Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 14.–28.2.2020

2

Í vinnslu

  • 29.2.–15.10.2020

3

Samráði lokið

  • 16.10.2020

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-37/2020

Birt: 14.2.2020

Fjöldi umsagna: 1

Drög að frumvarpi til laga

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vinnumarkaður og atvinnuleysi

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð).

Niðurstöður

Niðurstaða málsins í stuttu máli er sú að óhjákvæmilegt þykir að framlengja að svo stöddu gildistíma umrædds bráðabirgðaákvæði til loka árs 2020 til þess að veita starfandi nefnd svigrúm til að ljúka störfum sínum.

Málsefni

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að lengja gildistíma ákvæðis til bráðabirgða 9 í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Nánari upplýsingar

Við gildistöku laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, var gildistími ákvæðis til bráðabirgða 9 í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, lengdur til 31. desember 2019. Var það gert þar sem ákvæðið þótti nauðsynlegt þannig að unnt væri að semja um frávik frá þeim vinnutímareglum sem lögin kveða á um vegna vinnu þeirra starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 152/2018, um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð), kemur meðal annars fram að í þeim tilvikum sem hér um ræðir þyki mikilvægt að kveðið verði á um heimild til að víkja frá ákvæðum um hvíldartíma og næturvinnutíma, sbr. 53. og 56. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, í tímabundnu ákvæði til bráðabirgða í lögunum í stað þess að kveða á um breytingar á umræddum ákvæðum laganna. Tekið er fram að þannig verði unnt að meta hvernig þessum málum verði best háttað til framtíðar litið þar sem gætt verði bæði sjónarmiða þeirra sem nýta sér þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem og þeirra sem veita þjónustuna. Þá kemur fram að í ljósi framangreinds sé gert ráð fyrir að samhliða því að frumvarpið verði að lögum skipi ráðherra tímabundna nefnd undir forystu ráðuneytisins með fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Vinnueftirliti ríkisins. Nefndin hafi það hlutverk að fylgjast með hvort réttindi þeirra starfsmanna sem starfa munu við framkvæmd þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir séu virt, svo sem hvað varðar vinnutíma, veikindaleyfi, orlof og vinnuaðstæður. Í því skyni sé gert ráð fyrir að eftir tiltekinn tíma frá gildistöku laganna standi nefndin fyrir könnun meðal starfsmanna sem starfa munu við framkvæmd umræddrar þjónustu og skili síðan ráðherra skýrslu um niðurstöður könnunarinnar þar sem sérstök áhersla verði lögð á umfjöllun um fyrrnefnd atriði. Jafnframt verði það hlutverk nefndarinnar að koma með tillögur um breytingar á lögum eða reglugerðum, gerist þess þörf, meðal annars út frá niðurstöðum fyrrnefndrar könnunar, að því er varðar réttindi og starfsumhverfi þeirra starfsmanna sem hér um ræðir.

Framangreint nefnd hefur þegar hafið störf en auk þeirra aðila sem nefndir hafa verið eiga Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands fulltrúa í nefndinni. Gert er ráð fyrir að niðurstaða umræddrar könnunar liggi fyrir á vormánuðum 2020 og að nefndin muni í kjölfarið koma fram með tillögur um hvernig þessum málum verði best háttar til framtíðar litið. Mikilvægt þykir að nefndin geti lokið störfum sínum áður en gerðar verða breytingar á umræddum ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum í tengslum við vinnu starfsmanna sem veita þá þjónustu sem hér um ræðir.

Í ljósi þess sem að framan er rakið er talið nauðsynlegt að lengja gildistíma ákvæðis til bráðabirgða 9 í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum til loka árs 2020 í því skyni að tryggja að áfram sé heimilt að haga vinnutíma starfsmanna, sem eru að veita þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, með þeim hætti sem þau lög gera ráð fyrir þannig að markmið þeirra nái fram að ganga. Í því sambandi má nefna að í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er gert ráð fyrir að þjónustan sem veitt er sé þess eðlis, í það minnsta í tilteknum tilvikum, að ætla megi að vinnutími starfsmanna rúmist ekki innan almennra vinnutímareglna laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa vinnumarkaðar og starfsendurhæfingar

frn@frn.is