Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 18.12.2019–20.1.2020

2

Í vinnslu

  • 21.1.2020–1.2.2022

3

Samráði lokið

  • 2.2.2022

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-317/2019

Birt: 18.12.2019

Fjöldi umsagna: 72

Drög að frumvarpi til laga

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfismál

Drög að frumvarpi til laga um Hálendisþjóðgarð

Niðurstöður

Frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð var lagt fram á Alþingi 30. nóvember 2020 (mál nr. 369) en náði ekki fram að ganga.

Málsefni

Með frumvarpinu er lagt til að stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendinu í samræmi við sáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis frá 30. nóvember 2017.

Nánari upplýsingar

Frumvarp um Hálendisþjóðgarð tekur til stofnunar þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, á landsvæði sem er í sameign þjóðarinnar; þjóðlendum og friðlýstum svæðum innan miðhálendisins. Það er í samræmi við tillögur nefndar fulltrúa allra þingflokka og stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, sem vann að undirbúningi stofnunar þjóðgarðsins.

Á miðhálendinu eru ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu. Miklar andstæður í náttúrufari er þar að finna; svarta sanda, jökulbreiður, fágætar gróðurvinjar og fjölda sérstæðra jarðmyndana sem finnast hvergi annars staðar í heiminum á einu og sama svæðinu.

Rannsóknir hafa sýnt fram á ótvíræð jákvæð efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða, bæði á þjóðarbúið og nærumhverfi svæðanna. Stofnun þjóðgarðs er þannig talin hafa jákvæð áhrif á byggðaþróun á þeim svæðum sem þjóðgarðurinn tekur til og geta skapað atvinnutækifæri, bæði heima í héraði og á landsvísu.

Á miðhálendinu má nú þegar finna stór svæði sem njóta verndar. Má þar nefna Vatnajökulsþjóðgarð, Þjórsárver, Landmannalaugar og Hveravelli. Með stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands er gert ráð fyrir að stjórnun og stefna fyrir svæðið verði samræmd með markvissum og heildstæðum hætti með ríkri aðkomu nærliggjandi sveitarfélaga.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á að stjórnun Hálendisþjóðgarðs sé bæði hjá ríki og viðkomandi sveitarfélögum. Gert er ráð fyrir að sérstök stjórn, sem í sitji ellefu stjórnarmenn, fari með stjórn þjóðgarðsins og að hún verði að meirihluta skipuð fulltrúum sveitarfélaga, auk félagasamtaka og hagsmunaaðila. Þá verði þjóðgarðinum skipt upp í sex rekstrarsvæði og yfir hverju þeirra sérstakt umdæmisráð, skipað fimm fulltrúum sveitarfélaga, auk fulltrúum frá útivistarsamtökum, umhverfisverndarsamtökum, Bændasamtökum Íslands og ferðaþjónustuaðilum.

Gert er ráð fyrir að Hálendisþjóðgarður verði sjálfstæð eining innan nýrrar stofnunar, Þjóðgarðastofnunar, sbr. drög að frumvarpi um Þjóðgarðastofnun sem einnig er til kynningar í samráðsgátt.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (7)

Umsjónaraðili

Skrifstofa landgæða

postur@uar.is