Sjá kafla um samráð í frumvarpi sem birt var til umsagna í máli 200/2020
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 13.02.2020–20.02.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 28.10.2020.
Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á áfengislögum, lögum um verslun með áfengi og tóbak og lögum um aukatekjur ríkisins. Breytingarnar fela í sér undanþágu frá einokun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis til neytenda þannig að lagt er til að heimilaður verði rekstur innlendra vefverslana með áfengi í smásölu til neytenda með þeim takmörkunum sem í frumvarpinu greinir.
Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á áfengislögum nr. 75/1998, lögum um verslun með áfengi og tóbak nr. 86/2011 og lögum um aukatekjur ríkisins nr. 88/1991. Breytingarnar fela í sér undanþágu frá einokun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis til neytenda. Með frumvarpinu er heimilað að starfrækja vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda. Þannig verði heimiluð sala áfengis í gegnum verslanir sem starfræktar eru á netinu, svokallaðar vefverslanir. Í áformaskjali sem birt var á samráðsgátt í lok nóvember sl. var einnig boðuð breyting hvað varðar sölu minni áfengisframleiðanda á framleiðslustað. Í frumvarpi þessu er eingöngu lögð til undanþága sem varðar sölu innlendra vefverslana með áfengi en unnið verður áfram að frumvarpi til breytinga í þá vegu að heimila minni áfengisframleiðendum sölu á eigin framleiðslu á framleiðslustað.
Gildandi lagaumhverfi fjallar ekki um verslun með áfengi við erlendar verslanir, t.d. í gegnum vefverslanir. Almenningur hefur því getað keypt sér áfengi í gegnum erlendar vefverslanir og látið senda heim að dyrum á Íslandi, að áfengis- og innflutningsgjöldum uppgerðum. Samhliða þeirri þróun, að íslenskir neytendur hafi pantað sér áfengi erlendis frá, þá hafa viðskipti í gegnum vefverslanir farið sívaxandi á hverju ári. Á síðastliðnum árum hefur orðið sérstaklega mikil aukning á viðskiptum í gegnum vefverslanir og jafnan eru vörurnar sendar samdægurs heim að dyrum neytandans. Heimsending á vörum er orðinn daglegur veruleiki í lífi Íslendinga og hafa fjölmörg fyrirtæki skapað sér sérstöðu með því standa vel að rekstri vefverslana sem gera út á daglegar heimsendingar. Þetta fyrirkomulag hefur leitt til þess að neytendur spara sér tíma og geta stundað viðskipti í auknum mæli á eigin forsendum. Samhliða auknu valfrelsi neytenda og alþjóðavæðingu hefur ósk almennings um aukið frjálsræði í áfengislöggjöf farið vaxandi. Fjöldi sölustaða áfengis hefur margfaldast á síðastliðnum áratugum í samræmi við áherslur og kröfur neytenda.
Í frumvarpinu er lagt til að sömu almennu skilyrði verði sett fyrir vefverslunarleyfi, eins og öðrum leyfum sem fjallað er um í áfengislögum. Einstaklingar og lögaðilar munu því almennt geta fengið slíkt leyfi, hafi þeir náð tilskildum aldri og tilkynnt ríkisskattstjóra um atvinnustarfsemi sína.
Vefverslun með áfengi mun að meginstefnu fara fram með tvennum hætti, verði frumvarpið að lögum. Annað hvort munu neytendur sækja vöruna á starfsstöð leyfishafans eða fá vöruna senda á þann stað sem þeir tiltaka, í flestum tilvikum heimili sitt. Vert er að hafa í huga að neytendur geta nú þegar fengið áfengi sent heim að dyrum erlendis frá og gilda engar sérstakar reglur um það fyrirkomulag. Ljóst er að þegar heimsending á áfengi á sér stað, mun milligönguaðili oft sjá um póstsendinguna. Í ljósi þessa er í frumvarpinu kveðið á um strangari kröfur til sönnunar á aldri viðtakanda en viðtakandinn þarf í öllum tilvikum að framvísa sönnun þess efnis að hann hafi náð 20 ára aldri. Brot á þessu geta leitt til leyfissviptingar og/eða bakað þeim aðila refsiábyrgð sem stendur að sölu og eða afhendingu vörunnar. Þá þarf afhending áfengisins að fara fram á ákveðnum tímum sólarhringsins og má ekki fara fram á tilteknum hátíðar- og helgidögum.
Vefverslunarleyfishafa verður ekki heimilt að hafa áfengi til sýnis á starfsstöð. Í þeim tilvikum þar sem neytendur sækja áfengið á starfsstöð leyfishafans, þarf leyfishafinn að gæta þess að áfengi sé ekki til sýnis á starfsstöðinni. Honum er einungis heimilt að afhenda áfengið þar, en ekki stilla því upp eins og í hefðbundinni verslun. Þessu er ætlað að koma í veg fyrir að hefðbundinn verslunarrekstur eigi sér stað þar sem áfengi er stillt upp, líkt og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, og leyfishafinn taki við áfengispöntunum með rafrænum hætti í rauntíma.
Góðan dag
Drög að frumvarpi eru nú birt 13. febrúar og rennur frestur til að skila umsögnum út þann 20. febrúar nk., eftir viku. Rétt er að benda á samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna en þar segir í 2. mgr. 9. gr.:
"Drög að lagafrumvörpum skulu kynnt almenningi og hagsmunaaðilum í opnu samráði og
kostur gefinn á umsögnum og ábendingum. Þetta á þó ekki við ef sérstök rök mæla gegn slíkri
birtingu, svo sem ef mál er sérlega brýnt. Hæfilegur frestur skal gefinn til athugasemda, að
minnsta kosti tvær vikur."
Ætti því frestur til að skila umsögnum því í fyrsta lagi að renna út þann 27. febrúar nk.
Virðingarfyllst,
Björg Ásta Þórðardóttir
lögmaður SI
Frábært framtak og stórt skref í rétta átt. Hjálpar litlum brugghúsum landsins til að verða samkeppnishæfari og mun vonandi blása þeim byr undir báða vængi.
Hér er um að ræða löngu tímabæra breytingu í þá veru að erlendir og íslenskir aðilar standi jafnir þegar kemur að sölu áfengis í gegnum netverslanir. Þetta er fyrra skrefið í því að leyfa smærri framleiðendum að selja framleiðslu sína. Nú í gegnum netverslanir, þó ekki megi afhenda framleiðsluna þar sem henni er stillt upp. Seinni áfanginn er að leyfa sölu framleiðslunnar beint til viðskiptavina. En mjög gott fyrra skref.
Við þurfum frelsi gegn skemmdarverkum á góðum forvörnum. Áformað er að leggja fram frumvarp til breytinga á áfengislögum. Dómsmálaráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur farið offari við kynningar á hugmyndum sínum og ekki alltaf haft rétt við. Tillögur hennar hér um að veita undanþágu frá einkasölu ríkisins á áfengi er engin smá eða léttvæg breyting heldur kollvörpun á forvarnastefnu Íslands. Árangur okkar í forvörnum er heimsþekktur og byggir á að áfengisiðnaðurinn fái ekki frelsi til að markaðssetja sínar vörur eins og þeim sýnist. Markmið Áslaugar Örnu með þessu frumvarpi er að afhenda aukið frelsi til áfengisiðnaðarins. Frelsi sem sífellt er verið að taka frá einstaklingum til að taka lýðheilsumiðaðar ákvarðanir án þrýstings þeirra sem hagnast af sölu áfengis. Hér þarf virkilega að vekja athygli á því að almenningur á Íslandi vill ekki aukna neyslu áfengis eða annara vímuefna samkvæmt skoðunarkönnunum og þeim lýðheilsumarkmiðum sem við höfum samþykkt hér heima og á alþjóðavettvangi. Umrædd hugmynd felur í sér undanþágu á einokun ÁTVR á smásölu áfengis. Undanþágu til þess að heimila innlenda vefverslun með áfengi til neytenda í smásölu. Það sjá allir að með því að samþykkja undanþágur og leyfa almenna vefverslun dregur það svo úr stöðu ÁTVR að stofnunin mun hverfa af markaði. Í dag hefur Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins einokun á smásölu áfengis til neytenda. Þetta fyrirkomulag kom á sínum tíma til af illri nauðsyn til að draga úr neikvæðum afleiðingum áfengisneyslu og auka lýðheilsu í samfélaginu. Reynslan af núverandi fyrirkomulagi er góð. Svo góð að önnur ríki heims líta til okkar sem fyrirmynd og hafa nokkur ríki tekið upp okkar forvarnastefnu sem byggir í grunnin á sterkum lögum. Mikilvægt er að lagasetning um einkasölu ríkisins haldist því að áfengi er engin venjuleg neysluvara. Árið 1995 var einkaréttur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til innflutnings á áfengi afnuminn. Í þeirri lagabreytingu var ekki lokað fyrir að almenningur gæti flutt áfengi til landsins, þó að til einkaneyslu væri. Þessi hvati áfengisiðnaðarins hefur ýtt undir meiri neyslu. Eðlilegt er að þessi breyting verði afturkölluð til að fjarlægja ágóðahvata áfengisiðnaðarins, í það minnsta að setja ákvæði um að almenningur geti ekki flutt inn, því hér er um einstakt eitur að ræða. Áformað er að heimilað verði að starfrækja innlenda vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda. Allar rannsóknir sýna að aukið aðgengi ýtir undir aukna neyslu. Í umræðunni er talað um að breytingin sé til að mæta sívaxandi kröfum neytenda um aukið valfrelsi. Meirihluti þjóðarinnar vill óbreytt áfengislög. Byrjunaraldur hefur færst upp og komnar eru fram kynslóðir sem hafa minni áhuga á neyslu áfengis eða annara vímuefna. Ekki má gleyma að áfengisiðnaðurinn beitir ógeðfelldum aðferðum til að telja almenningi trú um þörfina fyrir vímuefni og ýtir allar stundir undir meiri neyslu. Rætt hefur verið um nauðsyn þess að jafna stöðu innlendrar verslunar við þá erlendu með skírskotun til jafnræðis. Slíkt fæst ekki staðist og sannast það með dómum sem fallið hafa hjá Evrópusambandinu. Það má hafa lög um einkasölu ÁTVR á Íslandi. Það er vilji samfélagsins að hafa sterkar forvarnir með einkasölu.
Æska landsins í dag þarf ekki aukið aðgengi að áfengi. Börn og ungmenni sneiða í meira mæli hjá neyslu áfengis og annara vímuefna. Æ fleira ungt fólk tileinkar sér heilbrigða lífshætti. Í dag er ÁTVR með einokun á smásölu áfengis til neytenda. Það þarf að hafa sölu áfengis svona til að minnka neikvæðar afleiðingar og auka lýðheilsu í samfélaginu. Reynslan af núverandi fyrirkomulagi er svo góð að önnur ríki heims líta til okkar sem fyrirmynd og hafa nokkur ríki tekið upp okkar forvarnastefnu sem byggja á sterkum lögum. Mikilvægt að einkasala ríkisins haldist þar sem áfengi er engin venjuleg neysluvara.
Góðan daginn, Halldór heiti ég og er annar eigandi Berjarmór, KT: 700112-0120, sem sérhæfir sig í innflutningi á léttvínum frá Evrópu. Verði þetta frumvarp að lögum mun það breyta rekstri fyrirtækisins.
Ég vil taka það fram að ég er ekkert sérstaklega fylgjandi því að áfengi verði selt í matvöruverslunum, eða stórmörkuðum. Ég er hinsvegar á því að sérhæfar áfengisverslanir gætu breytt drykkjumenningu Íslendinga til hins betra, og finnst mér frumvarpið skref í þá átt.
Sjálfur hef ég pantað af erlendum vefsíðum ótal sinnum og verið ánægður með það. Fyrirtæki mitt flytur inn svokölluð náttúruvín, eða vín sem gerð eru úr lífrænt ræktuðum berjum, ósíuð og engum aukaefnum bætt við.
Við flytjum ekkert inn nema heimsækja vínbændurnar fyrst, þetta eru smáir framleiðendur sem framleiða sitt í litlu upplagi. Áherslan hjá þeim er sjálfbærni, virðing fyrir landinu og að reyna hverfa frá iðnframleiðsluháttum.
Þessu æði var spáð dauða fyrir meira en tíu árum síðan. En það stækkar bara og stækkar í takti við neytendameðvitund - sí fleiri hafa minni áhuga á að setja ofan í sig þau aukaefni sem tíðkast í verksmiðju-víngerð.
Áfengisverslun Ríkisins og reglur hennar hafa gert okkur mjög erfitt um vik. Ég gæti talið upp ótal dæmi, vín frá okkur hefur verið tekið úr sölu vegna þess að nafn framleiðandans er ekki stærra en 1,3 mm, sem er skylda samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins. Samt er umrætt vín ítalskt, framleitt í Evrópu og selt um alla Evrópu.
En hér á Íslandi strandar það á skerjum regluverks ESB, sem er svo sem sjálfsagt - auðvitað getur ríkisfyrirtækið ekki horft í gegnum fingur sér með svona.
Annað vín hefur verið tekið úr sölu vegna þess að á því stendur Vini-bianco, ÁTVR vill fá límmiða sem stendur á hvítvín - og er það grátbroslegt í besta falli.
Þá tóku ÁTVR upp á því að skilgreina sjálfir hvað væri náttúruvín, þvert á allar aðrar skilgreiningar heimsins. Þannig gátu stærri birgjar flutt inn vín sem fellur að skilgreiningu átvr, og selja nú eitthvað sem ÁTVR flokkar sem náttúruvín, en er það alls ekki, á miklu lægra verði en við getum nokkurntíma boðið - og neytendur hafa ekki hugmynd um það.
Svona ákvarðanir sem teknar eru í hálfkæringi á skrifstofu ÁTVR, geta hæglega kostað smáa innflytjendur reksturinn. Og þetta er ekki í lagi. En ekki getum við kvartað í neinum, bara látið Ríkið valta yfir okkur í rólegheitum.
Náttúruvín eru umdeild innan vínheimsins, öll framleiðsla þeirra er á skjön á hefðbundna vínframleiðslu og hafa margir innan þess heims tekið tilvist þeirra sem einhverskonar stríðsyfirlýsingu við sig. Gott og blessað. En þannig er það hálf hjákátlegt þegar starfsmenn ríkisverslunarinnar hafa staðið við náttúruvínsrekkann og varað fólk við „þessum vínum." Undirritaður hefur sjálfur lent í starfsfólki sem gerir það.
Þetta er hálf ömurlegt.- Að finna góðan framleiðanda, flytja inn vínið frá honum, og leggja það svo í hendur þriðja aðila (ríkisins) að selja það - sem ræður fólki frá því því honum finnst að sér vegið persónulega!
Þá fáum við oft vín í svo litlu upplagi, sumar tegundir einungis í kannski 90-120 flöskuum og þá einfaldlega borgar sig ekki að ganga í gegnum allt vesenið að koma þeim í átvr, borga fyrir hillupláss, og svo framvegis.
Svo ef veitingastöðum/öldurhúsum hugnast ekki að kaupa vínin sökum verðs eða annars, þá sitjum við uppi með þau.
Þessi vín eiga sér lítinn en dyggan stuðningshóp á Íslandi. Á hverjum degi fáum við send skilaboð frá fólki, -eigiði þetta?, 'er hægt að kaupa svona sem ég smakkaði þarna? og öllum þurfum við að vísa frá. Bara til að horfa á kassa af víni daga uppi í hillunum hjá okkur.Þetta er ekki fólk sem vill verða mígandi fullt og gubba og berja einhvern. Þetta eru yfirleitt matgæðingar, áhugafólk um vín, safnarar eða álíka.
Það er hálfvandræðalegt að geta ekki selt þeim vín, öll gjöld af vörunni eru greidd, ég á hana - en þú mátt ekki fá hana, vegna lýðheilsusjónarmiða. Hinsvegar máttu kaupa hana á veitingahúsi þrefalt dýrari og drekka hana á staðnum.
Vegna þess hvað kerfið hérna hefur reynst flókið, höfum við meira að segja skoðað að selja fyrirtækið dönsku fyrirtæki, (fyrirtækið sem Christopher Melin, meðeigandi Berjamórs rekur í Kaupmannahöfn) hafa lagerinn áfram á Íslandi, en láta fólk panta af dönsku vefsíðunni og senda það svo innanlands.
Þetta eru hundakúnstir sem mér hugnast ekki. Netverslun myndi gera okkur kleift að selja vínin til þeirra sem vilja kaupa þau. Milliliðalaust. Þetta myndi alfarið breyta okkar rekstri.Verði lögin ekki samþykkt, þá spyr maður sig einfaldlega hvaða feluleik stjórnvöld vilji halda uppi? Við verðum að líta á staðreyndir málsins í stað þess að loka augunum og signa okkur og fara vera í siðferðislegum feluleik við raunveruleikann.
Vín gengur kaupum og sölum í Reykjavík. Þeir sem vilja ölva sig, gera það án nokkurs vanda. Bjór og sterkt áfengi er keyrt heim til fólks með aðgang að réttum FB-hópum eða til ungmenna með Whats-app, heimabrugg er keyrt í brúsum til fólks fyrir lágt verð, stórir innflytjendur sem smáir leka flöskum framhjá bókhaldi, veitingastaðir selja vín út um bakdyrnar á hverju kvöldi, fólk sem á efni á því pantar sér vín af netinu . Væri ekki hreinna og beinna að gera þetta fyrir opnum tjöldum? Og styrkja forvarnir þar sem það á við, tillagan í þessu frumvarpi er ekki byltingarkennd og mun engu breyta fyrir neytendur þannig séð, þeir hafa til þessa getað pantað sér vín af netinu, bæði frá útlöndum og af átvr.
Kannski, með því að treysta fagfólki og fólki sem er ástríðufullt fyrir víni til þess að selja það sjálft, má í leiðinni vinda ofan af ofdrykkjumenningu íslendinga og reyna innleiða kúltíveraðri nálgun á víndrykkju.
Með von um að skref verði stigið til betri drykkjumenningar.
Halldór Laxness Halldórsson.
Góðan dag, Kristján Jónas Svavarsson heiti ég og er einn af þremur sem eiga og reka fyrirtæki sem heitir KLIF ehf (kt:550366-0109).
KLIF ehf flytur inn kampavín, rauðvín og hvítvín frá Frakklandi. Við erum að flytja inn vín frá litlum framleiðendum sem nota ekki aukaefni í framleiðsluna, allt handgert og á litlum skala, umhverfisvænt og náttúrulegt. Þannig vín viljum við flytja inn og kynna fyrir Íslendingum. Það er óskaplega erfitt og jafnvel ómögulegt að halda okkar vínum inní hillum Vínbúðarinnar. Ástæða þess er að við erum ekki að selja þetta í nógu miklu magni í gegnum þá að þeirra mati, það sjónarmið eitt og sér er frekar undarlegt ef við hugsum um lýðheilsu sem sumir hafa áhyggur af ef þessi breyting nær í gegn en þær áhyggjur eru algjörlega óþarfar. Aðgengi að áfengi er ekki að aukast við þessa breytingu, það eru bara að vera eðlilegra og þægilegra. Við erum ekki að stóla á magn, við viljum gæði og að framleiðslan sé í sátt við umhverfið. Því er þetta tekið út og fær ekki að vera í þeirra hillum og sett í þeirra netverslun í staðinn en þar náum við ekki ásættanlegum árgangri.
Þessi lagfæring á áfengislögunum er bara til heilla fyrir land og þjóð. Möguleikar okkar, sem smáir eru í sniðum, til að útvíkka þekkingu Íslendinga á "betri" vínum og geta boðið uppá vín sem eru einmitt umhverfisvæn og náttúruleg aukast við þessa breytingu . Mér sýnist að áhugi á slíkum vínum sé að stór aukast.
Núverandi kerfi er viðskiptahamlandi og óumhverfisvænt, að þurfa að aka öllu víni upp í Heiðrúnu og svo er öllu dreift þaðan um allt land, er mjög óumhverfisvænt og bara einfaldlega gamaldags. Eftir að hafa líka kynnst starfsemi ÁTVR langar mér sem allra fyrst að loka þeirri stofnun, þar eru skrítnir viðskiptahættir og einstrengislegir og alveg ómögulegt að reyna að útskýra eða að fá afgreiðslu mála flýtt eða fara aðrar leiðir en þeir hafa ákveðið, algjör einstefna og ekki möguleiki að fá neinu breytt þar á bæ.
Mitt mat er að úrval og verð verði betra með að opna fyrir netverslun með áfengi innanlands. Að mínu mati mun þessi breyting laga "drykkjumenningu" Íslendinga, svipað og þegar bjór var leyfður til sölu. Núverandi kerfi er líka ekki í samtímanum og mismunar fyrirtækjum og einstaklingum. Það er í hæsta máta óeðlilegt að erlendar sölusíður geti selt áfengi á Íslandi en ekki innlendar, nema ÁTVR.
Þessu frábæra framtaki Áslaugu ber að fagna og ég vona innilega að þetta verði samþykkt og gert að lögum sem allra fyrst fyrir framgöngu eðlilegs viðskiptafrelsis og ekki síst vegna umhverfis, samkeppnishátta og jafnréttissjónarmiða.
Bestu kveðjur,
Kristján Jónas Svavarsson, sölustjóri og eigandi KLIF ehf
Sá er þetta skrifar rekur lítið innflutningsfyrirtæki sem sérhæfir sig í handverksvínum frá Frakklandi. Fyrirtækið selur hvorki vörur í einokunarverslunum ÁTVR enda eru slík vín einungis fáanleg í littlu magni og algerlega óraunhæft að selja í stórmörkuðum á borð við ÁTVR.
Það frumvarp sem hér er kynnt er augljóst hagsmunamál fyrir neytendur annarsvegar og minni framleiðendur og innflytjendur hinsvegar.
Handverk í framleiðslu á vörum með sérstöðu á skiljanlega erfitt uppdráttar í samkeppni við stórar iðnaðarsamsteypur sem keppt geta í krafti stærðarhagkvæmni og magnframleiðslu. Sérstaða minni framleiðenda getur einfaldlega falist í staðsetningu framleiðslunnar í hreinni náttúru Íslands, staðarhráefnum, sérlundaðri framleiðslutækni osfrv. Að hefta starfsemi lítilla handverksbrugghúsa með úreltum viðskiptaháttum á borð við ríkiseinokunarverslunum stenst auðvitað enga skoðun.
Evrópusambandið samþykkti í Desember á síðasta ári, reglugerð sem gerir seljendum vöru og þjónustu á netinu skylt að veita öllum neytendum rétt til viðskipta á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilskipunin þýðir að allar vörur skulu standa neytendum til boða án tillits til búsetu. Með tilskipuninni er að sjálfsögðu verið að tryggja að íbúar dreifðra byggða hafi fullan rétt til hagstæðrar verslunar.
Í dag er íslenskum neytendum heimilt að versla vín af hvaða vínsala sem er, svo fremi að viðkomandi söluaðili hafi ekki lögfesti á Íslandi. Sú staðreynd er augljós firra og því má segja að hér fari saman sjálfsagt réttindamál og í raun leiðrétting á galla í áfengislöggjöf sem á sér uppruna fyrir daga netverslunar.
Í daglegri umræðu mætti oft álíta að margir einfaldlega átti sig ekki á að netverslun þýðir að verið er að fækka milliliðum og í sumum tilfellum kostnaðarsömum flutningi landshorna á milli. Minni tilkostnaður hefur augljóslega mestan ábata fyrir smærri framleiðendur sem hafa mestan tilkostnað fyrir. Þegar kemur að vöruvali til neytenda hefur netverslun augljósa yfirburði enda engar takmarkanir að því er hillupláss varðar eins og í hefðbundnum verslunum. Að hafna innlendri netverslun með löglegar neysluvörur er stefna um stöðnun.
Nýlega var ágæt umfjöllun um málið hjá RÚV, m.a. viðtal við brugghúsið Beljanda á Breiðdalsvík sem hingað til hefur þurft að senda sína framleiðslu til Reykjavíkur í stað þess að selja á staðnum, hvar reyndar engin víbúð er til staðar. Eigandi brugghússins bendir á athyglisverða nýjung sem felst í margnota bjórkútum sem hægt er að fylla á og spara þar með einnota umbúðir en allar bjórdósir sem fylltar er á hér á landi eru fluttar inn uppréttar.
https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir-kl-19-00/27717/8ku9ob/umbudalaus-bjor-mogulega-handan-vid-hornid?fbclid=IwAR1Yhe5X5gtZefLku9zGMbrgalOUWqbS4lhwps3kU37ZNb9rPyJuG6AAvkA
Viðskiptafrelsi með vín, oft nefnt ,,vín í búðir” hefur gjarnan verið gagnrýnt fyrir ætlað ,,aukið aðgengi” Þetta frumvarp mætti hinsvegar allt eins kala ,,vín úr búðum” þ.e. að færa verslun með áfengi í auknum mæli á netið og sporna þar með gegn sífelldri útþenslustefnu ÁTVR um land allt. Málið ætti því að vera fagnaðarefni út frá svokölluðum lýðheilsusjónarmiðum að auki.
Foreldraþorpið, samráðsvettvangur stjórna foreldrafélaga grunnskóla í Laugardal, Háaleiti og Bústöðum í Reykjavík, ályktaði á stjórnarfundi þann 19.feb.2020 eftirfarandi: Áfengi er ekki venjuleg neysluvara og veldur margháttuðum lýðheilsuvanda. Rannsóknir sýna að aukið aðgengi að áfengi eykur neyslu og því myndi fyrirhugað frumvarp fela í sér verulega afturför í forvörnum gegn áfengisneyslu barna og unglinga. Foreldraþorpið leggst því eindregið gegn samþykkt þessa frumvarps. Með vinsemd og virðingu og von um gott samstarf.
Þetta frumvarp auðveldar aðgengi að áfengi og því hrein markaðssetning fyrir aukinni neyslu.
Gögn frá Sameinuðu þjóðunum, WHO og Landlækni Íslands benda til að þessi breyting á áfengislögum hafi slæmar afleiðingar og benda á margar rannsóknir sem rök í þeim málflutningi. Þjóðir heims hafa viðurkennt að áfengi sé engin venjuleg neysluvara og einn mesti skaðveldur á heilsu fólks og heilbrigði þjóða og hafa ábendingar og hvatningu beinst að því að þjóðir dragi úr neyslu áfengis með öllum tiltækum ráðum. Í þessu sambandi hefur verið bent á Íslenska áfengismálastefnu sem fyrirmynd öðrum til eftirbreytni og leiðbeiningar um hvað virki best í þeirri vinnu; einkasala ríkisins á áfengi, bann við áfengisauglýsingum, hátt vöruverð, takmarkað aðgengi, hár áfengiskaupaaldur og strangar reglur gegn ölvunarakstri. Þetta frumvarp hins vegar gerir ráð fyrir fjölgun útsölustaða og auðveldara aðgengi að áfengi sem óhjákvæmilega leiðir til aukinnar neyslu.
Þjóðir heims eru hvattar til að breyta engu í lögum og reglum sem aukið geti heildarneyslu áfengis en þetta frumvarp vinnur gegn stefnu okkar í lýðheilsu- og forvarnamálum.
Farsælast væri að ráðherrar og annað fólk á þingi láti börnin njóta vafans í svona málum eins og við aðrar lagasmíðar.
Góðan dag,
Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um breytingu á áfengislögum.
f.h. Samtaka atvinnulífsins,
Heiðrún Björk Gísladóttir
Viðhengi
Umsögn um áform um lagasetningu - breyting á áfengislögum
Mál nr. 35/2020 Birt: 13.02.2020 í Samráðsgátt
Reykjavík 19. febrúar 2020
Efni: Umsögn IOGT á Íslandi um áform um lagasetningu - breyting á áfengislögum í Samráðsgátt.
IOGT á Íslandi leggst eindregið gegn umræddum breytingum og telur að samþykkt þeirra að hluta eða öllum leyti, muni leiða til aukinnar áfengisneyslu í landinu. Það mun auka þann vanda sem neysla áfengis veldur. Áfengi er engin venjuleg neysluvara heldur lífrænt leysiefni, eitur sem er notað sem hugbreytandi vímuefni og er fíkniefni og eiturlyf. Áfengi hefur mikla sérstöðu sem lögleg vara og fráleitt að um hana þurfi eða eigi að gilda sömu viðmið og ýmsar aðrar vörur. [2]
Bindindissamtökin IOGT vinna mikið með almenningi í grasrótarstarfi, þar kemur fram mikil andúð samfélagsins á umræddum breytingum sem eru í algerri mótsögn við heilbrigðisstefnu þessarar sem og fyrri ríkisstjórna.[3] [4] Umræddar breytingar vinna gegn samþykktum Alþingis í málefnum barna, kvenna[5], jafnréttis og ofbeldis ásamt Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna[6] sem er hluti íslenskra laga.
Áfengisiðnaðurinn hefur þrýst mjög og lengi á að brjóta niður áfengisforvarnir á Íslandi en ein af meginstoðum þeirra er ÁTVR, einkasala ríkisins. Nokkrir stjórnmálamenn hafa stutt þennan eiturlyfjaiðnað og talað fjálglega um frelsi. Það er „viðskiptafrelsi“ til að fanga sem flesta í þrælahald Bakkusar og græða sem mest á því. Almenningur hefur staðið fast á móti þessu og í skoðanakönnunum hefur 70 % landsmanna viljað halda í ÁTVR. Samt berjast þessir stjórnmálamenn gegn lýðheilsu þjóðarinnar. Nú á að reyna að taka þetta í pörtum. Vefverslun með áfengi – ef hún á að vera áfram leyfileg þá er best að hún fari öll fram í gegnum ÁTVR – bæði innlend og erlend. Áfengi er engin venjuleg neysluvara og öll áfengisneysla er skaðleg og áfengi sem selt er á netinu er líka skaðlegt og óþarfi að liðka fyrir þeim skaða. IOGT minnir á að 300 þúsund manns deyja af áfengistengdum orsökum í Evrópu á hverju ári og meira en 3 milljónir manna í heiminum öllum. Það er fyrir utan allan annan skaða sem áfengisneysla veldur.
Dómsmálaráðherra með því að setja fram þessar breytingar þá vinnur hann ekki aðeins gegn markmiðum hans eigin ráðuneytis, heldur líka heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra. Og samgöngumálaráðherra. Og fjármálaráðherra því áfengisneysla kostar þjóðina gríðarlega fjármuni. Dómsmálaráðherra vinnur gegn Barnasáttmálanum, gegn WHO - Global strategy to reduce harmful use of alcohol, gegn WHO - European action plan to reduce the harmful use of alcohol 2012–2020, gegn WHO - Global Action Plan for the Prevention and Control of NCDs 2013-2020 og gegn NDPHS Declaration on Alcohol Policy. Hjá WHO í Evrópu er stefnan að minnka áfengisneyslu í Evrópu um 10 % miðað við árið 2010 fyrir árið 2025. Á Íslandi er vaxandi áfengisneysla. Áfengisneysla skilur eftir sig stórt kolefnisfótspor og vinnur því gegn markmiðum umhverfisráðherra Dómsmálaráðherra vinnur líka gegn forsætisráðherra, því hann ber ábyrgð á Heimsmarkmiðunum og áfengisneysla tálmar 14 af 17 meginmarkmiðunum þar. Dómsmálaráðherra er í andstöðu við eigin ríkisstjórn. Það er ekkert rómantískt við að berjast fyrir ítrustu viðskiptahagsmunum einkaaðila gegn lýðheilsu þjóðarinnar.
Í fyrri umsögnum IOGT á Íslandi sem lesa má á vef alþingis, hafa komið fram margar traustar heimildir sem eru gefnar út á ábyrgð viðurkenndra stofnana, innlendra og alþjóðlegra um vandann sem neysla áfengis veldur. Af þeim er ljóst að vandinn vegna neyslu áfengis er gífurlegur og mikilvægt að leita allra mögulegra leiða til þess að halda honum í skefjum. Umfram allt eru þær þó staðfesting og áminning um að áfengi er engin venjuleg neysluvara og eðlilegt að um hana gildi um margt annað fyrirkomulag og reglur en ýmsar aðrar vörur.
Árlega er gefin út af IOGT‐NTO og the Swedish Society of Medicine rannsóknarskýrslan „Áfengi og samfélagið“ (Alcohol and Society – a Research Report) og hver skýrsla skoðar afmarkað svið neikvæðra afleiðinga áfengisneyslu og fylgja hér nokkur dæmi:
Árið 2013 var áherslan lögð á áfengisneyslu ungmenna. Þar má sjá að neyslan er enn of mikil sem og skaðsemin. Niðurstaðan er að mikilvægt sé að viðhalda einkaleyfi ríkis á áfengissölu, ströngum lögum varðandi ölvunarakstur og háum skatti á áfengi. [7]
Árið 2014 var áhersla lögð á skaðsemi hófdrykkju og sýnt fram á miklu meira tjón af slíkri drykkju en áður var talið. [8]
Árið 2015-2016 var áhersla lögð á óbein áhrif áfengisneyslunnar þar sem kom sterkt fram að neikvæðar afleiðingar áfengisneyslunnar er mikið samfélagsmein. [9]
Árið 2016-2017 var áhersla lögð á krabbamein. Þar kemur m.a. fram að níu tegundir krabbameina eru sterklega orsakatengd áfengisneyslu og í Svíþjóð eru 4,5% krabbameinsdauðsfalla tengd áfengi. Og 30% krabbameinstilfella tengd áfengi eru tengd lítilli eða miðlungs neyslu. Ekki var fjallað um aðra sjúkdóma tengdum áfengi eins og geðsjúkdóma. [10]
Árið 2017-2018 var lögð áhersla á tengsl áfengisneyslu og ofbeldis. Fjallað er um áhrif ofbeldis tengt áfengisneyslu og áhrif þess á heilsuna. Bent er á leiðir til að draga úr ofbeldi og er takmörkun á aðgengi snar þáttur í því. [11]
Árið 2018-2019 var lögð áhersla á áfengisneyslu eldra fólks. Þar kemur fram að áfensgisneysla hefur aukist hjá eldra fólki og skaðsemi af áfengisneyslu, slys og sjúkdómar. [12]
Rannsókn var birt í hinu virta læknariti Lancet haustið 2018 þar sem kemur fram að áfengisneysla er leiðandi áhættuþáttur í dauða og fötlunum og yfirhöfuð tengt við neikvæð áhrif á heilsufarsástand. Hægt er að tengja áfengisneyslu við 60 bráða og langvinna sjúkdóma. Einstaka rannsóknir hafa fundið einangraða þætti jákvæða en þessi samantekt hrekur þær. Niðurstaðan er að öll áfengisneysla er skaðleg heilsunni. [13]
Prófessor Tim Stockwell kom til landsins í september 2017 og átti fund með fulltrúum IOGT á Íslandi og stjórnvöldum ásamt fulltrúa Landlæknisembættisins. Tim sagði á ráðstefnunni að flest ríki heims ásamt alþjóðastofnunum ynnu að bættri lýðheilsu og sjálfbærnismarkmiðum og að allar tilslakanir á áfengislöggjöfinni væri óheillaskref sem hefði óafturkræf áhrif á einstaklinga og samfélag. Birt var íslensk þýðing á skýrslu sem unnin var í Svíþjóð um hver væri ávinningur ríkisreksturs á smásölu áfengis í Svíþjóð fyrir lýðheilsu og almannaheill. Þar er tekið saman hver væri líkleg aukning á áfengissölu með tilliti til þess að einkasala ríkisins yrði afnumin og kannað hver munurinn er á milli sérverslana og smásöluverslana. Aukningin á áfengisneyslu yrði 20.0% miðað við sölu í sérverslunum og 31.2% miðað við sölu í smásöluverslunum. [14]
Sterk tengsl eru milli áfengisneyslu og kynbundins ofbeldis. Í samþykktri þingsályktun [15] um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019 er grein um samstarfsverkefni þriggja ráðherra um aðgerðir gegn ofbeldi. Markmið verkefnisins verði að bæta samvinnu og verklag við ofbeldisforvarnir og að styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála. Auk samvinnu milli stofnana verði rík áhersla lögð á samvinnu við frjáls félagasamtök. Að auka fræðslu- og forvarnastarf sem byggist á rannsóknum og faglegri þekkingu.
Bann við áfengisauglýsingum er ein af meginstoðum forvarna og að leyfa auglýsingar kippir henni í burt. Í frumvarpinu í 2017 (146. löggjafarþing Þingskjal 165) áttu áfengissalar og –framleiðendur að setja sjálfum sér siðareglur en í löndum þar sem slíkar reglur eru, brjóta þeir eigin reglur sífellt. Í þessu nýja frumvarpi eru ýtarlegar takmarkanir á hvernig má auglýsa en hér á landi hefur sannast nú þegar, aftur og aftur að áfengisiðnaðurinn brýtur með einbeittum brotavilja landslög sem gilda um áfengisauglýsingar og hann mun líkast til halda því áfram.[16]
Vísindatímaritið Addiction gaf út í janúar 2017 sérútgáfu sem fjallar um áfengisauglýsingar og kemur þar skýrt fram að áfengisauglýsingar ná sannarlega til barna og ungmenna. [17]
Í mörgum áfengisauglýsingum eru konur hlutgerðar og í sumum er hreinlega ýtt undir kynbundið ofbeldi. [18]
Samfélagslegur kostnaður vegna áfengisneyslu á Íslandi hefur verið reiknaður út í meistararitgerð Ara Matthíassonar 2010 en þar skiptir hann kostnaði í beinan og óbeinan kostnað og er útkoman 50 – 80 milljarðar á ári. [19] Reiknað upp til ársins 2018 eru efri mörkin nú yfir 100 milljarðar. Þessi upphæð eykst um 30 milljarða á ári ef frumvarp verður samþykkt.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) bendir á að áfengi er stór þáttur í ósmitnæmum sjúkdómum og hvetur allar þjóðir til að draga úr áfengisneyslu. [23]
Ísland er aðili að sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. [20] Ljóst er að áfengisneysla hefur neikvæð áhrif og hindrar að minnsta kosti 14 af 17 markmiðunum og 52 af 169 undirmarkmiðum. Þetta frumvarp sem yrði til þess að auka áfengisneyslu er í hrópandi ósamræmi við gildandi samþykktir þar um. [21] Alþjóðahreyfing IOGT hefur þýtt á íslensku rit um hvernig áfengi hefur áhrif á markmiðin og vinnur gegn sjálfbærniþróun í heiminum. [22] Alþingismenn hafa fengið sendann bæklinginn þýddan á íslensku sem opnar augu þeirra hve gríðarleg neikvæð áhrif áfengi hefur á samfélagið.
Hverra hagsmuna er verið að gæta?
Per Leimar, sérfræðingur IOGT í Svíþjóð um markaðssetningu áfengis, segir áfengisiðnaðurinn beita óeðlilegum þrýstingi á stjórnvöld og tekur sem dæmi afskipti Costco af atkvæðagreiðslu um áfengislög í Washington ríki í Bandaríkjunum.[24]
Í skýrslu velferðarráðherra um aðgerðir samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum. [25] kemur skýrt fram „Stjórnvöld beiti markvissri áfengisstefnu sem hafi það að markmiði að draga úr áfengisneyslu og ölvun og þar með ofbeldi sem tengist henni. Áhrifaríkustu forvarnirnar eru verðstýring og takmarkað aðgengi að áfengi.“
Þann 16. mars 2017 sagði Þorsteinn Víglundsson þáverandi félags og jafnréttismálaráðherra á ráðstefnu UN women í verkefninu HeForShe „We strongly encourage men and boys everywhere to become agents of change.“ Þar talaði hann um að vinna skuli að jafnrétti. Aukið aðgengi að áfengi er ekki rétta leiðin til þess samkvæmt aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar og Heimsmarkmiðunum. Aukin neysla áfengis mun alltaf bitna meira á konum hvað varðar neikvæðar afleiðingar áfengisneyslunnar. [26]
Í fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um biðlista á Vogi frá Sigurði Páli Jónssyni [27] svarar heilbrigðisráðherra því að á biðlista séu 570 á Vogi, 20 á Landsspítala og 50 á Hlaðgerðarkoti. Hér er ekki rædd staða á börnum og ungmennum sem fá aðstoð annarsstaðar. Á árinu 2018 fær SÁÁ 840 milljónir. [28] Í frétt frá SÁÁ kemur fram að það dugir ekki einu sinni fyrir launakostnaði. [29] Ljóst er að með því að auka aðgengi og leyfa áfengisauglýsingar aukast neikvæðar afleiðingar áfengisneyslunnar. Það vinnur gegn lýðheilsumarkmiðum. Ekki má gleyma að hér er um manneskjur að ræða. [30]
Í fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um hvort tekið sé tillit til forvarna og lýðheilsu frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur [31] svarar heilbrigðisráðherra því til að sérstök áhersla sé lögð á forvarnir og lýðheilsu. [32]
Embætti Landlæknis gaf út í febrúar 2018 Talnabrunn [33] þar sem kemur fram að skaðlegt neyslumynstur sé árið 2017 hjá 40.000 körlum og 33.000 konum. Hér er mæld skaðleg neysla samkvæmt skilgreindum mælikvarða. Æ fleiri nýjar rannsóknir benda til þess að hvers kyns neysla sé skaðleg að einhverju leyti sbr. hjarta, æðarsjúkdómar og krabbamein.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin - Unicef - Lancet commision sendu frá sér yfirlýsingu í gær sem ítrekar að áfengi skaðar heilsu barna og framþróun.
Allar tillögur um tilslakanir í áfengisvörnum er ógn við framtíð barna.
IOGT á Íslandi er hluti af stærstu forvarnasamtökum heims. Meirihluti íbúa heimsins notar ekki áfengi, kannabis eða önnur vímuefni. Yfir 62% heimsbyggðarinnar notar ekki áfengi og er það markmið IOGT að draga sem mest úr neikvæðum afleiðingum neyslu áfengis og annarra vímuefna. Við teljum að áfengis og vímuvarnastefnan á hverjum tíma eigi að þjóna heildarhagsmunum samfélagsins og byggja á traustum rannsóknum. Áfengismál og önnur vímuefnamál eru veigamikill málaflokkur og mikið í húfi að stefnumörkun sem þau varðar séu byggð á niðurstöðum rannsókna og forðast ber stefnumótun sem byggist á einföldun, vanþekkingu og úrræðum sem ekki skila árangri eða vinna gegn heilsu einstaklinga og samfélags. Þess vegna á almenningur rétt á að stefna um áfengi og önnur vímuefni sé vel ígrunduð, unnin af vandvirkni og farið varlega í breytingar á aðgengi. Kostnaðurinn við að hefta aðgang að kannabis er lítill miðað við þann kostnað sem hlýst af neyslu. Áfengis og vímuefnastefna okkar er sterk og horfa mörg ríki heims til hennar sem góðrar fyrirmyndar. Ef áfengisiðnaðinum tekst að veikja hana á Íslandi mun hann nota það til að veikja forvarnir í öðrum löndum. IOGT á Íslandi hefur sent inn umsögn um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. IOGT á Íslandi hefur frá stofnun unnið að þvílíkum markmiðum og telur að stysta leiðin til að ná þeim sé að draga úr áfengisneyslu.
Fyrir hönd Bindindissamtakanna IOGT á Íslandi
Björn Sævar Einarsson Formaður
Aðalsteinn Gunnarsson Framkvæmdastjóri
[1] https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1555
[2] http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item10424/Afengi_engin_venjuleg.pdf
[3] https://www.velferdarraduneyti.is/media/rit-og-skyrslur-2014/Stefna-i-afengis--og-vimuvornum-desember-2013.pdf
[4] https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=a5aa63d9-d5b4-11e7-9422-005056bc530c
[5] https://www.unric.org/is/frettir/27159-sameinueu-tjoeunum-ber-ae-vera-oeerum-fyrirmynd
[6] http://www.barnasattmali.is/barnasattmalinn/barnasattmalinnheildartexti.html
[7] http://iogt.se/wp-content/uploads/forskningsrapport-eng-20131.pdf
[8] http://iogt.se/wp-content/uploads/Alkoholrapport-2014-ENG.pdf
[9] http://iogt.se/wp-content/uploads/Alcohol_and_society2015_en.pdf
[10] http://iogt.se/wp-content/uploads/Alkoholrapport-2016-2017-Engelska1.pdf
[11] http://iogt.se/wp-content/uploads/IOGT-3300-Rapport_ENG.pdf
[12] https://iogt.se/wp-content/uploads/Report-Alcohol-and-older-people-1.pdf
[13] https://www.thelancet.com/journals/lancet/article/PIIS0140-6736(18)31310-2/fulltext
[14] https://issuu.com/fraedslaogforvarnir/docs/systembolaget_study_2017_icelandic
[15] http://www.althingi.is/altext/145/s/1640.html
[16] http://www.althingi.is/lagas/146a/1998075.html
[17] http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/add.v112.S1/issuetoc
[18] http://www.bigalcohol.exposed/#marketing
[19] https://saa.is/wp-content/uploads/2015/03/ritgerd-ara-matthiassonar.pdf
[20] https://www.unric.org/is/component/content/article/62-januar-2015/26384-17-sjalfbaer-trounarmarkmie
[21] http://iogt.is/wp-content/uploads/2019/05/%C3%81fengi-og-Heimsmarkmi%C3%B0in-SDG-22-ma%C3%AD-l2019-B%C3%A6klingur.pdf
[22] http://iogt.is/2019/05/23/afengi-og-heimsmarkmid-sjalfbaerrar-throunar/
[23] http://www.who.int/mediacentre/news/releases/2018/world-leaders-ncds/en/
[24] http://www.jsad.com/doi/full/10.15288/jsad.2016.77.577
[25] http://www.althingi.is/altext/139/s/pdf/1214.pdf
[26] https://heforshe.is/barbershop-verkfaerakistan-kynnt-hofudstodvum-sameinudu-thjodanna/
[27] http://www.althingi.is/altext/148/s/0172.html
[28] http://www.althingi.is/altext/148/s/0300.html
[29] https://saa.is/grein/framlog-rikisins-duga-ekki-fyrir-launum/
[30] https://www.unric.org/is/frettir/27157-aeeins-sjoetti-hver-fikill-hefur-aegang-ae-meefere
[31] http://www.althingi.is/altext/148/s/0275.html
[32] http://www.althingi.is/altext/raeda/148/rad20180226T172757.html
[33] https://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item34462/
[34] https://www.who.int/news-room/campaigns/a-future-fit-for-children?utm_content=117923234&utm_medium=social&utm_source=facebook&hss_channel=fbp-374651963469&fbclid=IwAR16CpublFdaH2AggeWcEcFCWmcICh8bC2BTkbRlYdpVDZSFfV6zmAjt02Y
ViðhengiUmsögn embættis landlæknis er í viðhengi.
ViðhengiUmsögn Félags atvinnurekenda er í viðhengi.
ViðhengiMeðfylgjandi er sameiginleg umsögn SAF - Samtaka ferðaþjónustunnar og SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu um drög að frumvarpi til breytinga á áfengislögum.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Samkeppniseftirlitsins um drög að frumvarpi til breytinga á áfengislögum.
ViðhengiSamtök íslenskra handverksbrugghúsa styðja það heils hugar að leyfa innlendum aðilum að reka vefverslun með áfengi. Slík verslun mun auðvelda smáum innlendum framleiðendum að koma vöru sinni á markað til kröfuharðra neytanda beint og milliliðalaust. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir lítil brugghús á landsbyggðinni sem hafa þá meiri möguleika á að koma vöru sinni á markað í eigin heimabyggð.
Samtökin telja að ákvæði í frumvarpinu séu fullnægjandi til að koma í veg fyrir misnotkun kaupenda sem ekki hafa aldur til að kaupa áfengi. Þá er tryggt að aðgengi fólks sem ekki kýs að kaupa áfengi er ekki aukið með frumvarpinu.
Samtök íslenskra handverksbrugghúsa eru hagsmunasamtök 22 handverksbrugghúsa um land allt. Flest aðildarfélögin framleiða bjór, eitt framleiðir mjöð og eitt gerir eimaða drykki frá grunni. Brugghúsin eru smá, hafa gæði og frumleika að markmiði og þau leitast við að gera úrvals vörur í nánu samstarfi við sitt nærumhverfi. Þau skapa atvinnu fyrir hundruði manns, auka lífsgæði í sínu byggðalagi og stuðla að aukinni ferðamennsku með því að laða til sín ferðamenn sem vilja heimsækja brugghús og upplifa vörur gerðar á þeim svæðum sem þeir sækja heim.
Undirritaður hefur lengi verið talsmaður þess að færa áfengislöggjöfina til betra horfs, með því að heimila öðrum en ríkinu að selja áfengi í smásölu. Ég tel að slíkt fyrirkomulag sé heppilegra og nútímalegra en það sem við lýði er. Mörg rök eru fyrir því en ég vil nefna ein sérstaklega. Menn gleyma því stundum að atvinnufrelsi telst til mannréttinda. Vel má vera að hið opinbera vilji setja því skorður í almannaþágu, til dæmis í þágu lýðheilsu. Ég tel hæpið að sú krafa að skipa fólki að ráða sig til ríkisins ef það vill leggja stund á vínsölu í atvinnuskyni sé málefnaleg og í anda hugmynda um meðalhólf.
Vilji ríkið setja áfengissölu skorður er sjálfsagt að binda þær í lög, en láta sama yfir alla ganga, jafnt opinbera aðila sem einkaaðila. Á þeim forsendum tel ég áfram réttara að heimila einkaðilum að selja áfengi í smásölu, undir sömu reglum og gilda um ríkið.
Að því sögðu eru umrædd frumvarpsdrög klárlega mikilvæg og góð framför. Þau gefa fullorðnu fólki færi á að mynda eðlileg viðskiptasambönd sín á milli, í viðskiptum með löglega vöru, og tel að þau myndu bæta vínmenningu Íslendinga, yrðu drögin að lögum. Ég styð því þetta mál.
Takk fyrir þetta tækifæri sem ég tek sem virkilegt samráð og set því fram mína skoðun á málinu.
Áfengi er eitur sem farið hefur ílla með margan góðan drenginn og ekkert sem knýr á um breytingu á núverandi fyrirkomulagi til að liðka til fyrir sölu nema óstjórnleg græðgi þeirra sem vilja hagnast á veikleika annrara.
Stundum er talað um áfengismenningu og rekinn áróður fyrir betri áfengismenningu. Besta leiðin til að bæta meðferð og neyslu áfengis er að takmarka aðgengi og auka eftirlit með neyslu.
Vefverslun til að nálgast eitrið getur ekki verið leiðin til þess. Vefverslun mun auka neyslu áfengis, sér í lagi þeirra sem eru veikir fyrir áfengi eða haldnir óstjórnlegri fíkn. Ekki er ólíklegt að framleiðendur áfengis hafi náð eyrum dómsmálaráðherrans í harðnadi samkeppni við önnur vímuefni.
Staðreynd er að neysla áfengis hefur dregist hlutfallslega saman í öllum aldurshópum samfélagsins en önnur eiturefni náð til sín stærri hluta af sölunni.
Ég segi nei við þessari áformuðu breytingu á sölu áfengis og legg til að unnið verði að nýjum lögum sem takmarka enn frekar aðgengi að öllum eiturefnum.
Ég legg til að að ráðherra dómsmála í samvinnu við ráðherra heilbrigðismála setji í gang vinnu við að reikna út áætlaðan sparnað í heilbrigðiskerfi landsins og hve mikið landsframleiðslan mundi aukast ef öll neysla áfengis yrði bönnuð og komið yrði á sektarkerfi við brotum í stíl við umferðarsektir.
Til vara legg ég til að landsmenn verði spurðir um þessa lagabreytingu í alsherjar atkvæðagreiðslu.
takk fyrir samráðið og kveðja,
Jón Þóroddur Jónsson
111145 6959
Sjá viðhengi:
Áfengi er engin venjuleg neysluvara. Áfengi veldur gífurlegu samfélagslegu tjóni. Að leggja til breytingar sem munu auka áfengisneysluna eru mikil mistök.
Áfengisforvarnir ríkisvaldsins byggja á fjórum meginstoðum í regluverki: Takmarka aðgengi að áfengi í tíma og rúmi, það er, hvernær og hvar er hægt að kaupa áfengi, aldurstakmörkum á neyslu og kaupum á áfengi, og stýringu á verði áfengis, t.d. með áfengisgjaldi (og lágmarksverði á áfengiseiningu eins og gert er í Skotlandi).
Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, ÁTVR, og einkaleyfi hennaar á smásölu áfengis til neytenda er hornsteininn í áfengisforvörnum á Íslandi og er besta leiðin til að þessar meginstoðir virki. Og almenningur vill hafa ÁTVR áfram. Áfengisiðnaðurinn berst hatrammlega fyrir því að leggja ÁTVR niður því þeir vita það þá mun seljast meira áfengi og fleiri munu verða þrælar Bakkusar og þeir munu græða. Ef áfengisala ríksins í Svíþjóð yrði lögð niður er talið að áfengisneysla ykist um meira en 31 %.
Þetta frumvarp um vefverslun er í raun tangarsókn að ÁTVR – talað er fjálglega um heimsendingar á eiturlyfinu, áfengi (humarpizza og hvítvín?) og talað um að þetta muni hjálpa litla eiturlyfjaframleiðandum.
Enn í raun er lokatakmarkið að rústa ÁTVR.
Í dag getur fólk hlaðið niður appi í símann sinn frá t.d. McDonalds eða Burger King og staðið fyrir utan staðinn og pantað. Eða farið inn á staðinn, þar er snertiskjár (sem sendir pöntunina yfir „internetið“) þar sem þú pantar og borgar vöruna og sækir síðan vöruna 10 metra í afgreiðslu. Þetta er það sem yrði sett upp í Hagkaup og Costco um leið og þetta frumvarp yrði að lögum. Og áfengið yrði selt mun ódýrar en í ÁTVR og neyslan og tjónið mun stóraukast. Þetta má ekki gerast.
Dómsmálaráðherra með því að setja fram þessar breytingar þá vinnur hann ekki aðeins gegn markmiðum síns eigin ráðuneytis, heldur líka heilbrigðisráðherra og félags- og barnamálaráðherra. Og samgöngumálaráðherra og sveitarstjórnarráðherra, (aukið tjón í umferðinni og þyngri róður hjá sveitarstjórnum vegna aukins álags og skaða vegna áfengisneyslu).
Dómsmálaráðherra vinnur gegn Barnasáttmálanum, gegn WHO - Global strategy to reduce harmful use of alcohol, gegn WHO - European action plan to reduce the harmful use of alcohol 2012–2020, gegn WHO - Global Action Plan for the Prevention and Control of NCDs 2013-2020 og gegn NDPHS Declaration on Alcohol Policy. Hjá WHO í Evrópu er stefnan að minnka áfengisneyslu í Evrópu um 10 % miðað við árið 2010 fyrir árið 2025. (Á Íslandi vex áfengisneysla). O.s.frv. Dómsmálaráðherra vinnur því gegn utanríkisstefnu Íslands og framlagi þess í þróunarmálum – gegn utanríkis- og þróunarmálaráðherra.
Áfengisneysla skilur eftir sig stórt kolefnisfótspor og skaðar vistkerfi og vinnur því gegn markmiðum umhverfisráðherra. Með tillögum sínum er unnið gegn landbúnaðarráðherra því þær styðja fólk á villigötum að breyta matvælum í eiturlyf og varla styður landbúnaðarráðherra það?? Dómsmálaráðherra vinnur gegn menntamálaráðherra því áfengisneysla foreldra tálmar oft menntun barnsins og margir stúdentar hafa flosnað úr námi vegna eigin drykkju. Og iðnaðar- og nýsköpunaráðherra veit að áfengisneysla veldur gríðarlegu framleiðslu- og framleiðnitapi hjá fyrirtækjum og að margur nýsköpunarsprotinn hefur drukknað í alkahóli.
Dómsmálaráðherra vinnur gegn fjármálaráðherra því áfengisneysla kostar þjóðina gríðarlega fjármuni. Hann gæti fyrir þá fjármuni byggt nýjan Landspítala á hverju ári. Þetta samfélagslega tap ykist um yfir 30 milljarða á ári ef ÁTVR legst niður. Dómsmálaráðherra vinnur líka gegn forsætisráðherra, því hann ber ábyrgð á Heimsmarkmiðunum og áfengisneysla tálmar 14 af 17 meginmarkmiðunum. Dómsmálaráðherra er í andstöðu við eigin ríkisstjórn.
Það er ekkert fallegt við að berjast fyrir ítrustu viðskiptahagsmunum einkaaðila gegn lýðheilsu þjóðarinnar.
Björn Sævar Einarsson Formaður Bindindissamtakanna IOGT á Íslandi
ViðhengiÁfengi er engin venjuleg neysluvara. Áfengi veldur gífurlegu samfélagslegu tjóni. Að leggja til breytingar sem munu auka áfengisneysluna eru mikil mistök.
Í raun er verið að ráðast á ÁTVR.
Áfengis App í símann frá t.d. Hagkaupum, hægt að panta í símanum inni í búðinni eða fyrir utan og fá afgreitt strax. Í raun eins og að kaupa áfengi í gamla daga í ÁTVR, biður um flösku og færð afgreitt yfir búðarborðið.
Og áfengið yrði selt mun ódýrar en í ÁTVR og neyslan og tjónið mun stóraukast.
Þetta yrði óheillaspor fyrir þjóðina.
Guðrún Torfadóttir