilskipun ESB um minnkun umhverfisáhrifa af tilteknum vörum úr plasti.

Tilefni lagasetningarinnar er innleiðing tilskipunar (ESB) 2019/904 um minnkun umhverfisáhrifa af tilteknum vörum úr plasti. Tilskipunin var birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins 12. júní 2019, telst EES tæk og ber að innleiða hér á landi. Gert er ráð fyrir að tilskipunin verði tekin upp í EES-samninginn vorið 2020.

Tilskipunin er ný af nálinni og er ætlað að koma í veg fyrir og draga úr umhverfisáhrifum af tilteknum plastvörum og áhrifum þeirra á heilsu fólks. Ákvæðum tilskipunarinnar er fyrst og fremst beint að þeim plastvörum sem finnast helst á ströndum en mælingar hafa sýnt að rusl á ströndum í Evrópu er að 80-85% plast og þar af eru einnota plastvörur 50% og hlutir tengdir veiðum 27%. Tilskipuninni er ætlað að styðja við myndun hringrásarhagkerfis og efla úrgangsforvarnir með því að styðja við notkun sjálfbærra og endurnotanlegra vara, fremur en einnota vara.

Markmið með frumvarpinu verður að draga úr áhrifum af notkun plasts á umhverfið og heilsu fólks. Jafnframt er markmiðið að hreinsa plast úr umhverfinu, vekja neytendur til umhugsunar um neyslu og umhverfisáhrif plasts, draga úr notkun einnota plastvara og styðja við notkun endurnotanlegra vara.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Ísleifur Gíslason - 29.10.2019

Það er óþolandi þegar á að kaupa kjötvörur að finna þær allar innpakkaðar í plast.

1. Í fyrsta lagi eru skammtarnir yðulega óhentugir, annað hvort of litlir eða of stórir, en hvort tveggja stuðlar að matarsóun.

2. Það ætti ekki að vera vandamál að selja kjötvöru í þeim skömtum sem neytandin óskar og nota ílát úr náttúrulega niðurbrjótanlegum efnum, til dæmis pappa gerðum úr hampi eða hálmi sem síðan má henda í tunnnuna sem ætluð er fyrir lífrænt, til moltugerðar. Eða þá ílát sem neytandinn kemur sjálfur með í búðina.

3. Enn eru nokkrar verslanir sem bjóða kjötvörur sem eru afgreiddar kjötborði og virðast ekki tapa á því sbr. Fjarðarkaup í Hafnarfirði. Þetta er til fyrirmyndar og ætti að skylda aðra stórmarkaði til að gera slíkt hið sama.

Afrita slóð á umsögn

#2 Sigurður Örn Guðleifsson - 11.11.2019

Fyrir hönd ráðgjafarnefndar um eftirlit á vegum hins opinbera, sem starfar á grundvelli laga um opinberar eftirlitsreglur, nr. 27/1999.

Sigurður Örn Guðleifsson,

formaður.

Viðhengi