Í samráðsgáttina bárust þrjár umsagnir. Meðfylgjandi er niðurstöðuskjal þar sem gerð er grein fyrir þeim athugasemdum bárust í samraðsgáttina og urðu til þess að breytingar voru gerðar.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 14.01.2020–24.01.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 16.09.2021.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til samáðs drög að breytingu á reglugerð um ökuskírteini nr. 83/2011.
Ný umferðarlög nr. 77/2019 tóku gildi 1. janúar 2020. Í þeim eru margvíslegar breytingar sem kalla á endurskoðun reglugerða. Þar á meðal breyttust ákvæði nýju umferðarlaganna um ökuskírteini sem eru í XII. kafla laganna að verulegu leyti. Meðal þess sem breyttist eru ákvæði um ökukennslu, æfingaakstur og heilbrigðisskilyrði fyrir ökuréttindi. Þá kveða nýju lögin á um að við endurnýjun ökuréttinda eftir sviptingu skuli sækja sérstakt námskeið hjá Samgöngustofu. Sömuleiðis að neita megi þeim um ökuskírteini sem háður er notkun áfengis.
Ráðuneytið birtir hér drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 830/2011, um ökuskírteini vegna framangreindra breytinga sem hafa orðið með tilkomu nýju umferðarlaganna. Helstu breytingar sem lagðar eru til í reglugerðardrögunum eru eftirfarandi:
• Lagt er til að með umsókn um ökuskírteini eftir sviptingu ökuréttar skuli fylgja staðfesting þess að umsækjandi hafi sótt námskeið í þeim tilvikum þegar ökumaður hefur verið sviptur ökuréttindum í annað sinn vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.
• Lagt er til að nám eftir sviptingu í annað sinn vegna aksturs undir áhrifum verði 6 bóklegar kennslustundir og að viðkomandi skuli sitja ökupróf að nýju.
• Lagt er til að tekið sé fram að bóklegt ökunám megi fara fram rafrænt.
• Lagt er til að leyfi til æfingaaksturs með leiðbeinanda megi gefa út til 18 mánaða í stað 15 mánaða eins og var skv. þágildandi umferðarlögum.
• Lagt er til að umsækjandi um ökuskírteini skuli skila inn staðfestingu ökukennara á fullnægjandi árangri í akstursmati.
• Lagt er til að forstjóri Samgöngustofu skipi trúnaðarlækni til fimm ára sem ber ábyrgð á mati á aksturshæfni. Þá er lagt til að stofnuninni verði heimilt að gera samning við fleiri en einn lækni til að gegna starfinu. Lagt er til að trúnaðarlæknir hafi hreint sakavottorð, almennt lækningaleyfi og víðtæka þekkingu og reynslu í læknisfræði.
• Lagt er til að lögregla í stað sýslumanns afturkalli ökuréttindi þegar við á.
• Lagt er til að sett verði inn heimild til að neita þeim um starfsleyfi ökukennara sem gerst hafa sekir um kynferðisbrot.
• Ný umferðarlög gera ekki ráð fyrir því að ökukennarar skili inn virknivottorði við umsókn um endurnýjun leyfis. Því er lagt til að ökukennari skuli þreyta próf í ökukennslu, sé meira en ár liðið frá því að starfsleyfi féll úr gildi.
• Lagt er til að fjöldi kennslustunda í endurmenntun ökukennara verði a.m.k. 16 í stað þess að vera 35 í 7 stunda lotum.
• Lagt er til að sett verði inn bráðabirgðaákvæði sem heimilar tímabundið útgáfu starfsleyfa til þeirra ökukennara sem ekki hafa lokið endurmenntun við gildistöku reglugerðarinnar.
Meðfylgjandi drögunum eru einnig birt drög að námskrá fyrir sérstakt námskeið vegna sviptingar ökurétta sem Samgöngustofa gefur út.
Athugasemd við 7. grein:
Um fullnaðarskírteini í stað bráðabirgðaskírteinis.
Verið er að breyta akstursmati úr ökutíma í próf.
Hér er stórt mál á ferðinni.
Akstursmat er síðasti ökutíminn og má segja að ökunámi ljúki með þessum ökutíma.
Fyrst í ferlinu eru ökutímar með ökukennara svo tekur æfingaleyfið við með leiðbeinanda og að loknu ökuprófi fær próftaki bráðabirgðaskírteini og er þar með kominn í sjálfsnám, getur haldið áfram að æfa sig án þess að nokkur sitji við hlið hans.
Túlkun á akstursmati hefur alltaf verið að kenna og leiðbeina en ekki prófa, leiðsagnarmat.
Það er mikilvægt að nemi hugsi til baka þegar verið er að fylla út eyðublaðið í upphafi akstursmatstímans og hann gefi sér einkunn, hvernig honum finnst sér hafa gengið, nemandi á síðan að aka eins og hann er vanur að aka og hlutvert ökukennarans eftir tímann að fara yfir það sem má betur fara en stundum eru nemendur farnir að taka upp einhverja ósiði, sumt eru þeir meðvitaðir um en annað ekki. Með þessu geta þeir lagfært það sem miður fer og fengið hrós fyrir það sem vel er gert.
Ef gera á kröfu um fullnægjandi árangur þá er einfaldlega verið að tala um próf.
Ökukennarar kenna, prófdómarar prófa.
Athugasemd við 14. grein:
Endurmenntun ökukennara
Tillaga um að fækka fjölda kennslustunda í endurmenntun ökukennara úr 35 í 16 stundir finnst okkur furðuleg.
35 stunda fyrirmyndin kemur frá Danmörku en svipaður fjöldi tíma er einnig í Noregi.
Ökukennarar hér á landi eru nær undantekningalaust einyrkjar og koma því sjaldan saman.
Það eru stöðugar breytingar á umhverfi ökukennara og umfangið oft mikið, lög og reglugerðir breytast, nýjar kennsuaðferðir, stöðugar tæknibreytingar í bílum o.s.frv.
Ökukennararfélag Íslands hefur haldið eitt til tvö, sjö stunda endurmenntunarnámskeið á ári fyrir félagsmenn sína undanfarin 5 ár. Þessi námskeið hafa verið haldin með samþykki Samgöngustofu og hafa verið vel sótt af hluta félagsmanna ÖÍ og verið almenn ánægja með þau.
Það að fækka kennslustundum svona gríðalega sýnir skort á metnaði fyrir stéttina og leggst Ökukennarafélag Íslands gegn þessari tillögu.
Athugasemd við 4. grein:
Rafrænt nám.
Hér verður að greina á milli ökutækjaflokka.
Fræðilegt nám fyrir flokk A (bifhjól) og flokk B (bifreið) hefur undanfarin ár verið hægt að taka að öllu leyti rafrænt.
Nám fyrir aukin ökuréttindi er allt annað, hér virðist opnað fyrir að hægt verði að taka það rafrænt.
Slíkt hefur verið óheimilt skv. Evróputilskipun svo hér þarf að aðskilja ökutækjaflokkana fyrir aukin ökutæki frá hinum flokkunum.
Fagfélag ökukennara á Íslandi, Ökukennarafélag Íslands, lýsir sig ávallt reiðubúið að koma að vinnu er tengist málefnum ökukennslu á Íslandi.
F.h. Ökukennarafélags Íslands
Björgvin Þór Guðnason, formaður
1. Staðfesting námskeiðs vottað af ökuskóla
2. 3 bóklegar kennslustundir og aksturshæfnispróf verklegt eingöngu
3. Hætta öllu bóklegu námi rafrænt, eins gott að sleppa ökuskóla ef þetta á að vera rafrænt
4. 18 mánuðir með möguleika á framlengingu
5. Leggja niður akstursmat, ökumaður er kominn með réttindi
6. Aksturshæfni ehf er til, af hverju ekki að nýta hana
7. Gott að lögregla geti afturkallað ökuréttindi
8. Hreint sakavottorð, er það ekki krafa fyrir alla kennara hvar sem þeir kenna?
9. Þurfa aðrar stéttir að taka próf aftur, ef t.d. grunnskólakennari tekur sér hvíld ?
10. Endurmenntun að minnsta kosti 16 tímar, hver eru rökin fyrir að fækka tímum?
11. Af hverju að veita undaþágu? Halda námskeið
Kveðja
Þórður Bogason
Ökukennari
Meðfylgjandi er umsögn SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu, f.h. Samtaka ökuskóla.
Viðhengi