Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 13.–20.2.2020

2

Í vinnslu

  • 21.2.–27.10.2020

3

Samráði lokið

  • 28.10.2020

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-35/2020

Birt: 13.2.2020

Fjöldi umsagna: 25

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Almanna- og réttaröryggi

Frumvarp til breytinga á áfengislögum

Niðurstöður

Sjá kafla um samráð í frumvarpi sem birt var til umsagna í máli 200/2020

Málsefni

Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á áfengislögum, lögum um verslun með áfengi og tóbak og lögum um aukatekjur ríkisins. Breytingarnar fela í sér undanþágu frá einokun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis til neytenda þannig að lagt er til að heimilaður verði rekstur innlendra vefverslana með áfengi í smásölu til neytenda með þeim takmörkunum sem í frumvarpinu greinir.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á áfengislögum nr. 75/1998, lögum um verslun með áfengi og tóbak nr. 86/2011 og lögum um aukatekjur ríkisins nr. 88/1991. Breytingarnar fela í sér undanþágu frá einokun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis til neytenda. Með frumvarpinu er heimilað að starfrækja vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda. Þannig verði heimiluð sala áfengis í gegnum verslanir sem starfræktar eru á netinu, svokallaðar vefverslanir. Í áformaskjali sem birt var á samráðsgátt í lok nóvember sl. var einnig boðuð breyting hvað varðar sölu minni áfengisframleiðanda á framleiðslustað. Í frumvarpi þessu er eingöngu lögð til undanþága sem varðar sölu innlendra vefverslana með áfengi en unnið verður áfram að frumvarpi til breytinga í þá vegu að heimila minni áfengisframleiðendum sölu á eigin framleiðslu á framleiðslustað.

Gildandi lagaumhverfi fjallar ekki um verslun með áfengi við erlendar verslanir, t.d. í gegnum vefverslanir. Almenningur hefur því getað keypt sér áfengi í gegnum erlendar vefverslanir og látið senda heim að dyrum á Íslandi, að áfengis- og innflutningsgjöldum uppgerðum. Samhliða þeirri þróun, að íslenskir neytendur hafi pantað sér áfengi erlendis frá, þá hafa viðskipti í gegnum vefverslanir farið sívaxandi á hverju ári. Á síðastliðnum árum hefur orðið sérstaklega mikil aukning á viðskiptum í gegnum vefverslanir og jafnan eru vörurnar sendar samdægurs heim að dyrum neytandans. Heimsending á vörum er orðinn daglegur veruleiki í lífi Íslendinga og hafa fjölmörg fyrirtæki skapað sér sérstöðu með því standa vel að rekstri vefverslana sem gera út á daglegar heimsendingar. Þetta fyrirkomulag hefur leitt til þess að neytendur spara sér tíma og geta stundað viðskipti í auknum mæli á eigin forsendum. Samhliða auknu valfrelsi neytenda og alþjóðavæðingu hefur ósk almennings um aukið frjálsræði í áfengislöggjöf farið vaxandi. Fjöldi sölustaða áfengis hefur margfaldast á síðastliðnum áratugum í samræmi við áherslur og kröfur neytenda.

Í frumvarpinu er lagt til að sömu almennu skilyrði verði sett fyrir vefverslunarleyfi, eins og öðrum leyfum sem fjallað er um í áfengislögum. Einstaklingar og lögaðilar munu því almennt geta fengið slíkt leyfi, hafi þeir náð tilskildum aldri og tilkynnt ríkisskattstjóra um atvinnustarfsemi sína.

Vefverslun með áfengi mun að meginstefnu fara fram með tvennum hætti, verði frumvarpið að lögum. Annað hvort munu neytendur sækja vöruna á starfsstöð leyfishafans eða fá vöruna senda á þann stað sem þeir tiltaka, í flestum tilvikum heimili sitt. Vert er að hafa í huga að neytendur geta nú þegar fengið áfengi sent heim að dyrum erlendis frá og gilda engar sérstakar reglur um það fyrirkomulag. Ljóst er að þegar heimsending á áfengi á sér stað, mun milligönguaðili oft sjá um póstsendinguna. Í ljósi þessa er í frumvarpinu kveðið á um strangari kröfur til sönnunar á aldri viðtakanda en viðtakandinn þarf í öllum tilvikum að framvísa sönnun þess efnis að hann hafi náð 20 ára aldri. Brot á þessu geta leitt til leyfissviptingar og/eða bakað þeim aðila refsiábyrgð sem stendur að sölu og eða afhendingu vörunnar. Þá þarf afhending áfengisins að fara fram á ákveðnum tímum sólarhringsins og má ekki fara fram á tilteknum hátíðar- og helgidögum.

Vefverslunarleyfishafa verður ekki heimilt að hafa áfengi til sýnis á starfsstöð. Í þeim tilvikum þar sem neytendur sækja áfengið á starfsstöð leyfishafans, þarf leyfishafinn að gæta þess að áfengi sé ekki til sýnis á starfsstöðinni. Honum er einungis heimilt að afhenda áfengið þar, en ekki stilla því upp eins og í hefðbundinni verslun. Þessu er ætlað að koma í veg fyrir að hefðbundinn verslunarrekstur eigi sér stað þar sem áfengi er stillt upp, líkt og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, og leyfishafinn taki við áfengispöntunum með rafrænum hætti í rauntíma.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

postur@dmr.is