Samráð fyrirhugað 31.10.2019—14.11.2019
Til umsagnar 31.10.2019—14.11.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 14.11.2019
Niðurstöður birtar 20.11.2020

Áform um frumvarp til laga um umbótavettvang

Mál nr. 274/2019 Birt: 31.10.2019 Síðast uppfært: 20.11.2020
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Niðurstöður birtar

Engar umsagnir bárust.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 31.10.2019–14.11.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 20.11.2020.

Málsefni

Áformað er að formfesta hagkvæman ramma um umbótastarf ríkisins sem stuðlar með markvissari hætti að nýsköpun, faglegri mannauðsstjórnun, hagkvæmum innkaupum og eykur stuðning við stafræna þjónustu með víðtækari hætti en áður í starfsemi ríkisins.

Ríkisreksturinn stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum. Kröfur til þjónustu ríkisins fara vaxandi og útgjöld hafa aukist mikið undanfarið án þess að lagt hafi verið mat á árangur. Miklar breytingar framundan, svo sem loftslagsbreytingar, breytt aldurssamsetning þjóðarinnar og fjórða iðnbyltingin, kalla á breytta nálgun. Upplýsingatæknin býður upp á mikla möguleika en setur einnig aukinn þrýsting á opinbera stjórnsýslu um að veita þjónustu með sama hraða og af sömu gæðum og á einkamarkaði. Til að takast á við þessar áskoranir þurfa stjórnvöld að vera viðbragðsfljót, nýskapandi og veita almenningi aukin tækifæri til að taka þátt í mótun stefnu og þjónustu. Núverandi stjórnskipulag styður ekki við þá vegferð. Lítill sveigjanleiki er í kerfinu, skortur er á samhæfingu í rekstri og þjónustuveitingu og ekki er verið að nýta stærðarhagkvæmni ríkisins.

Mikilvægt er að formfestur sé hagkvæmur rammi um umbótastarf ríkisins sem stuðlar með markvissari hætti að nýsköpun, þróun stafrænna lausna, faglegri mannauðsstjórnun og hagkvæmum innkaupum með víðtækari hætti en áður í starfsemi ríkisins. Til að ná fram tilætluðum breytingum og aukinni samhæfingu á sviði opinberra innkaupa, upplýsingatækni- og mannauðsmála er nauðsynlegt að mæla fyrir nýrri löggjöf og gera breytingar á núgildandi lögum um opinber innkaup sem lúta að starfsemi Ríkiskaupa.

Markmið umbótavettvangs er að stuðla að hagkvæmari og skilvirkari þjónustu og rekstri ríkisins. Umbótavettvangurinn kemur til með að sinna bæði þróun nýjunga, innleiðingu og rekstri þeirra og m.a. sjá um ýmis konar greiningar, samningsgerð- og stjórnun, rekstur sameiginlegra kerfa, nýsköpun, þróun notendamiðaðrar þjónustu, þekkingarmiðlun og þjónustu við stofnanir á þessum sviðum.

Sambærilegt fyrirkomulag má nú finna á Norðurlöndum. Difi – Direktoratet for forvaltning og ikt í Noregi sinnir stjórnun, skipulagi, opinberum innkaupum og þróun stafrænnar þjónustu hjá hinu opinbera auk þess að reka sameiginlega innviði líkt og pósthólf og innskráningarþjónustu. Í Danmörku sinnir Moderniseringsstyrelsen stjórnun, skipulagi, mannauðsmálum, opinberum innkaupum og rekstri ýmissa sameiginlegra kerfa á meðan Digitaliseringsstyrelsen stýrir þróun stafrænnar þjónustu, upplýsingaarkitektúr og upplýsingaöryggi auk þess að reka sameiginlega þjónustu sem styður við stafvæðinguna. Opinberri nýsköpun í Danmörku er svo sinnt af Center for offentlig innovation.

Samlegðaráhrif sem þarna verða skapa ýmis tækifæri, til dæmis til að vinna sameiginlega að aðfangastýringu, þ.e. stýringu mannauðs og innkaupa. Augljós samlegð er líka með stafrænni þróun og mannauðsmálum þegar kemur að fjórðu iðnbyltingunni en aukin sjálfsafgreiðsla og sjálfvirknivæðing mun hafa töluverð áhrif á starfsfólk ríkisins. Stafræn þróun leiðir einnig af sér fjölda innkaupaverkefna auk þess sem viðfangsefni líkt og hýsing og samrekstur krefjast bæði tæknilegrar og innkaupamiðaðrar nálgunar.

Umbótavettvangurinn verður þó ekki hefðbundin stofnun. Með því að vinna að þessum viðfangsefnum á sameiginlegum vettvangi skapast ákveðin dýnamík sem ætla má að auki sköpunarkraft, styðji við nýskapandi hugsun og frumkvæði að nauðsynlegum breytingum. Þetta verður vettvangur til tilrauna, til að prófa nýja aðferðafræði og nálganir, til samtals við þjónustunotendur og til samstarfs og samvinnu aðila sem vinna að sameiginlegum markmiðum.