Samráð fyrirhugað 21.02.2020—05.03.2020
Til umsagnar 21.02.2020—05.03.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 05.03.2020
Niðurstöður birtar 03.12.2020

Frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012, með síðari breytingum (réttarstaða þriðja aðila o.fl.)

Mál nr. 46/2020 Birt: 21.02.2020 Síðast uppfært: 03.12.2020
  • Forsætisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Almanna- og réttaröryggi
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Í kjölfar samráðsins var lagt fram frumvarp á Alþingi, sjá hlekk. Gerð er grein fyrir niðurstöðum samráðsins í frumvarpinu en málið varð ekki útrætt. Ekki eru uppi áform um að leggja málið fram að nýju.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 21.02.2020–05.03.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 03.12.2020.

Málsefni

Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á upplýsingalögum í því skyni að bæta og skýra réttarstöðu þriðja aðila, þ.e. þess sem getur átt hagsmuna að gæta af því að veittur verði aðgangur að tilteknum upplýsingum.

Með frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar á upplýsingalögum nr. 140/2012.

Í fyrsta lagi er lögð til breyting á orðalagi 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins í gildandi lögum getur sá sem hefur beiðni um aðgang að upplýsingum til afgreiðslu skorað á þann sem upplýsingarnar varða að upplýsa hvort hann telji að þær eigi að fara leynt. Frestur til að svara skal vera sjö dagar. Sú breyting sem hér er lögð til er fyrst og fremst til að árétta skyldu opinberra aðila til þess að afla afstöðu þriðja aðila ef þeir hafi í hyggju að byggja ákvörðun um synjun á aðgangi að gögnum á 9. gr. eða 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, enda sé afstaða þriðja aðila bersýnlega óþörf við rannsókn málsins. Þannig stuðlar breytingin að því að rannsókn máls til ákvörðunartöku um rétt til aðgangs að upplýsingum uppfylli skilyrði 10. gr. stjórnsýslulaga. Er því lagt til að þeim sem hefur beiðni til afgreiðslu verði skylt að afla afstöðu þriðja aðila nema það sé bersýnilega óþarft.

Þá er lagt til nýmæli, sem verði lokamálsliður 1. mgr. 23. gr. upplýsingalaga, er lýtur að því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál beri að senda þriðja aðila afrit úrskurðar þegar kveðið er á um skyldu til að afhenda gögn sem varða mikilvæga og virka hagsmuni hans.

Loks er lagt til það nýmæli í 1. mgr. 24. gr. upplýsingalaga að þriðji aðili geti krafist frestunar réttaráhrifa slíks úrskurðar.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Guðrún Ingvarsdóttir - 27.02.2020

Forsætisráðuneytið

Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg

101 Reykjavík

Reykjavík 27. febrúar 2020

Efni: Umsögn við frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012, með síðari breytingum (réttarstaða þriðja aðila o.fl.).

Vísað er í frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012, með síðari breytingum (réttarstaða þriðja aðila o.fl.) sem lagt var fram á 150. löggjafarþingi 2018-2020 (hér eftir „frumvarpið“).

Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að breytingar verði gerðar á lögum um skipan opinbera framkvæmda nr. 84/2001, með síðari breytingum. Þannig er lagt til að við 20. gr. laganna bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:

Vinnugögn í vörslum Framkvæmdasýslu ríkisins og opinbers aðila sem stofnunin á í samskiptum við í tengslum við verkefni sín skv. 1. mgr. missa ekki stöðu sína sem vinnugögn í skilningi upplýsingalaga þó að þau berist á milli þeirra.

Framkvæmdasýsla ríkisins telur að um jákvæða breytingu sé að ræða á lögum um skipan opinberra framkvæmda nr. 84/2001. Mikilvægt er að það liggi skýrt fyrir hvaða stöðu gögn sem berast á milli stofnunarinnar og þeirra opinberu aðila sem hún liðsinnir hafa í skilningi upplýsingalaga. En með þessari lagabreytingu er tekinn af allur vafi um það efni.

Þá tekur stofnunin undir að eðlilegt er að gögn sem verða til við undirbúning opinberra framkvæmda skuli áfram teljast vinnugögn í skilningi upplýsingalaga, þó að þau berist á milli stofnunarinnar og opinberra aðila. Hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum er m.a. að veita ráðuneytum og ríkisstofnunum ráðgjöf um byggingartæknileg málefni og undirbúning framkvæmda. Eðlilegt er því að gögn sem berast á milli aðila þegar stofnunin sinnir þessu hlutverki skuli teljast vinnugögn.

Virðingarfyllst,

Guðrún Ingvarsdóttir

forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins

Afrita slóð á umsögn

#2 Samtök atvinnulífsins - 05.03.2020

Góðan dag,

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um frumvarpið.

f.h. SA

Heiðrún Björk Gísladóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Isavia ohf. - 05.03.2020

Meðfylgjandi er umsögn Isavia ohf.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Úrskurðarnefnd um upplýsingamál - 05.03.2020

Sjá viðhengi.

Viðhengi