Samráð fyrirhugað 29.11.2019—13.12.2019
Til umsagnar 29.11.2019—13.12.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 13.12.2019
Niðurstöður birtar 21.12.2020

Áform um frumvarp til laga um mannanöfn

Mál nr. 297/2019 Birt: 29.11.2019 Síðast uppfært: 21.12.2020
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Sjö umsagnir bárust um áform um frumvarp til laga um mannanöfn. Litið var til þeirra við ritun frumvarpsins. Frumvarp til laga um mannanöfn var birt á samráðsgátt 25. febrúar 2020, sjá frumvarp á máli 48/2020.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 29.11.2019–13.12.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 21.12.2020.

Málsefni

Áformað er að leggja fram frumvarp til laga um mannanöfn með það að markmiði að rýmka heimildir til skráningar nafna og kenninafna.

Í áformuðu frumvarpi er áætlað að leggja til að afnema eða rýmka eins og mögulegt er þær takmarkanir sem felast í núgildandi löggjöf um mannanöfn. Hafa ákvarðanir mannanafnanefndar þótt benda til þess að löggjöf um mannanöfn sé of ströng og að erfitt geti verið að fá nöfn skráð hér á landi ef þau eru ekki fyllilega í samræmi við íslenskan rithátt og málhefð. Með víðtækari heimildum til skráningar nafna er talið að ekki verði þörf á að hafa mannanafnanefnd og er því ráðgert að leggja til í frumvarpinu að hún verði lögð niður.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Hallur Guðmundsson - 30.11.2019

Einu úrskurðarefnin sem mannanafnanefnd á að koma að eru ef nöfnin þykja geta valdið barninu skaða auk þess að leggja til aðlögun nafna að íslensku málkerfi en ekki að hafna nöfnum á þeim forsendum að þau samrýmist ekki íslensku málkerfi.

Afrita slóð á umsögn

#2 Herbert Guðmundsson - 30.11.2019

Alfarið á móti því að mannanafnanefnd verði lögð niður. Styð að nöfn skráð hér á landi verði áfram fyllilega í samræmi við íslenskan rithátt og málhefð.

Afrita slóð á umsögn

#3 Pétur Snæbjörnsson - 01.12.2019

Í áformuðu frumvarpi er áætlað að afnema eða rýmka verulega þær takmarkanir sem felast í núgildandi löggjöf um mannanöfn. Það er mikilvægt að skoðað sé hvaða áhrif þetta kunni að hafa til lengri tíma litið. Það er auðvelt að kynna sér það með því að skoða hvað hefur gerst í löndum þar sem löggjöf um mannanöfn hefur verið breytt í líkingu við það sem nú virðist í bígerð.

Í Hollandi var mannanafnalöggjöfinni breytt árið 1970 á þann veg að allt var gefið frjálst, þó með fáeinum undantekningum. Þannig voru öll fornöfn leyfð en eftirnöfn máttu ekki vera fornöfn. Jafnframt voru óviðeigandi nöfn ekki leyfð. Það var á hendi embættimanna að ákvarða hverju sinni hvað ekki væri við hæfi og eftir því sem árin hafa liðið er lítið orðið eftir af bönnum.

Fram til 1970 voru leyfileg mannanöfn byggð á lista og um aldir höfðu mannanöfn í Hollandi verið svipuð. Lagabreytingin var svar við breyttum tímum. Á árunum 1950-1970 hafði nefnilega orðið hægfara breyting í mannanafnahefðum sem tengdist breyttum hugmyndum um einstaklinginn, fjölskyldu og hefðir. Breytingin var á þá leið að minna var skírt eftir afa og ömmu og fornöfn voru oftar fengin annars staðar frá. Þetta hélst í hendur við þá hugmynd að hver einstaklingur væri einstakur og þyrfti því einstakt nafn. Þannig urðu nöfn mikilvægari í huga fólks.

Í kjölfar lagabreytingarinnar 1970 varð bylting í mannanafnahefð í Hollandi. Með miklum hraða fækkaði hefðbundnum nöfnum og við hafa tekið erlend nöfn. Nýju nöfnin koma úr nánasta umhverfi, fjölmiðlum, kvikmyndum, tónlist og svo framvegis. Jafnframt segja nöfnin núorðið stundum eitthvað um félagslegt umhverfi þeirra sem þau bera. Sumir samfélagshópar hafa ekki fylgt þessari þróun. Þannig fá börn af tyrkneskum og marakóskum uppruna í Hollandi yfirleitt nöfn frá heimalandinu samkvæmt hefðum eða lögum sem þar í landi gilda. Heimild: https://www.historischnieuwsblad.nl/nl/artikel/5849/voornamen-in-nederland.html

Ég held að það sé óhjákvæmilegt að þeir sem vilja standa að lagabreytingum um mannanöfn geri sér grein fyrir því að breytingar á mannanafnalögum séu líklegar til að hafa meiri háttar áhrif á mannanafnahefðir. Þess vegna er mikilvægt að vandað sé mjög vel til verka, skoða reynslu annarra þjóða. Jafnframt er mikilvægt að spyrja sig að því hvaða áhrif breytingar á mannanafnalögum kunni að hafa á íslenskt tungumál til lengri tíma litið.

Afrita slóð á umsögn

#4 Embla Hallfríðardóttir - 02.12.2019

Ég vildi lýsa ánægju minni um þetta frumvarp. Vildi að þetta hefði komið fyrr, og hef aldrei skilið af hverju það megi ekki taka upp ættarnöfn.

Afrita slóð á umsögn

#5 Þorsteinn Kristinsson - 12.12.2019

„Viltu heita Brauðsneið? Nei, ég vil bara heita Guðrún.“ Þessi brandari verður bráðum ekkert fyndinn því ef Mannanafnanefnd verður lögð niður þá eigum við eftir að sjá mörg ný nöfn koma fram á sjónarsviðið sem við höfum ekki ímyndunarafl til að láta okkur detta til hugar í dag.

Ég hef fylgst með úrskurðum Mannanafnanefndar undanfarna tvo áratugi og það má segja að það eru helst tvö ágreiningsefni sem skera sig úr og hafa valdið gremju varðandi störf nefndarinnar. Annars vegar er hvort nöfn teljist vera karlkyns eða kvenkyns og úr því hefur nú þegar verið leyst samhliða lögum um kynrænt sjálfræði. Hins vegar er það hvort leyfilegt sé að nefna börn eftir ættingjum sem bera annað hvort sjaldgæf nöfn eða nöfn með óhefðbundnum rithætti. Með því að leyfa nafnagiftir og rithátt á nöfnum sem er nú þegar til staðar hjá ættingjum viðkomandi aðila án þess að það þurfi að bera slíkt undir Mannanafnanefnd þá er búið að leysa stærstan hluta ágreiningsmála á mjög einfaldan hátt. Með þessari einu breytingu er engin ástæða til að leggja niður Mannanafnanefnd enda er hlutverk hennar að mínu mati fyrst og fremst að gæta að því að ný nöfn sem rata inn á mannanafnaskrá falli að íslenskum rithætti.

Það eina sem stendur þá eftir er umræðan um ættarnöfn. Á að leyfa hverjum sem er að taka upp hvaða ættarnafn sem er? Jafnvel ættarnöfn sem eru nú þegar í notkun? Má þá líka sleppa því að vera með ættarnafn/eftirnafn? Þessa umræðu þarf að taka algjörlega óháð því hvort Mannanafnanefnd verður lögð niður eða ekki.

Afrita slóð á umsögn

#6 Guðrún Þorleifsdóttir - 12.12.2019

Umsögn Barnaverndarstofu um áform um breytingar á lögum um mannanöfn.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Eydís Rán Bergsteinsdóttir - 12.12.2019

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um mannanöfn, 150. löggjafarþingi DMR 19100127.

Sendendur: Eydís Rán og Ingibjörg Sædís (Bergsteinsdætur)

Fyrr í haust var birt viðtal við okkur systur á vef Vísis þar sem við lýstum meðal annars vandræðum okkar vegna íþyngjandi lagaramma um upptöku ættarnafna hér á landi. Við berum nafn föður okkar sem við höfum ekki átt í samskiptum við í rúman áratug. Samkvæmt núverandi lögum ber okkur skylda til að vera skráðar sem „dóttir“ einhvers í þjóðskrá, hvort sem það er hans eða einhvers annars.

Við fögnum því að þingið skuli vera að ræða aukið frelsi þegar kemur að mannanöfnum enda er réttilega bent á það í frumvarpsdrögunum að „réttur manna til að ráða sjálfir nöfnum sínum [...] er ríkari en hagsmunir samfélagsins af því að takmarka þann rétt.“ Ættarnafnahefðin hér á landi á sér furðulega sögu. Fáar fjölskyldur bera ættarnöfn og engum er heimilt að taka upp nýtt ættarnafn. Felst í þessu visst ójafnræði gagnvart þeim sem ekki hafa rétt til þess að taka upp ættarnafn; til að gæta samræmis ætti heimildin að ná til allra einstaklinga (eins og drögin að breyttum mannanafnalögum gera ráð fyrir).

Einnig viljum við koma þeirri ósk á framfæri að eftirfarandi hluti kafla D. í drögunum verði endurskoðaður:

„…en önnur kenninöfn verði í samræmi við íslenska hefð um ritun kenninafna.“

Þarna er ekki tekið fram hvort átt sé við að kenninafn verði að hafa endinguna -son eða -dóttir áfram eftir gildistöku nýrra laga, en við gerum eftirfarandi athugasemdir við það ef svo er. Í íslensku máli, aðallega talmáli en einnig í ritmáli, er talsvert rík hefð fyrir því að kenninöfn séu notuð án endingarinnar -son eða -dóttir. Til að nefna dæmi gæti fólk viljað hafa val um að skrá nafn foreldris síns í eignarfalli en án þess að rita -son eða -dóttir. Væri þetta leyft gæti fólk t.d. valið að heita Blær Auðar, eða Vigdís Jóns.

Þetta myndi til dæmis mögulega vera lausn sem gæti hentað fólki sem skilgreinir sig hvorki sem kvenkyns né karlkyns. Var lögum nýlega breytt á þann veg að leyfilegt er að skrá kyn sitt eins og hver vill og væri sjálfsagt að fólk mætti breyta nafni sínu á þann veg að nafn foreldris stæði án kynbundinnar endingar. Þá gætu foreldrar sem eignast börn með ódæmigerð líkamleg kyneinkenni einnig kennt barnið við sig án þess að verða að skrá kynbundna endingu í nafn barnsins. Viljum við því leggja til að leyfilegt verði að nota eiginnafn í eignarfalli sem kenninafn, án kynbundinnar endingar. Er það löggjafans að útfæra hvort gera ætti kvaðir um skyldleika en það yrði í raun þrenging á núverandi lagaramma sem heimilar fólki að taka upp kenninafn með hvaða eiginnafni sem er, svo lengi sem kenninafnið endar á -son eða -dóttir.