Samráð fyrirhugað 05.02.2020—24.02.2020
Til umsagnar 05.02.2020—24.02.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 24.02.2020
Niðurstöður birtar 12.03.2020

Tillaga til þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

Mál nr. 25/2020 Birt: 05.02.2020 Síðast uppfært: 12.03.2020
  • Forsætisráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
  • Leikskólar, grunnskólar, framhaldsfræðsla og stjórnsýsla mennta- og menningarmála
  • Framhaldsskólastig
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa

Niðurstöður birtar

Alls bárust 11 umsagnir. Almennt lýstu umsagnaraðilar ánægju með stefnudrögin og aðgerðaáætlunina sem þeim fylgir. Til að bregðast við athugasemdum voru gerðar nokkrar breytingar á áætluninni einkum er lúta að betri útfærslu hvað varðar forvarnir gegn ofbeldi og áreitni sem beinist gegn fötluðum börnum og ungmennum. Í niðurstöðuskjali má finna samantekt allra umsagna.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 05.02.2020–24.02.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 12.03.2020.

Málsefni

Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir að forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni verði samþættar við kennslu og starf á öllum skólastigum og eigi sér einnig stað innan frístundaheimila, félagsmiðstöðva og íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins skipaði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi í upphafi árs 2018. Meginhlutverk hópsins er að beita sér fyrir framsæknum og samhæfðum aðgerðum stjórnvalda gegn kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni og að Ísland sé í fremstu röð í baráttunni gegn hvers kyns ofbeldi. Meðal verkefna hópsins er að móta stefnu gegn stafrænu ofbeldi, leggja til leiðir til að styrkja réttarstöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum, gera tillögu um samræmd viðbrögð stjórnvalda við #églíka (#metoo)-hreyfingunni, og að vinna að heildartillögum er varðar forvarnir og fræðslu gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Stýrihópurinn lagði til skipan sérstakrar ráðgefandi nefndar um mótun stefnu í forvörnum og fræðslu í því skyni að tryggja aðkomu stofnana sem gegna þýðingarmiklu hlutverki í forvarnamálum og standa fyrir víðtæku samráði við stofnanir, fræðafólk og félagasamtök sem koma að forvarna- og fræðslumálum. Vinna nefndarinnar fór fram með reglulegum fundum, lokuðum samráðsfundum með fræðafólki, frjálsum félagasamtökum og fulltrúum stofnana og opnu málþingi sem haldið var í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands um forvarnir og fræðslu meðal barna og ungmenna.

Nefndin skilaði tillögum sínum til stýrihóps forsætisráðherra um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi í janúar 2020 og í framhaldinu til ráðherranefndar um jafnréttismál. Byggir þingsályktunartillagan á tillögum nefndarinnar.

Í tillögunni er sett fram sú framtíðarsýn að kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni eigi sér hvergi stað í íslensku samfélagi. Vísað er til þess að ofbeldi og áreitni er samfélagslegur vandi og því þarf að uppræta þá þætti í samfélagsgerðinni sem leyfa slíku ofbeldi að viðgangast. Kynferðislegt og kynbundið ofbeldi er bæði orsök og afleiðing annars kynjamisréttis og verður aðeins upprætt með samhentu átaki sem byggir á djúpstæðum skilningi á eðli og afleiðingum slíks ofbeldis. Öflug forvarnastefna er lykilþáttur í þeirri vegferð. Með forvörnum er leitast við að fyrirbyggja kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni en einnig að draga úr þeim skaða sem slík háttsemi hefur á þolendur og aðstandendur þeirra. Markviss viðbrögð við kynferðislegu og kynbundu ofbeldi og áreitni – og hegðun sem ýtir undir slíkt – er liður í forvörnum til framtíðar. Þannig er ekki aðeins nægjanlegt að fjalla um ofbeldi og áreitni, heldur einnig að ýta undir samskipti virðingar og jafnréttis fólks í milli. Markviss viðbrögð þurfa einnig að taka til þeirra sem beita ofbeldi svo þeir axli ábyrgð á sínum gjörðum, sem hefur forvarnagildi í sjálfu sér.

Á undanförnum árum hefur meðvitund um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni aukist til muna í íslensku samfélagi, meðal annars fyrir tilstilli frjálsra félagasamtaka, fræðilegra rannsókna og samfélagsbyltinga á borð við #églíka eða #metoo og #höfumhátt. Stjórnvöld hafa gripið til margvíslegra aðgerða með það að markmiði að sporna gegn slíku ofbeldi sem og að bregðast við afleiðingum þess. Í þessu samhengi má nefna aðgerðir sem lúta að málsmeðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu, þingsályktun um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, Vitundarvakningu um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum sem fram fór á árunum 2012–2015 og stefnumótun um kynferðislega friðhelgi (stafrænt kynferðisofbeldi).

Þrátt fyrir viðamikið starf hefur aldrei verið mótuð heildstæð stefna um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Fjölmargir starfshópar hafa þó kallað eftir því, auk þess sem ríkar kröfur hvíla á íslenskum stjórnvöldum vegna alþjóðlegra skuldbindinga, sem nánar verður fjallað um í III. kafla þessarar greinargerðar, sem og í samhengi við innlenda lagasetningu. Má þar nefna að eitt af markmiðum laga nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla er að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og að samkvæmt Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem fullgiltur var á Íslandi árið 1992 og lögfestur árið 2013 ber stjórnvöldum að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal á sviði félags- og menntunarmála, til að vernda börn gegn hvers kyns ofbeldi, þar á meðal kynferðislegri misnotkun.

Aðgerðaáætlunin sem sett fram með þingsályktuninni er lykilþáttur í þeirri vegferð stjórnvalda að uppræta þann samfélagslega vanda sem kynferðislegt og kynbundið ofbeldi er í íslensku samfélagi. Með forvörnum sem eru samþættar kennslu og starfi á öllum skólastigum, innan frístundarheimila og félagsmiðstöðva, íþrótta- og æskulýðsstarfs og í öðru tómstundarstarfi er leitast við að fyrirbyggja kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og einnig að draga úr þeim skaða sem slík háttsemi hefur á þolendur og aðstandendur þeirra. Slíkar forvarnir eru fyrirbyggjandi aðgerð sem ætlað er að auka umræðu og vitund ungmenna um skaðsemi kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og þau úrræði sem eru í boði hverju sinni. Mikilvægt er að mennta börn og ungmenni um heilbrigða kynhegðun, s.s. um mörk, stafrænt kynferðislegt ofbeldi, kynferðislega friðhelgi einstaklinga, samþykki og fleira.

Að meginstefnu til er nálgunin á forvarnir þríþætt:

1) Almennar forvarnir sem stuðla að sterkri sjálfsmynd og þekkingu á mörkum og markaleysi, þar á meðal í samskiptum kynjanna, samskiptum milli fullorðinna og barna og í öðrum tilfellum þar sem valdamisræmi kann að vera fyrir hendi;

2) efld kennsla um kynheilbrigði og kynhegðun, einkum í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum; og

3) opinská umfjöllun um eðli og birtingarmyndir kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni, þ.m.t. í samskiptum einstaklinga á milli með stafrænni tækni.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Arnrún Magnúsdóttir - 23.02.2020

Ég lýsi yfir mikilli ánægju með þessa forvarnartillögu, vona svo sannarlega að hún fái jákvætt brautargengi.

Undanfarin 20 ár hef ég unnið með leikskólastarfsfólki víða um land. Ég hef unnið börnum í leikskólum með markvissum forvörnum um kynferðislegt ofbeldi. Kennt þeim að setja mörk og skilgreina hvað ofbeldi er miðað við þeirra þroska hverju sinni. Hef aðstoðað börnin við að leysa úr ágreiningsmálum, markvisst er þeim kennt að setja mörk sama hver á í hlut, þau fá kennslu í hvert þau geta leytað og hvað eru eðlileg samskipti og hvað ekki. Samfélagið í dag með snjallsímum og aðgang ungra barna að internetinu þarf virkilega á því að halda að við bætum forvarnir í kynferðisofbeldi strax frá fæðingu.

Arnrún Magnúsdóttir leikskólakennari

fyrir hönd verkefnisins Fræðsla ekki hræðsla

Afrita slóð á umsögn

#2 Þroskahjálp,landssamtök - 24.02.2020

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi.

Landssamtökin Þorskahjálp lýsa ánægju með að í tillögunni eru ráðstafnir um að sérstaklega sé gætt að hagsmunum fatlaðra barna og ungmenna í forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að fræðsluefni og aðgerðir taki mið af sérstökum aðstæðum fatlaðra barna á öllum skólastigum.

Samtökin benda á að kveða mætti á með skýrari hætti um að það sama eigi við á vettvangi tómstunda-, æskulýðs- og íþróttamála. Nauðsynlegt er að fötluð börn og ungmenni njóti alls ekki síðri fræðslu og verndar en önnur börn og að ævinlega sé litið til aðstæðna þeirra og þarfa í aðgerðum sem undir ályktunina falla. Í því sambandi skal sérstaklega bent á mikilvægi þess að forvarna- og fræðsluefni sé á auðlesnu og aðgengilegu máli fyrir börn og ungmenni með þroskahamlanir.

Rannsóknir sýna og sanna svo ekki verður um villst að fötluð börn eru allt að þrisvar sinnum líklegri en önnur börn til að verða fyrir ofbeldi af öllu tagi. Áhættan er jafnvel enn meiri fyrir börn með þroskahömlun og skyldar fatlanir. Þá sýna þessar rannsóknir að fötluð börn mæti margvíslegum hindrunum hvað varðar möguleika þeirra til að upplýsa aðra um ofbeldi sem þau verða fyrir og til að fá viðeigandi aðstoð í samræmi við aðstæður þeirra og þarfir. Stjórnvöldum er skylt og mjög brýnt er að veita þessum hópi fullnægjandi stuðning og vernd gegn hvers kyns ofbeldi. Í 16. grein SRFF segir:

Aðildarríkin skulu taka upp skilvirka löggjöf og stefnu, einnig löggjöf og stefnu þar sem sérstakt tillit er tekið til kvenna og barna, til þess að tryggt sé að unnt sé að staðreyna og rannsaka misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar sem beinast gegn fötluðu fólki og ákæra vegna slíkrar háttsemi ef það á við.

Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem var lögfestur á Íslandi árið 2013 og í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja, er kveðið á um að hafa skuli samráð við fötluð börn og ungmenni í málum sem sérstaklega varða réttindi þeirra hagsmuni, líf og tilveru.

Í 4. grein SRFF segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Þroskahjálp telur augljóslega vera mjög mikilvægt að í þingsályktuninni verði fjallað um þá auknu áhættu sem fötluð börn og ungmenni búa við hvað varðar ofnbeldi af þessu tagi og að sérstök áhersla verði lögð á að safna áreiðanlegum tölfræðigögnum og rannsóknargögnum, eins og kveðið er á um að ríki skuli gera í 31. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en þar segir m.a.:

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og framfylgja stefnum samningi þessum til framkvæmdar. …

Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín.

Með vísan til þess sem að framan er rakið vilja Landssamtökin Þroskahjálp sérstaklega árétta eftirfarandi:

1. Mikilvægt er að samhliða fræðslu og vitundarvakningu verði lögð áhersla á að afla tölfræðigagna og rannsóknargagna um stöðu fatlaðra barna og ungmenna hvað varðar kynferðislegt og kynbundið ofbeldi.

2. Mikilvægt er að hafa samráð við fötluð börn og ungmenni við framkvæmd og útfærslu þeirra verkefna sem undir þingsályktunina falla,

Ungmennaráð Þroskahjálpar er þátttöku- og samráðsvettvangur ungs fólks með þroskahömlun sem er tilbúið til samvinnu og samráðs um verkefnið.

3. Við gerð fræðsluefnis er mikilvægt að hugað sé að því að búa til efni á auðlesnu máli fyrir ungt fólk með þroskahömlun og/eða einhverfu. Landssamtökin Þroskahjálp vinna nú að því að stofna miðstöðvar um auðlesinn texta sem gæti tekið að sér verkefni á þessu sviði.

4. Mikilvægt er að í þjálfun starfsfólks og í verkefnum sem miða að vitundarvakningu um kynferðilsegt og kynbundið ofbeldi sé sérstaklega hugað að viðkvæmri stöðu fatlaðra barna og ungmenna. Landssamtökin Þroskahjálp leggja mikla áherslu á hagsmuni og réttindi fatlaðra barna og ungmenna. Samtökin lýsa vilja til að vera ráðgefandi í því verkefni og vísa í því sambandi til þess sem segir um samráðsskyldur stjórnvalda í 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem vísað er til hér að framan.

Afrita slóð á umsögn

#3 Ólafur Grétar Gunnarsson - 24.02.2020

Tillaga til þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og

kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025

Sótt er um stuðning til að sinna

- Fræðslu fyrir nemendur í 9. bekk grunnskóla um samskipti kynjanna og um foreldrahlutverkið.

- Fræðslu og stuðningi fyrir unga verðandi foreldra til að hjálpa þeim að takast á við álagið sem fylgir foreldrahlutverkinu og umönnun ungbarna.

Greinargerð.

Ótímabærar þunganir, þar sem foreldrar eiga litla sögu saman eða eru mjög ung, eru algengari hér á landi en í löndunum í kringum okkur. Til eru gögn sem gefa vísbendingu um að svo hafi verið öll lýðveldisárin. Það sem við vitum um þennan hóp er að þar eru minni líkur á að samband foreldra haldist og að feður taki þátt í daglegum athöfnum og umönnun barnsins.

Ungir, óþroskaðir foreldrar, sem eiga erfitt með að taka fulla ábyrgð á sambúð og uppeldi barns, eru líkleg til að skilja sem veldur erfiðleikum fyrir barnið og er kostnaðarsamt fyrir samfélagið. Mikill meirihluti alvarlegra geðvandamála á sér stað fyrir tuttugu og fjögurra ára aldur, meiri hætta er á fæðingarþunglyndi hjá báðum foreldrum og það varir lengur.

Foreldrar á þessum aldri eru viðkvæmari fyrir álagi og ágreiningi. Alþjóðlegar rannsóknir sýna tvisvar til þrisvar sinnum meiri hættu á ofbeldi. Einnig eru mun minni líkur á að feður í þessum hóp njóti fæðingarorlofs. Þörf er á aðgerðum til að fyrirbyggja ofbeldi hjá þessum hóp og að feður njóti fæðingarorlofs. Samkvæmt Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna skal huga að því sem er börnum fyrir bestu. Mögulega er aðgerðarleysi stjórnvalda brot á Barnasáttmálanum. Full þörf er á að horfið verði frá aðgerðarleysi og þöggun til aðgerða.

Í rannsókn Ástþóru Kristinsdóttur hjúkrunarfræðings og ljósmóður hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kemur fram að um tuttugu prósent kvenna verði fyrir ofbeldi á meðgöngu af hálfu barnsföður. Það má því segja að meðganga sé áhættuþáttur fyrir heimilisofbeldi. Ef þekking á skaðsemi ofbeldis á meðgöngu er skoðuð er full ástæða til að verja drjúgum hluta fjármagns gegn ofbeldi í úrræði sem fyrirbyggja ofbeldi af þessu tagi.

Ungbörn allt niður í eins árs geta orðið fyrir skaða af því að verða vitni að heimilisofbeldi. Skaði snemma á ævinni getur valdið streitutengdum sjúkdómum á fullorðinsárum, svo sem hjartasjúkdómum eða vímuefnamisnotkun. Fjölþjóðlegar rannsóknir sýna að þegar þroski barns er undir meðallagi fyrsta æviárið er barnið mun líklegra til að dragast enn meira aftur úr næstu árin, frekar en að það nái þeim sem fóru betur af stað.

Vandamál drengja hefjast snemma

Drengir eru í hættu. Í móðurkviði er dánartíðni karlkyns fóstra marktækt hærri en kvenkyns fóstra. Flest allt sem úrskeiðis getur farið í móðurkviði kemur oftar fram hjá karlkyns fóstrum. Barnalæknar sem sérhæfa sig í nýburum vita að meðal fyrirbura farnast stúlkum betur en drengjum við sambærilega meðgöngulengd. Sú staðreynd er minna þekkt að barnshafandi kona undir miklu álagi á frekar á hættu að missa fóstrið sé það karlkyns. Áberandi dæmi um viðkvæmni karlkynsins er að glími foreldri við þunglyndi bregst drengur fyrr við því og á sýnilegri hátt en ef um stúlku er að ræða. Slíkt foreldri er ekki jafn næmt á hegðun og þarfir barnsins og foreldri sem líður vel, sem aftur hefur áhrif á þroska barnsins síðar meir. Eirðarleysi er algengara meðal drengja en stúlkna. Það má að hluta til rekja til líffræðilegra ástæðna, en samfélagslegar hugmyndir um karlmennsku geta átt það til að ýta undir vandann. Karlkynið er veikara kynið.

Tvær afleiðingar þessarar menningarblindu eru m.a. að:

• drengir fá hugsanlega minni athygli og umönnun sem ungabörn en stúlkur þó þeir þurfi jafn mikið - ef ekki meira - á henni að halda.

• þrisvar sinnum fleiri drengir greinast með hegðunarvanda í skólum.

• unglingspiltar og fullorðnir karlmenn leita sér síður aðstoðar þegar erfiðleikar steðja að, en átakanlegustu sönnunargögn þess er hærri sjálfsvígstíðni karla óháð aldri.

Heimild: MENTAL HEALTH TRENDS IN UROLOGY & MEN’S HEALTH MAY/JUNE 2011 www.trendsinurology.com Sebastian Kraemer, FRCP, FRCPsych, FRCPCH, heiðursráðgjafi, Tavistock Clinic-stofnuninni; barna- og unglingageðlæknir, Whittington-sjúkrahúsinu, London

Ófullnægjandi fjölskyldu- og jafnréttisfræðsla í skólakerfinu og fyrir verðandi foreldra kemur því harðar niður á þroska drengja strax í móðurkviði.

Tillaga okkar er að tvennt þurfi að koma til.

a. Nemendur í 9. bekk grunnskóla fái fræðslu um samskipti kynjanna og foreldrahlutverkið. Undirrituð stóðu fyrir fræðslu árið 2004 fyrir fagfólk sem þjónar þeim tilgangi. Um fjörtíu þátttakendur frá sveitarfélögum víða um land tóku þátt ásamt sérfræðingum frá Landlæknisembættinu. Í framhaldi hefur fræðslan farið fram í um fjörtíu grunnskólum. Fræðslan þjónar þörfum beggja kynja óháð heimilsaðstæðum. Einnig er þörf fyrir fræðslu um séríslenska menningarlega þætti tengda barneignum og mögulegum áhrifum þeirra.

b. Ungir verðandi foreldrar fái fræðslu og stuðning sem þjónar þörfum beggja kynja sem hjálpar þeim m.a. að takast á við álagið sem fylgir foreldrarhlutverkinu og umönnun ungbarna.

Undirrituð stóðu fyrir fræðslu fyrir fagfólk sem þjónar þeim tilgangi í samstarfi við alþjóðlega viðurkennda sérfræðinga í forystusveit á heimsvísu á sínu sviði, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík árið 2012. Um níutíu þátttakendur tóku þátt, þar af á þriðja tug sálfræðinga og fjölskyldufræðinga og á annan tug sérfræðinga hjá Geðsviði Landspítalans. Jafnréttisráð kynnti sér úrræði sérfræðingana árið 2009 og mælti með því.

Eftir áratuga umræðu varð fyrst til aðgerðaráætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna árið 2007. Tímamótaákvæðið var að foreldrar fyrsta barns fengju fræðslu, m.a. til að fyrirbyggja ofbeldi. Enn bólar ekki á þessum aðgerðum sem voru fyrst nefndar í opinberri aðgerðaráætlun árið 1998.

Í ljósi áskorana varðandi faglegt leikskólastarf sökum skorts á fagfólki og hárri starfsmannaveltu má segja að enn meira reyni á foreldrarhæfni nú en áður.

Árið 2019 var Ísland umfjöllunarefni sökum sterkra stöðu kvenna í stjórnmálum á heimsvísu í heimildarmyndaflokknum Explained á sjónvarpsstöðinni Netflix. Einnig var Ísland umfjöllunarefni í Washington Post sökum veikrar stöðu drengja í skólakerfinu á heimsvísu.

Aðgerða sem óskað er eftir, ættu að þjóna velferð beggja kynja, innan og utan heimils.

Áreiðanleg gögn segja að fjöldi einstakinga stendur ekki undir kröfum foreldrahlutverksins, m.a. vegna vanþekkingar, skilnaða, fíkniefnaneyslu, geðrænna erfiðleika eða þjakandi fjárhagserfiðleika og fátæktar. Stjórmálamenn sem ráðstafa skattfé líta sjaldnast á þroskaferil frumbernskunnar sem hagstærð, en hún er það svo sannarlega. Aðrar þjóðir t.d. Bretar hafa lagt áherslu á slíka forvarnarvinnu og greina hana inn í hagkerfið sem greinilegan sparnað til lengri tíma litið.

Ríkistjórnir áranna 1999 - 2009 styrktu ofannefnt starf um 35 m. kr samtals. Árið 2010 lækkaði styrkurinn um 40% og árið 2011 var hann lagður af. Á þessum árum og á árunum eftir það og til dagsins í dag hafa stöðugt komið fram rannsóknir sem sýna viðkvæmni ungra foreldra og ungbarna. Eins og áður hefur verið nefnt var reynsla af þessu starfi jákvæð og skilaði greinilegum árangri.

Full ástæða er því til að koma því góða starfi á aftur og bæta og auka það í samstarfi við sveitarfélög, landlæknisembættið, heilsugæslu og aðra sem koma að umönnun og uppeldi barna.

Reykjavík 22.02.2020

Með vinsemd og virðingu,

Bjarni Þórarinsson

Ólafur Grétar Gunnarsson

Valgerður Snæland Jónsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Stella Samúelsdóttir - 24.02.2020

Umsögn frá UN Women á Íslandi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Barnaheill - Save the Children á Íslandi - 24.02.2020

Barnaheill senda hér með inn meðfylgjandi umsögn um tillöguna.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Freyja Haraldsdóttir - 24.02.2020

Sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Kvenréttindafélag Íslands - 25.02.2020

Kvenréttindafélag Íslands hafa sent frá sér meðfylgjandi umsögn um tillögu til þingsályktunartillögu um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

bestu kveðjur, Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Steinunn Guðjónsdóttir - 25.02.2020

Sjá umsögn í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Samband íslenskra sveitarfélaga - 25.02.2020

Hjálögð er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um drög að þingsályktunartillögu.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Fjölmenningarsetur - 26.02.2020

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Barnaverndarstofa - 26.02.2020

Viðhengi