Samráð fyrirhugað 29.10.2019—12.11.2019
Til umsagnar 29.10.2019—12.11.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 12.11.2019
Niðurstöður birtar 29.11.2019

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum (lenging á rétti til fæðingarorlofs).

Mál nr. 270/2019 Birt: 29.10.2019 Síðast uppfært: 29.11.2019
  • Félagsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Fjölskyldumál
  • Vinnumarkaður og atvinnuleysi

Niðurstöður birtar

Ráðuneytið hefur við lokafrágang frumvarpsins farið yfir þær umsagnir sem bárust en telur hins vegar ekki rétt að breyta efni þess. Er það mat ráðuneytisins að sú tilhögun á skiptingu fæðingarorlofsréttar milli foreldra sem lögð er til í frumvarp¬inu sé til þess fallin að koma til móts við þau ólíku sjónarmið sem fram koma í framan¬greindum umsögnum auk þess að vera í samræmi við markmið laga um fæðingar- og foreldra¬orlof um að tryggja barni samvistir við báða foreldra og að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Nánar um niðurstöður

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 29.10.2019–12.11.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 29.11.2019.

Málsefni

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, sem fela í sér lengingu fæðingarorlofs.

Frumvarp þetta er lagt fram til breytinga á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs lengist úr níu mánuðum samkvæmt gildandi lögum í tólf mánuði og að lengingin komi til framkvæmda í tveimur áföngum, annars vegar vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020 og hins vegar vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar.

Tilefni frumvarps þessa er að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er meðal annars gert ráð fyrir lengingu á rétti foreldra til fæðingarorlofs. Enn fremur skuldbundu stjórnvöld sig, í tengslum við lífskjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem samkomulag náðist um vorið 2019, til að efla fæðingarorlofskerfið með því að lengja samanlagðan rétt foreldra til fæðingarorlofs. Þá kemur fram í fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2020–2024 að gert sé ráð fyrir að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur úr níu mánuðum í tólf mánuði og að lengingin komi til framkvæmda í tveimur áföngum á árunum 2020 og 2021.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Torfi Geir Símonarson - 30.10.2019

Ég hvet ráðherra til að halda sjálfstæðum rétti áfram í þremur mánuðum fyrir hvort foreldri og lengja frekar þann sameiginlega rétt sem foreldrar geta ráðstafað eftir eigin geðþótta.

Frelsi einstaklinga til að haga töku fæðingarorlofs ætti ekki að víkja fyrir forræðishyggju. Foreldrar barna eru oft í stöðu þar sem fjárhagslegar ástæður liggja að baki því að annað foreldrið tekur frekar meira fæðingarorlof en hitt.

Afrita slóð á umsögn

#2 Elín Anna Baldursdóttir - 30.10.2019

Ég hvet stjórnvöld til þess að auka frekar lengd sameiginlegs fæðingarorlofs í stað þess að eyrnamerkja það öðru foreldrinu. Auka þannig frelsi foreldra til þess að stjórna sjálfir hvernig þeir haga fæðingarorlofi.

Oft eru bæði fjárhagslegar og líffræðilegar ástæður fyrir því að annað foreldrið tekur lengra fæðingarorlof. T.d. ef brjóstagjöf gengur vel kjósa fæstar mæður að hætta með börn á brjósti við 6 mánaða aldur þrátt fyrir að þær hafi í raun ekki lengra fæðingarorlof. Horfum til norðurlandanna þar sem sameiginlegur réttur foreldra er yfirleitt lengri en sá eyrnamerkti.

Afrita slóð á umsögn

#3 Steinunn Fríður Jensdóttir - 30.10.2019

Ég hvet stjórnvöld til að lengja frekar sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs og halda sjálfstæðum rétti hvors foreldris áfram í þremur mánuðum. Mikilvægt er að foreldrar geti ráðstafað fæðingarorlofinu eftir því sem hentar þeim og barninu best.

Afrita slóð á umsögn

#4 Ásdís Helgadóttir - 31.10.2019

Sem ólétt móðir og almennur samfélagsþegn fagna ég því að loksins eigi að lengja fæðingarorlofið. Hins vegar, betur má ef duga skal! Fjöldi rannsókna sýna að ef barn fer ekki í dagvistun fyrr en eftir 18 mánaða aldur hefur það verulega verndandi áhrif gegn astma, ofnæmi og geðsjúkdómum seinna á lífsleiðinni svo fátt eitt sé nefnt. Það er hreinlega þjóðhagslega hagkvæmt að hafa fæðingarorlofið 18 mánuði fyrir utan hvað það hefði jákvæð áhrif á andlega líðan foreldra ungra barna. Ég set einnig út á kvaðir um skiptingu milli móður og föður. Henni er ætlað að auka jafnrétti kynjanna en útfærsla hennar hefur þveröfug áhrif vegna ástæðna tilgreinda að neðan. Það er í raun aðeins gerlegt að hafa jafna skiptingu milli móður of föður ef fæðingarorlof er lengt í 18 mánuði. Hér eru nokkrar ástæður fyrir því:

1. Á meðan Landlæknir mælir með að börn séu alfarið á brjósti til 6 mánaða aldurs er það óraunhæft að mjólkandi móðir taki minna en 6 mánaðar fæðingarorlof. Barnið þarf að vera nálægt móður eða hún að hafa aðstöðu og ráðrúm til að mjólka sig á vinnustað (sem er ekki algengt, fyrir utan að það er erfiðara að viðhalda mjólkurmyndun með mjaltavél en sjúgandi barni). Auk þess er það alþekkt að streita minnkar og jafnvel stoppar mjólkurframleiðslu, svo streitan við að byrja aftur í vinnu með ungt barn heima getur hæglega bundið enda á brjóstagjöf. Það má einnig nefna að þótt börn fari að borða fasta fæðu við 6 mánaða aldur borða þau fyrst um sinn lítið og nærast að mestu enn á brjóstamjólk. Sá tími sem börn nærast alfarið eða að mestu mjólk er því mun lengur en 6-7 mánuðir og móðirin er sú eina sem getur gefið brjóst. Fæðingarorlof móður þarf því a.m.k. dekka brjóstagjafartímabilið.

2. Sjúkraþjálfari sagði við mig að góð þumalputtaregla væri að það tæki 9 mánuði að búa til barn og aðra 9 mánuði að jafna sig líkamlega á því. Konur eru því enn að jafna sig á því að ganga og fæða barn áður en fæðingarorlofi þeirra líkur. Það mæðir hreinlega meira á konum fyrsta ár barnsins vegna líkamlegra ástæðna (ganga með barn, hafa barn á brjósti, börn vakna á nóttunni til að drekka brjóst sem aðeins móðir hefur) en seinna meir jafnast hlutverkin sem betur fer meira út.

3. Það hefur varla farið fram hjá neinum að erfitt getur reynst að fá dagvistun að loknu fæðingarorlofi. Mæður mun oftar en feður brúa oft bilið með því að dreifa fæðingarorlofi á lengra tímabil eða að taka launalaust leyfi. Oft er því fleygt fram að ástæðan fyrir að mæður frekar en feður brúi bilið sé vegna þess að konur hafi almennt lægri laun og því sé það hagstæðara fyrir heimilið að konan fari tímabundið af vinnumarkaði. Þetta er hins vegar alls ekki algilt (ekki í mínu tilfelli, ég er með mun hærri tekjur en maki og langvarandi fjarvistir í mínu starfi afskaplega óheppilegar) og tel ég að ástæðan sé að miklu leyti frekar sú að fæðingarorlof móður sé hreinlega óraunhæflega stutt (eins og rökstutt er að ofan). Konur eru því þvingaðar til að fara dreifa orlofinu á fleiri mánuði (minnka prósentu í hverjum mánuði) og/eða taka launalaust leyfi að fæðingarorlofi loknu. Þetta þýðir auðvitað tekjuskerðingu fyrir konuna (sem getur varla talist auka jafnrétti) en auk þess hefur þetta margar aðrar slæmar afleiðingar eins og skerðingu á lífeyri, orlofsréttindum, veikindarétti, fæðingarorlofsrétti með næsta barn ef stutt á milli, rétti til atvinnuleysisbóta, rétti til örorku o.s.frv.. Það að fæðingarorlof móður er of stutt leiðir til örþrifaráða sem hafa verulega neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna.

4. Auk þess vil ég benda á að börn einstæðra foreldra (þau börn sem ekki eru getin með sæðisgjafa en hafa samt bara eitt virkt foreldri) verða fyrir verulegu misrétti vegna þessarar skiptingar milli móður og föður. Þau enda því á að fara mun fyrr í dagvistun en önnur börn með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á framtíð þeirra.

Tökum Svíþjóð til fyrirmyndar og höfum fæðingarorlof 18 mánuði! Hættum að þvinga konur í launalaust leyfi til að bæta upp fyrir of stutt orlof og aukum jafnrétti með því að gefa mæðrum tækifæri á a.m.k. 9 mánaða fæðingarorlofi. Gerum svo allt til að feður nýti sér sinn rétt að fullu.

Ásdís Helgadóttir, vélaverkfræðingur, lektor í Háskóla Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Guðmundur Harðarson - 31.10.2019

Ég hvet stjórnvöld til að auka við sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs, frekar en einstaklings réttinn.

Fyrir mitt leyti voru aðstæður þess valdandi að ég gat ekki leyft mér að nýta alla mína þrjá mánuði við síðasta barn og endaði það þannig að það var einn mánuður sem ég gat ekkert nýtt fyrir 24 mánaða aldur barnsins.

Því miður grunar mig að það sé óþarflega algengt að foreldrar geti ekki nýtt sér allan þann tíma sem þeim er eyrnamerktur.

Því er mikilvægt að foreldrar hafi aukið rými til að haga fæðingarorlofi eins og aðstæður leyfa.

Afrita slóð á umsögn

#6 Guðmunda Ólafsdóttir - 03.11.2019

Ég hvet stjórnvöld til þess að auka frekar við sameiginlegan rétt foreldra til töku fæðingarorlofs heldur en að fjölga þeim mánuðum sem eyrnamerktir eru hvoru foreldri um sig. Það á að vera frelsi foreldra að geta sjálfir ráðstafað sínu fæðingarorlofi á þann hátt sem henntar best gagnvart barninu, heimilislífinu og starfi foreldra. Það verður sérstaklega að taka tillit til líffræðilega þáttarins, en margar mæður eru ekki tilbúnar til þess að fara aftur út á vinnumarkaðinn þegar börnin eru sex mánaða. Í mörgum tilfellum eru þau enn á brjósti á þeim tíma og því kjósa mæður oft að dreifa orlofinu á fleiri mánuði með tilheyrandi tekjuskerðingu. Líkur eru á því að margir foreldrar nái ekki að nýta sér þann fæðingarorlofstíma sem þeim er eyrnamerktur og það bitnar einungis á barninu sem tapar tíma heima með foreldrum sínum.

Afrita slóð á umsögn

#7 Elín Frímannsdóttir - 03.11.2019

Ég hvet stjórnvöld til þess að auka frekar lengd sameiginlegs fæðingarorlofs í stað þess að eyrnamerkja það öðru foreldrinu.

Gefum foreldrum það frelsi að ráðstafa orlofinu eins og hentar hverri fjölskyldu.

Afrita slóð á umsögn

#8 Svava Björk Hölludóttir - 03.11.2019

Ég hvet stjórnvöld til þess að auka frekar lengd sameiginlegs fæðingarorlofs í stað þess að eyrnamerkja það öðru foreldrinu.

Afrita slóð á umsögn

#9 Inga Jara Jónsdóttir - 03.11.2019

Ég hvet stjórnvöld til þess að auka frekar lengd sameiginlegs fæðingarorlofs í stað þess að eyrnamerkja það öðru foreldrinu. Með því að gera það er ekki aðeins verið að koma til móts við foreldra og veita þeim frelsi til að ákveða sjálfir hvernig þeir haga sínu fæðingarorlofi heldur er einnig verið að koma til móts við einstæða foreldra þar sem annað foreldrið er ekki til staðar.

Einstætt foreldri hefur ekki rétt á að taka orlof sem er eyrnamerkt hinu foreldrinu, hvort sem foreldrið er til staðar eða ekki. Eins og núverandi lög segja til um hefur barn einstæðs foreldris því einungis tök á að vera heima með foreldri sínu í 6 mánuði en ekki 9 mánuði.

Með því að lengja sameiginlega fæðingarorlofið er verið að hugsa um hag allra barna óháð því hvort aðeins annað foreldrið eða báðir séu til staðar.

Afrita slóð á umsögn

#10 Ásdís Alda Runólfsdóttir - 03.11.2019

Ég hvet ráðherra til að halda sjálfstæðum rétti áfram í þremur mánuðum fyrir hvort foreldri og lengja frekar þann sameiginlega rétt sem foreldrar geta ráðstafað eftir eigin geðþótta.

Frelsi einstaklinga til að haga töku fæðingarorlofs ætti ekki að víkja fyrir forræðishyggju. Foreldrar barna eru oft í stöðu þar sem fjárhagslegar ástæður liggja að baki því að annað foreldrið tekur frekar meira fæðingarorlof en hitt.

Afrita slóð á umsögn

#11 Guðbjörg Steinsdóttir Snædal - 04.11.2019

Ég hvet stjórnvöld til að auka frekar við sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs og gefa foreldrum sjálfum þannig meira svigrúm til að haga fæðingarorlofi eins og hentar þeim, þeirra aðstæðum og þeirra barni best.

Afrita slóð á umsögn

#12 Nicholas Björn Mason - 04.11.2019

Ég styð að við lengingu fæðingarorlofs verði haldið við þrjá mánuði á hvort foreldi en fjölgað verði við þeim mánuðum sem hægt að raðfæra. Það gefur meira rúm fyrir mismunandi aðstæður á hverju heimili fyrir sig

Afrita slóð á umsögn

#13 Þóra Sigrún Kjartansdóttir - 04.11.2019

Ég hvet ráðherra til að halda sjálfstæðum rétti áfram í þremur mánuðum fyrir hvort foreldri og lengja frekar þann sameiginlega rétt sem foreldrar geta ráðstafað sjálfir.

Afrita slóð á umsögn

#14 Eva Kristín Dal - 04.11.2019

Ég hvet stjórnvöld til þess að endurskoða skiptingu á sameiginlegum og sjálfstæðum rétti foreldra, sérstaklega strax um næstu áramót. Sameiginlegi rétturinn ætti að fá meira vægi. Mælt er með því að börn séu á brjósti og flest fara þau ekki að borða fasta fæðu fyrr en um 6 mánaða aldur en fá þá einnig brjóstamjólk með. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lengd orlofs geti mest verið 6 mánuðir fyrir hvort foreldrið sem er. Það gefur því auga leið að erfitt er að halda brjóstagjöf áfram eftir þann tíma. Þessi tilhögun ýtir undir að mæður taki sér ólaunað orlof eftir að fæðingarorlofsréttur þeirra er fullnýttur. Þær mæður taka því á sig tekjuskerðingu umfram feður sem hefur einnig áhrif til lengri tíma, t.d. þegar litið er til réttinda á lífeyrisgreiðslum. Frumvarpið, sem vafalaust á að ýta undir jafnrétti kynjanna og gefa báðum foreldrum jafnan rétt til að njóta samvista við barn sitt, ýtir í þessum tilfellum undir misrétti kynjanna með tilliti til launa og lífeyrisréttinda. Í sumum fjölskyldum bjóða tekjur heimilisins oft ekki upp á það að tekjuhærri einstaklingurinn taki á sig launaskerðingu í langan tíma. Því ætti að vera meira svigrúm fyrir fjölskyldur að stýra því hvor aðilinn taki sér orlof eftir því sem hentar þeim, sérstaklega á meðan þak á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er ekki hærra en frumvarpið gerir ráð fyrir.

Afrita slóð á umsögn

#15 Gísli Rúnar Gíslason - 05.11.2019

Ég hvet stjórnvöld til að endurskoða frumvarpið þannig að sameiginlegur réttur foreldra verði aukinn frekar en sjálfstæður réttur hvors foreldris. Þannig fá foreldrar frelsi til að nýta orlofsréttinn í samræmi við ólíkar aðstæður á heimilum og eftir því sem hentar barninu best.

Með því að auka sjálfstæðan rétt hvors foreldri í stað sameiginlega réttarins aukast líkur á því að annað foreldri geti ekki fullnýtt orlofsréttinn af líffræðilegum og fjárhagslegum ástæðum.

Afrita slóð á umsögn

#16 Kristbjörg Dúfa Ragnheiðardóttir - 05.11.2019

Það eru ekki allar fjölskyldur eins og með þessu frumvarpi er verulega verið að mismuna fjölskyldum. Fæðingarorlof ætti að vera nýtt með hagsmuni barnsins í fyrirrúmi og það ætti að vera réttur hverjar fjölskyldu fyrir sig að fá að haga fæðingarorlofinu eins og best hentar henni. Því væri mikið réttlátara og skynsamara að lengja sameiginlegan fæðingarorlofsrétt foreldra og treysta þeim til þess að vita hvað sé barninu fyrir bestu.

Afrita slóð á umsögn

#17 Eleonora Bergþórsdóttir - 05.11.2019

Ég fagna því að lögð sé fram tillaga um lengingu fæðingar- og foreldraorlofs. Ég tel hins vegar að lengja eigi hinn sameiginlega rétt í stað þess að eyrnamerkja réttinn hvoru foreldri um sig, a.m.k. meðan réttur til fæðingar- og foreldraorlofs er ekki lengri á Íslandi. Fjárhagslegar aðstæður fólks geta verið mjög mismunandi og því ættu foreldrar að hafa frelsi til að mega ráðstafa hinum aukna rétti á milli sín eins og hentar í hverju tilviki til hagsbóta fyrir hið nýfædda barn og fjölskylduna í heild. Í sumum tilvikum fer hinn eyrnamerkti réttur forgörðum hjá öðru foreldrinu þar sem aðstæður leyfa ekki að það foreldri nýti sér sinn rétt til fulls. Með því er ekki tryggt að barnið njóti samvista við báða foreldra sína sem lengst, sem er þó meðal helstu markmiða laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Afrita slóð á umsögn

#18 Kristbjörg Magnúsdóttir - 10.11.2019

Ég hvet stjórnvöld til að endurskoða frumvarpið þannig að sameiginlegur réttur foreldra verði aukinn frekar en sjálfstæður réttur hvors foreldris. Taka þarf tillit til þarfa fjölskyldunnar og að foreldrar hafi frekari ákvarðanarétt varðandi tilhögun fæðingarorlofs.

Á meðan að Landlæknir og WHO mæla eingöngu með brjóstamjólk fyrstu 6 mánuði barnsins, þá þarf móðir að geta verið lengur heima með barni sínu.

Afrita slóð á umsögn

#19 Harpa Söring Ragnarsdóttir - 10.11.2019

Ég hvet stjórnvöld til þess að auka frekar lengd sameiginlegs fæðingarorlofs í stað þess að eyrnamerkja það öðru foreldrinu. Auka þannig frelsi foreldra til þess að stjórna sjálfir hvernig þeir haga fæðingarorlofi.

Sumir foreldrar hafa einfaldlega ekki líkamlega burði (t.d. vegna fötlunar) til þess að vera einir heima með barnið sitt í langan tíma þegar það er svona lítið. Þá þarf hitt foreldrið að geta tekið fleiri mánuði.

Afrita slóð á umsögn

#20 Guðrún Freyja Daðadóttir - 11.11.2019

Mig langar að skora á stjórnvöld að endurskoða frumvarp um niðurröðun á lengingu fæðingarorlofs. Nú stendur til að lengja rétt hvers foreldris til fæðingarorlofs úr 3 mánuðum í 4 mánuði og á móti minnka sameiginlegan rétt niður í 2 mánuði. Ég tel að það myndi nýtast fjölskyldum töluvert betur að auka sameiginlega réttinn fremur en að lengja rétt hvers foreldris og eru ástæðurnar nokkrar.

1. Að auka rétt hvers foreldris nýtist einstæðum mæðrum ekkert! En með því að auka sameiginlegan rétt foreldra þá geta einstæðar mæður nýtt sér 7 mánaða orlof í stað 6 mánaða eins og þær geta gert í dag.

2. Aðstæður fjölskyldna eru misjafnar og er mjög misjafnt hvernig hentar fjölskyldum að dreyfa fæðingarorlofinu sínu. Ég tel að foreldrar séu fullfærir um að skipta fæðingarorlofinu sínu eins og hentar þeim best og finnst mér það ansi mikil forræðishyggja að taka ákvörðunina úr þeirra höndum!

3. Síðastliðin ár hafa feður nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs mun verr en konur hafa gert og er ólíklegt að þeir nýti réttinn sinn betur með því að lengja hann.

4. Væri ekki betra að byrja á því að lengja sameiginlega réttinn og síðan auka rétt hvors foreldris ef það er það sem stefnt er að?

5. Með því að halda hámarksrétti kvenna til fæðingarorlofs í 6 mánuðum er verið að gera konum mun erfiðara fyrir að halda brjóstagjöf áfram að 6 mánuðum liðnum. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á

kosti brjóstamjólkur sem fullkominnar næringar fyrir barnið a.m.k. fyrstu sex mánuðina og

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) mælir með áframhaldandi brjóstagjöf með annarri

fæðu í allt að tvö ár eða lengur. Einnig er talið að áhættan fyrir brjóstakrabbamein minnki um 4,3% fyrir hvert ár sem konan mjólkar. Brjóstagjöf virðist líka minnka áhættuna á krabbameini í eggjastokkum og legi.

Ég gæti haldið áfram en ætla að láta staðar numið hér. Þar sem ég á von á barni á nýju ári er þetta mér mikið hjartans mál og bið ég stjórnvöld enn og aftur um að endurskoða frumvarpið til hlýtar áður en það verður lagt fram.

Afrita slóð á umsögn

#21 BSRB - 11.11.2019

Í viðhengi er umsögn BSRB.

Virðingarfyllst,

Dagný

Afrita slóð á umsögn

#22 Sveitarfélagið Skagafjörður - 11.11.2019

Á 887. fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 7. nóvember 2019 var eftirfarandi bókað:

Byggðarráð fagnar framkomnum drögum að frumvarpi.

Afrita slóð á umsögn

#23 BSRB - 11.11.2019

Viðhengi skilaði sér ekki í fyrri atrennu. Hér er umsögn BSRB í viðhengi.

Virðingarfyllst,

Dagný Aradóttir Pind

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#24 Kvenréttindafélag Íslands - 12.11.2019

Hér í viðhengi er umsögn Kvenréttindafélags Íslands um frumvarp til laga um lengingu fæðingarorlofs 2019

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#25 Ingólfur Vilhjálmur Gíslason - 12.11.2019

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum (hækkun greiðslna og lenging). (Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012-2013.)

Í frumvarpi ráðherra er gert ráð fyrir að þegar lögin eru að fullu komin til framkvæmda hafi feður og mæður hvort um sig rétt á 5 mánaða fæðingarorlof en tveir mánuðir séu til skipta eftir því sem foreldrum þykir henta. Hér er því haldið áfram á þeirri braut sem vel hefur reynst hérlendis og erlendis.

Lenging orlofsins er tímamótaáfangi á sviði fjölskyldustefnu til hagsbóta fyrir fjölskyldur í þágu hagsmuna barna og foreldrajafnréttis, en ítrekað hefur verið bent á hversu erfitt það hefur reynst foreldrum að brúa það bil sem nú er milli fæðingarorlofs og öruggrar dagvistunar. Sjálfstæður réttur beggja foreldra til 5 mánaða orlofs tryggir börnum bestu möguleika á umönnun beggja foreldra og hvetur til tengslamyndunar og samveru við bæði föður og móður á fyrsta æviskeiði barnsins.

Reynslan kennir að í langflestum tilvikum er sameiginlegur réttur nýttur af mæðrum eingöngu. Rannsóknir á reynslu Norðurlanda af fæðingarorlofi sem foreldrum er ætlað að skipta á milli sín sýna þetta glögglega og t.d. sýna rannsóknir að allt frá því að Svíar innleiddu slíkt orlof 1974 hefur það nær eingöngu verið notað af mæðrum. Það hefur einnig verið reynslan hérlendis. Feður nota hins vegar í miklum meirihluta tilvika óframseljanlegan rétt til fæðingarorlofs og því styðja rannsóknir að sú leið að veita foreldrum sjálfstæðan rétt til orlofs er farsæl leið til að tryggja börnum umönnun beggja foreldra. Sums staðar er reyndar allur rétt til orlofs vegna fæðingar bundin við einstaklinga t.d. í Bandaríkjunum og nýlega samþykktu Spánverjar að skipta fæðingarorlofi jafnt á milli foreldra. Hérlendis hefur skapast hefð fyrir því að ákveðnum fjölda mánaða sé ráðstafað af foreldrunum og því góð lausn að hafa 2 mánuði áfram með því móti. Í ljósi reynslunnar verður að teljast líklegt að það verði einkum mæður sem nota hinn sameiginlega rétt.

Undirrituð hafa rannsakað áhrif fæðingarorlofslaganna frá árinu 2000 og gert ítrekaðar kannanir meðal foreldra á því hvernig þau haga umönnun og atvinnuþátttöku í kjölfar fæðingar fyrsta barns. Þær kannanir sýna að lögin hafa haft gífurleg áhrif á hvernig foreldrar skipta með sér umönnun barna sinna og að hlutdeild feðra í umönnun fyrstu þrjú ár eftir fæðingu hefur stóraukist á tímabilinu. Þá hefur einnig dregið úr bilinu á milli foreldra hvað varðar vinnutíma og atvinnuþátttöku en ljóst að þar er enn langt í land og mæður axla enn meginábyrgð á umönnun barna fyrsta árið með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á stöðu þeirra á vinnumarkaði, enda taka þær að jafnaði 70 % heildarfjölda daga sem foreldrar taka í orlof. Rannsóknir Ársæls M. Arnarsonar og félaga hafa einnig sýnt að fyrstu árgangar íslenskra ungmenna sem notið höfðu góðs af lögunum um fæðingar- og foreldraorlof mátu samskipti sín við feður jákvæðari en ungmenni frá öllum 43 samanburðarlöndunum. Þá sýna norrænar samanburðarrannsóknir, með þátttöku Íslands, að ólíklegra er að til skilnaðar komi í fjölskyldum þar sem faðir hefur tekið fæðingarorlof en í fjölskyldum þar sem hann hefur ekki gert það. Loks ber að nefna að fjöldi alþjóðlegra rannsókna sýna önnur jákvæð áhrif á börn, feður og mæður ef faðir tekur fæðingarorlof s.s. varðandi þroska og heilsu.

Sjálfstæður réttur beggja foreldra til fæðingarorlofs er sérstaklega mikilvægur í fjölskyldum þar sem foreldrar deila ekki lögheimili, en íslensk sifjalöggjöf hefur um langt skeið lagt áherslu á að tryggja rétt barns til umönnunar beggja foreldra hvernig sem sambandi foreldra og sambúð er háttað. Rannsóknir undirritaðra sýna að stór hluti feðra sem ekki deilir lögheimili með börnum nýtir sjálfstæðan rétt til orlofs en engu að síður er mikilvægt að auka ráðgjöf til foreldra sem ekki búa saman, til að tryggja að sem flest börn njóti umönnunar beggja foreldra á fyrsta æviskeiði.

Samþykkt þessa frumvarps tryggir enn frekar möguleika barna á að hljóta umönnun beggja foreldra á fyrsta æviskeiði og að báðir foreldrar geti samþætt atvinnuþátttöku og umönnun barns og heimilis.

Guðný Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands

Ingólfur V. Gíslason, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands

Afrita slóð á umsögn

#26 Samband íslenskra sveitarfélaga - 12.11.2019

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#27 Bandalag háskólamanna - 12.11.2019

Meðfylgjandi er að finna umsögn BHM.

Viðhengi