Samráð fyrirhugað 14.02.2020—28.02.2020
Til umsagnar 14.02.2020—28.02.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 28.02.2020
Niðurstöður birtar

Drög að frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum á málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu (lög á sviði sjávarútvegs, fiskeldis og lax- og silungs.)

Mál nr. 40/2020 Birt: 14.02.2020
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Sjávarútvegur og fiskeldi
  • Landbúnaður

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (14.02.2020–28.02.2020). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnir til umsagnar drög að frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum á málefnasviði ráðherra vegna einföldunar regluverks.

Frumvarpið er á meðal verkefna í öðrum áfanga af þremur í aðgerðaáætlun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um einföldun regluverks á málefnasviðum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Markmið frumvarpsins er að einfalda regluverk í þágu atvinnulífs og almennings og auka skilvirkni stjórnsýslunnar. Með frumvarpinu er lagt til að verkefni eru ýmist flutt til innan stjórnsýslunnar, einfölduð eða felld niður þannig að stjórnsýslan verður skilvirkari og marvissari. Þá er álögum létt af atvinnulífinu með einföldun á regluverki í starfsumhverfinu og með niðurfellingu skráningar- og tilkynningarskyldu í ákveðnum tilfellum.

Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:

- 22 lög eru felld brott í heild sinni.

- Felld er brott leyfisskylda til dragnótaveiða og þess í stað er lagt til að fjallað verði um veiðarnar í reglugerð.

- Felld er brott heimild ráðherra til að veita krókaaflamarksbátum leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf svo og til hrognkelsaveiða í net. Þess í stað er lagt til að fjallað verði um slíkar veiðar í reglugerð.

- Felld er brott úrskurðarnefnd um ólögmætan sjávarafla.

- Felld eru brott úrelt bráðabirgðaákvæði.

- Stjórnsýsla skyndilokanna er einfölduð.

- Fella er brott skylda Fiskistofu til að leggja til sérstakar afladagbækur.

- Dregið er úr skýrsluskilum hjá fiskeldisfyrirtækjum sem framleiða minna en 20 tonn á ári.

- Stjórnsýslumeðferð veiðitækja sem notuð hafa verið erlendis einfölduð.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Landssamband veiðifélaga - 25.02.2020

Með frumvarpinu er lagt til að reglum um sótthreinsun veiðitækja verði breytt. Í stað þess að veiðitæki þurfi að sótthreinsa áður en þau koma inn í landið er lagt til að nægilegt verði að þau verði sótthreinsuð áður en þau verði notuð til veiða í íslenskum ám og vötnum eða við sjóstangveiði í fjörum, á grunnsævi eða í landhelginni, enda liggi ekki fyrir fullgilt vottorð að mati Matvælastofnunar um að búnaðurinn hafi verið sótthreinsaður erlendis. Þá er jafnframt lagt til að Matvælastofnun geti falið umráðamönnum veiðistaða framkvæmd aðgerða samkvæmt þessari grein í samræmi við reglur sem stofnunin setur.

Landssamband veiðifélaga leggst gegn tillögunni og telur mikilvægt að sjúkdómavarnir verði áfram á ábyrgð Matvælastofnunar eða annarra þar til bærra stjórnvalda. Landssambandið telur ekki eðlilegt að ábyrgð á sjúkdómavörnum verði færð í hendur veiðirétthafa. Veiðirétthafar hafa vissulega mikla hagsmuni af því að sjúkdómavarnir verði tryggðar eins og kostur er hverju sinni en hafa oft ekki aðstöðu eða forsendur til þess að tryggja að sótthreinsun fari fram. Í mjög mörgum tilvikum koma veiðimenn erlendis frá til þess að veiða í ám eða vötnum þar sem er ekki veiðihús eða staðarhald. Þá eru veiðifélög yfirleitt ekki í neinu beinu sambandi við veiðimenn sem koma erlendis frá. Í mörgum tilvikum er líka um erlendar ferðaskrifstofur að ræða en það getur reynst erfitt að koma þessari ábyrgð yfir á þær.

Landssamband veiðifélaga leggur til að sjúkdómavarnir þessar verði áfram á ábyrgð Matvælastofnunar og að sótthreinsun veiðitækja fari fram á flugvöllum og höfnum en að öðrum kosti er hætt við því að brotalöm verði í þessum mikilvægu vörnum.