Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 31.1.–31.3.2020

2

Í vinnslu

  • 1.4.–2.6.2020

3

Samráði lokið

  • 3.6.2020

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-22/2020

Birt: 31.1.2020

Fjöldi umsagna: 1

Drög að reglugerð

Heilbrigðisráðuneytið

Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Drög að nýrri reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss til að starfa hér á landi

Niðurstöður

Reglugerðin hefur verið samþykkt og birt á vef Stjórnartíðinda og fengið númerið 510/2020.

Málsefni

Reglugerðin innleiðir tilskipun 2013/55/EB um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi sem innleidd var með reglugerð nr. 461/2011. Sú reglugerð verður felld brott og er hér um nýja reglugerð að ræða um svipað efni.

Nánari upplýsingar

Reglugerð þessi innleiðir tilskipun 2013/55/EB um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi sem innleidd var hér á landi með reglugerð nr. 461/2011, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum. Reglugerðin var sett af ráðherra sem fer með málefni mennta- og menningarmála með stoð í lögum nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, en ekki hefur verið lagastoð fyrir heilbrigðisráðherra til að undirrita reglugerðina. Með breytingu á 9. gr. laga nr. 26/2010 árið 2012 er heilbrigðisráðherra nú heimilt að gefa út reglugerðir með samsvarandi hætti og segir í 2. mgr. 9. gr. fyrir þær starfsstéttir sem heyra undir hann.

Nú hefur mennta- og menningarmálaráðherra mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 26/2010 sem miðast við að leiða í lög öll nauðsynleg nýmæli tilskipunar 2013/55/ESB (þskj. 522 — 389. mál). Samhliða hófst vinna við hjálagða reglugerð sem setja þarf í framhaldi vegna lögverndaðra heilbrigðisstétta og mun mennta- og menningarmálaráðherra þá fella úr gildi reglugerð nr. 461/2011.

Þrátt fyrir að frumvarpið hafi ekki verið samþykkt af Alþingi þykir ráðuneytinu rétt að birta á þessu stigi drög að reglugerð til umsagnar á Samráðsgátt stjórnvalda, í því skyni að gefa fagfélögum heilbrigðisstétta og menntastofnunum heilbrigðsmála, sem og heilbrigðisstofnunum langan tíma til að kynna sér efni reglugerðarinnar, enda umfangsmikil.

Tilskipun 2013/55/ESB sem breytir tilskipun 2005/36/EB tók gildi í aðildarríkjum ESB í janúar 2016. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í maí 2017 og verður innleidd hér á landi með breytingu á lögum nr. 26/2010 og reglugerðum sem settar verða með stoð í þeim lögum. Viðurkenning faglegrar menntunar og hæfis er og hefur verið ein af grunnstoðum EES-samstarfsins frá árinu 1994. Á þeim tíma giltu 15 mismunandi tilskipanir um viðurkenningu faglegrar menntunar en þær voru sameinaðar í eina árið 2005. Mikilvægi tilskipunarinnar felst í þeim réttindum sem hún tryggir þeim sem hafa aflað sér faglegrar menntunar til starfa hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu og réttinum til viðurkenningar á menntun og hæfi, óháð því hvar menntunar var aflað.

Helstu breytingar sem gerðar eru á reglugerð nr. 461/2011 með nýrri tilskipun og hjálagðri reglugerð eru eftirtaldar:

• Upptaka evrópsks fagskírteinis (e. European Professional Card, EPC) fyrir einstakar starfsgreinar sem ætlað er að greiða fyrir för starfsmanna á innri markaðnum og auðvelda viðurkenningu á faglegri menntun.

• Fyrirkomulag varðandi viðvaranir, en aðildarríkin eiga að tilkynna lögbærum yfirvöldum aðildarríkjanna þegar starfsréttindi eru takmörkuð í heild eða að hluta innan þriggja daga.

• Starfsnámsnemendur eiga þess kost að fá viðurkennt vinnustaðanám innan löggiltra starfsgreina sem fer fram annars staðar en í heimalandinu.

Tillaga skrifstofu lýðheilsu og forvarna er að reglugerðin verði birt á Samráðsgátt stjórnvalda þrátt fyrir að frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 26/2010 hafi ekki verið samþykkt á Alþingi, enda verður svigrúm að loknu umsagnarferli á Samráðsgáttinni til að gera breytingar á reglugerðinni ef frumvarpið tekur breytingum á þinginu.´

Hér má nálgast samanskeytta tilskipun 2005/36/EB á ensku, svokölluð consolidated draft of the directive:

https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=CELEX:02005L0036-20190415

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa lýðheilsu og forvarna

hrn@hrn.is