Samráð fyrirhugað 31.01.2020—21.02.2020
Til umsagnar 31.01.2020—21.02.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 21.02.2020
Niðurstöður birtar

Frumvarp til breytinga á lögum um lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga, nr. 110/2000 og lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, nr. 44/2014

Mál nr. 23/2020 Birt: 31.01.2020 Síðast uppfært: 13.02.2020
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 31.01.2020–21.02.2020. Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Frumvarp til breytinga á lögum um lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga, nr. 110/2000 og lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, nr. 44/2014

Frestur til að skila inn umsögn hefur verið framlengdur til 21. febrúar nk.

Frumvarp til breytinga á lögum um lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga, nr. 110/2000 og lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, nr. 44/2014 sem hér er til kynningar og samráðs er samið í heilbrigðisráðuneytinu. Á 149. löggjafarþingi var samþykkt þingsályktunartillaga heilbrigðisráðherra um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Með heilbrigðisstefnunni hefur verið mótuð framtíðarsýn fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu til ársins 2030. Í heilbrigðisstefnunni er meðal annars kveðið á um að vísindarannsóknir á heilbrigðissviði hér á landi eiga að vera sterk stoð heilbrigðiskerfisins og standast alþjóðlegan samanburð að gæðum og umfangi. Vísindarannsóknir hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna um þróun heilbrigðisþjónustu sem liður í menntun heilbrigðisstarfsfólks og forsenda þess að skapa eftirsóknarvert starfsumhverfi fyrir hæft starfsfólk í öllum heilbrigðisstéttum. Til að tryggja að menntun, vísindi og nýsköpun stuðli að áframhaldandi þróun heilbrigðisþjónustunnar er eitt af stefnumiðum heilbrigðisstefnunnar til ársins 2030 að gagnagrunnar og lífsýnasöfn innan heilbrigðiskerfisins séu opin og aðgengileg vísindamönnum sem öðlast hafa tilskilin leyfi til vísindarannsókna. Markmið frumvarpsins er að auka þann aðgang sem vísindamenn hafa nú þegar að bæði fyrirliggjandi heilbrigðisgögnum og heilbrigðisgögnum sem safnast og verða til í vísindarannsóknum á heilbrigðissviði og varðveitt eru til frambúðar í safni heilbrigðisupplýsinga eða lífsýnasafni. Frumvarpinu er þannig ætlað að uppfylla stefnumið áðurnefndrar þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Til þess að uppfylla stefnumið heilbrigðisstefnunnar er talið rétt að rýmka þær reglur sem gilda nú þegar um aðgang vísindamanna að heilbrigðisgögnum.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga, nr. 110/2000, og lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, nr. 44/2014.

Lögð er til breyting á 2. máls. 1. mgr. 7. gr. b laga um lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga, nr. 110/2000. Í sömu lögum er lögð til breyting á 3. mgr. 9. gr. og 4. málsl. 4. mgr. 13. gr. a. Þessar breytingar eru lagðar til með það markmið í huga að einfalda umsóknarferli umsókna um aðgang að heilbrigðisgögnum og auka aðgengi að þeim.

Lögð er til breyting á 4. mgr. 19. gr. og 2. mgr. 27. gr. laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, nr. 44/2014. Breytingunni á 4. mgr. 19. gr. laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði er ætlað að tryggja aðgang vísindamanna að gögnum úr vísindarannsóknum á heilbrigðissviði sem varðveitt eru til frambúðar í safni heilbrigðisupplýsinga. Þá er lögð til breyting á 2. mgr. 27. gr. laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, nr. 44/2014. Þeirri breytingu er ætlað að gera heilbrigðisgögn aðgengilegri vísindamönnum sem hafa tilskilin leyfi með því að einfalda núverandi umsóknarferli.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.