Samráð fyrirhugað 07.02.2020—21.02.2020
Til umsagnar 07.02.2020—21.02.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 21.02.2020
Niðurstöður birtar

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 45/1997 um vörumerki með síðari breytingum (EES-reglur, málsmeðferð, o.fl.).

Mál nr. 27/2020 Birt: 07.02.2020
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar
  • Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 07.02.2020–21.02.2020. Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Um er að ræða drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 45/1997 um vörumerki með síðari breytingum. Frumvarpinu er m.a. ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/2436/ESB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vörumerki.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru annars vegar innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/2436/ESB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vörumerki og hins vegar afleidd efnisákvæði sem lagt er til að breyta til að auka skýrleika og samræmi við íslensk sérlög á sviði hugverka- og einkaréttinda og löggjöf annarra ríkja.

Í tilskipuninni felast fjölmörg nýmæli, bæði til samræmingar á nálgun aðildarríkja Evrópusambandsins og EES/EFTA-ríkjanna við skráningu, notkun og verndartíma vörumerkja en einnig ítarlegri ákvæði en áður um tengd réttindi, þ.e. félaga- og ábyrgðar- og gæðamerki, ákvæði um afurðarheiti og plöntuheiti svo dæmi séu tekin.

Ein af meginbreytingunum sem lagðar eru til í frumvarpinu er horfið frá þeirri kröfu að vörumerki þurfi að vera „sýnileg tákn“. Þess í stað er gert ráð fyrir að vörumerki geti verið hvers konar tákn sem annars vegar geti greint vöru og þjónustu eins aðila frá eins eða sambærilegum vörum og þjónustu annarra og að unnt sé að tilgreina þau í vörumerkjaskrá á þann hátt að greina megi með skýrum og nákvæmum hætti til hvers einkarétturinn nær. Með þessu er m.a. opnað fyrir skráningu á óhefðbundnum merkjum eins og litum og hljóði, hreyfimyndum og fleira.

Í frumvarpinu er lagt til að breyta skráningarskilyrðum merkja. Helstu viðbætur við almenn skráningarskilyrði merkja (e. absolute grounds) er höfnun á grundvelli þess að tákn sýni lögun eða aðra eiginleika sem auka verðmæti vöru svo um munar og ef merki samanstanda af eða sýna í veigamiklum þáttum eldra skráð plöntuyrkisheiti. Þá er því enn fremur bætt við með skýrari hætti en áður að hafna megi skráningu merkis ef umsókn er lögð fram í vondri trú.

Í frumvarpinu er lagt til að skráningaryfirvöld geti synjað um skráningu merkis að hluta. Með breytingunni er lagt til að lögfesta þá framkvæmd skráningaryfirvalda að synja um skráningu að hluta. Þegar ástæður höfnunar á skráningu vörumerkis eiga aðeins við um hluta af þeirri vöru eða þjónustu sem umsókn tekur til, skal höfnunin einungis gilda um þann hluta vörunnar eða þjónustunnar.

Í frumvarpinu er lagt til að kveðið verði skýrar á um inntak einkaréttar til merkis en nú er, þ.e. möguleika í tengslum við beitingu réttarins, sem og takmarkanir á honum og skerpt er á rétti til að leggja bann við notkun merkis sem viðskipta- eða fyrirtækjaheiti og notkun merkis í samanburðarauglýsingum.

Með frumvarpinu er lagt til að innleiða heimild þriðja aðila til að leggja fram ábendingu gegn skráningu vörumerkis. Þannig mun hvaða aðili sem er, jafnt einstaklingur sem lögaðili, geta lagt fram ábendingu vegna tiltekinnar umsóknar eftir að hún er lögð inn og áður en ákvörðun um skráningu er tekin og þarf hann ekki að hafa af því lögmæta hagsmuni.

Ákvæði um félagamerki og ábyrgðar- og gæðamerki eru útfærð í frumvarpinu með skýrari hætti en áður. Farin var sú leið við innleiðingu tilskipunarinnar að sameina ákvæði félagamerkjalaga og vörumerkjalaga líkt og gert hefur verið í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Aukin áhersla er lögð á þær reglur sem fylgja skulu skráningu félagamerkja, endurskoðun þeirra, sem og birtingu og tilkynningu þar um auk þess sem heimilt verður að ógilda skráningu félagamerkja fullnægi reglur um þau ekki þar til gerðum skilyrðum og láti eigandi hjá líða að skila uppfærðum reglum til birtingar.

Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um notkunarleysi sem vörn í andmælamáli. Ákvæðið er nýmæli og kveður á um að eigandi merkis sem andmælt er geti að tilteknum skilyrðum uppfylltum farið fram á að andmælandi sýni fram á notkun þess merkis sem andmælin byggja á.

Þá er sú breyting lögð til á verndartíma skráðra vörumerkja að verndin gildir ekki frá skráningardegi heldur hefst á umsóknardegi og gildir í tíu ár frá þeim degi.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að settur verði skýrari rammi um ferli við stjórnsýslulega niðurfellingu skráðra vörumerkja sem finna má í 28. gr. og 30. gr. a. núgildandi laga um vörumerki. Í samræmi við vörumerkjatilskipunina er þessu ferli skipt annars vegar í ógildingu vörumerkjaskráningar, svo sem vegna notkunarleysis, eða niðurfellingu skráningar, svo sem ef að vörumerki telst ekki hafa uppfyllt skilyrði skráningar. Réttaráhrif þessara tveggja úrræða eru ólík og er skýrar kveðið á um ferlið sem fylgir þessum úrræðum.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.