Samráð fyrirhugað 06.12.2019—16.12.2019
Til umsagnar 06.12.2019—16.12.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 16.12.2019
Niðurstöður birtar 15.09.2021

Reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim

Mál nr. 302/2019 Birt: 06.12.2019 Síðast uppfært: 16.09.2021
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður birtar

Í samráðsgáttina bárust umsagnir frá 13 aðilum. Þá bárust tvær umsagnir með tölvupósti. Farið var yfir allar umsagnir og tekin afstaða til þeirra. Í meðfylgjandi skjali er að finna stutta samantekt um þær breytingar sem gerðar voru á reglugerðardrögunum í kjölfar opins samráðs í samráðsgátt.

Nánar um niðurstöður

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 06.12.2019–16.12.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 15.09.2021.

Málsefni

Ný reglugerð um sektir og önnur viðurlög, tegundir brota og viðurlög fyrir hvert brot.

Ný umferðarlög nr. 77/2019 voru samþykkt á Alþingi í sumar og öðlast þau gildi 1. janúar 2020. Í lögunum er kveðið á um að sektir allt að 500.000 kr. skuli ákveðnar í reglugerð að fengnum tillögum ríkissaksóknara (97. gr.). Í reglugerðinni skal tilgreina til hvaða tegunda brota hún tekur og hvaða sekt og önnur viðurlög skuli koma fyrir hverja tegund brots. Tilgangur með reglunum og hærri sektum er að sporna gegn lögbrotum.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið óskaði eftir tillögum ríkissaksóknara að reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim með bréfi dags. 19. júlí 2019.

Ráðuneytið birtir hér drög að reglugerð skv. tillögum ríkissaksóknara til umsagnar.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í drögunum fara hér á eftir:

• Lagt er til að sekt fyrir akstur gegn rauðu ljósi hækki úr 30.000 kr. í 50.000 kr.

• Lagt er til að sektir fyrir brot gegn 14. gr. laganna um skyldur vegfarenda við umferðaróhapp verði 30.000 kr. Skv. gildandi reglugerð nema sektir fyrir sambærileg brot á bilinu 20.000-30.000 kr.

• Lagt er til að viðurlög við ölvunarakstri þar sem vínandamagn í blóði er 1,20-1,50‰ verði svipting ökuréttar í 1 ár og 6 mánuði (sbr. ný umferðarlög) og 180.000 kr. sekt en í dag eru viðurlögin svipting ökuréttar í 1 ár og 180.000 kr. sekt. Sambærilegar breytingar eru lagðar til vegna brota þegar vínandamagn í útöndunarlofti nemur 0,60-0,75 mg/l.

• Lagt er til að bætt verði við nýju þrepi í töflu yfir viðurlög vegna ölvunaraksturs (2,01-2,50‰). Í dag er efsta þrep í töflu 2,01‰ eða meira og viðurlög við brotinu svipting ökuréttar í 2 ár og 210.000 kr. sekt. Lagt er til að viðurlög við broti skv. nýja þrepinu verði svipting ökuréttar í 3 ár (sbr. ákvæði nýrra umferðarlaga) og 240.000 kr. sekt. Efsta þrep töflunnar verði 2,51‰ eða meira og viðurlög við því broti svipting ökuréttar í 3 ár og 6 mánuði og 270.000 kr. sekt. Sambærilegar breytingar eru lagðar til vegna brota þegar vínandamagn í útöndunarlofti nemur 1,01-1,25 mg/l. Þetta er lagt til í ljósi áherslu laganna á viðurlög vegna ölvunaraksturs o.fl. í nýjum umferðarlögum sem birtist m.a. í lengri sviptingartíma, sbr. 101. gr. laganna.

• Lagt er til að fíkniefnunum metamfetamín og metýlfenídat verði bætt við töflu fyrir viðurlög vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna en nokkuð er um að þau finnist í blóði ökumanna.

• Lagt er til að í töflu yfir viðurlög vegna brota á reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita og eftirlit nr. 605/2010 verði mælingar á tíma í prósentum umfram þann tíma sem ökumönnum er heimilt að aka teknar út. Þannig verði ákveðin ein sektarfjárhæð fyrir hvert brot til samræmingar og einföldunar í framkvæmd. Lögð er til töluverð hækkun sekta (frá 80.000 kr. í 300.000 kr.) fyrir vanrækslu flytjanda á að tryggja varðveislu á upplýsingum úr ökurita og af ökumannskorti í að minnsta kosti 12 mánuði eftir að þær voru skráðar og gera þær aðgengilegar eftirlitsaðila. Þetta er lagt til í því skyni að koma í veg fyrir að flytjendur beri það fyrir sig að hafa týnt gögnum sem hefðu hugsanlega sýnt fram á önnur brot á reglunum.

Sérstök athygli er vakin á því að í drögunum er að finna tvær mismunandi tillögur að reiknireglu vegna brota gegn reglum um um ásþunga/heildarþunga umfram leyfilega heildarþyngd. Með tillögunum er stefnt að eðlilegri og sanngjarnari sektarfjárhæðum en verið hefur, einkum þegar bornar eru saman sektir fyrir brot þeirra sem aka þyngstu ökutækjunum og svo sektir fyrir brot þeirra sem aka minni ökutækjum.

1. Önnur tillagan miðar að því að grunnsektarfjárhæð verði 50.000 kr. og 100 kr. bætist við fyrir hvert kg. umfram leyfilegan ásþunga eða leyfilega heildarþyngd.

2. Hin tillagan setur þrepaskiptar sektarfjárhæðir fyrir sömu brot. Þannig verði sekt fyrir ásþunga/heildarþunga sem er allt að 375 kg umfram leyfilega heildarþyngd 60.000 kr., sekt fyrir allt að 750 kg umfram verði 120.000, allt að 1.500 kg umfram verði 180.000, yfir 1.500 og allt að 5.000 kg umfram verði 180.000 að viðbættum 10.000 kg fyrir hver 100 kg umfram 3.000 kg.

Lagt er til að settur verði viðauki við reglugerðina sem fjallar um brot gegn ákvæðum reglugerðar um flutning á hættulegum farmi á landi. Enginn slíkur viðauki hefur verið í gildi í nokkurn tíma og eru fjárhæðir eldri viðauka því uppfærðar m.t.t. verðlagsbreytinga o.fl.

Lagastoð er að finna í 97. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Miðað er við að reglugerðin öðlist gildi samhliða nýjum umferðarlögum.

Óljóst er hvort hækkun sekta muni hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs. Ástæða þess er að viðurlögum skv. reglugerðinni er ætlað að hafa áhrif á hegðun ökumanna og að þeir brjóti ekki af sér en ekki að skapa tekjur

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Þorgeir Már Samúelsson - 07.12.2019

Hver er munurinn á manni sem ekur stóru ökutæki með ökurita og hefur yfir höfði sér sektir ef hann virðir ekki viðveru og hvíldartíma, og svo sjómanni sem er að róa með línu á dagróðrarbát og er án þess að fá hvíldartíma í 20 til 28 klst.? Hvað hafa margir trukka bílstjórar sofnað undir stýri og keyrt út í skurð á 10 ára tímabili......og svo margir bátar lent upp á þurru landi eða keirt í strand vegna svefnleysis og þreytu?????

Vill einhver skylgreina fyrir mig hver sé munur á þessum tveim (ökumönnum ...skipstjónendum)?????

Afrita slóð á umsögn

#2 Steinar Immanúel Sörensson - 07.12.2019

Sérstaklega langar mig til að koma með umsögnvarðandi "Lagt er til að fíkniefnunum metamfetamín og metýlfenídat verði bætt við töflu fyrir viðurlög vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna en nokkuð er um að þau finnist í blóði ökumanna."

En metýlfenídat er lyf sem er notað til að aðstoða fólk með ofvirkni og athyglisbrest, og gerir því kleyft að halda berti einbeitningu m.a. og hefur ekki vímugefandi eða örvandi áhrif á þá sem eru að fást við adhd eða add, heldur færa virkni heilans nær norminu, því væri það beinlínis alvarlegt inngrip og mögulega brot á mannréttindum að refsa manneskju með metýlfenídat í blóði sem greind er með adhd eða add, refsing þar sem misnotkun á sér stað horfir öðruvísi við og mikilvægt að greina þarna á milli.

Mbk Steinar Sorensson, greindur með ADD, og faðir drengja með ADD greiningu.

Afrita slóð á umsögn

#3 Björn Arnar Kristbjörnsson - 07.12.2019

Sektarákvæði um þynd -heildarþyngd eða ásþyngt eru mjög ósanngjarnar gagnvart bílstjórum í malarakstri .þeir biðja um rétta þyngd á bílinn en fá oft á tíðum rangt hlass og hafa ekki möguleika á að sannreyna þýngd.

Það væri réttlátara að tæki sem moka á bæru líka ábyrgð .þá myndi starf bílstjóra vera betra og ámokstursmenn vanda sig betur.

Afrita slóð á umsögn

#4 Björn Arnar Kristbjörnsson - 08.12.2019

Sektarákvæði um þynd -heildarþyngd eða ásþyngt eru mjög ósanngjarnar gagnvart bílstjórum í malarakstri .þeir biðja um rétta þyngd á bílinn en fá oft á tíðum rangt hlass og hafa ekki möguleika á að sannreyna þýngd.

Það væri réttlátara að tæki sem moka á bæru líka ábyrgð .þá myndi starf bílstjóra vera betra og ámokstursmenn vanda sig betur.

Afrita slóð á umsögn

#5 Björn Arnar Kristbjörnsson - 08.12.2019

Þegar maður les þessar reglugerðir um þyngdir þá virðist það skína í gegn að sekta og refsa eins og hægt er .

Það er ekkert gert til að gera starf bílstjóra betra

T.d að bíll og vagn sé þannig búinn að bílstjóri geti séð þyngd á vagni og bíl. Þannig að hann fari ekki af stað ef hlass er rangt.

Afrita slóð á umsögn

#6 Sigurgeir Vilmundarson - 08.12.2019

Á að gera akstur undir áhrifum "Metýlfenídat" refsivert. Þetta lýsir algjöru skilningsleysi á virkni þess efnis fyrir þá sem haldnir eru ADHD eða drómasýki. Þetta efni bætir einbeitingu einstaklinga með þann taugaröskunarsjúkdóm og varnar því að einstaklingar með drómasýki sofni undir stýri. Menn þurfa aðeins að fara að víkka sjóndeildarhringinn og slaka á forræðishyggju ofstækinu.

Afrita slóð á umsögn

#7 Baldur Már Kristmundsson - 08.12.2019

Væri réttast að hafa sektirnar frekar tekjutengdar og miða við að sektir séu lágmark og svo hækkun tekjutengd.

Sektir eru nú þegar orðnar of háar fyrir þá sem eru tekjuminni, þannig nær væri að hafa þær tekjutengdar.

Afrita slóð á umsögn

#8 Sigurður Ragnarsson - 09.12.2019

Viðurlög eru að mínum dómi nú þegar of mikil. Ekki er sjálfgefið, að brotum fækki eftir því sem viðurlög eru aukin. Ekki ætti að staðfesta þau reglugerðardrög, sem hér hafa verið lögð fram.

Afrita slóð á umsögn

#9 Ólafur Gunnar Sævarsson - 09.12.2019

Samkvæmt drögunum að nýrri reglugerð um sektir kemur fram í 5 - 6 mgr. 7.gr. að sekt fyrir óhlýðni ökumanns við leiðbeiningum og merkjagjöf lögreglu sé 20.000. Þetta finnst mér vera of lág sekt þar sem afleiðingar slíkrar hegðunar geta valdið hættu fyrir vegfarendur og lögreglumenn við umferðarstjórn og stöðvun ökutækja. Þetta þekki ég frá starfi mínu í lögreglunni. Þætti mér viðeigandi að þessi sektarupphæð ætti að jafnast á við akstur gegn rauðu ljósi og ætti því að vera 50.000.

Afrita slóð á umsögn

#10 Róbert Sigurðarson - 09.12.2019

Nú liggur fyrir skv. nýjum umferðarlögum að hæfnismörkin vegna ölvunaraksturs munu lækka úr 0.5‰ niður í 0.2‰. Það vekur þó stórkostlega furðu að skv. þessum drögum að nýrri reglugerð um sektir að refsimörkin skuli áfram verða miðuð við 0.5‰ og þ.a.l. eigi ekki að sekta eða svipta ökumenn ökuréttindum sem mælast á bilinu 0.2‰ til 0.5‰. Heyrst hefur að rökin fyrir þessu séu, meðal annars, að álag muni aukast hjá lögreglunni vegna meiri rannsóknarvinnu.

Það hefur verið vísindalega sannað að marktækur munur er á hæfni allsgáðra ökumanna og þeirra sem mælast með 0.20‰ vínanda í blóði og jafnframt að slysahætta þrefaldast hjá ökumönnum sem eru á bilinu 0.20‰ - 0.40‰. Rannsóknir í Svíþjóð leiddu í ljós að eftir lækkun refismarka þar í landi úr 0.50‰ í 0.20‰, fækkaði umferðarslysum og banaslysum og þrefalt fleiri ökumenn ákváðu að aka ekki eftir áfengisneyslu af ótta við að mælast yfir mörkum.

Það er ekki gott að ökumenn skuli geta haft ákveðið neysluviðmið, til dæmis, að 1-2 bjórar séu í lagi fyrir akstur. Ef að hugsunin er að koma í veg fyrir aukið álag á lögregluna vegna aukinnar rannsóknarvinnu og refsa þ.a.l. ekki ökumönnum sem mælast á bilinu 0.2‰ til 0.5‰, þá eru það ekki góð rök. Það fer nú þegar nokkur tími í svona mál og myndi ekki bætast mikil vinna við það sem fyrir er í dag. Ef til vill væri heppilegri leið að fjölga störfum í lögreglunni, en þegar allt kemur til alls myndi slík framkvæmd án efa kosta minna heldur en þau umferðarslys sem koma mætti í veg fyrir með auknu og betra eftirliti. Ölvunarakstur er ein algengasta orsök banaslysa í umferðinni og rétt er að benda á að á árunum 2012-2017 kostuðu umferðarslys samfélagið tæplega 43 milljarða að meðaltali á hverju ári.

Ef þetta verður niðurstaðan, eins og lagt er til í drögunum, er eingöngu verið að senda þau skilaboð út í samfélagið að ökumenn hafi sama svigrúmið og áður til áfengisneyslu fyrir akstur. Þessu þarf að breyta og gera ökumönnum ljóst að akstur og áfengi eiga aldrei samleið.

Afrita slóð á umsögn

#11 Sigurður Jónasson - 10.12.2019

XIV. kafli, notkun öryggis- og verndarbúnaðar

77. gr. 1. og 2. mgr.

Legg til að sekt fyrir nota ekki öryggisbelti eða sérstakan öryggisbúnað ætlaðan börnum verði hækkuð úr kr. 20.000,- í kr. 50.000,- til samræmis við sekt fyrir akstur gegn rauðu umferðarljósi.

78. gr. 1. og 3. mgr.

Legg enn fremur til sömu hækkun sekta fyrir vanrækslu á notkun öryggis- og verndarbúnaðar við akstur bifhjóls og torfærutækis, þ.e. að sekt verði kr. 50.000,- sé viðurkenndur hlífðarhjálmur ekki notaður af ökumanni og/eða farþega sem og ef ökumaður bifhjóls flytur farþega án hlífðarhjálms.

Samkvæmt slysaskýrslu Samgöngustofu sem gefin var út 2019 kemur fram að fjöldi látinna í umferðarslysum á Norðurlöndum var hæstur hér á Íslandi sé miðað við 100.000 íbúa árið 2018 eða 5,2 á móti 2,0 í Noregi sama ár.

Það er ljós að draga má stórlega úr alvarlegum meiðslum með notkun öryggisbeltis og ef sektin er há þá „gleymir“ fólk síður að spenna beltin. Kostnaður við umferðarslys á Íslandi 2018 var áætlaður rúmir 50 milljarðar króna en þar af var kostnaður við óhöpp án meiðsla aðeins 7,6 milljarðar. Ætla má að ökumenn og farþegar bifreiða sem ekki nota öryggisbelti hefðu getað sparað þjóðfélaginu milljarða króna hefðu þeir notað þennan sjálfsagða öryggisbúnað og því réttlætanlegt að hækka verulega sektina við þessum brotum.

Afrita slóð á umsögn

#12 Jónas Þór Karlsson - 10.12.2019

Ég legg til að sekt verði sektarhimild við brot á 16. gr. umferðarlaga en þar er talað um að óheimilt sé að ganga yfir akbraut gegn rauðu ljósi. Það skapar oft stórhættulegar aðstæður þegar gangandi vegfarendur ganga yfir á rauðu ljósi í veg fyrir ökutæki. Þetta er mjög freistandi fyrir gangandi þar sem ekki er hægt að gera þeim refsingu fyrir slík brot.

Ég geri athugasemd við stafsetningu í yfirskrift 23. gr. reglugerðarinnar, en þar er orðið "almennra" sett í stað almennar.

Í 25. gr. reglugerðarinnar er talað um sektir við brot á bönnum við framúrakstri. Það er hvergi sekt sektarheimild inn fyrir það að taka framúr á óbrotinni línu. Slíkur framúrakstur er því miður mjög algengur og skapar stórhættu. Því tel ég nauðsynlegt að það sé til staðar sektarheimild fyrir slík brot.

Margumdeild endurmenntunarnámskeið atvinnubílstjóra hafa verið þrætuepli lengi í samfélaginu. Margir atvinnubílstjórar eru haldnir þeirri skoðun að þessi námskeið séu eigi lögleg þar sem ekki virðist vera til sektarheimild fyrir það að aka án þess að hafa setið þessi námskeið, og eru margir atvinnubílstjórar í umferðinni í dag sem ekki hafa setið þau. Mig þykir athyglisvert að sjá að eigi sé sett inn skýr sektarheimild í þessa reglugerð fyrir akstur án atvinnuréttinda, og hef ég frá lögreglumönnum að þeir hafi enga heimild til þessa að sekta fyrir slík brot. ÞAð verður að teljast furðulegt að ríkið ætlist til þess að atvinnubílstjórar sitji þessi námskeið en að það séu engin viðurlög ef þeir kjósi að hundsa þau fyrirmæli og aka áfram í atvinnuskyni án þess að hafa í raun viðhaldið þeim réttindum sínum. Ég legg því til að sett verði skýr sektarheimild til þess að sekta viðkomandi aðila og jafnvel að gera vinnuveitendum ábyrgum fyrir því að fylgjast með að starfsmenn þeirra hafi í raun atvinnuréttindi til aksturs.

Afrita slóð á umsögn

#13 Árni Sólon Steinarsson - 12.12.2019

Mig langar að vekja athygli á því að refsing í formi sviftingar ökuréttinda hefur mismikil áhrif á einstaklinga sé horft til jafnréttis, þar sem sumir hafa atvinnu af akstri,.

Eins er ég hlynntur tekjutengingu eða einhverskonar þrepakerfi við upphæðir sekta.

Methylphenidat. (Concerta, ritalin etc.) er geðlyf sem “getur haft áhrif á hæfni við stjórn ökutækja” ég get ekki séð að lögregla geti skorið úr um það á vettvangi hvort um misnotkun lyfsins sé að ræða. En samkvæmt læknisráði skal taka lyfið að morgni dags.

Afrita slóð á umsögn

#14 Björgvin Þór Guðnason - 15.12.2019

Þegar drögin eru skoðuð þá vekur það furðu okkar hve sektir eru lágar fyrir notkunarleysi öryggis- og verndarbúnaðar í bifreiðum og við akstur bifhjóla og torfærutækja. Það er mikið ósamræmi miðað við önnur brot eða aðeins kr. 20.000,-

Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að nota öryggisbelti og annan öryggisbúnað ætlaðan börnum. Á hverju ári látast einstaklingar eða slasast alvarlega í umferðinni vegna þess að þeir notuðu ekki öryggisbelti.

Það að nota ekki öryggisbúnað er ein af aðalorsökun banaslysa í umferðinni.

Hefðum viljað sjá þessa sektarfjárhæð mun hærri.

Við vísum beint í skýrslur Rannsóknarnefnd samgönguslysa um mikilvægi öryggisbelta :

“Að mati RNSA eru líkur á, að af 273 látnum einstaklingum í umferðarslysum á árunum 2000 til og með 2014, væru 57 þeirra væru á lífi í dag hefðu þeir verið spenntir.”

f.h. Ökukennarafélags Íslands

Björgvin Þór Guðnason formaður.

Afrita slóð á umsögn

#15 Róbert Sigurðarson - 16.12.2019

Skv. 37. gr.. Hvernig má það vera að það sé sama sektarupphæð fyrir að aka á hraðanum 121-130, 131-140 og 141-150 þar sem leyfður hámarkshraði er 70 og 80 km klst. Maður skyldi ætla að upphæðin ætti að vera lægri þar sem hámarkshraðinn er 80 km/klst?

Af hverju eru sektir ekki hærri þar sem leyfður hámarkshraði er 30 km/klst? Þennan hámarkshraða er að finna í nágrenni við skóla og í íbúahverfum og það er ástæða fyrir því að hann er 30 km/klst., en hún er vegna óvarðra vegfarenda og byggir á fræðilegum forsendum. Ef ekið er á óvarðan vegfaranda á 50 km hraða áttfaldast líkurnar á banaslysi samanborið við 30 km hraða. Þá sextánfaldast líkurnar þegar hraðinn er kominn í 60 km/klst. Það væri því ekkert eðlilegra en að hækka sektarfjárhæðirnar hvað þetta varðar sé tekið mið af alvarleika brotsins, sem afar fáir ökumenn virðast gera sér grein fyrir.

Skv. 5.-6. mgr. 7.gr. er varðar óhlýðni ökumanns við leiðbeiningum og merkjagjöf lögreglu, þar er 20.000 kr. sektarupphæð ekki í neinu samræmi við 50.000 kr. sektarupphæð fyrir að fara yfir á rauðu ljósi. Sektin fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu ætti að minnsta kosti að vera jafnhá og akstur gegn rauðu ljósi, ef ekki hærri. Þetta má rökstyðja með því að benda á að fyrirmæli og leiðbeiningar lögreglu gilda skv. umferðarlögunum framar öðrum fyrirmælum sem gefin eru t.d. með umferðarmerkjum (biðskylda, stöðvunarskylda) og umferðarljósum.

Afrita slóð á umsögn

#16 Kristján Benediktsson - 16.12.2019

Almennt má hreyfa einhvern á tvennan hátt, laða hann að sér eða hrinda honum frá sér, eða einfaldað, með góðu eða illu.

Sú refsigleði sem birtist í áformum um ofursektir er dæmi um gamaldags valdstjórnarhyggju. Það hefur verið sýnt fram á fyrir löngu, að valdstjórnarhyggja skilar ekki bestum árangri (William Edwards Deming). Sem gangandi vegfarandi finn ég oft til meira öryggis við að ganga yfir á rauðu ljósi, verandi búinn að ganga úr skugga um að enginn bíll þveri göngubautina, meðan þeir bílar sem þverað gætu gangbrautina bíða á rauðu ljósi. Á grænu ljósi eru gangandi vegfarendur í stöðugri hætti vegna bifreiða, sem fá grænt ljós á sama tíma, og koma aftan að manni. Reglur verða að vera í einhverjum takti við veruleikann í umferðinni, ekki samdar af því bara, af einhverjum sýkópötum. Einu sinni var börnum refsað í skóla með því að kennarinn lamdi með reglustiku á fingurnar á þeim. Háar sektir í umferðinni eru af sama meiði, hugmyndafræði sýkópata.

Háar sektir mismuna ökumönnum gróflega. Ökumenn með háar tekjur skipta þær engu máli, og breyta engu um hegðun, en yfir á hinum enda tekjuskalans, hjá atvinnulausum, öryrkjum og eldri borgurum geta þær haft mikil og neikvæð áhrif á afkomu og getu til að lifa mannsæmandi lífi, skapar aðeins óhamingju og hefur áhrif út í fjölskyldu. Hvers á foreldri að gjalda, sem kannski verður að hætta við að borga fyrir barn sitt eða barnabarn í íþróttir að gjalda svo metafórískt dæmi sé tekið. Viðurlög ættu að vera “innan vallar,” eins og í íþróttunum, t.d. með punktum í ökuferilsskrá, en ekki refsa fólki “utan vallar,” og refsa vinum og vandamönnum tekjulágra um leið, eins og þetta.

Yfirgnæfandi fjöldi ökumanna eru hæfir og góðir ökumenn án ásetnings um brot, góður akstur byggir á “refleksum” í tauga- og vöðvakerfi, en ekki á buddunni. Mikill minnihluti stundar “ásetningsbrot,” og til þeirra næst ekki með þessu móti, heldur þarf að gera það á annan hátt.