Samráð fyrirhugað 25.02.2020—05.03.2020
Til umsagnar 25.02.2020—05.03.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 05.03.2020
Niðurstöður birtar 21.12.2020

Frumvarp til laga um mannanöfn

Mál nr. 48/2020 Birt: 25.02.2020 Síðast uppfært: 21.12.2020
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Alls bárust sjö umsagnir um frumvarpið. Litið var til þeirra við ritun þess. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 9. október 2020.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 25.02.2020–05.03.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 21.12.2020.

Málsefni

Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs drög að frumvarpi til laga um mannanöfn sem felur í sér verulega rýmkun á löggjöf um mannanöfn.

Með frumvarpi þessu er lagt til að samþykkt verði ný mannanafnalög í stað laga um mannanöfn nr. 45/1996. Er frumvarpinu ætlað að auka til muna frelsi við nafngjöf og að afnema eins og mögulegt er þær takmarkanir sem eru í dag á skráningu nafna, bæði eiginnafna og kenninafna, og auka heimildir til nafnbreytinga. Er þannig leitast við að koma til móts við ríkjandi viðhorf í samfélaginu um mannanöfn. Frumvarpið miðar að því að lög um mannanöfn hafi fyrst og fremst að geyma lágmarksákvæði um skyldu til skráningar nafna. Þannig verði réttur fólks til að ráða sjálft nöfnum sínum og barna sinnar sem best tryggður og á sama tíma reynt að draga úr afskiptum opinberra aðila með hliðsjón af friðhelgi einkalífs.

Núgildandi lög um mannanöfn hafa verið í gildi í tæpan aldarfjórðung. Lögin hafa sætt töluverðri gagnrýni og hefur mörgum þótt löggjöfin vera helst til ströng. Snýr gagnrýnin ekki síst að erfiðleikum við að fá nöfn skráð hér á landi ef þau eru ekki fyllilega í samræmi við íslenska málhefð og rithátt. Þá hefur samsetning þjóðfélagsins tekið miklum breytingum á þeim árum sem liðin eru frá setningu laganna og þykir margt í lögunum ekki hafa fylgt þeirri þróun sem átt hefur sér stað í samfélaginu á síðustu árum.

Frumvarpið kveður á um víðtækar breytingar á löggjöf um mannanöfn. Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að ekki verði takmörk á fjölda eiginnafna og kenninafna. Þeim sem eru 15 ára og eldri er tryggður sjálfsákvörðunarréttur þegar kemur að nafnbreytingum, auk þess sem leitast er við að tryggja betur rétt yngri barna til að taka þátt í slíkri ákvörðun. Felldar verði niður reglur um að eiginnöfn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Einnig er fellt brott ákvæði um að nafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi og að það skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti. Leiðir það til þess að niður falla almennt takmarkanir á notkun erlendra nafna eins og verið hefur. Þá er það nýmæli lagt til að ættarnöfn verði leyfð að nýju. Í samræmi við það markmið frumvarpsins að virða rétt einstaklingsins til að ráða sjálfur nafni sínu eru lagðar til víðtækari heimildir til nafnbreytinga en nú eru. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að tilkynning til Þjóðskrár Íslands um nafn barns verði eingöngu á ábyrgð þeirra sem fara með forsjá barns en horfið verði frá því að prestar þjóðkirkjunnar og prestar eða forstöðumenn skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga tilkynni um nafn barns sem því er gefið við skírn eða sérstaka athöfn.

Þar sem frumvarpið felur í sér að skráning nafna verði háð óverulegum takmörkunum er gert ráð fyrir að mun minni þörf verði fyrir aðkomu nefndar eins og mannanafnanefndar. Er því lagt til að hún verði lögð niður. Um ágreiningsmál sem upp kunna að koma verði úrskurðað í ráðuneytinu en reiknað er með að mun færri mál muni sæta kæru en verið hefur.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Eiríkur Rögnvaldsson - 26.02.2020

Umsögn mín um frumvarpið er í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Nína Kristín Gunnarsdóttir - 26.02.2020

Sammála þessu frumvarpi. Það eru sjálfsögð mannréttindi að fá að ráða nafni sínu alveg eins og kyni. Börn kynferðisbrotamanna hafa í gegnum árin þurft að burðast með nöfn þeirra á bakinu sem að mínu mati er til skammar.

Afrita slóð á umsögn

#3 Svavar Kjarrval Lúthersson - 26.02.2020

3. gr.

Hugsanlega mætti laga orðalag 2. málsl. 1. mgr. þar sem orðinu „eingöngu“ sé sett á eftir fyrsta orðinu. Þó er auðvitað spurning um réttlætingu þess að kveða á um bann við því sem kallað er afbökun á hefðbundnum rithætti nafna, en athugasemdir frumvarpsins um það ákvæði virðast ekki skýra forsendur þess. Slíkar skýringar eru væntanlega við hæfi þar sem frumvarpið beinlínis gengur út á að víkka út heimildir fólk til þess bæði að heita það sem það vill.

4. gr.

Viðmiðið í 2. mgr. um að gera megi ráð fyrir að lögmætir hagsmunir bíði tjón af, telst nokkuð matskenndur og of ófyrirsjáanlegt hvaða sjónarmiðum stjórnvöld muni hyggjast beita. Hætta er á að ferli fari að skapast um að leita álits til aðilanna sjálfra um hvort tiltekin nafnotkun fæli mögulega í sér tjón fyrir þann aðila, sem liður í framkvæmd rannsóknarreglunnar, og niðurstaðan ráðist aðallega af því. Þá eru ábyggilega mismunandi sjónarmið eftir því hvort um sé að ræða skráningu nafns skv. skyldu 2. gr. eða síðari nafnbreytingu einstaklingsins sjálfs skv. 6. gr.

Þar að auki er ekkert minnst á eða veitt vísbending um hvernig eigi að nálgast úrlausnarefni á við heiti lögaðila sem eru mannsnöfn að viðskeyttri skammstöfun, eða þegar einstaklingur vill breyta nafni sínu yfir í sitt eigið listamannsnafn.

5. gr.

Ég mæli með því að sérstaklega verði getið þess að ný ættarnöfn skapi ekki einhvers konar einkarétt til að bera þau, þannig að skapist örugglega ekki endurteknar aðstæður eins og urðu í gildistíð eldri laga er heimiluðu upptöku ættarnafna.

Í frumvarpinu er ekki gert sérstaklega ráð fyrir því hvað gerist ef handhafar ættarnafns beiti rétti sínum til að gæta ættarnafnsins fyrir dómstólum, í sambandi við skyldu 1. gr. um skyldu til að gefa barni nafn innan sex mánaða frá fæðingu. Afar líklegt er að slíkt dómsmál gæti verið í ferli í miklu lengri tíma en það, jafnvel fleiri ár að óbreyttu. Mögulega er ástæða til þess að kveða á um flýtimeðferð slíkra mála til að stytta málsmeðferðartímann eftir því sem kostur er.

6. gr.

Hvað varðar 2. mgr. er mælt með því að vísað í alla forsjármenn í 1. málsl. til að grípa tilfelli þegar eingöngu eitt forsjárforeldri er til staðar. Hægt væri að gera það með eftirfarandi hætti: „Breyting á eiginnafni og kenninafni barns undir 15 ára aldri er háð því skilyrði að allir forsjármenn þess standi að beiðni um breytingu nafnsins.“

13. gr.

Andmælt er því að ákvæðið þarfnist ekki skýringar. Ákvæðið var heldur ekki sérstaklega útskýrt í athugasemdum frumvarpsins er varð að lögum nr. 45/1996. Þá hefur einnig orðið nokkur þróun á íslenskum rétti á þeim tíma sem ákvæðið var sett í forvera téðra laga, meðal annars með gildistöku MSE og þeirrar breyttu áherslu sem frumvarpið á að innleiða hvað varðar erlend mannanöfn. Hér er bæði um að ræða lögsögumál og heimild ráðherra til að ákveða hana með reglugerð sem ætti samkvæmt lögskýringarfræðunum að hafa betri lagastoð en einfalda tilvísun í umfjöllun samdri í gömlu lagaumhverfi.

---

Með áskilnaði um síðari umsögn ef umsagnarbeiðandi telur þörf á.

Afrita slóð á umsögn

#4 Hreiðar Eiríksson - 27.02.2020

Umsögn mín byggir á þeirri almennu afstöðu minni að einstaklingar eigi að ráða persónulegum högum sínum sjálfir, nema ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefjist afskipta af málum þeirra. Skal þá farið að reglum um meðalhóf og öðrum málsmeðferðarreglum stjórnsýslsuréttar. Núgildandi lög mæta illa þessum sjónarmiðum. Þau byggja í raun á því að forræði ríkisvaldsins sé algjört og að það sé ríkisvaldið sem heldur úti lista um hvað borgurunum sé heimilt en að allt annað sé óheimilt nema með sértöku leyfi. Ég tel ekki réttlætanlegt að játa ríkisvaldinu slík yfirráð yfir persónulegum högum fólks.

Ég tel frumvarpið ágætlega til þess fallið að færa fólki það vald sem það á með réttu að hafa yfir jafn persónulegum einkahagsmunum og nöfn þess eru, án þess að raskað sé nokkrum almanna- eða einkahagsmunum.

Frumvarpið mætir að mínu mati ágætlega eftirfarandi sjónarmiðum:

1) Fjölmenningarlegur bakgrunnur Íslendinga. Það er staðreynd að sífellt fleiri Íslendingar eiga annan menningarlegan bakgrunn en íslenskan. Fjöldinn allur af Íslendingum er af erlendu foreldri - öðru eða báðum. Þetta fólk hefur auðvitað sama rétt og aðrir Íslendingar til að verja og halda uppi nafnahefð sinni. Hingað til hafa þessir innflytjendur ekki getað nefnt börn sín ættarnöfnum ef þau hafa fæðst á Íslandi en börn þeirra sem fæðst hafa erlendis og fengið þar nafn, hafa haldið sínum ættarnöfnum. Þessi mismunun er að mínu mati ekki réttlætanleg, þar sem hún þjónar engum sýnilegum tilgangi.

2) Íslensk nafnahefð. Þessi hefð var eitt sinn hefð sem fólst í því að börn voru kennd við eiginnafn föður og endin -dóttir eða -son kom þar á eftir. Réðist það af kyni viðkomandi eins og það var ákveðið við fæðingu. Þetta hefur breyst umtalsvert á undangengnum árum. Í fyrsta lagi hefur færst í vöxt að fólk kenni sig við móður í stað föður. Er það í ágætu samræmi við eðli máls og heimilt samkvæmt lögum, þó það sé ekki í samræmi við nafnahefð. Þá er nú samþykkt að einstaklingar skilgreini kyn sitt eða kynleysi sjálfur og þar með verður vart séð að það geti talist á forræði ríkisvaldsins að ákveða hvort viðskeytið -dóttir eða - son sé notað í enda kenninafns. Í þriðja lagi ber nú fjöldi Íslendinga erlendi eigin- og kenninöfn. Allt þetta er hluti af íslenskri nafnahefð eins og hún er nú.

3) Alþjóðleg nafnahefð. Víðast hvar í heiminum er notast við svokölluð ættarnöfn sem kenninöfn. Hin forna íslenska nafnahefð er mönnum framandi. Þetta hefur leitt til vandræða fyrir fólk sem t.d. hefur verið að ferðast með börn, t.a.m. mæður sem hafa verið að ferðast einar með börn sín í öðrum löndum. Þær hafa á stundum átt erfitt meðað útskýra hvers vegna þær hafa með sér börn sem bera önnur kenninöfn en þær og stundum ekki öll sömu kenninöfn þegar um er að ræða börn af mismunandi faðerni.

Því hefur verið haldið fram að þetta frumvarp raski íslenskri nafnahefð. Ég tel að það geri það ekki. Í frumvarpinu felst engin hindrun fyrir þá sem vilja halda áfram að nota hið hefðbundna kerfi. Ég reikna með því að flestir geri það. Frumvarpið afléttir hins vegar hindrunum í vegi þeirra sem vilja nota önnur nafnakerfi.

Því hefur einnig verið haldið fram að núgildandi lög séu nauðsynleg til að verja börn fyrir þeim tilhneigingum foreldra þeirra að nefna þau einhverjum ónefnum sem yrðu þeim til ama eða erfiðleika í uppvextinum. Ég tel þetta rangt. Í fyrsta lagi er fjöldi nafna á núgildandi mannanafnaskrá sem telja má undarleg eða skrítin mannanöfn og allmörg þeirra hafa orðið fólki til ama, enda nokku aðgengt að fólk geri breytingar á nöfnum sínum er það verður fullorðið. Í öðru lagi tel ég að hægt sé að ná verndarhagsmununum, sem vissulega eru til staðar, með öðru og vægara móti, svo sem gert er í frumvarpinu.

Frumvarpið dregur úr afskiptum hins opinbera af einkamálefnum borgaranna. Það er til þess fallið að draga úr kostnaði hins opinbera vegna niðurlagningar mannanafnanefndar. Frumvarpið bregst við brýnu ákalli frá almenningi og jafnar stöðu borgaranna í samfélagi sem er gjörbreytt frá því samfélagi sem lagt var til grundvallar núgildandi lagaumhverfi. Ég mæli því með því að frumvarpið verði samþykkt sem lög frá Alþingi.

Afrita slóð á umsögn

#5 Halldór Ármann Sigurðsson - 01.03.2020

Athugsemdir við drög að frumvarpi um ný mannanafnalög

Mér sýnist að þessi lög muni verða mjög til bóta.

3. gr. Fullt nafn og birtingarnafn

Hér er ákvæði um að ekki megi afbaka hefðbundinn rithátt nafna. Líkast til er þetta ákvæði til óþurftar. Samkvæmt frumvarpsdrögunum verða nanfgiftir í meginatriðum frjálsar. Menn geta t.d. gefið eða tekið sér „útlenskuleg“ nöfn eins og Eric og ný nöfn eins og Eiríg og það er líkast til snúið að greina á milli slíkra nafna og nafnmynda sem gætu talist fela í sér afbökun á hefðbundnum rithætti, t.d. Eirígur. Einlægast er því að fella þetta ákvæði brott úr drögunum.

4. gr. Eiginnöfn

Nauðsynlegt er að halda í amaákvæðið, eins og lagt er til, en það er ekki alveg einfalt að framfylgja því svo að jafnræðis sé gætt. Úrskurðir um ama mega ekki ráðast af því hvaða starfsmaður Þjóðskrár er „á vakt“ hverju sinni. En líklega mun afar sjaldan reyna á þetta ákvæði og þess vegna er kannski ekki ástæða til að setja upp flókið regluverk í sambandi við ákvæðið.

5. gr. Kenninöfn

Það er til bóta að leyfa -bur sem viðlið, en ég sé reyndar ekki neina ástæðu til að leggja hömlur á viðliði. Vilji einhver t.d. nefna sig eða barn sitt Guðrúnarbarn, Hannesarnið, Eiríkssystur eða Maríubróður finnst mér ekki ástæða til að amast við því. Yfirhöfuð tel ég að hvers konar kenninöfn eigi að vera heimil og að hverjum sem er eigi að vera frjálst að velja sér og börnum sínum hvaða kenninafn sem er (þó þannig að ekki teljist ami af). Vilji t.d. einhver sem er óskyldur Thoroddsensfólki kalla sig Thoroddsen á honum að vera það heimilt, að mínu mati. Þetta er líka í meginatriðum sú lausn sem lögð er til í drögunum og er það vel. Þó er hér að finna ákvæði um að „erindið verði ekki afgreitt að svo stöddu ef ættartengsl eða vensl liggja ekki fyrir sem heimila notkun nafnsins“ og að Þjóðskrá skuli „þá birta þeim sem ber eða bera ættarnafnið, og eru lögráða, framangreinda beiðni á vefsíðunni Island.is, og tilgreina að ættarnafnið verði skráð hjá beiðanda ef stofnuninni berast ekki andmæli innan þriggja mánaða um að réttarins til ættarnafnsins verði gætt fyrir dómstólum.“ Ég held að þetta ákvæði sé til óþurftar. Samkvæmt lögum nr. 45/1996 um mannanöfn er rétturinn til að taka upp ættarnafn bundinn því að sýnt sé fram á „að ættingi í beinan legg hafi haft nafnið skráð í þjóðskrá við gildistöku mannanafnalaga haustið 1991 og síðar“, eins og það er orðað á heimasíðu Þjóðkrár. En þessi viðmiðun er auðvitað handahófskennd og það verður enn ljósara ef þessi drög verða að lögum. Verði það mætti ég t.d. ekki taka mér ættarnafnið Briem (þótt ég sé fjarskyldur Briemsfólki, aftur í öldum), a.m.k. ekki athugasemda- eða vandræðalaust, en væntanlega myndi ekkert hamla því að ég tæki upp ættarnafnið Brím, nú eða Briemari eða jafnvel Briemsfrændi.

Nú má vera að menn telji keypt ættarnöfn geta skapað nokkur vanda hér, en ég held að það séu óþarfar áhyggjur. Réttarstaða slíkra nafna er afar óljós og sérstök vernd þeirra brýtur í bág við jafnræði. Ég er t.d. meðal annars ættaður af Vestfjörðum, en Vestfjörð er eitt af þessum keyptu ættarnöfnum, og ef þau eiga að njóta verndar táknar það væntanlega það að ég megi ekki taka mér ættarnafnið Vestfjörð athugasemda- eða vandræðalaust. Réttarstaða annarra ættarnafna, sem einfaldlega voru færð í þjóskrá án lagaheimildar, er auðsæilega engin.

Að öllu samanlögðu er best og einfaldast að hafa engar hömlur á ættarnöfnum en treysta þess í stað á dómgreind og smekkvísi almennings.

Niðurlag

Ég átti sæti í nefnd þeirri sem samdi frumvarpið sem síðar varð að lögum nr. 45/1996 um mannanöfn og var formaður mannanafnanefndar um nokkurt skeið. Lögin leiddu til mjög aukins frelsis í mannanafnamálum – gengið var eins langt í þeim efnum og unnt var á þessum tímum. Frumvarpið mætti af þessum sökum afar harðri andspyrnu nokkurra áhrifamikilla þingmanna og mátti engu muna að það yrði fellt í þinginu. En tímarnir hafa breyst og þar með viðhorf almennings til mannanafna og sömuleiðis mín eigin viðhorf. Það er löngu kominn tími til að gerbreyta lögunum, eins og nú er lagt til. Við sem áttum sæti í frumvarpsnefndinni 1994–1996 lögðumst gegn ættarnöfnum, töldum þau vera ógn við íslenska kenninafnasiðinn. En þetta var missýn. Það er ótækt í nútímaþjóðfélagi að stjórna nöfnum, þar með töldum ættarnöfnum, með lagaboði nema að ákaflega takmörkuðu leyti. Eins og Eiríkur Rögnvaldsson bendir á í ágætri umsögn sinni um frumvarpsdrögin verður ekki betur séð en takmarkanir á notkun ættarnafna séu brot á 65. grein stjórnarskrárinnar þar sem segir m.a. að allir skuli „vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til […] ætternis […].“

Verði þessi drög að lögum, nokkurn veginn óbreytt, er það fagnaðarefni og mikilsvert framfaraskref.

Halldór Ármann Sigurðsson

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Ármann Jakobsson - 05.03.2020

Umsögn um

Frumvarp til laga um mannanöfn

frá dómsmálaráðherra

á löggjafarþingi 2019–2020

Frumvarpið er ótvíræð framför frá fyrri frumvörpum svipaðs efnis að því leyti að tekið er tillit til fjölmargra athugasemda sem þá bárust. Þannig er gert ráð fyrir meiri ráðgjöf um nöfn en í fyrri frumvörpum og jafnframt er gengið út frá íslensku hvað varðar stafsetningu nafna þó að stefnt sé að meira frjálslyndi en í gildandi lögum um stafsetningu. Á hinn bóginn dregur frumvarpið úr lögvörn fyrir íslensku sem er þó þjóðtunga og opinbert mál á landinu samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu 61/2011.

Þó að alloft geti orkað tvímælis hvort einstök nöfn falli að íslensku málkerfi veitti það þó ákveðna viðspyrnu að nefnd sérfróðra úrskurðaði um málið. Nú er gert ráð fyrir að leyft verði að skrá ýmis erlend nöfn sem íslensk og þar með í sjálfu sér ekkert sem hindrar að t.d. ensk nöfn fari að tíðkast hér með ófyrirséðum afleiðingum fyrir tungumálið sjálft. Um leið virðist fjölmiðlaumfjöllun um mannanafnanefnd hafa haft þau áhrif að það þyki mikilvægt að leggja þessa nefnd af þrátt fyrir að raunar sé gert ráð fyrir að einhver ráðgjöf verði áfram veitt um nafngiftir.

Velta má því upp hvort ekki væri eðlilegra að áfram yrði til mannanafnanefnd eða önnur stjórnvaldsstofnun sem annaðist slíka ráðgjöf þó að lögunum yrði breytt. Þannig verði gengið út frá því að foreldrar vilji helst velja börnum sínum góð og gild íslensk nöfn og að hið opinbera bjóði upp á aðstoð við það enda fjölmargir sérfræðingar til sem geta veitt hana.

Eðlilegt er að frelsi í nafngiftum sé eins mikið og kostur er. Eins er ekki óvænt að sumir úrskurðir mannanafnanefndar hafi orkað tvímælis. Annað og ekki síður mikilvægt sjónarmið er hins vegar að þjóðtungan sem á að nota á „öllum sviðum íslensks þjóðlífs“ eins og segir í lögunum njóti jafnframt verndar í mannanafnalögum og ágreiningsatriði um túlkun á því hvað teljist íslensk málhefð hafi ekki þær afleiðingar að íslensk mannanafnahefð leggist af. Þess vegna er mikilvægt að við þetta lagafrumvarp verði bætt ákvæðum sem styðja betur við íslenska tungu og mannanafnahefð,

Ármann Jakobsson,

prófessor í íslensku

og formaður Íslenskrar málnefndar

Afrita slóð á umsögn

#7 Eysteinn Pétursson - 05.03.2020

Íslendingar hafa löngum verið stoltir af þeirri menningararfleifð sem birtist í málinu. Jafnvel á dimmustu tímunum í sögu þjóðarinnar reyndu menn að halda höfði með skírskotun í forna frægð. Við ramman var reip að draga, og hefði ekki verið fyrir fáeina andans menn eins og Árna Magnússon væri þessi sagnaarfur kannski að mestu hugarburður. Á 19. öld var svo komið að málið var orðið mjög dönskuskotið, og hefðu Fjölnismenn, Jón Sigurðsson, og ekki síst Rasmus Rask, ekki látið til sín taka væri málið sem talað er nú á dögum trúlega nokkuð frábrugðið því sem raunin er. Þetta tengdist náttúrlega sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, en ekki er þó víst að hún hafi vakað sérstaklega fyrir danska málfræðingnum.

Nú um stundir held ég flestir séu stoltir af ýmsum sérkennum sem við höfum, m.a. annars þeirri hefð að kenna börn til foreldris. Hégómlegir menn tóku upp á því í byrjun síðustu aldar að hvetja landsmenn til að taka upp ættarnöfn, og nokkrir hégómlegir menn aðrir urðu við því ákalli. Ekki kann ég alveg söguna um það þegar horfið var frá þessu, en þeir sem að því stóðu væru líklega af mörgum kallaðir þjóðrembingar núna, hefðu þeir látið í minni pokann – og eru það kannski líka af sumum þrátt fyrir að þeir hafi haft sitt fram. Þó held ég að fram að þessu hafi flestir verið ánægðir með stöðu mála. Og stoltir.

Talsvert er nú talað um, að það að meina fólki að taka upp ættarnöfn, stangist á við friðhelgi einkalífs og sé brot á mannréttindum. Kemur það og fram í þeim frumvarpsdrögum sem hér eru til umsagnar. Lög um mannréttindi og friðhelgi einkalífs eru mannanna verk og er sjálfsagt, að hvort tveggja sé sem víðtækast. En hvoru tveggja eru takmörk sett, eins og líka kemur farm í frumvarpsdrögunum. Mörg lög í samtímanum má hiklaust telja brot á mannréttindum, ef út í það er farið. Er það ekki brot á mannréttindum að neyða menn til eyða tíma og kröftum í að skafa snjó af allri framrúðunni á bílnum sínum, áður en farið er af stað? Er ekki afar fátítt að snjór á hálfri rúðunni hafi leitt til umferðarslyss – ef aðgát er höfð? Eru það ekki mannréttindi að fá að aka gegn rauðu ljósi þegar enginn annar bíll er sjáanlegur, eða ljóst er að maður kemst yfir gatnamótin áður en bíll kemur frá hlið? Í sumum löndum er ekki tekið hart á þessu. Svona mætti taka mörg dæmi; og ekki bara úr umferðinni.

Spurningin er nú hvort við viljum halda í sérkenni okkar í nafnahefðinni eða ekki. Í greinargerð með frumvarpinu stendur þetta:

„Áfram er gert ráð fyrir kenningu til foreldris eins og hefð hefur verið hér á landi og er heimild til upptöku ættarnafna ekki ætlað að ganga gegn þeim aldagamla menningararfi.“

„Áfram er gert ráð fyrir...“! „...ekki ætlað að ganga gegn...“ Er þetta skrifað til að slá ryki í augu fólks? Gerir sá sem þetta skrifar sér grein fyrir merkingu orðsins ‚áfram‘? Hvað nær ‚áfram‘ langt fram í tímann? Þó að þeir sem þessa greinargerð skrifa – og standa að frumvarpinu – geri ráð fyrir að fólk muni áfram kenna sig til foreldris er engin trygging fyrir því að fólk byrji ekki fljótlega að taka upp ættarnöfn. Og þegar frá líður verður að telja miklar líkur á því að slíkt verði algengt, ekki síst í ljósi áróðurs sem nú er uppi um að fastheldni á fornar venjur sé merki um þjóðrembu!

Því hefur verið haldið fram að hefðir séu lítils virði, þurfi að setja um þær lög. En það er nú einu sinni svo að tískustraumar spyrja einatt ekki um hefðir. Hefði sú ‚tíska‘ að taka upp ættarnöfn í byrjun síðustu aldar ekki verið kæfð nánast í fæðingu væri hér líklega allur þorri manna með ættarnöfn – ef ekki hver einasti maður. Og líklega allir hæstánægðir með það – nema fáeinir ‚þjóðrembingar‘ sem sæju í hillingum forna arfleifð.

Í greinargerðinni stendur einnig þetta: „Hins vegar er lagt er til að millinöfn verði lögð niður, en álitamál er um hvort upptaka þeirra hafi náð þeim tilgangi sem að var stefnt þegar þau voru lögfest.

Virðist þeim að einhverju leyti hafa verið ætlað að koma í stað ættarnafna og vera einhvers konar ígildi þeirra, en að notkun ættarnafna sem kenninafna myndi að sama skapi minnka. Verði ættarnöfn heimiluð er ekki lengur talin þörf á millinöfnum.“

Hvað hafa höfundar greinargerðarinnar fyrir sér í því að ekki verði lengur þörf á millinöfnum? Hvað vita þeir um óskir einstakara manna? Og er nú allt í einu ætlunin að meina fólki að bera millinöfn? Er það í samræmi við mannréttindi og friðhelgi einkalífs? Tek fram að ég er ekki að mæla með millinöfnum.

Varðandi eiginnöfn: Í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir að þau skuli vera í nefnifalli. Hversvegna? Er það í samræmi við mannréttindi og friðhelgi einkalífs? Af hverju má ég ekki heita Eysteini (kallaður Steini)? Eða Eysteins? Nú sýnist mér eiga að leyfa nöfn sem taka ekki eignarfallsendingu, og sé ég ekkert athugavert við það, enda slík nöfn til staðar nú þegar. Hví skyldu menn þá ekki mega heita Eysteins eða Jóns? Ekki skilja mig svo að ég sé að mæla með því. En við verðum að huga að mannréttindum, ekki satt?!!!

Varðandi stafi. Tiltölulega nýlega var farið að minnka notkun erlendra bókstafa í nöfnum landa og borga. Ekki veit ég hvort lög liggja þar að baki, en svo dæmi séu tekin er nú oftast skrifað Tsjernobíl og Síle. Þetta gildir líka að nokkru leyti um erlend mannanöfn, t.d. Tsjajkofskí og Tsjekoff. Nú sýnist mér eiga að taka skref til baka, og c, q og w eigi meira að segja að verða jafnréttháir íslenskum stöfum í íslenskum mannanöfnum. Mér finnst þetta afturför, og alger óþarfi. Þó verður að gera undantekningar með fólk af erlendum uppruna (og slíkt verður að sjálfsögðu einnig að gera með ættarnöfnin). Um z gegnir nokkuð öðru máli, þar sem sá stafur var til skamms tíma gjaldgengur í málinu (og giltu jafnvel um það ákveðnar reglur hvenær skyldi rita z) og enn nota sumir z í rituðu máli. Mér finnst þó ekki þörf á z í íslenskum eiginnöfnum, né heldur heyri z eða c, q og w undir brot á mannréttindum eða friðhelgi einkalífs.

Ég vil þó taka fram að ég tel þetta ekki eins mikið mál og það að leyfa töku ættarnafna; enda er „kenning til foreldris ... helsta sérstaða íslenskra laga um mannanöfn“ eins og stendur í greinargerðinni. Og aldagamall menningararfur, eins og þar stendur líka. Stafagerð má hinsvegar segja að hafi verið með ýmsu móti, og þeir stafir sem notaðir voru við ritun fornsagnanna ekki allskostar þeir sömu og nú eru við lýði.

Samantekt: Ég er mjög mótfallinn heimild til að taka upp ættarnöfn og raska þannig aldagömlum menningararfi. Tel ég miklar líkur á því að ættarnöfn muni með tímanum ryðja burt þeirri aldagömlu hefð að kenna börn til foreldris, og meiri líkur á því en að sú hefð verði til staðar „áfram“. Tel ég að þeir sem eftir svo sem hundrað ár – eða þúsund – láta sig menningararfleifð þjóðarinnar einhverju varða, muni kunna þeim litla þökk sem koma í gegn þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru í fyrirliggjandi frumvarpsdrögum.

Skírskotun í mannréttindi og friðhelgi einkalífs í þessu efni stenst að mínu áliti ekki skoðun.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Eysteinn Pétursson - 05.03.2020

Íslendingar hafa löngum verið stoltir af þeirri menningararfleifð sem birtist í málinu. Jafnvel á dimmustu tímunum í sögu þjóðarinnar reyndu menn að halda höfði með skírskotun í forna frægð. Við ramman var reip að draga, og hefði ekki verið fyrir fáeina andans menn eins og Árna Magnússon væri þessi sagnaarfur kannski að mestu hugarburður. Á 19. öld var svo komið að málið var orðið mjög dönskuskotið, og hefðu Fjölnismenn, Jón Sigurðsson, og ekki síst Rasmus Rask, ekki látið til sín taka væri málið sem talað er nú á dögum trúlega nokkuð frábrugðið því sem raunin er. Þetta tengdist náttúrlega sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, en ekki er þó víst að hún hafi vakað sérstaklega fyrir danska málfræðingnum.

Nú um stundir held ég flestir séu stoltir af ýmsum sérkennum sem við höfum, m.a. annars þeirri hefð að kenna börn til foreldris. Hégómlegir menn tóku upp á því í byrjun síðustu aldar að hvetja landsmenn til að taka upp ættarnöfn, og nokkrir hégómlegir menn aðrir urðu við því ákalli. Ekki kann ég alveg söguna um það þegar horfið var frá þessu, en þeir sem að því stóðu væru líklega af mörgum kallaðir þjóðrembingar núna, hefðu þeir látið í minni pokann – og eru það kannski líka af sumum þrátt fyrir að þeir hafi haft sitt fram. Þó held ég að fram að þessu hafi flestir verið ánægðir með stöðu mála. Og stoltir.

Talsvert er nú talað um, að það að meina fólki að taka upp ættarnöfn, stangist á við friðhelgi einkalífs og sé brot á mannréttindum. Kemur það og fram í þeim frumvarpsdrögum sem hér eru til umsagnar. Lög um mannréttindi og friðhelgi einkalífs eru mannanna verk og er sjálfsagt, að hvort tveggja sé sem víðtækast. En hvoru tveggja eru takmörk sett, eins og líka kemur farm í frumvarpsdrögunum. Mörg lög í samtímanum má hiklaust telja brot á mannréttindum, ef út í það er farið. Er það ekki brot á mannréttindum að neyða menn til eyða tíma og kröftum í að skafa snjó af allri framrúðunni á bílnum sínum, áður en farið er af stað? Er ekki afar fátítt að snjór á hálfri rúðunni hafi leitt til umferðarslyss – ef aðgát er höfð? Eru það ekki mannréttindi að fá að aka gegn rauðu ljósi þegar enginn annar bíll er sjáanlegur, eða ljóst er að maður kemst yfir gatnamótin áður en bíll kemur frá hlið? Í sumum löndum er ekki tekið hart á þessu. Svona mætti taka mörg dæmi; og ekki bara úr umferðinni.

Spurningin er nú hvort við viljum halda í sérkenni okkar í nafnahefðinni eða ekki. Í greinargerð með frumvarpinu stendur þetta:

„Áfram er gert ráð fyrir kenningu til foreldris eins og hefð hefur verið hér á landi og er heimild til upptöku ættarnafna ekki ætlað að ganga gegn þeim aldagamla menningararfi.“

„Áfram er gert ráð fyrir...“! „...ekki ætlað að ganga gegn...“ Er þetta skrifað til að slá ryki í augu fólks? Gerir sá sem þetta skrifar sér grein fyrir merkingu orðsins ‚áfram‘? Hvað nær ‚áfram‘ langt fram í tímann? Þó að þeir sem þessa greinargerð skrifa – og standa að frumvarpinu – geri ráð fyrir að fólk muni áfram kenna sig til foreldris er engin trygging fyrir því að fólk byrji ekki fljótlega að taka upp ættarnöfn. Og þegar frá líður verður að telja miklar líkur á því að slíkt verði algengt, ekki síst í ljósi áróðurs sem nú er uppi um að fastheldni á fornar venjur sé merki um þjóðrembu!

Því hefur verið haldið fram að hefðir séu lítils virði, þurfi að setja um þær lög. En það er nú einu sinni svo að tískustraumar spyrja einatt ekki um hefðir. Hefði sú ‚tíska‘ að taka upp ættarnöfn í byrjun síðustu aldar ekki verið kæfð nánast í fæðingu væri hér líklega allur þorri manna með ættarnöfn – ef ekki hver einasti maður. Og líklega allir hæstánægðir með það – nema fáeinir ‚þjóðrembingar‘ sem sæju í hillingum forna arfleifð.

Í greinargerðinni stendur einnig þetta: „Hins vegar er lagt er til að millinöfn verði lögð niður, en álitamál er um hvort upptaka þeirra hafi náð þeim tilgangi sem að var stefnt þegar þau voru lögfest.

Virðist þeim að einhverju leyti hafa verið ætlað að koma í stað ættarnafna og vera einhvers konar ígildi þeirra, en að notkun ættarnafna sem kenninafna myndi að sama skapi minnka. Verði ættarnöfn heimiluð er ekki lengur talin þörf á millinöfnum.“

Hvað hafa höfundar greinargerðarinnar fyrir sér í því að ekki verði lengur þörf á millinöfnum? Hvað vita þeir um óskir einstakara manna? Og er nú allt í einu ætlunin að meina fólki að bera millinöfn? Er það í samræmi við mannréttindi og friðhelgi einkalífs? Tek fram að ég er ekki að mæla með millinöfnum.

Varðandi eiginnöfn: Í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir að þau skuli vera í nefnifalli. Hversvegna? Er það í samræmi við mannréttindi og friðhelgi einkalífs? Af hverju má ég ekki heita Eysteini (kallaður Steini)? Eða Eysteins? Nú sýnist mér eiga að leyfa nöfn sem taka ekki eignarfallsendingu, og sé ég ekkert athugavert við það, enda slík nöfn til staðar nú þegar. Hví skyldu menn þá ekki mega heita Eysteins eða Jóns? Ekki skilja mig svo að ég sé að mæla með því. En við verðum að huga að mannréttindum, ekki satt?!!!

Varðandi stafi. Tiltölulega nýlega var farið að minnka notkun erlendra bókstafa í nöfnum landa og borga. Ekki veit ég hvort lög liggja þar að baki, en svo dæmi séu tekin er nú oftast skrifað Tsjernobíl og Síle. Þetta gildir líka að nokkru leyti um erlend mannanöfn, t.d. Tsjajkofskí og Tsjekoff. Nú sýnist mér eiga að taka skref til baka, og c, q og w eigi meira að segja að verða jafnréttháir íslenskum stöfum í íslenskum mannanöfnum. Mér finnst þetta afturför, og alger óþarfi. Þó verður að gera undantekningar með fólk af erlendum uppruna (og slíkt verður að sjálfsögðu einnig að gera með ættarnöfnin). Um z gegnir nokkuð öðru máli, þar sem sá stafur var til skamms tíma gjaldgengur í málinu (og giltu jafnvel um það ákveðnar reglur hvenær skyldi rita z) og enn nota sumir z í rituðu máli. Mér finnst þó ekki þörf á z í íslenskum eiginnöfnum, né heldur heyri z eða c, q og w undir brot á mannréttindum eða friðhelgi einkalífs.

Ég vil þó taka fram að ég tel þetta ekki eins mikið mál og það að leyfa töku ættarnafna; enda er „kenning til foreldris ... helsta sérstaða íslenskra laga um mannanöfn“ eins og stendur í greinargerðinni. Og aldagamall menningararfur, eins og þar stendur líka. Stafagerð má hinsvegar segja að hafi verið með ýmsu móti, og þeir stafir sem notaðir voru við ritun fornsagnanna ekki allskostar þeir sömu og nú eru við lýði.

Samantekt: Ég er mjög mótfallinn heimild til að taka upp ættarnöfn og raska þannig aldagömlum menningararfi. Tel ég miklar líkur á því að ættarnöfn muni með tímanum ryðja burt þeirri aldagömlu hefð að kenna börn til foreldris, og meiri líkur á því en að sú hefð verði til staðar „áfram“. Tel ég að þeir sem eftir svo sem hundrað ár – eða þúsund – láta sig menningararfleifð þjóðarinnar einhverju varða, muni kunna þeim litla þökk sem koma í gegn þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru í fyrirliggjandi frumvarpsdrögum.

Skírskotun í mannréttindi og friðhelgi einkalífs í þessu efni stenst að mínu áliti ekki skoðun.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Eysteinn Pétursson - 05.03.2020

Íslendingar hafa löngum verið stoltir af þeirri menningararfleifð sem birtist í málinu. Jafnvel á dimmustu tímunum í sögu þjóðarinnar reyndu menn að halda höfði með skírskotun í forna frægð. Við ramman var reip að draga, og hefði ekki verið fyrir fáeina andans menn eins og Árna Magnússon væri þessi sagnaarfur kannski að mestu hugarburður. Á 19. öld var svo komið að málið var orðið mjög dönskuskotið, og hefðu Fjölnismenn, Jón Sigurðsson, og ekki síst Rasmus Rask, ekki látið til sín taka væri málið sem talað er nú á dögum trúlega nokkuð frábrugðið því sem raunin er. Þetta tengdist náttúrlega sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, en ekki er þó víst að hún hafi vakað sérstaklega fyrir danska málfræðingnum.

Nú um stundir held ég flestir séu stoltir af ýmsum sérkennum sem við höfum, m.a. annars þeirri hefð að kenna börn til foreldris. Hégómlegir menn tóku upp á því í byrjun síðustu aldar að hvetja landsmenn til að taka upp ættarnöfn, og nokkrir hégómlegir menn aðrir urðu við því ákalli. Ekki kann ég alveg söguna um það þegar horfið var frá þessu, en þeir sem að því stóðu væru líklega af mörgum kallaðir þjóðrembingar núna, hefðu þeir látið í minni pokann – og eru það kannski líka af sumum þrátt fyrir að þeir hafi haft sitt fram. Þó held ég að fram að þessu hafi flestir verið ánægðir með stöðu mála. Og stoltir.

Talsvert er nú talað um, að það að meina fólki að taka upp ættarnöfn, stangist á við friðhelgi einkalífs og sé brot á mannréttindum. Kemur það og fram í þeim frumvarpsdrögum sem hér eru til umsagnar. Lög um mannréttindi og friðhelgi einkalífs eru mannanna verk og er sjálfsagt, að hvort tveggja sé sem víðtækast. En hvoru tveggja eru takmörk sett, eins og líka kemur farm í frumvarpsdrögunum. Mörg lög í samtímanum má hiklaust telja brot á mannréttindum, ef út í það er farið. Er það ekki brot á mannréttindum að neyða menn til eyða tíma og kröftum í að skafa snjó af allri framrúðunni á bílnum sínum, áður en farið er af stað? Er ekki afar fátítt að snjór á hálfri rúðunni hafi leitt til umferðarslyss – ef aðgát er höfð? Eru það ekki mannréttindi að fá að aka gegn rauðu ljósi þegar enginn annar bíll er sjáanlegur, eða ljóst er að maður kemst yfir gatnamótin áður en bíll kemur frá hlið? Í sumum löndum er ekki tekið hart á þessu. Svona mætti taka mörg dæmi; og ekki bara úr umferðinni.

Spurningin er nú hvort við viljum halda í sérkenni okkar í nafnahefðinni eða ekki. Í greinargerð með frumvarpinu stendur þetta:

„Áfram er gert ráð fyrir kenningu til foreldris eins og hefð hefur verið hér á landi og er heimild til upptöku ættarnafna ekki ætlað að ganga gegn þeim aldagamla menningararfi.“

„Áfram er gert ráð fyrir...“! „...ekki ætlað að ganga gegn...“ Er þetta skrifað til að slá ryki í augu fólks? Gerir sá sem þetta skrifar sér grein fyrir merkingu orðsins ‚áfram‘? Hvað nær ‚áfram‘ langt fram í tímann? Þó að þeir sem þessa greinargerð skrifa – og standa að frumvarpinu – geri ráð fyrir að fólk muni áfram kenna sig til foreldris er engin trygging fyrir því að fólk byrji ekki fljótlega að taka upp ættarnöfn. Og þegar frá líður verður að telja miklar líkur á því að slíkt verði algengt, ekki síst í ljósi áróðurs sem nú er uppi um að fastheldni á fornar venjur sé merki um þjóðrembu!

Því hefur verið haldið fram að hefðir séu lítils virði, þurfi að setja um þær lög. En það er nú einu sinni svo að tískustraumar spyrja einatt ekki um hefðir. Hefði sú ‚tíska‘ að taka upp ættarnöfn í byrjun síðustu aldar ekki verið kæfð nánast í fæðingu væri hér líklega allur þorri manna með ættarnöfn – ef ekki hver einasti maður. Og líklega allir hæstánægðir með það – nema fáeinir ‚þjóðrembingar‘ sem sæju í hillingum forna arfleifð.

Í greinargerðinni stendur einnig þetta: „Hins vegar er lagt er til að millinöfn verði lögð niður, en álitamál er um hvort upptaka þeirra hafi náð þeim tilgangi sem að var stefnt þegar þau voru lögfest.

Virðist þeim að einhverju leyti hafa verið ætlað að koma í stað ættarnafna og vera einhvers konar ígildi þeirra, en að notkun ættarnafna sem kenninafna myndi að sama skapi minnka. Verði ættarnöfn heimiluð er ekki lengur talin þörf á millinöfnum.“

Hvað hafa höfundar greinargerðarinnar fyrir sér í því að ekki verði lengur þörf á millinöfnum? Hvað vita þeir um óskir einstakara manna? Og er nú allt í einu ætlunin að meina fólki að bera millinöfn? Er það í samræmi við mannréttindi og friðhelgi einkalífs? Tek fram að ég er ekki að mæla með millinöfnum.

Varðandi eiginnöfn: Í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir að þau skuli vera í nefnifalli. Hversvegna? Er það í samræmi við mannréttindi og friðhelgi einkalífs? Af hverju má ég ekki heita Eysteini (kallaður Steini)? Eða Eysteins? Nú sýnist mér eiga að leyfa nöfn sem taka ekki eignarfallsendingu, og sé ég ekkert athugavert við það, enda slík nöfn til staðar nú þegar. Hví skyldu menn þá ekki mega heita Eysteins eða Jóns? Ekki skilja mig svo að ég sé að mæla með því. En við verðum að huga að mannréttindum, ekki satt?!!!

Varðandi stafi. Tiltölulega nýlega var farið að minnka notkun erlendra bókstafa í nöfnum landa og borga. Ekki veit ég hvort lög liggja þar að baki, en svo dæmi séu tekin er nú oftast skrifað Tsjernobíl og Síle. Þetta gildir líka að nokkru leyti um erlend mannanöfn, t.d. Tsjajkofskí og Tsjekoff. Nú sýnist mér eiga að taka skref til baka, og c, q og w eigi meira að segja að verða jafnréttháir íslenskum stöfum í íslenskum mannanöfnum. Mér finnst þetta afturför, og alger óþarfi. Þó verður að gera undantekningar með fólk af erlendum uppruna (og slíkt verður að sjálfsögðu einnig að gera með ættarnöfnin). Um z gegnir nokkuð öðru máli, þar sem sá stafur var til skamms tíma gjaldgengur í málinu (og giltu jafnvel um það ákveðnar reglur hvenær skyldi rita z) og enn nota sumir z í rituðu máli. Mér finnst þó ekki þörf á z í íslenskum eiginnöfnum, né heldur heyri z eða c, q og w undir brot á mannréttindum eða friðhelgi einkalífs.

Ég vil þó taka fram að ég tel þetta ekki eins mikið mál og það að leyfa töku ættarnafna; enda er „kenning til foreldris ... helsta sérstaða íslenskra laga um mannanöfn“ eins og stendur í greinargerðinni. Og aldagamall menningararfur, eins og þar stendur líka. Stafagerð má hinsvegar segja að hafi verið með ýmsu móti, og þeir stafir sem notaðir voru við ritun fornsagnanna ekki allskostar þeir sömu og nú eru við lýði.

Samantekt: Ég er mjög mótfallinn heimild til að taka upp ættarnöfn og raska þannig aldagömlum menningararfi. Tel ég miklar líkur á því að ættarnöfn muni með tímanum ryðja burt þeirri aldagömlu hefð að kenna börn til foreldris, og meiri líkur á því en að sú hefð verði til staðar „áfram“. Tel ég að þeir sem eftir svo sem hundrað ár – eða þúsund – láta sig menningararfleifð þjóðarinnar einhverju varða, muni kunna þeim litla þökk sem koma í gegn þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru í fyrirliggjandi frumvarpsdrögum.

Skírskotun í mannréttindi og friðhelgi einkalífs í þessu efni stenst að mínu áliti ekki skoðun.