Samráð fyrirhugað 05.02.2020—24.02.2020
Til umsagnar 05.02.2020—24.02.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 24.02.2020
Niðurstöður birtar

Tillaga til þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

Mál nr. 25/2020 Birt: 05.02.2020
  • Forsætisráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
  • Leikskólar, grunnskólar, starfsnám og stjórnsýsla mennta- og menningarmála
  • Framhaldsskólastig
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 05.02.2020–24.02.2020. Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir að forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni verði samþættar við kennslu og starf á öllum skólastigum og eigi sér einnig stað innan frístundaheimila, félagsmiðstöðva og íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins skipaði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi í upphafi árs 2018. Meginhlutverk hópsins er að beita sér fyrir framsæknum og samhæfðum aðgerðum stjórnvalda gegn kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni og að Ísland sé í fremstu röð í baráttunni gegn hvers kyns ofbeldi. Meðal verkefna hópsins er að móta stefnu gegn stafrænu ofbeldi, leggja til leiðir til að styrkja réttarstöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum, gera tillögu um samræmd viðbrögð stjórnvalda við #églíka (#metoo)-hreyfingunni, og að vinna að heildartillögum er varðar forvarnir og fræðslu gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Stýrihópurinn lagði til skipan sérstakrar ráðgefandi nefndar um mótun stefnu í forvörnum og fræðslu í því skyni að tryggja aðkomu stofnana sem gegna þýðingarmiklu hlutverki í forvarnamálum og standa fyrir víðtæku samráði við stofnanir, fræðafólk og félagasamtök sem koma að forvarna- og fræðslumálum. Vinna nefndarinnar fór fram með reglulegum fundum, lokuðum samráðsfundum með fræðafólki, frjálsum félagasamtökum og fulltrúum stofnana og opnu málþingi sem haldið var í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands um forvarnir og fræðslu meðal barna og ungmenna.

Nefndin skilaði tillögum sínum til stýrihóps forsætisráðherra um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi í janúar 2020 og í framhaldinu til ráðherranefndar um jafnréttismál. Byggir þingsályktunartillagan á tillögum nefndarinnar.

Í tillögunni er sett fram sú framtíðarsýn að kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni eigi sér hvergi stað í íslensku samfélagi. Vísað er til þess að ofbeldi og áreitni er samfélagslegur vandi og því þarf að uppræta þá þætti í samfélagsgerðinni sem leyfa slíku ofbeldi að viðgangast. Kynferðislegt og kynbundið ofbeldi er bæði orsök og afleiðing annars kynjamisréttis og verður aðeins upprætt með samhentu átaki sem byggir á djúpstæðum skilningi á eðli og afleiðingum slíks ofbeldis. Öflug forvarnastefna er lykilþáttur í þeirri vegferð. Með forvörnum er leitast við að fyrirbyggja kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni en einnig að draga úr þeim skaða sem slík háttsemi hefur á þolendur og aðstandendur þeirra. Markviss viðbrögð við kynferðislegu og kynbundu ofbeldi og áreitni – og hegðun sem ýtir undir slíkt – er liður í forvörnum til framtíðar. Þannig er ekki aðeins nægjanlegt að fjalla um ofbeldi og áreitni, heldur einnig að ýta undir samskipti virðingar og jafnréttis fólks í milli. Markviss viðbrögð þurfa einnig að taka til þeirra sem beita ofbeldi svo þeir axli ábyrgð á sínum gjörðum, sem hefur forvarnagildi í sjálfu sér.

Á undanförnum árum hefur meðvitund um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni aukist til muna í íslensku samfélagi, meðal annars fyrir tilstilli frjálsra félagasamtaka, fræðilegra rannsókna og samfélagsbyltinga á borð við #églíka eða #metoo og #höfumhátt. Stjórnvöld hafa gripið til margvíslegra aðgerða með það að markmiði að sporna gegn slíku ofbeldi sem og að bregðast við afleiðingum þess. Í þessu samhengi má nefna aðgerðir sem lúta að málsmeðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu, þingsályktun um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, Vitundarvakningu um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum sem fram fór á árunum 2012–2015 og stefnumótun um kynferðislega friðhelgi (stafrænt kynferðisofbeldi).

Þrátt fyrir viðamikið starf hefur aldrei verið mótuð heildstæð stefna um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Fjölmargir starfshópar hafa þó kallað eftir því, auk þess sem ríkar kröfur hvíla á íslenskum stjórnvöldum vegna alþjóðlegra skuldbindinga, sem nánar verður fjallað um í III. kafla þessarar greinargerðar, sem og í samhengi við innlenda lagasetningu. Má þar nefna að eitt af markmiðum laga nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla er að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og að samkvæmt Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem fullgiltur var á Íslandi árið 1992 og lögfestur árið 2013 ber stjórnvöldum að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal á sviði félags- og menntunarmála, til að vernda börn gegn hvers kyns ofbeldi, þar á meðal kynferðislegri misnotkun.

Aðgerðaáætlunin sem sett fram með þingsályktuninni er lykilþáttur í þeirri vegferð stjórnvalda að uppræta þann samfélagslega vanda sem kynferðislegt og kynbundið ofbeldi er í íslensku samfélagi. Með forvörnum sem eru samþættar kennslu og starfi á öllum skólastigum, innan frístundarheimila og félagsmiðstöðva, íþrótta- og æskulýðsstarfs og í öðru tómstundarstarfi er leitast við að fyrirbyggja kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og einnig að draga úr þeim skaða sem slík háttsemi hefur á þolendur og aðstandendur þeirra. Slíkar forvarnir eru fyrirbyggjandi aðgerð sem ætlað er að auka umræðu og vitund ungmenna um skaðsemi kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og þau úrræði sem eru í boði hverju sinni. Mikilvægt er að mennta börn og ungmenni um heilbrigða kynhegðun, s.s. um mörk, stafrænt kynferðislegt ofbeldi, kynferðislega friðhelgi einstaklinga, samþykki og fleira.

Að meginstefnu til er nálgunin á forvarnir þríþætt:

1) Almennar forvarnir sem stuðla að sterkri sjálfsmynd og þekkingu á mörkum og markaleysi, þar á meðal í samskiptum kynjanna, samskiptum milli fullorðinna og barna og í öðrum tilfellum þar sem valdamisræmi kann að vera fyrir hendi;

2) efld kennsla um kynheilbrigði og kynhegðun, einkum í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum; og

3) opinská umfjöllun um eðli og birtingarmyndir kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni, þ.m.t. í samskiptum einstaklinga á milli með stafrænni tækni.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.