Samráð fyrirhugað 14.01.2020—28.01.2020
Til umsagnar 14.01.2020—28.01.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 28.01.2020
Niðurstöður birtar

Drög að Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024

Mál nr. 10/2020 Birt: 14.01.2020 Síðast uppfært: 16.01.2020
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Sveitarfélög og byggðamál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (14.01.2020–28.01.2020). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024 er nú til umsagnar og geta íbúar og fyrirtæki landshlutans komið með ábendingar um efni hennar áður en hún öðlast gildi.

Markmið sóknaráætlunarinnar er að stuðla að jákvæðri byggðaþróun í takt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, treysta stoðir menningar og að auka samkeppnishæfni landshlutans og landsins alls.

Sóknaráætlunin er stefnuskjal sem felur í sér stöðumat höfuðborgarsvæðisins, framtíðarsýn og markmið í tilgreindum málaflokkum ásamt skilgreindum leiðum að markmiðunum. Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024 tekur m.a. mið af þeirri stefnu og framtíðarsýn sem kemur fram í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040.

Í júlí 2019 hófst samtal um vinnu við mótun sóknaráætlunar 2020-2024 fyrir höfuðborgarsvæðið á vegum samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH). SSH hefur notið aðstoðar Capacent ráðgjafar við vinnuferlið og samráðsfundi sem haldnir hafa verið vegna verkefnisins. Unnið var að mótun stefnunnar með því að eiga samráð við kjörna fulltrúa og aðra hagaðila innan höfuðborgarsvæðisins til þess að fá fram sjónarmið þeirra um sóknaráætlunina og tengja áætlunina með markvissum hætti við ákvörðun áhersluverkefna og svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040.

Afurð þessarar vinnu er Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024.

Við óskum eftir ábendingum frá íbúum og fyrirtækjum landshlutans. Tekið verður tillit til allra ábendinga og í einhverjum tilfellum verður efni sóknaráætlunarinnar breytt í samræmi við innsendar ábendingar.

Frekari upplýsingar veitir Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri SSH í síma 821-8179 eða með tölvupósti, pallbg(hja)ssh.is

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Eirný Valsdóttir - 16.01.2020

Ég er ánægð með að fá tækifæri til að segja álit mitt á sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisinn, ég er íbúi þar en veit varla hvort ég flokkist sem hagaðili (kjörna fulltrúa og aðra hagaðila innan höfuðborgarsvæðisins).

Sem fyrsta skref er þetta gott plagg og upphaf á löngu samtali við íbúa. Umsögn mín er í viðhengi. Það er svo margt sem væri hægt að gera betur en nú.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Erna Kristjánsdóttir - 28.01.2020

Hér með er komið á framfæri ábendingu við drög að sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins. Annars vegar vegna setningar á glæru 33 þar sem segir: „Hætt verði að taka á móti mengandi skemmtiferðaskipum“ og hins vegar þar sem segir: „Hætta að brenna svartolíu í höfnum“. Hvað fyrra atriðið varðar þá þarf að skoða þá setningu í samhengi við ýmsa þætti sem m.a. koma fram hér í framhaldi. Hvað seinna atriðið varðar þá er bent á reglugerðir og nýjar reglur um eldsneyti skipa, en brennsla svartolíu í höfnum hefur ekki verið leyfð um alllangan tíma. Faxaflóahafnir hafa m.a. ályktað um bann við brennslu svartolíu í Norðurhöfum, en skýrar reglur gilda um notkun á eldsneyti skipa í höfnum, en þar er brennsla svartolíu ekki hemil.

Rökfærslu má finna í viðhengi í fimm liðum, ásamt linkum til staðfestingar.

1. Umhverfis og auðlindaráðuneytið hefur gefið út reglugerð um eldsneyti skipa og notkun eldneytis í höfnum sem gildir frá og með 1. janúar 2020:

• Brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti utan íslenskrar landhelgi má ekki vera meira en 0,5 prósent í samræmi skv. reglum IMO.

• Leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti innan 12 sjómílna landhelgi og á innsævi er 0,1 prósent. Þetta gildir einnig í fjörðum og flóum.

• Umhverfisstofnun sér um allt eftirlit með að þessum reglum sé framfylgt við Ísland.

Ákvæði reglugerðarinnar sem bent er á eru eftirfarandi:

„Brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, þ.m.t. svartolíu sem er notuð eða er ætluð til nota í skipum eða bátum hér á landi innan landhelgi Íslands og innsævis skal að hámarki vera 0,1% (m/m) að undanskildu eldsneyti til skipa sem nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun, sbr. 12. gr.

Brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, þ.m.t. svartolíu sem er notuð eða er ætluð til nota í skipum eða bátum í mengunarlögsögu utan innsævis og landhelgi Íslands skal að hámarki vera 0,5% (m/m) að undanskildu eldsneyti til skipa sem nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun, sbr. 12. gr.

Brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti skipa sem fara um SOx-svæði, skal ekki fara yfir 0,1% (m/m).

Ákvæði þessarar greinar gilda um öll skip án tillits til þess undir hvaða fána þau sigla, þar með talið skip sem hefja ferð sína utan Evrópska efnahagssvæðisins.Í þeim tilfellum þegar notast er við skipaeldsneyti með hærra brennisteinsinnihaldi en 3,5% (m/m) skal nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun í lokuðu kerfi.“

Framangreint ber með sér að frá 1. janúar 2020 verður tæplega mögulegt að nota svartolíu nema skip séu útbúin hreinsibúnaði og sá búnaður nægi til að brennisteinsinnihald fari ekki yfir 0,1%.

Vegna þessara breytinga má vænta þess að brennisteinsmengun frá skemmtiferðaskipum muni minnka verulega á þessu ári í samanburði við síðustu ár.

2. Háspennutengingar fyrir skemmtiferðaskip

Þegar skemmtigerðaskip leggjast að bryggju í íslenskri höfn er að jafnaði slökkt á aðalvélum skipsins. Ljósavélarnar eru hins vegar áfram í gangi enda orkuþörfin mikil. Eins og staðan er í dag, þá er staða á raftengingu til skipa í höfnum nokkuð góð hér á landi þegar litið er til lágspennutenginga (fyrir smærri skip; fiskiskip, togara, rannsóknarskip o.s.frv.). Hins vegar er skortur á háspennutengingum sem eru nauðsynlegar stærri skipum.

Faxaflóahafnir, hafa hafið samstarf með Veitum og fleiri aðilum, um athugun á því hvernig best sé unnið að farsælu háspennukerfi í Sundahöfn.

Í fjárhagsáætlun Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir 100 milljóna króna framlagi til að mögulegt verði að tengja skip í Sundahöfn raforkukerfinu í landi. Gert er ráð fyrir 50 milljónum í háspennubúnað við Sundabakka(Eimskip) og 50 m.kr. í háspennubúnað við Vogabakka (Samskip) í fjárhagsáætluninni. Íslenskar hafnir eiga að óbreyttu enga möguleika á að fjármagna landtengingar stórra skipa án verulegrar aðstoðar ríkisins, enda um milljarða fjárfestingar að ræða.

3. Heimsóknir farþegaskipa skiluðu 16,4 milljarða eftir sig hér á landi og um 920 heilsárs urðu til.

Árið 2018 var framkvæmd könnun á vegum GP Wild og niðurstöður sýna að heimsóknir farþegaskipa skiluðu 16,4 milljarða eftir sig hér á landi og um 920 heilsárs urðu til. Mörg þessara starfa verða til á landsbyggðinni, sjá nánar fréttatilkynningu á heimasíðu Cruise Iceland varðandi efnahagsleg áhrif farþegaskipa á Ísland.

4. AECO leiðbeiningar

Þann 29. október 2018 varð Ísland hluti af starfsvæði AECO. Association of Arctic Expedition Cruise Operators (AECO) eru alþjóðleg samtök rekstraraðila leiðangursfarþegaskipa og samstarfsaðila þeirra á norðurslóðum, sem helga sig umhverfisvænum, öruggum og tillitssömum rekstri skemmtiskipa. Starfssvæði samtakanna nær yfir Svalbarða, Jan Mayen, Grænland, norðurhluta Kanada og norðurskautsþjóðgarðinn í Rússlandi, sem og Ísland frá árinu 2018. Samtökin hafa sett saman fjölda reglna sem meðlimum þeirra er skylt að fylgja. Þar á meðal eru reglur er varða starfsemi, dýralíf, gesti, ákveðna staði og annað. Sumarið 2019 komu fyrstu leiðbeiningarnar frá AECO fyrir Seyðisfjörð fyrir farþegaskipin. Faxaflóahafnir eru að vinna ásamt Ferðamálastofu, Miðborginni okkar, Íslandsstofu, Visit Reykjavík og Umhverfisstofnun að slíkum leiðbeiningum fyrir Reykjavík. Þær leiðbeiningar munu líta dagsins ljós í apríl/maí. Á grundvelli þessara reglna er markmiðið að draga úr umhverfisáhrifnum farþegaskipa, sem koma til Íslands.

5. Hvað eru farþegaskipa útgerðirnar að gera í umhverfismálum, sjá nánar í viðhengi.

Líkt og þið sjáið, þá er verið að vinna hörðum höndum að því að gera skemmtiferðaskipaiðnaðinn umhverfisvænan. Sífellt eru gerðar auknar kröfur til skemmtiferðaskipaiðnaðarins erlendis og það auðveldar okkur að auka á okkar kröfur. Við leggjum því til að orðalagið verði mildað t.d. á þann veg að miðað verði við að „draga verulega úr loftmengun frá Skemmtiferðaskipum fyrir 2025. Tíminn vinnur með okkur og þær loftlagsaðgerðir sem eru bígerð alls staðar í heiminum.

Kær kveðja,

Erna Kristjánsdóttir

Markaðs- og gæðastjóri

Faxaflóahafna sf.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Joanna Marcinkowska - 28.01.2020

Efni: Umsögn Fjölmenningarráðs Reykjavíkurborgar um drög að sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024.

Fjölmenningarráð Reykjavíkurborgar fagnar að sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins taki mið af þeim miklu samfélagsbreytingum sem hafa átt sér stað með fjölgun innflytjenda á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir þeim fjársjóði sem íslensku samfélagi býðst þegar innflytjendur koma hingað, margir þeirra búa yfir verðmætri menntun og starfsreynslu sem er akkur fyrir íslenskt samfélag. Öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa nú þegar unnið að stefnumótun á þessu sviði en sú vinna þarf að vera í stöðugri þróun.

Fjölmenningarráð fagnar því að í sóknaráætluninni sé þátttaka barna af erlendum uppruna í íþróttum og frístundum sérstaklega nefnd þar sem hún er afar mikilvæg.

Í þessu samhengi vill fjölmenningarráð koma á framfæri að gott væri að nefna einnig menntun barna af erlendum uppruna á þeim skólastigum sem eru á ábyrgð sveitarfélaga. Með því að veita börnum af erlendum uppruna góða menntun frá upphafi má hafa jákvæð áhríf á farsæla þróun samfélagsins í heild sinni.

Á glæru nr. 35 er nefndur eftirfarandi punktur: „Samþætta innflytjendur betur – stéttaskipting“.

Með því að ræða um samþættingu er miklum áfanga náð. Það þýðir að gengið sé út frá því að öll ábyrgðarsvið sveitarfélaga hafi innflytjendagleraugun uppi við ákvarðanatöku. Með þeim hætti má auka jafnræði og koma í veg fyrir margvísleg vandamál, þannig að ráðið fagnar að hafa slíkt ákvæði í áætluninni.

Hins vegar mætti orðalag vera skýrara til að einfalda öllum að fylgja þessari nálgun eftir í sinni stefnumótun – ekki þarf að samþætta innflytjendur heldur samfélagið.

Mikilvægt er að hafa í huga að samþætting felur í sér framlag allra, innflytjenda og samfélagsins í heild, til þess að samþætta hagsmuni, réttindi og daglegt líf alla íbúa landsins. Nauðsynlegt er að skoða hvernig samfélagið og stofnanir þess mæta þörfum innflytjenda eigi að skoða gagnkvæmni samþættingar. Það mættihafa þetta sem útgangspunkt í megináherslum áætlunarinnar þar sem þessi samfélagsþróun er líklega með stærstu áskorunum sem sveitarfélögin standa nú frammi fyrir.

Tillögur að skýrara orðalagi gætu verið:

„Samþætta betur fjölmenningarvinkillinn á öllum ábyrgðarsviðum sveitarfélaganna“

“Styðja við jafnræði innflytjenda í gegnum samþættingu á öllum ábyrgðarsviðum sveitafélagana”

„Setja upp innflytjendagleraugun alls staðar í störfum sveitarfélagsins“

“Fjölmenningarleg samþætting á öllum ábyrgðarsviðum sveitarfélaga”

Virðingarfyllst,

formaður fjölmenningarráðs

Sabine Leskopf

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Benedikt Sveinbj. Benediktsson - 28.01.2020

Meðfylgjandi er umsögn SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu um drög að sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Samtök ferðaþjónustunnar - 28.01.2020

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024.

Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.

Bestu kveðjur

F.h. SAF

Gunnar Valur

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Jóna Þórey Pétursdóttir - 28.01.2020

Fyrir hönd Stúdentaráðs Háskóla Íslands er í viðhengi umsögn ráðsins.

Viðhengi