Fjöldi gagnlegra athugasemda kom fram, sjá nánar í meðfylgjandi skjali þar sem gefið er yfirlit yfir umsagnir og afstaða tekin til einstakra sjónarmiða eftir föngum. Frumvarpið hefur verið lagt fram á Alþingi, sjá hlekkinn "Skjal að loknu samráði".
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 13.02.2020–27.02.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 08.04.2020.
Markmið frumvarpsins er að skapa stjórnvöldum betri yfirsýn og möguleika til að stýra þróun eignarráða og nýtingar fasteigna, þ.m.t. jarða, í samræmi við landkosti og með hagsmuni samfélagsins og komandi kynslóða að leiðarljósi.
Í þessu skyni eru lagðar til breytingar á eftirtöldum fjórum lagabálkum: Lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna nr. 19/1966, þinglýsingalögum nr. 39/1978, lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 og jarðalögum nr. 81/2004.
Efni frumvarpsins er í meginatriðum eftirfarandi:
1. Undanþáguheimildir vegna skilyrða fyrir fasteignakaupum aðila sem búsettir eru í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins eru skýrðar nánar, en ákvæði núgildandi laga um það efni eru almenn og óljós.
2. Tryggt verði að kaupverð fasteignar komi fram í þinglýstu afsali, en kaupverð er meðal annars forsenda ákvörðunar fasteignamats.
3. Landeignaskrá á vegum Þjóðskrár Íslands verði vettvangur fyrir samræmda opinbera skráningu á landupplýsingum.
4. Sjónarmiðum um náttúruvernd, byggðaþróun og sjálfbærni verði gert hærra undir höfði í markmiðsákvæði jarðalaga. Sett verði inn skilyrði um samþykki fyrir aðilaskiptum að landi í skilgreindum tilfellum. Á það meðal annars við ef kaupandi lögbýlis á fyrir fleiri lögbýli sem eru samanlagt 50 hektarar eða meira að stærð, ef fasteign er 350 hektarar eða stærri og ef kaupandi og tengdir aðilar eiga fasteignir sem eru samanlagt 10.000 hektarar eða meira að stærð. Í sömu tilfellum þarf einnig að afla samþykkis fyrir breytingu á yfirráðum yfir lögaðila sem er eigandi lands, svo sem ef eignarhlutur í fyrirtæki skiptir um hendur að hluta eða í heild. Þá er gert ráð fyrir aukinni upplýsingaskyldu tiltekinna lögaðila um eignarhald þeirra. Loks eru sett skýrari skilyrði fyrir afskráningu lögbýla og lausn lands úr landbúnaðarnotum.
1. Undanþáguheimildir vegna skilyrða fyrir fasteignakaupum aðila sem búsettir eru í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins eru skýrðar nánar, en ákvæði núgildandi laga um það efni eru almenn og óljós
Athugasemd mín varðar þá staðreynd að þessar breytingar varða ekki " innan Evrópska efnahagssvæðisins " Má skilja þetta sem svo að 500 milljón manns geti keypt jarðnæði eða eignir á Íslandi að vild !!
Umsögn Landmælinga Íslands vegna Frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna.
ViðhengiGóðan dag.
Frumvarpsdrögin voru birt til umsagnar hinn 13. febrúar sl. Frestur til að skila inn umsögnum rennur út 23. febrúar nk. Með réttu ætti umsagnarfresturinn í fyrsta lagi að renna út hinn 27. febrúar nk.
Ég leyfi mér að benda á 2. mgr. 9. gr. samþykktar ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna, sbr. 10. gr. reglna um starfshætti ríkisstjórnar en þar segir:
"Drög að lagafrumvörpum skulu kynnt almenningi og hagsmunaaðilum í opnu samráði og kostur gefinn á umsögnum og ábendingum. Þetta á þó ekki við ef sérstök rök mæla gegn slíkri birtingu, svo sem ef mál er sérlega brýnt. Hæfilegur frestur skal gefinn til athugasemda, að minnsta kosti tvær vikur."
Benedikt S. Benediktsson
Lögfræðingur SAF - Samtaka ferðaþjónustunnar
Umsagnarfrestur í málinu hefur verið framlengdur og rennur út 27.02.2020.
Hreppsnefnd Tjörneshrepps telur að frumvarp þetta sé almennt til bóta og ánægjulegt að ráðamenn sýni þessum málum loks áhuga. Þetta er fyrsta skref í vonandi stærri skrefum sem verða stigin í þessum málum. Almennt má segja að Hreppsnefnd hefði viljað sjá málefni landbúnaðarjarða meira eiga heima hjá sveitarstjórnum landsins frekar en ráðuneytinu. Jafnframt hefði Hreppsnefnd viljað sjá tekið á stærsta vandamáli er varðar eignarhald á jarðnæði á Íslandi sem er þegar eignarhald jarðanna er dreift á milli margra aðila, nær eingöngu afkomenda fyrrum ábúenda jarðanna. Jarðir með þessu fyrirkomulagi eru orðnar afar margar og haldið í gíslinu, án ábúðar af eigendum sínum sem nýta eignir sínar nær ekkert eða jafnvel ekki neitt.
En heilt yfir semsé skref í rétta átt.
Umsögn LÍSU, samtaka um landupplýsingar á Íslandi
um Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna.
f.h. stjórnar LÍSU
Þorbjörg Kr. Kjartansdóttir
framkvæmdastjóri
ViðhengiBæjarráð Fljótsdalshéraðs tekur undir umsögn Sambandsins um frumvarpið og telur að fyrirliggjandi frumvarp geti verið góður grundvöllur til málefnalegrar umfjöllunar um hvaða takmarkanir sé rétt að gera varðandi eignarhald á bújörðum.
Umsögn Landeigendafélags Geysis ehf.
ViðhengiHjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
F.h. sambandsins
Guðjón Bragason
ViðhengiSum ákvæði frumvarpsins eru til bóta, svo sem að fyrir liggi hverjir eru raunverulegir eigendur lands og að óhófleglegri jarðasöfnun séu settar skorður.
Hins vegar eru þær hugmyndir sem kynntar eru um skyldu til að afla samþykkis ráðherra fyrir ráðstöfun fasteignar langt úr hófi. Þannig nýta margir bændur fleiri jarðir en sína eigin, einfaldlega af því að nútíma landbúnaður byggir á allt öðrum forsendum en voru þegar landið skiptist niður í jarðir fyrir öldum síðan. Það eru engin efni til að leggja hömlur gegn því að þessir bændur kaupi jarðir sem þeir þegar nýta, svo einungis eitt dæmi sé tekið. Þá verður að hafa í huga að flest viðskipti með jarðir og land eru eðlileg og engin ástæða til að viðhafa kostnaðarsamt og íþyngjandi kerfi í kringum þau viðskipti.
Því er lagt til að greinin um ,,Skyldu til að afla samþykkis ráðherra fyrir ráðstöfun fasteignar´´ falli út í núverandi mynd. Í stað hennar komi ný grein þar sem ríkisvaldinu er veittur forkaupsréttur að jörðum og landareignum þar sem það er nauðsynlegt.
Þannig breytt frumvarp kemur til móts við óskir um að komið verði í veg fyrir óeðlilega jarðasöfnun, og veitir ríkinu möguleika á að eignast jarðir og land sem hefur af einhverjum ástæðum sérstakt gildi.
Athugasemdir við frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum er varða eignaráð og nýtingu fasteigna.
Fyrirhugaðar breytingar ráðast af pólitískri forræðishyggju þar sem ráðstöfunarvald yfir eignum á að færa til stjórnmálamanna og embættismanna sem er kokteill sem aldrei hefur lánast vel.
Sérstaklega eru fyrirhugaðar breytingar á Jarðalögum hættulegar þar sem vald ráðherra verður yfirþyrmandi. Markmið laganna er allt of víðtæk og opin og gefur ráðherrum vald sem ógjörningur er að sjá til hvers muni leiða. Með breytingunum eru boðað að setja síðar ýtarlegt regluverk fyrir framkvæmdinni sem gæti hert enn frekar vald hins opinbera á eignarréttinum.
Hér á að koma á tímafrekri, kostnaðarsamri og flókinni framkvæmd sem stjórnað verður með pólitískum hrammi ráðherravalds sem mun ógna stjórnarskrárvörðum eignarrétti landeigenda.
Hagsmunir og sjónarhorn stjórnmála- og embættismanna er allt annað en vakandi hagsmunir bænda og annarra landeigenda fyrir varðveislu náttúrunnar og hvernig hún skal nýtt hjá komandi kynslóðum.
Þetta verður dýrt kerfi, seinvirkt og til þess eins að þenja út ríkisbáknið.
Engum er betur treystandi til ráðstöfunar eða varðveislu lands en þeir sem lifa á og af landinu. Þeir eru og verða bestu vörslumenn þess. Inngrip sem nú er boðað kann að hafa lamandi áhrif á farsælt samstarf manns og náttúru.
Einfaldasta leiðin er að ríkið hafi forkaupsrétt á jörðum, með því móti gæti ríkið stöðvað „óæskilegar“ jarðasölur með yfirtöku. Þá er mun minni líkur á að spilling eða sérhagsmunir ráði ferðinni eins og líklegt er með boðuðu regluverki.
Að gefnu tilefni skal þess getið að bændur hafa í auknum mæli fært eignarhald á jörðum yfir á lögaðila, í þeirra eigu, til að njóta betra rekstrarumhverfis og til að auðvelda kynslóðaskipti á bújörðum. Því er villandi viðleitni í greinargerð með frumvarpinu að gefa það óbeint í skyn að hrammur auðmanna sé þar einn að verki.
Hrauni, Ölfusi, 26. febrúar 2020.
Hrafnkell Karlsson, Sigríður Gestsdóttir
Meðfylgjandi er umsögn mín.
Legg ég til að ákvæði verði bætt inn í lög nr. 41/1919 um landamerki sem geri að skilyrði þinglýsingar eignayfirfærslu að jörðum að hnitsett landamerkjaskrá skv. lögunum hafi verið gerð.
Ákvæðið gæti hljóðað á þessa leið:
„Gera skal það að skilyrði þinglýsingar eignayfirfærslu jarðar eða hluta hennar að hnitsett landamerkjaskrá liggi fyrir og að eignayfirfærslan sé í samræmi við hana”.
Viðhengi27. febrúar 2020
Góðan dag.
Efni: Umsögn um drög að frumvarpi til laga er varða eignarráð og nýtingu fasteigna. Mál 34/2020.
Ofangreind frumvarpsdrög, sem forsætisráðuneytið hefur auglýst til kynningar eru meira og minna andstæð bæði eignarréttindaákvæði 72. gr. og jafnræðisákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar, sem og 1. gr. 1. viðauka og 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE).
Til glöggvunar eru tilgreind mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar þessi:
72. gr. 1. mgr.
Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
65. gr. 1. mgr.
Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Víðtæk stjórnarskrárvernd.
Hér á landi er löngu viðurkennt, bæði af fræðimönnum og í framkvæmd, að stjórnarskráin noti orðin «eignarrétt» og «eign» í mjög víðtækri mrkingu. T.d. að með eign í stjórnarskrá sé átt við hvers konar fjármuni og verðmæt réttindi og ennfremur réttindi sem ekki verði metin til fjár.
Með jafnræðisreglunni, sem einnig er lögfest í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er þess krafist að lögin verndi alla jafnt og verndin nái til allra sviða þjóðlífsins, hvort sem um ræðir réttindi þau, sem talin eru í MSE eða réttindi þau sem talin eru efnahagsleg, félagsleg, menningarleg eða af öðrum meiði.
Engin þörf er á lögum til að takmarka eignarrétt yfir tilteknum tegundum fasteigna – og allra síst lögum sem fara í bág við stjórnarskrá.
Helstu fórnarlömbin eru bændur.
Reynsla af frelsi til viðskipta með og notkunar á jarðnæði og tilheyrandi hlunnindum hefur allmennt verið farsæl og ágreiningslítil og tryggt eðlilegt markaðsverð eigna.
Öll takmörkun eignarréttar hefur í för með sér verðmætarýrnum viðkomandi eignar. Helstu fórnarlömb takmarkana á viðskiptum með jarðir yrðu bændur, sem síst eru í stöðu til að sæta hagsmunarýrnun. Ýmsir aðrir fljóta að sjálfsögðu með. Þar á meðal eru vafalaust einn eða tveir aðilar, sem þykja hafa sýnt gleypugang í jarðakaupum og eru raunverulegt tilefni fyrirhugaðrar lagasetningar. Á því máli er þó ekki tekið í frumvarpsdrögunum, enda ekki hægt um vik. Fortíðarvandi vegna eins verður hins vegar ekki farsællega leystur með framtíðarkvöðum á alla aðra. Það telst ekki vera meðalhóf. Rétt tilefni lagasetningar verður að vera viðurkennt, og fram á það sýnt, að fyrirhuguð lagasetning snúi að því tilefni, láti meint vandamál ekki óleyst. Það hefur ekki verið gert í frumvarpsdrögunum.
Lögmál framboðs og eftirspurnar hljóta að vera bændum sem öðrum jarðeigendum hagstæðust, en ekki ánauðarbúskapur eða einhver útgáfa nýs vistarbands bænda. Hvers eiga bændur nú að gjalda?
Í markaðsþjóðfélagi myndast verð á markaði – ekki með tilskipunum eða inngripum ríkisins. Í því felst einnig að framleiðslutæki og landsins gæði séu í einkaeigu, þar sem einstaklingar og fyrirtæki ákveða hvernig þau verða best nýtt en lagaumgjörð hins opinbera tryggi eignarréttindin og að við samninga sé staðið. Markaðssamfélagið þarf virkan samkeppnismarkað og til þess að markaður sé virkur má ekki setja hömlur eða handahófskenndar reglur um að sumar eignir eða gerðir eigna séu undanþegnar. Bújarðir og náttúrugæði eiga heima á þeim eignamarkaði, rétt eins og lóðir og byggingar til íbúðar eða atvinnustarfsemi í þéttbýli sem dreifbýli. Ella er frelsi manna til athafna og eigna skert með óeðlilegum og ómálefnalegum hætti. Með hömlum og þegar eignarhald eða leiga á sumum fasteignum er háð sérstökum skilyrðum er ekki aðeins verið að setja eignarréttindum sumra skorður, heldur verið að hefta búsetufrelsi allra.
Þetta varðar bæði hið almenna frelsi, sem landsmenn vilja búa við á Íslandi, í markaðslegu lýðræðisþjóðfélagi, en einnig þá skilmála sem landið hefur undirgengist á alþjóðlegum vettvangi t.d. með EES svo augljósasta dæmið sé nefnt.
Þá skipta hagkvæm viðskipti með jarðnæði og virkur markaður með jarðir miklu máli fyrir eðlilega þróun og vöxt landbúnaðar og efnahagslífsins alls og stuðlar að betri nýtingu náttúruauðlinda og mannauðs. Sérhver inngrip í hinn frjálsa markað eru til þess fallin að bjaga verðmætamat og auka sóun.
Ákvæði um frelsi borgaranna eru innantóm ef þeir mega ekki nýta eignir sínar eins og þeir helst kjósa, þar á meðal til þess að kaupa og selja jarðir óháð ætt og uppruna.
Í upphafi greinargerðar frumvarpsdraganna afhjúpast raunverulegt markmið laganna, þar sem segir, að það feli m.a. í sér bætta möguleika stjórnvalda á stýringu á þessu sviði. Hver hefur beðið um það?
Mikil dreifing eignaraðildar.
Af 7.703 skráðum jörðum eiga einstaklingar 4.706 jarðir (61%) og fyrirtæki 1.335 jarðir (17%). Gerir þetta samtals 78% allra jarða (6.041 jörð), sem er gífurleg dreifing eignaraðildar, og það enda þótt einhverjir eigi fleiri en eina jörð, eins og í raun hefur tíðkast um aldir.
Síðan á ríkið 316 jarðir og sveitarfélög 324 jarðir. Væri ekki ráð að þessir opinberu aðilar, stærstu jarðeigendur landsins, gengju á undan og seldu sínar jarðir til frekari dreifingar eignaraðildar -- áður en ráðist er að stjórnarskrárvörðum eignarrétti bænda og annarra jarðeigenda í landinu.
Eignaraðild erlendra aðila á íslenskum fasteignum.
Hvort sem afnot eða eignaraðild erlendra aðila á íslenskum fasteignum eru þjóðinni hagstæð eða ekki, væri ekki nærtækara að byrja á regluverki fyrir ýmis núverandi fasteignaafnot og fasteignir útlendinga.
Dæmi:
1. Afnot náttúruauðlinda ósnortinna fjarða bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum fyrir laxeldisfyrirtæki í eigu norskra eldisrisa, sem fengið hafa ókeypis afnot fjarðanna til áratuga – með stórkostlegri áhættu á spillingu villtra íslenskra laxfiskastofna.
2. Stórar verksmiðjur, bæði álver, járnblendiverksmiðja og kísilver, allar í eigu útlendinga.
3. Hótel í eigu útlendinga sbr. nýjan indónesískan meirihlutaeiganda Icelandair hótelanna og erlenda meirihlutaeign KEA hótelkeðjunnar.
Í anda gömlu kommanna.
Frumvarpsdrögin eru gamaldags og í anda gömlu kommanna, sem töldu ríkisforsjá besta fyrir bændur og landbúnaðinn. Það kerfi reyndist hvorki til hagsbóta bænda í austurvegi né almennings eins og kunnugt er. Má furðulegt heita, að forsætisráðherra beri á borð þessar skringilegu hugmyndir frumvarpsdraganna.
Vandamál sveitanna.
Aðalvandi sveitanna í dag og eyðingu þeirra kallar Aðalsteinn Halldórsson, bóndi á Tjörnesi, erfingjavandann í viðtali í Bændablaðinu 24. október sl. Stór svæði á og í kringum Tjörnes eru að fara í eyði og sömu sögu má segja um fleiri landsvæði, segir Aðalsteinn. Eigendurnir flytja brott vegna aldurs og eða deyja. Erfingjar, oft nokkuð stór systkinahópur, tekur við eignarhaldinu en býr ekki á jörðinni og ætlar sér það ekki. Þvert á móti eru slíkir eigendur stundum einbeittir í vilja sínum að halda þessum eignum í eyði, jafnvel þótt það væri vel mögulegt að koma eignunum í ábúð. Við erum að horfa upp á heilu landsvæðin fara í eyði og ekkert hægt að gera. Ástæðan er einfaldlega sú að eigendur jarðanna gera í flestum tilvikum ekki minnstu tilraun til að selja heldur láta eignir ganga til sinna afkomenda.
Svo kemur fólk einu sinni eða tvisvar yfir sumarið og á góðar stundir yfir gyltu í bauk og dásamar íslensku sveitina.
Þetta er eitthvað sem ekki er talað um, segir Aðalsteinn. Hvað vill forsætisráðherra gera í málinu?
Aðild sveitarfélaga.
Aðild sveitarfélaga og skilyrði um samþykki þeirra á viðskiptum með fasteignir er að hverfa aftur til gamla ástandsins, sem oft fól í sér misnotkun og óþarfa inngrip í viðskipti einstaklinga. Er pólitískur vilji til að endurvekja það ástand?
Umfjöllun um einstakar greinar frumvarpsdraganna.
Á þessu stigi er ekki ástæða til að fjalla um einstakar greinar frumvarpsdraganna, þar sem m.a. er að finna ströng refsiviðurleg, ef ekki er farið eftir formúlu gömlu kommanna, og ráðherra jafnvel heimilað að krefjast nauðungarsölu eða leggja til að ríkissjóður leysi til sín eign.
Áskilinn er réttur til síðari athugasemda um einstök fyrirmæli draganna, ef svo ólíklega fer, að pólitískur meirihluti reynist fyrir áframhaldi frumvarpsdraganna og þar með grundvelli nýtísku ánauðar íslenskra bænda.
Óttar Yngvsson er lögmaður, jarðeigandi og áhugamaður um náttúru- og umhverfisvernd.
Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna.
1. Ekki verður séð að nauðsyn beri til að þrengdar verði reglur um þinglýsingu afsals líkt og ráðgert er. Nær væri að skylda kaupanda fasteignar til að þinglýsa kaupsamningi sé talið að upplýsingar um verðmyndun á fasteignmarkaði sé ábótavant.
2. Við breytingu á ýmsum lögum sem varða eignarráð fasteigna hlýtur að koma til álita að taka lög um landamerki jarða frá 1919 til endurskoðunar. Þekking á skráningu landamerkja eins og nú háttar skv. lögum fer minnkandi. Það á ekki síst við um þegar aðilaskipti hafa orðið á jörðum og þá sem eiga margar jarðir t.d. ríkið. Hnitsetning landamerkja er því orðin nauðsynleg framkvæmd svo tryggja megi áreiðanlegar upplýsingar um landamerki jarða til framtíðar. Til að tryggja framgang hnitsetningarverkefnis er nauðsynlegt að fyrir liggi hnitsettur myndgrunnur sem opinberir aðilar t.d. Landmælingar Íslands veita aðgang að í þessu skyni.
3. Undirritaður telur að fyrirhugaðar breytingar á jarðalögum séu til þess fallnar að torvelda eðlileg viðskipti með jarðir og rýra þar með þau verðmæti sem í þeim felast. Við blasir að meðalhófs er ekki gætt vegna þeirra miklu og viðkvæmu hagsmuna sem um er að tefla. Ekki er hér gerð athugasemd við þá fyrirætlan að setja almenna reglu sem hamlar gegn óhóflegri jarðasöfnun einstaklinga eða lögaðila. Í 7. gr. frumvarpsins er hins vegar svo langt gengið að mjög stóran hluta kaupsamninga eða leigusamninga um jarðir þarf að bera undir ráðherra til samþykkis. Á það við þótt ekki sé um jarðasöfnun á eina hendi að ræða. Þá verður ekki annað ráðið, af þeim reglum sem ráðherra skal hafa til hliðsjónar ákvörðun um veitingu eða synjun samþykkis, en þær séu þess efnis að jarðir verði vart seldar til annarra nota en samrýmst geti markmiðsákvæði 4. gr. frumvarpsins. Að fella allar jarðir sem eru 350 ha eða stærri undir slíkt leyfisveitingarferli er því fráleitt með öllu ,þegar fyrir liggur að miklar breytingar hafa orðið og eru framundan varðandi rekstrarumhverfi landbúnaðar á Íslandi. Þær breytingar eru þess eðlis að ekki verður fengist við afleiðingarnar með þeirri miðstýringu sem frumvarpsdrögin fela í sér. Afleiðingarnar kynnu hinsvegar að þrengja mjög hag þeirra sem ekki hafa lengur grundvöll fyrir búrekstri á jörðum sínum.
Því leggur undirritaður til að eftirfarandi breytingar á 7. gr: Eftirfarandi tölul falli brott: 2. Fasteign er 350 hektarar eða meira að stærð, 3. Viðtakandi réttar og tengdir aðilar eiga fyrir fasteign eða fasteignir sem eru samanlagt 10.000 hektarar eða meira að stærð.
Jafnframt verði lagt mat á hvað skuli vera hæfilegur fjöldi fjölda jarða sem nefnt er í 1. tölul. Aður en leita þarf til ráðherra með kaupin.
Undirritaður telur samhliða þessu eðlilegt að lögfestar verði takmarkaðar, málefnalegar og skýrar forkaupsréttarheimildir til handa ríki og sveitarfélögum.
Þá ber enga nauðsyn að leggja fyrirhugaðar hömlur á þá sem stunda búrekstur og afla sér réttinda yfir landi til viðbótar við heimajörðina t.d. vegna stækkunar á búum sínum eða þegar jarðir eru sameinaðar. Því er hér lagt til að í endanlegri útgáfu frumvarpsins verði ákvæði um að óskylt sé að afla samþykkis ráðherra ef sameina á jarðir eða viðtakandi réttar stundar landbúnaðar og réttindin eru í tengslum við þá starfsemi.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Þjóðskrár Íslands.
ViðhengiHjálögð er umsögn Veiðiklúbbsins Strengs ehf.
ViðhengiUmsögn Landssambands veiðifélaga er í viðhengi.
ViðhengiLandssamband sumarhúsaeigenda fagnar því að stjórnvöld stefni að því að setja lög er skapa betri yfirsýn og möguleika til að stýra þróun eignarráða og nýtingar fasteignar í samræmi við landskosti og með hagsmuni samfélagsins og komandi kynslóða að leiðarljósi.
Hvað varðar umbjóðendur sambandsins þá er mikilvægt í stóra samhenginu að land sem nú þegar er nýtt til frístundahúsabyggðar haldi þeirri stöðu óháð því hvert eignarhaldið er á landinu sjálfu til framtíðar.
Það er mat sambandsins að meiri en minni líkur eru á því að ef eignarhaldið á landi í útleigu í frístundahúsabyggð er á hendi innlends aðila að afnotaréttur leiguliða í frístundahúsabyggðinni sé virtur til framhalds að leigtutíma loknum til endurnýjunar heldur en ekki byggt á fordæmi sem nú þegar er til staðar í uppkaupum á landi hérlendis.
Meðfylgjandi er sent fyrir hönd Sigurðar Jónssonar hrl. varaformanns stjórnar félags landeigenda
ViðhengiFrá Þingeyjarsveit
Umhverfis- og skipulagsnefnd Þingeyjarsveitar tekur undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frv. um br. á ýmsum lögum er varða eignarhald og nýtingu fasteigna, mál S-34/2020.
Nefndin telur að þær breytingar sem lagðar voru fram til kynningar í Samráðsgátt séu skref í rétta átt en tekur sérstaklega undir þá spurningu Sambands íslenskra sveitarfélaga hvort nógu langt sé gengið í að takmarka eignarhald erlendra aðila á bújörðum.
Að mati nefndarinnar er það óheillaþróun að eignarhald bújarða og þá sérstaklega hlunnindajarða hverfi úr eigu bændastéttarinnar og að það hamli mögulega ásamt fleiri þáttum eðlilegri nýliðun í stéttinni.
Meðfylgjandi er umsögn Varplands ehf. um Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna
F.h. Varplands ehf.
Guðmundur H. Jónsson
ViðhengiHjálagt er umsögn Umhverfisstofnunar
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Landgræðslunnar þar sem ákvæðum frumvarpsins er varða jarðamörk er fagnað og einnig eru settar eru fram ábendingar um ákvæði er varða mat á sjálfbærni landnýtingar.
ViðhengiHjálögð er umsögn Skipulagsstofnunar.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn SAF - Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna.
ViðhengiÉg er starfandi landfræðingur sem vinn mikið með fasteignir, landeignir og lagaleg hugtök þeim tengd. Ég er mjög svo ánægður með þessi nýju lög og tel mikla þörf á þeim. Með einni undantekningu. Ég tel það slæman kost að nýta hugtakið "lögbýli" inn í ný lög um fasteignir.
Ástæðan er sú að lögbýli er, eins og staðan er í dag, mjög svo skaddað hugtak. í gegnum hin mörgu ár síðan hugtakið var tekið í lagalega notkun hefur ekki tekist að viðhalda réttri nýtingu á hugtakinu. Því eru í dag mörg lögbýli skráð sem ekki ætti að vera skráð sem slík og mikið af landbúnaðarlandi skráð utan lögbýla. Ef hugtakið lögbýli verður nýtt sem stýritæki í hinum nýju lögum þá mun það verða til trafala ekki til aðstoðar.
Ég gróf upp nokkur dæmi með því að bera saman gögn um landeignir frá Þjóðskrá Íslands (https://geo.skra.is/landeignaskra) og Lögbýlaskrá Þjóðskrár Íslands 2019 eins og hún er sýnd í vefsjá Alta (https://www.vefsja.is). Með 30 mínútna leit fann ég eftirfarandi. Ég efast ekki um að ýtarlegri leit mundi leiða af sér mun fleiri dæmi:
Löbýlin Selfoss I, Selfoss II og Selfoss Austubær öll lögbýli samkvæmt lögbýlaskrá. Þau eru öll staðsett innan þéttbýlis á Selfossi og er það minnsta þessara eigna um 5.000 m2 að landstærð. Tjarnartún 33 er lögbýli innan þéttbýlis á Akureyri og er um 2.000 m2 að landstærð. Eigandi þessara "íbúðarhúsa lóða" mundi samkvæmt nýju lögunum, þufa að eiga við mun erfiðari feril til þess að eignast bújörð en nágrannar hans með jafn stórar, rétt skráðar íbúðarhúsa lóðir.
Hinsvegar er lögbýlið Hróarsholt 2 (landeignarnúmer 166349), staðsett rétt austan við Selfoss gott dæmi um landbúnaðarland sem ekki er rétt skráð. Lögbýlið Hróarsholt 2 er er skráð 1.100 m2 að landstærð. Úr því er búið að skipta öllu landbúnaðarlandi til ýmissa eiganda og ekkert eftir af jörðinni annað en heimreið að húsi sem er ekki lengur hluti af þeirri sömu jörð. Þar er enn mjög mikið að góðu landbúnaðarlandi á því svæði sem áður var jörðin Hróarsholt 2, en það er nú skráð sem fjórar sumarbúsaða lóðir, hver um 15 ha að landstærð. eigendur þessara "Sumabústaða lóða" mundu geta komist fram hjá ýmsum hlutum hins nýju laga. Taka skal fram að þessar "Sumarbústaða lóðir" liggja allar upp að laxveiðiá.
Ég mælist því til þess að annað hvort verði hugtakið Lögbýli ekki nýtt sem stýritæki í þessum lögum eða að lagaleg skilgreining lögbýlis, sé styrkt í bandormur þessa lagafrumvarps, þannig að hægt sé að nýta það.
Til Samráðsgáttar stjórnvalda.
Frá Landeigendafélagi Reykjahlíðar ehf.
Reykjavík 27.2.2020
Efni: Umsögn f.h. Landeigenda Reykjahlíðar ehf.um frumvarp til laga um breytingu á ýmsu er varðar eignarráð og nýtingu fasteigna (aðila utan EES-svæðisins, landeignaskrá, ráðstöfun stórra landeigna, aukið gagnsæi o.fl).
Hér er gróflega vegið að beinum stjórnarskrárvörðum eignarrétti landeigenda.
Með þessum tillögum er augljóslega fyrst og fremst ætlað að tryggja stjórnvöldum áhrif og vald um það hvernig farið verði með eignarrétt að landi sem er í einkaeigu og setja landeigendum hömlur um það hvernig eignarréttur þeirra verði framseldur.
Verið er að búa til ferli sem er landeigendum til mikils tjóns. Hér verið að verðfella landareignir (jörð er fasteign) í einkaeigu með handafli. Hvernig myndu fasteignaeigendur á stór Reykjavíkursvæðinu taka því ef ráðherra hefði alræðisvald með framsal á sölu fasteigna nú eða fasteigna á minjaskrá eldri en 100ára í eigu einkaðila?
Hér er um að ræða enn eina svæsnustu aðför opinberra aðila sem um getur að stjórnarskrárvörðum beinum einkaeignarrétti. Hún gengur þvert á 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar, allt frá því að þjóðlendulögin voru sett (58/1998). Það er meginregla samkvæmt íslenskum rétti að landeigandi eigi einkarétt til nýtingar og meðferðar á landareign sinni.
Það er með ólíkindum að sjá slíkar tillögur á 21stu öldinni, tillögur sem standast engin rök og vinna hreint og beint gegn lögvörðum beinum eignarrétti landeigenda/bænda og ferðaþjónustuaðila á Íslandi. Hér er leynt og ljóst verið færa ákvarðanavaldið til ráðherra og/ríkis, sem hvað eftir annað hafa ekki riðið feitum hesti fyrir Evrópudómsstólum og tapað þar nær öllum sínum málum. Óskiljanlegt að alþingismenn skuli láta teyma sig út í slíka frumvarpstillögur.
Ríkið fær ekki háa einkunn hvað varða lagsetningu/-ar sem ganga þvert á stjórnarskráðan beinan eignarrétt í einkaeigu á Íslandi. Enn samt á að halda áfram, það er með ólíkindum. Hér er unnið í takt við það sem ,,almannarómur á höfuðborgarsvæðinu“ rekur áróður fyrir í ljósi þekkingarleysis. Eigendur eru ekki hafðir með í ráðum né leita samráðs við aðra en þá sem síst hafa lögvarða hagsmuni á viðkomandi landareignum.
Verði þessar tillögur að lögum eru yfirgnæfandi líkur á að ríkir hagsmunir landeigenda lendi í höndum aðila sem eiga pólitískra hagsmuna að gæta og ótengdum og fjarlægum embættismönnum. Allt mun þetta leiða af sér mikla vinnu og ekki síst mikinn biðtíma eftir að stjórnvöldum þóknist að taka sínar ákvarðanir.
Ríkið getur lagt allar kvaðir eða hömlur á sínar þjóðlendur en ekki á eignarlönd með beinum eignarrétti. Síkt stenst ekki stjórnarskrá. Er ekki mál að linni gagnvart ítrekuðum árásum og afskiptum af beinum eignarrétti landeigenda/bænda á Íslandi? Þjóðlendulögin komu aftan að landeigendum, þar sem sönnunarbyrðin um beint eignarhald lá hjá landeigendum/bændum en ekki öfugt þ.e. hefði átt að vera hjá ríkinu.
Og nú á að koma inn bakdyramegin og læða inn nýjum ákvæðum sem útiloka stjórnarskrávarinn sjálfsákvörðunarrétt viðkomandi landeigenda/bænda og annarra um framsal á sínu eigin landi.
Við styðjum heilshugar umsögn frá Landssamtökum Landeigenda á Íslandi í öllum atriðum um þetta mál.
f.h.LR ehf.
Ólafur H. Jónsson verkefnisstjóri
Reykjahlíð III Mývatnssveit
Sími/Tel: + (354) 893 0015
olih@oson.is
ViðhengiUmsögn Sýslumannafélags Íslands, sjá viðhengi
ViðhengiUmsögn Aðaldals ehf. vegna Frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna.
ViðhengiMjög gagnlegt verður að fá lög sem tryggja gagnsæi um eignarhald á landi eins og kveðið er á um í þessu frumvarpi.
Hins vegar verður ekki séð að í frumvarpinu séu reistar afgerandi skorður við samþjöppun á eignarhaldi á landi, með bindandi ákvæðum þar að lútandi, eins og kallað hefur verið eftir.
Í fyrsta lagi gagnrýni ég að horfið skuli hafa verið frá þeirri nálgun sem uppi var á árinu 2013 í reglugerð sem undirritaður setti og samsvarandi lagafrumvarpi sem undirritaður lagði fyrir Alþingi á sama tíma af hálfu þáverandi ríkisstjórnar. Þar voru á grundvelli EES réttar reistar skorður við aðkomu að eignarhaldi á landi annarra en þeirra sem eru íslenskir ríkisborgarar eða eiga lögheimili á Íslandi.
Í öðru lagi gagnrýni ég þau stærðarmörk sem frumvarpsdrögin gera ráð fyrir varðandi leyfisskyldu til kaupa á landi. Hin almenna regla ætti að vera að leyfisskylda hvíli á allri jarðasölu umfram litla spildu undir orlofshús. Ástæða er til að benda á að í eldri jarðalögum voru mun víðtækari ákvæði um leyfisskyldu en í frumvarpinu.
Í frumvarpinu þarf að vera afdráttarlaust ákvæði sem banni einstaklingi eða lögaðila og tengdum aðilum, að eignast meira en tiltekna stærð af landi og mætti hugsa sér að styðjast við sem nemur tvöfaldri eða jafnvel þrefaldri stærð á meðal lögbýli. Því aðeins væru hámarks stærðarmörk þó heimil að viðkomandi eigandi hefði búsetu á jörðinni.
Varðandi samráðsskyldu um þá þætti sem vísað er til í frumvarpstextanum er ekki nægilegt að mínu mati að leita til sveitarfélaga um samráð. Eðlilegt væri að náttúruverndarsamtökum á borð við Landvernd væri einnig tryggð aðkoma að slíku samráði í lögum.
I lögunum þarf að horfa til hlunninda á borð við vatns- og virkjanarétt, hafnargerð, veiða innan netlaga á sjávarjörðum og ber þá að hafa í huga að Ísland hefur undanþágu í EES samningnum hvað varðar fiskveiðar og fiskvinnslu og einnig hvað landbúnaðinn áhrærir en til þessara þátta þarf að horfa þegar EES borgarar eiga í hlut. Augljóst er að land og landnýting er að breytast, meðal annars vegna fyrirsjáanlegra viðskipta með “hreina orku.” Allt þetta kallar á aukna árvekni af hálfu löggjafans. Ekki nægir að visa til þátta á borð við þessa í almennum lagatexta eins og gert er í frumvarpsdrögunum, heldur þarf einnig að takmarka með bindandi hætti möguleika spákaupmanna að braska með land og hlunnindi sem því fylgja.
Ögmundur Jónasson