Niðurstaða máls er í stuttu máli að fjórtán umsagnir bárust og við lokafrágang frumvarpsins var meðal annars tekið mið af þeim.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 09.12.2019–09.01.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 27.05.2020.
Um er að ræða drög að frumvarpi til nýrra laga um fjarskipti og um breytingar á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, til innleiðingar á nýjum fjarskiptapakka ESB (BEREC-reglugerð ESB nr. 2018/1971 og EECC-tilskipun ESB nr. 2018/1972.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til nýrra laga um fjarskipti og um breytingar á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, til innleiðingar á nýjum fjarskiptapakka ESB (BEREC-reglugerð ESB nr. 2018/1971 og EECC-tilskipun ESB nr. 2018/1972).
Reglugerð (ESB) nr. 2018/1971 um samstarfsvettvang evrópskra eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC-reglugerðin) leysir af hólmi gildandi reglugerð sama efnis. Hún felur jafnframt í sér breytingar á svonefndri TSM-reglugerð ESB (Telecom Single Market Regulation) nr. 2015/2120.
Tilskipun (ESB) nr. 2018/1972 er ný grunngerð á sviði fjarskipta (e. European Electronic Communications Code). Hún er uppfærsla á eldri gerðum (e. recast), en hefur þó að geyma margvíslegar breytingar og nýmæli.
Umsögnum skal skilað eigi síðar en 6. janúar 2020 í samráðsgátt, https://samradsgatt.island.is/
Góðan dag, meðfylgjandi er umsögn Neytendastofu um frumvarpsdrögin
ViðhengiHjálögð er mín umsögn um frumvarpsdrögin
ViðhengiUmsögn um 'drög að frumvarpi til nýrra laga um fjarskipti'
Ég vil koma með ábendingu varðandi kröfur til
fjarskiptabúnaðar.
Þegar kemur að búnaði til fjarskipta á millibylgju (það sem eru svokallaðar 'Gufunestalstöðvar') þá er um ansi fá tæki að ræða sem eru með innflutningsleyfi ti Evrópu (CE merki)
Það þyrfti að vera möguleiki á að nota fleiri slík tæki hérlendi, en auðvitað yrðu þau að standast ákveðnar kröfur.
Ástralir og Bandaríkjamenn m.m. eru með sérstaka gerðaviðurkenningar fyrir svoleiðis tæki, og það væri hentugt fyrir öryggisfjarskipti á Íslandi ef hægt væri að nota slík tæki hérlendis svo lengi sem tækin standist áströlsk, eða bandarísk viðmið. Jafnvel mætti fara út í prófanir á tækjunum með tilliti til að athuga hvort þau trufli utan við áætlaða tíðni tækjanna, (yfir og undirsveiflur) enda tiltölulega auðvelt að prófa slíkt.
Jón G. Guðmundsson
Radíóðamatör og
fyrrv. björgunarsveitarmaður
Ég vil benda á möguleikana á milliliðalausum fjarskiptum á millibylgju og stuttbylgju í þessu samhengi. Þessi fjarskipti voru notuð í marga áratugi af viðbragðsaðilum, Lögreglu, Vegagerð, Landsímanum og bifreiðastjórum sem þurftu að ferðast við erfiðar aðstæður. Landsíminn hélt vörð vegna þessara fjarskipta á sex strandarstöðvum víðsvegar um landið en þessi fjarskipti eru ennþá megin uppistaðan í fjarskiptum flugvéla, skipa og vegna hernaðar um allan heim.
Almenn notkun og notkun viðbragðsaðila ásamt þekkingu á þessum búnaði og tækni hefur með öllu lagst af á síðustu tuttugu árum, aðallega vegna einhliða markaðssetninga fjarskiptafyrirtækja á þann veg að þetta sé úrelt tækni (sem því miður er þvættingur) og að best sé, og eina leiðin, að gerast áskrifandi að þeirra lausnum gegn „vægu gjaldi“. Reyndar hafa nokkrir radíóáhugamenn og jeppamenn viðhaldið þessarri þekkingu með frábærum árangri.
Má í þessu samhengi benda á áróður fjarskiptafyrirtækjanna gegn sjónvarpsloftnetum sem „úreltri tækni“ til að koma sem flestum notendum í áskrift að sjónvarpsdagskrá þó að Ríkisútvarpið hafi fjárfest í stafrænum sjónvarpssendum til að tryggja milliliðalausa dreifingu dagskrárefnis til þessara notenda.
Einnig vil ég árétta mikilvægi milliliðalausra útvarpsútsendinga sem aðeins geta farið fram á langbylgju eða millibylgju (AM) en rekstur slíkra kerfa er einfaldasta og ódýrasta lausnin til að tryggja að fréttir, upplýsingar og tilkynningar geti borist til almennings í hættuástandi.
Það er því ósk mín að litið verði til eftirfarandi þátta við þessa endurskoðun:
1. Stuðlað verði að því að aðgengi almennings að fjarskiptabúnaði fyrir millibylgju verði aukið en alls ekki skert og þessi fjarskipti tekin upp aftur af viðbragðsaðilum.
2. Aðgengi almennings að viðtækjum fyrir langbylgju og millibylgju (AM) verði stóraukið en þessi tæki eru óðum að hverfa af markaði í Evrópu vegna ásókna fjarskiptafyrirtækja í aðrar og gróðavænlegri dreifilausnir fyrir fjölmiðla. Þessi þróun er ekki áberandi á öðrum markaðssvæðum, sennilega vegna skorts á öðrum fjarskiptaleiðum.
3. Að tryggðar verði áframhaldandi útvarpsútsendingar á milliliðalausum langbylgju og/eða millibylgjuútsendingum til almennings með öllum ráðum.
Henry A. Hálfdansson
Rafeindavirkjameistari og
F.V. Björgunarsveitamaður
Persónuvernd hyggst veita umsögn um umrætt frumvarp en vegna anna hjá stofnuninni mun það ekki nást fyrir uppgefinn tímafrest.
Meðfylgjandi er umsögn Félags heyrnarlausra um drög að frumvarpi til nýrra laga um fjarskipti.
Virðingarfyllst,
f.h. Félags heyrnarlausra
Karólína Finnbjörnsdóttir, lögmaður
ViðhengiHjálögð er umsögn Mílu ehf. við drög að frumvarpi til fjarskiptalaga.
ViðhengiUmsögn:
1. Horfst verði í augu við, líkt og Ríkisútvarpið gerir með langbylgjunni, að í flóknum, stórum og dýrum fjarskiptakerfum, gjarnan eins og löng keðja, sem ekki er sterkari en veikasti hlekkurinn, er svo margt sem getur farið úrskeiðis, að miklar líkur er á að eitthvað slíkt gerist, þegar mikið gengur á. Því verði unnið að því að koma upp skilgreindum óháðum varaleiðum meðfram hverju dreifikerfi, sem ætíð má grípa til fyrirvaralaust.
2. Hagnaðardrifnum fjarskiptakerfum verði gert skylt að verja stærri hluta hagnaðar síns en nú er, til eflingar skilgreindan hátt öryggi dreifikerfa sinna og varaleiða.
3. Gerð verði úttekt á hvort þjóðhagslega hagkvæmt sé, að byggja upp mörg samfélagsþjónandi grunnkerfi, marga innviði af sama toga, (marga ljósleiðara, mörg farsíakerfi, sbr., að engum dettur í hug að vera með mörg vegakerfi hér á landi).
4. Gerð verði úttekt á því, hvort verið geti þjóðhagslega hagkvæmt, að hvert sveitarfélag þurfi að vera að “vasast í” fjarskiptaframkvæmdum, sem þau hafa takmarkaðar forsendur til að sjá um og leiðir gjarnan til ósamstæðra lausna.
5. Jafnframt verði skoðað hvort Fjarskiptasjóður ætti kannski síður að einblína á að skipta landinu upp í svæði, sem á umdeilanlegum forsendum er metin að búa við samkeppni eða ekki samkeppni, heldur sinni Fjarskiptasjóður eða til þess bær aðili frekar heildar yfirsýn og hagkvæmni, grunnkerfinu og grunninnviðum fyrst og fremst, sem þjónustuaðilar hafi síðan aðgang að á jafnræðisgrundvelli. Samkeppnin sé síðan fyrst og fremst í þjónustunni, sem byggir ofan á grunnkerfinu og grunnkerfið flytur (sbr. Vegagerðin og vegakerfið).
6. Í milliliðalausum radíósamskiptum frá A til B er færra sem getur bilað en í stóru keðjunum. Styrkleika milliliðalausra tæknilausna og kerfa þarf að viðurkenna, ekki vinna gegn þeim, heldur greiða götu þeirra, svo þau getir verið tiltæk, þegar mikið liggur við og stóru kerfin kunna að bregðast. Þar á meðal eru sjálfstæðar fjarskiptalausnir björgunarsveita, radíóamatöra og gufunesstöðvar.
7. Radíóamatörar eru elstu notendur tíðnisviðsins, skilgreindir hjá ITU, Alþjóða
Fjarskiptasambandinu sem amatörradíóþjónusta (Amateur Radio Service). Það er þjónusta sjálfsþjálfunar, innbyrðis radíósambanda og tæknilegra athugana radíóamatöra. Fá úthlutað sérstökum tíðnisviðum til samskipta við aðra radíóamatöra gegn prófi í radíótækni, samskiptum og reglugerðum.
Radíóamatörar eru virk grasrótahreyfing tækniþekkingar og reynslu í fjarskiptum. Byrjar kannski sem áhugamál á unga aldri, en síðan spretta upp afburða tæknimenn á radíósviðinu. Að þetta er virka hérlendis má sjá af því, að margir þeir sem veljast til ábyrgðarstarfa í greininni hafa sprottið upp úr þessum jarðvegi.
Dæmi má nefna frá því að háskólakennarar HÍ í fjarskiptum fyrr og nú hafa komið úr röðum radíóamatöra og yfir í að tveimur radíóamatörum má þakka fyrir að langbylgja RÚV hefur starfað áfallalaust sl. rúm 20 ár og stóð sig með mikilli prýði í óveðrinu í desember sl. og væri ekki gangandi í dag án aðkomu þessara radíóamatöra.
Mikil þróun er nú í gangi á sviði stafrænna radíósamskipta radíóamatöra, þar sem framvarðarsveit amatöra með afburða þekkingu víkkar nú út afköst kóðunar og prótókolla stafrænnar merkjameðhöndlunar. Þetta gerir samskipti möguleg við mun veikari skilyrði en áður, sem eykur þar með langdrægnina. Leiðandi í þessari þróun er nóbelsverðlaunahafinn Dr. Joseph H Taylor (https://en.wikipedia.org/wiki/Joseph_Hooton_Taylor_Jr.).
Forsendur að þessi brunnur þekkingar nýtist og dafni eins vel og kostur er, eru m.a.:
• Velvild stjórnvalda og skilningur á því, að starfsemi radíóamatörar eru viðurkennd radíóþjónusta hjá ITU, Alþjóða Fjarskiptasambandinu, og notandi radíótíðnisviðsins og eigi því að njóta sömu verndar og aðrir notendur tíðnisviðsins í samræmi við það.
• Frelsi radíóamatöra til að setja upp loftnet er nauðsynlegt.
8. Radíóamatörar eru sérstaklega meðvitaðir og umhugað um rafsegulsamhæfi tækja sinna við önnur rafeindatæki í næsta nágrenni. Með reglugerðum og stöðlum er ITU, Alþjóðafjarskiptasambandið í lykilhlutverki í verndun tíðnisviðsins fyrir ótilætluðum radíótruflunum og PFS hér á landi.
Sambýlisvandi mögulegra gagnkvæmra truflana, sem upp kunna að koma milli radíóamatöra og nágranna þarf að líta á og leysa í samvinnu allra aðila sem tæknilegt úrlausnarefni fyrst og fremst, með vísun til þess sem segir í reglugerð um rafsegulsamhæfi, að búnaður hafi viðunandi ónæmismörk fyrir rafsegultruflunum og uppsetning sé í samræmi við góðar starfsvenjur, en ekki á grundvelli þess að radíóamatörar séu óæðri öðrum notendum.
Radíóamatörar hafa þekkingu og reynslu á þessum málaflokki, vita af reynslu að gott sambýli er mögulegt, sé allur búnaður og uppsetning í lagi, og eru tilbúnir að leggja málefninu og farsælli úrlausn lið.
9. PFS verði gert að starfa samkvæmt viðhorfum um þjónandi forystu án mismununar ólíkra notenda.
10. Vaxandi truflanir eru frá margvíslegum rafeindatækjum og búnaði, sem einkum ógna lægri radíótíðnum, einkum langbylgju, miðbylgju og stuttbylgju. PFS sé gert skylt að vernda þessi tíðnisvið fyrir þessum truflunum.
11. Vindmyllur geta haft margvísleg neikvæð og truflandi áhrif á radíófjarskipti, svo sem útbreiðslu útvarps og sjónvarps í lofti og annarra sendinga með rafsegulbylgjum, þar á meðal, radíóvita, ljósvita, örbylgjusambanda, ratsjárgeisla og annað er varðar flugöryggi, svo sem sjá má í viðhengdum greinum um þetta mál. Mikilvægt er að skilgreina ferla sem taka á fyrirbyggjandi hátt á slíkum málum á skipulags- og undirbúningsstigi, því það er margfalt ódýrara og auðveldara heldur en eftirá.
-----
Fylgiskjöl
• Viðhengi 1
Grein í riti Alþjóðafjarskiptasambandsins; ITU News Magazine 2019, No. 4, “Self‑training, intercommunication and technical investigations: the amateur service in the 21st Century” eftir David Sumner ritara, International Amateur Radio Union (IARU ) aðgengilegt á vefslóðinni:
www.itu.int/en/itunews/Documents/2019/2019-04/2019_ITUNews04-en.pdf
• Viðhengi 2
Grein í Raflosti blaði rafmagnsverkfræðinema “Amatörradíóþjónustan – öðruvísi menntakerfi,” eftir Kristján Benediktsson.
• Skýrsla Alþjóðafjarskiptasambandsins um vindmyllur, Report ITU-R BT.2142-2-2015, aðgengilegt á vefslóðinni:
www.itu.int/dms_pub/itu-r/opb/rep/R-REP-BT.2142-2-2015-PDF-E.pdf
Viðhengi Viðhengi