Samráð fyrirhugað 18.12.2019—07.01.2020
Til umsagnar 18.12.2019—07.01.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 07.01.2020
Niðurstöður birtar 16.03.2020

Drög að Sóknaráætlun Suðurnesja 2020-2024

Mál nr. 316/2019 Birt: 18.12.2019 Síðast uppfært: 16.03.2020
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Sveitarfélög og byggðamál

Niðurstöður birtar

Sóknaráætlun Suðurnesja 2020-2024 var sett í opið samráðferli dagana 18. desember 2019 til 7. janúar 2020.
Sjá nánar um niðurstöðu samráðs í meðfylgjandi skjölum.

Nánar um niðurstöður

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 18.12.2019–07.01.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 16.03.2020.

Málsefni

Sóknaráætlun Suðurnesja 2020-2024 hefur verið sett í opið samráðferli þar sem allir geta sent inn ábendingar og tillögur varðandi áætlunina; markmið hennar og innihald. Umsagnarfrestur er til og með 7. janúar 2020

Sóknaráætlun Suðurnesja 2020-2024 er nú til umsagnar en þar geta íbúar landshlutans komið með ábendingar áður en hún öðlast gildi á nýju ári.

Sóknaráætlun er stefnuskjal sem felur í sér stöðumat landshlutans, framtíðarsýn og markmið í tilgreindum málaflokkum ásamt skilgreindum leiðum að markmiðunum. Markmið hennar er að stuðla að jákvæðri byggðaþróun í takt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshlutans.

Samningur um Sóknaráætlun Suðurnesja 2020 – 2024 var undirritaður Þann 12. nóvember 2019 milli samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Tilgangur hennar er að einfalda samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi við úthlutun og umsýslu opinberra fjármuna. Sóknaráætlun Suðurnesja heldur utan um rúmlega 100 milljónir króna á ári og því renna rúmlega 500 milljónir króna frá ríkinu til Suðurnesja næstu fimm árin.

Undirbúningur Sóknaráætlunar Suðurnesja 2020 – 2024 hóst í maí sl. á vegum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum en Capacent hefur haldið utan um vinnuferli og samráðsfundi sem haldnir hafa verið vegna verkefnisins.

Unnið var að mótun stefnunnar með því að eiga samráð við kjörna fulltrúa og aðra hagsmunaaðila á Suðurnesjum til þess að fá fram sjónarmið þeirra um Sóknaráætlunina og tengja áætlunina með markvissum hætti við ákvörðun áhersluverkefna og úthlutun verkefna úr uppbyggingarsjóði.

Afurð þessarar vinnu er Sóknaráætlun Suðurnesja 2020-2024 en þar má finna áherslur að endurskoðaðri framtíðarsýn, meginmarkmið og mælanleg markmið til næst ára.

Við óskum eftir ábendingum frá íbúum landshlutans sem við munum taka tillit til og í einhverjum tilfellum breyta í samræmi við.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Jóhanna P Björgvinsdóttir - 25.12.2019

Í þessi markmið vantar að setja áætlun um hvernig á að koma í veg fyrir sóun á reynslu og færni fólks á milli fimmtugs og sextíuogsjöára sem einhverra hluta vegna er án vinnu en vill og getur unnið. Þið gætuð orðið fyrst á Íslandi og tala ekki um í heiminum að búa til markmið fyrir fullorðið fólk.

Afrita slóð á umsögn

#2 Ásdís Ólafsdóttir - 27.12.2019

Eitt fljótlegt skref í átt að sjálfbærni er t.d. að hér á Suðurnesjum væri í boði að setja metan á bíla, sjá líkt og Akureyrarbær er að gera.

Safna lífrænum úrgangi frá heimilum og stofnunum á Suðurnesjum og lækka þar með förgunarkostnað sveitarfélagana á almennu sorpi sem er dýrasti förgunarflokkurinn.

Væri mögulegt að bjóða upp á þessa söfnun við grendargámana til að byrja með?

Varast að fara í of miklar gróðursetningar í móanum umhverfis sveitarfélögin. Móinn fóstrar mófuglategundir (lóa, spói, hrossagaukur o.fl.) sem koma árlega hingað í móana umhverfis okkur til að verpa og þessar tegundir vilja ekki verpa í skógi eða þar sem þéttleiki trjáa er. Einnig mikilvægt að halda í þau örfáu varpsvæði sem eru eftir fyrir sílamáf og svartbak en þessum tegundum hefur fækkað um 90% á síðustu 10 árum hér á suðvesturlandi. Við viljum ekki búa á stað þar sem það eina sem flýgur hér yfir bæina okkar eru fuglar úr stáli.

Til að kolefnisjafna eða binda ættu sveitarfélögin frekar að styrkja framtak eins og Votlendissjóð heldur en að ráðast í umfangsmiklar gróðursetningar. Með því að fylla upp í skurði þá hefst kolefnisbinding samstundis en tré er í mörg ár að byrja að kolefnisbinda. Einnig er varhugavert að dreifa ágengum tegundum eins og öspum um alla móa því þær þurrka þá upp. Ef það er enn mest spennandi kostur fyrir sveitarfélögin að gróðursetja þá ætti að velja tegundirnar vel og nota innlendar tegundir eins og birki. Eyðum frekar grasbölum innanbæjar með því að gróðursetja tré þar í stað þess að fylla móana af trjám.

Sveitarfélögin ættu að halda í og varðveita víðernin í nálægð við sig sem eru án ummerkja mannsins (göngustígar, bekkir, salernisaðstöðu o.þ.h.) því þau eru og verða alltaf mikilvæg landsvæði fyrir alla þá sem langar að sjá óspillta náttúru. Með því að halda í óspillta náttúru þá erum við að vernda líffræðilegan fjölbreytileika á svæðinu.

Afrita slóð á umsögn

#3 Valdimar Össurarson - 06.01.2020

Fyrirliggjandi drög eru að mörgu leyti ágæt en þó vantar þar tvö mikilvæg atriði til að sóknaráætlunin geti staðið undir því nafni. Þessi atriði tengjast að sumu leyti; eru mikilvæg í samfélagslegu tilliti og fyrir okkar alþjóðlegu skuldbindingar. Sjálfur hef ég unnið að báðum þáttum og er þeim vel kunnugur. Þau eru:

A. Efling á starfi frumkvöðla og hugvitsmanna, t.d. með sköpun (endurreisn) aðstöðu. (Ég er formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna, og býst við að þau landssamtök væru reiðubúin að koma að slíkri stefnumótun).

B. Þróun tækni til sjávarorkunýtingar. Á Suðurnesjum starfar (enn) eina fyrirtæki landsins í þróun sjávarorkutækni, og hefur náð lengst á heimsvísu í þróun tækni til nýtingar þess straumhraða sem t.d. er að finna í Reykjanesröst og mjög víða annarsstaðar. Ég rek sjálfur þetta fyrirtæki; Valorku ehf. Það hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar; hefur notið stuðnings Tækniþróunarsjóðs og væntir stuðnings hins nýja Loftslagssjóðs. Óvíst er hvort þessi starfsemi geti áfram þrifist á Suðurnesjum eftir að lokað var frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú; eina frumkvöðlasetrinu á svæðinu.

Nánar um einstaka liði áætlanadraganna, og hvernig þessi atriði gætu fallið að þeim:

a) Í SVÓT-greiningu á bls 10; kaflanum um tækifæri, þarf að bæta við punkti: "aukin áhersla á hugvit og nýsköpun". Athugið að þau hugtök falla ekki undir "skapandi greinar" samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum.

b) Framangreind atriði (A og B) falla mjög vel að þeim heimsmarkmiðum SÞ sem áætluninni er ætlað að styðja. T.d. áherslu 7 um sjálfbæra orku; áh 9 um nýsköpun og uppbyggingu; áh 11 um sjálfbærar borgir og samfélög og áherslu 13 um aðgerðir í loftslagsmálum.

c) Í kaflann um Atvinnu og nýsköpun (bls 13), í upptalningu undir liðnum "gera meira", þarf að bæta við þessu atriði: "koma upp frumkvöðlasetri" (eða endurreisa það, en frumkvöðlasetrið Eldey á Ásbrú var lagt niður á sl ári og allir frumkvöðlar reknir þaðan út án möguleika á öðrum lausnum. Engin mótmæli heyrðust frá sveitarstjórnum). Einnig þarf að bæta við þessu atriði: "stuðla að þróun sjávarorkutækni".

d) Á bls 15 er kaflinn "Helstu áherslur", með undirkaflanum "við viljum". Þar þarf að bæta við liðnum: "efla nýsköpun og nýta hugvit og framtak". Undir liðnum sjálfbærni (bls 17) er rætt um að auka þurfi sjálfbæra nýtingu orku og þar er nefnd sjávarorka (sem er mun sjálfbærari en jarðhitanýting). Gott mál, en nauðsynlegt er að áhersla á sjávarorku sjáist víðar í plagginu. Undir liðnum "samvinna sveitarfélaga" (bls 17) er rætt um að koma á fót stafrænni smiðju. Þetta er alls ekki nóg; mikilvægt er að koma upp (endurreisa) starfsaðstöðu fyrir frumkvöðla með verkefni (líkt og Eldey var), en það þarf að sjálfsögðu að gerast í samstarfi við ríkið og vera borið uppi sameiginlega af rík, sveitarfélögum og frumkvöðlunum sjálfum (með húsaleigu). Því verði bætt við lið; "koma á fót vinnuaðstöðu fyrir starfandi frumkvöðla".

e) Varðandi tengsl við forgangsmarkmið sitjandi ríkisstjórnar (bls 20). Framangreind markmið, sem ég legg hér til, hafa skýra tilvísun í markmið þessarar ríkisstjórnar. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna segir m.a.: "Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu og velferðar". Ennfremur: "Ríkisstjórnin mun stuðla að því að skilyrði hér á landi fyrir frumkvöðla og sptotafyrirtæki verði framúrskarandi".

f) Varðandi umhverfismál. Bæta þarf inn í kaflann "Byrja á" á bls 27 eftirfarandi klausu áhersluatriði: "styðja þróun tækni til nýtingar sjávarorku".

Legg ég til að starfshópur sóknaráætlunarinnar íhugi vandlega þessar tillögur. Ég er reiðubúinn að ræða þetta frekar við hópinn ef eftir er óskað.

Valdimar Össurarson, framkvstjóri Valorku og formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna