Samráð fyrirhugað 02.03.2020—16.03.2020
Til umsagnar 02.03.2020—16.03.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 16.03.2020
Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, með síðari breytingum (skipun embættismanna o.fl.)

Mál nr. 59/2020 Birt: 02.03.2020 Síðast uppfært: 16.03.2020
  • Utanríkisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Utanríkismál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (02.03.2020–16.03.2020). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Afmörkun fjölda sendiherraembætta og heimildir til skipunar í tímabundin verkefni, afnám undanþágu frá auglýsingaskyldu og víkkun heimilda til setningar sendifulltrúa í stjórnunarstöður og forstöðu sendiskrifstofa.

Frumvarpið er samið í tengslum við yfirstandandi stefnumótunarvinnu hjá ráðuneytinu og tekur mið af tillögum í skýrslu frá haustinu 2017 sem ber heitið "Utanríkisþjónusta til framtíðar. Hagsmunagæsla í breytilegum heimi." Markmið tillagna í skýrslunni var að gera utanríkisþjónustuna skilvirkari með tilfærslu mannauðs og fjármuna innan þess ramma sem henni er markaður. Ákvæðum laga nr. 39/1971 var breytt í kjölfar breytinga á starfsmannalögum nr. 70/1996, en sérstaða utanríkisþjónustunnar er nokkur innan stjórnarráðsins þar sem stærsti hluti starfseminnar fer fram á sendiskrifstofum víða um heim og starfsmenn hennar lúta flutningsskyldu milli þeirra og til og frá ráðuneytinu.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á sex greinum laga nr. 39/1971 um utanríkisþjónustu Íslands.

Tvær breytinganna, lúta að samræmingu hugtakanotkunar, en hugtakið sendiskrifstofa hefur um árabil verið notað sem samheiti um sendiráð, fastanefndir og aðalræðisskrifstofur utanríkisþjónustunnar og þykir rétt að skýra það og endurspegla í lagatextanum.

Lagt er til að útvíkka þá heimild sem ráðherra hefur haft til að veita forstöðumanni sendiskrifstofu sendiherranafnbót án þess að hljóta skipun sem sendiherra, á meðan hann gegnir starfinu. Núgildandi heimild nær einungis til forstöðumanna fastanefnda.

Með breytingu á 9. grein laganna verða tilgreindir þrír flokkar sendiherra og sendifulltrúa sem geta veitt sendiskrifstofu forstöðu.

Í fyrsta lagi verði afmarkaður sá fjöldi hefðbundinna sendiherraembætta sem til staðar verði og taki mið af fjölda sendiskrifstofa, sem nú eru 25 talsins. Slíkar stöður verði framvegis auglýstar.

Í öðru lagi verði ákvæði um tímabundna skipun sendiherra, til að hámarki fimm ára, án mögulegrar framlengingar. Fjöldi þeirra megi nema fimmtungi af heildarfjölda hefðbundinna sendiherraembætta. Tímabundnir sendiherrar veiti tiltekinni sendiskrifstofu forstöðu eða gegni hlutverki sérstaks erindreka.

Í þriðja lagi verði heimilað að setja sendifulltrúa tímabundið í embætti sendiherra, á meðan hann gegnir stöðu forstöðumanns sendiskrifstofu og jafnframt takmarkist fjöldi slíkra setninga við fimmtung af heildarfjölda skipaðra sendiherra skv. fyrsta flokknum.

Um síðarnefndu tvo flokkana, tímabundna sendiherra og setta sendiherra, myndi áfram gilda undanþága frá auglýsingaskyldu.

Enn fremur verður heimilt að flytja ráðna sendifulltrúa (sem ekki voru skipaðir fyrir 1. júlí 2017) í embætti skrifstofustjóra innan utanríkisþjónustunnar í allt að fimm ár. Þetta er mikilvæg heimild í því skyni að jafna stöðu skipaðra og ráðinna sendifulltrúa innan utanríkisþjónustunnar, enda þörf á sveigjanleika við flutning og tilfærslu stjórnenda innan hennar, en breytingar á flokkun embættismanna hafa gert það að verkum að mjög afmarkaður fjöldi sendifulltrúa getur flust í slíkar stöður, og hallar þar verulega á konur.

Með bráðabirgðaákvæði er áréttað að ekki sé raskað stöðu þeirra sem áður hafa verið skipaðir eða settir í embætti skv. eldri reglum og miðað við að embætti sendiherra verði ekki auglýst fyrr en stöður losna miðað við þann hámarksfjölda sem tilgreindur verði í lögunum.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Friðrik Jónsson - 16.03.2020

Hjálögð í viðhengi er umsögn Hagsmunaráð starfsfólks utanríkisþjónustunnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, með síðari breytingum (skipun embættismanna o.fl.).

Fyrir hönd Hagsmunaráðs

Friðrik Jónsson

Formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Friðrik Jónsson - 16.03.2020

Hér með sendist umsögn Hagsmunaráðs starfsfólks utanríkisþjónustunnar að nýju, leiðrétt.

Friðrik Jónsson

Formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Gunnar Pálsson - 16.03.2020

Umsögn frá Gunnari Pálssyni, sendiherra

Viðhengi