Frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð var lagt fram á Alþingi 30. nóvember 2011 (mál nr. 369) en náði ekki fram að ganga.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 20.11.2019–09.12.2019.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 02.02.2022.
Umhverfis- og auðlindaráðherra áformar að leggja fram frumvarp til laga um þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Þverpólitísk nefnd um undirbúning að stofnun þjóðgarðsins hefur unnið að áherslum sem frumvarpið mun byggja á.
Kveðið er á um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og þverpólitísk nefnd um stofnun hans hefur verið að störfum síðan vorið 2018. Í henni eiga sæti fulltrúar allra flokka á Alþingi auk tveggja fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúa frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu. Nefndinni var m.a. ætlað að skilgreina mörk þjóðgarðsins, setja fram áherslur um skiptingu landsvæða innan hans í verndarflokka, gera tillögur að helstu áherslum í stjórnunar- og verndaráætlun og atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn, taka afstöðu til stjórnskipulags hans, fjalla um svæðisskiptingu og rekstrarsvæði og greina tækifæri með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf.
Nefndin hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda hugmyndir að einstökum þáttum sem hún hefur fjallað um. Síðustu tvö áhersluatriði nefndarinnar voru kynnt í samráðsgátt í október, annars vegar umfjöllun um fjármögnun og hins vegar áherslur í lagafrumvarpi. Þá hefur nefndin staðið fyrir kynningarfundum og fundaröðum með sveitarstjórnum og hagaðilum.
Áformin um frumvarpið hafa sem fyrr segir nú verið sett í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Drög að frumvarpi um þjóðgarðinn munu einnig verða kynnt í samráðsgátt.
Áformað er að umhverfis- og auðlindaráðherra leggi frumvarpið fram á Alþingi vorið 2020.
Mér lýst vel á að stjórnsýsla miðhálendis verði samræmd, svo lengi sem það er gert á grundvelli náttúruverndar og náttúruverndarlaga, auk þess sem aðkoma sveitarfélaga, náttúruverndarsamtaka, áhugahópa og almennings verði sem mest og myndi þannig mótvægi við verktaka og nýtingarsinnaða fjárfesta sem ýmsu vilja fórna fyrir skammtímahagsmuni. Lýðræðislegt samráð viðkomandi aðila er besta formið og gagnsæi þarf að vera ríkjandi í allri málsmeðferð tengdri rekstri hálendisþjóðgarðs.
Tryggja þarf að landsskipulag taki mið af sjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins og að nægilegu fé verði varið til landvörslu og uppbyggingar tengdri henni.
Læra þarf af mistökum og samskiptaörðugleikum sem hafa verið viðvarandi í rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem faglegheit hafa ekki ætíð verið í fyrirrúmi.
Mikilvægt er að nýta leiðbeiningar Alþjóða náttúruverndarsamtakanna (IUCN) við flokkun verndarsvæða innan þjóðgarðsins. Svæðisskipting innan þjóðgarða skv. IUCN:
Svæði A, kjarninn (core zone): Ströng friðun, engin notkun, almenningi einungis leyfður aðgangur á merktum stígum, engin afskipti höfð af gangi náttúrunnar. Kjarninn er alltaf staðsettur þar sem sérstökustu svæðin eru í þjóðgarðinum, þess vegna geta verið margir litlir kjarnar í einum þjóðgarði.
Svæði B, almennt verndað svæði (general protected area): Aðeins skipulögð afþreyingarstarfsemi, engin önnur landnotkun, engin búseta.
Svæði C, landslagsvernd (protected landscape): Takmarkaður rekstur eða landnotkun sem er í samræmi við markmið verndunarinnar.
Svæði D; virkt/þróunar svæði, (transition zone): Arðbær landnotkun og búseta.
Til að þjóðgarður verði viðurkenndur af IUCN þurfa 75% af öllum þjóðgarðinum að vera á svæði A eins og fram kemur að ofan.
Aðrir verndarflokkar IUCN1 eru: Náttúruvé (Ia), óbyggð víðerni (Ib), náttúruvætti (III), friðlönd (IV), landslagsverndarsvæði (V) og verndarsvæði með sjálfbærri nýtingu auðlinda (VI). Hver flokkur hefur sín sérstöku ákvæði um vernd og nýtingu sem eru misströng.
Meðfylgjandi er bókun 890. fundar byggðarráðs Sv.fél. Skagafjarðar þann 27. nóv 2019
ViðhengiÁform um lagasetningu
Athugasemdir frá Ólafi S. Andréssyni og Sigrúnu Helgadóttur
A
1. Við styðjum heils hugar stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Ísland og fögnum því að nú sé loks unnið að friðlýsingu þess verðmæta landsvæðis. Við erum sammála áformum um lagasetningu um þjóðgarðinn og þeim áherslum sem fram koma í framlögðu plaggi.
2. Jafnframt því að lögð er áhersla á áþreifanleg verðmæti sem felast í náttúru Íslands er mikilvægt að ítreka hlutverk og mikilvægi óefnislegra gilda og gæða svo sem hughrifa sem fólk sækir til víðerna, kyrrðar og tengsla við náttúru sem byggjast á virðingu og samsömun við volduga en þó viðkvæma náttúru.
Mikilvægt er að þjóðgarðayfirvöld hafi forræði yfir minjum innan svæðisins, þ.á.m. fornminjum í nánum tengslum við Minjastofnun. Víða á hálendinu eru fornminjar, svo sem rústir, vörður og gamlar leiðir sem mikilvægt er að skrá og vernda en því hefur lítt verið sinnt fram að þessu.
3. Þau svæði á miðhálendinu sem eru utan Vatnajökulsþjóðgarðs hafa búið við misgóða verndun og sum enga. Með fyrirhugaðri lagasetningu um miðhálendisþjóðgarð næst samræmi og yfirsýn yfir þetta mikilvæga svæði en það hefur sárlega vantað.
Kostir dreifstýrðrar stjórnunar nást ekki nema jafnræðis sé gætt meðal íbúa landsins. Í áformunum eru aðeins nefndir „hagaðilar“ og sveitarfélög. Rík hefð er fyrir því að nota orðin „hagaðili“ og „hagsmunaaðili“ yfir þá sem hafa fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Stjórn miðhálendisþjóðgarðs Íslands varðar a.m.k. alla íbúa landsins. Mikilvægt er að þeir sem hafa áhuga og „óefnislegra“ hagsmuna að gæta geti líka átt ríkan þátt í stjórnuninni þótt þeir búi ekki í aðliggjandi sveitarfélögum. Forðast þarf það fyrirkomulag að innan stjórnar myndist bandalög hagsmunaaðila sem láta sérhagsmuni og skammtímasjónarmið ráða.
C Við fögnum sérstaklega áformum um sérstaka stofnun sem fer með málefni allra friðlýstra svæða landsins (Náttúruvernd Íslands).
E. Mikilvægt er að leggja áherslu á að hefðbundin landnýting á almenningseign sé afnotaréttur en ekki eignaréttur. Einnig að kveðið sé á um sjálfbæra nýtingu á öllum auðlindum.
F „eigendur óbeinna eignarréttinda“ á að vera „afnotaréttur“. Eru einhver sveitarfélög sem liggja innan miðhálendislínu?
Enn og aftur er lögð áhersla á „náið samráð við sveitarfélög og hagsmunaaðila“. Við hin, þessi áhugasömu, hugsjónafólkið og fagfólkið, höfum mikið til málanna að leggja en fáum ekki sömu tækifæri til áhrifa.
H Enn vantar almenning í þennan lið! (3. liður.)
Ólafur S. Andrésson (091051 4519)
Sigrún Helgadóttir (220949 7299)
ViðhengiHjálagt er umsögn Ferðaklúbbsins 4x4
Í umsögninni kemur fram afstaða Ferðaklúbbsins 4x4 varðandi stofnun Hálendisþjóðgarðs á miðhálendi Íslands.
Í yfirlýsingunni kemur skýrt afstaða afstaða klúbbsins til verkefnisins miðað við stöðu mála í dag.
Fh, Ferðaklúbbsins 4x4
Sveinbjörn Halldórsson
formaður Ferðaklúbbsins 4x4
ViðhengiSamtökin ÓFEIG náttúruvernd vinna að vernd óbyggðra víðerna. Samtökin styðja þjóðgarð á miðhálendi Íslands, en eru því mótfallin að hann hann sé stofnaður án þess að óbyggð víðerni séu tilgreind innan hans, í samræmi við náttúruverndarlög, Landsskipulagsstefnu og Vatnajökulsþjóðgarð sem UNESCO svæði; meðal annars vegna víðáttumikilla óbyggðra víðerna innan núverandi þjóðgarðs sem sögð eru 85% hans, en eru þó ekki afmörkuð.
Samtökin telja að stofna eigi þjóðgarð á miðhálendi Íslands í samræmi við alþjóðleg viðmið um verndarflokka sem sett hafa verið fram í leiðbeiningum Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN) frá 2008. Innan þjóðgarðsins verði meðal annars vernd svæða sem afmörkuð verði sem óbyggð víðerni og njóti strangari verndar.
Ísland geymir nærri 43% af allravilltustu víðernum Evrópu. Ekkert svæði hefur enn verið friðlýst sem óbyggð víðerni á Íslandi og ekkert svæði er flokkað sem óbyggð víðerni í tillögum þverpólitískrar nefndar um stofnun miðhálendisþjóðgarð. Það þarf að gerast með fyrirhuguðum lögum um Hálendisþjóðgarð.
Meðfylgjandi er umsögn ÓFEIGAR.
ViðhengiUmhverfis- og auðlindaráðuneytið
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra,
Skuggasundi 1
101 Reykjavík
Reykjavík, 2. desember 2019
Umsögn Ferðafélags Íslands vegna áforma um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð
Stjórn Ferðafélags Íslands styður að hálendi Íslands verði friðlýst og gert að þjóðgarði enda sé markmiðið með friðlýsingunni að vernda náttúru hálendisins, s.s. landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar. Friðlýsingunni er jafnframt ætlað að tryggja almenningi aðgang að svæðinu til útivistar til að kynnast og njóta náttúru svæðisins, menningu þess og sögu. Í þjóðgarðinum er einnig stefnt að því að veita fræðslu um náttúru og náttúruvernd, sögu, mannlíf og menningarminjar svæðisins og stuðla að rannsóknum til að efla þekkingu á þessum þáttum.
Náttúrufyrirbæri og náttúrufegurð hafa gjarnan verið tekin sem sjálfsagðir hlutir. Með vaxandi straumi ferðamanna og aukinni umhverfisvitund hefur skilningur landsmanna aukist á því hversu mikil áþreifanleg verðmæti eru fólgin í því að hafa aðgang að náttúru Íslands. Jafnframt verður æ ljósara að hætta er á að einstakir staðir eða svæði sem skipta þjóðina miklu máli tilfinningalega og efnahagslega gætu legið undir skemmdum. Þetta hefur orðið til þess að vaxandi skilningur er á því að lítt snortin náttúra landsins flokkast undir takmörkuð gæði sem mikilvægt er að huga betur að. Með nýjum kynslóðum koma nýjar áherslur á að náttúruna beri að vernda og nýta með þeim hætti að hún njóti vafans.
Þessi markmið falla vel að lögum og meginmarkmiðum Ferðafélags Íslands sem er að stuðla að ferðalögum um landið og greiða fyrir og vekja áhuga Íslendinga á landinu, náttúru þess og sögu og efla vitund um nauðsynlega varfærni í samskiptum manns og náttúru, góða umgengni og vernd náttúrunnar. Ferðafélag Íslands hefur lagt mikið af mörkum á þessu sviði.
Ferðafélag Íslands hefur lengi starfað á miðhálendi Íslands og telur mikilvægt eins og kemur fram í áformunum um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð að tryggt sé að víðtækt samráð og samvinna sé við ferða- og útivistarfélög sem og við alla aðra aðila sem munu starfa innan þjóðgarðsins.
Verndaráætlun
Stjórn Ferðafélags Íslands hvetur til þess að verndaráætlun verði unnin fyrir þjóðgarðinn fyrir stofnun hans.
Þar skal gerð grein fyrir markmiðum verndar á einstökum svæðum innan þjóðgarðsins, einstökum verndaraðgerðum, landnýtingu og mannvirkjagerð, vegum, reiðstígum, göngubrúm og helstu gönguleiðum, umferðarrétti almennings, aðgengi ferðamanna að svæðinu og veiðum.
Innan þjóðgarðsins verði óheimilt að valda spjöllum eða raski á náttúrunni, s.s. á lífríki, jarðmyndunum eða landslagi, menningarminjum og mannvirkjum.
Hefðbundin landnýting
Hefðbundin landnýting, svo sem búfjárbeit, fuglaveiði, hreindýraveiði og veiði í ám og vötnum, er rétthöfum heimil á þeim svæðum sem eru sérstaklega afmörkuð. Landnýting innan þjóðgarðsins skal vera sjálfbær.
F.h. stjórnar Ferðafélags Íslands
Ólafur Örn Haraldsson, forseti FÍ
Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍ
ViðhengiVinsamlegast sjá umsögn Landverndar í viðhengi.
ViðhengiViðhengd er bókun 1024 fundar byggðarráðs Húnaþings vestra frá 2. desember 2019.
ViðhengiUmsögn sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 246. fundi sveitarstjórnar sem haldinn var 5. desember 2019:
Efni: Umsögn um áform um lagasetningu
Til kynningar eru í samráðsgátt stjórnvalda áform umhverfis- og auðlindaráðherra um að leggja fram frumvarp til laga um þjóðgarð á miðhálendi Íslands.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur skilað inn umsögnum um allar þær hugmyndir að þáttum sem þverpólitísk nefnd um stofnun þjóðgarðs hefur fjallað um og birt í samráðsgáttinni. Í störfum nefndarinnar hefur verið tekið mið af ýmsum ábendingum og athugasemdum sem fram hafa komið í ferlinu, en eftir sem áður er afstaða sveitarstjórnar Bláskógabyggðar sú að leggjast alfarið gegn áformum um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu eins og boðað hefur verið.
Sveitarstjórn gerir því athugasemdir við áform um framlagningu frumvarps til laga um þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Ítrekað er að samráð um það hvort yfirhöfuð skuli stofna þjóðgarð á miðhálendinu hefur aldrei farið fram og því ekki tímabært að leggja fram frumvarp um að stofna skuli slíkan þjóðgarð. Að mörgu leyti eru það sporin sem hræða, auk þess sem sveitarstjórn telur að inngrip í skipulagsvald sveitarfélagsins verði of mikið og aðkoma þess að stjórnun á þeim svæðum sem liggja innan marka sveitarfélagsins verði ekki nægjanleg.
Mikið hefur verið lagt upp úr því í kynningu á verkefninu um miðhálendisþjóðgarð að umtalsvert fjármagn fylgi og nefnt hefur verið að á móti hverri krónu sem lögð eru í þjóðgarð komi 23 krónur á móti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna Vatnajökulsþjóðgarðs kemur fram að enn sé stjórnun og rekstri ábótavant, þó málin hafi eitthvað lagast. Í skýrslunni segir síðan: "Auknar rekstrartekjur þjóðgarðsins hafa því fyrst og fremst komið fram á suðursvæðinu en önnur svæði hafa setið eftir. Stærstu stofnar rekstrartekna suðursvæðisins, og þar með þjóðgarðsins í heild, eru verslun og þjónusta annars vegar og veitingasala hins vegar. Auk þess voru umtalsverðar tekjur vegna reksturs bílastæðis í Skaftafelli árin 2017-18." Það er mat sveitarstjórnar að fullyrðingar um verulegar tekjur af rekstri þjóðgarðs eigi helst við þar sem aðgengi að þjóðgarði er gott allt árið, þar sem eru fjölsóttir ferðamannastaðir (massatúrismi), þar sem samgöngur eru greiðar við höfuðborgarsvæðið og þar sem svæðin liggja nærri þjóðvegi 1. Bílastæði við Skaftafell og Jökulsarlón geti þannig skilað umtalsverðum tekjum allt árið um kring, en svæði líkt og við Kjalveg innan Bláskógabyggðar, þar sem illfærir vegir eru opnir nokkrar vikur á ári, hafi afar takmarkaða möguleika til öflunar tekna.
Sveitarstjórn hefur ítrekað bent á þá þversögn sem felst í því að þjóðgarður feli í sér mikla þjóðhagslega hagkvæmni á grundvelli þess að um ákveðið vörumerki verði að ræða sem laði að sér ferðamann, á sama tíma og eitt af meginmarkmiðunum er að vernda náttúru og víðerni og sinna umhverfis- og loftslagsmálum. Ef byggja á rekstur miðhálendisþjóðgarðs á þjónustugjöldum þarf að koma til massatúrismi inn á allt hálendið, en það hlýtur að stangast verulega á við markmið í umhverfis- og loftslagsmálum.
Sveitarstjórn telur að stofnun þjóðgarðs muni takmarka það aðgengi sem almenningur á Íslandi hefur nú að svæðum á miðhálendinu, þar sem koma mun til aukinnar gjaldtöku og skerts aðgengis inn á sum svæði. Þar að auki mun skattfé landsmanna að hluta verða nýtt til að reka garðinn, en til þessa hafa almenn félög og samtök íbúa lagt verulegt fjármagn til gróðurverndar og uppgræðslu, merkinga og þjónustu við þá sem um svæðið fara. Viðbúið er að breyting verði á aðkomu slíkra aðila að fjármögnun verkefna sem koma til með að heyra alfarið undir ríkisstofnun.
Í skjali um áform um lagasetningu er rætt um náið samráð við sveitarfélög og hagsmunaaðila og m.a. tiltekið að haldnir voru þrír opnir kynningarfundir í Reykjavík. Í því ljósi er bent á að einungis einn opinn fundur var haldinn fyrir íbúa Árnessýslu í öllu ferlinu, hinn 27. ágúst 2018, í upphafi vinnu nefndarinnar. Fundi sem halda átti 21. ágúst 2019 var frestað fram í september, en var síðan aldrei haldinn. Ekki var því haldinn neinn fundur, hvorki fyrir íbúa né kjörna fulltrúa til að kynna hver niðurstaða vinnu nefndarinnar væri. Á fund með sveitarstjórn mættu einungis formaður þverpólitísku nefndarinnar og starfsmenn umhverfisráðuneytisins, en enginn fulltrúa þingflokkanna í nefndinni. Fulltrúar úr sveitarstjórn hafa fundað með umhverfis- og auðlindaráðherra og hefur samráð því að mestu verið í gegnum embættis- og starfsmenn, en minna í gegnum kjörna fulltrúa.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur ekki tímabært að leggja fram frumvarp til laga um þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Mikið verk er óunnið varðandi t.d. samráð og samkomulag við sveitarfélög og hagsmunaaðila, svo sem hvað varðar mörk þjóðgarðs, fyrirkomulag skipulagsmála, stjórnfyrirkomulag og heimildir til hefðbundinna nytja.
Virðingarfyllst,
Ásta Stefánsdóttir
Sveitarstjóri Bláskógabyggðar
Eldvötn – samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi ítreka áður framkominn stuðning sinn við stofnun miðhálendisþjóðgarðs og þakka þá vinnu sem lögð hefur verið í verkefnið.
Stjórn samtakanna hefur kynnt sér áform um frumvap til laga um Hálendisþjóðgarð, sem til umsagnar er á samráðsgátt stjórnvalda. Áður hafa samtökin í þrígang sent frá sér umsagnir eða ábendingar er varða undirbúning stofnunar þjóðgarðsins. Margt af því sem hér fer eftir hefur áður komið þar fram, en er endurtekið til áréttingar.
Sjá meðfylgjandi viðhengi.
F.h. Eldvatna – samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi
Ingibjörg Eiríksdóttir
formaður
Viðhengi"Verndað svæði er skýrt afmarkað landsvæði sem er viðurkennt og helgað þeim tilgangi að vernda til langframa náttúru þess ásamt vistkerfisþjónustu og menningarlegum gildum og er stjórnað í því skyni með löggjöf eða öðrum skilvirkum hætti."
Þessa skilgreiningu verður verndarsvæði að uppfylla, eigi það að teljast alþjóðlega viðurkennt.
Það sem lengi á að standa er í íslenskum rétti sett fram í lögum samþykktum af Alþingi. Framsal lagasetningarvalds ætti að varast sérstaklega við stofnun verndarsvæða af þeim sökum.
Í væntanlegri löggjöf þarf að vera að lágmarki:
1. skýr afmörkun landsvæðis,
2. svæðið er helgað þeim tilgangi að vernda það til langframa með bindandi hætti,
3. verndarflokkar.
Þetta er nánar útlistað í umsögn minni.
ViðhengiÍ viðhengi er umsögn sveitarstjórnar Skútustaðahrepps.
Í henni kemur m.a. fram:
„Sveitarstjórn Skútustaðahrepps leggur áherslu á að ef niðurstaðan verður sú að Vatnajökulsþjóðgarður renni inn í nýjan Hálendisþjóðgarð og þar með falli niður lög um Vatnajökulsþjóðgarð, þá er afar mikilvægt að halda inni ákvæði um gestastofu í Mývatnssveit í lögum um Hálendisþjóðgarð svo staðið verði við þau áform og loforð sem gefin voru um málið á sínum tíma. Sveitarstjórn hefur þegar bókað um mikilvægi gestastofu og hóf undirbúning að staðsetningu og þarfagreiningu fyrir ári síðan að ósk Vatnajökulsþjóðgarðs. Á 47. fundi svæðisráðs Vatnajökulsþjóðgarðs 2017 var bókað um mikilvægi gestastofu í Mývatnssveit sem og á stjórnarfundi Vatnajökulsþjóðgarðs 17. maí 2017.“
F.h. sveitarstjórnar Skútustaðahrepps
Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri
ViðhengiVerkfræðingafélag Íslands ítrekar fyrri umsögn dags. 31. október 2019.
ViðhengiUmsögn Náttúruverndarsamataka Íslands um lagasetningaráform um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu.
Sjá viðhengi.
ViðhengiUmhverfis og auðlindaráðuneytið
Skuggasundi 1
101 Reykjavík Akureyri, 4. desember 2019
Málefni: Stuðningur við umsögn Ferðaklúbbsins 4x4.
Ferðafrelsisnefnd Eyjafjarðardeildar F4x4 styður þau sjónarmið sem fram koma í umsögn formanns Ferðaklúbbsins F4x4 og dagsett er 1. desember 2019 um áætlaða stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Við tökum undir að ekki eigi að stofna svo víðfeman hálendisþjóðgarð, með þeim stífu friðunaráformum sem fram koma í nýrri skýrslu þverpólitískrar nefndar til undirbúnings frumvarps til laga um stofnun þjóðgarðsins.
Unnið hefur verið að undirbúningi málsins í nefndinni sem hefur skilað af sér skýrslu, nú við árslok 2019. Skýrslunni er ætlað að verða forsenda frumvarps til lagasetningar um stofnun þjóðgarðsins, strax á næsta vori. Með þessu hraða vinnulagi sýnist sem að afar lítið samráð eigi að hafa við hagsmunaaðila s.s. útivistarfélög, sveitarstjórnir og ekki síst þjóðina sem ætti að hafa ríkari aðgang málinu og þá einnig að hafa not af þjóðgarðinum sjálfum.
Með þessum áformum þarf einnig að huga að ýmsum afleiðingum sem svo víðtæk friðun með stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands fylgir, fyrir nýtingu komandi kynslóða. Friðunin hefur neikvæð áhrif á marga þætti eða jafnvel setja óeðlilegar skorður nauðsynlegra mála, sem dæmi:
- uppgræðslu á auðnum hálendisins
- nýtingu hálendis við framleiðslu vistvænna matvæla
- ferðafrelsi einstaklinga
- ferðamöguleikar hreyfihamlaðra og aldraðra
- orkuöflun til framtíðar
- þjóðhagslegra hagkvæmrar orkudreifingu, o.fl.
Hér eru einnig settar fram áhyggjur nefndarmanna af friðun svo stórs hluta landsins, alfriðaðun svæða, mestmegnis á öllum öræfum Íslands, án þess að þessum áformum fylgi tryggar fjárveitingar til góðrar framtíðar. Ferðamannagildrur hræða einnig og eru engum til gagns.
Neikvæð reynsla af stofnun og rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs með lokun ferðaleiða á áhugaverðum stöðum innan hans hefur yfir sér neikvæðan óuppgerðan blæ og að innan þjóðgarðsins hefur fátt nýtt komið til umræðu, sem myndi auka upplifanir gesta þjóðgarðsins, bæði erlendra sem innlendra ferðamanna.
Ferðafrelsisnefnd Eyjafjarðardeildar ferðaklúbbsins 4x4.
Björn Jóhannsson, Björn Pálsson, Brynjólfur Eyjólfsson, Elías Þorsteinsson,
Grétar G. Ingvarsson og Jóhann Björgvinsson.
Í byrjun vil ég taka það fram að ég styð heilshugar það að stofna þjóðgarð sem nær yfir allt hálendi Íslands.
Í mínum huga þarf að huga að því að Óbyggðanefnd hefur ekki enþá byrjað að fjalla um svæði 11 (Austfirði) og tel ég að mörg svæði þar innan þurfi að vera í Hálendisþjóðgarði og því er vert að hraða því ferli til að sem heildstæðasta mynd þjóðgarðsins verði þá þegar til þegar hann verður stofnaður. Einnig eru fleiri svæði sem eiga vel heima innan Hálendisþjóðgarðs sem eru ekki innan marka þess sem nefndin gaf frá sér.
Við stofnun Hálendisþjóðgarðs þarf að huga betur að náttúruvernd ekki gera bara hálendið að ferðamannastað. Huga verður vel að öllu skipulagi sem og landvarsla þarf að vera það fyrsta sem horft er til þegar fjármunum í verkefnið er úthlutað. Taka verður hart á ýmsum óþarfa hefðum sem skapast hafa og hafa ekki góð áhrif á landið, jarðvegin og dýralífið.
Nú þegar þarf að hefja gott kynningar og samstarf við alla hlutaðeigandi, setja þarf upp landfræðilegt gagnasafn um allt innan þjóðgarðs og meta þarf uppbyggingaþarfir áður en að stofnun verður. Ekki bara setja háleit markmið, mörkuð í lög heldur þarf að standa við þau með fjárveitingum og raunhæfum tímaáætlunum.
Hálendisþjóðgarður og svokölluð Þjóðgarðastofnun tala vel saman og gera það að verkum að starfsemi á friðlýstum svæðum utan hálendisins og hálendisþjóðgarður geta unnið vel saman, þ.e. að hægt sé að samnýta starfskrafta og þar með auka fræðslu.
Í Vatnajökulsþjóðgarði er í gangi mikið uppbyggingarstarf, og verið er að slípa til ferla og stofna til nýrra. Augljóslega þarf að horfa vel til þeirra verka og nýta þau tæki sem orðið hafa til þar. En tryggja verður einnig að stofnunin geti unnið þessa fordæmisgefandi vinnu með því að veita til Vatnajökulsþjóðgarðs auknu fjármagni þannig að stofnunin þurfi ekki að reiða sig á sértekjur. Einnig verður að passa að nýr Hálendisþjóðgarður falli ekki og standi með sértekjum.
Sævar Þór Halldósson
Fulltrúi frjálsra félagasamtaka á svið umhverfismála í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs.
Sjá meðfylgjandi viðhengi.
ViðhengiÍ meðfylgjandi fylgiskjali má finna umsögn stjórnar Landvarðafélagsins sem fangar áformum um Hálendisþjóðgarð.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Landsvirkjunar í máli nr. S-290/2019 í Samráðsgátt stjórnvalda þar sem ráðuneytið kynnir til umsagnar áform ráðuneytisins um að leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um þjóðgarð á miðhálendi Íslands.
ViðhengiÁgæti viðtakandi,
Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) um áform um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð.
Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.
Með góðum kveðjum
F.h. SAF
Gunnar Valur Sveinsson
ViðhengiHjálögð er umsögn Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja.
.
Virðingarfyllst,
.
fh. Samorku,
Baldur Dýrfjörð lögfræðingur
ViðhengiVið, undirrituð, styðjum heilshugar stofnun miðhálendisþjóðgarðs til að koma náttúrulegum heimsminjum í það verndarferli sem komandi kynslóðir eiga inni hjá þeim sem nú standa vörð um stundarsakir. Þá styðjum við eindregið tillögur um að Suðurárbotnar, Suðurá og Svartá í Bárðardal, ásamt tungunni milli ánna tveggja og Skjálfandafljóts, verði hluti þjóðgarðs á miðhálendinu.
Miðhálendisþjóðgarður er eitt mikilvægasta framlag Íslands til landvörslu og náttúruverndar fyrir heimsbyggðina um ókomna framtíð. Stofnun miðhálendisþjóðgarðs er raunveruleg langtímastefna og viljayfirlýsing til framtíðar um heildræna umhverfis- og náttúruvernd. Miðhálendisþjóðgarður er í anda þeirrar framtíðarhugsjónar að samfélög axli ábyrgð á umhverfis- og náttúruvernd í verki. Með stofnun þjóðgarðsins verði slegin skjaldborg um viðkvæm víðerni og mikilvæg svæði dregin út úr átökum sérhagsmunagæslu og skammtímahagsmuna einstaklinga og sveitarstjórna. Í regluverki þjóðgarðs býr sú yfirsýn og ábyrgð sem nauðsynleg er til að skila hálendi Íslands áfram til næstu kynslóða.
Miðhálendisþjóðgarður er grunnstoð í hugmyndafræði um ábyrga og heildræna náttúruvernd á Íslandi. Villtum víðernum fækkar hratt í veröldinni vegna ágangs mannsins. Varsla víðernanna er hlutverk sem verður fyrst og síðast að vera á vegum ríkisvalds í nafni þjóðar. Því fögnum við því að frumvarp um miðhálendisþjóðgarð verði að veruleika og biðjum þess að þjóðþingið beri gæfu til að samþykkja slíkt framfaraskref í náttúru- og umhverfisvernd.
Með vinsemd og virðingu,
Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur
Helgi Geirharðsson, verkfræðingur
Erla Guðný Helgadóttir, jarðfræðingur
Umsögn um áform um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð, mál nr. S-290/2019
ViðhengiAthugasemdir við mál nr. 290/2019
Áform um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð
ViðhengiÁform um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð (290/2019)
ViðhengiUmsögn um tillögur að stofnun Miðhálendisþjóðgarðs
Viðhengi