Samráð fyrirhugað 03.03.2020—17.03.2020
Til umsagnar 03.03.2020—17.03.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 17.03.2020
Niðurstöður birtar 25.06.2020

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 með síðari breytingum (skilvirkari framkvæmd).

Mál nr. 61/2020 Birt: 03.03.2020 Síðast uppfært: 25.06.2020
  • Félagsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Vinnumarkaður og atvinnuleysi

Niðurstöður birtar

Hinn 3. mars 2020 voru drög að frumvarpinu kynnt í opnu umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-61/2020) þar sem almenningi gafst kostur á að koma á framfæri athugasemdum við drögin. Ein umsögn barst í gáttina þar sem lögð var til breyting á 36. gr. laganna. Munu þær athugasemdir sem þar koma fram koma til skoðunar við fyrirhugaða heildarendurskoðun laganna.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 03.03.2020–17.03.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 25.06.2020.

Málsefni

Félags- og barnamálaráðherra birtir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem þykja nauðsynlegar í því skyni að framkvæmd laganna verði skilvirkari.

Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði við almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum að umsækjandi, hvort sem hann er launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laganna, sé með skráð lögheimili á Íslandi.

Jafnframt er lagt til að dregið verði úr vægi vottorða vinnuveitenda í tilviki umsókna launamanna um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt gildandi lögum ber launamanni að skila inn vottorði vinnuveitanda til Vinnumálastofnunar þegar hann sækir um atvinnuleysisbætur. Í vottorðinu ber að tilgreina starfstíma aðila á ávinnslutímabili ásamt starfshlutfalli sem og ástæður þess að aðili hætti störfum, hvort hann hafi tekið út orlof sitt við slit á ráðningasamningi og hvernig greiðslum vegna starfsloka hafi verið háttað. Til að flýta fyrir afgreiðslu umsókna er lagt til að afnumin verði skylda launamanns að skila inn vottorði vinnuveitanda um þessi atriði. Þess í stað er lagt til að launamanni beri að geta þessara atriða sjálfur þegar hann sækir um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni. Jafnframt er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti óskað eftir vottorði vinnuveitanda telji hún þörf á því að staðreyna þær upplýsingar sem fram koma í umsókn launamanns um atvinnuleysistryggingar.

Einnig er lagt til að lögreglu verði bætt við í hóp þeirra stjórnvalda sem skuli láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem stofnunin telur nauðsynlegar við framkvæmd laganna. Er þetta lagt til þar sem ætla má að upplýsingar sem lögregla getur búið yfir geti verið nauðsynlegar svo Vinnumálastofnun sé unnt að hafa virkt eftirlit með greiðslum atvinnuleysisbóta.

Þá eru lagðar til breytingar á viðurlagakafla laganna í ljósi dóms Héraðdóms Reykjavíkur frá 15. mars 2016, í máli nr. E-2547/2015. Í málinu reyndi á túlkun 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um viðurlög við því þegar atvinnuleysisbóta er aflað með sviksamlegum hætti. Til að bregðast við fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur er lagt til að bætt verði við lögin nýju ákvæði, 59. gr. a, þar sem kveðið verði sérstaklega á um viðurlög við þeim brotum sem 2. málsl. 60. gr. gildandi laga hefur hingað til mælt fyrir um. Lagt er til að í þessu nýja ákvæði verði skýrt kveðið á um hvaða viðurlög eigi við þegar tryggður aðili hefur verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í 30 daga eða lengur og verður uppvís að því að starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. laganna, eða að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna. Þá er jafnframt lagt til að brugðist verði við ábendingum umboðsmanns Alþingis varðandi misræmi á milli orðalags 57. gr. og 59. gr. laganna með því að fella brott orðið „vísvitandi“ úr 4. mgr. 57. gr. laganna.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Valdimar Össurarson - 16.03.2020

Nauðsynlegt er, þegar nú eru gerðar breytingar á lögum nr 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, að sníða þá augljósu vankanta af lögunum sem nýlegir úrskurðir hafa leitt í ljós. Vil ég því koma eftirfarandi á framfæri við þá sem um þessa lagabreytingu fjalla:

Hinn 21.febrúar sl féll úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 575/2019. Með honum er snúið við ákvörðun Vinnumálastofnunar sem byggir á óljósu ákvæði 36.gr laganna, sem lýtur að frádrætti frá atvinnuleysisbótum. Vinnumálastofnun túlkaði þetta óljósa ákvæði þannig að skerða skyldi atvinnuleysisbætur vegna makabóta sem hinn atvinnulausi þiggur hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna umönnunar langveiks maka. Í niðurstöðum úrskuraðarnefndar segir m.a: „Vinnumálastofnun var því óheimilt að skerða atvinnuleysisbætur kæranda vegna þeirra“ (þ.e. makabótanna).

Túlkun Vinnumálastofnunar á lögum um atvinnuleysisbætur er einatt bótaþeganum í óhag í öllum þeim atriðum sem lögin eru óljós. Stofnunin hefur auk þess komið upp mjög flóknu og tímafreku ferli kvartana; að því er virðist til þess eins að gera bótaþegum sem erfiðast fyrir með sínar kvartanir. Því er nauðsynlegt að lögin séu nægilega skýr til að vernda þá hagsmuni bótaþegans sem lögunum er ætlað að tryggja. Í þessum efnum tala ég af reynslu. Ég hef í áratug unnið að þróun og nýsköpun sem byggir á stuðningi samkeppnissjóða. Sá stuðningur hefur reynst stopull vegna stefnuleysis stjórnvalda í nýsköpunarmálum og ónógra framlaga til nýsköpunar. Því hef ég þurft að leita til atvinnuleysistryggingasjóðs þegar umsóknum er synjað. Jafnframt sinni ég langveikum maka og spara þannig þjóðfélaginu vistun hennar á stofnun. Fyrir það þigg ég lítilsháttar makabætur TR. Þessar bætur reyndi Vinnumálastofnun að nota sem átyllu til að svipta mig atvinnuleysisbótum, sem reyndar eru langt neðan þess sem stjórnvöld hafa skilgreint sem lágmarksframfærslu. Úrskurðarnefnd sneri þessu við skv ofangreindu, og vænti ég leiðréttingar VMST.

Nauðsynlegt er, um leið og fyrirhugaðar breytingar eru gerðar á þessum lögum, að breyta 36.grein þeirra með tilliti til þessa úrskurðar. Augljósasta aðferðin til þess virðist vera viðbót við 2.málsgrein 36.gr, þar sem rætt er um að undanþegið skerðingu sé; „umönnunargreiðslur vegna veikinda eða fötlunar barns; styrkja úr sjúkrasjóðum; styrkja úr sjúkrasjóðum og styrkja úr opinberum sjóðum eða sambærilegum sjóðum sem hinn tryggði fær til þróunar eigin viðskiptahugmyndar“. Þessar greiðslur skulu ekki leiða til skerðingar atvinnuleysisbóta. Við þessa upptalningu þarf að bæta „bætur sem hinn tryggði fær vegna umönnunar maka eða sambýlings“. Ég tel að það ætti að nægja.

Fram hefur komið að þessar lagabreytingar eru, a.m.k. öðrum þræði, hluti af ráðstöfunum stjórnvalda vegna covid-plágunnar sem nú herjar. Stjórnvöld hyggjast auk þess,gegnum Vinnumálastofnun, gera ráðstafanir til að tryggja kjör þeirra sem þurfa að minnka vinnuhlutfall sitt. Mikilvægt er að stjórnvöld um leið tryggi jafnræði þeirra sem hafa um langan tíma verið atvinnulausir, en svo virðist að þeir eigi nú að njóta lakari kjara. Ég skora á stjórnvöld að tryggja jafnræði í þeim efnum.