Alls skiluðu 15 aðilar inn umsögnum. Athugasemdir við lýsinguna sem var til umfjöllunar voru helst þessar:
Tímaramminn er of þröngur – áætlun sem þessi krefst lengri tíma, ekki síst vegna samráðs
Ábendingar um fleiri aðila sem ætti að kalla til samráðs
Ábendingar um fleiri heimildir sem taka ætti tillit til
Ábendingar um allmörg atriði sem vert væri að ræða sérstaklega og móta stefnu um
Verkefnisstjórn hefur fjallað um athugasemdirnar og tekur tillit til þeirra í vinnunni framundan.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 18.12.2019–31.01.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 11.03.2020.
Verkefnisstjórn um gerð landsáætlunar í skógrækt, sem skipuð var af umhverfis- og auðlindaráðherra í júní sl., hefur tekið saman drög að lýsingu þar sem gerð er grein fyrir þeim áherslum sem fyrirhugað er að hafa við gerð áætlunarinnar, svo sem um forsendur, viðfangsefni og fyrirhugaða kynningu og samráð við mótun áætlunarinnar. Drög að lýsingu verða til kynningar og umsagnar til 31. janúar 2020.
Lýsing vinnu við landsáætlun í skógrækt
Verkefnisstjórn um gerð landsáætlunar í skógrækt, sem skipuð var af umhverfis- og auðlindaráðherra í júní sl., hefur tekið saman drög að lýsingu þar sem gerð er grein fyrir þeim áherslum sem fyrirhugað er að hafa við gerð áætlunarinnar, svo sem um forsendur, viðfangsefni og fyrirhugaða kynningu og samráð við mótun áætlunarinnar.
Í landsáætlun í skógrækt sem er til tíu ára í senn, skal kveða á um stefnu stjórnvalda þar sem fjallað er um stöðu og framtíð skóga í landinu, ásamt tölusettum markmiðum um árangur í skógrækt með hliðsjón af markmiðum laganna. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna skal í áætluninni gera grein fyrir:
a) forsendum fyrir vali á landi til skógræktar með tilliti til náttúruverndar, minjaverndar og landslags,
b) vernd og endurheimt náttúruskóga,
c) ræktun skóga til uppbyggingar skógarauðlindar og umfangi og horfum hvað varðar nýtingu,
d) sjálfbærri nýtingu skóga,
e) áhrifum skógræktar á atvinnuþróun og byggð,
f) aðgengi fólks að skógum til útivistar,
g) skógrækt í samhengi líffræðilegrar fjölbreytni,
h) skógrækt í samhengi loftslagsbreytinga,
i) öflun þekkingar á skógum og skógrækt og miðlun hennar,
j) eftirliti með ástandi og nýtingu skóga,
k) eldvörnum og öryggismálum.
Jafnframt skal horft til þess að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla og samþætta áætlunina við aðrar áætlanir ríkis og sveitarfélaga sem og alþjóðlegar skuldbindingar.
Með vísan til markmiða laga um skóga og skógrækt og ákvæða 4. gr. um innihald landsáætlunar er lögð áhersla á af hálfu ráðuneytisins að verkefnisstjórn fjalli um hvernig unnið verði að þeim markmiðum, sett fram framtíðarsýn til langs tíma, skilgreind markmið og aðgerðaáætlun með skilgreindum mælikvörðum á árangur. Jafnframt er lögð sérstök áherslu á að í landsáætlun í skógrækt sé fjallað um endurheimt náttúruskóga á stórum samfelldum svæðum og skógrækt í samhengi loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni. Gera skal sérstaklega grein fyrir notkun tegunda í skógrækt og tryggja að ekki verði notaðar ágengar framandi tegundir sem numið geta land og dreift sér. Mikilvægt er að skoðað sé sérstaklega hvernig auka megi þátttökunálgun með einstaklingum, félagasamtökum, sjálfboðaliðum o.fl. í skógræktarstarfinu og hvernig útfæra megi samstarf einkaaðila og ríkisins.
Þar sem mikil tengsl eru milli viðfangsefna við gerð landsáætlunar í skógrækt og við gerð landgræðsluáætlunar sbr 6. gr. laga nr. 155/2018 um landgræðslu skal verkefnisstjórn um gerð landsáætlunar hafa samráð eins og þurfa þykir við verkefnisstjórn um gerð landgræðsluáætlunar til að tryggja samræmingu vinnulags og viðfangsefna.
Gert er ráð fyrir að verkefnisstjórnin skili tillögum að landsáætlun í skógrækt til ráðherra fyrir 1. september 2020.
Sæll ágæti viðtakandi.
Hér á eftir koma athugasemdir mínar við landsátak í skógrækt:
Skógar eiga ekki heima alls staðar, þeir byrgja mönnum sýn og þar sem þeir eru nálægt vegum myndast hálka, en skóglendi skyggir á vegi og þeir verða því kaldir og blautir sem er kjörskilyrði hálku. Margar tegundir af trjágróðri sem eru ræktaðar á Íslandi voru ekki hér við landnám frekar en lúpína eða minkur. Skógur er því stundum eins og illgresi í íslenskri náttúru. Þeir spilla fornleifum en fornminjar geta verið á stöðum þar sem menn eiga síst von á, enda kannski hvergi getið í fornum sögum eða heimildum. Mikil hætta er líka á skógareldum þar sem skógur er enda er skógur víða illa grisjaður hér á landi. Ég get nefnt mörg dæmi um slíkt en læt duga svæði nálægt mínum heimkynnum, þ.e. milli efra og neðra Breiðholts í Reykjavík. Það er siður að gróðursetja tré í þúsundavís og grisja svo ekki áratugum saman. Slíkt veldur mikilli almannahættu enda þekkjum við, af mörgum nýlegum dæmum erlendis frá, að skógareldar hafa valdið slysum á mönnum og dýrum sem og eytt mannvirkjum. Viljum við endilega rækta einhæfan skóg sem víðast? Noregur, Svíþjóð og Finnland eiga stór skógi vaxinn svæði. Mér finnst þau ljót enda einhæf en melar, auðn og sumar tegundir af lággróðri sem ekki finnast í skóglendi aftur á móti fallegri. Svo má ekki gleyma að skógrækt er ekki endilega góð aðferð í kolefnisjöfnum á Norðurslóðum sbr. það sem hér segir: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/10/03/skograektin_breytir_loftslaginu/
Með virðingu,
Bjarni V. Guðmundsson.
Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga
ViðhengiDrög að lýsingu er ekki aðgengileg. Þegar skjal er sótt, kemur villa. Þörf á að leiðrétta og lengja frest.
Farsímavefurinn er með villu.
Varðar:
Atriði sem Umhverfis- og Auðlindaráðuneytið leggur áherslu á:
- gerð verði sérstök grein fyrir notkun tegunda í skógrækt og tryggt að ekki verði notaðar ágengar framandi tegundir.
Eftirfarandi athugasemd:
Varast skal öfgar í tengslum við ágengar framandi tegundir. Ljóst er að veðurlag er að breytast og því er þörf á að fá til landsins plöntur sem eru aðlagaðar nýju veðurfari.
Víðáttur Íslands, þe. eyðimerkur, eru mannanna verk við eyðingu skógar, gróðurs og smádýra. Það er ekkert nátturlegt við núverandi eyðimerkur Íslands og þörf á að rækta upp með gróðri til hagsbóta fyrir landið og heiminn.
SKÓGRÆKTARFÉLAG ÍSLANDS
Landsamband skógræktarfélaganna – Þórunnartúni 6 - 105 Reykjavík
551 8150 skog@skog.is www.skog.is
Reykjavík, 27. janúar 2020
Nefnd um Landsáætlun í skógrækt
Efni: Athugasemdir við efnistök nefndarinnar.
Á stjórnarfundi 20. janúar sl. samþykkti stjórn Skógræktarfélags Íslands eftirfarandi bókun vegna vinnu nefndar um Landsáætlun í skógrækt.
Stjórn Skógræktarfélag Íslands fagnar því að vinna er hafin við Landsáætlun í skógrækt og rétt að vekja athygli á nýlegri samþykkt:
„Aðalfundur SÍ, haldinn í Kópavogi 30. ágúst til 1. september 2019, fagnar tilkomu nýrra skógræktarlaga sem voru samþykkt á Alþingi 2. apríl síðast liðinn og leggur til að fjármagni verði veitt til þess að gerð verði Landsáætlun í skógrækt. Telja verður fullvíst að ekki verði unnið að Landsáætlun nema til komi töluverðir fjármunir. Hvort slíkir fjármunir eru til reiðu verður að teljast prófsteinn á gildi þessara nýju laga“.
Stjórnin SÍ telur að drög að „Lýsing fyrir gerð landsáætlunar í skógrækt“, sé í meginatriðum metnaðarfull en telur jafnframt að sá tímarammi sem ætlað sé í að klára þá vinnu sé allt of naumur og hætt sé við að ekki gefist tími til að leita til grasrótarinnar.
Þá er mikilvægt að tryggt sé að starfshópurinn fái ráðrúm til að vinna sjálfstætt og að upplýsingar sem komi fram í áætluninni byggi á staðreyndum og vísindalegum gögnum. Skógrækt kallar á hugsun til langs tíma og byggir m.a. á yfir 100 ára reynslu og þekkingu hér á landi. Skógrækt hefur lengst af átt afar erfitt uppdráttar og tiltrú landsmanna var lengi vel engin á því að hér væri hægt að stunda sjálfbæra atvinnugrein sem gagnast gæti landi og þjóð.
Þrátt fyrir að aldar starf hafi einungis skilað 0,4% af flatarmáli landsins í uppvaxandi ræktuðum skógum er ljóst að hér er hægt að stunda sjálfbæra ræktun sem getur gefið af sér ýmiskonar hráefni sem við ella þurfum að flytja til landsins en ekki síður að hægt er að vinna að fjölbreyttum umhverfisbótum og vistþjónustu, svo sem kolefnisbindingu, með skógrækt. Þær trjátegundir sem hafa sýnt sig að vaxa við okkar loftslag eru innan við tíu talsins og gegna mikilvægu hlutverki gagnvart þeim miklu áhrifum sem breytt lofslag mun hafa á veðurfar.
Þá er rétt að nefna að eina lausnin til að efla náttúruskóga og útbreiðslu birkis á Íslandi er að koma böndum á fyrirhyggjulausa lausagöngu búfjár á rýru landi. Metnaðarfull Landsáætlun í skógrækt mun engu breyta þar um, því miður.
ViðhengiÞeir veiðistofnar fugla sem flestir veiða úr (rjúpa, grágæs, endur) verpa að langmestu leyti á grónu, skóglausu láglendi. Þessir stofnar standa undir viðamikilli útivist, tómstundum og atvinnustarfssemi um allt land. Forsenda veiða og þeirra nytja sem veiðunum tengjast eru sterkir stofnar. Þessar fuglategundir verpa flestar í fjölbreyttum landgerðum svo sem votlendi, mólendi og graslendi. Að grágæs slepptri, sem verpir víða í þéttum vörpum meðfram ám og vötnum verpa þessir stofnar að mestu dreift og því er erfitt að ná utan um vernd sterkra stofna með svæðisbundinni vernd heldur er mikilvægt að stuða að almennri búsvæðavernd sem víðast til að tryggja sterka veiðanlega stofna til framtíðar. Mikilvægt er að markmiðum frekari skógræktar sé náð á landgerðum þar sem þessir fuglar verpa lítið eða ekki. Þar má nefna á ógrónu landi, landi í talsverðum halla og á öðru landi sem hentar ekki sem varpland ofangreindra veiðistofna fugla. Einnig er mikilvægt að vernda vatnsbakka og votlendi sem eru lykilbúsvæði andfugla, fyrir skógrækt. Einnig að velja trjátegundir sem viðhalda eða auka líffræðilegri fjölbreytni landsins.
Sæl
Umsögn mín er í viðhengi en einnig hér að neðan.
Bestu kveðjur,
Jens
https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2568&fbclid=IwAR1uf0jMVFfJZyAIdXEW83Go28wjzTB7FwpY7vY9yGefTQI_r1u-5tGZBnA
Athugasemdir frá Jens B. Baldurssyni.
Fyrst geri ég tvær athugasemdir við áætlunina. Síðan tek ég saman stutta umsögn um mig og hvers vegna ég læt mig skógrækt miklu varða. Loks set ég fram nokkrar hugleiðingar um skógrækt á Íslandi og stöðu hennar sem ég tel að sé nú hornreka en ætti að skipa hærri sess í samfélaginu. Vegna tímaskorts náðist ekki að hafa samráð við annað skógræktarfólk eins og æskilegt hefði verið og því er þetta sett fram í formi hugleiðinga.
Athugasemdir við landsáætlunina:
1) Þessi setning er tortryggileg: "Gera skal sérstaklega grein fyrir notkun tegunda í skógrækt og tryggja að ekki verði notaðar ágengar framandi tegundir sem numið geta land og dreift sér." Hver túlkar þetta? Hvers vegna á þetta við um tré en ekki t.d. grastegundir (sem eru fjári ágengar margar hverjar), hreindýr eða mannskepnuna svo dæmi sé tekið? Mér líst ekki á þessa tortryggni gagnvart "framandi" plöntutegundum sem þarna skín í gegn. Vona að þetta sé ekki dæmi um plönturasisma, frekar um sérvisku. Mér finnst fráleitt að láta sérvisku einhverra ráða því hvað gróðursett er og hvar. Hins vegar er sjálfsagt og eðlilegt að efla rannsóknir á plönturíki landsins sem geta orðið grundvöllur að umræðu um hvaða tegundir eru heppilegar á hverjum stað. T.d. eru stórvaxnar tegundir eins og aspir og sitkagreni kannski ekki heppilegar í litlum görðum í þéttbýli. Þær henta hins vegar afar vel á mörgum öðrum stöðum en sjálfsagt ekki alls staðar. - Orð eru til alls fyrst og þessi setning í áætluninni gæti orðið grundvöllur víðtækra vondra aðgerða í framtíðinni ef illa er á málum haldið og þröngsýni ræður för.
Í samfélaginu ber töluvert á að verið sé að hræða fólk með hugsanlegri innrás vondra ágengra útlendra plantna. Þó erlend trjátegund lifi hér og geti fjölgað sér þá er hún ekki sjálfkrafa ágeng. Skv. minni reynslu er grasið eina ágenga plöntutegundin sem kaffærir flestar plöntur, jafnvel lúpínan á ekki sjéns í samkeppninni við hávaxið (innflutt) gras.
Ég hef miklu meiri áhyggjur af innrás alls konar skorkvikinda og annarra skaðvalda í trjánum okkar. Sem sagt, við þurfum meiri skógrækt og rannsóknir, minni skriffinnsku og að unnið sé markvisst gegn hræðsluáróðri. Til að ná þessu er best að gefa sem flestum tækifæri á að fara út í náttúruna og taka þátt á skógrækt og landgræðslu og þannig njóta náttúrunnar, öðlast meiri skilning á henni og bæta heilsuna í leiðinni.
2) Landsáætlunin vefst fyrir mér, ekki bara setningin sem fjallað var um hér að framan. Er verið að skapa hátímbrað skriffinnskukerfi fyrir þetta tiltölulega fáa fólk sem er að basla í skógrækt? Ég og mitt litla skógræktarfélag þurfum meira land og meiri mannafla og fjármagn í skógræktina og ég veit að það gildir um flest skógræktarfélög. Við þurfum ekki meiri skriffinnsku og reglugerðarbákn. Best væri að fá fleira kunnáttufólk til að starfa og til rannsókna í skógræktinni en leggja minni áherslu á skriffinnsku.
Fyrir okkur skógræktarfólk er töluvert og vaxandi basl að eiga við skriffinnskuna, ekki bara "fyrir sunnan" heldur líka innan sveitarfélaganna. Skriffinnskan hefur vaxið á síðustu árum og of oft verið til trafala, sérstaklega eftir hrunið. Þetta á sérstaklega við um helsta vandamál skógræktarfólks sem er að það skortir land til skógræktar (nema hjá einstaka skógræktarfélagi). Það tekur mikinn tíma og orku að sækja um meira land og eiga samskipti við skipulagsstofnanir (aðalskipulag, deiliskipulag o.fl.). Það er vont ef yfirvöld byggja upp mikið skriffinnsku- og reglugerðabákn um fremur litla skógrækt. Til hvers?
Um mig og áhuga minn á skógrækt.
Ég er framhaldsskólakennari og stjórnandi í framhaldsskóla á eftirlaunum. Hef verið formaður Skógræktarfélags Akraness frá 2012 og er í stjórn Skógræktarfélags Íslands. Hef helgað mig skógræktinni undanfarin ár og tel mig hafa þokkalega góðan skilning á íslenskri skógrækt og þörfum hennar. Hef verið í samskiptum og samstarfi við fjölmargt skógræktarfólk víðsvegar um landið. Í barnæsku fór fjölskyldan norður í land til sauðfjárbændanna afa og ömmu og gróðursetti tré sem nú eru orðin að myndarlegum skógi. Í þá daga var miklu meiri hugur í almenningi varðandi skógrækt og heilu hóparnir og fjölskyldurnar töldu það ekki eftir sér að gróðursetja tré. Fólk taldi sig ekki of fínt til að óhreinka sig af mold og drullu ef það yrði til þess að græða upp landið. Nú er erfiðara að fá fólk til verka í skógræktinni, jafnvel má heyra ungt fólk sem hefur áhyggjur af loftlagsmálum segja að "einhver annar" eða "ríkið" eigi að sjá um að gróðursetja trén.
Eftirfarandi eru nokkrar hugleiðingar byggðar á reynslu minni og annars skógræktarfólks. Þá er átt við félaga í skógræktarfélögum en ekki skógarbændur sem eiga einkaskóga.
1) Við skógræktarfólkið erum allt of fá í landinu núna. Áður fyrr tók fjöldi fólks þátt í að rækta upp skóga sem nú eru margir orðnir stórir. Einstaklingar, starfsmenn fyrirtækja og stofnana, átthagafélaga, ungmennafélaga og ekki síst skógræktarfélaga vann ósérhlífið starf í gróðursetningu. Þetta hefur breyst mikið, miklu færri taka þátt í skógræktarstarfinu. Því þarf ekki að "óttast" mikla skógrækt eins og mér virðist skína í gegnum þessa áætlun. Ég undanskil skógarbændur sem fá mikinn ríkisstuðning við ræktun skóga sinna sem eru einkaskógar og því ekki aðgengilegir almenningi á sama hátt og skógar skógræktarfélaganna. Umfram allt vantar fleiri vinnufúsar hendur í skógrækt sem ætluð er almenningi. Skógar mega ekki verða einkaeign ríkra landeigenda.
2) Skógræktarfélög eru yfirleitt ósköp fátæk og því fæst í stakk búin til að standa í mikilli skógrækt. Virkilega öflug skógrækt þyrfti fleira fólk, meira fé og miklu meiri tækjabúnað en flest skógræktarfélög búa yfir núna. Þeir sem óttast að Ísland verði skógi vaxið þurfa því ekki viðamikið reglugerðarfargan til að standa í vegi fyrir skógrækt, hún er ekki svo viðamikil.
3) Skortur á landi til skógræktar. Líklega er þetta mesta vandamálið í dag. Fáir einstaklingar, bændur og aðrir landeigendur, eiga eða hafa helgað sér mestallt Ísland. Viðamikil skógrækt er því illmöguleg nema á einkalöndum bænda. Tryggja verður að almenningur hafi miklu meiri aðgang að skóglendi í framtíðinni. Ef ferðalög minnka vegna loftlagsbreytinga og almennrar fátæktar þá er skóglendi athvarf sem fólk mun sækja í í meira mæli en hingað til.
4) Bann við lausagöngu búfjár. Sauðkindin er helsti óvinur okkar skógræktarfólks. Hún og aðrir grasbítar sækja mjög í allan nýgræðing svo ómögulegt er að rækta eitt né neitt ef beit er óhindruð eins og víðast hvar á Íslandi. Banna verður alla lausagöngu búfjár og stöðva þannig yfirgang búfjáreigenda sem beita búpeningi sínum hvar sem þeim þóknast, jafnvel á annarra manna land. Setja þarf viðurlög við slíkum yfirgangi og hætta öllum ríkisstuðningi við þá sem slíkt stunda. Að gera landsáætlun í skógrækt án þess að nefna helsta vandamál íslenskrar skógræktar er einkennilegt.
5) Aðeins um 2% Íslands er skóglendi. Ari fróði segir í Landnámu að landið hafi verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Ýmsar rannsóknir staðfesta að þá hafi skóglendi verið miklu meira en á seinni öldum og jafnvel hafa fundist ummerki um að tré hafi vaxið í nokkur hundruð metra hæð á Sprengisandi. Ef landið fær að vera í friði fyrir mönnum og búpeningi þá mun það sjálft gróa upp að stórum hluta en þarf til þess langan tíma, líklega aldir. Okkur ber skylda til að flýta fyrir því að það grói upp og m.a. nota til þess plöntur erlendis frá. Jafnvel "framandi" trjátegundir. Í firndinni uxu hér alls konar trjátegundir en eftir síðustu ísöld mest birki og fáeinar aðrar tegundir. Með hlýnandi loftslagi er grundvöllur fyrir fjölbreyttari gróður. Þegar ég fluttist til Akraness 1983 sögðu gömul hjón við mig að á Akranesi yxu tré ekki, a.m.k. ekki við sjóinn. Fyrir allmörgum árum hóf Jón Guðmundsson að rækta ávaxtatré nánast í fjöruborðinu á Akranesi og gekk vel en slíkt hafði varla nokkur maður látið sér detta í hug, hvað þá prófa. Það er því varasamt fyrir fólk á skrifstofum hér og þar um landið að ætla að stjórna gróðurfari á Íslandi og ráðskast með það hvernig landið mun líta út í framtíðinni sem enginn veit hvernig verður.
6) Skjólbelti, vörn gegn vindi og skafrenningi. Skógar veita afbragðsgott skjól gegn vindi og skafrenningi. Koma mætti í veg fyrir mörg foktjón á bílum og mannvirkjum með skjólbeltum. T.d. yrði akstur undir Hafnarfjalli og Esjunni mun öruggari ef í kring væri skógur (skjólbeltið má ekki vera of mjótt ef það á að gagnast).
7) Loftslagsbreytingar vegna hlýnunar. Ræktun skóga er ein af þeim leiðum sem bestar eru til að vinna gegn hlýnun andrúmsloftsins. Þar verða Íslendingar að leggja sitt af mörkum og ættu að eiga auðveldara með það en flestar aðrar þjóðir þar sem hér er nóg af gróðursnauðu landi.
8) Pöddur og önnur óværa sem skaða tré og annan gróður veldur sífellt meiri erfiðleikum. Stöðugt berast fréttir af nýjum skaðvöldum sem berast til landsins og leggjast m.a. á birkitré. Það er afar einkennilegt að búa til mikið reglugerðarfargan um tré en hvergi í landsáætluninni er minnst á skaðvaldana. Leggja þarf miklu meiri áherslu á baráttuna við skaðvaldana og rannsóknir á þeim.
9) Of mikið skrifræði. Stuttlega var fjallað um skrifræðið hér að framan. Það getur verið ansi erfitt fyrir lítil skógræktarfélög að sækja um meira landsvæði til skógræktar. Ef um er að ræða tvö sveitarfélög sem sækja þarf til, þá getur jafnvel áratugur ekki dugað. Aðalskipulag, deiliskipulag o.þ.h. virðist vefjast mjög fyrir sveitarstjórnarfólki og skipulagsstofnunum og þegar um lítil skógræktarfélög er að ræða þá mæta þau afgangi. - Því er þetta nefnt hér að mér sýnist þessi skrifræðistilhneiging fara vaxandi í samfélaginu. Sífellt fleiri vilja verða fínir stjórnendur en helst ekki óhreinka puttana. Kannski endar íslensk skógrækt á því að tíu stjórnendur og skipuleggjendur verða fyrir hvern þann sem puðar í skógræktinni eða stundar rannsóknir og hugsanlega mun skógrækt framtíðarinnar felast í skýrslugerð? Vona ekki og þessi landsáætlun þarf ekki að þýða það en gæti í versta falli orðið upphafið að vondu bákni. - Hér má nefna að áður fyrr voru stundum samin lög og reglugerðir sem ekki var farið eftir ef það hentaði ekki eða þau voru arfavitlaus. Sá tími er líklega liðinn og því er mikilvægt að vanda til verka þegar verið er að setja lög og reglugerðir og búa til stofnanir.
10) Skógrækt hentar að því leytinu illa fyrir nútímafólk að ansi margir vilja getið setið við tölvuna sína og lækað eða gagnrýnt eftir hentugleikum. Kveða upp dóm á einni kvöldstund. Skógræktin tekur tíma, óratíma að mörgum finnst, og árangur sést fyrst eftir mörg ár. Það er því auðvelt að afskrifa skógrækt ef árangurinn er aðeins metinn t..d. fyrstu fimm árin. Árangur fer fyrst að sjást eftir 10 - 15 ár nema aðstæður séu þeim mun betri og "dekrað" sé við trén með áburðargjöf, gras reitt frá o.s.frv.
Þegar ég er að vinna í skógræktinni okkar hitti ég oft fólk sem var að gróðursetja tré þar á árabilinu 1990 - 2000. Allir eru ánægðir með árangurinn en flestir hafa orð á því að þau hefðu aldrei trúað því að þessi skógur myndi vaxa þarna.
Læt þessar hugleiðingar nægja í bili. Vona að skógrækt og lífríki Íslands dafni á komandi árum. Það er jú sameiginlegt markmið okkar allra.
ViðhengiStjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur hefur lesið og kynnt sér „Landsáætlun í skógrækt - drög að lýsingu“ og fagnar því að þessi vinna er hafin. Um leið tekur Skógræktarfélags Reykjavíkur undir með samþykkt aðalfundar Skógræktarfélags Íslands, að séð verði til þess að fjármagni verði veitt til þess að gerð verði Landsáætlun í skógrækt. Telja verður fullvíst að ekki verði unnið að Landsáætlun nema til komi töluverðir fjármunir. Hvort slíkir fjármunir eru til reiðu verður að teljast prófsteinn á gildi nýju skógræktarlaganna.
Á þessu stigi málsins eru einungis til umsagnar drög að lýsingu landsáætlunar í skógrækt. Samt er ástæða til að minna á, að forsendur sem kynntar eru fyrir áætluninni virðast mjög á reiki. Blandað er saman nýsamþykktum lögum um skógrækt (svo sem eðlilegt er), alþjóðasáttmálum og alþjóðlegum samþykktum um skógræktarmál (sem er eðlilegt) og síðan skoðunum frá framkvæmdarvaldinu (ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála). Tveir fyrrnefndu liðirnir eru réttmætir, þar sem þau stefnumið sem þar birtast hafa fengið eðlilega umræðu, innanlands (á hinu háa Alþingi) og alþjóðlega (við gerð alþjóðasáttmála eða sameiginlegra stefnumiða Evrópuríkja, þ.m.t. Íslands). Slíkt á ekki við um síðastnefnda liðinn. Virðist sem skoðun framkvæmdarvaldsins eigi að hafa sama vægi og íslensk lög, alþjóðasamningar og alþjóðlegar samþykktir.
Sem dæmi:
Setning þessi „Gera skal sérstaklega grein fyrir notkun tegunda í skógrækt og tryggja að ekki verði notaðar ágengar framandi tegundir sem numið geta land og dreift sér“ er ekki afrakstur eða niðurstaða af starfi nefndarinnar sem samdi „Landsáætlun í skógrækt - drög að lýsingu“ , heldur kemur hún úr skipunarbréfi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til nefndarinnar.
Með þessari setningu er reynt (að því er virðist) að skilgreina upp á nýtt hvað gerir innflutta tegund "ágenga" (og þar með, væntanlega, óæskilega í lífríki Íslands). Skilgreiningin sem þarna birtist er sú, að slík tegund sé sú sem "numið getur land og dreift sér". Við þekkjum dæmi frá flestum innfluttum trjátegundum, að þær hafa sáð sér út. Eru þá flestar – ef ekki allar – þær innfluttu trjátegundir orðnar þar með „ágengar“ með þessari skilgreiningu ráðuneytisins?
Í 5. gr. núgildandi náttúruverndarlaga er "ágeng framandi lífvera" skilgreind með svohljóðandi hætti: "Framandi lífvera sem veldur eða líklegt er að valdi rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni".https://www.althingi.is/lagas/nuna/2013060.html
Hefur nokkur trjátegund á Íslandi hingað til verið staðin að því að „rýra líffræðilega fjölbreytni“? Er nokkuð sem bendir til þess að einhver þessara tegunda sé „líkleg“ er til að valda rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni? Fá rök hniga að slíkum dómi. Þvert á móti.
Sáttmálinn um líffræðilega fjölbreytni hefur skilgreint „ágengar framandi tegundir“ með líkum en ítarlegri hætti en íslenska lagaskilgreiningin - sem tegundir sem valda efnahagslegum eða umhverfislegum skaða eða þær sem geta spillt heilsu manna. Vandséð er, hvernig slíkt á að gerast, þótt einstöku innflutt trjátegund sái sér út á stöku stað á Íslandi.
„Invasive alien species are plants, animals, pathogens and other organisms that are non-native to an ecosystem, and which may cause economic or environmental harm or adversely affect human health.“ https://www.cbd.int/idb/2009/about/what/
Jóhannes Benediktsson
Formaður Skógrækarfélags Reykjavikur
Viðhengi
Fuglavernd fagnar því að gerð skuli landsáætlun í skógrækt og þó sérstaklega að ætlunin er að meta umhverfisáhrif skógræktar! Félagið vill koma á framfæri meðfylgjandi athugasemdum.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Ungra umhverfissinna um landsáætlun í skógrækt 2020.
Kær kveðja,
Pétur Halldórsson
formaður
ViðhengiUmsögn um Landsáætlun í skógrækt, mál nr. 31/2019
Sjá viðhengt skjal.
Ingibjörg Svala Jónsdóttir
ViðhengiVinsamlegast sjá umsögn Landverndar í viðhengi
kær kveðja
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkævmdastjóri
Viðhengi