Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 28.1.–12.2.2020

2

Í vinnslu

  • 13.2.2020–13.9.2021

3

Samráði lokið

  • 14.9.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-19/2020

Birt: 28.1.2020

Fjöldi umsagna: 3

Drög að frumvarpi til laga

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fjölmiðlun

Frumvarp – breyting á fjölmiðlalögum nr. 38/2011 (EES-innleiðing)

Niðurstöður

Frumvarp til breytinga á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 um innleiðingu tilskipunar 2018/1808/ESB var sett í samráðsgátt 28. janúar 2020 og var veittur frestur til og með 12. febrúar 2020 til að skila inn umsögnum. Á þessu tímabili barst ein umsögn frá Félagi heyrnarlausra. Að auki bárust tvær umsagnir eftir formlegan frest í samráðsgátt, annars vegar frá Sýn hf. og hins vegar frá Sambandi íslenskra kvikmyndagerðarmanna. Ráðuneytisins telur að þær umsagnir sem bárust séu þess eðlis að þær kalli ekki á breytingar á frumvarpinu.

Málsefni

Drög að frumvarpi til breytinga á fjölmiðlalögum nr. 38/2011 vegna fyrirhugaðrar innleiðingar í landsrétt á tilskipun 2018/1808/ESB, frá 14. nóvember 2018, sem breytir tilskipun 2010/13/EB um hljóð- og myndmiðlun.

Nánari upplýsingar

Mennta- og menningarmálaráðuneytið óskar umsagna um drög að frumvarpi um breytingar á fjölmiðlalögum nr. 38/2011 vegna innleiðingar á tilskipun 2018/1808/ESB um breytingu á tilskipun 2010/13/ESB um hljóð- og myndmiðlun.

Í mati framkvæmdastjórnar ESB á tilskipun nr. 2010/13/ESB um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu kom meðal annars fram að hún fæli ekki í sér fullnægjandi vernd barna og neytenda á mynddeiliveitum. Einnig var leitt í ljós ósamræmi á milli krafna sem gerðar væru til línulegrar og ólínulegrar miðlunar og að reglur tilskipunarinnar um viðskiptaboð þyrfti að endurskoða. Að baki breytingartilskipuninni liggur einnig að áhorfsvenjur fólks hafa breyst og þá sérstaklega barna. Línulegt áhorf hefur minnkað og meira er horft á efni í ólínulegri dagskrá og á mynddeiliveitum. Nauðsynlegt var talið að reglur um fyrrnefndar miðlunarleiðir yrðu samræmdar til að stuðla að jafnræði fjölmiðla óháð þeirri miðlunarleið sem þeir kjósa. Þá hefur einnig orðið gífurleg tækniþróun á undanförnum árum, þá sérstaklega þegar litið er til þess hvernig efni er miðlað og því nauðsynlegt að lagaumhverfið endurspegli þær breytingar. Frumvarpið mælir ekki fyrir um aðrar breytingar en sem leiða má af tilskipun 2018/1808/ESB.

• Lagt er til að svonefnd mynddeiliþjónusta (e. video sharing platform) geti fallið undir lögsögu fjölmiðlanefndar og tilteknar nýjar efnisreglur í fjölmiðlalögum. Þessi breyting er nýmæli þar sem slík fyrirtæki hafa ekki verið skilgreind sem fjölmiðlar (YouTube, Facebook, Instagram o.fl.). Með nokkuð ítarlegum lögsögureglum er kveðið á um staðfesturíki mynddeiliveitna, þ.e. undir lögsögu hvaða EES-ríkis starfsemi þeirra heyrir.

• Með ítarlegum hætti er kveðið á um þær „viðeigandi ráðstafanir“ sem mynddeiliveitur þurfa að grípa til í því skyni að vernda börn og ungmenni fyrir efni og notendaframleiddu efni sem getur haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðislegan þroska þeirra. Óheimilt verður að dreifa efni sem hvetur til ofbeldis, haturs og refsiverðs verknaðar. Sérstaklega er tilgreint hvatning til hryðjuverka og efni sem lýtur að kynþátta- og útlendingahatri. Að sama skapi er skerpt á sambærilegum reglum sem gilda fyrir fjölmiðla.

• Ákvæði er um upprunaland fjölmiðlaþjónustu og hvernig skuli bregðast við efni sem sjónvarpað er frá einu ríki en er beint til notenda í öðru ríki hafa verið endurskoðuð með tilliti til þess að það ríki sem efninu er beint að og sem telur að efnið brjóti gróflega gegn lögum þess, geti stöðvað slíkar útsendingar eða krafist þess að upprunaríkið grípi til viðeigandi aðgerða.

• Gerð verður krafa um að 30% af framboði myndefnis eftir pöntun verði evrópsk verk. Þá verða auglýsingareglur rýmkaðar þannig að hámark auglýsinga verður 20% á tilteknum tímabilum en ekki bundið við 20% á klukkustund eins og nú gildir. Aðrar breytingar eru minni háttar.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Mennta- og menningarmálaráðuneyti

mrn@mrn.is