Drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgáttinni 20. desember 2019 og veittur frestur til 16. janúar 2020 til að skila umsögnum. . Alls bárust sex umsagnir um frumvarpið og gáfu þær ekki tilefni til að gera á því breytingar fyrir framlagningu á Alþingi. Lög nr. 90/2020 tóku gildi 7. júlí 2020.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 20.12.2019–16.01.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 23.04.2021.
Markmið með frumvarpinu er að draga úr áhrifum af notkun plasts á umhverfið og heilsu fólks og styðja við hringrásarhagkerfið og notkun endurnotanlegra vara. Með frumvarpinu er innleidd ný Evróputilskipun um plastvörur.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Með frumvarpinu verður bannað að setja tilteknar, algengar einnota vörur úr plasti á markað.
Meðal vara sem bannað verður að setja á markað eru einnota bómullarpinnar úr plasti, hnífapör, diskar, sogrör, hræripinnar og blöðruprik sem og matarílát, drykkjarílát og bollar úr frauðplasti. Undantekningar eru gerðar ef vörur flokkast sem lækningatæki.
Sömuleiðis er lagt til að óheimilt verði að afhenda endurgjaldslaust einnota bolla og matarílát úr öðru plasti en frauðplasti sem ætluð eru undir drykki og matvæli til neyslu, líkt og algengt er á skyndibitastöðum. Skal gjaldið vera sýnilegt á kassakvittun.
Þá er í frumvarpinu lagt til skilyrðislaust bann við því að setja vörur á markað sem gerðar eru úr plasti sem er niðurbrjótanlegt með oxun eða svokallað oxó-plast. Vörur úr slíku plasti hafa rutt sér til rúms á markaði síðustu ár, einkum vissar tegundir plastpoka, en eðli þess er að sundrast í öragnir sem eru skaðlegar heilsu og umhverfi og er vaxandi vandi á alþjóðavísu.
Í frumvarpinu er kveðið á um sérstaka merkingu sem tilteknar einnota plastvörur eiga að bera um meðhöndlun vörunnar eftir notkun og þau neikvæðu áhrif sem varan hefur berist hún út í umhverfið. Þær vörur sem greinin mun taka til eru ýmsar tíðavörur, blautþurrkur til heimilis– og einkanota, ýmsar tóbaksvörur og bollar fyrir drykkjarvörur.
Einnota drykkjarílát úr plasti sem eru með tappa eða lok úr plasti verður samkvæmt frumvarpinu einungis heimilt að setja á markað ef tappinn eða lokið, er áfastur ílátinu á meðan notkun þess stendur yfir.
Í tilfelli plastvaranna sem frumvarpið tekur til eru fáanlegar á markaði staðgönguvörur sem eru margnota eða innihalda ekki plast og nota má í staðinn.
Meginmarkmið frumvarpsins er að draga úr áhrifum af notkun plasts á umhverfið og heilsu fólks og styðja við notkun endurnotanlegra vara en með því er innleidd ný Evróputilskipun sem er fyrst og fremst beint að ýmsum algengum plastvörum sem finnast helst á ströndum. Tilskipuninni er einnig ætlað að styðja við myndun hringrásarhagkerfis og efla úrgangsforvarnir með því að styðja við notkun sjálfbærra og endurnotanlegra vara, fremur en einnota vara.
Sæll ágæti viðtakandi.
Þetta er gott fyrsta skref en mér finnst að það mætti ganga lengra í að banna ákveðnar plastvörur. Ég sé t.d. engan tilgang í að fyrirtæki eins og Mjólkursamsalan sé með plastdollur undir skyr, jógúrt og fleiri vörur. Mjólkurvinnslan Arna ehf. hefur sett þessar umbúðir í pappa. Eins finnst mér að það mætti banna að selja jólakúlur úr plasti á jólatré því þær eru til úr pappír. Jafnframt ætti að hætta að selja plastjólapappír og annan plastgjafapappír. Hann er illa hæfur til endurvinnslu og vill fara í pappírsgáma þegar honum er hent þar sem hann á ekki heima. Eins mætti banna borða á jólagjöfum og öðrum tækifærisgjöfum séu þeir úr plasti. Hægt er að nota tausnæri. Starfsmenn kirkjugarðanna hafa kvartað sáran yfir plastborðum á leiðisgreinum en þeir eru margar vikur að flokka þá frá lífrænum úrgangi. Það mætti skoða að banna að selja leiðisgreinar með slíku plasti. Þá finnst mér mjög mikilvægt að banna allt örplast í snyrtivörum.
Með virðingu,
Bjarni.
Ef að setja á stefnu þarf að gæta þess að tilgangi hennar sé náð og slíkar stefnur séu almennar og gildi um allar sambærilegar vörur hvort sem það á við innihald eða tegund. Hvetjum við því til þess að stefna sé sett um allar drykkjarumbúðir og þess gætt að ekki myndist óeðlilegt misræmi sem er í andstöðu við stefnuna í úrgangsmálum.
Endurvinnslan hf telur rétt að tryggt sé að ákvæði í þessum lögum sem snúa að áföstum plast tappa eigi við allar umbúðir með lausum plast töppum og bendir í því sambandi á drykkjarumbúðir eins og tetrapack með plast tappa og skvísur með plast tappa. Hvorutveggja einnota drykkjarumbúðir með plast tappa.
Bendir Endurvinnslan hf. á að í þessum lögum eru íþyngjandi ákvæði um að ákveðið hlutfall af innihaldi plastumbúðarinnar sé úr rPET eða endurunnu PET sem er dýrara í innkaupum en vPET (frum PET). Þó að Endurvinnnslan hf. taki fyllilega undir að slíkt sé æskilegt, þá er hér verið að íþyngja einni drykkjarumbúð án þess að slíkar kröfur séu gerðar til annarra umbúða.
Sérstök ákvæði eru um merkingar á plastumbúðum og Endurvinnslan hf. telur eðlilegt að slík ákvæði eigi við fleirri drykkjarumbúðir svo að ekki komi til mismununar. Benda má á að sumar drykkjarumbúðir eru að hluta til úr plasti sem þessi lög virðast ekki eiga við.
Gæta þarf þess að söfnunar- og töluleg markmið fyrir einnota plast drykkjarumbúðir séu raunhæf og ljóst hver tilgangur þeirra eigi að vera til að koma í veg fyrir mismunun. Ef að fækka á einni tegund drykkjarumbúðar má leiða líkur á því að það fjölgi í öðrum tegundum drykkjarumbúða og þá þarf að vera skýrt að þær séu umhverfisvænni og þjóni betur markmiðum laganna.
Endurvinnslan hf. gerir ekki athugasemd við að þessi ákvæði séu sett um plast, einungis að með því að setja slík ákvæði á eina drykkjarumbúð umfram aðrar, þá gæti slíkt leitt til þess að framleiðendur færi sig yfir í aðrar tegundir drykkjarumbúða án þess að fyrir liggi að þær þjóni betur markmiðum laganna. Með þessum ákvæðum felist þannig hugsanlega óeðlileg mismunun.
Í viðhengi má finna umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og SVÞ-Samtaka verslunar og þjónustu.
ViðhengiHjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frv. um br. á hollustuháttalögum.
F.h. sambandsins
Guðjón Bragason
Viðhengi