Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 25.2.–5.3.2020

2

Í vinnslu

  • 6.3.–20.12.2020

3

Samráði lokið

  • 21.12.2020

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-48/2020

Birt: 25.2.2020

Fjöldi umsagna: 9

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Frumvarp til laga um mannanöfn

Niðurstöður

Alls bárust sjö umsagnir um frumvarpið. Litið var til þeirra við ritun þess. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 9. október 2020.

Málsefni

Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs drög að frumvarpi til laga um mannanöfn sem felur í sér verulega rýmkun á löggjöf um mannanöfn.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpi þessu er lagt til að samþykkt verði ný mannanafnalög í stað laga um mannanöfn nr. 45/1996. Er frumvarpinu ætlað að auka til muna frelsi við nafngjöf og að afnema eins og mögulegt er þær takmarkanir sem eru í dag á skráningu nafna, bæði eiginnafna og kenninafna, og auka heimildir til nafnbreytinga. Er þannig leitast við að koma til móts við ríkjandi viðhorf í samfélaginu um mannanöfn. Frumvarpið miðar að því að lög um mannanöfn hafi fyrst og fremst að geyma lágmarksákvæði um skyldu til skráningar nafna. Þannig verði réttur fólks til að ráða sjálft nöfnum sínum og barna sinnar sem best tryggður og á sama tíma reynt að draga úr afskiptum opinberra aðila með hliðsjón af friðhelgi einkalífs.

Núgildandi lög um mannanöfn hafa verið í gildi í tæpan aldarfjórðung. Lögin hafa sætt töluverðri gagnrýni og hefur mörgum þótt löggjöfin vera helst til ströng. Snýr gagnrýnin ekki síst að erfiðleikum við að fá nöfn skráð hér á landi ef þau eru ekki fyllilega í samræmi við íslenska málhefð og rithátt. Þá hefur samsetning þjóðfélagsins tekið miklum breytingum á þeim árum sem liðin eru frá setningu laganna og þykir margt í lögunum ekki hafa fylgt þeirri þróun sem átt hefur sér stað í samfélaginu á síðustu árum.

Frumvarpið kveður á um víðtækar breytingar á löggjöf um mannanöfn. Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að ekki verði takmörk á fjölda eiginnafna og kenninafna. Þeim sem eru 15 ára og eldri er tryggður sjálfsákvörðunarréttur þegar kemur að nafnbreytingum, auk þess sem leitast er við að tryggja betur rétt yngri barna til að taka þátt í slíkri ákvörðun. Felldar verði niður reglur um að eiginnöfn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Einnig er fellt brott ákvæði um að nafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi og að það skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti. Leiðir það til þess að niður falla almennt takmarkanir á notkun erlendra nafna eins og verið hefur. Þá er það nýmæli lagt til að ættarnöfn verði leyfð að nýju. Í samræmi við það markmið frumvarpsins að virða rétt einstaklingsins til að ráða sjálfur nafni sínu eru lagðar til víðtækari heimildir til nafnbreytinga en nú eru. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að tilkynning til Þjóðskrár Íslands um nafn barns verði eingöngu á ábyrgð þeirra sem fara með forsjá barns en horfið verði frá því að prestar þjóðkirkjunnar og prestar eða forstöðumenn skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga tilkynni um nafn barns sem því er gefið við skírn eða sérstaka athöfn.

Þar sem frumvarpið felur í sér að skráning nafna verði háð óverulegum takmörkunum er gert ráð fyrir að mun minni þörf verði fyrir aðkomu nefndar eins og mannanafnanefndar. Er því lagt til að hún verði lögð niður. Um ágreiningsmál sem upp kunna að koma verði úrskurðað í ráðuneytinu en reiknað er með að mun færri mál muni sæta kæru en verið hefur.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Dómsmálaráðuneytið

postur@dmr.is