Samráð fyrirhugað 14.11.2019—28.11.2019
Til umsagnar 14.11.2019—28.11.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 28.11.2019
Niðurstöður birtar 14.09.2021

Frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir

Mál nr. 283/2019 Birt: 14.11.2019 Síðast uppfært: 14.09.2021
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður birtar

Drög að ákvæðum frumvarpsins ásamt greinargerð voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á Ísland.is þann 14. nóvember 2019 . Frestur til að skila inn umsögnum var til 28. nóvember sama ár. Þrjár umsagnir bárust. Umsagnirnar gáfu ekki tilefni til breytinga á frumvarpinu sbr. meðfylgjandi samantekt.

Nánar um niðurstöður

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 14.11.2019–28.11.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 14.09.2021.

Málsefni

Frumvarpinu er ætlað að kveða á um heimildir til að stofna til samvinnu opinberra aðila við einkaaðila um tilteknar vegaframkvæmdir og gjaldtöku vegna þeirra.

Vegagerðin telur nauðsynlegt að fara í um 200 verkefni á næsta aldarfjórðungi sem áætlað er að kosti yfir 400 milljarða króna. Þó að aukið fjármagn hafi komið til vegagerðar í gildandi fjármálaáætlun þá dugar það engan veginn til að fullnægja þörfinni. Það þarf því að finna leiðir til þess að fjármagna framkvæmdir og flýta þeim eins og kostur er.

Sumarið 2018 skipaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra starfshóp til að fjalla um forgangsröðun framkvæmda og nýjar leiðir til fjármögnunar þeirra. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni í apríl 2019, sbr. fylgiskjal. Meðal annars lagði starfshópurinn til að í þeim tilvikum þar sem samvinnuverkefni (PPP) væri raunhæfur kostur, þ.e. í stórum og vel skilgreindum nýframkvæmdum, væri sú leið farin. Starfshópurinn nefndi sem dæmi um slík verkefni annars vegar Sundabraut og hins vegar tvöföldun Hvalfjarðarganga. Í einhverjum tilvikum kæmi jafnframt til greina að semja við einkaaðila um að annast hluta fjármögnunar framkvæmdanna til móts við fjárframlag af samgönguáætlun.

Hvað varðar sjónarmið við gjaldtöku af umferð lagði starfshópurinn til að gjaldtaka af umferð til að standa undir kostnaði við flýtiframkvæmdir miðaðist við hverja framkvæmd fyrir sig og gjald væri í samræmi við kostnað þeirrar framkvæmdar.

Frumvarpið sem hér er til kynningar er samið á grundvelli þessara niðurstaðna og gerir ráð fyrir að heimilt sé að bjóða tilteknar framkvæmdir út sem samvinnuverkefni. Hugtakið samvinnuverkefni er nánar skilgreint í frumvarpinu og er þar átt við verkefni þar sem einkaaðili annast fjármögnun í heild eða að hluta eða tekur með öðrum hætti áhættu af gerð og rekstri opinbers mannvirkis, eftir atvikum með heimild til gjaldtöku fyrir notkun mannvirkisins á rekstrartíma. Samvinnuverkefni felur að jafnaði í sér samvinnu um fjármögnun, áætlanagerð, hönnun, uppbyggingu mannvirkja, viðhald, rekstur og/eða annað sem nauðsynlegt er til að ljúka megi framkvæmd og reka mannvirki í tiltekinn tíma.

Þær framkvæmdir sem áætlað er að unnar verði sem samvinnuverkefni eru eftirfarandi:

a. Hringvegur norðaustan Selfoss, brú á Ölfusá.

b. Hringvegur um Hornafjarðarfljót.

c. Axarvegur.

d. Tvöföldun Hvalfjarðarganga.

e. Hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli.

f. Sundabraut.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Einar Ragnarsson - 18.11.2019

Í frumvarpi eru einungis talin upp þau 6 verkefni sem eru þegar inni í samgönguáætlun.

Er ekki ástæða til að lögin opni fyrir að fleiri verkefni en þessi sex ef þau eru metin hagstæð og passa sem PPP verkefni að mati Vegagerðar og ráðuneytis. Í þessu samhengi má nefna hugmynd um Reykjanesbraut í jarðgöngum undir Setbergshamar í Hafnarfirði og stytting þjóðvegar um 5 km. í Lóni sem tæki 5 einbreiðarbrýr út úr rekstri á þjóðvegi 1.

Slíkt ákvæði, sem þyrfti að útfæra vel, lokaði ekki fyrir þann möguleika að fara þessa leið ef upp koma góðar og hagkvæmar lausnir á gildistíma laganna sem passa sem PPP verkefni en við sjáum ekki fyrir á þessari stundu.

Afrita slóð á umsögn

#2 Hlynur Jónsson hdl. - 27.11.2019

Ég gæti hagsmuna eftirfarandi landeigenda í Hornafirði og sendi umsögn þessa til ráðuneytisins í þeirra umboði:

Eiríks Egilssonar, kt. 130762-2049, og Hjalta Egilssonar, kt. 110460-110460-2959, eigenda Árnaness, Árnaness 2 og Árnaness 4 o.fl. jarða, Hornafirði.

Bjarna Hákonarsonar, kt. 300459-2939, og Finndísar Harðardóttur, kt. 160961-3849, eigenda Dilksness, Hornafirði.

Kjartans Jónssonar, kt. 181240-3509, og Lovísu Eymundsdóttur, kt. 151244-2629, eigenda Hjarðarness, Hornafirði.

Önnu Lilju Jónsdóttur, kt. 160254-3199, Guðbjargar Óskar Jónsdóttur, kt. 261252-5629, og Þorbergs Hjalta Jónssonar, kt. 200659-5039, eigenda Skarðshóla, Hornafirði.

Gunnars Helgasonar, kt. 270855-2459, og Hafdísar Bergmannsdóttur, kt. 290664-3579, eigenda Stórabóls, Hornafirði.

Ásgeirs Núpan Ásgeirssonar, kt. 010159-3509, eiganda Árnaness 4, Hornafirði.

Umbj. mínir vilja vekja athygli ráðuneytisins á því að Vegagerðin hefur ákveðið að taka lönd þeirra eignarnámi vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Hringveg um Hornafjarðarfljót. Þessar eignarnámsákvarðanir eru í ágreiningi og hafa umbj. mínir í hyggju að skjóta þeim til dómstóla á næstu dögum í því skyni að fá þær felldar úr gildi. Fyrir því eru margvíslegar ástæður, en í mjög grófum dráttum eru þær eftirfarandi:

Í fyrsta lagi telja umbj. mínir að Vegagerðin hafi ekki gætt að þeim kröfum sem gerðar eru til stofnunarinnar við val á vegleið vegna framkvæmdarinnar. Í því samhengi hafa umbj. mínir bent á að 37. gr. vegalaga nr. 80/2007 felur ekki í sér fortakslausan rétt eða skyldu Vegagerðarinnar til að öðlast beinan eignarrétt að landi til vegagerðar. Þannig er stofnuninni m.a. skylt að líta til sjónarmiða um meðalhóf og mats á umhverfisáhrifum og velja þá leið sem þar hefur minnst áhrif. Það hefur ekki verið gert í þessu tilviki. Vegagerðin hefur valið vegleið 3b í matsskýrslu þrátt fyrir að öll rök standi fremur til þess að fara leið 1 í meiri sátt við landeigendur.

Í öðru lagi telja umbj. mínir að með vali á vegleið 3b, fremur en leið 1, sé Vegagerðin aðeins að ganga erinda sveitarfélagsins Hornafjarðar. Þetta má sjá af bréfi vegamálastjóra til sveitarfélagsins frá 6. júní 2011 en þar segir m.a. eftirfarandi:

„Aðeins tvær leiðir hafa verið í umfjöllun eftir að matsvinnu lauk, leiðir 1 og 3b. Vegagerðin hefur mælt með leið 1 sökum hagkvæmni og umhverfisáhrifa en Sveitarfélagið Hornafjörður hefur sett leið 3b inn á aðalskipulag. Vegagerðin hefur skilning á því sjónarmiði sveitarfélagsins að leið 3b sé heppilegust m.t.t. hagsmuna sveitarfélagsins hvað varðar umferðarskipulag innan þess og hefur því fallist á að fara aftur yfir alla kosti í stöðunni og endurmeta afstöðu sína.“

Það liggur því fyrir að Vegagerðin taldi, að loknu innbyrðis mati á þeim valkostum sem voru fyrir hendi, að leið 1 væri hinn rétti kostur „sökum hagkvæmni og umhverfisáhrifa“ en hafi fallið frá þeirri afstöðu sinni vegna hagsmuna sveitarfélagsins. Þetta er óheimilt sé litið til dóma Hæstaréttar um sambærileg efni.

Í þriðja lagi hafa umbj. mínir bent á að mat Vegagerðarinnar á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdanna er úrelt. Í því samhengi benda umbj. mínir á skyldu Vegagerðarinnar til að rannsaka mál til hlítar að undangenginni ákvörðunartöku. Af þessum sökum er Vegagerðinni ekki stætt á að velja vegleið, og taka ákvörðun um eignarnám á landi umbj. minna, á grundvelli fyrirliggjandi umhverfismats, enda veitir það ekki fullnægjandi upplýsingar um áhrif framkvæmdanna með hliðsjón af gildandi lagareglum og núverandi aðstæðum.

Í fjórða lagi telja umbj. mínir vafa leika á því hvort fyrirhuguð framkvæmd við Hringveg um Hornafjörð rúmist innan þess framkvæmdaleyfis sem veitt hefur verið Vegagerðinni af sveitarfélaginu Hornafirði. Hefur Vegagerðin þannig breytt ýmsum þáttum framkvæmdarinnar frá því leyfið var gefið út. Er framkvæmdin þess vegna komin í annan búning en kynntur var sveitarfélaginu þegar leyfið var veitt.

Hægt er að nefna fjölmörg atriði til stuðnings ofangreindu og má nálgast upplýsingar um þau hjá undirrituðum.

Umbj. mínir telja viðbúið að þessi framkvæmd verði aldrei að veruleika í þeim búningi sem hún er klædd í dag og vara stjórnvöld þess vegna við því að stofna til skuldbindinga um hana áður en gengið hefur verið úr skugga um lögmæti hennar. Umbj. mínir telja þess vegna að óvarlegt kunni að vera að setja þær lagareglur, sem frumvarpið mælir fyrir um, um framkvæmdina meðan hún er enn í ágreiningi fyrir dómstólum og spurningum um lögmæti hennar hefur ekki verið svarað.

Reykjavík, 27. nóvember 2019,

Hlynur Jónsson lögmaður

Afrita slóð á umsögn

#3 Samtök atvinnulífsins - 28.11.2019

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um frumvarpsdrögin

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Benedikt Sveinbj. Benediktsson - 28.11.2019

Meðfylgjandi er sameiginleg umsögn SAF - Samtaka ferðaþjónustunnar, SFF - Samtaka fjármálafyrirtækja og SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu um drög að frumvarpi til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Stefán Ómar Jónsson - 28.11.2019

Hjálögð er umsögn um frumvarp til laga um samvinnuverkefni.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Samgöngufélagið - 28.11.2019

Hjálögð er umsögn Samgöngufélagfsins um frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir, dags. 28. nóvember 2019.

Virðingarfyllst,

f.h. Samgöngufélagsins

Jónas Guðmundsson

fyrirsvarsmaður

Viðhengi