Samráð fyrirhugað 14.02.2020—13.03.2020
Til umsagnar 14.02.2020—13.03.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 13.03.2020
Niðurstöður birtar 01.12.2020

Reglugerð um vernd landbúnaðarlands

Mál nr. 39/2020 Birt: 14.02.2020 Síðast uppfært: 01.12.2020
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Landbúnaður
  • Sveitarfélög og byggðamál
  • Umhverfismál

Niðurstöður birtar

Fallið var frá því að setja þessa reglugerð en um leið var hún fyrsta skref í átt til frumvarps á þskj. 467 á 151. löggjþ. og frekari vinnu við leiðbeiningar um flokkun lands eftir ræktunarskilyrðum, sem ráðgert er að ljúki á árinu 2020. Nánar vísast um þetta til umfjöllunar í almennum aths. með téðu frumvarpi.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 14.02.2020–13.03.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 01.12.2020.

Málsefni

Meðfylgjandi eru drög að reglugerð um um vernd landbúnaðarlands (landskipti, lausn úr landbúnaðarnotum og flokkun landbúnaðarlands m.t.t. ræktunar).

Samkvæmt jarðalögum nr. 81/2004 skal tryggja svo sem kostur er að land sem vel er fallið til búvöruframleiðslu verði varðveitt til slíkra nota og er óheimilt að taka land sem skipulagt er sem landbúnaðarsvæði eða land sem nýtanlegt er eða nýtt til landbúnaðar, þ.m.t. afrétti, til annarra nota (breyta landnotkun) nema aflað sé leyfis ráðherra. Vegna þessa gera lögin ráð fyrir því að landbúnaðarland sé flokkað í aðalskipulagi og að fyrir liggi stefna stjórnvalda um um flokkun landbúnaðarlands. Með reglugerðinni eru gefin fyrirmæli um nánari framkvæmd þessara greina auk þess að lýst er hvernig mögulegt er að flokka landbúnaðarland m.t.t. ræktunar, sem hluta af forsendugreiningu fyrir aðalskipulagsgerð.

Reglugerðardrögin voru samin að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið. Fyrir liggur að vinna þarf drögin betur í framhaldi m.a. athugasemda sem berast munu í samráðsferli.

Meðal helstu álitaefna við samningu draga þessara er hvert skuli vera gildissvið þeirra hvað snertir flokkun landbúnaðarlands. Lagt er til með drögunum að aðeins skuli flokka slíkt land á skipulögðum landbúnaðarsvæðum skv. aðalskipulagi.

Til umræðu kom að hafa flokkun landbúnaðarlands enn víðari m.t.t. eiginleika lands til mismunandi nota og nýtingar en ákveðið var, m.a. með vísan til valdheimilda jarðalaga, að hafa viðfang flokkunar samkvæmt reglugerðinni bundið við mat á ræktunarskilyrðum eða ræktunareiginleikum lands. Við þá flokkun var stuðst við vinnu sem tiltekin sveitarfélög hafa ráðist í á undanförnum árum, en rætt var um kosti og galla þeirrar flokkunar.

Þá er jafnframt vakin athygli á tillögu að nýrri 4. gr. þessara leiðbeininga þar sem aukin skylda er lögð á sveitarfélög og landeigendur um rökstudda ákvarðanatöku þegar um landskipti og lausn úr landbúnaðarnotum samkvæmt jarðalögum er að ræða, en sú skylda er nauðsynleg til að tryggja virkni þessara heimilda.

Loks er vakin athygli á því að með reglugerðinni er lagt til að tillaga að landskiptum skuli vera í samræmi við gildandi skipulagsáætlun, en með því er tryggt að skipulagsákvörðun liggi fyrir samhliða eða áður en beiðni um landskipti eða sameiningu jarða er afgreidd af ráðherra.

Að öðru leyti vísast til skýringa með reglugerðinni sem eru í sérstöku skjali.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Jakob K Kristjánsson - 26.02.2020

Setning reglugerðarinnar a.m.k. hvað varðar leiðbeiningar um flokkun lands, sneiðir alfarið framhjá aðkomu tilgreindra fagaðila eins og lagt er fyrir í landsskipulagsstefnu. Sjá nánar í meðfylgjandi bréfi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Kristján Beekman - 26.02.2020

Það eini sem skiftir máli ef lög um landbúnað eru samþykkt er að afréttum verða ekki notað framar undir landbúnað.

Og að lausagöngu allar tegundir bufjar verði bannað.

Afrita slóð á umsögn

#3 Skógræktin - 27.02.2020

Hér fylgir umsögn skógræktarinnar um drög að reglugerð um vernd landbúnaðarlands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Landssamtök skógareigenda - 28.02.2020

Landssamtök skógareigenda (LSE) þakkar fyrir tækifærið að skila inn umsögn á Samráðsgátt.

LSE tekur undir öll sjónarmið í umsögnum Jakobs K. Kristinssonar og Skógræktarinnar.

Skógrækt er sá landbúnaður sem best getur þrifist með öðrum landbúnaði. Skógrækt er sá landbúnaður sem mest getur bundið kolefni og best getur stuðlað að kolefnisjákvæðum landbúnaði. Skógur er sú auðlind sem mest getur gefið af sér til annars landbúnaðar. Með skógrækt og landgræðslu má betur viðhalda sjálfbærri landnotkun en án. Skógrækt og landgræðsla getur auk þess margfaldað framleiðni í landi, hvort sem það var sjálfbært áður eða ekki. Skógar jafna vatnsbúskap, geta bætt næringarefnaforða í jarðvegi og aukið við líffræðilegan fjölbreytileika. Það er nokkuð ljóst að með skógrækt stækki um leið möguleikar til annarrar jarðræktar inn í framtíðina á landi sem áður þótti ekki notadrjúgt. Kornrækt og almenn akurrækt innan um stæðileg tré er eftirsóknarverðari kostur en ræktun á berangri.

Hampa ætti bændum sem vilja bæta bú sitt og auka landgæði með aðstoð trjáa. Ávinningur af skógrækt á rýru landi er mikill og getur það tekið mannsævi að gera stönduga hringrás líffræðilegrar fjölbreytni í þanni landi. Ávinningur af skógrækt í næringarríku landi er enn meiri því þar er vöxtur hraðari með aukningu lífs á landinu, gjarnan stækkaðri skilyrðum til ræktar vegna t.a.m. skjóls og ef þörf er á góðu ræktarlandi í snarasti má fella trén, þó tilætluðum vexti trjánna sé ekki lokið, telji menn mikilvægara að nýta tiltekið land fyrir annað. Við þannig aðstæður má ætla að krísa sé í landinu og þá er gott að vita af gjöfulu landi umluktu skógi því þannig land er gjarnan ríkt af eftirsóknarverðum næringarefnum.

Með boðum og bönnum í formi vörslu í stað að benda á tækifærin sem felast í hinu gagnstæða er ekki einungis hætta á úlfúð þegna í garð sinna sveitafélaga heldur skítur þetta skökku við 72. grein stjórnarskrár Íslands: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Mikilvægt er að bændum mæti ekki meiri íþyngjandi ákvæði í umsóknarferli á framkvæmdaleyfi til nýskógræktar en nú þegar er, en með auknum hömlum má eiga von á enn frekari seinagangi leyfisveitinga sveitafélaga.

LSE telur að meiri áhersla megi vera á að bæta landgæði á láglendi, sem hálendi, fremur en að varðveita svæði sem óvíst er að þurfi að nota.

Virðingarfyllst

Hlynur Gauti Sigurðsson

Framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda

Afrita slóð á umsögn

#5 Samband íslenskra sveitarfélaga - 10.03.2020

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um reglugerðardrögin.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Landgræðslan - 12.03.2020

Meðfylgjandi er umsögn Landgræðslunnar.

kv.

Birkir Snær Fannarsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Bændasamtök Íslands - 13.03.2020

Umsögn Bændasamtaka Íslands í viðhengi.

Viðhengi