Samráð fyrirhugað 21.01.2020—03.03.2020
Til umsagnar 21.01.2020—03.03.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 03.03.2020
Niðurstöður birtar 21.04.2020

Landgræðsluáætlun - drög að lýsingu

Mál nr. 12/2020 Birt: 21.01.2020 Síðast uppfært: 21.04.2020
  • Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál

Niðurstöður birtar

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 21.01.2020–03.03.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 21.04.2020.

Málsefni

Verkefnisstjórn um gerð landgræðsluáætlunar, sem skipuð var af umhverfis- og auðlindaráðherra í júní 2019, hefur tekið saman drög að lýsingu þar sem gerð er grein fyrir þeim áherslum sem fyrirhugað er að hafa við gerð áætlunarinnar, svo sem um forsendur, viðfangsefni og fyrirhugaða kynningu og samráð við mótun áætlunarinnar. Drög að lýsingu verða til kynningar og umsagnar til 3. mars 2020.

Verkefnisstjórn um gerð landgræðsluáætlunar, sem skipuð var af umhverfis- og auðlindaráðherra í júní 2019, hefur tekið saman drög að lýsingu þar sem gerð er grein fyrir þeim áherslum sem fyrirhugað er að hafa við gerð áætlunarinnar, svo sem um forsendur, viðfangsefni og fyrirhugaða kynningu og samráð við mótun áætlunarinnar. Þetta er stefnumótandi áætlun sem gildir til tíu ára í senn, en verður endurskoðuð á fimm ára fresti. Verkefnisstjórn landgræðsluáætlunar er ætlað að hafa samráð við verkefnisstjórn um gerð landsáætlunar í skógrækt til að tryggja samræmingu vinnulags og viðfangsefna, sérstaklega þeirra sem skarast á milli áætlananna.

Í landgræðsluáætlun verður m.a. mótuð framtíðarsýn fyrir aukna jarðvegsvernd, endurheimt vistkerfa og sjálfbæra landnýtingu til langs tíma, markmið verða skilgreind og aðgerðaáætlun sett fram þar sem mælikvarðar á árangur verða skilgreindir. Í áætluninni verður gerð grein fyrir:

a) Hvernig skuli stuðla að framförum í mati á jarðvegsvernd.

b) Hvernig gæði landsins séu best varðveitt.

c) Hvernig nýting lands geti sem best stutt við atvinnu og byggðir í landinu í takt við markmið stjórnvalda.

d) Hvernig best sé að efla og endurheimta röskuð vistkerfi.

e) Tillögum um breytingu á nýtingu lands þar sem það á við (t.d. friðun fyrir ákveðinni landnýtingu o.s.frv.).

Fjallað verður um möguleika á endurheimt vistkerfa á stórum samfelldum svæðum, einkum birki- og víðikjarrs og endurheimt votlendis og sjálfbæra nýtingu lands. Þá verður hugað að endurheimt vistkerfa á friðlýstum svæðum þar sem það á við og nýtingu lífrænna efna, s.s. moltu og húsdýraáburðar, til landgræðslu. Horft verður til samlegðaráhrifa landgræðslu, loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni og fjallað um notkun plöntutegunda í landgræðslu. Einnig verður skoðað hvernig auka megi þátttöku einstaklinga, félagasamtaka, sjálfboðaliða, einkaaðila o.fl. í landgræðslustarfinu.

Drög að lýsingu eru unnin af verkefnisstjórn um gerð landgræðsluáætlunar. Umsögnum um lýsingu vinnu við landgræðsluáætlun skal skilað í samráðsgátt stjórnvalda og er frestur til þess til 3. mars næstkomandi.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Valdimar Össurarson - 31.01.2020

Um leið og ég fagna þessari viðleitni til að setja fram heildstæða aðferðafræði í landgræðslumálum tel ég rétt að benda á atriði sem hafa þarf í huga við þá vinnu sem framundan er í þessu efni.

1. Í samráðshópinn væri æskilegt að fá fulltrúa fyrir hinar mörgu eyðijarðir á landinu, en fullyrða má að á mörgum eyðijörðum er landeyðing veruleg og þær jarðir standa mun verr að vígi gagnvart endurheimt gróðurs og vistkerfa en jarðir í byggð, eins og komið verður að hér á eftir. Til hafa verið hin ýmsu samtök jarðeigenda: Landssamtök jarðeigenda; Samtök eigenda sjávarjarða og Samtök eigenda eyðijarða. Ég þekki ekki vel til starfsemi þeirra og er enn ekki félagi í neinu þeirra, en ég tel mikilvægt að skoðað sé hvort unnt sé að fá þessi viðhorf inn í samráðshóp um gerð landgræðsluáætlunar. Aðild sveitarfélaga og annarra með mjög víðtækt hlutverk er ekki nægjanleg.

2. Í nýrri landgræðsluáætlun þarf að hafa tryggja sérstaklega hvernig staðið verður að uppgræðslu og endurheimt á eyðijörðum. Ekki gengur að áfram sé fest í sessi það misrétti sem slíkir staðir sæta, og í raun gerir ókleyft að standa að landgræðslu á árangursríkan hátt. Stór landsvæði sættu byggðahruni á síðari hluta 20.aldar; jafnvel svo að blómlegar sveitir lögðust í eyði. Tek ég sem dæmi mitt heimasvæði, á suðurhluta Vestfjarða, þar sem eru miklar skeljasandsfjörur með tilheyrandi sandfoki og uppblæstri. Á mörgum jörðum höfðu bændur spornað gegn uppblæstri, jafnvel um aldir, en þegar þeir brugðu búi jókst sandblástur verulega. Eigendur og aðstandendur jarðanna koma gjarnan þar í sumarleyfum og reyna þá að vinna gegn eyðingunni. En þá er búreksturinn ekki fyrir hendi til að bera uppi tækjavæðinguna; ekkert fellur til af heyrudda eða skít frá búrekstri og girðingar ganga úr sér. Með þessu eru slegin úr höndum manna helstu vopnin í uppgræðslu. Þannig var t.d. staðan hjá okkur landeigendum á Láganúpi, sem vildum stöðva óðauppblástur sem ógnaði jörðinni. Landgræðslan bauð lítilsháttar styrki til uppgræðslu, en þvertók fyrir að styrkja nauðsynleg tækjakaup og girðingar. Með því sæta eigendur eyðijarða misrétti gagnvart jörðum í búrekstri, sem geta nýtt vélakost sem þegar er fyrir hendi; geta valið sér dauðan tíma hvenær sem er á árinu til uppgræðslustarfa og geta fengið styrk til að losa sig við t.d. ónýtar heyrúllur sem farga þarf. Gefur auga leið að með slíku stefnuleysi og misrétti verður ekki unnt að stöðva landeyðingu á eyðijörðum. Þó ég taki mína heimajörð hér sem dæmi vil ég undirstrika að þessi ábending er almenns eðlis, og á við um fjölda eyðijarða á landinu. Nauðsynlegt er að ný landgræðsluáætlun taki á þessum sértæka vanda eyðijarða.

3. Í þessum drögum kemur ekki glöggt fram hvernig staðið skuli að rannsóknum sem eru nauðsynleg undirstaða árangursríkrar uppgræðslu og endurheimtar. Hefði slíkt vel mátt vera meðal markmiðslýsinga. Mikilvægt er að um þá þætti verði rækilega fjallað í langræðsluáætlunni sjálfri. Rannsóknir hafa reyndar verið allmiklar á hálendissvæðum landsins, og eflaust ágætar fyrir þau svæði. Hinsvegar hefur algerlega skort rannsóknir á hinum hluta uppblásturssvæðanna; skeljasandssvæðunum. Þau svæði er ekki jafn víðfeðm, en hinsvegar eru þau flest á láglendi og gróðureyðing þar ógnar því fremur bújörðum og strandsvæðum. Gróðurþekja á skeljasandssvæðum er mjög viðkvæm, ekki síður en kringum gosbeltin. Dæmi um mikilvægan þátt sem þarfnast rannsóknar er samspil sandburðar upp á fjörur og uppblásturs ofan hennar, og um leið ástæður breytileika sandburðar á fjörur. Ég fór sjálfur að skoða þessa hluti, þó ómenntaður sé í þeim fræðum, og fann þá skýringar sem fræðimenn á þessum sviðum töldu nauðsynlegt að rannsaka betur. Þær skýringar varða afrán skollakopps af þaraskógi á grunnsævi, en skógurinn gegnir miklu hlutverki í að dempa afl bárunnar. (Sjá grein um það efni í 1.-2.hefti Náttúrufræðingsins 2018). Ég nefni þetta hér sem dæmi um þann skort á rannsóknum sem ný landgræðsluáætlun þarf að taka á.

Afrita slóð á umsögn

#2 Samband íslenskra sveitarfélaga - 13.02.2020

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um lýsingu verkefnisins.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Þorvaldur Örn Árnason - 15.02.2020

Fagna landgræðsluáætlun, tek undir allt sem þar er og legg til þrjú atriði sem öll eru í góðu samræmi við landgræðslulög og skipunarbréf verkefnisstjórnarinnar:

1. Aukin nýting lífræns efnis til landgræðslu. Landgræðslan leiðbeini og styðji þá sem dreifa lífrænu efni á jarðvegsrofsvæði, svo sem moltu, heyi eða skít. Nái m.a. til verkefnisins Bændur græða landið.

2. Í samráði við Vegagerðina og Ferðamálstofu verði sett upp verkefni til að draga úr útbreiðslu alaskalúpínu með aðalvegum landsins. Lúpína í blóma er mjög áberandi og frek á athygli yfir sumarmánuðina þegar flestir eru á ferð. Áhersla verði lögð á að hindra útbreiðslu á ný svæði sem blasa við af fjölförnum vegum en lúpínan látin óáreitt þar sem hún er orðin útbreidd.

3. Stuðlað verði að nýmyndun votlendis á blautum og lítt grónum söndum, svo sem gljám meðfram Suðurströndinni. Undirritaður þekkir vel slíkt svæði í Vestur-Landeyjum. Með því að stjórna vatni og útbreiða melgresi á ákveðinn hátt er hægt að flýta uppgræðslu lægstu svæðanna, þar sem er að myndast nýtt, blómum skrýtt mýrlendi með tilheyrandi kolefnisbindingu.

Sjá nánar í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Umhverfisstofnun - 28.02.2020

Meðfylgjandi er umsögn Umhverfisstofnunar um ofangreinda lýsingu.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Náttúrufræðistofnun Íslands - 28.02.2020

Meðfylgjandi er umsögn um framangreint mál.

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Erla Björgvinsdóttir - 03.03.2020

Meðfylgjandi er umsögn Landsvirkjunar í máli nr 12/2020 um landgræðsluáætlun - drög að lýsingu

Viðhengi