Samráð fyrirhugað 28.11.2019—13.12.2019
Til umsagnar 28.11.2019—13.12.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 13.12.2019
Niðurstöður birtar

Áform um lagasetningu - Lög um skip

Mál nr. 294/2019 Birt: 28.11.2019
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (28.11.2019–13.12.2019). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Áformað er að leggja fram frumvarp til laga um skip. Um er að ræða ný heildarlög sem endurskoða og sameina ýmis lög á þessu sviði og fella brott lög sem eru úrelt. Markmið lagasetningar er að útbúa aðgengilega og heilsteypta löggjöf með því að einfalda, uppfæra og samræma íslenska löggjöf um skip og umsýslu hennar.

Flækjustig í lögum og reglum um skip eykur hættu á misræmi í stjórnsýsluframkvæmd. Þetta flækjustig gerir einstaklingum jafnframt erfitt fyrir að sjá hvaða kröfur gilda. Víðtækt regluverk er í gildi um siglingar. Meðal þeirra laga sem felldar verða í ein lög má nefna lög nr. 115/1985, um skráningu skipa, lög nr. 146/2002, um skipamælingar, lög nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, lög um einkenning fiskiskipa frá 1925 og lög um flutninga á skipagengum vatnaleiðum vegna aðildar Íslands að EES frá 1996, ásamt öðrum ákvæðum sem eru á víð og dreif í íslenskum lögum.

Með frumvarpinu sem áformað er að leggja fram verður lagareglum á þessu sviði komið fyrir á einum stað. Með sameiningunni verða ákvæði yfirfarin með gagnrýnum hætti, með það fyrir augum að einfalda, uppfæra og jafnvel að fella brott úrelt ákvæði. Samhliða verða reglugerðir sem falla undir lögin kortlagðar og farið yfir lagastoðir þeirra. Þá verða reglugerðarheimildir skýrari og hlutverk eftirlitsaðila og viðurlagaákvæði skýrð. Mikilvægt er þó að taka fram að hvergi verður dregið úr öryggi eða skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt alþjóðasamningum á sviði siglinga.

Ekki eru fyrirhugað að gera umfangsmiklar efnislegar breytingar á þeim lagareglum sem gilda um skip. Þó verða ákvæði um eftirlit og stjórnvaldssektir teknar til endurskoðunar. Þá hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu borist ábendingar um að reglur um merkingar skipa séu ekki í takt við alþjóðlegar kröfur sem finna má meðal annars í reglum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna um að skip séu merkt með IMO númeri. Er fyrirhugað að leggja til breytingu á reglum um merkingu skipa þannig að þessari gagnrýni sé mætt.

Tengd mál