Samráð fyrirhugað 18.11.2019—02.12.2019
Til umsagnar 18.11.2019—02.12.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 02.12.2019
Niðurstöður birtar 03.12.2020

Drög að frumvarpi til laga um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands

Mál nr. 284/2019 Birt: 18.11.2019 Síðast uppfært: 03.12.2020
  • Forsætisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Æðsta stjórnsýsla
  • Almanna- og réttaröryggi

Niðurstöður birtar

Í kjölfar samráðsins var lagt fram frumvarp á Alþingi sem var samþykkt þann 9. júní 2020 sem lög nr. 64/2020. Sjá hlekk og samráðskafla frumvarpsins.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 18.11.2019–02.12.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 03.12.2020.

Málsefni

Með frumvarpinu er lagt til að settar verði skýrari reglur en nú gilda um skráningu hagsmuna og hagsmunaárekstra æðstu handhafa framkvæmdarvalds sem starfa innan Stjórnarráðs Íslands.

Með frumvarpinu eru lagðar til nýjar reglur sem taka til ráðherra, aðstoðarmanna ráðherra, ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og sendiherra og fjalla um hagsmunaskráningu og gjafir, samskipti við hagsmunaverði, aukastörf, starfsval að loknum opinberum störfum og eftirlit með því að farið verði eftir hinum nýju lagagreinum.

Æðstu handhöfum framkvæmdarvalds og aðstoðarmönnum ráðherra er með frumvarpinu gert að tilkynna opinberlega um tiltekna hagsmuni og gjafir. Forsætisráðuneytið heldur skrá yfir upplýsingarnar og birtir þær almenningi að hluta. Einnig eru í frumvarpinu settar fram skýrari reglur um aukastörf en nú gilda, þ.e. hvaða aukastörf og verkefni samrýmast störfum framangreindra aðila og hver ekki og um opinbera skrá yfir þau. Frumvarpið inniheldur jafnframt reglur um takmarkanir á starfsvali handhafa framkvæmdarvalds að opinberum störfum loknum, þ.e. bann við því að þeir gerist hagsmunaverðir í tiltekinn tíma. Þá á með frumvarpinu að koma á fót skrá yfir hagsmunaverði sem verður gert skylt að tilkynna stjórnvöldum sérstaklega um sig og hlutverk sitt.

Eftirliti, ákvörðunartöku og ráðgjöf með reglunum er komið fyrir hjá forsætisráðuneytinu. Kveðið er á um það í frumvarpinu að forsætisráðherra geti með reglugerð mælt fyrir um að öðrum starfsmönnum Stjórnarráðs Íslands, þ.e. öðrum en þeim sem hinar nýju reglur taka til með beinum hætti, verði gert skylt að tilkynna innan síns ráðuneytis um tiltekna hagsmuni, gjafir, aukastörf, fríðindi o.fl. Gert er ráð fyrir að hlutaðeigandi ráðuneyti varðveiti skrá yfir upplýsingarnar.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Rögnvaldur Ragnar Símonarson - 01.12.2019

150. löggjafarþing 2019 – 2020

Þingskjal x – x mál.

Stjórnarfrumvarp.

Athugasemdir :

2.gr.

Hagsmunaskráning og gjafir.

Í e. lið er nefnd upphæðin 50.000 kr. en alltaf er óheppilegt að hafa krónutöluákvæði í lögum, betra er að einhvert hlutfall t.d. 1:10 af ákveðnum launaflokki.

Annað sem ég velti fyrir hvort ekki þurfi að miða upphæðina við ársgrunndvöll? Ef starfsmaðurinn fær 100 gjafir allar undir 50.000 kr. á einu ári þá er hann búinn að þiggja 5. miljónir!

3.gr.

Aukastörf.

Í 3. mgr. ..... "greiðslur fyrir aukastörfin teljist innan hóflegra marka". – Mjög loðið orðalag. Aftur er hér betra að miða við hlutfall launa viðkomandi t.d. fjórðung launa?

4.gr.

Hagsmunaverðir.

Í 4. mgr. er væntanlega einu “ ekki“ ofaukið.

5.gr.

Starfsval að loknum opinberum störfum.

Skil hreinlega ekki 4. mgr. – Er ekki í þessari málsgrein verið að tala um hvað gerist ef ráðherra synjar um undanþágu skv. 3. mgr. – Er þá síðast setningin ekki óþörf?

6.gr.

Ráðgjöf og eftirlit.

Samkvæmt 1.gr. þá gilda þessi lög fyrir alla ráðherrar. - Samt er tekið fram í 2. mgr. að forsetisráðherra getur að eigin frumkvæði tekið til skoðunar tilvik þar sem grunur er um brot æðstu handhafa framkvæmdavaldsins, annarra en ráðherra??? - Hver á að hafa eftirlit með ráðherrum? – Alþingi væntanleg en þarf ekki að taka það fram og með hvaða hætti hægt er hefja slíka frumkvæðisrannsókn ?

Ákvæði til bráðabirgða.

Má ekki takmarka undanþáguna í eitt ár, það er að segja eftir gildistöku laganna hafi menn ár til að afla sér undanþágu skv. 2. mgr 3. gr.?

Afrita slóð á umsögn

#2 Samtök atvinnulífsins - 02.12.2019

Í viðhengi má finna umsögn Samtaka atvinnulífsins.

Viðhengi