Samráð fyrirhugað 31.01.2020—31.03.2020
Til umsagnar 31.01.2020—31.03.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 31.03.2020
Niðurstöður birtar 03.06.2020

Drög að nýrri reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss til að starfa hér á landi

Mál nr. 22/2020 Birt: 31.01.2020 Síðast uppfært: 03.06.2020
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Niðurstöður birtar

Reglugerðin hefur verið samþykkt og birt á vef Stjórnartíðinda og fengið númerið 510/2020.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 31.01.2020–31.03.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 03.06.2020.

Málsefni

Reglugerðin innleiðir tilskipun 2013/55/EB um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi sem innleidd var með reglugerð nr. 461/2011. Sú reglugerð verður felld brott og er hér um nýja reglugerð að ræða um svipað efni.

Reglugerð þessi innleiðir tilskipun 2013/55/EB um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi sem innleidd var hér á landi með reglugerð nr. 461/2011, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum. Reglugerðin var sett af ráðherra sem fer með málefni mennta- og menningarmála með stoð í lögum nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, en ekki hefur verið lagastoð fyrir heilbrigðisráðherra til að undirrita reglugerðina. Með breytingu á 9. gr. laga nr. 26/2010 árið 2012 er heilbrigðisráðherra nú heimilt að gefa út reglugerðir með samsvarandi hætti og segir í 2. mgr. 9. gr. fyrir þær starfsstéttir sem heyra undir hann.

Nú hefur mennta- og menningarmálaráðherra mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 26/2010 sem miðast við að leiða í lög öll nauðsynleg nýmæli tilskipunar 2013/55/ESB (þskj. 522 — 389. mál). Samhliða hófst vinna við hjálagða reglugerð sem setja þarf í framhaldi vegna lögverndaðra heilbrigðisstétta og mun mennta- og menningarmálaráðherra þá fella úr gildi reglugerð nr. 461/2011.

Þrátt fyrir að frumvarpið hafi ekki verið samþykkt af Alþingi þykir ráðuneytinu rétt að birta á þessu stigi drög að reglugerð til umsagnar á Samráðsgátt stjórnvalda, í því skyni að gefa fagfélögum heilbrigðisstétta og menntastofnunum heilbrigðsmála, sem og heilbrigðisstofnunum langan tíma til að kynna sér efni reglugerðarinnar, enda umfangsmikil.

Tilskipun 2013/55/ESB sem breytir tilskipun 2005/36/EB tók gildi í aðildarríkjum ESB í janúar 2016. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í maí 2017 og verður innleidd hér á landi með breytingu á lögum nr. 26/2010 og reglugerðum sem settar verða með stoð í þeim lögum. Viðurkenning faglegrar menntunar og hæfis er og hefur verið ein af grunnstoðum EES-samstarfsins frá árinu 1994. Á þeim tíma giltu 15 mismunandi tilskipanir um viðurkenningu faglegrar menntunar en þær voru sameinaðar í eina árið 2005. Mikilvægi tilskipunarinnar felst í þeim réttindum sem hún tryggir þeim sem hafa aflað sér faglegrar menntunar til starfa hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu og réttinum til viðurkenningar á menntun og hæfi, óháð því hvar menntunar var aflað.

Helstu breytingar sem gerðar eru á reglugerð nr. 461/2011 með nýrri tilskipun og hjálagðri reglugerð eru eftirtaldar:

• Upptaka evrópsks fagskírteinis (e. European Professional Card, EPC) fyrir einstakar starfsgreinar sem ætlað er að greiða fyrir för starfsmanna á innri markaðnum og auðvelda viðurkenningu á faglegri menntun.

• Fyrirkomulag varðandi viðvaranir, en aðildarríkin eiga að tilkynna lögbærum yfirvöldum aðildarríkjanna þegar starfsréttindi eru takmörkuð í heild eða að hluta innan þriggja daga.

• Starfsnámsnemendur eiga þess kost að fá viðurkennt vinnustaðanám innan löggiltra starfsgreina sem fer fram annars staðar en í heimalandinu.

Tillaga skrifstofu lýðheilsu og forvarna er að reglugerðin verði birt á Samráðsgátt stjórnvalda þrátt fyrir að frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 26/2010 hafi ekki verið samþykkt á Alþingi, enda verður svigrúm að loknu umsagnarferli á Samráðsgáttinni til að gera breytingar á reglugerðinni ef frumvarpið tekur breytingum á þinginu.´

Hér má nálgast samanskeytta tilskipun 2005/36/EB á ensku, svokölluð consolidated draft of the directive:

https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=CELEX:02005L0036-20190415

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Embætti landlæknis - 25.03.2020

Umsögn embættis landlæknis um drög að reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss til að starfa hér á landi

Vísað er til tölvubréfs heilbrigðisráðuneytisins, dags. 31. janúar sl., þar sem vakin er athygli á því að drög að nýrri reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss til að starfa hér á landi, hafi verið birt á Samráðsgátt stjórnvalda og verði þar til umsagnar til 31. mars nk.

Embætti landlæknis telur drögin heilt yfir vönduð og að þau útfæri ákvæði tilskipunar 2013/55/EB með skýrum og greinargóðum hætti. Embættið vill þó nefna fáein atriði sem lúta að ákvæðum reglugerðardraganna.

Í fyrsta lagi bendir embætti landlæknis á 4. gr. reglugerðardraganna sem kveður á um áhrif viðurkenningar. Enski texti 4. gr. samskeyttrar tilskipunar 2005/36/EB með síðari breytingum hljóðar svo:

„1. The recognition of professional qualifications by the host Member State shall allow beneficiaries to gain access in that Member State to the same profession as that for which they are qualified in the home Member State and to pursue it in the host Member State under the same conditions as its nationals.

2. For the purposes of this Directive, the profession which the applicant wishes to pursue in the host Member State is the same as that for which he is qualified in his home Member State if the activities covered are comparable.

3. By way of derogation from paragraph 1, partial access to a profession in the host Member State shall be granted under the conditions laid down in Article 4f.“

Í 1. mgr. 4. gr. draganna segir að heilbrigðisstarfsmaður sem fái starfsleyfi eða sérfræðileyfi, sem veitt sé hér á landi skv. III og IV. kafla, geri honum kleift að fá aðgang að sama starfi og hann hafi gegnt í heimaaðildarríki sínu og leggi stund á hana með sömu skilyrðum og ríkisborgarar Íslands. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. er starf sem umsækjandi óskar eftir að leggja stund á hér á landi hið sama og hann hefur gegnt í heimaaðildarríki sínu ef starfsemin, sem um ræðir, er sambærileg og uppfyllir skilyrði tilskipunarinnar.

Embættið telur að ráða megi af 4. gr. tilskipunarinnar að gistiaðildarríki beri að viðurkenna starfsréttindi, þ.e. faglega menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanns til þess að stunda starfsgrein í sínu heimaaðildarríki, og á heilbrigðisstarfsmaður rétt á að leggja stund á sömu starfsgrein hér á landi með sömu skilyrðum og íslenskir ríkisborgarar. Þetta eigi einnig við um þá sem lokið hafa námi í sínu heimaríki en hafa ekki starfað í viðkomandi starfsgrein svo framarlega sem viðkomandi uppfyllir öll skilyrði til að stunda starfsgreinina. Samkvæmt 4. gr. draganna er heilbrigðisstarfsmanni, frá öðru aðildarríki EES, hins vegar unnt að fá aðgang að sama starfi og hann gegndi í sínu heimaríki hér á landi þ.e. miðað er við að viðkomandi hafi þegar fengið útgefið starfsleyfi/sérfræðileyfi. Ákvæði 1. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar virðist því víðtækara en 4. gr. reglugerðardraganna sem tekur aðeins til heilbrigðisstarfsmanna sem þegar hafa fengið útgefið starfsleyfi/sérfræðileyfi í sínu heimaríki.

Þá er lagt til að skilgreint sé sérstaklega í reglugerðinni hvað átt sé við með hæfnisvottorði, sbr. t.d. 1. mgr. 19. gr. draganna þar sem hinu almenna kerfi til viðurkenningar á vitnisburði um nám, til að hljóta starfsleyfi þegar lágmarkskröfur um menntun eru ekki samræmdar, er lýst sem og 1. mgr. 20. gr. sem mælir fyrir um kröfur sem gera má ef starfsgrein er ekki lögvernduð í því ríki sem umsækjandi kemur frá. Ekki er að finna sérstaka skilgreiningu á hæfnisvottorði í 3. gr. draganna en lagt er til að henni verði bætt við þá grein. Einnig mætti tiltaka hver gæfi slíkt vottorð út.

Um forathugun segir í 2. mgr. 35. gr. draganna að landlækni sé heimilt að kanna faglega menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna áður en hann veitir þjónustu innan lögverndaðrar starfsgreinar í fyrsta sinn. Samkvæmt ákvæðinu er slík forathugun leyfileg þegar tilgangur athugunarinnar er að koma í veg fyrir að heilsa og öryggi sjúklings bíði alvarlegan hnekki vegna ófullnægjandi menntunar og hæfis heilbrigðisstarfsmanns og athugunin gengur ekki lengra en nauðsynlegt er. Þetta gildi þó ekki um starfsréttindi lækna, tannlækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og lyfjafræðinga sem hljóta starfsleyfi skv. III. kafla. Þá kemur fram í 2. mgr. 8. gr. draganna að fyrir störf sem njóti sjálfkrafa viðurkenningar, þar sem ekki er gerð krafa um forathugun, skuli landlæknir ákveða hvort gefa eigi út evrópskt fagskírteini innan eins mánaðar frá viðtöku umsóknar sem heimaaðildarríki sendi. Embætti landlæknis telur óljóst hvað fallið geti undir forathugun sem gangi ekki lengra en nauðsynlegt sé. Því er lagt til að þetta verði skýrt nánar í reglugerðinni eða tekið dæmi um slíka forathugun sem embættið gæti haft hliðsjón af við afgreiðslu umsókna um starfleyfi/sérfræðileyfi.

Embætti landlæknis telur orka tvímælis, að virtri 38. gr. draganna, hvort lágmarks tungumálakrafa geti verið skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis/sérfræðileyfis. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. draganna getur athugun á tungumálakunnáttu aðeins farið fram eftir útgáfu evrópsks fagskírteinis eða eftir viðurkenningu á formlegri menntun og hæfi eftir því sem við á og skal könnunin miðast við það starf sem sótt er um að iðka. Samkvæmt upplýsingum sem starfsleyfateymi embættis landlæknis aflaði á fundi starfsleyfateyma Norðurlandanna á síðasta ári gera bæði stjórnvöld í Svíþjóð og á Finnlandi kröfur um tiltekna lágmarks tungumálakunnáttu og er hún skilyrði fyrir útgáfu starfs- og sérfræðileyfa í þeim löndum. Að sögn fulltrúa þessara landa hafa eftirlitsstofnanir ESB/ESA ekki gert athugasemdir við þessa tilhögun. Embættinu þykir óljóst hvernig slík athugun geti farið fram og hvaða afleiðingar það hafi sé tungumálakunnátta heilbrigðisstarfsmannsins metin ófullnægjandi.

Loks vekur embætti landlæknis athygli á því að í 4. mgr. 42. gr. reglugerðardraganna er mælt svo fyrir um að landlæknir skuli birta leiðbeiningar um skipulag og viðurkenningu starfsþjálfunar sem farið hefur fram í öðru ríki. Embættið telur ákvæðið óljóst og bendir á að óraunhæft sé að því verði gert skylt að gefa út slíkar leiðbeiningar. Embættið leggur til að öðrum, sem búa yfir nauðsynlegri sérþekkingu, verði falið þetta verkefni.