Samráð fyrirhugað 27.01.2020—10.02.2020
Til umsagnar 27.01.2020—10.02.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 10.02.2020
Niðurstöður birtar 15.12.2021

Frumvarp til laga um Orkusjóð

Mál nr. 15/2020 Birt: 27.01.2020 Síðast uppfært: 15.12.2021
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Orkumál
  • Umhverfismál

Niðurstöður birtar

Frumvarp lagt fram á Alþingi 2020 og afgreitt sem lög.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 27.01.2020–10.02.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 15.12.2021.

Málsefni

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birtir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um Orkusjóð. Orkusjóði er með því ætlað aukið svigrúm til að styrkja orkutengd verkefni sem eru á hverjum tíma í samræmi við almenna stefnumótun stjórnvalda jafnt á sviði orkumála, nýsköpunar, byggðamála og loftlagsmála.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birtir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um Orkusjóð.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem lúta að því að skýrar er kveðið á um hlutverk Orkusjóðs, fyrirkomulag, fjármögnun og stjórnsýslu. Það er liður í almennri eflingu sjóðsins í samræmi við vaxandi hlutverk Orkusjóðs á undanförnum árum og almenna stefnumótun stjórnvalda á sviði orkumála. Orkusjóður gegnir þannig ákveðnu lykilhlutverki er kemur að aðgerðum stjórnvalda í orkuskiptum, innleiðingu nýsköpunar í orkumálum og samspili orkumála og loftlagsmála. Því er talið rétt að styrkja stoðir hans og regluverk með setningu sér laga um sjóðinn.

Samkvæmt frumvarpinu eru helstu breytingar á gildandi lögum þær að hlutverk Orkusjóðs er skilgreint með ítarlegri og víðari hætti en nú er. Lagt er til að skilgreint hlutverk Orkusjóðs verði, nú sem áður, að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða er miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum. Jafnframt að hlutverk Orkusjóðs verði að styðja við verkefni sem stuðla að orkuöryggi og samkeppnishæfni á sviði orkumála og orkutengd verkefni á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að reglugerðum nr. 400/2009 um Orkustofnun og nr. 185/2016 um Orkusjóð verði í kjölfarið breytt til samræmis.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Valdimar Össurarson - 08.02.2020

Valorka hefur á undanförnum árum ítrekað bent á nauðsyn þess að breytt verði starfsháttum Orkusjóðs í þá átt að hann verði virkt úrræði til stuðnings við þróun orkutækni og orkunotkunar líkt og honum er ætlað. Starfsemi Orkusjóðs hefur á undanförnum árum illa þjónað því hlutverki, og hefur sífellt hallað á verri veginn. Tvær meginástæður eru fyrir því, eins og bent hefur verið á:

Annars vegar hefur Orkusjóður markvisst og meðvitað verið fjársveltur af stjórnvöldum. Valorka naut lítilsháttar styrkja Orkusjóðs við upphaf verkefnisins fyrir nær 10 árum, en m.a. vegna fjárveltis hefur sjóðurinn ekki styrkt þessa einu íslensku tækniþróun á sviði endurnýjanlegrar sjávarorku. Engin merki sjást um að bæta eigi fjárhag sjóðsins.

Hinsvegar voru gerð stórfelld mistök við breytingu á lögum nr 87/2003 um Orkustofnun árið 2014, þegar felldur var út 2.tölul. 2.mgr. 8.gr laganna. Þessi töluliður kvað á um heimildir Orkusjóðs til „að veita styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerðar tækja og búnaðar til rannsóknar og nýtingar orkulinda“. Ætlunin var að fella úr orðið „áhættulán“, þar sem þau voru ekki veitt, eins og sjá má í greinargerð lagabreytinganna. En fyrir flumbrugang atvinnuvegaráðuneytisins var allur töluliðurinn felldur út. Alþingismenn virtust ekkert taka eftir þessum mistökum, heldur samþykktu hina gölluðu lagabreytingu án nokkurrar umræðu eða athugasemda.

Skaðsemi þessara mistaka atvinnuvegaráðuneytisins og Alþingis bitnaði samstundis á verkefnum Valorku og öðrum tækniþróunarverkefnum á sviði orkutækni; þeim verkefnum hefur síðan verið synjað um allan stuðning úr Orkusjóði. Öllum geta orðið á mistök, en hér brá svo við að Alþingi daufheyrðist við öllum ábendingum og beiðnum um leiðréttingu. Á sama tíma undirrituðu ráðamenn með hinni höndinni alþjóðslegar skuldbindingar, s.s. Parísarsáttmálann, sem kveða á um að íslensk stjórnvöld styðji þróun orkutækni sem stuðlar að alþjóðlegum markmiðum um orkuskipti á heimsvísu. Þeim skuldbindingum hafa íslensk stjórnvöld brugðist, sem sést best á því að þessu leiðandi verkefni á sviði sjávarorku hefur verið synjað um allan opinberan stuðning.

Spilling í íslensku stjórnkerfi hefur að öllum líkindum einnig átt þátt í þessum synjunum. Valorka benti á það árið 2015 að þáverandi formaður ráðgjafarnefndar Orkusjóðs braut vanhæfisreglur við úthlutun styrkja og staðfesti umboðsmaður Alþingis það. Í kjölfarið hrökklaðist sá formaður úr því starfi, en hann hefur lengi verið einn af framámönnum stærsta stjórnmálaflokks landsins; þess flokks sem farið hefur með ráðuneyti nýsköpunar um langa hríð. Framkvæmdastjóri Valorku er einnig formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna; einu hagsmunasamtaka hugvitsfólks í landinu, sem atvinnuvegaráðuneytið reynir nú af alefli að koma fyrir kattarnef og hefur svipt öllum stuðningi. Allt bendir þetta til spillingar í stjórnkerfinu; óeðlilegra stjórnarhátta sem bitna mjög á nýsköpun og framförum. Nauðsynlegt er að við alla lagasetningu í nýsköpunarumhverfinu sé fremur reynt að vinna gegn spillingu en búa til jarðveg fyrir hana.

Það sem jákvætt má segja um þessi frumvarpsdrög að lögum um Orkusjóð er að um hann eru nú sett sérlög, en áður var Orkusjóður hluti af lögum um Orkustofnun. Með því virðist það gefið í skyn að sjóðurinn eigi að fá meira vægi og verða sjálfstæðari í störfum sínum en áður var. Í stað ráðgjafarnefndar kemur þriggja manna stjórn. En þetta er líka allt og sumt, og fremur villandi.

Samkvæmt heimildum Valorku stendur ekki til að breyta neinu í framkvæmd eða hlutverki sjóðsins og enn er hann í slíku fjársvelti á þessu ári að ekkert verður gert utan þeirra gæluverkefna stjórnvalda sem hann hefur haft á hendi síðustu misseri; einkum á sviði rafbílavæðingar og kyndingar á köldum svæðum. Sjóðnum eru engar fjárveitingar ætlaðar til stuðnings við nýsköpun og tækniþróun á sviði orkumála.

Hlutverk Orkusjóðs er algerlega óbreytt í hinum nýju lögum. Orðalag um hlutverk er að mestu tekið hrátt úr gömlu lögunum. Þó er bætt inn setningu um „samkeppnishæfni á sviði orkumála“. Það gæti vakið einhverjar vonir fyrir verkefni á borð við verkefni Valorku; sem einkum miða að tækniþróun og íslenska framleiðslu fyrir heimsmarkað; og að Íslendingar öðlist forystu á vissu sviði orkuframleiðslu. Í ljósi þess hvernig stjórnvöld hafa markvisst þjarmað að því verkefni, og í ljósi þess að engar fjárveitingar fylgja þessum fyrirheitum, má ætla að hér sé um innantóm orð að ræða. Orkusjóður mun að óbreyttu ekki sinna þessu hlutverki fremur en undanfarin ár; hvað sem líður orðalagi laganna.

Frumvarpstillagan gerir ráð fyrir að stjórn Orkusjóðs verði pólitískt skipuð, en ekki valin útfrá hæfnissjónarmiðum. Slíkt sleifarlag hefur oftast verið viðhaft við skipan í stjórnir nýsköpunarsjóða, og er hluti þeirrar flokkspólitísku íhlutunar sem mjög háir allri nýsköpun í landinu. Ekki er í þessum lögum gerð minnsta tilraun til að tryggja fagmennsku í stjórn sjóðsins; heldur skal hinn pólitíski ráðherra vera alvaldur og einráður um stjórnarskipanina og þar með um starfsemi sjóðsins. Gera má því ráð fyrir að þar verði einvalalið flokkssystkina ráðherra. Ekki er því mikil von til þess að sjóðurinn starfi á óvilhallan hátt.

Umsögn Valorku er því í stuttu máli sú að hér sé, að óbreyttu, illilega misnotað það tækifæri sem býðst með nýjum lögum til að undirbyggja heilbrigðan og nauðsynlegan stuðning við þróun orkutækni og orkunotkunar í landinu. Miklar byltingar eru framundan á heimsvísu með þeim orkuskiptum sem heimsríki hafa þegar komið sér saman um að nauðsynleg séu. Ný orkutækni er í hraðri þróun og nýir markaðir eru að opnast um allan heim fyrir hana; knúnir áfram af þessum orkuskiptum. Íslensk stjórnvöld eru enn algerlega steinsofandi og ómeðvituð um þau tækifæri sem þessar breytingar gætu fært íslenskri þjóð. Andstaðan við verkefni Valorku eru skýrt dæmi um það, en einnig sú lagasetning sem hér er á ferð.

Valorka skorar því á Alþingi að samþykkja ekki þetta ófullburða frumvarp sem lög; heldur beita sér fyrir því að efla og styrkja grundvöll Orkusjóðs með framsæknum og raunhæfum lögum sem þjóna viðkomandi geirum fremur en pólitískum flokkahagsmunum. Ekki mun standa á Valorku eða öðrum frumkvöðlum að leggja ráð og reynslu að þeirri lagasmíð.

08.02.2020

Valdimar Össurarson frkvstj Valorku

Afrita slóð á umsögn

#2 Samband íslenskra sveitarfélaga - 10.02.2020

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpsdrögin.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Erla Björgvinsdóttir - 10.02.2020

Meðfylgjand er umsögn Landsvirkjunar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Samtök iðnaðarins - 10.02.2020

Góðan dag.

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins um frumvarpsdrögin.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Orkuveita Reykjavíkur - 10.02.2020

Góðan daginn

Hjálagt fylgir umsögn Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga um frumvarp til laga um Orkusjóð.

Bkv. Íris Lind

Viðhengi