Samráð fyrirhugað 27.01.2020—21.02.2020
Til umsagnar 27.01.2020—21.02.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 21.02.2020
Niðurstöður birtar 07.07.2021

Opinber innkaup - stöðumat og valkostir

Mál nr. 14/2020 Birt: 27.01.2020 Síðast uppfært: 07.07.2021
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Niðurstöður birtar

Fimm umsagnir bárust um stöðumat þar sem drög að stefnunni voru birt.Heilt yfir voru umsagnaraðilar jákvæðir gagnvart þeim drögum sem til umsagnar voru. Farið var yfir allar umsagnir og stefna og aðgerðaráætlun endurspeglar vel umsagnir og vinnu sem hagsmunaaðilar komu að í mótun stefnunnar. Stefna ríkisins um sjálfbær innkaup og aðgerðaáætlun hafa nú verið birt.

Nánar um niðurstöður

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 27.01.2020–21.02.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 07.07.2021.

Málsefni

Ríkið keypti vörur og þjónustu fyrir um 117 milljarða króna 2018. Þegar kaup vegna þjónustusamninga og mannvirkjagerðar eru tekin með var heildarumfangið 202 milljarðar króna. Stöðumatið, stundum einnig nefnt grænbók, er umræðuskjal unnið í víðtæku samráði þar sem almenningi og hagsmunaaðilum er boðið að leggja fram sín sjónarmið um álitaefni, viðfangsefni og framtíðarsýn sem nýst gætu í stefnumótun.

Markviss innkaup geta haft veruleg áhrif á möguleika ríkisins til að fjármagna verkefni, t.d. getur 2% betri árangur í innkaupum samsvarað 2 hjúkrunarheimilum, 3333 mjaðmaliðsskiptaaðgerðum eða ferju eins og Herjólfi. Helstu áskoranir samtímans líkt og umhverfismál og öldrun þjóðar, kalla á áherslur í ríkisrekstrinum til aukinnar sjálfbærni og velsældar. Því skiptir miklu máli að ríkið nýti fjármunina sem best og leiti allra leiða til meiri hagkvæmni og betri árangurs.

Mikill árangur hefur náðst í sameiginlegum vörukaupum ríkisaðila undanfarin ár. Enn eru þó tækifæri til staðar í betri yfirsýn, upplýsingum og greiningum. Ráðuneytið leggur áherslur á að ná frekari árangri með markvissari þjónustukaupum, vistvænni valkostum og aukinni nýsköpun en í ljósi umfangs opinberra innkaupa getur ríkið sem kaupandi haft veruleg áhrif á eftirspurn eftir vistvænni valkostum og áhrif á þróun slíkra kosta.

Stöðumatið, stundum einnig nefnt grænbók, er umræðuskjal unnið í víðtæku samráði þar sem almenningi og hagsmunaaðilum er boðið að leggja fram sín sjónarmið um álitaefni, viðfangsefni og framtíðarsýn sem nýst gætu í stefnumótuninni. Í stöðumatinu eru skilgreind fimm lykilviðfangsefni sem stefnumótun á þessu sviði þarf að taka á og eru þau eftirfarandi:

1. Ná fram hagkvæmum og vistvænum innkaupum sem tryggja sjálfbærni til lengri tíma litið.

2. Auka faglega þekkingu innkaupaaðila til að stuðla að skilvirkum árangri í þjónustu ríkisins.

3. Tryggja nægilega samkeppni og örva nýliðun og nýsköpun með aukinni samvinnu við markaðinn.

4. Nýta stafrænar innkaupaleiðir og upplýsingatækni markvisst til gagnagreiningar og sameiginlegra innkaupa.

5. Tryggja að almenningur og fyrirtæki eigi greiðan aðgang að upplýsingum um innkaup ríkisins.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Agnar H. Johnson - 17.02.2020

Ágætu viðtakendur

Varðandi viðfangsefni 3, um ”að tryggja nægilega samkeppni og örva nýliðun og nýsköpun með aukinni samvinnu við markaðinn”, er mikilvægt að opinberir aðilar tryggi að samningsbundinn seljandi vöru og þjónustu hafi getu og burði til að standa við skuldbindingar gagnvart opinberum innkaupaaðilum.

Dæmi eru um að samið sé við aðila um kaup á vöru og þjónustu af stærðargráðu sem er margfalt eigið fé viðkomandi. Í slíkum tilvikum getur það haft neikvæð áhrif á afgreiðsluöryggi og umsamda þjónustu sem bitnað getur alvarlega á heilbrigðisstofnunum og skjólstæðingum þeirra.

Til að koma í veg fyrir að afgreiðsluöryggi mikilvægra vara og þjónustu sé ógnað, er brýnt að setja lágmarksviðmið um eigið fé samningsbundins seljanda vöru og þjónustu. Nauðsynlegt er að viðkomandi samningsaðili geti sýnt nægilegan styrk í formi eigin fjár með hliðsjón af áætluðum kaupum á samningstíma, ásamt því að innra skipulag og mannafli viðkomandi geti tryggt afgreiðsluöryggi og þjónustu á gildistíma samnings. Liggja þurfa fyrir viðmið um hvernig eftirfylgni sé háttað með að kröfum útboða sé fullnægt á samningstímanum sem oft er ábótavant.

Með von um að ábendingar þessar verði að einhverju gagni.

Virðingarfyllst,

Agnar H. Johnson

Afrita slóð á umsögn

#2 Kjartan Kjartansson - 19.02.2020

Áhersla á gæði vöru, ábyrgðarþjónsutu, viðhald og viðgerðir þarf að leggja meiri áherslu á í vistvænum innkaupum á búnaði og tækjum.

Þegar meta á hæfi bjóðenda mundi það auðvelda ferlið og gera það sjálfvirkara ef það mætti nota upplýsingar og viðmið frá aðilum sbr. CreditInfo til að meta bjóðendur en ekki bara skil á ársreikningskrá, vottorð lífeyrissjóða, eiginfjárhlutfall skv. seinasta ársreikning og opinberum gjöldum frá Tollstjóra.

Gagnvirk innkaupakerfi þarf að skilgreina betur í lögum. Hér á íslandi hafa þau verið kölluð "Opnir rammasamningar" þar sem örútboð eru framkvæmd en skv. evrópuvefnum þá er óþarft að fara í útboð og einungis gefa upp veltutölur pr. flokk í DPS samningi.

Þá þarf að tryggja að opinberir aðilar geti keypt hugbúnað með eðlilegum hætti. Ef opinber aðili keypti tölvukerfi/hugbúnað fyrir milljón árið 2017 og sá hugbúnaður varð vinsæll, er orðinn dýarari auk þess sem að gengið hefur ekki hjálpað og til að stofnunin geti nýtt hann til fulls þá þarf í dag að kaupa viðbótarleyfi fyrir 5 milljónir og borga svo 2,5 milljónir á ári = 15 milljónir yfir 4 ára tímabil (með 20% umsömdum afslætti) = útboðsskylda. Það er engin leið fyrir stofnunina til að bakka út úr því að nota þennan hugbúnað og ef hún fer í útboð þá er framleiðandinn í einokunarstöðu og þarf ekki að bjóða neina afslætti = 18,75 milljónir ef farið yrði í útboð + allur kostnaðurinn við útboðsvinnuna. Windows og Office er ekki sambærilegt því Microsoft selur ekki stórum aðilum nema í gegnum milliliði. Það er ekki algilt fyrir aðra hugbúnaðarframleiðendur.

Þá er 13.gr OIL illa notuð. Opinberum aðilum er heimilt að eiga miklu meira samstarf um veitingu þjónustu og þjónustu sín á milli en gert er. T.d. um sameiginlegan rekstur á vélasal eða bílaflota eða húsnæði eða birgðastöð (sbr. hvernig LSH þjónar mörgum öðrum stofnunum með vörur, rannsóknir, sýnatöku ofl. ofl.) Tryggja þarf að sá sem veitir þjónustuna fái sanngjarnt endurgjald fyrri veitta þjónustu og sé ekki skyldaður í samstarf sem kemur honum illa.

Það sem gæti gert innkaup ríkisins töluvert hagkvæmari væri að fækka afhendingum, að í stað þess að allir starfsstaðir séu að móttaka vörur frá ótal aðilum ótal sinnum á dag, að birgjar afhendi vörur á einn stað og þar er þeim umpakkað og dreift í fáum sendingum á öruggan og skilvirkan hátt til stofnana. Slíkt fyrirkomulag bíður að auki upp á að eftirlt sé haft með því hvort verið sé að versla í samræmi við gerða samninga við rétta brigja og á réttum verðum. Þessa þjónustu væri hægt að bjóða út þar sem öflugir aðilar eru innanlands. Þetta sparar gríðarlegan akstur til stofnana, tíma í vörumóttökur, öryggi þar sem óvæntum heimsóknum á viðkvæm svæði fækkar ofl. ofl. Það skiptir þó einnig miklu máli að ríkið eigi t.d. flutningabíla til að nota þegar neyð verður, til að flytja neyðarbirgðir milli staða t.d. frá sóttvarnarlækni og á LSH eða út á Keflavíkurflugvöll. Í dag býr ríkið ekki að því að eiga neina slíka innviði og þarf að treysta á verktaka eða björgunarsveitir sem ekki eiga trukka með vörulyftum og brettatjakka.

Afrita slóð á umsögn

#3 Samband íslenskra sveitarfélaga - 20.02.2020

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu - 21.02.2020

Meðfylgjandi er umsögn SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu um Opinber innkaup - stöðumat og valkostir.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Samtök iðnaðarins - 21.02.2020

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins um Opinber innkaup - stöðumat og valkostir.

Virðingarfyllst,

Björg Ásta Þórðardóttir,

lögmaður SI

Viðhengi