Samráð fyrirhugað 20.12.2019—20.01.2020
Til umsagnar 20.12.2019—20.01.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 20.01.2020
Niðurstöður birtar

Frumvarp - breyting á lögum um meðhöndlun úrgangs (EES-innleiðing)

Mál nr. 329/2019 Birt: 20.12.2019 Síðast uppfært: 16.01.2020
  • Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (20.12.2019–20.01.2020). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Með frumvarpinu er ætlunin að innleiða tilskipun (ESB) 2018/850, um breytingu á tilskipun 1999/31/EB um urðun úrgangs, og tilskipun (ESB) 2018/851, um breytingu á tilskipun 2008/98/EB um úrgang. Nauðsynlegt er að samræma lög um meðhöndlun úrgangs efnisákvæðum þessara tilskipana.

Með frumvarpinu eru innleiddar Evróputilskipanir sem ætlað er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis í því skyni að ýta undir bætta endurvinnslu úrgangs og draga úr myndun hans.

Komið er á skyldu til flokkunar og söfnunar fleiri úrgangstegunda en í núgildandi lögum og gert skylt að samræma flokkunarmerkingar á landsvísu. Jafnframt er lagt til að skylt verði að flokka byggingar- og niðurrifsúrgang á upprunastað.

Í frumvarpinu er áréttuð sú skylda að sveitarfélög og fyrirtæki sem safna flokkuðum úrgangi komi honum sannanlega til endurvinnslu. Þá eru lagðar til breytingar sem varða heimildir sveitarfélaga til innheimtu gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs.

Umsögnum um frumvarpsdrögin skal skilað í Samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 16. janúar næstkomandi.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Guðrún Fjóla Guðmundsdóttir - 15.01.2020

Sæl,

Á heildina litið vantar að skilgreina hugtök í samræmi við ESB directive 2008/98 til þess að fyrirbyggja misskilning. Þá vantar sérstaklega skilgreiningar: "jarðgeranlegt" (e. compostable), "lífbrjótanlegt" (e. biodegradable) og "niðurbrjótanlegt" (e. degradable) og nákvæmari skilgreiningar á hugtökum um forgangsröðun meðhöndlun úrgangs: "úrgangsforvarnir" (e. prevention), "undirbúningur fyrir endurnotkun" (e. preparing for Re-Use), "endurvinnsla" (e. recycling), "önnur endurnýting" (e. recovery) og "Förgun" (e. disposal).

Þar að auki þarf að innleiða hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins í lög um meðhöndlun úrgangs.

Sjá nánari umsögn í viðhengi.

Virðingafyllst,

Guðrún Fjóla Guðmundsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Pure North Recycling ehf. - 15.01.2020

Tillaga um breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs (EES-reglur og hringrásarhagkerfið).

Umsögn Pure North Recycling vegna frumvarps.

Það er jákvætt og löngu tímabært að unnið sé að bættri úrgangsstjórnun á Íslandi og stefna í átt að hringrásarhagkerfi. Það er mikilvægt í heildarendurskoðun að lög og reglugerðir taki mið af heildarmyndinni enda snýst hugmyndafræði hringrásarhagkerfis um allt ferlið en ekki hluta.

Söfnun er vel skilgreind í frumvarpinu en engin áhersla er lögð á sjálfa endurvinnsluna og í raun lítið sem ekkert fjallað um endurvinnslu. Endurvinnsla er mikilvægur hlekkur í hringrásarhagkerfinu. Mikilvægt er að gerður sé greinarmunur á endurvinnslu og aðferðum og hvaða umhverfisáhrif ólíkar aðferðir hafa, má þar nefna urðun, brennslu og endurvinnslu. Eins hvort endurvinnsla sé hluti af hringrásarhagkerfi Íslands eða tengist öðrum löndum.

Það er mikilvægt að ekki sé einungis horft til flokkunar og söfnunar heldur einnig hvernig umbúðir eru í notkun. Greinilegt og gott merkingarkerfi er lykilþáttur í flokkun og endurvinnslu. Koma þarf upp flokkunarkerfi á umbúðum þar sem umbúðir eru betur merktar og aðveldara verður að flokka þær og endurvinna. Gera þarf greinarmun um ómerktum og merktum umbúðum m.t.t. flokkunar. Ómerktar umbúðir ættu að hafa hærra úrvinnslugjald en merktar umbúðir þannig að kerfið hvetji til notkunar á merktum umbúðum. Pure North Recycling finnur fyrir aukinni áherslu fyrirtækja á betri merkingar á plastumbúðir fyrir endurvinnslu og hefur með sérþekkingu sinni aðstoðað slíka aðila.

Útflutningur á úrgangi er ekki besta útfærslan á hringrásarhagkerfinu, hann bætir við kolefnislosun þjóðarinnar og færir oft vandamálið til annarra þjóða. Til þess að hringrásarhagkerfið virki sem best þarf kerfið að hvetja til endurvinnslu hér á landi og tryggja að hvatar séu ekki öfugir, sbr. að greiðslur séu hærri ef endurvinnanlegur úrgangur er sendur úr landi í stað þess að vera endurunnin hérlendis. Eins þarf að gæta jafnræðis milli landshluta og má þar sem dæmi nefna að greitt er flutningsjöfnunargjald frá Selfossi til Reykjavíkur en ekki frá Reykjavík á Selfoss.

Það þarf að laga kerfi Úrvinnslusjóðs með tilliti til merkinga á umbúðum og hvata til endurvinnslu hér á landi. Umbuna á þeim fyrirtækjum sem koma sínu plasti til endurvinnslu hér á landi og spara þá um leið heildarkolefnislosun þjóðarinnar. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að takast á við þessi mál. Ísland getur verið til fyrirmyndar í þessum málaflokki og getur orðið fyrsta þjóðin í heimi sem endurvinnur allt plast sem til fellur á landinu.

Pure North Recycling fagnar því að þessi vinna sé í gangi og hvetur jafnframt til þess að horft sé á heildarmyndina og lög og reglugerðir taki mið að því. Við hjá Pure North Recycling erum boðin og búin til frekari samvinnu sé þess er óskað.

Afrita slóð á umsögn

#3 Umhverfisstofnun - 17.01.2020

Hjálögð er umsögn Umhverfisstofnunar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Bláskógabyggð - 20.01.2020

Athugasemdir Bláskógabyggðar við drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs.

Drög að frumvarp um breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs liggja frammi á samráðsgáttinni. Margt er gott sem þar kemur fram, m.a. skylda lögaðila til að flokka sorp, sem Bláskógabyggð hefur reyndar þegar tekið upp í sínar samþykktir um úrgangsmál.

Gerð er athugasemd við það að ekki hafi verið haft samráð við sveitarfélögin við samningu frumvarpsins. Úrgangsmál eru einn umfangsmesti málaflokkur sem sveitarfélögin reka og bera ábyrgð á.

Nauðsynlegt er að hafa samráð við sveitarfélögin varðandi útfærslu á innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs. Sveitarfélögin nota álagningarkerfi í eigu Þjóðskrár fyrir innheimtu fasteignagjalda, þ.m.t. gjalda fyrir hirðu og eyðingu sorps frá íbúðar- og sumarhúsum, og greiða fyrir notkun þess kerfis og aðgang að fasteignaskrá til þessara nota. Samkvæmt 9. gr. frumvarpsdraganna verður sveitarfélögunum ekki áfram heimilað að ákveða gjald fyrir meðhöndlun úrgangs sem fast gjald á hverja fasteignareiningu, sem eins og bent er á í greinargerðinni, mun krefjast nýrra útfærslna við innheimtu. Gerð er athugasemd við að áform af þessu tagi séu sett fram án samráðs við sveitarfélögin og að þeim skuli ætlað að koma á öðru fyrirkomulagi innheimtu á fáum mánuðum. Vísað er í frumvarpsdrögunum til ESB tilskipunar nr. 2018/851, sem ekki hefur verið innleidd í EES-samninginn og hefur því ekki öðlast gildi. Því verður ekki séð að nauðsynlegt sé að vinna málið með þessum hraða og þessum hætti.

Fæst sveitarfélög sjá sjálf um sorphirðu frá heimilum og eru bundin í samningum við sorphirðufyrirtæki til mislangs tíma með ákveðið fyrirkomulag, það að ætla sér td að gera kröfu frá og með gildistöku laganna eða næstu áramótum þar á eftir um að verktakar verði tilbúnir með búnað til að vigta og/eða skrá magn sorps frá hverju húsi, til að byggja innheimtu á, er engan veginn raunhæft.

Í Bláskógabyggð eru um 2.000 sumarhús. Til að koma á þannig kerfi að unnt verði að innheimta sorpeyðingargjald með þeim hætti að uppfyllti áskilnað frumvarpsdraganna myndi þurfa grundvallarbreytingar á þjónustu við þau. Eigendur sumarhúsa í Bláskógabyggð hafa aðgang að þremur söfnunarstöðvum sem eru hver fyrir sig mannaðar í ákveðinn tíma tiltekna daga vikunnar, 6 til 15 klst á viku. Í annan tíma hafa sumarhúsaeigendur aðgang að þeim, ómönnuðum, í gegnum „gönguhlið“ til að geta losað sig við heimilisúrgang. Þetta fyrirkomulag, að hafa rúmt aðgengi að gámasvæðum, kom til í kjölfar kærumála vegna innheimtu sorpeyðingargjalda fyrir mörgum árum. Fyrir þetta greiða sumarhúsaeigendur 20.369 kr þetta árið pr hús og fá jafnframt „klippikort“ með 4,5 rúmmetra inneign til að nota ef skila þarf gjaldskyldum úrgangi á gámasvæðin. Til að sinna gjaldtökunni yrði, eftir breytinguna, að hafa svæðin mönnuð á þeim tíma sem aðgengi er að þeim, s.s. loka „gönguhliðunum“ og ákveða rýmri fastan opnunartíma, því eftir sem áður yrði að gæta að því að sumarhúsaeigendur geti losað sig við heimilisúrgang þegar þeim hentar. Þetta fyrirkomulag myndi auka kostnað við rekstur söfnunarstöðvanna umtalsvert.

Í 6. gr. frumvarpsdraganna er kveðið á um að sveitarfélögum verði skylt að annast sorphirðu frá lögaðilum í þéttbýli, er vísað til þess að með því að skylda lögaðila til að flokka heimilisúrgang stofnist skylda á sveitarfélög til að þjónusta þá. Nokkur sveitarfélög hafa þegar sett ákvæði í sínar samþykktir um meðhölndlun úrgangs þar sem lögaðilar eru skyldaðir til að flokka heimilisúrgang. Þær samþykktir hafa verið unnar í samráði við umhverfisráðuneytið og fengist staðfestar af því, þó svo að viðkomandi sveitarfélög sjái ekki um sorphirðu frá lögaðilum. Í samþykktunum er þá kveðið á um að lögaðilar geti notað söfnunarstöðvar sveitarfélagsins eða samið við þjónustuverktaka. Fyrirtæki sem starfa við sorphirðu hafa alla burði til að sinna þjónustu við lögaðila, án milligöngu sveitarfélaga, og eru að gera það í dag. Lögaðilar hafa oft aðrar þarfir en heimilin á þessu sviði (ólíkar tunnu/gámastærðir, sérsöfnun á bylgjupappa eða öðrum efnum o.s.frv), og þetta tvennt á því ekki endilega samleið.

Í 6. gr. frumvarpsdraganna er einnig kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að bjóða upp sérsöfnun á gleri, málum og textíl og að heimilt sé að uppfylla skyldu til slíkrar sérsöfnunar með söfnun í grenndargáma. Tekið er fram að niðurstöður skýrslu sem unnin var fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sýni að söfnun á gleri og málmum í grenndargáma eða á söfnunarstöðvum væri árangursríkasta leiðin til að auka endurvinnslu á þeim úrgangsflokkum. Er því lagt til að söfnun á þessum flokkum endurvinnsluefna verði heimil með sérsöfnun hvort sem það er í grenndargáma eða á söfnunarstöðvum, eftir því hvað hentar á hverjum stað.

Virðingarfyllst,

Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri

Afrita slóð á umsögn

#5 SORPA bs. - 20.01.2020

Í viðhengi er umsögn SORPU bs. um mál 329 Frumvarp - breyting á lögum um meðhöndlun úrgangs (EES-innleiðing), sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Samband íslenskra sveitarfélaga - 20.01.2020

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Friðrik Klingbeil Gunnarsson - 20.01.2020

Góðan dag

Í viðhengi er að finna umsögn umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Hildigunnur Rut Jónsdóttir - 20.01.2020

Í viðhengi er að finna umsögn umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Samtök atvinnulífsins - 22.01.2020

Í viðhengi má finna umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og SVÞ-Samtaka verslunar og þjónustu.

Viðhengi