Samráð fyrirhugað 06.01.2020—27.01.2020
Til umsagnar 06.01.2020—27.01.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 27.01.2020
Niðurstöður birtar

Áform um breytingu á lögum nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007

Mál nr. 321/2019 Birt: 06.01.2020 Síðast uppfært: 06.01.2020
  • Forsætisráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Almanna- og réttaröryggi

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (06.01.2020–27.01.2020). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Áformað er að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007 (lokauppgjör).

Áformað er að leggja til breytingar á lögum nr. 47/2010 sem geri kleift að taka á málum fatlaðra barna sem vistuð voru á stofnunum sem ekki hafa þegar sætt könnun vistheimilanefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007. Þannig sé lokið samfélagslegu uppgjöri vegna vistunar barna á stofnunum á vegum hins opinbera á árum áður og er jafnframt áformað að leggja til að felld verði brott lög nr. 26/2007, um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

Í gildandi lögum er skilyrði þess að unnt sé að leggja fram kröfu um sanngirnisbætur að fyrir liggi skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007 (vistheimilanefndar) eða önnur skýrsla sem ráðherra hefur heimilað að lögð verði til grundvallar kröfu um sanngirnisbætur, að áður fenginni umsögn vistheimilanefndar. Ekki er talin ástæða til að leggja í jafn ítarlegar og tímafrekar úttektir á þeim stofnunum og heimilum sem út af standa og í fyrri málum. Litið er svo á að nægjanleg vitneskja sé fyrir hendi um tíðaranda, viðhorf, uppbyggingu og starfsemi stofnana og því sem fór úrskeiðis eða betur mátti fara. Með skýrslum vistheimilanefndar hafi farið fram ákveðið uppgjör við fortíðina og skapast grundvöllur til að taka með aðgengilegri og einfaldari hætti en áður afstöðu til erinda frá þeim sem voru vistuð á barnsaldri á stofnunum fyrir fatlaða einstaklinga og telja sig hafa orðið fyrir illri meðferð og ofbeldi í þeirri vistun.

Stefnt er að því að ljúka megi samfélagslegu uppgjöri vegna þeirra stofnana þar sem fötluð börn voru vistuð á árum áður með aðgengilegri og einfaldari hætti en gert hefur verið, sem gæti orðið til verulegra hagsbóta fyrir þessa einstaklinga þar sem unnt yrði að skoða og afgreiða mál þeirra á mun skemmri tíma en til þessa.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Margrét Esther Erludóttir - 10.01.2020

Kveikur

Þetta er bara stórt sár

Margrét Esther Erludóttir er ein þeirra sem sætti ótrúlegri vanrækslu og illri meðferð á ýmsum fósturheimilum og stofnunum í æsku, en á ekki rétt á sanngirnisbótum, því hún fellur utan ramma laganna.

Play Video

Lára Ómarsdóttir

lara.omarsdottir@ruv.is

Stefán Aðalsteinn Drengsson

stefan.adalsteinn.drengsson@ruv.is

Árið 2007 var sett á laggirnar vistheimilanefnd til að skoða aðbúnað og umönnun barna sem vistuð voru á heimilum og stofnunum á vegum ríkisins. Lög um sanngirnisbætur voru sett og ellefu heimili skoðuð.

Margrét Esther Erludóttir á göngu (Mynd: Freyr Arnarson)

Mjög fljótlega eftir að þessi mál komu upp var farið að ræða bótaskyldu ríkisins. Halldór Þormar Halldórsson, umsjónarmaður sanngirnisbóta, segir það þó háð skilyrðum: „Það er heimilt að greiða bætur ef einstaklingur hefur dvalið sem barn á stofnun á vegum hins opinbera, orðið fyrir varanlegu tjóni og vistheimilanefnd hafði kannað þetta heimili og skilað skýrslu um starfsemina,“ segir Halldór.

Í árslok 2016 lauk vistheimilanefnd störfum. Alls voru hátt í þrír milljarðar greiddir út í bætur til 1200 einstaklinga. Fjöldi fólks fékk hins vegar ekki neitt. Fólk sem féll utan skilgreininga laganna. Fólk sem hafði verið vistað á öðrum heimilum en þeim sem nefndin tók til skoðunar. Fullorðið fólk með fötlun. Fólk eins og Ólafur Hafsteinn Einarsson sem hafði verið vistaður á Bitru. Börn sem barnaverndarnefndir höfðu sent á fósturheimili.

Börn eins og Margrét Esther Erludóttir, sem gekk varla í skóla, var hent á milli fósturheimila og stofnana og var vanrækt alla sína æsku.

Býr hjá drykkfelldum föður

Margrét Esther Erludóttir fæddist í Reykjavík og hét móðir hennar Margrét Erla Kristjánsdóttir og faðir hennar Guðbrandur Ingólfsson. Bjuggu þau í Torfufelli 27. Margrét Esther, eða Esther eins og hún er jafnan kölluð, fæddist árið 1971. Hún missti móður sína skömmu fyrir fimm ára afmælið, 1976 og þá hófust afskipti barnaverndar af henni.

„Esther leitar til mín fyrir nokkrum árum,“ segir Gísli Tryggvason, lögmaður Estherar. Hann segir að Esther hafi sagt sér að hún hefði ekki fengið neinar sanngirnisbætur þrátt fyrir að hafa reynt það árum saman, hún lendi alltaf á vegg; „og alveg sama hvað hún reynir og síðan hvað við reynum þegar ég er farinn að aðstoða hana að þá fellur hún alltaf á milli skips og bryggju,“ segir Gísli.

Margrét Esther í æsku (Mynd úr einkasafni)

Esther segir að faðir hennar hafi aldrei átt að vera með börn. Hann hafi verið alkóhólisti og lagt hendur á móður hennar og síðar hana og eldri bróður hennar, sem bjó á sama heimili þegar móðir þeirra lést.

Esther var til skoðunar á Landspítala, þegar hún var fimm eða sex ára, að því er gögnin sem Kveikur hefur undir höndum sýna. Í skjölum frá spítalanum segir að Esther sé „rótlaus, vanrækt eða organísk.“ Yfirmaður barnageðdeildar telur hana þó ekki þroskaskerta en lagt er til að hún fái dagvist á vistunarheimilinu að Dalbraut og verði undir eftirliti.

Nokkur tími líður áður en af því verður, aðallega vegna þess að afar erfiðlega gengur að ná í föður hennar og gera áætlanir um framhaldið.

Þegar Esther byrjaði í Fellaskóla hafði skólasálfræðingur afskipti af henni. Hún þótti óvirk og löt og átti erfitt með að mynda tengsl að því er fram kemur í gögnum skólans.

„Nógur flækingur verið á stelpunni“

Esther segir að fljótlega eftir að hún hóf skólagöngu hafi barnavernd verið ljóst að eitthvað mikið væri athugavert við heimili hennar. Barnaverndarnefnd réð ráðskonu til að sinna börnunum en þær áttu að lokum eftir að skipta tugum, konurnar sem ýmist störfuðu á heimili Estherar eða voru í sambúð með föður hennar.

„Það voru 35 konur, í heildina og þær voru bara á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur,“ segir Esther. „Það er það sem að særði mig eiginlega mest að þær vildu aldrei tengjast við mig. Það var ekkert svona ást og umhyggja eða neitt þannig,“ bætir hún við.

Þótt ekki sé nákvæmlega haldið utan um fjölda þeirra kvenna sem sinntu Esther í æsku þá er ýmislegt sem styður frásögn hennar. Þar segir til dæmis:

„Ráðskona yfirgefur heimilið og börnin lenda á flækingi“

„Sambýliskona yfirgefur heimilið og börnin lenda í reiðileysi“

„Umsjón hennar hefur meðal annars verið í höndum hinna ýmsu ráðskvenna og sambýliskvenna.“

„Eins og sjá má eru heimilisaðstæður hjá Ester ekki upp á marga fiska og nógur flækingur verið á stelpunni.“

Í eitt sinn, þegar faðir hennar vann við Kröflu, gætti nágrannakona hennar á daginn og frænka hennar á kvöldin og næturnar.

Bjó á minnst fimm heimilum á fjögurra ára tímabili

Átta ára, eða 1979 byrjar Esther í viðtalsmeðferð á Dalbraut og var hún þar í dagvist. Í september sama ár eru Esther og eldri bróðir hennar send í fóstur í fyrsta sinn, á bæ í Önundarfirði, þar til faðir þeirra sótti þau.

Esther á heimili sínu (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

„Þar var ég sett sem sagt á Flateyri í skóla og það gekk bara rosa rosa vel, ég vildi aldrei fara heim sko, en hann ákvað að stela okkur án þess að láta vita,“ segir Esther Eftir jólafríið voru þau ekki send aftur vestur heldur var Esther sett aftur inn á Dalbraut. Esther telur að þetta hafi faðir þeirra gert svo hann myndi ekki tapa þeim bótum sem hann fékk með börnunum.

Á þessum árum, frá því Ester er átta ára og þar til hún er 12 ára einkennist líf hennar af miklum þvælingi.

· Hún er í dagvist á Dalbraut 1979.

· Hún fer í fóstur í Önundarfjörð um haustið.

· Hún býr hjá föður sínum 1980.

· Hún fer aftur í dagvist á Dalbraut sumarið 1981.

· Hún fer á sveitaheimili á Snæfellsnesi sumarið 1981.

· Hún er svo send á meðferðarheimilið á Kleifarvegi 15 um haustið.

· Þar er hún fram á vor 1982.

· Um sumarið fer hún aftur í vist á Snæfellsnes.

· Haustið 1982 er hún vistuð á meðferðarheimilinu á Kleifarvegi og

er þar fram á vor.

· Sumarið 1983 er Esther vistuð í sveit í Köldukinn í Holtum.

Á þessu fjögurra ára tímabili býr Esther sem sagt á minnst fimm heimilum eða stofnunum og á sum þeirra er hún send oftar en einu sinni. „Þetta var bara ógeðslegt, við vorum bara eins og rúllandi bolti,“ segir hún.

Á róluvelli (Mynd: Freyr Arnarson)

Hún á þó nokkrar hlýjar minningar úr æsku, sérstaklega frá því hún var í sveit á Snæfellsnesi. „Það var æðislegt og fólkið var rosalega gott,“ segir hún. „Ég hef aldrei fundið fyrir neinni ást eins og þar.“

Þegar Esther nálgast unglingsárin verður barnaverndaryfirvöldum ljóst að finna þurfi varanlegt heimili fyrir hana. Í skýrslu forstöðumanns meðferðarheimilisins að Kleifarvegi 15, hvar Esther hafði verið vistuð tvo vetur segir;

„Allt líf Estherar hefur verið í allt of lausum skorðum, samhengislaust - (fyrir utan 2ja ára dvöl á meðferðarheimilinu) - og öll skipulagning til bráðabirgða.“

„Allt þetta óöryggi hefur sett djúp spor og persónuleikabresti í lítinn bóg.“

„Eina raunhæfa lausnin sem við sjáum fyrir stúlkuna er að útvega henni varanlegt fósturheimili, allar aðrar ráðstafanir virðast vera bráðabirgða.“

Á þetta féllst faðir Estherar og afsalaði sér forræði yfr stelpunni til barnaverndarnefndar sem átti að finna henni varanlegt heimili. Það er þá sem versta dvöl Estherar hefst, á sveitabæ norður í landi. Og það er meðal annars vegna þeirrar dvalar sem Esther telur sig eiga rétt á sanngirnisbótum.

„Og þar nauðgaði hann mér“

„Ég var lamin og barin með naglaspýtum, hestasvipum og ég var hengd upp á sperru og þegar var komið inn í mat þá var hann með svipuna bara við hliðiná,“ rifjar Esther upp. „Þau áttu þrjú börn sem voru þarna fyrir, við vorum sjö krakkarnir og ég þurfti alltaf að sjá á eftir skólabílnum. Ég fékk aldrei að fara í skóla. Ég átti bara að fá heimakennslu sem var mjög lítil, þannig að ég var bara þarna alltaf heima, eða þarna á staðnum.“

Heimilislífið einkenndist af daglegri drykkju og einhverju sinni var hún hengd með viskastykki þar til hún missti meðvitund.

Bóndinn nauðgaði henni líka. „Þetta var um kvöld og þau voru búin að vera að drekka og þau voru þarna með partý inni í stofunni,“ segir Esther. Hún fór fram á gang til að fá sér ískalt vatn að drekka; „Þá kemur Ásbjörn gamli alveg brjálaður og hérna þá fór hann með mig inn á kontór sem hann kallaði kontór og þar nauðgaði hann mér.“

Bóndinn á næsta bæ, sem var gestkomandi á bænum, kom Esther til bjargar.

„Þá var hann bara að klára að nauðga mér,“ heldur Esther áfram. „En hann [bóndinn á næsta bæ - innsk. blaðamanns], hann tók bara í hann og hann var brjálaður og henti honum fram á gang og hann bara þú veist, þú gerir þetta aldrei við börn.“ Þá var Esther 13 ára. Ekki var hringt á lögreglu eða annað aðhafst. „ Ég bara lokaði. Ég var bara lokuð,“ segir hún.

Kveikur hafði samband við bóndann sem kom Esther til bjargar sem staðfesti frásögn hennar í meginatriðum.

Esther blaðar í pappírum (Mynd: Freyr Arnarson)

Í gögnum Estherar segir að hún hafi talað við sjálfa sig á þessum tíma, matast með höndunum, ekki horft fram fyrir sig og gengið á veggi svo dæmi sé tekið.

„Hvaða barn myndi virkilega geta gengið á veggi nema það að barnið er búið að ganga í gegnum alveg heilmikið?“ spyr Esther. „Ég meina, vera þarna og hugsa út í það að þetta fólk mátti gera þetta, ég meina það voru fleiri börn þarna. Við vorum sjö. Og einn besti vinur minn, sem að var þarna, hann var tekinn og allsnakinn og í svona stálbala og í kalt vatn og svo var hann bundinn og hérna og hann var þar í tæpan sólarhring úti og þetta var bara þetta var ógeðslegt.“

Esther var í tvö ár í vist á þessum bæ.

„Það eina sem þau vildu það var að fá eins mikið út úr þessu og hægt var,“ segir Esther. „Þau fengu sjöfalt meðlag með mér, sem er dálítið mikið og ásamt aukastyrkjum.“ Esther segir að aldrei hafi verið rannsakað hvað hafi átt sér stað þarna.

Fékk litla sem enga menntun

Þegar Esther kom heim til föður síns vorið 1986 til að fermast, merkti hann breytingu á henni og neitaði að senda hana aftur norður. Í einni skýrslunni segir:

„Að sögn hans var þessi dvöl óheppileg fyrir Ester, hann telur fólkið á heimilinu hafi verið vont við hana og einnig hafi verið þar mikil drykkja. Segir faðir, að Ester hafi heldur breyst í framkomu til hins verra eftir sveitadvölina.“

Esther fór aftur á meðferðarheimilið við Kleifarveg en var síðan send í vistun að Víðihlíð 9 og 11 sem Styrktarfélag vangefinna rak. Hún gekk í Öskjuhlíðarskóla enda var Esther á þessum tíma talin þroskaskert og tornæm. Síðar var sótt um vist fyrir hana á sambýlinu við Njörvasund en þangað flutti Esther 1989, þá 18 ára gömul.

„Þegar að ég var í Njörvasundi,“ segir Esther „það var ekki bara farið illa með mig“.

Esther segir að forstöðumaðurinn á heimilinu hafi beitt hana miklu ofbeldi. Fram kemur í gögnum Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar að í eitt skiptið hafi „séð töluvert á henni eftir hann.“

„Hann tók mig og sparkaði mér niður 15 tröppur,“ segir hún.

Í greinargerð sem forstöðumaðurinn sendi félagsmálayfirvöldum vegna málsins vísaði hann ásökunum Estherar á bug.

Esther bjó í Njörvasundi þar til hún varð tvítug. Þar með lauk afskiptum barnaverndar af henni.

Esther á göngu (Mynd: Freyr Arnarson)

Þá stóð Esther uppi alein og óstudd. Hún hafði verið vanrækt allt frá frumbernsku og fram á fullorðinsár. Alla æskuna hafði hún verið á flækingi milli misgóðra fósturheimila og náði aldrei að mynda tengsl við neinn. Og þegar hún gekk tvítug út af sambýlinu í Njörvasundi, árið 1991, hafði hún litla sem enga grunnmenntun fengið.

„Ég held ég hafi bara verið í fjögur skipti í fyrsta bekk, ég hef verið tvisvar í öðrum bekk og svo þarna í Laugarnesskólanum. Ég held ég hafi verið í tvö ár eða eitthvað svo var ég látin þarna niður í það sem heitir Klettaskóli í dag að faðir minn lét mig þangað í eitt ár,“ segir Esther. „Þá var ég orðin 17.“

Gísli segir að öll uppvaxtarár Estherar beri hún líka þess merki merki að fá að hafa ekki fengið menntun og tannhirðu og ýmislegt sem að skorti á á öllum þessum stöðum. „Fólkið sem að sinnti henni því miður, var ýmist ekki hæft til þess eða sinnti ekki skyldum sínum nægilega vel teljum við.“

Segir Gísli að öll æska Estherar og langt fram á fullorðinsár sé mörkuð af þessu að hún sé látin fara á milli stofnana og heimila og fær aldrei fastan samastað. „Verstu tilvikin eru nú sennilega í Njörvasundi annars vegar þegar hún er að nálgast tvítugt og á Auðkúlu l þar sem hún verður fyrir alvarlegu ofbeldi bæði andlegu, líkamlegu og kynferðislegu,“ segir hann og heldur áfram: „þar erum við hreinlega bæði með skýrslur nokkrum árum seinna og vitnisburð manns sem man mjög vel eftir þessu tilviki.“

Kemur alls staðar að lokuðum dyrum

Árum saman hefur Esther reynt að leita réttar síns. Hún hefur nokkrum sinnum sótt um sanngirnisbætur, hún hefur nokkrum sinnum reynt að fá gjafsókn, svo hún geti stefnt ríki og borg og hún hefur kvartað til Umboðsmanns Alþingis. Hún hefur alls staðar komið að lokuðum dyrum, hún fellur bara ekki innan ramma laganna.

„Ég vildi óska þess að stjórnvöld myndu taka þetta á sína ábyrgð,“ segir Esther og bætir við: „Ég er bara á sparkvelli fullorðinna öll mín ár.“

„Það er svo ósanngjarnt að einn einstaklingur lendi svona á milli stafs og bryggju og fái ekki bætur þó að augljóst sé af gögnum og vitnisburði sem liggur fyrir að hún hefur orðið fyrir miklu óréttlæti,“ segir Gísli. Hann segir einnig að það sé sambærilegt við þau tilvik sem að vistheimilanefndin hefur fjallað um.

Halldór Þormar Halldórsson, umsjónarmaður sanngirnisbóta, segir að það sé auðvitað alltaf dálítið flókið þegar um er að ræða heimili. „Vegna þess að það til dæmis kom fram í áliti Umboðsmanns Alþingis að það sé í rauninni ekki hægt að líta á þetta sem stofnun í þeim skilningi sem reynir á í lögunum.“

Halldór Þormar Halldórsson, umsjónarmaður sanngirnisbóta (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Hann segir að heimilin hafi verið ótrúlega mörg og sum þeirra hafi ekki starfað á vegum hins opinbera; „heldur var oft um að ræða einhvers konar úrræði þar sem var fósturvistun,“ segir Halldór.

Aðspurður hvort það sé ekki svolítið ósanngjarnt að einstaklingar sem voru vistaðir einhvers staðar annars staðar en á þessum stofnunum sem Vistheimilanefnd skoðaði, fái enga réttarbót eða enga viðurkenningu á því að það hafi verið farið illa með það, svarar hann: „Jú, að sjálfsögðu er það mjög ósanngjarnt.“ Hann segir að þegar ráðist sé í svona framkvæmd eins og að greiða sanngirnisbætur sé það gríðarlega stórt verkefni, tímafrekt og kosti mikla vinnu. „En þá er auðvitað alltaf hætta á að einhverjir falli á milli,“ segir hann.

Halldór segir að lögin hafi ekki heldur tekið til heimila eins og þess í Njörvasundi, það er heimila sem vistuðu fullorðið fólk með fötlun.

„Það ræðst af því í rauninni að lög um vistheimilanefnd og síðan lög um sanngirnisbætur eru í rauninni njörvuð niður við einstaklinga sem dvöldu í æsku, það er að segja á barnsaldri, á heimilum og stofnunum,“ segir Halldór Þormar. „Þess vegna var aldrei hægt að kanna þessa starfsemi og það verður ekki gert nema ráðast í einhverja heildstæða könnun á högum fullorðinna fatlaðra.“

„Hún fellur á milli kerfa, má segja“

Esther sótti um sanngirnisbætur fyrir hvert og eitt heimili sem hún var vistuð á. Halldór þekkir mál hennar vel.

Úr skjölum Estherar (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Ég kannaði mál Estherar mjög ítarlega, einfaldlega vegna þess að það er dálítið sérstakt,“ segir Halldór. Í sjálfu hafi aldrei verið hægt að taka efnislega aðstöðu til málsns, sökum þess að Esther uppfylli ekki formskilyrðin, þar sem að heimilin sem hún dvaldi á hafi ekki verið könnuð. „Lýsing hennar á því sem hún varð fyrir er í rauninni mjög áþekk því sem margir urðu fyrir og engin ástæða annað en að taka það trúanlegt,“ segir hann og bætir við: „Hún fellur á milli kerfa má segja, það er hægt að lýsa því þannig.“

Gísli segist vona að nýr dómsmálaráðherra taki þetta upp og líti á skýrslu sem gerð var um aðstæður Estherar á Auðkúlu l sem ígildi skýrslu Vistheimilanefndar. „Þá byggjum við það á lagaákvæði sem var sett inn í lögin 2010 út frá Landakotsmálinu um að heimilt sé að líta á aðrar skýrslur heldur en skýrslur Vistheimilanefndar sem grundvöll sanngirnisbóta,“ segir Gísli.

„Stjórnvöld láti hana njóta vafans“

Í umræddri skýrslu er aðstæðum Estherar og því ofbeldi sem hún varð fyrir lýst nokkuð nákvæmlega. Skýrsluhöfundur hefur meðal annars samband við vitni sem segist hafa vitað hversu slæmt ástandið var á bænum en „ekki gert neitt í því.“ Skýrslan var send til vistunarsviðs og óskaði skýrsluhöfundur eftir því að „málsatvik verði könnuð til hins ítrasta.“ Ekki eru til gögn sem sýna að það hafi verið gert.

„Við vonum enn að stjórnvöld láti hana njóta vafans,“ segir Gísli. „Ef það gengur ekki þá verður við því miður að láta reyna á rétt okkar fyrir dómstólum.“

Gísli Tryggvason, lögmaður Estherar (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Gísli segir að ef þau neyðist til að stefna málinu fyrir dóm þá verði ríki og Reykjavíkurborg stefnt fyrir að vanrækja skyldur sínar, byggt á mannréttindasáttmála Evrópu og þágildandi barnaverndarlögum.

Telur Gísli að megin sökin sé hjá ríki og borg fyrir að hafa ekki fundið henni varanlegt heimili. „Við teljum að bæði umsögn föðurins og umsögn sálfræðingsins, hafi átt að verða til þess að henni yrði fundið varanlegt heimili,“ segir hann og bætir við: „Það var ekki gert. Það var kannski stærsta vanrækslusyndin af mörgum sem að stjórnvöld hafa gerst sek um í máli Estherar.“

Þegar Halldór Þormar er spurður að því hvað einstaklingar, eins og Esther og fleiri sem voru í hennar stöðu sem börn, geti gert og hvert þeir geti leitað, svarar hann: „Það er auðvitað mjög flókið og það er í raun pólitísk ákvörðun ríkisvaldsins, hvað það gerir í málinu og endaleg ákvörðun alltaf hjá Alþingi. Það er ekki hægt í rauninni að greiða þeim bætur á grundvelli núgildandi laga“ og bætir við: „Það verður að setja nýja löggjöf.“

„Þetta er bara stórt sár“

Allt líf Estherar er markað af æsku hennar og því ofbeldi og rótleysi sem hún bjó við. Hún hefur glímt við hamlandi kvíða og brotna sjálfsmynd sem sálfræðingur, sem gerði sálfræðimat á Esther árið 2016, rekur til langvarandi vanrækslu og ofbeldis. Í niðurstöðu sálfræðimatsins segir:

„Ljóst þykir að erfið lífsreynsla Margrétar hefur haft mikil og víðtæk áhrif á hana, getu hennar til að eiga í samskiptum við annað fólk og takast á við daglegt líf. Hún er einangruð, á erfitt með að treysta fólki og lifir í stöðugri hræðslu.“

„Það liggja þó einhver gögn um að hún hafi orðið fyrir áfallastreituröskun og ýmsu og aldrei beðið þess bætur að hafa svona þurft að hendast á milli staða,“ segir Gísli. „Aldrei fengið þetta öryggi sem að maður fær svona almennt á heimili.“ Hann segir að það séu til fjölmörg gögn um vanræksluna sem Esther varð fyrir. „Ég vona að stjórnvöld fallist á að greiða henni sanngirnisbætur þannig að það þurfi ekki að takast á um þetta mál fyrir dómstólum,“ segir Gísli.

Esther lifir ágætislífi í dag. Hún á þrjú börn og eitt barnabarn og býr með eiginmanni sínum í Kópavogi. Hún er öryrki en vinnur sjálboðastarf hjá Hjálpræðishernum þrjá daga í viku, þar sem hún nýtur sín vel. Þá stundar hún línudans af miklu kappi. En brotin æska hennar hefur haldið aftur henni alla tíð.

Esther lítil (Mynd úr einkasafni)

„Þetta er bara reiði þetta er bara sársauki,“ segir Esther. „Sársaukinn er allra mestur, þú veist, andlega, líkamlega, sálarlega.“

Aðspurð hvað þurfi til að ná sátt við fortíðina svarar hún: „Ég vil fá uppreisn æru. Og börnin sem komu á eftir mér, ég vil að þau fái líka uppreisn æru, meina þetta er bara stórt sár.“

Vertu með

Fáðu regluleg skilaboð frá okkur um þau mál sem við höfum fjallað um.

netfang@vefur.is

Senda

Kveikur © 2020 Efstaleiti 1, 150 Reykjavík 515-3020 kveikur@ruv.is

Afrita slóð á umsögn

#2 Hlynur Már Vilhjálmsson - 25.01.2020

Félag fósturbarna óskar eftir því að bætt verði við vinnslu þessa frumvarps, um breytingu á lögum um skilyrði sanngirnisbóta, málefni fósturbarna almennt, en þau mál standa í óásættanlegri stöðu að mati okkar.

Félag fósturbarna krefst fyrir hönd félaga sinna að víkkaður verði skilningurinn á skilyrðum sanngirnisbóta fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.

Dæmi eru um það að börn sem hafa verið á fósturheimilum hafi t.d. ekki rétt á sanngirnisbótum ef Barnaverndir sveitarfélaga ákveði að segja upp fósturforeldrum og taka fósturbörnin af þeim til þess að gera rekstrarlegar breytingar á fósturheimilum. Slíkt skaðar hagsmuni fósturbarna til langtíma og er mikilvægt að slík vinnubrögð séu leiðrétt aftur í tímann. Fleiri dæmi snúa svo m.a. að því að uppkomin fósturbörn falli ekki innan ramma laganna um sanngirnisbætur þrátt fyrir sönnunargögn um langtímaskaða sem þau hafa orðið fyrir. Fjöldi fósturbarna fellur á milli kerfa þegar kemur að þessu og er réttlaust í lögunum. Við viljum að lögin standi einnig með þeim uppkomnu og núverandi fósturbörnum sem séu eða voru vistuð á heimilum sem teljast ekki sem stofnanir í lagalegum skilningi og eru eða voru ekki rekin á vegum hins opinbera (t.d. fósturvistun).

Formskilyrðin vegna sanngirnisbóta mega ekki undanskilja fósturbörn sem eru eða voru á heimilum sem hafa ekki verið könnuð og mætti þá kanna þau sem fyrst ef það hjálpar en réttindi einstaklinganna verða án undantekninga að vera varin ólíkt núverandi stöðu og líka aftur í tímann. Uppkomin fósturbörn sem hafa orðið fyrir slæmri reynslu í fóstri og leitast eftir sanngirnisbótum eru fyrst og fremst að leitast eftir staðfestingu yfirvalda á ábyrgð sinni gagnvart fósturbörnum. Ábyrgðin og sársaukinn getur hreinlega ekki legið alfarið hjá einstaklingum sem hafa þolað erfiða reynslu á fósturheimilum sem börn.

Opna þarf dyrnar fyrir þessum hópi fólks en oft kemur það að dyrunum lokuðum í kerfinu. Það er óásættanlegt. Yfirvaldið hefur lagalegar og mannréttindalegar skyldur til þess að verja fósturbörn, uppkomin og núverandi. Við óskum eftir samtali og samvinnu við ríkið í tengslum við þessi lög.

Fyrir hönd Félags fósturbarna,

Hlynur Már Vilhjálmsson.

Afrita slóð á umsögn

#3 Þroskahjálp,landssamtök - 27.01.2020

Umsögn Landssamtakanna þroskahjálpar um áform að breytingu á lögum nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa síðastliðin 12 ár barist fyrir því að skoðað verði hvort ekki væri ástæða til að greiða öllum börnum sem dvöldust á stofunum fyrir fatlað fólk sanngirnisbætur vegna mögulegra skaðlegra afleiðinga fyrir þau af dvöl þeirra þar.

Samtökin styðja því heilshugar þær breytingar sem hér eru lagðar til, þ.e.a.s. að ákvörðun sanngirnisbóta til þeirra sem voru vistaðir sem börn á heimilum fyrir fatlað fólk verði ekki grundvölluð á sérstökum úttektum á hverjum og einum stað, heldur verð byggt á niðurstöðu nefndar sem kannaði vistun barna á Kópavogshæli og lagði til að fatlaðir einstaklingar sem dvöldust sem börn á öðrum stofnunum fengju sambærilegan rétt hvað varðar sanngirnisbætur og þeir sem dvöldust sem börn á Kópavogshæli.

Eðlilegt sýnist vera að við ákvörðun bótafjárhæðar verði litið til hversu langan tíma viðkomandi dvaldist á stofnuninni sem barn.

Samtökin telja að með því að fella brott lög nr. 26/2007, um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist-og meðferðaheimila fyrir börn, verði tryggt að þeir fötluðu einstaklingar sem dvöldust sem börn á stofnunum sem enn eru í rekstri fái sambærilegan rétt til sanngirnisbóta og þeir sem dvöldust sem börn á stöðum sem ekki eru lengur í rekstri, enda er augljóst að önnur niðurstaða stenst alls ekki m.t.t. jafnræðisreglna laga og sjónarmiða um sanngirni.

Landsamtöki Þroskahjálp leggja mikla áherslu á að afgreiðslu þessara verði flýtt eins og nokkur kostur er og að sanngirnisbætur verði að fullu greiddar til þeirra sem eiga rétt til þeirra í einu lagi á árinu 2021 en greiðslur dreifist ekki yfir lengri tími.

Landssamtökin Þroskahjálp áskilja sér rétt til að koma frekari athugasemdum á framfæri á síðari stigum við gerð frumvarpsins og við þinglega meðferð þess.

Einnig áskilja samtökin sér rétt að gera frekari kröfur fyrir hönd fatlaðra einstaklinga sem fyrirhugað frumvarp nær ekki til.

Afrita slóð á umsögn

#4 Barnaverndarstofa - 30.01.2020

Efni: Umsögn Barnaverndarstofu varðandi áform um breytingu á lögum um sanngirnisbætur

Í upphafi telur Barnaverndarstofa rétt að taka fram að stofan fagnar þeirri stefnu stjórnvalda sem birtist í framangreindum áformum að bregðast eigi við sterkum vísbendingum um slæman aðbúnað viðkvæmra hópa barna á stofnunum sem hið opinbera bar ábyrgð á með rannsóknum og greiðslu sanngirnisbóta.

Barnaverndarstofa fagnar áformum um að skoða þær stofnanir sem fjallað er um. Á hinn bóginn telur stofan nauðsynlegt með hliðsjón af jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga að vekja athygli stjórnvalda á þeim hópi fólks sem vistaður var af, hálfu stjórnvalda, þ.e.a.s. barnaverndaryfirvalda, á einkaheimilum þegar viðkomandi aðilar voru börn að aldri. Að mati stofunnar er mikilvægt að umræddur hópur fái sömu tækifæri og annað fólk sem vistað var á stofnunum, annað hvort sem börn eða vegna fötlunar sinnar, til þess að tjá sig um dvöl sína á fóstur- eða vistheimilum sem þeim var ráðstafað á. Þar sem liggur fyrir að stór fjöldi barna var ráðstafað í fóstur á einkaheimili er að mati stofunnar mikilvægt að sá hópur fái að jafnframt að gera upp vistun sína þar.

Virðingarfyllst f.h.

Barnaverndarstofu

Guðrún Þorleifsdóttir, lögfræðingur