Samráð fyrirhugað 11.03.2020—31.05.2020
Til umsagnar 11.03.2020—31.05.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 31.05.2020
Niðurstöður birtar 29.06.2020

Leiðbeinandi matsviðmið í náttúrufræði, samfélagsfræði, skólaíþróttum, list- og verkgreinum og upplýsinga- og tæknimennt fyrir 4. og 7. bekk grunnskóla - drög.

Mál nr. 67/2020 Birt: 11.03.2020 Síðast uppfært: 29.06.2020
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Leikskólar, grunnskólar, starfsnám og stjórnsýsla mennta- og menningarmála

Niðurstöður birtar

Sjá samantekt niðurstaðna.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 11.03.2020–31.05.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 29.06.2020.

Málsefni

Mennta- og menningarmálaráðuneytið kynnir til samráðs leiðbeinandi matsviðmið í náttúrufræði, samfélagsfræði, skólaíþróttum, list- og verkgreinum og upplýsinga- og tæknimennt fyrir 4. og 7. bekk grunnskó

Í gildandi aðalnámskrá grunnskóla fyrir einstök greinasvið sem tók gildi 2013 voru sett fram matsviðmið á öllum námssviðum við lok grunnskóla. Menntamálastofnun hefur nú gengið frá drögum að sambærilegum matsviðmiðum fyrir 4. og 7. bekk grunnskóla í náttúrufræði, samfélagsfræði, skólaíþróttum, list- og verkgreinum og upplýsinga- og tæknimennt en mikið hefur verið kallað eftir slíkum viðmiðum. Áður hafði stofnunin lokið við gerð samskonar viðmiða fyrir íslensku, stærðfræði og erlend tungumál og voru þau viðmið auglýst í Stjórnartíðindum þann 29. júlí sl. eftir umsögn í Samráðsgátt. Þau má finna í nýjum kafla, nr. 27, í aðalnámskrá grunnskóla. Stofnunin hafði samráð við ýmsa grunnskóla við gerð viðmiðanna og byggði einnig á fyrri viðmiðavinnu sem fram fór á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis. Við frágang matsviðmiðanna hafa hæfniviðmið á viðkomandi greinasviðum verið höfð til hliðsjónar og matsviðmið við lok grunnskóla sem eru hluti af aðalnámskrá grunnskóla. Gert er ráð fyrir að afloknu samráði verði matsviðmiðin gefin út sem hluti af aðalnámskrá grunnskóla, birt í Stjórnartíðindum og kynnt fyrir skólasamfélaginu.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Margrét Össurardóttir - 17.04.2020

Hvernig getur verið sama matsviðmiðið í lok 4 bekkjar í verkgreinum við bæði C hæfni og B hæfni? Er ekki nær að segja við C hæfnina: Fjallað að einhverju leyti um heilbrigða lífshætti?

Það þarf að vera samfella í umsögnum, þetta er eitthvað sem ekki er hægt að vinna eftir þegar enginn munur er á milli þessa hæfnistiga.

Hvað varðar matsviðmið við lok 7 bekkjar í verkgreinum þá virðist ekki vera munur á "fjallað" eða "sagt". Það þarf að vanda orðalagið því miðað við 4 bekk, þá er A hæfnin með "Sagt" og C/B hæfnin segir "Fjallað" Við lok 7 bekkjar er A hæfnin með "Fjallað". Orðalagið þarf að vera skýrara en þetta.

Það er engan vegin ásættanlegt að við kennarar fáum hálf unna vöru, fyrir utan, þá er það ófaglegt af ríkisvaldinu að kalla ekki til sérfræðinga sem vinna við þetta allan ársins hring.

Afrita slóð á umsögn

#2 Margrét Össurardóttir - 17.04.2020

Í framhaldi af fyrri umsögn minni um þetta efni, þá hefði maður haldið að Menntamálaráðuneytið hefði þann metnað að skila frá sér efni fyrir kennara til afnota á sómasamlegann hátt. Það er nákvæmlega sömu hroðvirknislegu vinnubrögðin höfð í þessum matsviðmiðum og framkvæmdin var á sínum tíma þegar Aðalnámskráin var innleidd. Kennarar unnu alla vinnuna. Námsmat er svo á engan hátt alveg eins á milli skóla. Sagt var að þetta ætti að auvelda Framhaldsskólum! Svo varð raunin ekki, heldur flækti þetta bæði vinnu kennara og nemendur skildu hvorki upp né niður í einkunnargjöfinni. Sem dæmi, þá gef ég milli 5-6 þús einkunnir yfir skólaárið, s.s. þarf að haka í 5-6 þús hök. Það er ekkert eðlilegt við það. Félag heimilisfræðikennara hefur ekkert boð fengið um að koma að borðinu að þessum drögum. Hvar fær maður vitneskjuna hvaða fagaðilar unnu þetta? Eðlilegast hefði ég haldið það stæði á þessari síðu.

Afrita slóð á umsögn

#3 Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir - 17.04.2020

Mér finnst vanta í list og verkgreinum eitthvað um vinnuna sem þau eru að gera. Ég sem textílkennari væri til í að geta haft í hæfniviðmiðunum um að beita verkfærum rétt. Eru fínhreyfingar í lagi o.s.frv.

Í upplýsingatækni vantar mikið meira um forritun. Forritun er vaxandi nám í grunnskólum en samt er varla hægt að meta það í hæfniviðmiðunum.

Í samfélagsfræði er voðalega erfitt að meta það efni sem er verið að kenna, sérstaklega á yngsta stigi. Það er einkennilegt að ekki sé í hæfniviðmiðunum eitthvað um kennslu um norðurlöndin eða evrópu eða í náttúrufræði eitthvað um náttúruna. Allavega finnst mér erfitt að finna hæfniviðmið sem henta fyrir það sem er verið að kenna hugsanlega vantar bara nýtt námsefni sem tengjast viðmiðunum.

Afrita slóð á umsögn

#4 Guðrún Gísladóttir - 18.04.2020

Góðan dag, mér finnst viðmið í listgreinum nokkuð skýr en efast um að nemendur átti sig á orðinu hrynjandi og hvernig þau geti uppfyllt það viðmið til dæmis í myndmennt.

Afrita slóð á umsögn

#5 Ólöf Jónsdóttir - 19.04.2020

Það er alveg ófært að vera með sömu viðmið fyrir margar greinar og vanvirðing við list og verkgreinar. Ef ekki á að gera þetta fyrir hverja grein fyrir sig er alveg eins gott að sleppa þessu.

Afrita slóð á umsögn

#6 Þuríður Helga Guðbrandsdóttir - 19.04.2020

Ég ásamt kollegum mínum erum òsàtt við að hafa sameiginleg matsviðmið fyrir allar verkgreinar. Krafa er um að efla virðingu við allar verkgreinar og að matsviðmið sé sett fram fyrir hverja grein fyrir sig.

Matsviðmið 4. þá er c og b liður eins orðaður.

Það er von heimilisfræðikennara að þeir séu fengnir að borðinu við þessa vinnu.

Afrita slóð á umsögn

#7 Margrét Jónsdóttir - 19.04.2020

Frá því ég hóf kennslu í myndlistarkennslu í grunnskólanum þá hafa hlutirnir bara farið niður á við ..ekki bara launin heldur er verið að koma þessari námsgrein út úr grunnskólanum og gera að dundurgrein fyrir ómenntaðan kennara t.d. umsjónarkennara sem þarf uppbót á tíma. Verk og listgreinar eru ólík fög með ólíkar áherslur sem þarf margra ára sérmenntun til að öðlast skilning og færni í. Vinsamlegast stoppið þetta rugl með sameiginleg viðmið fyrir list -og verkgreinar því greinarnar eru það ólíkar að ekki er hægt að setja sama stimpilinn á þær. Það verður að vera viðmið fyrir hverja grein fyrir sig svo ekki sé brotið á nemanda.

Hvaða menntun hafa þeir eiginlega sem standa að þessum hugmyndum ...ég á ekki orð yfir fáfræðina.

Afrita slóð á umsögn

#8 Skúli Sigurðsson - 19.04.2020

Það er spurning hvers vegna það er verið að gefa út leiðbeinandi matsviðmið. Það ætti að mína mati að vera til að aðstoða kennara við mat á nemendum og jafnvel til að samræma aðeins mat á milli skóla.

Eins og þessi viðmið eru sett upp gera þau ekkert annað en að auka vinnu kennara við vinnu með matsviðmiðin. Það að bæta við lýsingaorði á milli A, B eða C kemur ekki til þess að skýra námsmat. Það er á sumum stöðum sem viðmiðin eru þau sömu á milli allra matsviðmiða í skólaíþróttum.

Dæmi um það er í 4. bekk skólaíþróttum:

C= Gert sér grein fyrir mikilvægi hreyfingar fyrir starfsemi líkamans.

B =Gert sér grein fyrir mikilvægihreyfingar fyrir starfsemi líkamans.

A= Gert sér góða grein fyrir mikilvægihreyfingar fyrir starfsemi líkamans.

Viðmiðin eru of oft þau sömu við B eða C mat.

Það er skondið að matsviðmiðin eru á einum stað meiri fyrir C en B.

C= Sagt frá helstu öryggis- og skipulagsreglum sundstaða og íþróttahúsa.

B= Sagt frá helstu öryggis- ogskipulagsreglum sundstaða.

A= Sagt frá helstu öryggis- og skipulagsreglum sundstaða og íþróttahúsa og farið eftir þeim.

Í Skólaíþróttum eru matsviðin mikið til þannig að þau eru bókleg og nemandi þarf að skila inn skriflega eða munnlega til kennara. Á sama tíma og hreyfing barna er að minnka er verið að fækka þeim fáu mínútum sem þau fá í hreyfingu í skólanum.

Ég hef eina spurningu sem væri gott að fá svar við. Hvaða kennarar unnu þetta með ráðuneytinu?

Pössum upp á það að matsviðin eiga vera til að einfalda vinnuna ekki til að auka flækjustigið.

Afrita slóð á umsögn

#9 Steinunn E Benediktsdóttir - 19.04.2020

Èg tek heilshugar undir þà gagnrýni sem fram kemur hèr ađ ofan. Þetta plagg er illa unniđ og greinilega ekki ì samràđi viđ fòlk nenntađ ì þessum greinum. Ađ gefa saman fyrir verkgreinar er ein mesta mòđgunin ađ mìnu mati. Hönnun og smìđi, textìll og heimilisfræđi eru greinar sem nemendur hafa alla jafna mjög mismunandi hæfni ì. Þetta er eins og ađ gefa saman fyrir öll tungumàl s.s. ìslensku, ensku og dönsku.

Hèr þarf verulega ađ endurskođa verkferla.

Afrita slóð á umsögn

#10 Guðmunda Anna Þórðardóttir - 19.04.2020

Ég geri alvarlegar athugasemdir við að gefin sé sameiginleg einkunn fyrir ólíkar greinar eins og t.d. heimilisfræði og textíl. Nemandi sem skarar fram úr í annarri greininni getur hæglega verið slakur í hinni greininni og fær því verulega ósanngjarnt námsmat þegar þessu er skellt saman í eina einkunn!

Afrita slóð á umsögn

#11 Margrét Sigrún Þórólfsdóttir - 19.04.2020

Það er alveg ótækt að vera með sömu viðmið fyrir list og verkgreinar. Því verk og listgreinar eru ólík fög með ólíkar áherslur sem leiða til ólíkrar útkomu. Það verður að vera viðmið fyrir hverja grein fyrir sig svo ekki sé brotið á nemanda. Það er líka ótækt að verkgreinakennarar þurfa að koma sér saman um einn einkunnarbókstaf handa nemanda í efri stigum fyrir hönnun og smíði, textílmennt og heimilisfræði þessar greinar eru ólíkar að inntaki. Það er ekki sanngjarnt að nemandi sem er framúrskarandi í heimilisfræði en lakari í hinum greinunum fái einn sameiginlegan bókstaf og er dregin niður fyrir góða frammistöðu í heimilisfræði. Þetta þarf að laga strax.

Afrita slóð á umsögn

#12 Anna Guðný Sigurgeirsdóttir - 19.04.2020

Í ljósi þess að í mörg ár núna hefur alltaf verið talað um að hefja til vegs og virðingar list og verkgreinar þá finnst mér algjörleg skjóta skökku við að meta fleiri en eitt fag saman.

Mér finnst það vanvirðing við fagið, nemandann og kennarann eins og staðir hefur verið að þessu undanfarið.

Vil sjá að hvert fag í list og verkgreinum hafi sitta mat.

Afrita slóð á umsögn

#13 Kristbjörg Hermannsdóttir - 19.04.2020

Hugleiðingar varðandi matsviðmið

Mig langar, áður en fresturinn rennur út, að lýsa yfir óánægju minni með sameiginlegum matsviðmið í list- og verkgreinum, hvort sem þau eru í lok 4., 7. eða 10. bekkjar. Það er mikilvægt að við einbeitum okkur að hverju fagi fyrir sig. Þið skeytið hér saman gerólíkum greinum og viljið eina einkunn. Fyrir hvað á þessi einkunn að standa þegar nemandi sýnir framúrskarandi námsárangur í annarri greininni en er arfaslakur í hinni? Hvernig fellur slíkt námsmat að einstaklingsviðmiðun þegar einstaklingurinn uppsker meðaltalið af „appelsínu og epli“ ?

Þá spyr ég mig hvað sé raun áunnið með matsviðmiðunum? Er gagnsæi fengið eða aukið flækjustig? Skilar kennslan betri árangri eða lítur þetta betur út á pappírum? Það að breyta einhverju til þess eins að breyta því kann ekki góðri lukku að stýra. Ég sé ekki að þessar umbúðir hafi áhrif á innihald skólastarfsins. Það er margt mjög gott í íslensku skólakerfi og mannauðurinn ótrúlegur. Hlúið að því sem þig eigið áður en þið missið það úr höndunum því yfirstandandi innleiðing á þessari námskrá hefur farið illa í marga kennara, mig þar á meðal. Setjið kraftana og krónurnar í inniviðina og fylgið innleiðingum nýrra stefnu úr hlaði, eins og t.d. „skóla án aðgreiningar“ svo sómi sé af. Fjármuni þarf í fleira fagfólk í skólana og námsefni til að geta uppfyllt hæfniviðmið aðalnámskrár.

Kær kveðja

Kristbjörg Hermannsdóttir

Textílkennari í Grunnskólanum í Stykkishólmi

Afrita slóð á umsögn

#14 Ragnar Ingi Sigurðsson - 19.04.2020

Ég geri alvarlegar athugasemdir við að gefin sé sameiginleg einkunn fyrir ólíkar námsgreinar, ég hefði haldið að þessi hæfniviðmið væru til að skoða stöðu nemenda í hverrju fagi fyrir sig en með að setja saman fleirri en eitt fag segir ekkert til um það.

Eins með hæfniviðmið í skólaíþróttum, hvernig er hægt að hafa sömu viðmið fyrir A, B og C? Það er stór furðulegt 🤔. Ég held að það þurfi eitthvað að endurskoða þessa vinnu, er starfsmaður á plani með í þessari vinnu, maður spyr sig.

Afrita slóð á umsögn

#15 Ingibjörg Hólm Einarsdóttir - 19.04.2020

Að mínu mati þarf viðmið fyrir hverja list-og verkgrein fyrir sig. Það væri stuðningur við það faglega skólastarf sem kennarar eru að vinna og þessi framsetning , eins og hún kemur fram í þessum drögum, er engan veginn sá stuðningur sem þarf. Ef á að hafa miðlæg matsviðmið er lágmark að þau snúi að hverri grein og séu í tengslum við raunveruleg verkefni en ekki háfleyg hugtök sem erfitt er að tengja við.

Afrita slóð á umsögn

#16 Alda Björk Sigurðardóttir - 19.04.2020

Myndi vilja sjá matsviðmið fyrir hvert fag í verkgreinum, þessi fög eiga ekki mikið sameiginlegt. Einhver atriðið kannski en ég kenni heimilisfræði og sé ekki margt þarna sem ég get tengt við mína kennslu án þess að þurfa að umorða eða aðlaga. Finnst þetta óvirðing við námsgreinina. Eins er óskiljanlegt að útskrifa nemendur með einn bókstaf í verkgreinum úr grunnskóla.

Afrita slóð á umsögn

#17 Silja Konráðsdóttir - 19.04.2020

Það á engan veginn við að sömu viðmið séu sett fram vegna verkgreina. Það hafa ekki allir sömu hæfileika eða áhuga fyrir þessum greinum. Við gerum okkar besta í að vinna út frá hæfileikum hvers og eins en skellum svo öll saman til að meta börnin.

Það þarf að laga þessi viðmið og vinna þau eftir hverri grein fyrir sig.

Afrita slóð á umsögn

#18 Bjargey Aðalsteinsdóttir - 19.04.2020

Ég kenni heimilisfræði í Valhúsaskóla og verð að viðurkenna að ég skil ekki hvernig hægt er að gefa bara eina einkunn fyrir list og verkgreinar í 10. bekk. Hverjum datt þetta í hug? Mér finnst að það eigi að vera sér viðmið fyrir hverja grein.

Afrita slóð á umsögn

#19 Sofía Jóhannsdóttir - 19.04.2020

Mig langar til að koma með ábendingu varðandi tímaramma í samfélagsgreinum og hvað skólunum er ætlað að gera skv. Aðalnámskrá.

Samfélagsgreinar eru safn fræðigreina þar sem þungi hæfniviðmiða eykst mikið eftir því sem nemandinn eldist. Þær greinar sem samfélagsgreinum er ætlað að halda utan um eru meðal annars, saga, lífsleikni, landa-, þjóðfélags-, stjórnmála-, og trúarbragðafræði, siðfræði/heimspeki og jafnréttismál (Aðalnámskrá grunnskóla, 2013) ásamt vissum þáttum er snerta umhverfis- og heilbrigðismálefni sem nú eru ofarlega á baugi í samfélagsumræðunni.

Skólinn á að vera vettvangur þar sem nemandi hefur aðgengi að ígrunduðu námsefni og að hluta til stýrðu og er það skólans að koma til móts við fjölbreyttar þarfir og getu einstaklinga sem til hans sækja með áhugaverðu námsefni sem eflir getu, gagnrýna hugsun og þekkingu á viðfangsefninu. Til þess að stuðla að námi fær skólinn ákveðin verkfæri til að vinna eftir sem gefin eru út af menntayfirvöldum og eru skráð í lög og reglugerðir. Ég hef miklar áhyggjur af stöðu þessa fags, þeim tíma sem ætlaður er til náms og tengingar við grunnþættina, svo hægt sé að meta nemendur skv. matsviðmiðunum svo vel verði.

Til þess að dýpt náist og þekking skapast þar sem nemendur geta sýnt færni, þarf samfellan að ná upp í gegnum grunnskólann. Nemendur unglingadeildar sem e.t.v. hafa átt erfitt framanaf í námi eiga tæpa möguleika á því að efla sig enn frekar þegar tíminn sem ætlaður er til kennslu er skorinn niður þegar í unglingadeild er komið. Athugið að hæfniviðmiðin eru 54 talsins og íhugið vel tímann sem gefinn er til námsins.

Þegar tímahlutfall námsgreinarinnar er skoðað í tengslum við viðmiðunarstundaskrána má greinilega sjá að tíminn sem úthlutaður er til kennslu þessarar greinar er ekki mikill. Samfélagsgreinum er úthlutað 11.46% af heildarfjölda kenndra mínútna yfir 10 ára skólagöngu nemanda. Það gera 1.540 mínútur á viku ef litið er þvert á bekki frá 1. til 10. bekk og skiptist tíminn ekki jafnt milli stiga grunnskólans. Ef skiptingin er skoðuð nánar má sjá að vægi er misjafnt og er það mest á miðstigi, en þar eru áætlaðar 600 mínútur til kennslu. Næst kemur yngsta stigið þar sem eru áætlaðar um 580 mínútur og lestina rekur unglingastigið með 360 mínútur til umráða í kennslu (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011). Ég tel að þetta samræmist illa þeim kröfum sem Aðalnámskrá setur.

Þegar horft er til hæfniviðmiða samfélagsgreinanna er mikill stígandi milli þrepa í hæfniviðmiðum. Það er vissulega áhyggjuefni þegar litið er yfir þær greinar sem eru til náms og þá námsþætti sem eru til grundvallar að ekki sé gefinn tími til að staldra við, rýna í gildi og ný hugtök þannig að skilningur náist vegna tímaskorts og kröfu um að komast yfir fleiri hæfniviðmið sem Aðalnámskrá gerir kröfur á að sé gert. Að “við skipulagningu samfélagsgreina skulu öll hæfniviðmið höfð í huga” (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011).

Íhugið vel þau stýriplögg sem við ætlið okkar kennurunum að fara eftir, þau verða að vera raunhæf.

Góðar stundir,

Afrita slóð á umsögn

#20 Eva Hulda Emilsdóttir - 19.04.2020

Það er nauðsynlegt að hafa hvert fag fyrir sig. Engan vegin ásættanlegt að hafa öll verkgreina fögin undir einni einkunn. Er þá ekki gefin ein einkunn fyrir bókleg fög líka?

Nemandi getur verið með A í textílmennt en C í smíði. Á þá að draga úr getu þeirra í textílmennt?

Afrita slóð á umsögn

#21 Jóna Guðrún Jónsdóttir - 19.04.2020

Ég vil benda á erfiðleika við að nota sameiginlegt mat á listgreinar. Allar listgreinar eiga að hafa sér námsmat líkt og aðrar greinar. Myndlist er ekki það sama og leiklist eða dans eða textílmennt. Í dag er mikið talað um hversu mikið skapandi hugsun og skapandi starf skipti miklu máli í menntun í nútíma samfélagi. Þvi skýtur skökku við að bera ekki meiri virðingu fyrir listgreinum en að setja þær undir sama hatt.

Sér mat fyrir hverja listgrein takk.

Afrita slóð á umsögn

#22 Anna Guðný Ólafsdóttir - 19.04.2020

Algjört rugl að vera með sameiginleg viðmið fyrir list -og verkgreinar en ekki sér viðmið fyrir hverja grein.

Afrita slóð á umsögn

#23 Tómas Albert Holton - 19.04.2020

Ég hef kennt mikið á miðstigi undanfarin ár. Við skipulag kennslu hefur samfélagsfræðin oft valdið mér höfuðverk. Ástæðan er sú að hæfniviðmið eru bæði mörg og flókin. Þetta á að einhverju leyti við aðrar greinar en samfélagsfræðin er að nokkru leyti sér á báti. Langar lýsingar á hæfniviðmiðum oft með háfleygu orðalagi, gerir valið oft erfitt.

Í þessu sambandi langar mig að nefna athugasemdir frá tveimur erlendum fræðimönnum sem fjallað hafa um íslenskt skólakerfi á undanförnum árum. Annar er Pasi Sahlberg sem nefndi á opnum fundi um menntastefnu Reykjavíkur í Hörpu í febrúar 2018, að við mættum ekki hætta að kenna staðreyndir. Mér fannst þetta athyglisvert, því "staðreyndir" hafa nánast orðið að bannorði. Hitt var viðtal við PISA-manninn Andreas Schleicher í Kastljósi sumarið 2019. Honum fannst við vinna á yfirborðinu í mörgu í stað þess að einbeita okkur að færri hlutum og fara í dýptina.

Út frá m.a. því sem ég nefndi hér fyrir ofan langar mig að koma með þá ábendingu að best væri að hafa matsviðmið í samfélagsfræði hæfilega mörg og eins auðskiljanleg og hægt er. Ég held að „less is more“ eigi mjög vel við hér. Þetta þarf ekki allt að vera háfleygt og flókið og við græðum ekki á því að ætla að gera "allt". Að einfalda hlutina myndi vera til bóta.

Afrita slóð á umsögn

#24 Guðrún Bergsdóttir - 20.04.2020

Ég tek undir það sem aðrir heimilisfræðikennarar hafa skrifað hér á undan. Þetta er illa unnið og ófaglegt. Fyrir það fyrsta er það alger vanvirðing við hvert og eitt fag að það sé sameiginlegt matsviðmið því greinarnar eru mjög ólíkar og lítið sem ekkert sameiginlegt með þeim og heimilsfræðin alveg sér á bàti að mínu mati. Eins er ég mjög ósátt við að fagfélög allra greina hafi ekki verið fengin að borðinu til að vinna þetta, það þykir mér með eindæmum ófagleg vinnubrögð. Hvernig stendur svo á því að stuðst er við 10.bekkjar markmiðin þegar t.d. heimilisfræðin er valgrein í flestum skólum á unglingastigi en skylda hjá yngri nemendum? Algerlega ótækt að vinna útfrá matsviðmiðum valgreina til að setja fast mat hjá skyldufögum. Eins set ég út á að þetta matsviðmið og svo líka þau hæfniviðmið sem eru gildandi varðandi heimilisfræðina ganga að mestu út frá bóklegu námi þegar þetta er verkgrein aðallega! Hvet ykkur til að endurskoða þetta alveg frá grunni, aðlaga að hverju fagi fyrir sig, breyta og fyrst og fremst vinna með hverju fagfélagi fyrir sig að gerð bæði matsviðmiða og hæfniviðmiða.

Afrita slóð á umsögn

#25 Heiða Lind Sigurðardóttir - 20.04.2020

Mikil vinna og hugsun hefur verið lögð í að breyta skólakerfinu síðustu ár og því ætti sú hugsun að enduspeglast í þessum hæfniviðmiðum. Það virðist sem fólk hafi verið að flýta sér aðeins um of og kannski spurning um að gefa þessari vinnu meiri tíma og alúð. Það er heldur ekki hægt að steypa öllum verkgreinum í sama mót. Mér finnst hugtakið hrynjandi líka ekki eiga við í sjónlista/myndmenntakennslu og er hugsi yfir því að það sé eina fagtengda orðið sem notað er, en á betur við í tónmennt. Fáið gott fólk úr öllum þessum greinum til að þróa þetta betur.

Afrita slóð á umsögn

#26 Rannveig Björk Þorkelsdóttir - 20.04.2020

Það hlýtur að vera hægt að ná því í gegn að hver listgrein fái sitt námsmat líkt og aðrar greinar. Í mínum huga snýst þetta um virðingu fyrir listgreinunum.

Afrita slóð á umsögn

#27 Haukur Arason - 20.04.2020

Umsögn um drög að leiðbeinandi matsviðmiðum í náttúrufræði fyrir 4. og 7. bekk grunnskóla

(Sjá nánari umfjöllun í meðfylgjandi viðhenig.)

Sem sérfræðingar á sviði náttúrufræðimenntunar og námskrárgerðar mælum við sterklega gegn því að fyrirliggjandi drög að matsviðmiðum verði birt sem leiðbeinandi matsviðmið í náttúrufræði fyrir 4. og 7. bekk grunnskóla. Þótt matsviðmiðin séu kynnt sem leiðbeinandi leyfum við okkur að fullyrða að framsetning þeirra gæti haft neikvæð stýrandi áhrif á náttúrufræðimenntun í landinu. Meginrökin eru þau að inntak náttúruvísinda er vart sjáanlegt í þessum viðmiðum. Í því sambandi bendum við á kaflann Náttúrufræði-Náttúruvísindi í Viðauka B, þar sem inntak námskránna 1999 og 2013 er borið saman.

Við teljum nauðsynlegt að endursemja matsviðmiðin frá grunni með hliðsjón af hæfniviðmiðum þessarar námskrár og einnig markmiðum og inntakslýsingum sem almennt hafa tíðkast í náttúrufræðinámskrám hér og í nágrannalöndum. Við lýsum okkur reiðubúin að aðstoða við slíka endurskoðun sé þess óskað. Þrátt fyrir að kaflinn um náttúrugreinar í núgildandi aðalnámskrá grunnskóla sé að mörgu leyti gallaður og brýn þörf sé að endurskoða hann, þá býður hann samt upp á margvíslega möguleika hvað varðar gerð matsviðmiða í náttúrufræði fyrir 4. og 7. bekk grunnskóla sem hefðu jákvæðari áhrif á náttúrufræðimenntun í grunnskólum en þarna er raunin (Sjá viðauka C um hæfniviðmið). Að vísu er þar af mörgu að taka, en að sama skapi krafa um vönduð vinnubrögð við val á leiðbeinandi matsviðmiðum sem leiða eiga til lokaniðurstöðu námsmats.

Meginveikleiki fyrirliggjandi draga að matsviðmiðum er að sjálft sviðið sem um ræðir, náttúrufræði og náttúrufræðimenntun, er víkjandi og virkar nánast sem aukaatriði á meðan aðaláherslan er á samfélagslega þætti (sjá athugasemdir í Viðauka A). Jafnvel þar sem unnið er með tengsl náttúrugreina og samfélags er samfélagslega áherslan yfirgnæfandi eins og útskýrt er í yfirlitinu yfir matsviðmið í viðauka A. Auk þessa vekur athygli hvaða atriði eru ekki tiltekin í drögunum því eins og áður sagði þá býður núgildandi aðalnámskrá upp á fjölda mögulegra matsviðmiða sem tengjast betur náttúruvísindum en þarna er raunin (sjá viðauka C).

Mjög þarf að vanda til verka við námskrárgerð og gerð matsviðmiða og hvað varðar náttúrufræði er ljóst að við erum eftirbátar allra þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við. Það skal áréttað að núgildandi aðalnámskrá gerir ráð fyrir mikilli ábyrgð og faglegum vinnubrögum kennara þegar kemur að námsmati (sjá kaflann um matskerfið í Viðauka B). Þar er skýr áhersla lögð á réttmæti og áreiðanleika og einnig þekkingu á innihaldi námssviðsins og þeirri matsfræði sem er boðuð. Þau leiðbeinandi matsviðmið sem kynnt eru til sögunnar í þessum drögum eru ekki líkleg til að verða kennurum gagnlegur stuðningur í þessum efnum, nema síður sé.

Dr. Meyvant Þórólfsson

Dósent í námskrárfræði, námsmati og náms- og kennslufræði

Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands

Dr. Haukur Arason

Dósent í eðlisfræði og náttúrufræðimenntun

Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands

Dr. Hrefna Sigurjónsdóttir

Prófessor í líffræði

Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands

Dr. Kristín Norðdahl

Dósent í náttúrufræðimenntun

Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#28 Elín Gísladóttir - 20.04.2020

Ég geri athugasemd við það að gefa eina einkunn fyrir verkgreinar svo og listgreinar. Af hverju mega nemendur ekki njóta þess að vera góður í einni grein? Verkgreinarnar eru ólíkar og alls ekki víst að nemandinn sé jafngóður í öllum. Það er verið að fletja út einkunnir nemanda.

Það er ekki alltaf eðlilegur stígandi í matsviðmiðunum og orðalag ekki nógu skýrt. Unnið og unnið vel er t.d. ekki nægilegur munur á milli A og B.

Hvað eru rétt tæki? Eðlilegra að tala um viðeigandi tæki.

Stundum er sama viðmiðið fyrir tvær einkunnir.

Afrita slóð á umsögn

#29 Halldóra Lára Benónýsdóttir - 20.04.2020

Hef kennt náttúru-og samfélagsfræði á miðstigi í rúmlega 20 ár. Ég er sammála aðilum frá Menntavísindasviði að fyrst þurfi að endurskoða hæfniviðmiðin í námskrá og að þeirri vinnu lokinni að búa til matsviðmið. Höfundar ættu að vera úr akademiska skólasamfélaginu og þeim sem eru á gólfinu eins og sagt er.

Bæði námskráin og þessi matsviðmið í samfélags-og náttúrufræði eru óvinnandi vegur að vinna með. Auk þess er ekkert námsefni í takt við þau. Mikil óánægja hefur verið meðal kennara með námskrána í þessum fræðum allan tímann sem hún hefur verið í gildi.

Eru hæfniviðmiðin og matsviðmiðin eitthvað í takt við þau lönd sem við berum okkur saman við? Eru þau í takt við námskrá Pisa sem nemendur eru reglulega prófaðir úr?

Ég vona innilega að á okkur sé hlustað og tekið mark á.

Afrita slóð á umsögn

#30 Sigurhanna Friðþórsdóttir - 20.04.2020

Í ljósi þeirra fordæmalausu aðstæðna sem ríkja í samfélaginu um þessar mundir hvet ég eindregið til að málinu verði frestað um sinn svo kennurum og öðru fagfólki gefist kostur á að kynna sér efnið vel og ræða saman.

Mikið álag er á grunnskólakennurum í þessu ástandi og lítill tími til verkefna annarra en undirbúnings, kennslu og samskipta við nemendur og foreldra.

Þá valda takmarkanir samkomubanns því að ekki er mögulegt að koma saman nema á fjarfundum og á því sviði býr fólk misvel, bæði hvað varðar þekkingu og aðstöðu.

Afrita slóð á umsögn

#31 Anna Þóra Jónsdóttir - 20.04.2020

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram varðandi þessar tillögur. Enginn sem hér hefur á undan ritað, hefur haft eitthvað jákvætt um þær fram að færa og er það mjög skiljanlegt. Tillögurnar eru hroðvirknislegar unnar og nánast ómögulegt að gefa marktækt námsmat eftir þeim. Mér finnst líka alveg ótækt að steypa öllum list og verkgreinum í sama skjal. Þá eru samfélags og náttúrufræðikaflarnir alltof háfleygir og passa lítið við það námsefni sem verið er að kenna. Það lítur út fyrir að þeir sem sömdu þetta námsmat hafi litla reynslu í að gefa nemendum hagnýta og sanngjarna endurgjöf á tungumáli sem nemendur og foreldrar skilja. Hér eru líka allt of mörg atriði til námsmats og mörg sem taka á svipuðum þáttum. Þá er oft lítill munur á A, B eða C þáttum í umsögnum, einkum í skólaíþróttum. Þá skil ég ekki af hverju sund og aðrar íþróttir eru ekki aðskildar í námsmati. Nemandi getur verið prýðilegur í sundi en alls ekki mikill íþróttamaður í öðrum greinum og öfugt. . Þetta fer ekki alltaf saman. Sama röksemdarfærsla á einnig við um aðrar list og verkgreinar. Hér er greinilega verr af stað farið en heima setið og ég vona að þetta skjal verði ekki bara endurskoðað og breytt, heldur unnið upp á nýtt frá grunni. .

Afrita slóð á umsögn

#32 Anna Þóra Jónsdóttir - 20.04.2020

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram varðandi þessar tillögur. Enginn sem hér hefur á undan ritað, hefur haft eitthvað jákvætt um þær að segja og er það mjög skiljanlegt. Tillögurnar eru hroðvirknislegar unnar og nánast ómögulegt að gefa marktækt námsmat eftir þeim. Mér finnst líka alveg ótækt að steypa öllum list og verkgreinum í sama skjal. Þá eru samfélags og náttúrufræðikaflarnir alltof háfleygir og passa lítið við það námsefni sem verið er að kenna. Það lítur út fyrir að þeir sem sömdu þetta námsmat hafi litla reynslu í að gefa nemendum hagnýta og sanngjarna endurgjöf á tungumáli sem nemendur og foreldrar skilja. Hér eru líka allt of mörg atriði til námsmats og mörg sem taka á svipuðum þáttum. Þá er oft lítill munur á A, B eða C þáttum í umsögnum, einkum í skólaíþróttum. Þá skil ég ekki af hverju sund og aðrar íþróttir eru ekki aðskildar í námsmati. Nemandi getur verið prýðilegur í sundi en alls ekki mikill íþróttamaður í öðrum greinum og öfugt. Þetta fer ekki alltaf saman. Sama röksemdarfærsla á einnig við um aðrar list og verkgreinar. Hér er greinilega verr af stað farið en heima setið og ég vona að þetta skjal verði ekki einungis endurskoðað og breytt, heldur unnið upp á nýtt frá grunni.

Afrita slóð á umsögn

#33 Úlfhildur Helga Guðbjartsdóttir - 20.04.2020

Ég mótmæli því að ekki er gefinn lengri umsagnafresfur til að fara yfir þetta. Kennarar þurfa að fá tíma að fara yfir þetta og rýna í textann saman. Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu ætti að gefa lengri tíma.

Afrita slóð á umsögn

#34 Oddný Guðrún Guðmundsdóttir - 24.04.2020

Matsviðmiðin í samfélags- og náttúrugreinum eru alltof víð og orðalag flókið. Ég þarf oft á tíðum að staldra við til að reyna að átta mig á til hvers er ætlast því orðalag er of háfleygt og matsviðmiðið of yfirgripsmikið. Fyrir nemandann sjálfan eru þau illskiljanleg, sérstaklega 4. bekkinginn, og hver er þá tilgangurinn? Innihald námsgreinarinnar sjálfrar speglast ekki í þessum viðmiðum og mín fyrsta hugsun var: „Er ég ekki að kenna það sem mér ber? Ég er samt að nýta mér það námsefni sem Menntamálastofnun gefur út.“ Ég velti líka fyrir mér hvernig í ósköpunum eigi að fara að því að meta sum matsviðmiðin, hvernig verkefni á að leggja fyrir til að meta viðkomandi matsviðmið eða hvernig framkvæmdinni er best háttað svo ég sé raunverulega að meta það sem meta á. Í sumum tilfellum þyrfti kennari að geta átt gott spjall við nemandann, helst maður á mann, en það er ekki í boði í stórum nemendahópi. --> Matsviðmiðin eru ekki hjálpleg, þau eru kvíðvænleg og ruglingsleg.

Afrita slóð á umsögn

#35 Valdimar Helgason - 17.05.2020

Ég Valdimar Helgason vísindakennari til 35 ára þarf ekki að hafa fyrir því að rita umsögn. Umsögn mín er nefnilega þegar komin fram í umsögn númer 27 (#27 Haukur Arason - 20.04.2020) í nafni úrvals fólks sem ég bæði ber mikla virðingu fyrir og treysti fullkomlega. Þau orð sem þar eru sögð hefði ég sjálfur lagt til í umræðuna og ætla því ekki að endurtaka það þar kemur fram.

Ég hef litlu við það að bæta enda sammála öllu sem þar kemur fram. Auðvitað má alltaf bæta við en umsögnin er þess eðlis að hún kallar á rótæka endurskoðun þess furðufyrirbæris sem er í núverandi námskrá sem er mesta þvæla sem ég hef augum litið undir heitinu "Námskrá" í vísindum (náttúrugreinum=vont orð). Námskrá sem á að vera leiðbeinandi rit um innihald náms og kennslu í "Science" á Íslandi. Ég gæti haft mörg orð um það rugl sem er í núverandi námskrá en læt duga það sem ég hef sagt hér (án rökstuðnings) og tek af heilum hug undir hvert orð sem þessi ágæti hópur fagfólks hefur sent frá sér og þætti afar sérkennilegt ef þessi umsögn yrði ekki tekin MJÖG alvarlega.

Ég geri þeirra orð sem koma fram í umræddri umsögn að mínum. Hún er vel unnin af því fólki sem sem veit um hvað það er að tala. Þessir einstaklingar eru listuð hér að neðan og ég þakka þeim fyrir frábært framtak vonandi sem verður til þess að aftur verði farið að kenna vísindi á Íslandi.

#27 Haukur Arason - 20.04.2020

Dr. Meyvant Þórólfsson, Dósent í námskrárfræði, námsmati og náms- og kennslufræði, Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands

Dr. Haukur Arason, Dósent í eðlisfræði og náttúrufræðimenntu, Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands

Dr. Hrefna Sigurjónsdóttir, Prófessor í líffræði, Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands

Dr. Kristín Norðdahl, Dósent í náttúrufræðimenntun, Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands

Ég þakka ykkur fyrir vel unna umsögn. Ég þekki ykkur öll af einu góðu og átt afar gott samstarf við ykkur gegnum árin.

Bestu kveðjur

Valdimar Helgason, vísindakennari við Réttarholtsskóla

Afrita slóð á umsögn

#36 Þórhalla L Guðmundsdóttir - 30.05.2020

Það er einkennilegt eftir margar ábendingar frá kennurum og menntastofnunum að enn eigi að höggva í sama knérunn þegar horft er til mats á list- og verkgreinum annars vegar og íþróttum og sundi hins vegar. Margar athugasemdir komu fram þegar gengið var frá aðalnámskránni 2011-2013 um að óásættanlegt væri að setja eina einkunn á mismunandi fög við útskrift úr grunnskóla. Því miður var ekki var horft til þeirra athugasemda og því eru nemendur enn með eina einkunn úr t.d. þremur fögum verkgreina eða listgreina, þegar þeir fara með sitt mat úr grunnskóla. Þetta gerist á sama tíma og yfirvöld tala um mikilvægi skapandi greina sem vissulega virðist skjóta sökku við þegar horft er á þessi nýju drög að viðmiðum fyrir 4. til 7.bekk. Enn og aftur á að gefa eina einkunn fyrir mismunandi fög. Við þessa vinnu hefði verið ákjósanlegra að leita til grasrótarinnar í stað þess að festa sig í vinnu sem þegar hefur fengið falleinkunn og dregur beinlínis úr mikilvægi þessara greina. Sjálf viðmiðin eru víða illa úr garði gerð og eru jafnvel á þó nokkrum stöðum með sömu viðmið fyrir mismunandi einkunn.

Afrita slóð á umsögn

#37 Torfi Hjartarson - 31.05.2020

Námsmarkmið í upplýsinga- og tæknimennt fyrir 4. og 7. bekk birt hér í samráðsgáttinni til umsagnar standast illa skoðun og þarfnast gagngerra breytinga. Þau endurspegla að nokkru leyti ýmsa veikleika í námskrá en þeim mun mikilvægara er að vanda þau sem best og leitast við að draga fram styrkleika og tækifæri sem þar má nýta. Gæta þarf að því hvaða viðfangsefni og viðmið eiga við á hverju aldursstigi og draga betur fram hvernig námsárangur á að breytast með vaxandi þekkingu og færni eftir aldri. Einnig þarf að skilgreina á miklu haldbetri hátt mismikla þekkingu og færni nemenda á sama aldri þannig að einkunnir gefi til skýrt til kynna stöðu nemenda með það fyrir augum að þeir geti sótt fram og bætt sig á þessu greinasviði. Þá þarf að hafa í huga og leitast við að draga fram fleiri efnisþætti á greinasviðinu. Áherslur og möguleikar í upplýsinga- og tæknimennt taka sífelldum breytingum eftir því sem tækniþróun og tækninotkun fleygir fram. Margt af því sem þar hefur borið hæst á síðustu árum þarf að nefna eða styðja undir í námsmarkmiðunum. Sem dæmi má nefna þátt stafrænna miðla í samskiptum nemenda og þátttöku þeirra og annarra í samfélagi á víðari grundvelli, samfélagsmiðla og borgaravitund; fjölhátta læsi, miðlalæsi og einstaka þætti stafrænnar miðlunar; menntandi tölvuleiki og leikjun í námi og kennslu; myndræna forritun, forritun þjarka, skilning á kóðun og forritunarhugsun á breiðum grunni; og sköpunarsmiðjur, þrívíddar- og tæknihönnun, listir og hvers konar nýsköpun með stuðningi stafrænnar tækni. Þessum atriðum verða ekki gerð tæmandi skil með nokkrum námsmarkmiðum en engu að síður þarf að hafa þau ásamt námskráðviðmiðum í huga og leggja viðeigandi áherslur á þeim grunni. Jafnframt þarf að líta til reynslu kennara á vettvangi og gera raunhæfar kröfur til nemenda. Hafa má til hliðsjónar og draga lærdóm af alþjóðlegum áherslubreytingum og viðmiðum við útfærslu á markmiðunum.

Við undirrituð höfum öll fjallað um árabil um upplýsingatækni í skólastarfi á vettvangi kennaranáms og menntavísinda og lýsum okkur reiðubúin til að aðstoða við útfærslu á námsmarkmiðunum og endurnýjun tengda námskrá og stefnumótun á þessu sviði skólastarfs. Við leggjum líka áherslu á að samráð við kennara um markmiðin verði sem best.

Faghópur á sviði upplýsingatækni og miðlunar við Menntasvið Háskóla Íslands

Torfi Hjartarson lektor í í kennslufræði og upplýsingatækni

Umsjónarmaður námsleiða um upplýsingatækni og miðlun

Deild faggreinakennslu

torfi@hi.is

Salvör Gissurardóttir lektor í upplýsingatækni

Deild faggreinakennslu

salvor@hi.is

Sólveig Jakobsdóttir prófessor í fjarkennslufræðum

Forstöðumaður RannUM, Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun

Deild faggreinakennslu

soljak@hi.is

Skúlína Hlíf Kjartansdóttir aðjúnkt

Deild kennslu og menntunarfræði

shk@hi.is

Svava Pétursdóttir lektor

Formaður námsbrautar kennslu- og menntunarfræði

Deild kennslu og menntunarfræði

svavap@hi.is