Samráð fyrirhugað 12.02.2020—26.02.2020
Til umsagnar 12.02.2020—26.02.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 26.02.2020
Niðurstöður birtar

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004

Mál nr. 31/2020 Birt: 12.02.2020 Síðast uppfært: 17.03.2020
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (12.02.2020–26.02.2020). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birtir til umsagnar drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja.

Með drögunum er lagt til að akstur á keðjum og negldum hjólbörðum og akstur með verði heimill frá 16. október til 1. maí og þegar þess er þörf vegna akstursaðstæðna í stað þess að slíkur akstur sé heimill frá 1. nóvember til 14. apríl.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Svava Svanborg Steinarsdóttir - 26.02.2020

Efni: Umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um tillögu að breytingu á reglugerð nr. 822/2004- lenging nagladekkjatímabils

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur (HER) hefur tekið til umsagnar mál nr. 31/2020 í samráðsgátt, drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja. Í drögunum er lagt til að það tímabil sem heimilt verði að nota neglda hjólbarða verði lengt um mánuð og verði eftir breytingu frá 15. október til 1. maí í stað 1. nóvember til 15. apríl eins og nú er. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur (HER) hefur farið yfir þau gögn sem málinu fylgja og gerir eftirfarandi umsögn.

HER leggst gegn því að leyfilegt nagladekkjatímabil verði lengt um mánuð. Bent skal á að veðurfar og aðstæður eru mismunandi eftir landshlutum og þörfin á búnaði eins og nagladekkjum og keðjum ekki alltaf til staðar. Á höfuðborgarsvæðinu og víðar skapast sjaldan aðstæður þar sem nagladekk væru nauðsynlegur öryggisbúnaður auk þess sem á síðustu áratugum hafa komið fram nýjar gerðir vetrardekkja sem henta vel í hálku án þess að valda sömu skemmdum á malbiki og nagladekk. Rannsóknir á samsetningu svifryks í Reykjavík hafa sýnt að um helmingur þess er uppspænt malbik. Nagladekk eru talin slíta malbiki á bilinu 20-60 sinnum hraðar en aðrar gerðir vetrardekkja og því ljóst að nagladekkjanotkun skapar meira svifryk auk þess að valda skemmdum á götum. Í kjölfar herferðar gegn nagladekkjanotkun í Reykjavík minnkaði hlutfall nagladekkja frá 67% árin 2001-2 niður í 32% á sama tíma þegar lægst var árin 2013-14. Á sama tíma og nagladekkjanotkun dróst saman fækkaði þeim skipum sem farið var yfir sólahringsheilsuverndarmörk fyrir svifryk í Reykjavík. Á síðustu fimm árum hefur hlutfall nagladekkja aftur farið vaxandi í borginni og á sama tíma hefur svifryk farið oftar yfir heilsuverndarmörk. Síðustu ár hefur lögregla gefið út tilkynningar um að ekki verði sektað fyrir nagladekkjanotkun þó meira en mánuður sé í að tímabilið hefjist ef upp hefur komið hálkuástand t.d. á fjallvegum úti á landi. Dekkjaverkstæði í borginni hafa brugðist við með auglýsingum þar sem bifreiðaeigendur eru hvattir til að setja dekkin fyrr undir til að forðast ösina. Afleiðingin er sú að þegar er ákveðið hlutfall bílaflotans í borginni á nagladekkjum þó ekki séu veðurfarsaðstæður sem kalla á slíkt. Lenging nagladekkjatímabils gæti í raun orðið enn meiri ef sama verklag verður haft á eftir breytingu.

Í ljósi ofangreinds vill HER benda á að svifryk er í dag talið það efni sem helst leiðir til ótímabærra dauðsfalla vegna loftmengunar í borgum. Áhrif svifryks á heilsu fólks er háð stærð agnanna. Fínar agnir eru heilsufarslega mun hættulegri en þær grófu, en agnir minni en 10 µm eiga auðveldara með að ná djúpt niður í lungun og geta því safnast þar fyrir. Áhrifin þegar þangað er komið fara eftir því hversu lengi og hversu oft persónan andar að sér menguðu lofti og hvort hættuleg efni eru í rykinu eða loða við það, t.d. þungmálmar eða PAH (fjölarómatísk vetniskolefni). Almenningur finnur mismikið fyrir áhrifum svifryks en aldraðir, börn og þeir sem eru með undurliggjandi öndunarfæra- og/eða hjartasjúkdóma eru viðkvæmastir. Það er því mikilvægt mál fyrir lýðheilsu í borginni að draga úr myndun svifryks og takmarka allt sem orsakað getur slíka mengun. Lengra nagladekkjatímabil myndi leiða til meiri svifryksmyndunar og aukinna skemmda á götum sem einnig getur aukið vandann þar sem slit á hjólbörðum og öðrum bílhlutum verður meira við þær aðstæður. Agnir úr hjólbörðum og bremsuborðum bifreiða eru einnig hluti af svifryksmengun og valda auk þess mengun í ofanvatni.

Loks vill HER benda á að nagladekk orsaka einnig meiri hávaðamengun en hefðbundin vetrardekk. Með því að lengja nagladekkjatímabil er því einnig verið að orsaka meira álag vegna hávaða í íbúðarbyggð sem liggur að umferðarþungum götum. Hávaðamengun hefur víðtæk heilsufarsáhrif, hún getur leitt til aukinnar streitu, svefntruflana, hás blóðþrýstings og versnunar á hjarta- og æðasjúkdómum. Þau svæði sem eru undir miklu álagi vegna umferðarhávaða eru einnig með hvað mesta loftmengun vegna umferðar. Samspil þessara mengunarvalda eykur á neikvæð heilsufarsáhrif.

Í stað þess að lengja nagladekkjatímabil fyrir allt landið væri hægt að veita tímabundna heimild fyrir notkun nagladekkja á ákveðnum svæðum og myndu lögregla og veghaldari hafa með sér samráð um slíkar aðgerðir. Nauðsynleg er einnig að gefa sveitarfélögum heimild í lögum og reglugerðum til þess að leggja gjald á nagladekk til að draga úr notkun þeirra. Slíkt gjald hefur verið lagt á nagladekk í Noregi og hefur náðst góður árangur í að draga úr notkun þeirra. Ökutæki lögreglu, slökkviliðs og annarra viðbragðsaðila væru undanþegin slíku gjaldi.

Virðingarfyllst

f.h. Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur

Svava S. Steinarsdóttir

Heilbrigðisfulltrúi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Samtök ferðaþjónustunnar - 26.02.2020

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsögn SAF um drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.

Með góðum kveðjum

F.h. SAF

Gunnar Valur Sveinsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Samgöngufélagið - 26.02.2020

Í meðfylgjandi viðhengi má nálgast athugasemdir Samgöngufélagsins við þau drög að breytingu á reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja sem hér er til umfjöllunar.

Virðingarfyllst,

Jónas Guðmundsson,

fyrirsvarsmaður.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Samgöngufélagið - 26.02.2020

Meðfylgjandi er nýtt skjal, algerlega samhljóða áðursendu erindi í máli þessu, en nú með virkum hlekkjum á þær vefsíður sem vísað er á.

Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.

F.h. Samgöngufélagsins,

virðingarfyllst,

Jónas Guðmundsson

fyrirsvarsmaður

Afrita slóð á umsögn

#5 Samgöngufélagið - 26.02.2020

Meðfylgjandi er nýtt skjal, algerlega samhljóða áðursendu erindi í máli þessu, en nú með virkum hlekkjum á þær vefsíður sem vísað er á (taka tvö).

Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.

F.h. Samgöngufélagsins,

virðingarfyllst,

Jónas Guðmundsson

fyrirsvarsmaður

Viðhengi