Samráð fyrirhugað 20.12.2019—10.01.2020
Til umsagnar 20.12.2019—10.01.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 10.01.2020
Niðurstöður birtar 03.06.2020

Drög að frumvarpi til laga um lækningatæki

Mál nr. 327/2019 Birt: 20.12.2019 Síðast uppfært: 03.06.2020
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Lyf og lækningavörur
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Niðurstöður birtar

Ráðherra mælti fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um lækningatæki í mars 2020

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 20.12.2019–10.01.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 03.06.2020.

Málsefni

Heilbrigðisráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um lækningatæki. Umsagnarfrestur er til og með 10. janúar 2020.

Núgildandi lög um lækningatæki eru frá árinu 2001 og hafa ekki tekið miklum breytingum frá þeim tíma þrátt fyrir öra tækniþróun. Frumvarp til nýrra laga um lækningatæki sem hér er til kynningar og samráðs er samið í heilbrigðisráðuneytinu. Markmið frumvarpsins er að tryggja gæði og öryggi lækningatækja með öryggi almennings og sjúklinga að leiðarljósi og tryggja að framleiðsla, viðhald og notkun lækningatækja sé í samræmi við bestu fagþekkingu á hverjum tíma. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tveimur reglugerðum. Annars vegar reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/745 frá 5. apríl 2017 um lækningatæki, um breytingu á tilskipun 2001/83/EB, reglugerð (EB) nr. 178/2002, reglugerð (EB) nr. 1223/2009 og um niðurfellingu á tilskipunum ráðsins 90/385/EBE og 93/42/EBE og hins vegar reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/746 frá 5. apríl 2017 um lækningatæki til sjúkdómsgreiningar í glasi og um niðurfellingu á tilskipun 98/79/EB og ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/227/ESB.

Í reglugerðunum tveimur eru sett aukin skilyrði og kröfur um gæði og öryggi lækningatækja til að auka öryggi notenda lækningatækja í ljósi reynslu og lærdóms frá gildistöku þeirra tilskipana sem reglugerðirnar fella brott. Reglugerðunum er ætlað að samræma löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu og tryggja eftirfylgni við þær reglur sem gilda um lækningatæki. Gildissvið reglnanna er útvíkkað að hluta. Undir reglugerðirnar falla nú einnig annars vegar tæki sem hafa tiltekna eiginleika sem lækningatæki, en eru ekki markaðssett sem slík og hins vegar tæki án ætlaðs læknisfræðilegs tilgangs og eru upptalin í viðauka 16 við reglugerðirnar.

Auknar kröfur eru gerðar til framleiðenda lækningatækja varðandi eftirlit og eftirfylgni með lækningatækjum á markaði. Auknar kröfur eru gerðar til klínískra rannsókna á lækningatækjum, þ.m.t. um gæði gagna og aðgang að gögnum. Þá eru gerðar breytingar á umsóknarferli klínískra rannsókna.

Evrópska gagnabankanum um lækningatæki er gefið meira vægi í reglugerðunum en hann gegnir lykilhlutverki í því að uppfylla markmið þessa frumvarps og reglugerðanna. Tilteknu auðkenniskerfi er komið á fót með reglugerðunum í þeim tilgangi að tryggja rekjanleika lækningatækja frá framleiðendum. Þetta er gert meðal annars til að koma í veg fyrir fölsuð tæki en ekki síður til að tryggja rekjanleika tækja og tryggja að hægt verði að innkalla gölluð tæki hratt og örugglega.

Framleiðanda er skylt að útbúa svokölluð ígræðiskort með ígræðanlegum tækjum. Ígræðiskort eru afhent heilbrigðisstofnun sem bera ábyrgð á að afhenda sjúklingum kortin. Ígræðiskortin innihalda ítarlegar upplýsingar fyrir sjúklinga, svo sem upplýsingar sem sanngreina tæki, viðvaranir, upplýsingar um endingartíma, eftirfylgni o.fl.

Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra setji reglugerð um endurvinnslu og frekari notkun einnota tækja. Til að gæta að öryggi notenda og sjúklinga er jafnframt lagt til í frumvarpinu að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð sem kveður á um að eingöngu heilbrigðisstarfsfólk með ákveðna menntun og reynslu sé heimilt að nota tiltekin lækningatæki.

Þá er lagt til í frumvarpinu að heilbrigðisstofnanir og starfsstöðvar heilbrigðisstarfsmanna haldi rafræna skrá um ígræðanleg lækningatæki sem stofnun eða starfsstöð hefur afhent eða fengið afhent. Lagt er til að ráðherra hafi heimild til að setja reglugerð um nánari útfærslu á þessu. Loks er í frumvarpinu lagt til að eftirlits- og valdheimildir Lyfjastofnunar verði skýrari og þær auknar í samræmi við markmið og tilgang frumvarpsins og reglugerðanna.

Það athugast að um er að ræða drög að frumvarpi og sumir kaflar frumvarpsins eru í vinnslu.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Florealis ehf. - 10.01.2020

Lagt er til að bætt verði inn í 10gr. um auglýsingar eftirfarandi: ”Heimilt er að auglýsa og kynna lækningatæki undir heitinu lækningavara.”

Orðið lækningatæki getur verið villandi fyrir form eins og til dæmis krem, gel, froðu og stíla. Meira lýsandi væri að nota orðið lækningavara. Orðið lækningavara lýsir þessum formum betur, sérstaklega fyrir neytendur en einnig fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Á ensku er hugtakið ”medical devices” og sem dæmi um skandinavískt tungumál þá er hugtakið ”medicintekniska produkter” notað í sænsku. Orðið lækningavara er góð þýðing á þessum hugtökum en til þess að ekki þurfi að breyta orðalagi alls staðar í íslenskum lögum og reglugerðum tengdum lækningatækjum, þá er lagt til að einungis verði breytt orðalaginu í 10.gr. um auglýsingar.

Einnig hefði verið æskilegt ef lengri frestur hefði verið gerður til umsagna við þessum drögum að frumvarpi til laga um lækningatæki.

Afrita slóð á umsögn

#2 Samtök iðnaðarins - 10.01.2020

Meðfylgjandi er sameiginleg umsögn Samtaka iðnaðarins og Samtaka líf- og heilbrigðistæknifyrirtækja um drög að frumvarpi til laga um lækningatæki.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Benedikt Sveinbj. Benediktsson - 10.01.2020

Meðfylgjandi er umsögn SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu um drög að frumvarpi til laga um lækningatæki.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Gunnlaugur Hjörtur Gunnlaugsson - 10.01.2020

Meðfylgjandi er umsögn Icepharma hf. um drög að frumvarpi til laga um lækningatæki

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Embætti landlæknis - 13.01.2020

Viðhengi