Litið var til umsagna um áform við ritun frumvarps, sjá frumvarp mál 35/2020 og mál 200/2020
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 29.11.2019–13.12.2019.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 28.10.2020.
Áformað er að leggja fram frumvarp til breytinga á áfengislögum sem felur m.a. í sér tvær undanþágur á einokun ÁTVR á smásölu áfengis. Annars vegar til þess að heimila innlenda vefverslun með áfengi til neytenda í smásölu og hins vegar heimila framleiðendum áfengis að selja áfengi til neytenda með ákveðnum takmörkunum.
Á grundvelli áfengislaga nr. 75/1998 og laga nr. 86/2011 um verslun með áfengi og tóbak hefur Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins einokun á smásölu áfengis til neytenda. Árið 1995 var einkaréttur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til innflutnings á áfengi afnuminn og almenningi gert kleift að flytja áfengi til landsins, þó ekki til smásölu. Í 3. gr. áfengislaga nr. 75/1998 er kveðið berum orðum á um að sérstakt leyfi þurfi fyrir áfengisinnflutning í atvinnuskyni, en ekki er kveðið á um að leyfi þurfi svo að almenningur geti flutt áfengi til landsins til einkaneyslu. Hefur þetta leitt til þess að almenningur hefur um áratugaskeið getað keypt sér áfengi í erlendum verslunum, t.d. í gegnum netið og látið senda heim að dyrum á Íslandi, að áfengis- og innflutningsgjöldum uppgerðum.
Ráðgert er að í frumvarpinu verði heimilað að starfrækja innlenda vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda. Frumvarpinu er ætlað að mæta sívaxandi kröfum neytenda um aukið valfrelsi. Þá er nauðsynlegt að jafna stöðu innlendrar verslunar við þá erlendu, en neytendum er, eins og fyrr segir, nú þegar heimilt að flytja inn áfengi til landsins til einkanota heim að dyrum, t.d. í gegnum erlendar vefverslanir með áfengi. Með skírskotun til jafnræðis fæst ekki staðist að mismuna innlendri verslun með þessum hætti.
Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að mæta kröfum minni áfengisframleiðanda, sérstaklega á landsbyggðinni, um að heimilt verði, í tilteknum tilvikum, að selja áfengi í smásölu til neytenda. Felur það í sér að áfengisframleiðanda verði heimilt að selja á framleiðslustaðnum eigin framleiðslu í neytendaumbúðum, til neyslu annars staðar. Í nágrannalöndum Íslands tíðkast að smásala á handsverksáfengi (t.d. bjór eða víni) sé heimiluð beint frá framleiðanda til neytenda, t.d. í tengslum við ferðaþjónustu.
Enga netverslun í einkaeigu, við skulum ekki leyfa fáeinum að mata krókinn á fíkn áfengissjúklinga. Ef leyfa á netverslun þarf hún að vera á vegum ríkisins með tilheyrandi skattlagningu. Hér er ekki um venjulega neysluvöru að ræða. Neysla áfengis setur mikið álag á heilbrigðiskerfið og þurfa skattgreiðendur að borga sjúkrareikninga áfengissjúklinga.
Eðlilegt er að gefa innlendum framleiðendum svigrúm til að selja sína vöru á framleiðslustað. Magnið þarf hins vegar að takmarka til að slík sala sé ekki misnotuð. Æskilegt er að sú sala sé háð sambærilegum takmörkunum og sala áfengis í fríhöfninni.
Með sama hætti og sömu rökum og mér finnst skipta máli að fólk hafi frelsi til að versla í matinn fyrir fólkið sitt án þess að vera boðið áfengi, þá finnst mér mikilvægt að netverslun með áfengi verði ekki hluti af stærri netverslun með dagvöru.
Dæmi: Að netto.is, heimkaup.is eða aðrar verslanir sem selja dagvöru megi ekki vera með áfengi í sömu netverslun sem hægt sé að kaupa í sömu innkaupum og matvörurnar.
Það eru tugþúsundir landsmanna sem eiga mjög erfitt með að neita sér um áfengi, og þar sem sú fíkn hefur haft veruleg neikvæð áhrif á fólkið sjálft og þeirra fjölskyldur. Þetta fólk á að hafa frelsi til að geta keypt dagvöru fyrir fjölskylduna án þess að reynt sé að selja því áfengi í leiðinni, hvort sem er á netinu eða í raunheimum.
Að öðru leyti finnast mér bæði hugmyndin um netverslun góð, og einnig það að brugghús geti selt sína framleiðslu á staðnum.
Tímabær breyting a lögum um sölu áfengis. Það er í hæðsta máta óeðlilegt að einstaklingar geti keypt vín frá erlendum netverslunum og fengið keyrt heim að dyrum með hinum ríkisrekna Íslandspósti. Að íslenskir birgjar hafi ekki sömu möguleika á þessháttar viðskiptum skekkir samkeppni og viðheldur úreltu fyrirkomulagi. Það er ekki áfenginu um að kenna að það er misnotað og mun meiri hætta stafar af hinum ýmsu fikniefnum en léttu vini og bjór.
Sé öllum lögum fylgt hvað aldurstakmörk varðar er um að ræða byltingu fyrir neytendur sem og seljendur. Verslanir ÁTVR munu enn hafa hlutverk geti þær veitt þá þjónustu er viðskiptavinir óska. Áfengi hentar einkar vel til sölu i gegnum vefverslanir, gefur neytendum kost á að rýna vöruna og gera upp hug sinn aður en pantað er. Stígum skrefið inn i framtíðina öllum til bóta.
Mjög jákvætt skref til að jafna kjör íslenskra smáframleiðanda við þá stóru, en í mjög mörgum tilfellum er framleiðsla það lítil að hún einfaldlega stendur ekki undir því ferli og kostnaði sem er að koma vörum sínum í sölu í vínbúðum ÁTVR. Með þessu geta smærri áfengisframleiðendur selt sína vöru út frá framleiðslustað sem hefur verið ómögulegt fram til þessa.
Það er furðulegt að horfa til þess að ferksvara sem framleidd er 100 metrum frá áfengisverslun þurfi stundum að fara í allt að 10 daga ferðalag um Íslands í mengandi flutningabílum til þess eins að verða fáanleg í verslun. Verum umhverfisvæn, verum tilitsömu við neytendur með að afhenda ferksvöru ferska og leyfum sölu beint frá framleiðslsustað.
Ef þetta gengur í gegn markar það mjög jákvæða þróun fyrir smá brugghús sem hafa hingað til ekki geta selt sína vöru nema í gegnum ÁTVR verslanir. Það hefur reynst mörgum allt of stór biti.
Ágæit viðtakandi,
Ég vil lýsa ánægju minni með þetta frumvarp og möguleikanum sem það felur í sér fyrir neytendur að kaupa bjór beint frá býli. Rétt eins og aukið aðgengi að bjór frá 1989 hefur stórbætt umgengni almennings á Íslandi við áfengi almennt, tel ég að þetta muni enn bæta sambúðina og auka siðmenninguna í neyslu áfengis, þegar kostur gefst á því að versla það sem kalla mætti "handverksbrugg" milliliðalaust. Þess utan rennir frumvarpið stoðum undir framtak handverksbruggara og slíkt getur ekki verið nema af hinu góða, þar sem framleiðsla og sala er uppi á borðum í stað þess að fara fram í skjóli leyndar, eins og annars gæti þróast.
Frumvarpið er í alla staði fagnaðarefni, og rökrétt næsta skref í hinni stórbættu áfengismenningu Íslendinga frá því sem var; ekkert okkar vill snúa til þeirrar villimennsku sem viðgekkst hér fram til ársins 1989 og tók mörg ár að vinda ofan af, er það?
Með bestu kveðjum og einlægri von um brautargengi frumvarps þessa -
Jón Agnar Ólason,
Hafnarfirði.
Tel þetta vera mjög jákvætt skref í að jafna samkeppnishæfni minni brugghúsa um land allt með því að leyfa smásölu og netsölu.
Frábært að geta keypt íslenskan bjór á netinu og beint frá litlu bruggurunum. Vona svo sannarlega að þetta fari í gegn.
Þetta mál virðist amk. við fyrstu sýn vera verulega jákvætt. Þetta væntanlega frumvarp er þó ekki komið fram og þ.a.l. erfitt að tjá sig endanlega um útfærsluna á þessum tíma en þó vil ég taka fram eftirfarandi:
Varðandi þann hluta að leyfa netsölu áfengis frá innlendum framleiðendum: Í töluverðan tíma hefur það verið heimilt að panta sér bjóra (og annað áfengi) erlendis frá eða síðan 1995. Þessar pantanir eru sendar á tilgreindan leiðarenda með þeim takmörkunum sem viðkomandi póstþjónusta setur. Þannig er búið að greiða og skila bæði áfengisgjaldi annarsvegar og öllum aðfluttningsgjöldum hins vegar. Þetta kerfi hefur þannig verið við lýði í tæp 25 ár en einungis með pantanir erlendis frá. Engar vísbendingar mér vitanlega eru um að einstaklingar sem glíma við áfengisvanda séu útsettir fyrir því að panta sér áfengi erlendis frá og verða þannig undir í glímunni við áfengið. Þannig er hér einungis um mismunun að ræða, sem var í sjálfu sér ekki mikið vandamál þegar tveir risar sáu um nálega alla bjórsöluna á Íslandi. En með fjölgun lítilla brugghúsa, svokallaðra handverkshúsa er þessi breyting auðvitað löngu tímabær enda algjör skekkja að hægt sé að panta sér þessar vörur erlendis frá en ekki af innlendum framleiðendum. Þetta er raunar mismunun sem erfitt er að sjá að standist skoðun ef á þetta yrði reynt.
Ef þessi breyting gengi í gegn og svo ólíklega færi að innkaup almennings á bjór færðust mikið í þessa átt yrði ríkið ekki af neinum teljandi tekjum, þar sem áfengisframleiðendur skila nú þegar áfengisgjöldum til hins opinbera ásamt því að virðisaukaskattur myndi skila sér af sölunni. Ef framleiðendum er treyst til að skila einni tegund vörsluskatta hlýtur þeim að vera treystandi að skila öðrum. Álagning ÁTVR myndi ekki koma til ríkisins, en á móti kæmi sparnaður Vínbúðarinnar við hilluplássið, framstillingar, lagerpláss og afgreiðslufólkið, þannig að gera mætti ráð fyrir hlutlausum áhrifum á tekjur hins opinbera, varðandi þann þátt. Fyrir utan síðan að koma mögulega böndum á ólöglega sölu ef einhver er smbr. t.d. átaksverkefnið Allir Vinna.
Enn fremur má ætla að ef þetta yrði vinsælt myndi biðtíminn eftir því að nálgast áfengið aukast, þ.e. sendingar tækju einhverja sólarhringa að ná til neytandans. Mögulega myndu ýmiss smærri brugghús sjá jafnvel hag sinn í því að sleppa við umsóknargjald og sendingar kostnað til Vínbúðarinnar með smærri áfengistegundir sínar, eða það sem kæmi í mjög afmarkaðan tíma og litlu magni yrði einungis selt með netverslunarfyrirkomulagi. Það myndi þannig væntanlega fækka skyndiákvörðunum neytenda og gefa einstaklingum ríkulegt svigrúm í tíma til að skipta um skoðun. Þessu ættu t.d. andstæðingar áfengis í matvöruverslanir að fagna sérstaklega enda helstu rökin þar að skyndiákvarðanir og freistivandi þeirra sem auðveldlega láta undan freistingum áfengisins þegar í búðina væri komið, að það væri hið óæskilega í því máli. Nægir að nefna t.d. skoðanir Kára Stefánssonar sem vel voru skrásettar í viðtali við Morgunblaðið í mars 2015 sem víða hefur verið haldið á lofti í því samhengi.
Kostnaðurinn við eftirlitið með þessari starfsemi væri óverulegur ef einhver þar sem að hann myndi væntanlega falla inn í annað eftirlit (t.d. Tollstjóra með birgðahaldi brugghúsa) og aðrar leyfisveitingar, svo sem framleiðsluleyfi sem og leyfi viðkomandi heilbrigðiseftirlits með starfseminni.
Með öðrum orðum er hér ekki um neinn kostnaðarauka né tekjutap fyrir hið opinbera að ræða né heldur er verið að auka aðgengi svo séð verði, heldur þvert á móti að lengja afhendingartímann verulega. Þessu ættu þannig allir sem hafa áhyggjur af útbreiðslu áfengis að fagna, ef eitthvað samræmi er í þeirra málflutningi.
Varðandi að selja eigin framleiðsvörur á framleiðslustað til neyslu annarsstaðar:
Það er vandséð hvernig það samrýmist að geta farið í heimsókn brugghús, gera sér sér ferð og mega drekka þar ótæpilega í kynningarskyni en það að versla vörurnar sem að framleiddar eru á staðnum sé óæskilegt og teljast til aukningar á aðgengi. Líkt og rakið er hér að ofan þarf alla jafna að fara sér ferð í þessum erindagjörðum en langsamlega flest brugghúsin eru utan alfaraleiðar og vel fjarri öllum verslunarkjörnum hvar Vínbúðir eru alla jafna staðsettar. Þannig er þetta síst meiri skyndiákvörðun en að fara í Vínbúðina, heldur þvert á móti þarfnast þetta einbeittari vilja til að nálgast bjórinn. Aðgengi fyrir þá sem ekki hafa aldur til að neyta áfengis er heldur tæplegast til umræðu hér, ekki frekar en á almennum öldurhúsum. Því er nánast hægt að fullyrða að aðgengi sé í raun ekki að aukast þó að mögulega sé útsölustöðum að fjölga.
Fyrirmyndirnar að svona fyrirkomulagi eru víða, m.a. í Noregi. Þar var lagt í sérstakt átak til að styðja við smærri brugghús á landsbyggðinni (bændur) með því að veita þeim heimild til að selja framleiðsluvörur sínar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og með takmörkunum. Eins er fjöldinn allur af litlum brugghúsum í Danmörku sem selja vörur sínar beint frá verksmiðju. Þá eru fyrirmyndir að svona breytingum að finna í t.d. Maine fylki í Bandaríkjunum, þar sem lögleiðing svokallaðra gestastofa og viðskiptanna sem þar fylgdu hefur leitt til gríðarlegrar innspýtingar í veltu fyrir svæðið annarsvegar ásamt því að þau 70 handverksbrugghús sem starfa í fylkinu skapa beint og í afleiddum störfum í kringum 1.500 stöðugildi. Vissulega er um ólíkar stærðir að ræða en þó ber að benda á að í Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa er 21 brugghús skv. fésbókarsíðu samtakanna auk líklega í kringum5 annarra aðila sem ekki eru meðlimir. Þessi íslensku brugghús eru vissulega töluvert smærri í sníðum mörg hver en bein og afleidd störf eru samt þó nokkur.
Þannig er beinn hagrænn hvati af þessari starfsemi og í erfiðu rekstrarumhverfi sprotafyrirtækja er beinlínis óábyrgt að skoða ekki hvernig hægt er að búa þessum fyrirtækjum betur í haginn. Þá er ljóst að við þetta skapast allskyns tækifæri t.d. að nýta svokallaðar heimabeljur (growler) til að kaupa beint af framleiðanda. Þessu fylgir minna umhverfisspor, líka þar sem bjórinn þarf ekki að ferðast neitt. Og svo eru eiginleikar bjórsins stundum þannig að best er að neyta hans sem ferskasts og þannig eykur þetta gæðin til þeirra neytenda sem gera háar kröfur. Þannig að þetta er raunar bæði gæðamál og umhverfismál.
Þá myndi það að bæta rekstrargrundvöll litlu brugghúsanna að ná til sín álagningunni sem Vínbúðirnar leggja ofan á, inn í rekstur sinn. Álagning ÁTVR er 18% ofan á verð brugghúsa að meðtöldum áfengisgjöldum og skilagjaldi umbúða. Við það bætist síðan virðisaukaskattur á matvæli. Þetta þýðir að hlutur Vínbúðarinnar af öllum bjór er 13,74% af heildarútsöluverði.
Í tilfellum hefðbundinna lagerbjóra frá stærri brugghúsum má gera ráð fyrir því að c.a. 30% af heildar útsöluverði bjórs skili sér til brugghúsanna þannig að þessi tæplega 14% hlutur þýðir í þeim tilfellum hækkun hluta brugghúsa um kannski 45%, eftir atvikum. Í handverksbrugghúsunum kostar bjórinn alla jafna meira í framleiðslu og þar af leiðandi og eðlilega er hlutur brugghússins í heildarverði stærri. Ef skoðað er verð á algengum handverksbjórum sem fást í Vínbúðinni (sjá vinbudin.is) má með lágmarksþekkingu á reglunum og sæmilegan skilning á prósentureikningi reikna það að innkoma/tekjur handverksbrugghúsanna af þessari sölu myndi hækka um 25-30% með því að geta rukkað sama verð fyrir bjórinn sinn í beinni sölu og hann seldist í Vínbúðinni. Það er auðvitað töluvert meiri hækkun en það á framlegðinni en slíkar tölur eru ekki aðgengilegar almenningi. Þetta myndi vitanlega styrkja rekstrargrundvöll þessar handverksbrugghúsa til muna.
Fyrir síðan áhugafólk og safnara (sem eru ófáir) hefur sala beint frá framleiðanda mikinn kost. Margar bjórtegundir hafa talsvert geymsluþol og eru eftirsóttar í mörg ár. Útilokað er hins vegar fyrir ÁTVR að verja hilluplássi og fyrirhöfn í að halda úti lager af ótal gömlum bjórum, en handverksbrugghús ættu auðveldar með að þjónusta þennan hóp. Þetta dregur því úr matarsóun og vinnur gegn gráum eða svörtum markaði með fágæta bjóra sem horfnir eru úr sölu hjá ÁTVR en slík verslun er nokkuð algeng, t.a.m. á samfélagsmiðlum.
Þegar síðan horft er til þess að af þeim 21 meðlimum í Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa eru 15 staðsett fyrir utan höfuðborgarsvæðið víðsvegar hringinn í kringum landið, að þá er þetta auðvitað líka jákvætt fyrir atvinnu uppbyggingu á landsbyggðinni, styrkir byggðalögin og styður þannig við jákvæða byggðarstefnu og fjölbreytni í atvinnumöguleikum á landsbyggðinni.
Loks samrýmist þetta markmiðum stjórnvalda um upplifunartengda ferðamennsku sem fjallað var um m.a. í skýrslu Ferðamálastofu frá því í nóvember á þessu ári. Bjórtengdur ferðamannaiðnaður er ört vaxandi grein víða um heim, þar með talið hérlendis og jákvæð umgjörð í tengslum við þennan þátt ferðamennskunnar á Íslandi skiptir fyrirtæki í bjórframleiðslu gríðarlega miklu máli. Þessum breytingum myndi fylgja aukin verðmætasköpun fyrir þessi fyrirtæki og það samrýmist auðvitað stefnu og leiðarljósi stjórnvalda í ferðamennsku til ársins 2030.
Varðandi regluverk, utan umhald og að uppræta mögulega ólöglega sölu ef einhver er gilda sömu rök og áður, varðandi netverslun.
AF framansögðu má vera ljóst að það er ærið tilefni til að setja svona löggjöf líkt og boðað er hér á samráðsgáttinni. Erfitt er að sjá hvernig þetta eykur aðgengi, ógnar börnum, freistar þeirra sem glíma við áfengisfíkn eða stangast á við forvarnarstefnu stjórnvalda á einhvern hátt, umfram núverandi fyrirkomulag. Kostir þessarar lagasetningar virðast hins vegar ótvíræðir og ættu að vega töluvert þyngra en oftast órökstudd gífuryrði um hið gagnstæða. Vissulega liggur frumvarpið ekki fyrir og því ber að taka þessu með þeim fyrirvara, en ef að það er ekki þeim mun verra úr garði gert þá ætti þetta ekki að vera sú ógn við lýðheilsu Íslendinga eins og sumir vilja láta í veðri vaka. Heldur þvert ámóti, lyftistöng fyrir lítil sprotafyrirtæki, oftast á landsbyggðinni, samfélaginu vonandi til hagsbóta.
Fagna þessari umræðu. Minni framleiðendur eiga erfiðara uppdráttar eins og er, og það leiðir af sér minni fjölbreytni og samkeppni. Einnig þætti mér gaman að sjá þetta jafnvel leiða til lægra verðs á bjór og öðru áfengi, sem er með því sem erlent ferðafólk kvartar helst undan.
Tilgangurinn með þessum lögum virðist vera sá að auka og auðvelda aðgengi almennings að áfengi sem er nóg fyrir. Þetta á alltaf að vera í höndum ríkisins og í óbreyttri mynd. Kostnaður við áfengisneyslu beinn og afleiddur skiptir milljörðum og í sumum tilfellum ómetanlegur. Engin þörf er á því að auka aðgengi fólks að fíkniefnum sem áfengi svo sannarlega er. Áhrif áfengisneyslu eru alltaf slæm og ekkert gott hlýst af en búið er að normalisera neysluna á svo mörgum sviðum til dæmis í kringum íþróttir og fleira.
Þetta frumvarp er mjög mikilvægt fyrir áframhaldandi uppvöxt og þróun lítilla handverksbrugghúsa á Íslandi og fyrsta skrefið í áttina að því lagaumhverfi sem þarf að vera til þess að tryggja gott rekstrarumhverfi. Í Evrópu og Bandaríkjunum er mikil gróska lítilla brugghúsa sem selja vörur sínar út um eigin dyr og myndast oft mikil eftirspurn eftir slíkum sjaldgæfum handverksbjórum. Oft myndast raðir niður eftir götum þar sem brugghúsin standa til þess að fólk geti nálgast bjór sem mun aldrei verða aftur til. Eins og núverandi reglur ÁTVR eru um sölu á bjór þá geta minni brugghús enganvegin selt vörur sínar þar, sérstklega þar sem þau brugga sama bjórinn ekki oftar en einu sinni.
Þessi löggjöf tryggir einning stöðu Íslendinga varðandi reglugverk ESB um að það sé bannað að mismuna löndum í netsölu á svæði EES og ESB. Það að Íslendingar geti keypt bjór beint frá erlendum brugghúsum og fengið hann sendann heim en ekki geta labbað út í næsta brugghús og fengið bjór er alveg fáránlegt. Netverslunin er fyrsta skrefið, en það verður að ganga lengra og leyfa þeim brugghúsum sem það kjósa að selja vörur sínar beint. Bæði í flöskum/dósum sem og í áfyllingarumbúðum (e. growler). Það leyfir litlum brugghúsum sem ekki hafa tök á að koma öllum sínum vörum í pakkningar að selja bjór beint til neytenda. Þetta minnkar einnig umhverfisspor bjórsins þar sem að growlerarnir eru margnota umbúðir þar sem neytendur geta mætt á staðinn og fyllt á flöskuna oft.
Vegna þess skaða sem þjóðfélagið ber af áfenginu voru settar reglur til þess að hamla gegn neysluaukningu. Þetta frumvarp er gegn þeim vilja sem þar kom fram. Innflutningur einstaklinga til eigin neyslu er einfaldlega gat á settum lögum og reglum um aðgengi að þessu vímu- og fíkniefni sem er þjóðfélaginu dýrast, sjá meistararitgerð Ara Matthíasonar heilsuhagfræðings. Í texta með frumvarpinu er bennt á skort á jafnræði innlendrar og erlendrar verslunar sem einfaldast væri að upphefja með því að loka þessu innflutningsgati. Vilji einhverjir nálgast sérstakar tegundir af akohólblöndum erlendis frá má benda á að átvr hefur möguleika á að milligangast slíkar óskir.
Í umfjöllun um þetta frumvarp er mjög óeðlilegt ef ekki verða um leið kynntar uppfærðar tölur um kostnað og tekjutap löggæslu, dómskerfis, tryggingafélaga, vinnuveitenda, skattekna ríkissjóðs, heimila og annara sem finna fyrir skaðanum sem hlýst af akohólinu.
Frumvarp þetta mun að mínu mati breyta rekstri minni framleiðanda á bjór á Íslandi til hinst betra og styrkja rekstarstöðu þeirra umtalsvert. Á síðustu árum hefur orðið mikil gróska í framleiðslu á handverksbjór og minni framleiðendur opnað um land allt. Frumvarpið styrkir enn frekar þennan vöxt og rekstur þessa minni aðila með því að opna á sölu bæði í gegnum netið og á sínum framleiðslustað. Netverslun með áfengi er möguleiki í dag en einungis erlendis frá og skekkir það gríðarlega stöðu innlendra framleiðenda en með þessu frumvarpi sitja bæði innlendir og erlendir framleiðendur við sama borð.
Varðandi sölu beint af framleiðslustað þá er það mikilvæg og góð breyting fyrir alla, bæði framleiðendur og neytendur. Í dag geta einstaklingar komið í kynningarferðir um framleiðslunna og smakkað á framleiðslunni og flestir reka einhversskonar ölstofu samhliða framleiðslunni. Litlir framleiðendur víða um land eiga erfitt með að ná góðri dreifingu og sölu í Vínbúðinni um land allt. Ferlið er flókið, tímafrekt og þungt í vöfum og einfaldar þessi breyting því að minni framleiðendur eiga auðveldar með að selja og koma vöru sinni á framfæri t.d. við erlenda ferðamenn sem oft á tíðum eru stór hluti þeirra sem koma í kynningarferðir í brugghúsin.
Verði þessar breytingar samþykktar mun það efla og styrkja handverksbrugghús um land allt og efla byggðir á landinu og bjóða upp á fjölbreyttari flóru drykkja og afþreyingar fyrir erlenda og innlenda ferðamenn.
Samtök íslenskra handverksbrugghúsa eru hagsmunasamtök 22 handverksbrugghúsa um land allt. Flest aðildarfélögin framleiða bjór, eitt framleiðir mjöð og eitt gerir eimaða drykki frá grunni. Brugghúsin eru smá, hafa gæði og frumleika að markmiði og þau leitast við að gera úrvals vörur í nánu samstarfi við sitt nærumhverfi. Þau skapa atvinnu fyrir hundruði manns, auka lífsgæði í sínu byggðalagi og stuðla að aukinni ferðamennsku með því að laða til sín ferðamenn sem vilja heimsækja brugghús og upplifa vörur gerðar á þeim svæðum sem þeir sækja heim.
Ráðherra hefur tilkynnt að hún hyggist leggja fram frumvarp sem leyfir áfengisframleiðendum að reka vefverslun og selja framleiðsluvörur sínar beint frá verksmiðu; svo kallað “beint frá býli”. Þó frumvarpið liggi ekki enn fyrir vilja Samtökin koma á framfæri eftirfarandi umsögn í Samráðsgáttinni.
Um nokkura ára skeið hefur Íslendingum staðið til boða að kaupa áfengi gegnum vefverslanir erlendis og fá það afhent hér á landi að lokinni greiðslu á gjöldum og sköttum. Íslenskum framleiðendum og heildsölum hefur ekki staðið til boða að reka slíka vefverslun með áfengi er selja til innlendra aðila. Hér er um mismunun að ræða eftir hvar í heiminum söluaðilinn er staddur. Að því leiti er heimild til slíkrar vefverslunar til innlendra aðila sanngirnis- og réttlætismál.
Þróun undanfarinna ára á Íslandi líkt og annars staðar hefur verið í átt til fjölbreytni; neytendur vilja aukið val og sér í lagi valkost um handgerða vöru frá smærri framleiðendum beint úr héraði. Væntingar bæði Íslendinga og gesta okkar eru þær að hér sé hægt að nálgast vandaða vöru frá smáframleiðendum og kynnast framleiðanda og sérstöðu hans um leið. Litlu handverksbrugghúsin eru svar við þessari þörf.
Þó hentar sölukerfi ÁTVR engan vegin til að mæta þessari markaðsþörf og eðlilegri þjónustu við neytendur í samræmi við það sem gengur og gerist í löndum í kringum okkur. Fæst þau lönd hafa einkaleyfi áfengissölu á hendi opinberra aðila, því þykir sala beint frá framleiðanda sjálfsögð í þeim löndum. En jafnvel þótt áfengissala sé í höndum opinberra aðila hafa lönd eins og Noregur og Finnland leyft framleiðendum að selja beint til neytenda.
Sala beint til neytenda styttir aðgang að markaði, bæði hvað varðar tíma og vegalengd. Afurð handverksbrugghúsa er ferskvara, því er mikilvægt að hún komist sem ferskust á markað. Núverandi fyrirkomulag ÁTVR þýðir oft langan umsóknartíma og sölutímabil sem miðast ekki af því hvenær vara er tilbúin til sölu. Þá er mikill sparnaður fólginn í að þurfa ekki að senda vöru til ÁTVR, oft utan að landi til þess að varan sé svo aftur send til baka í heimabyggð brugghússins til sölu þar. Umhverfissporið af sölu beint frá framleiðanda er því töluvert minna.
Sala beint til neytenda mætir væntingum ferðamanna sem heimsækja landið. Væntingar þeirra er að þeir geti nálgast beint vörur úr héraði þar sem þeir heimsækja. Fjöldi gesta á ferðalagi um landið gerir sér beinlínis ferð til að heimsækja handverksbrugghús á minni sem stærri stöðum víða um landið. Þeir staldra við, fræðast um starfsemina, fá kynningu á vörunni og vænta þess að heimsókn lokinni að þeir hafi tækifæri til að taka með sér hóflegt magn af vörunni til að njóta síðar, eða jafnvel taka með sér heim og kynna fyrir vinum og fjölskyldu þar.
Loks má nefna að vara sem seld er beint frá framleiðanda mætti selja í endurnýtanlegum umbúðum; gler eða álflöskum sem hægt er að þrífa og endurfylla margoft. Það minnkar notkun á einnota umbúðum, auk þess sem framleiðslukostnaður á þeirri vöru verður talsvert minni, enda mikill kostnaður oft falinn í einnota umbúðum.
Samtök íslenskra handverksbrugghúsa er mjög ánægt með þetta framtak ráðherra og lítur bjartsýnum augum til að þessar breytingar nái fram að ganga. Þær munu færa Ísland til samræmis við það sem tíðkast í löndum sem við viljum bera okkur saman við, en ekki síst styðja við litlu brugghúsin í landinu til að vaxa og dafna, treysta grundvöll fjölda manns sem hafa beinar eða óbeinar tekjur af handverksbrugghúsum, auka fjölbreitni og ferskleika fyrir neytendur, hjálpa við að gera Ísland enn eftirsóttara í augum gesta sem sækja okkur heim, og stuðla að betri áfengismenningu með því að taka burt hindranir fyrir framleiðendur til að koma vöru sinni á markað.
Ég fagna þessu fyrirhugaða frumvarpi ráðherra. Litlum handverksbrugghúsum á Íslandi hefur fjölgað talsvert á síðari árum. Þessi aukning hefur mætt kröfu neytenda um ferskari vörur, nýjungar og aukið úrval af bjór, miði og öðru áfengi. Nái frumvarpið fram að ganga og framleiðendum verði leyft að selja beint til neytenda mun það styrka rekstrargrundvöll lítilla handverksbrugghúsa á sama tíma og neytendur njóta góðs af.
Ég vitna í umsögn Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa, þar sem segir: "Þær [lagabreytingarnar] munu færa Ísland til samræmis við það sem tíðkast í löndum sem við viljum bera okkur saman við, en ekki síst styðja við litlu brugghúsin í landinu til að vaxa og dafna, treysta grundvöll fjölda manns sem hafa beinar eða óbeinar tekjur af handverksbrugghúsum, auka fjölbreytni og ferskleika fyrir neytendur, hjálpa við að gera Ísland enn eftirsóttara í augum gesta sem sækja okkur heim, og stuðla að betri áfengismenningu með því að taka burt hindranir fyrir framleiðendur til að koma vöru sinni á markað."
Undirritaður er einn af stofnendum og framkvæmdastjóri RVK Brewing Co. sem er handverksbrugghús í hjarta Reykjavíkur. Hann er einnig formaður Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa árið 2019.
Til þeirra er málið varðar.
Það skal tekið fram hér í byrjun að undirritaður er einn eigenda Beljanda Brugghúss á Breiðdalsvík.
Ég fagna þessu frumvarpi bæði sem atvinnurekandi í bjórheiminum og sem bjóráhugamaður.
Svo ég tali fyrir mitt litla brugghús á Breiðdalsvík þá er það stofnaði til þess að auka fjölbreytileika í störfum, auka á fjölbreytileika í ferðamennsku á austfjörðum, og til að stuðla að bættir menningarstarfsemi í plássinu með viðburðum, Á hverju sumri sendum við á hverjum degi ferðamenn út úr brugghúsinu bjórlausa því það fer ekki saman að drekka og keyra, við höfum ekki mátt selja þeim bjórinn okkar út úr húsi, til að njóta hans seinna um kvöldið, þetta hefur haft af okkur talsverðar tekjur, tekjur sem annars hefði mátt nýta í að skapa störf, bæta verkferla, kaupa vélar og tæki til að bæta atvinnu umhverfi, nú eða hækka laun. Við höfum vanalega mætt skilningi á þessu en höfum líka verið settir í þá aðstöðu að vera beðnir um að brjóta lögin. Ef þetta frumvarp verður að lögum þá mun talsvert frelsi skapast fyrir brugghúsið og fyrir íbúa staðarins sem ekki lengur þurfa að treysta á opnunartíma ÁTVR til að ná sér í sjálfsagða neysluvöru eins og bjór.
Ég les áhyggjur samlanda minna um að þetta “aukna” framboð á bjór geti leitt til aukinnar drykkju, og vil segja að ég deili ekki þeim áhyggjum, Handverksbjórar eru yfirleitt dýrir bjórar að drekka og flestir þeir sem heimsækja okkur í brugghúsið drekka ekki óhóflega meðan þeir eru okkar gestir.
Þetta er sjálfsagt mál til að jafna samkeppnishæfni okkar litlu brugghúsanna á Íslandi gagnvart erlendum keppinautum, Mér finndist jafnvel að það ætti að skilgreina hvað er lítið brugghús í þessu frumvarpi ef þetta á að vera til þess að hjálpa “litla” manninum í þessum bransa.
Beljandi Brugghús á Breiðdalsvík sem er 3 ára gamalt fyrirtæki, hefur á þessum 3 árum skapað 2 heilsársstörf og er enn í vexti, þetta er allt saman upp brekkuna en kemur, þetta frumvarp mun styðja við fyrirtæki eins og Beljanda um allt land, þetta mun styðja við sjálfbæra atvinnu uppbyggingu, mun auka fjölbreytileika fyrir ferðamenn í okkar góða landi, og síðast en ekki síst mun þetta veita kollegum okkar og vinum aukið sjálfstraust til að þróa atvinnugreinina og bera hana enn lengra.
Daði.
Viðbót við umsögn#17.
Eins og áður er skrifað fagna ég auknu frelsi í viðskiptum með vöruna með öllum þeim góðu kostum sem því fylgja, ég hefði þó vilja sjá frumvarpið ná enn lengra þegar kemur að skatta umhverfinu. Það er eitt að fá meira frelsi til að selja vöruna, annað er hvað það kostar að framleiða hana. Fyrirfram skattlagning á vörur handverksbrugghúsa er afar íþyngjandi fyrir litlar rekstrar einingar sem ekki eru með sterkt kapital, eða fasta kaupendur. Þessi fyrirfram álagning á áfengisgjöldum gerir öll plön fram í tímann afar erfið. Það að þurfa að borga gjöld af vöru án þess að vita hvort hún selst ætti sjálfsagt að vera nægjanlegt til að fáir leggji í þennan bransa, en allt þetta góða fólk sem hefur fjárfest bæði peningum og tíma sínum til að skapa eitthvað, gerir þetta (og nú alhæfi ég kannski, en þetta á amk við í tilfelli Beljanda Brugghúss) af ástríðu fyrir vörunni, fyrir sveitarfélaginu og fólkinu sem í því býr að mestu leyti, það væri stórt, ég meina risastórt skref til eðlilegri fyrirtækisreksturs ef stjórnvöld myndu skilgreina handverksbrugghús (þar sem bruggað er á staðnum með tilheyrandi starfsemi og atvinnusköpun) og veita þessum fyrirtækjum undanþágu frá þessarri ósanngjörnu fyrirframgreiðslu áfengisgjalda.
Það verður ekki meira frá mér að sinni. Mbkv Daði.
Ég fagna þessum áformum heilshugar.
Ég tel áform þess að heimila sölu á áfengi frá heildsölu í gegnum netið orðin löngu tímabær. Þetta kemur til með að jafna stöðu innlendra og erlenda verslana samanber jafnræðisreglu og er þessvegna að sjálfsögðu réttlætismál sem þarf að laga. Auk þess tel ég þetta verða til þess að auka úrval og þjónustu við viðskiptavini til muna.
Eins fagna ég áformum um það að opna fyrir möguleika minni áfengisframleiðenda að selja áfengi í smásölu til neytenda. Ég tel það muni hafa almenn jákvæð áhrif á samfélagið ásamt því að styrkja rekstrargrundvöll minni framleiðenda.
Umsögn um áform um lagasetningu - breyting á áfengislögum
Mál nr. 296/2019 Birt: 29.11.2019 á Samráðsgátt
#Aðalsteinn Gunnarsson
Áformað er að leggja fram frumvarp til breytinga á áfengislögum. Dómsmálaráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur farið offari við kynningar á hugmyndum sínum og ekki alltaf haft rétt við. Markmið hennar er að afhenda aukið frelsi til áfengisiðnaðarins. Frelsi sem sífellt er verið að taka frá einstaklingum til að taka lýðheilsumiðaðar ákvarðanir án þrýstings þeirra sem hagnast af sölu áfengis. Hér þarf virkilega að vekja athygli á því að samfélagið vill ekki aukna neyslu áfengis eða annara vímuefna samkvæmt skoðunarkönnunum og þeim lýðheilsumarkmiðum sem við höfum samþykkt hér heima og á alþjóðavettvangi.
Umrædd hugmynd felur m.a. í sér tvær undanþágur á einokun ÁTVR á smásölu áfengis. Annars vegar til þess að heimila innlenda vefverslun með áfengi til neytenda í smásölu og hins vegar heimila framleiðendum áfengis að selja áfengi til neytenda. Áformin fjalla um breytingar á áfengislögum nr. 75/1998 og lögum nr. 86/2011 um verslun með áfengi og tóbak. Í dag hefur Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins einokun á smásölu áfengis til neytenda. Þetta fyrirkomulag kom á sínum tíma til af illri nauðsyn til að draga úr neikvæðum afleiðingum áfengisneyslu og auka lýðheilsu í samfélaginu. Reynslan af núverandi fyrirkomulagi er góð. Önnur ríki heims líta til okkar sem fyrirmynd og hafa nokkur ríki tekið upp okkar forvarnastefnu sem byggir í grunnin á sterkum lögum. Mikilvægt er að einkasala ríkisins haldist því að áfengi er engin venjuleg neysluvara. Árið 1995 var einkaréttur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til innflutnings á áfengi afnuminn. Í þeirri lagabreytingu var ekki lokað fyrir að almenningur gæti flutt áfengi til landsins, þó að til einkaneyslu væri. Þessi hvati áfengisiðnaðarins hefur ýtt undir meiri neyslu. Eðlilegt er að þessi breyting verði afturkölluð til að fjarlægja ágóðahvata áfengisiðnaðarins, í það minnsta að setja ákvæði um að almenningur geti ekki flutt inn því hér er um einstakt eitur að ræða.
Áformað er að heimilað verði að starfrækja innlenda vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda. Allar rannsóknir sýna að aukið aðgengi ýtir undir aukna neyslu. Í umræðunni er talað um að breytingin sé til að mæta sívaxandi kröfum neytenda um aukið valfrelsi. Meirihluti þjóðarinnar vill óbreytt áfengislög og ekki má gleyma að áfengisiðnaðurinn beitir ógeðfelldum aðferðum til að telja almenningi trú um þörfina fyrir vímuefni og ýtir undir meiri neyslu. Rætt hefur verið um nauðsyn þess að jafna stöðu innlendrar verslunar við þá erlendu með skírskotun til jafnræðis. Slíkt fæst ekki staðist og sannast það með dómum sem fallið hafa hjá Evrópusambandinu. Það má hafa lög um einkasölu ÁTVR á Íslandi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að mæta kröfum minni áfengisframleiðanda, sérstaklega á landsbyggðinni, um að heimilt verði að selja áfengi í smásölu til neytenda. Aukið frelsi áfengisiðnaðarins til að markaðssetja áfengi eykur neyslu. Smásala á að vera í höndum ÁTVR til að draga sem mest úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu. Hagnaðarhvati framleiðanda er gríðarlegur og ýtir margfalt undir aukna neyslu. Gildandi lög og reglur heimila ekki innlenda vefverslun með áfengi til smásölu, sem og smásölu áfengis beint frá framleiðanda til neytenda. Góð og gild rök eru fyrir einokunarsölu ríkisins í dag. Áfengi er engin venjuleg neysluvara. Ólöglegt er í dag að reka áfengisverslun með gróðahvata. Það er stefna hins opinbera að vernda samfélagið fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímuefna og draga úr neikvæðum afleiðingum neyslunnar. Börn og ungmenni eru útsett fyrir markaðssetningu, neyslu foreldra og fullorðinna. Einkasala ríkisins skiptir hér gríðarlegu máli. Stefna hins opinbera í að styðja við öflugt og fjölbreytt atvinnulíf, sérstaklega á landsbyggðinni má ekki bitna á þjóðinni með auknum neikvæðum áhrifum áfengisneyslu eins og heilbrigðisvanda, löggæslukostnaði osfrv. Áfengi er engin venjuleg neysluvara. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur Dómsmálaráðherra er tíðrætt um að draga úr kolefnisfótspori Íslands sem er hluti af neikvæðum áhrifum áfengisiðnaðarins. Áfengisiðnaðurinn hindrar miklu meira og kemur í veg fyrir að við náum 14 af heimsmarkmiðunum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030.
Áríðandi er að komi fram að okkar lög á Íslandi ná lengra en reglugerðir og samþykktir Evrópusambandsins. Áfengislögin eru til þess fallin að auka öryggi og lýðheilsu. ÁTVR með einkasölu hefur verndandi þætti og kemur að hluta í veg fyrir hagnaðardrifna markaðssetningu áfengis. Hagnaðardrifin áfengissala á ekki rétt á sér. Það er galið er að halda því fram að áform um þessar lagabreytingar séu ekki andstæð lýðheilsusjónarmiðum hins opinbera. Hér er ekki bara verið að tala um einhverjar smábreytingar heldur er verið að brjóta niður forvarnir. Hagnaðardrifin sala eykur neyslu og eykur þrýsting margfalt meiri hjá þeim sem eiga hagnaðarvon með áfengissölu. Allir sjá að þessar tillögur fara gegn stefnu hins opinbera í vímuefnamálum. Ástæða er til að standa vörð um lög og reglur sem halda uppi góðum forvörnum í landinu. Allar tilslakanir á sterkum forvarnalögum eru til þess fallnar að veikja varnir okkar fyrir heilbrigðum lífshætti. Fyrirhuguð tillaga að lagabreytingu er ekki í samræmi við stjórnarskrá og þjóðarétt eða aðrar grundvallarspurningar. Áformin ganga út á að fela áfengisiðnaðinum meira frelsi til að markaðssetja ólýðheilsuvæna vöru á kostnað almennings og gengur það gegn stjórnarskrárvörðu frelsi einstaklings til að vera laus undan þrýstingi áfengisiðnaðarins. Samfélagið á ekki að afhenda frelsi sitt til ítrustu og þröngra hagsmuna áfengisiðnaðarins. Áformin ganga gegn þjóðréttarskuldbindingum eins og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem ítrekar að börn og ungmenni eigi að vera laus undan þrýstingi áfengisiðnaðarins. Áformin varða jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar þar sem áfengisiðnaðurinn ýtir undir neikvæðar ímyndir kvenfólks og hlutgerir þær. Lýðheilsusjónarmið, Barnasáttmáli og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna ná lengra en hagsmunir áfengisiðnaðarins. Hvað varðar ákvæði EES-samningsins um ríkisaðstoð, tæknilegar reglur um vöru og fjarþjónustu eða frelsi til að veita þjónustu, þarf engu að breyta því að okkar sérákvæði í íslenskum lögum ná lengra og standast fullkomlega skoðun samanber dóma Evrópusambandsins. Taka þarf tillit til grundvallarlöggjafar sem tengjast löggæslu, heilbrigðisstefnu, barnavernd, menntun og fleiru því sannarlega hefur áfengisneysla neikvæð áhrif á svo marga þætti samfélagsins. Mikilvægt er að þegar talað er um breytingar á lögum um áfengi eða önnur vímuefni hefur það áhrif á flest svið mannlífs í landinu. Nauðsynlegt er að kalla til þá sem vinna við forvarnir og meðferð því þar er mikil þekking á málaflokknum. Áform Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur Dómsmálaráðherra um breytingar á áfengislögum hafa áhrif á stjórnmálaefni allra ráðuneyta, tapaðar tekjur á einkasölu, aukin útgjöld í heilbrigðisþjónustu, dómgæslu, löggæslu, fangelsismál, umhverfismál ofl. Allir sjá að undirbúningur hefur verið fátæklegur, byggður á ítrustu hagsmunum áfengisiðnaðarins og sneitt hjá þeim sem vinna í forvörnum og meðferð. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Dómsmálaráðherra reiknar með aukinni sölu og aukinni neyslu áfengis en talar ekkert um kostnað vegna neikvæðra afleiðinga. Aukin neysla þýðir aukinn kostnaður. Kostaður vegna áfengisneyslu er alltaf margfalt meiri en innkoman. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að horfa gersamlega fram hjá ótrúlega miklum útgjöldum hjá sínu embætti sínu sem eru tengd neyslu áfengis s.s. löggæslu, fangelsismálum og dómgæslu. Hún þarf líka að skoða önnur ráðuneyti en áfengisneysla snertir þau líka verulega. Núverandi kerfi er öruggara. Það er óásættanleg og óréttlætanlegt að gera svona tilraunir bara til að tryggja að áfengisiðnaðurinn hagnist. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Dómsmálaráðherra segist ekki sjá að frumvarpið kunni að hafa aukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð. Slíkt er fjarstæða. Allir vita að aukin neysla kallar á gríðarleg útgjöld sem myndu hækka úr 120 milljörðum á ári. Ljóst er að breytingin yrði gríðarleg ef einkasala ríkisins er tekin út og áfengissala góðavædd. Með þessum áformum er ýtt undir greinarmun á kynjum því áfengisiðnaðurinn hefur í langan tíma haft áhrif á jafnrétti og stöðu kynjanna. Áfengi hefur alltaf áhrif á konur umfram karla og kemur við sögu í langsamlega flestum ofbeldisbrotum. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Dómsmálaráðherra segir áformin til þess fallin að styrkja verslun og þjónustu á landsbyggðinni. Staðreyndir er að áformin veikja lýðheilsu og draga verulega úr séríslenskum sérkennum Íslands og Íslendinga. Stjórnvöld hafa samþykkt að unnið verði að því að Ísland verði heilbrigðasta land í heimi fyrir árið 2030. Neysla áfengis hefur áhrif á íþróttir, starf frjálsra félagasamtaka og samfélagið allt. Þegar fjallað er um lýðheilsu hafa allar tilslakanir á lögum um áfengi eða önnur vímuefni haft gríðarlega neikvæð áhrif á neikvæðar afleiðingar neyslu. Ekki er réttlætanlegt að taka áhættu með þessari tilraunastarfsemi sem er sérsniðin fyrir áfengisiðnaðinn. Áfengi hefur neikvæð áhrif á menntun, nýsköpun og á stöðu tiltekinna þjóðfélagshópa, s.s. aldurshópa, tekjuhópa, mismunandi fjölskyldugerðir, launþega/sjálfstætt starfandi/utan vinnumarkaðar því veikari hópar eru alltaf útsettir fyrir neikvæðum áhrifum áfengisneyslunnar. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Dómsmálaráðherra segir að ekki þurfi mikið til samráðs, undirbúnings eða aðlögunar breytinga á áfengislögunum. Allir sem núna í dag koma að neikvæðum afleiðingum áfengisneyslunnar eru fjársveltir og illa í stakk búnir til að takast á við breytingarnar. Það að auka fjármagn til fræðsluforvarna yrði aldrei nóg til að mæta þeim skaða að taka niður lög um forvarnir. Mikilvægt er að setja forvarnir í forgang, koma í veg fyrir svona áhættusama tilraunastarfsemi.
ViðhengiNýsköpun í víngerð með íslensk hráefni er að eiga sér stað í stórum stíl. Með innlendri framleiðslu, skapast störf, hún er umhverfisvænni og arðbærari fyrir þjóðarbúskapinn. Enn fremur ýtir núverandi lagarammi undir forskot erlendra aðila á markaði hér á landi með opinni vefverslun.
Íslenskum áfengisframleiðendum reynist erfitt að keppa við erlenda aðila á markaði þar sem aðgangur erlendra stórfyrirtækja að neytendum er miklu meiri gegnum internetið en þeirra sem starfa hér á landi. Þetta gefum innflutnings- og framleiðslufyrirtækjum erlendis samkeppnisforskot á framleiðendur hér á landi.
Með sölu beint frá framleiðanda og í vefverslun hafa litlu brugghúsin og vínframleiðendur meira frelsi til að hafa fjölbreyttara vöruúrval. Ásamt því að auka framboð á ferskari drykkjarvörur og árganga af mismunandi vörum án þess að reiða sig á að halda úti lager hjá Vínbúðinni, sem setur kröfur á ákveðna sölu og takmarkaðan búðarfjölda sem stakt vörunúmer getur verið í.
Tugir vörumerkja berjast fyrir hilluplássi í Vínbúðinni, sem er þegar full af erlendum vörum. Erfitt er að ætlast til að fólk versli í heimabyggð ef við gefum fólki ekki tækifæri á að nálgast vistvænar íslenskar vörur á sama hátt og að versla þær erlendis frá.
Að lögleiða vefverslun framleiðanda og sölu beint úr brugghúsi væri tug íslenskra fyrirtækja í þessum iðnaði gert hátt undir höfði með auknum tækifærum og íslenskum neytendum réttur til að hafa sama aðgang að íslenskum vörum og öðrum.
Lagabreyting þessi stuðlar að sanngirni á markaði, styður við íslenskan iðnað og styrkir nýsköpun í drykkjarframleiðslu.
Áfengisneysla hefur mikil áhrif á líf fólks á Íslandi. Samkvæmt skýrslu Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er áfengisneysla á meðal þeirra 10 þátta sem hafa mest áhrif á dánartíðni Íslendinga. Í Evrópuskýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar eru birtar mælingar á áhrifum ólíkra aðferða við að draga úr vandamálum tengdum áfengisneyslu. Þar kemur fram að heildaráfengisneysla þjóðar hefur áhrif á heilbrigði og sjúkdóma. Aukning eða minnkun áfengisneyslu hefur bein áhrif á tíðni ákveðinna sjúkdóma og dauðsfalla. Stjórnun á aðgengi og eftirlit með framboði áfengis hafa, samkvæmt Evrópuskýrslunni, reynst árangursríkustu og hagkvæmustu leiðirnar til þess að koma í veg fyrir skaða af völdum þess. Margar rannsóknir ýta undir það að álagning skatta, takmörkun fjölda sölustaða og takmarkaður sölutíma virki einna best. Aldurstakmarkanir á áfengiskaupum virðist vera leið sem hefur dregið úr unglingadrykkju auk breyttra viðhorfa í samfélaginu.
Norðurlönd utan Danmörku hafa sambærilega stefnu varðandi sölu á áfengi sem snýr að samfélagslegri ábyrgð. Á þessum stöðum eru einkasala ríkisins sem hefur það meðal annars að markmiði að takmarka aðgengi og draga úr skaða af völdum neyslunnar. Í þessum löndum eru reglugerðir sem koma í veg fyrir sölu áfengis til ungs fólk. Sala áfengis snýst ekki um að hámarka hagnað. Áfengiseinokunarsölurnar sýna hlutleysi í markaðssetningu og almennt er spornað gegn auglýsingum og almennri markaðssetningu. Þetta fyrirkomulag hefur gengið ágætlega og ríkir almenn sátt um það. Því er óljóst hvaða samfélagslegi ávinningur felst í því að breyta þessu fyrirkomulagi og byrja að selja áfengi í matvöruverslunum?
Í okkar þjóðfélagi er eðlilegt að aðgengi að hættulegum vörum sé takmarkað. Lyf, byssur, eitur, sprengjur, gas og tóbak eru meðal annars vörur sem við getum ekki keypt í næsta stórmarkaði. Það er eflaust einhver hópur sem vill aukið aðgengi að þessum vörum en aukið aðgengi landsmanna að þessum vörum mun trúlega þýða aukna misnotkun og jafnvel takmarkaðra vöruúrval. Er ekki eðlilegt að vörur sem eru hættulegar lúti reglum sem takmarkar aðgengi að þeim? Áfengi er hættulegt, það er misnotað, það hefur áhrif á fleiri aðila en þann sem neytir þess. Það liggur alveg fyrir og allir átta sig á því að aukið aðgengi að vörum þýðir að öðru jöfnu aukna neyslu. Því mun frumvarpið, ef það verður samþykkt auka neyslu landsmanna á áfengi.
Ætla má að auglýsingar og önnur markaðssetning á áfengi muni aukast til muna. Því miður sanna dæmin að margir framleiðendur og söluaðilar áfengis hafa ekki virt þau lög eða teygt á þeim sem gilda varðandi auglýsingabann. Með harðnandi samkeppni og auknu aðgengi sem lögin fela í sér má auðveldlega ætla að öll markaðssetning verði aukin. Fleiri auglýsingar, hvort sem þær eru beinar eða óbeinar munu á einhvern hátt beinast að saklausum börnum, unglingum og þeim sem eru áhrifagjarnir.
Heildarneysla þjóðarinnar á áfengi eykst ár frá ári og sú þróun ein og sér er uggvænleg og sérstaklega ef horft er á samanburð við þjóðir sem neyta oftar að jafnaði en við áfengi s.s. gagnvart lifrarsjúkdómum og ýmsum ótímabærum dauðsföllum tengdum áfengisneyslu.
Varla þarf að minna á þann árangur sem náðst hefur varðandi unglingadrykkju. Slíkan árangur þarf að viðhalda og halda þarf áfram með öflugt fyrirbyggjandi starf fyrir eldri aldurshópa milli 16 og 19 ára. Íslenska ríkið hefur samþykkt ágæta stefnu í áfengis- og vímuvörnum sem sveitarfélög og félagasamtök hafa til hliðsjónar í fræðslu- og forvarnaverkefnum sínum. Sú stefna skilgreinir áfengi ekki sem matvöru heldur sem efni sem við þurfum að umgangast með aðgát. Í stefnunni er lögð áhersla á að takmarka aðgengi að áfengi og vernda sérstaklega hópa eins og börn og unglinga.
Ráðgert er að í frumvarpinu verði heimilað að starfrækja innlenda vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda. Hér er hreinlega verið að rjúfa einokunarrétt ÁTVR og auk aðgengi að áfengi til muna. Ekki liggja fyrir gögn sem sýna að almenningur telji að það þurfi að auka aðgengi með því að vera með smásölu í gegnum netverslanri.
Foreldrafélag gegn áfengisauglýsingum telur því fátt mæla með því að breyta fyrirkomulagi varðandi sölu áfengis og leggst gegn frumvarpinu.
Fyrir hönd Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum
Geir Bjarnason gjaldkeri
Æska landsins í dag þarf ekki aukið aðgengi að áfengi. Börn og ungmenni sneiða í meira mæli hjá neislu áfengis og annara vímuefna. Æ fleira ungt fólk tileinkar sér heilbrigða lífshætti. Í dag er ÁTVR með einokur á smásölu áfengis til neytenda. Það þarf að hafa sölu áfengis svona til að minnka neikvæðar afleiðingar og auka lýðheilsu í samfélaginu. Reynslan af núverandi fyrirkomulagi er svo góð að önnur ríki heims líta til okkar sem fyrirmynd og hafa nokkur ríki tekið upp okkar forvarnastefnu sem byggja á sterkum lögum. Mikilvægt að einkasala ríkisins haldist þar sem áfengi er engin venjuleg neysluvara.
Fyrir hönd eigenda Ölverk brugghús í Hveragerði fagna ég því að dómsmálaráðherra Ísland, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, skuli vinna að áformum um breytingar á áfengislögum Íslands. Þykir okkur það afar ánægjulegt að upplifa það að þessum tiltölulega nýja og blómlega iðnaði sé gefið tækifæri til þess að dafna enn frekar og standa stöðugri fótum í hinum hvikula heimi atvinnulífsins, hérlendis sem og erlendis.
Eigendur Ölverk brugghúss styður þær breytingar sem fyrirhugaðar eru en með þeim;
- Mun Ísland færast til samræmis við það sem tíðkast í löndum sem Ísland vill bera sig saman við en ekki síst til þess að styðja við litlu brugghúsin í landinu svo þau megi fá svigrúm til að vaxa og dafna.
- Þær munu tryggja grundvöll fjölda manns sem hafa beinar eða óbeinar tekjur af handverksbrugghúsum sem eru í dag staðsett allstaðar á landinu og mörg hver á svæðum er teljast til brotthættari byggða þar sem hver starf skiptir sköpum.
- Mun verður fjölbreytni og ferskleika vöru til neytenda tryggð.
- Ísland eflist í því að halda sinni stöðu sem einn af vinsælustu viðkomustöðum heims en ferðamennska í tengslum við matar,- og drykkjarupplifanir og þá sérstaklega bjórtengd ferðamennska hefur sótt verulega í sig veðrið á síðustu árum og aukið hlut sinn á síðustu árum. Það er hagur Íslands að vera leiðandi á þessu sviði í stað þess að leggja steina og íþyngjandi regluverk á íslensk hugvit og sköpun.
- Breytingar á áfengislögunum geta bætt áfengismenningu hérlendis með því að fjarlægja þær hindranir fyrir framleiðendum varðandi það að koma vöru sinni á markað en það er illmögulegt fyrir smærri framleiðendur, með litla framleiðslugetu líkt og Ölverk, að koma sínum vörum í almenna sölu með sölufyrirkomulagið eins og það er í dag.
Heimild til þess að selja áfengi í smásölu til neytenda mun ekki þýða aukinn sýnileika á umræddum vörum þar sem salan mun fara fram inn á leyfis,- og eftirlitsskyldum stöðum. Hægt verður að selja umræddar vörur í bestu mögulegu gæðum og verður það að teljast ómetanleg upplifun fyrir áhugasama neytendur, hvaðanæva úr heiminum að eiga kost á því að versla vöru sem er hvergi annars staðar fáanleg, beint af framleiðslustað. Á framleiðslustað er að finna aðila sem hafa mikla þekkingu á sínum eigin vörum og afar velviljaðir til þess að upplýsa og fræða áhugasama viðskiptavini um eigin vörur og ágæti þeirra svo að hverju sinni verði tryggt að hin fullkoma vara verði keypt. Sannarlega væri svo hægt, í samráði í við leyfisveitendur eins og til dæmis sveitarfélögin sjálf, að setja mörk um það magn sem leyfilegt væri að versla og hver afgreiðslutíminn yrði.
Líkt og margir hafa komið inn á í umsögnum sínum um heimild á sölu áfengis beint frá framleiðandi þá hvetjum við einnig til þess að horft verði sérstaklega til þess að heimilt verði að afhenda vörurnar í endurnýtanlegum umbúðum eða í svokölluðum “growlers”. Er það í takt við tíðarandann og þá stefnu að í öllum viðskiptum skuli unnið markvisst að því að lágmarka umhverfisáhrif af viðkomandi starfsemum. Það í hag alls landsins, og alls heimsins ef út í það er farið, að sníða áfengisframleiðendum þannig stakk að þeim sé gert mögulegt að lágmarka sitt umhverfisspor. Umbúðarlaus viðskipti eru hluti af þeirri framtíðarneysluhegðu sem allir vilja reyna að tileinka sér og bjórframleiðendur, aðrir áfengisframleiðendur og neytendur hérlendis vilja vera þar í fararbroddi og að aðrir þjóðir heimsins muni líti til okkar og þeirra lausna sem við muni innleiða.
Varðandi heimild til þess að starfrækja innlenda vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda þá er það sanngirnimál enda eiga íslenskir söluaðilar að standa jafnir erlendum söluaðilum. Þykir okkur sjálfsagt og réttast að sú vefverslun fari fram á sértilgreindum vefsvæðum þar sem reglur um aðgengi háð leyfilegum aldri viðskiptavina eiga við.
ViðhengiEfni: Umsögn um áform um lagasetningu – breyting á lögum um verzlun með áfengi og tóbak og áfengislögum.
Félag atvinnurekenda (FA) vísar til skjals um áform dómsmálaráðherra um lagasetningu, dags. 12. nóvember 2019, sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda 29. nóvember síðastliðinn.
I. Inngangur
Breytingarnar sem lagt er til að hrinda í framkvæmd með væntanlegu frumvarpi ráðherra eru tvær. Annars vegar að heimilt verði að starfrækja netverzlanir með áfengi á Íslandi, en neytendum hefur um árabil verið heimilt að kaupa áfengi til einkanota af erlendum netverzlunum. Hins vegar að áfengisframleiðendum verði heimilt að selja áfengi í smásölu til neytenda.
Markmið frumvarpssmíðinnar eru sögð vera að tryggja jafnræði milli innlendrar og erlendrar verzlunar, styrkja ferðaþjónustu og rekstur minni áfengisframleiðenda og draga úr kolefnislosun.
Að mati FA eru þetta góð markmið og hægt að útfæra breytingarnar með þeim hætti að þau náist. Félag atvinnurekenda styður sérstaklega allar breytingar, sem gerðar eru til að jafna stöðu innlendrar og erlendrar verzlunar og tryggja jafnræði á milli og innan atvinnugreina. Mörgum spurningum um útfærslu og áhrif breytinganna er þó ósvarað í skjalinu.
II. Jafnræði í smásölu áfengis
FA telur að sé markmið frumvarpssmíðinnar að tryggja jafnræði í verzlun, liggi beint við að heimild til smásölu áfengis í neytendaumbúðum takmarkist ekki eingöngu við áfengisframleiðendur, heldur fái innflytjendur áfengra drykkja frá löndum Evrópska efnahagssvæðisins jafnframt undanþágu frá einkarétti Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis. Að öðrum kosti er verið að snúa dæminu alveg við og leggja hindranir á sölu vara frá áfengisframleiðendum í EES-ríkjum umfram sölu á vörum innlendra áfengisframleiðenda. Það telur FA að væri klárt brot á jafnræðisreglu EES, sbr. 4. grein samningsins um Evrópskt efnahagssvæði.
Jafnframt er óljóst af orðanna hljóðan í skjali ráðuneytisins hvort heimild til smásölu skuli ná til áfengisframleiðenda almennt eða hvort hún skuli takmarkast við „minni áfengisframleiðendur, sérstaklega á landsbyggðinni.“ FA telur engin rök standa til þess að mismuna áfengisframleiðendum í þessu efni, hvorki eftir stærð né búsetu. Skilgreining á hvort heldur „smærri framleiðanda“ eða „framleiðanda á landsbyggðinni“ hlýtur að vera verulegum vandkvæðum bundin og mikið vafamál að slík mismunun stæðist jafnræðisreglu íslenzks réttar.
III. Netverzlun og áfengisauglýsingar
FA telur einsýnt að samhliða samningu lagaákvæða sem heimila netverzlun með áfengi þurfi að endurskoða bann núgildandi laga við áfengisauglýsingum. Félagið hefur áður fært fyrir því ýtarleg rök að nauðsynlegt sé að endurskoða auglýsingabannið, einmitt í því skyni að tryggja betur jafnræði innlendra og erlendra áfengisframleiðenda. Staðan í dag er sú að auglýsingar frá erlendum áfengisframleiðendum eru almenningi aðgengilegar á erlendum vefsíðum, í erlendum blöðum og tímaritum sem fást hér á landi og á íþróttaleikjum, sem sýndir eru í íslenzku sjónvarpi, en innlendum framleiðendum er bannað að auglýsa vöru sína. Afnám auglýsingabanns þyrfti að sjálfsögðu að fylgja því að netverzlun með áfengi yrði heimiluð til að jafna þessa stöðu. Það myndi alltént skjóta afskaplega skökku við að íslenzkum fyrirtækjum yrði leyft að starfrækja bæði netverzlun og hefðbundna smásöluverzlun með áfengi, án þess að mega einu sinni segja neytendum frá því að sú verzlun væri starfrækt eða veita þeim upplýsingar um vörur sínar.
Á þessu máli er önnur hlið, sem FA hefur áður bent á í tengslum við tillögur um að afnema einkarétt ÁTVR á smásölu áfengis. Félagið hefur fært rök fyrir því að fáar öflugar verzlanakeðjur á matvörumarkaði, þar sem samþjöppun er meiri en í nokkru öðru Evrópulandi, myndu sjálfkrafa öðlast mjög sterka stöðu í smásölu áfengis og halda eigin innflutningi að neytendum. Til að jafna stöðu smásölu- og heildsölustigsins væri nauðsynlegt að áfengisinnflytjendur og -heildsalar ættu þess kost að auglýsa vörur sínar.
Þessi rök eiga ekki síður við í þessu máli, þótt í þessu tilviki sé rætt um að heimila netverzlun en ekki hefðbundna smásölu með áfengi. Skilin á milli netverzlunar og hefðbundinnar smásöluverzlunar verða raunar æ óskýrari. Ætla verður að þegar búið væri að leyfa netverzlun með áfengi myndu stóru verzlanakeðjurnar umsvifalaust öðlast þar sterka stöðu. Það lægi beint við að þær myndu starfrækja netverzlanir með áfengi, þar sem neytendur gætu pantað og greitt vörur og sótt þær svo í viðkomandi matvöruverzlun um leið og þeir keyptu inn til heimilisins. Matvöruverzlanir gætu jafnvel sett upp nettengd tæki í verzlunum, þar sem viðskiptavinirnir myndu panta, greiða og sækja í sömu ferð. Þeirra tækja þyrfti jafnvel ekki með ef neytendur notuðu síma og önnur snjalltæki til að panta og greiða á staðnum. Slíkt fyrirkomulag væri til mikilla þæginda fyrir neytendur, sem jafnframt myndu þá spara sér sendingarkostnað. Aftur liggur hins vegar í augum uppi þörfin á að endurskoða löggjöfina um áfengisauglýsingar til að jafna stöðu stóru matvörukeðjanna og keppinauta þeirra.
IV. Greining á áhrifum – hvað verður um ÁTVR?
Athygli vekur hversu veigalítil umfjöllun er í skjalinu um áhrif fyrirhugaðra breytinga á rekstur ÁTVR. Það blasir við að bæði innlendir framleiðendur og innflytjendur áfengis munu stórauka sölu í gegnum netverzlanir, gangi áformin eftir. Stígi matvöruverzlanir inn á þennan markað, eins og telja verður yfirgnæfandi líkur á, mun draga hratt úr sölu í ÁTVR. Ekki verður séð að neitt sé því til fyrirstöðu að netverzlanir keppi í verði við ÁTVR, sem að óbreyttum lögum hefur engin úrræði til að bregðast við slíkri samkeppni, en álagning stofnunarinnar er bundin í lög. Raunar verður ekki séð að með þessum breytingum eigi ÁTVR sér rekstrargrundvöll. Æskilegt væri að við frumvarpssmíðina yrði gerð betri greining á áhrifunum á ÁTVR og hver væru þá að mati ráðherra eðlileg næstu skref, fari svo að rekstur stofnunarinnar standi ekki undir sér.
V. Samkeppnisstaða innlendra framleiðenda og innheimta áfengisgjalds
Eitt af markmiðum frumvarpssmíðinnar er að efla innlenda verzlun og bæta stöðu innlendra áfengisframleiðenda. Ekki eru hins vegar í skjalinu neinar tillögur um að bregðast við kröfum innlendra framleiðenda um lækkun áfengisgjalds, en ætla má að sú aðgerð myndi styðja mjög við rekstur minni fyrirtækja í greininni.
Áfengisskattar á Íslandi eru þeir hæstu í Evrópu og vandfundið það ríki heims, sem leggur hærri skatta á áfenga drykki. Í tilviki bjórs getur áfengisgjald numið frá 35% og upp undir 45% af útsöluverði vörunnar. Í tilviki sterks áfengis getur hlutfallið verið í kringum 70%. Áfengisgjaldið þarf að greiða fyrirfram til ríkissjóðs áður en nokkrar tekjur af vörunni eru komnar í kassann og gefur auga leið hvaða áhrif slíkt hefur á sjóðstreymi og rekstrarhæfi jafnt framleiðenda og innflytjenda áfengis. FA hefur um langt árabil hvatt til þess að þessi skattpíningarstefna yrði endurskoðuð.
Jafnvel þótt fjárhæðir áfengisgjalda yrðu ekki endurskoðaðar, eru til leiðir til að draga úr neikvæðum áhrifum áfengisgjaldsins á rekstur með því að færa innheimtu þess til samræmis við innheimtufyrirkomulag virðisaukaskatts. FA minnir í því efni á tillögur, sem lögfræði- og skattasvið Deloitte hefur unnið fyrir félagið og eru aðgengilegar á vef þess á slóðinni http://www.atvinnurekendur.is/media/Umsogn-110.-mal-149.-thing.pdf
VI. Hvernig mun kolefnislosun minnka?
Ekki er útskýrt í skjali ráðuneytisins hvernig fyrirhugaðar breytingar muni draga úr kolefnislosun, að öðru leyti en því að þær muni efla innlenda verzlun. Af því má draga þá ályktun að ráðuneytið telji að með eflingu innlendrar verzlunar dragi úr vöruflutningum. FA leyfir sér að minna á að stór hluti innlendrar smásölu- og netverzlunar með áfengi, verði breytingar gerðar á áfengislöggjöfinni, verður væntanlega áfram með innfluttar vörur.
Gefi ráðuneytið sér hins vegar að breytingarnar auki hlut innlendrar framleiðslu á kostnað innfluttrar, vakna spurningar um jafnræði, sbr. I. hluta þessara athugasemda. FA minnir einnig á að flest aðföng til innlendrar áfengisframleiðslu eru innflutt, að frátöldu vatni sem auðvitað getur vegið þungt í flutningum. Ekki er hins vegar gerð tilraun til þess í skjalinu að meta hvort aukin innlend netverzlun muni t.d fjölga ökuferðum með áfengi eða fækka þeim.
VII. Að lokum
Félag atvinnurekenda fagnar áformum ráðherra um lagabreytingar í þágu jafnræðis og samkeppni, en ítrekar að mörgum spurningum um málið er ósvarað. Af framantöldum athugasemdum félagsins má ráða að FA telur skynsamlegast að ráðast í heildarendurskoðun á rekstrarumhverfi áfengisframleiðslu og -verzlunar á Íslandi, þ.m.t. sölufyrirkomulagi, reglum um auglýsingar, fjárhæð áfengisgjalda og innheimtu þeirra. Hætt er við að breytingar, sem eingöngu beinast að þröngu sviði án þess að hafa heildarmyndina í huga, skapi ný vandamál varðandi jafnræði, samkeppni og rekstrarhæfi fyrirtækja á þessum markaði.
FA þakkar ráðuneytinu að vera talið upp í hópi helztu hagsmunaaðila, sem hafa þurfi samráð við vegna málsins og lýsir sig reiðubúið að koma að vinnu við víðtæka endurskoðun á lagaumhverfi áfengismarkaðarins. Félagið áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á síðari stigum málsins og er að sjálfsögðu reiðubúið að funda með ráðuneytinu.
Virðingarfyllst,
Ólafur Stephensen
framkvæmdastjóri FA
Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins, SAF-Samtaka ferðaþjónustunnar og SVÞ-Samtaka verslunar og þjónustu um áformin.
ViðhengiÞessar hugmyndir ýta undir greinarmun á kynjum, því áfengisiðnaðurinn hefur í langan tíma haft áhrif á jafnrétti og stöðu kynjanna. Áfengi hefur alltaf áhrif á konur umfram karla og kemur við sögu í 80% ofbeldisbrota. Vekja þar sérstaklega athygli á að samfélagið vill ekki aukna neyslu áfengis eða annara vímuefna allra síst börn, ungmenni og ungt fólk. Áfengisiðnaðurinn beitir meðal annars ólöglegum aðferðum til að telja almenningi trú um þörfina fyrir vímuefni og ýtir undir meiri neyslu. Nauðsynlegt er að setja forvarnir í þann forgang sem þær eiga skilið og bæta við fjármagni í málaflokkin.
Ég sem einn af eigendum Smiðjunnar Brugghús verð að segja að þetta frumvarp gæti haft mikil jákvæð áhrif fyrir stað eins og okkar, núna erum við með veitingastað og brugghús samtengt og mikið af okkar viðskiptavinum eru að koma til þess að upplifa íslenska bjórmenningu og vilja segja meira frá henni þegar heim er komið.
Eins og staðan er núna þá megum við ekki selja þeim bjór til þess að taka með sér heim til síns heimalands og kynna fyrir öðrum bjór ferðalöngum, og finnst þeim það vera miður og finnst það álíka heimskulegt og að að bjór hafi verið ólöglegur til ársins 1989. Við teljum það mjög ólíklegt að þó við værum með vörur í Vínbúðunum að okkar kúnni sé tilbúinn að leita okkar vörur uppi.
Með þessum breytingum gætum við látið þá fá ferskari vöru, getum haft fleiri vörur í boði og byggt þannig hraðar upp okkar fyrirtæki bæði í stærð og verða þekktari en einnig aukið möguleika Íslands að verða þekkt fyrir gæðabjór og gott land fyrir bjórferðalanga.
Með því að leyfa netverslun er það einnig eitthvað sem ætti að vera sjálfsagt mál, að við getum ekki selt vöru til þeirra sem búa á Íslandi en erlendar netverslanir mega og það er alls ekki rökrétt.
Færum okkur nær nútímanum og aðstoðið okkur að gera Ísland að betri valmöguleika fyrir bjórferðamennsku.
Ég fagna þessu fyrirhugaða frumvarpi.
Að leyfa netverslun með áfengi og að selja beint frá framleiðslustað er að mínu mati þróun í rétt átt. Þessar breytingar myndu styðja betur við íslenskan iðnað og atvinnulíf. Mörg handverksbrugghús eru staðsett úti á landi svo þetta væri til þess að halda betur utan um störf á landsbyggðinni, sem mörg hver eru staðsett þar sem telst til brothættra byggða.
Á Íslandi eru ákveðin stórfyrirtæki mjög markaðsráðandi, með að leyfa netverslun og að seltja beint frá framleiðslustað gefur minni framleiðendum betra tækifæri á jafnari samkeppni og möguleika á fjölbreyttara vöruúrvali en erfitt getur reynst minni fyrirtækjum að fá góða dreifingu hjá ÁTVR.
Netverslun með áfengi myndi gera það að verkum að íslenskir áfengisframleiðendur sitji við sama borð og erlendir framleiðendur og þar af leiðandi sanngjarna samkeppni og opnari markað fyrir smáa framleiðendur. Það gerir neytendanum betur kleypt að kaupa þá vöru sem hann óskar en úrval í ÁTVR af handverksbjórum telst seint vera gott og þá sérstaklega á landsbyggðinni og í minni búðum ÁTVR.
Erfitt er að sjá hvernig það getur skaðað að selja beint frá framleiðslustað. Þeir eru eftirlits- og leyfisskildir staðir sem ber að framfylgja lögum um afgreiðslu áfengis.
í raun breytist ekki aðgengi vörunar að öðru leiti en viðskiptavinurinn getur kosið að drekka hana annarstaðar og hefur kost á betra vöruúrvali og feskari vöru.
Margir kostir fylgja því að leyfa sölu beint frá framleiðslustað.
Það myndi styrkja rekstarumhverfi handverksbrugghúsa, framleiðin eykst og möguleikar á umhverfisvænni umbúðum batnar til muna.
Það gefur færi á því að framleiðendur væru með fjölbreyttari vöru á markaði en tímafrekt og kostaðarsamt er að fara með lítil upplög af framleiðslu í gegnum ÁTVR.
Viðskiptavinurinn fengi fræðslu og upplýsingar um vöruna sem þeir eru með í höndunum, enda eru starfsmenn brugghúsa með sérþekkingu á þessu sviðið.
Ákveðin menning hefur skapast um bjór í heiminum og er ísland þar alls ekki undanskilið. Mikil aukning er á því að ferðamenn ferðist um landið til þess að skoða handverksbrugghús og prófa vöruna þeirra en geta hinsvegar ekki tekið hana með sér heim til að njóta þar, deila með vinum og kynna land okkar og þjóð um leið.
ViðhengiUmsögn um áform um lagasetningu - breyting á áfengislögum
Mál nr. 296/2019 Birt: 29.11.2019 í Samráðsgátt
Reykjavík 13. desember 2019
Efni: Umsögn IOGT á Íslandi um áform um lagasetningu - breyting á áfengislögum í Samráðsgátt.
IOGT á Íslandi leggst eindregið gegn umræddum breytingum og telur að samþykkt þeirra að hluta eða öllum leyti, muni leiða til aukinnar áfengisneyslu í landinu. Það mun auka þann vanda sem neysla áfengis veldur. Áfengi er engin venjuleg neysluvara heldur lífrænt leysiefni, eitur sem er notað sem hugbreytandi vímuefni og er fíkniefni og eiturlyf. Áfengi hefur mikla sérstöðu sem lögleg vara og fráleitt að um hana þurfi eða eigi að gilda sömu viðmið og ýmsar aðrar vörur. [2]
Bindindissamtökin IOGT vinna mikið með almenningi í grasrótarstarfi, þar kemur fram mikil andúð samfélagsins á umræddum breytingum sem eru í algerri mótsögn við heilbrigðisstefnu þessarar sem og fyrri ríkisstjórna.[3] [4] Umræddar breytingar vinna gegn samþykktum Alþingis í málefnum barna, kvenna[5], jafnréttis og ofbeldis ásamt Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna[6] sem er hluti íslenskra laga.
Áfengisiðnaðurinn hefur þrýst mjög og lengi á að brjóta niður áfengisforvarnir á Íslandi en ein af meginstoðum þeirra er ÁTVR, einkasala ríkisins. Nokkrir stjórnmálamenn hafa stutt þennan eiturlyfjaiðnað og talað fjálglega um frelsi. Það er viðskiptafrelsi til að fanga sem flesta í þrælahald Bakkusar og græða sem mest á því. Almenningur hefur staðið fast á móti þessu og í skoðanakönnunum hefur 70 % landsmanna viljað halda í ÁTVR. Samt berjast þessir stjórnmálamenn gegn lýðheilsu þjóðarinnar. Nú á að reyna að taka þetta í pörtum. Vefverslun með áfengi – ef hún á að vera leyfileg þá er best að hún fari öll fram í gegnum ÁTVR – bæði innlend og erlend. Áfengi er engin venjuleg neysluvara og öll áfengisneysla er skaðleg og áfengi framleidd í litlu brugghúsi er líka skaðlegt og óþarfi að liðka fyrir þeim skaða. Minnum á að 300 þúsund manns deyja af áfengistengdum orsökum í Evrópu á hverju ári. Það er fyrir utan allan annan skaða sem áfengisneysla veldur.
Dómsmálaráðherra með því að setja fram þessar breytingar þá vinnur hann ekki aðeins gegn markmiðum hans eigin ráðuneytis, heldur líka heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra. Og samgöngumálaráðherra. Og fjármálaráðherra því áfengisneysla kostar þjóðina gríðarlega fjármuni. Dómsmálaráðherra vinnur gegn Barnasáttmálanum, gegn WHO - Global strategy to reduce harmful use of alcohol, gegn WHO - European action plan to reduce the harmful use of alcohol 2012–2020, gegn WHO - Global Action Plan for the Prevention and Control of NCDs 2013-2020 og gegn NDPHS Declaration on Alcohol Policy. Hjá WHO í Evrópu er stefnan að minnka áfengisneyslu í Evrópu um 10 % miðað við árið 2010 fyrir árið 2025. Á Íslandi er vaxandi áfengisneysla. Áfengisneysla skilur eftir sig stórt kolefnisfótspor og vinnur því gegn markmiðum umhverfisráðherra Dómsmálaráðherra vinnur líka gegn forsætisráðherra, því hann ber ábyrgð á Heimsmarkmiðunum og áfengisneysla tálmar 14 af 17 meginmarkmiðunum. Dómsmálaráðherra er í andstöðu við eigin ríkisstjórn.
Í fyrri umsögnum IOGT á Íslandi sem lesa má á vef alþingis, hafa komið fram margar traustar heimildir sem eru gefnar út á ábyrgð viðurkenndra stofnana, innlendra og alþjóðlegra um vandann sem neysla áfengis veldur. Af þeim er ljóst að vandinn vegna neyslu áfengis er gífurlegur og mikilvægt að leita allra mögulegra leiða til þess að halda honum í skefjum. Umfram allt eru þær þó staðfesting og áminning um að áfengi er engin venjuleg neysluvara og eðlilegt að um hana gildi um margt annað fyrirkomulag og reglur en ýmsar aðrar vörur.
Árlega er gefin út af IOGT‐NTO og the Swedish Society of Medicine rannsóknarskýrslan „Áfengi og samfélagið“ (Alcohol and Society – a Research Report) og hver skýrsla skoðar afmarkað svið neikvæðra afleiðinga áfengisneyslu og fylgja hér nokkur dæmi:
Árið 2013 var áherslan lögð á áfengisneyslu ungmenna. Þar má sjá að neyslan er enn of mikil sem og skaðsemin. Niðurstaðan er að mikilvægt sé að viðhalda einkaleyfi ríkis á áfengissölu, ströngum lögum varðandi ölvunarakstur og háum skatti á áfengi. [7]
Árið 2014 var áhersla lögð á skaðsemi hófdrykkju og sýnt fram á miklu meira tjón af slíkri drykkju en áður var talið. [8]
Árið 2015-2016 var áhersla lögð á óbein áhrif áfengisneyslunnar þar sem kom sterkt fram að neikvæðar afleiðingar áfengisneyslunnar er mikið samfélagsmein. [9]
Árið 2016-2017 var áhersla lögð á krabbamein. Þar kemur m.a. fram að níu tegundir krabbameina eru sterklega orsakatengd áfengisneyslu og í Svíþjóð eru 4,5% krabbameinsdauðsfalla tengd áfengi. Og 30% krabbameinstilfella tengd áfengi eru tengd lítilli eða miðlungs neyslu. Ekki var fjallað um aðra sjúkdóma tengdum áfengi eins og geðsjúkdóma. [10]
Árið 2017-2018 var lögð áhersla á tengsl áfengisneyslu og ofbeldis. Fjallað er um áhrif ofbeldis tengt áfengisneyslu og áhrif þess á heilsuna. Bent er á leiðir til að draga úr ofbeldi og er takmörkun á aðgengi snar þáttur í því. [11]
Árið 2018-2019 var lögð áhersla á áfengisneyslu eldra fólks. Þar kemur fram að áfensgisneysla hefur aukist hjá eldra fólki og skaðsemi af áfengisneyslu, slys og sjúkdómar. [12]
Rannsókn var birt í hinu virta læknariti Lancet haustið 2018 þar sem kemur fram að áfengisneysla er leiðandi áhættuþáttur í dauða og fötlunum og yfirhöfuð tengt við neikvæð áhrif á heilsufarsástand. Hægt er að tengja áfengisneyslu við 60 bráða og langvinna sjúkdóma. Einstaka rannsóknir hafa fundið einangraða þætti jákvæða en þessi samantekt hrekur þær. Niðurstaðan er að öll áfengisneysla er skaðleg heilsunni. [13]
Prófessor Tim Stockwell kom til landsins í september 2017 og átti fund með fulltrúum IOGT á Íslandi og stjórnvöldum ásamt fulltrúa Landlæknisembættisins. Tim sagði á ráðstefnunni að flest ríki heims ásamt alþjóðastofnunum ynnu að bættri lýðheilsu og sjálfbærnismarkmiðum og að allar tilslakanir á áfengislöggjöfinni væri óheillaskref sem hefði óafturkræf áhrif á einstaklinga og samfélag. Birt var íslensk þýðing á skýrslu sem unnin var í Svíþjóð um hver væri ávinningur ríkisreksturs á smásölu áfengis í Svíþjóð fyrir lýðheilsu og almannaheill. Þar er tekið saman hver væri líkleg aukning á áfengissölu með tilliti til þess að einkasala ríkisins yrði afnumin og kannað hver munurinn er á milli sérverslana og smásöluverslana. Aukningin á áfengisneyslu yrði 20.0% miðað við sölu í sérverslunum og 31.2% miðað við sölu í smásöluverslunum. [14]
Sterk tengsl eru milli áfengisneyslu og kynbundins ofbeldis. Í samþykktri þingsályktun [15] um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019 er grein um samstarfsverkefni þriggja ráðherra um aðgerðir gegn ofbeldi. Markmið verkefnisins verði að bæta samvinnu og verklag við ofbeldisforvarnir og að styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála. Auk samvinnu milli stofnana verði rík áhersla lögð á samvinnu við frjáls félagasamtök. Að auka fræðslu- og forvarnastarf sem byggist á rannsóknum og faglegri þekkingu.
Bann við áfengisauglýsingum er ein af meginstoðum forvarna og að leyfa auglýsingar kippir henni í burt. Í frumvarpinu í 2017 (146. löggjafarþing Þingskjal 165) áttu áfengissalar og –framleiðendur að setja sjálfum sér siðareglur en í löndum þar sem slíkar reglur eru, brjóta þeir eigin reglur sífellt. Í þessu nýja frumvarpi eru ýtarlegar takmarkanir á hvernig má auglýsa en hér á landi hefur sannast nú þegar, aftur og aftur að áfengisiðnaðurinn brýtur með einbeittum brotavilja landslög sem gilda um áfengisauglýsingar og hann mun líkast til halda því áfram.[16]
Vísindatímaritið Addiction gaf út í janúar 2017 sérútgáfu sem fjallar um áfengisauglýsingar og kemur þar skýrt fram að áfengisauglýsingar ná sannarlega til barna og ungmenna. [17]
Í mörgum áfengisauglýsingum eru konur hlutgerðar og í sumum er hreinlega ýtt undir kynbundið ofbeldi. [18]
Samfélagslegur kostnaður vegna áfengisneyslu á Íslandi hefur verið reiknaður út í meistararitgerð Ara Matthíassonar 2010 en þar skiptir hann kostnaði í beinan og óbeinan kostnað og er útkoman 50 – 80 milljarðar á ári. [19] Reiknað upp til ársins 2018 eru efri mörkin nú yfir 100 milljarðar. Þessi upphæð eykst um 30 milljarða á ári ef frumvarp verður samþykkt.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) bendir á að áfengi er stór þáttur í ósmitnæmum sjúkdómum og hvetur allar þjóðir til að draga úr áfengisneyslu. [23]
Ísland er aðili að sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. [20] Ljóst er að áfengisneysla hefur neikvæð áhrif og hindrar að minnsta kosti 13 14 af 17 markmiðunum og 52 af 169 undirmarkmiðum. Þetta frumvarp sem yrði til þess að auka áfengisneyslu er í hrópandi ósamræmi við gildandi samþykktir þar um. [21] Alþjóðahreyfing IOGT hefur þýtt á íslensku rit um hvernig áfengi hefur áhrif á markmiðin og vinnur gegn sjálfbærniþróun í heiminum. [22] Alþingismenn hafa fengið sendann bæklinginn þýddan á íslensku sem opnar augu þeirra hve gríðarleg neikvæð áhrif áfengi hefur á samfélagið.
Hverra hagsmuna er verið að gæta?
Per Leimar, sérfræðingur IOGT í Svíþjóð um markaðssetningu áfengis, segir áfengisiðnaðurinn beita óeðlilegum þrýstingi á stjórnvöld og tekur sem dæmi afskipti Costco af atkvæðagreiðslu um áfengislög í Washington ríki í Bandaríkjunum. [24]
Í skýrslu velferðarráðherra um aðgerðir samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum. [25] kemur skýrt fram „Stjórnvöld beiti markvissri áfengisstefnu sem hafi það að markmiði að draga úr áfengisneyslu og ölvun og þar með ofbeldi sem tengist henni. Áhrifaríkustu forvarnirnar eru verðstýring og takmarkað aðgengi að áfengi.“
Þann 16. mars 2017 sagði Þorsteinn Víglundsson þáverandi félags og jafnréttismálaráðherra á ráðstefnu UN women í verkefninu HeForShe „We strongly encourage men and boys everywhere to become agents of change.“ Þar talaði hann um að vinna skuli að jafnrétti. Aukið aðgengi að áfengi er ekki rétta leiðin til þess samkvæmt aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar og Heimsmarkmiðunum. Aukin neysla áfengis mun alltaf bitna meira á konum hvað varðar neikvæðar afleiðingar áfengisneyslunnar. [26]
Í fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um biðlista á Vogi frá Sigurði Páli Jónssyni [27] svarar heilbrigðisráðherra því að á biðlista séu 570 á Vogi, 20 á Landsspítala og 50 á Hlaðgerðarkoti. Hér er ekki rædd staða á börnum og ungmennum sem fá aðstoð annarsstaðar. Á árinu 2018 fær SÁÁ 840 milljónir. [28] Í frétt frá SÁÁ kemur fram að það dugir ekki einu sinni fyrir launakostnaði. [29] Ljóst er að með því að auka aðgengi og leyfa áfengisauglýsingar aukast neikvæðar afleiðingar áfengisneyslunnar. Það vinnur gegn lýðheilsumarkmiðum. Ekki má gleyma að hér er um manneskjur að ræða. [30]
Í fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um hvort tekið sé tillit til forvarna og lýðheilsu frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur [31] svarar heilbrigðisráðherra því til að sérstök áhersla sé lögð á forvarnir og lýðheilsu. [32]
Embætti Landlæknis gaf út í febrúar 2018 Talnabrunn [33] þar sem kemur fram að skaðlegt neyslumynstur sé árið 2017 hjá 40.000 körlum og 33.000 konum. Hér er mæld skaðleg neysla samkvæmt skilgreindum mælikvarða. Æ fleiri nýjar rannsóknir benda til þess að hvers kyns neysla sé skaðleg að einhverju leyti sbr. hjarta, æðarsjúkdómar og krabbamein.
IOGT á Íslandi er hluti af stærstu forvarnasamtökum heims. Meirihluti íbúa heimsins notar ekki áfengi, kannabis eða önnur vímuefni. Yfir 62% heimsbyggðarinnar notar ekki áfengi og er það markmið IOGT að draga sem mest úr neikvæðum afleiðingum neyslu áfengis og annarra vímuefna. Við teljum að áfengis og vímuvarnastefnan á hverjum tíma eigi að þjóna heildarhagsmunum samfélagsins og byggja á traustum rannsóknum. Áfengismál og önnur vímuefnamál eru veigamikill málaflokkur og mikið í húfi að stefnumörkun sem þau varðar séu byggð á niðurstöðum rannsókna og forðast ber stefnumótun sem byggist á einföldun, vanþekkingu og úrræðum sem ekki skila árangri eða vinna gegn heilsu einstaklinga og samfélags. Þess vegna á almenningur rétt á að stefna um áfengi og önnur vímuefni sé vel ígrunduð, unnin af vandvirkni og farið varlega í breytingar á aðgengi. Kostnaðurinn við að hefta aðgang að kannabis er lítill miðað við þann kostnað sem hlýst af neyslu. Áfengis og vímuefnastefna okkar er sterk og horfa mörg ríki heims til hennar sem góðrar fyrirmyndar. Ef áfengisiðnaðinum tekst að veikja hana á Íslandi mun hann nota það til að veikja forvarnir í öðrum löndum. IOGT á Íslandi hefur sent inn umsögn um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. IOGT á Íslandi hefur frá stofnun unnið að þvílíkum markmiðum og telur að stysta leiðin til að ná þeim sé að draga úr áfengisneyslu.
Fyrir hönd Bindindissamtakanna IOGT á Íslandi
Björn Sævar Einarsson Formaður
Aðalsteinn Gunnarsson Framkvæmdastjóri
[1] https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1555
[2] http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item10424/Afengi_engin_venjuleg.pdf
[3] https://www.velferdarraduneyti.is/media/rit-og-skyrslur-2014/Stefna-i-afengis--og-vimuvornum-desember-2013.pdf
[4] https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=a5aa63d9-d5b4-11e7-9422-005056bc530c
[5] https://www.unric.org/is/frettir/27159-sameinueu-tjoeunum-ber-ae-vera-oeerum-fyrirmynd
[6] http://www.barnasattmali.is/barnasattmalinn/barnasattmalinnheildartexti.html
[7] http://iogt.se/wp-content/uploads/forskningsrapport-eng-20131.pdf
[8] http://iogt.se/wp-content/uploads/Alkoholrapport-2014-ENG.pdf
[9] http://iogt.se/wp-content/uploads/Alcohol_and_society2015_en.pdf
[10] http://iogt.se/wp-content/uploads/Alkoholrapport-2016-2017-Engelska1.pdf
[11] http://iogt.se/wp-content/uploads/IOGT-3300-Rapport_ENG.pdf
[12] https://iogt.se/wp-content/uploads/Report-Alcohol-and-older-people-1.pdf
[13] https://www.thelancet.com/journals/lancet/article/PIIS0140-6736(18)31310-2/fulltext
[14] https://issuu.com/fraedslaogforvarnir/docs/systembolaget_study_2017_icelandic
[15] http://www.althingi.is/altext/145/s/1640.html
[16] http://www.althingi.is/lagas/146a/1998075.html
[17] http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/add.v112.S1/issuetoc
[18] http://www.bigalcohol.exposed/#marketing
[19] https://saa.is/wp-content/uploads/2015/03/ritgerd-ara-matthiassonar.pdf
[20] https://www.unric.org/is/component/content/article/62-januar-2015/26384-17-sjalfbaer-trounarmarkmie
[21] http://iogt.is/wp-content/uploads/2019/05/%C3%81fengi-og-Heimsmarkmi%C3%B0in-SDG-22-ma%C3%AD-l2019-B%C3%A6klingur.pdf
[22] http://iogt.is/2019/05/23/afengi-og-heimsmarkmid-sjalfbaerrar-throunar/
[23] http://www.who.int/mediacentre/news/releases/2018/world-leaders-ncds/en/
[24] http://www.jsad.com/doi/full/10.15288/jsad.2016.77.577
[25] http://www.althingi.is/altext/139/s/pdf/1214.pdf
[26] https://heforshe.is/barbershop-verkfaerakistan-kynnt-hofudstodvum-sameinudu-thjodanna/
[27] http://www.althingi.is/altext/148/s/0172.html
[28] http://www.althingi.is/altext/148/s/0300.html
[29] https://saa.is/grein/framlog-rikisins-duga-ekki-fyrir-launum/
[30] https://www.unric.org/is/frettir/27157-aeeins-sjoetti-hver-fikill-hefur-aegang-ae-meefere
[31] http://www.althingi.is/altext/148/s/0275.html
[32] http://www.althingi.is/altext/raeda/148/rad20180226T172757.html
[33] https://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item34462/
ViðhengiÞað hlýtur að vera jákvætt og eðlilegt skref að leyfa íslenskum framleiðendum að selja eigin drykki á framleiðslustað. Hér er ekki verið að tala um að leyfa ótakmarkaða áfengissölu í almennum matvöruverslunum, sem eflaust myndi auka almenna drykkju fólksins í landinu, heldur einungis sölu á framleiðslustað.
Á Íslandi er þónokkur fjöldi brugghúsa sem framleiða m.a. áfenga drykki eins og bjór, gin og viskí. Þetta er eru yfirleitt vörur í dýrari kantinum, sem höfða meira til þeirra sem hafa sérstakan áhuga á drykkjunum, gerð þeirra, bragði, sögu osfrv. frekar þeirra sem sækjast fyrst og fremst eftir ölvun. Fólk sem er í þeim pakka getur á mun auðveldari, einfaldari og ódýrari hátt keypt áfengi í ÁTVR nú þegar, þannig það er hæpið að slíkt leyfi auki skaðlega drykkju Íslendinga á neinn tilfinnanlegan hátt.
Hitt er að íslensk framleiðsla á áfengum drykkjum í minni brugghúsum hefur ekki aðeins menningarlegt gildi fyrir okkur sjálf, eins og matar og drykkjarmenning hverrar þjóðar fyrir hana sjálfa, heldur einnig fyrir ferðamenn, sem í miklum mæli heimsækja brugghúsin. Mörgum þeirra þykir fráleitt að geta ekki keypt drykkina á staðnum, auk þess sem það dregur augljóslega úr tekjum af ferðamennsku að þeir geti það ekki.