Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 6.–16.12.2019

2

Í vinnslu

  • 17.12.2019–14.9.2021

3

Samráði lokið

  • 15.9.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-302/2019

Birt: 6.12.2019

Fjöldi umsagna: 16

Drög að reglugerð

Innviðaráðuneytið

Samgöngu- og fjarskiptamál

Reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim

Niðurstöður

Í samráðsgáttina bárust umsagnir frá 13 aðilum. Þá bárust tvær umsagnir með tölvupósti. Farið var yfir allar umsagnir og tekin afstaða til þeirra. Í meðfylgjandi skjali er að finna stutta samantekt um þær breytingar sem gerðar voru á reglugerðardrögunum í kjölfar opins samráðs í samráðsgátt.

Málsefni

Ný reglugerð um sektir og önnur viðurlög, tegundir brota og viðurlög fyrir hvert brot.

Nánari upplýsingar

Ný umferðarlög nr. 77/2019 voru samþykkt á Alþingi í sumar og öðlast þau gildi 1. janúar 2020. Í lögunum er kveðið á um að sektir allt að 500.000 kr. skuli ákveðnar í reglugerð að fengnum tillögum ríkissaksóknara (97. gr.). Í reglugerðinni skal tilgreina til hvaða tegunda brota hún tekur og hvaða sekt og önnur viðurlög skuli koma fyrir hverja tegund brots. Tilgangur með reglunum og hærri sektum er að sporna gegn lögbrotum.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið óskaði eftir tillögum ríkissaksóknara að reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim með bréfi dags. 19. júlí 2019.

Ráðuneytið birtir hér drög að reglugerð skv. tillögum ríkissaksóknara til umsagnar.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í drögunum fara hér á eftir:

• Lagt er til að sekt fyrir akstur gegn rauðu ljósi hækki úr 30.000 kr. í 50.000 kr.

• Lagt er til að sektir fyrir brot gegn 14. gr. laganna um skyldur vegfarenda við umferðaróhapp verði 30.000 kr. Skv. gildandi reglugerð nema sektir fyrir sambærileg brot á bilinu 20.000-30.000 kr.

• Lagt er til að viðurlög við ölvunarakstri þar sem vínandamagn í blóði er 1,20-1,50‰ verði svipting ökuréttar í 1 ár og 6 mánuði (sbr. ný umferðarlög) og 180.000 kr. sekt en í dag eru viðurlögin svipting ökuréttar í 1 ár og 180.000 kr. sekt. Sambærilegar breytingar eru lagðar til vegna brota þegar vínandamagn í útöndunarlofti nemur 0,60-0,75 mg/l.

• Lagt er til að bætt verði við nýju þrepi í töflu yfir viðurlög vegna ölvunaraksturs (2,01-2,50‰). Í dag er efsta þrep í töflu 2,01‰ eða meira og viðurlög við brotinu svipting ökuréttar í 2 ár og 210.000 kr. sekt. Lagt er til að viðurlög við broti skv. nýja þrepinu verði svipting ökuréttar í 3 ár (sbr. ákvæði nýrra umferðarlaga) og 240.000 kr. sekt. Efsta þrep töflunnar verði 2,51‰ eða meira og viðurlög við því broti svipting ökuréttar í 3 ár og 6 mánuði og 270.000 kr. sekt. Sambærilegar breytingar eru lagðar til vegna brota þegar vínandamagn í útöndunarlofti nemur 1,01-1,25 mg/l. Þetta er lagt til í ljósi áherslu laganna á viðurlög vegna ölvunaraksturs o.fl. í nýjum umferðarlögum sem birtist m.a. í lengri sviptingartíma, sbr. 101. gr. laganna.

• Lagt er til að fíkniefnunum metamfetamín og metýlfenídat verði bætt við töflu fyrir viðurlög vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna en nokkuð er um að þau finnist í blóði ökumanna.

• Lagt er til að í töflu yfir viðurlög vegna brota á reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita og eftirlit nr. 605/2010 verði mælingar á tíma í prósentum umfram þann tíma sem ökumönnum er heimilt að aka teknar út. Þannig verði ákveðin ein sektarfjárhæð fyrir hvert brot til samræmingar og einföldunar í framkvæmd. Lögð er til töluverð hækkun sekta (frá 80.000 kr. í 300.000 kr.) fyrir vanrækslu flytjanda á að tryggja varðveislu á upplýsingum úr ökurita og af ökumannskorti í að minnsta kosti 12 mánuði eftir að þær voru skráðar og gera þær aðgengilegar eftirlitsaðila. Þetta er lagt til í því skyni að koma í veg fyrir að flytjendur beri það fyrir sig að hafa týnt gögnum sem hefðu hugsanlega sýnt fram á önnur brot á reglunum.

Sérstök athygli er vakin á því að í drögunum er að finna tvær mismunandi tillögur að reiknireglu vegna brota gegn reglum um um ásþunga/heildarþunga umfram leyfilega heildarþyngd. Með tillögunum er stefnt að eðlilegri og sanngjarnari sektarfjárhæðum en verið hefur, einkum þegar bornar eru saman sektir fyrir brot þeirra sem aka þyngstu ökutækjunum og svo sektir fyrir brot þeirra sem aka minni ökutækjum.

1. Önnur tillagan miðar að því að grunnsektarfjárhæð verði 50.000 kr. og 100 kr. bætist við fyrir hvert kg. umfram leyfilegan ásþunga eða leyfilega heildarþyngd.

2. Hin tillagan setur þrepaskiptar sektarfjárhæðir fyrir sömu brot. Þannig verði sekt fyrir ásþunga/heildarþunga sem er allt að 375 kg umfram leyfilega heildarþyngd 60.000 kr., sekt fyrir allt að 750 kg umfram verði 120.000, allt að 1.500 kg umfram verði 180.000, yfir 1.500 og allt að 5.000 kg umfram verði 180.000 að viðbættum 10.000 kg fyrir hver 100 kg umfram 3.000 kg.

Lagt er til að settur verði viðauki við reglugerðina sem fjallar um brot gegn ákvæðum reglugerðar um flutning á hættulegum farmi á landi. Enginn slíkur viðauki hefur verið í gildi í nokkurn tíma og eru fjárhæðir eldri viðauka því uppfærðar m.t.t. verðlagsbreytinga o.fl.

Lagastoð er að finna í 97. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Miðað er við að reglugerðin öðlist gildi samhliða nýjum umferðarlögum.

Óljóst er hvort hækkun sekta muni hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs. Ástæða þess er að viðurlögum skv. reglugerðinni er ætlað að hafa áhrif á hegðun ökumanna og að þeir brjóti ekki af sér en ekki að skapa tekjur

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa samgangna

postur@srn.is