Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 22.11.–6.12.2019

2

Í vinnslu

  • 7.12.2019–27.5.2020

3

Samráði lokið

  • 28.5.2020

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-292/2019

Birt: 22.11.2019

Fjöldi umsagna: 6

Drög að frumvarpi til laga

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfismál

Frumvarp - breyting á lögum um loftslagsmál (EES-innleiðing), nr. 70/2012

Niðurstöður

Fimm umsagnir bárust um frumvarpið eftir birtingu þess í samráðsgátt. Athugasemdir lutu m.a. að mögulegri tengingu CarbFix aðferðarinnar við ETS-kerfið. Þess má geta að vinna við það er í gangi á vegum stjórnvalda. Lögð var til breyting á skilgreiningu "bindingar kolefnis úr andrúmslofti" sem tekið var tillit til í frumvarpinu. Náttúruverndarsamtök Íslands óskuðu frekari skýringa á samstarfi Íslands við ESB um sameiginlegt losunarmarkmið. Orðalagi ákvæðis í frumvarpi var breytt í kjölfarið til frekari skýringa.

Málsefni

Frumvarp um breytingar á lögum um loftslagsmál. Með frumvarpinu er ætlunin að leiða í lög breytingar á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir á 4. tímabili kerfisins sem hefst 2021. Frumvarpið mun einnig veita tveimur reglugerðum ESB lagastoð (2018/841 LULUCF og 2018/842 ESR).

Nánari upplýsingar

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á lögum um loftslagsmál. Með frumvarpinu er m.a. ætlunin að heimila setningu reglna sem varða kröfur vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt Parísarsamningnum á tímabilinu 2021-2030.

Ísland hefur ásamt Noregi náð samkomulagi við Evrópusambandið um þátttöku í sameiginlegu markmiði 30 ríkja innan Parísarsamningsins. Efnislegt samkomulag náðist að mestu í lok árs 2018, en síðan hefur farið fram skoðun á lagalegum þáttum og frágangur á texta. Samkvæmt samkomulaginu eru teknar upp tvær lykilreglugerðir ESB á sviði loftslagsmála, auk reglna um bókhald og skýrslugjöf o.fl. Samkomulagið er með fyrirvara um staðfestingu Alþingis og verður þingsályktunartillaga þar um lögð fram í desember nk.

Frumvarpinu er ætlað að veita lagaheimild til að innleiða ofangreindar reglugerðir, en þær fjalla annars vegar um landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt og hins vegar um „sameiginlega ábyrgð“, sem nær til losunar utan viðskiptakerfis ESB, s.s. frá samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og meðferð úrgangs.

Í frumvarpinu eru einnig ákvæði um breytingar á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) á fjórða tímabili viðskiptakerfisins sem varir frá 2021–2030. Lögin eins og þau eru nú taka mið af tímabilinu 2013-2020.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði ákvæði um auknar vöktunarskyldur flugrekenda vegna hnattræns kerfis Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) sem ætlað er að taka á losun frá flugumferð frá 2021 (Carbon Offsetting and Reduction Scheme, CORSIA).

Frestur til að gera athugasemdir við frumvarpið rennur út 6. desember n.k.

Gerðirnar sem um ræðir eru nánar tiltekið:

1) reglugerðir ESB 2018/841 um landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt og 2018/842 um sameiginlega ábyrgð,

2) tilskipun (ESB) 2018/410 sem breytir tilskipun 2003/87/EB. Um er að ræða breytingar á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) á fjórða tímabili viðskiptakerfisins sem varir frá 2021-2030,

3) ákvæði um auknar vöktunarskyldur vegna kerfis Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) til þess að vakta, gefa skýrslu um og fá vottun fyrir losun frá flugi,

4) að síðustu verða gerðar breytingar á VI. kafla laganna um skráningarkerfið til þess að innleiða breytingar á fjórða tímabili ETS í kjölfarið á útgáfu reglugerðar (ESB) 2019/1122 sem er sett til viðbótar við tilskipun 2003/87/EB hvað varðar virkni skráningarkerfis Evrópusambandsins.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Helga Jónsdóttir

helga.jonsdottir@uar.is