Samráð fyrirhugað 05.03.2018—12.03.2018
Til umsagnar 05.03.2018—12.03.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 12.03.2018
Niðurstöður birtar 04.06.2018

Hagsmunagæsla Íslands gagnvart ESB - Forgangsmál 2018

Mál nr. 23/2018 Birt: 02.03.2018 Síðast uppfært: 07.12.2018
  • Utanríkisráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Utanríkismál

Niðurstöður birtar

Forgangslistinn efur verið kynntur utanríkismálanefnd Alþingis og nefndinni boðið að gera athugasemdir. Athugasemdir bárust frá þingmanninum Ara Trausta Guðmundssyni. Þá var listinn kynntur samráðsvettvangi utanríkisráðuneytisins með hagsmunaaðilum um EES-mál og Sambandi íslenskra sveitarfélaga (SÍS). Umsagnir bárust frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandi Íslands (ASÍ), Samtökum atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráði Íslands (VÍ). En ekki bárust umsagnir í gegnum samráðsgáttina.
Á listanum eru nú 25 mál. Fjögur mál bættust við listann eftir framangreint samráð, þ.e. tillaga um neysluvatn (ANR), hringrásarhagkerfið (UAR), Vinnumarkaðsstofnun Evrópu (VEL) og tillaga um jafnvægi milli fjölskyldu- og atvinnulífs (VEL). Fagráðuneytin hafa öll verið með í ráðum og yfirfarið breytingar á listanum og samþykkt.

Sendiráð Íslands í Brussel og sérfræðingar í ráðuneytum og stofnunum hér á landi munu fylgja því eftir að hagsmuna Íslands sé gætt varðandi þau mál sem eru á listanum, en gert er ráð fyrir því að listinn verði birtur opinberlega.

Þá er gert ráð fyrir því að listinn verði endurskoðaður fyrir upphaf árs 2019.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 05.03.2018–12.03.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 04.06.2018.

Málsefni

Hagsmunagæsla Íslands gagnvart ESB - Forgangsmál 2018

Hagsmunagæsla Íslands gagnvart ESB

Forgangsmál 2018

Í samræmi við Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar skipaði forsætisráðherra stýrihóp um framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) 2. júlí 2014. Tilgangurinn var að auka skilvirkni í þátttöku Íslands í EES-samstarfinu og meta hvernig hagsmunagæslu af Íslands hálfu yrði best háttað. Meðal tillagna stýri¬hópsins að úrbótum, sem settar voru fram í skýrslu hópsins frá 2015, var að ríkisstjórnin samþykkti árlega, að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og hagsmunaaðila, lista yfir þau mál í lagasetningar-ferli hjá Evrópusambandinu (ESB) sem metin væru sem forgangsmál út frá hagsmunum Íslands. Sérstaklega yrði fylgst með þessum málum, sjónar¬miðum íslenskra stjórnvalda komið á framfæri og reynt að hafa áhrif eftir megni og tilefni, formlega sem óformlega. Ríkisstjórn Íslands samþykkti fyrsta listann fyrir 2016–2017 20. september 2016.

Eftirfarandi listi forgangsmála fyrir árið 2018 hefur verið settur saman í samráði við fagráðuneytin. Hverju máli fylgir rökstuðningur fyrir því að mál sé í forgangi, tilgreint er hvar málið er statt hjá ESB og lagðar eru til aðgerðir til að hafa áhrif. Annars vegar er um að ræða mál þar sem enn er unnið að stefnumótun og þau því enn á undirbúnings- eða forstigi hjá framkvæmdastjórn ESB. Hins vegar geta mál verið komin á vinnslustig en þá hefur framkvæmdastjórnin þegar lagt fram tillögu að lagasetningu til ráðsins og Evrópuþingsins. Við gerð listans var m.a. lögð til grundvallar verkáætlun framkvæmdastjórnar ESB fyrir árin 2017 og 2018, sem og áætlanir sem EFTA-ríkin innan EES gera sameiginlega um EES-samstarfið. Tekið skal fram að málunum er ekki raðað eftir mikilvægi. Við forgangsröðunina hefur verið tekið mið af því að hægt verði að sinna hagsmunagæslu með þeim fjárveitingum og þeim mannafla sem til staðar er í stjórnsýslunni. Þessi forgangsröðun varðar upphaf EES-vinnu stjórnvalda á hverju sviði og gengið er út frá því að áfram verði hugað að þeim hagsmunum sem í húfi eru ef þörf krefur við upptöku viðkomandi gerða í EES-samninginn, t.d. með því að fara fram á aðlaganir.

Forgangslistinn verður endurskoðaður í lok árs 2018 og verður þá framgangur mála metinn.