Niðurstöður samráðs um vegvísi Nordic Smart Government
Vegvísir Nordic Smart Government var til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda frá 13. mars til 1. maí 2020. Þrjár umsagnir bárust frá eftirtöldum aðilum:
1) Uniconta,
2) Icepro
3) Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja og Litla Íslandi.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 13.03.2020–01.05.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 11.05.2020.
Nordic Smart Government er norrænt samstarfsverkefni um einföldun rekstrarumhverfis minni fyrirtækja á Norðurlöndum. Nú er unnið að þriðja hluta verkefnisins, vegvísi með tillögum að aðgerðum til að raungera framtíðarsýn Nordic Smart Government. Óskað er eftir rýni, athugasemdum og áliti frá hagsmunaaðilum við vegvísinn sem enn er í vinnslu.
Nordic Smart Government er samstarfsverkefni um einföldun rekstrarumhverfis fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á Norðurlöndunum. Þátttakendur koma frá stofnunum á öllum Norðurlöndum og er hvert land með eigið landsteymi. Skatturinn stýrir vinnu íslenska landsteymisins sem skipað er fulltrúum frá Skattinum, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Hagstofu Íslands.
Verkefnið er upprunnið hjá dönsku fyrirtækjaskránni árið 2016. Nú er unnið að þriðja áfanga þess sem áætlað er að ljúki í júní 2020. Þeim áfanga var formlega ýtt úr vör í Stokkhólmi 15. maí 2018 af viðskipta- og iðnaðarráðherrum Norðurlandanna. Meginafurð áfangans verður vegvísir fyrir innleiðingu Nordic Smart Government.
Meginmarkmið
Verkefnið miðar að því að gera fyrirtækjum og stofnunum kleift að miðla/sækja viðskipta- og bókhaldsgögn á sjálfvirkan, snjallan og öruggan hátt í því sem næst rauntíma.
Hugmyndin er að gera viðskiptaferla við kaup og sölu á vöru og þjónustu sjálfvirka með aðstoð stafrænnar tækni þannig að upplýsingar frá birgjum til fyrirtækja og frá fyrirtækjum til viðskiptavina ferðist með stöðluðum, stafrænum hætti, bæði innanlands og á milli Norðurlanda.
Gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki geymi viðskiptagögn í eigin kerfum og deili þaðan upplýsingum með stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum svo sem bönkum, tryggingafélögum, endurskoðunarfyrirtækjum eftir því sem við á. Hverju fyrirtæki verður í sjálfsvald sett hvort og þá hvaða gögnum það deilir og með hverjum.
Til að raungera þessa sýn þurfa pantanir, reikningar og kvittanir fyrirtækja og stofnana að vera á stöðluðu, stafrænu formi. Stöðlun gagna skiptir höfuðmáli og er forsenda þess að hægt sé að vinna á stafrænan, sjálfvirkan máta. Í slíkt henta hvorki gögn á PDF formi né á pappír.
Samráð
Meginhlutverk landsteyma Nordic Smart Government er að hafa samráð við hagsmunaaðila í sínu landi. Nú þegar líður að lokum þriðja fasa verkefnisins eru afurðir þess að líta dagsins ljós. Þar á meðal meginafurð þess, vegvísir með m.a. tillögum að aðgerðum til að raungera framtíðarsýn Nordic Smart Government. Vegvísirinn er enn í drögum en tímabært að fá rýni hagsmunaaðila svo hægt sé að bæta hann fyrir lokaskil. Frestur til að skrifa álit og gera athugasemdir er til og með 1.maí n.k. Óskað er eftir rýni og athugasemdum frá hagsmunaaðilum við Vegvísinn og má skila þeim annað hvort á íslensku eða ensku.
Nánari upplýsingar http://www.nordicsmartgovernment.org
Vísað er til máls nr. 69/2020 í Samráðsgátt Stjórnarráðsins „Vegvísir að Nordic Smart Government stafræna vistkerfinu“. Vegvísirinn felur í sér áform um að stafvæða viðskiptaferla lítilla og meðalstórra fyrirtækja og draga þannig úr vinnu og kostnaði við umsýslu og ásamt því að bæta upplýsingaflæði.
Uniconta styður þessu áform og telur þau til mikilla heilla fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi sem eru kjarnamarkhópur viðskiptalausnar félagsins. Miðlun gagna í rauntíma mun auka gæði upplýsinga auk þess að draga úr vinnu við umsýslu og meðhöndlun gagna. Réttar upplýsingar í rauntíma stuðla að bættri ákvarðanatöku og eru líklegar til að auka samkeppnishæfni fyrirtækja.
Talsverð vinna er fyrir höndum við útfærslu staðla og tækniforskrifta sem uppfylla þarfir fyrirtækja á svæðinu en markaðarnir eru um margt ólíkir. Þjónustuveitendur og seljendur viðskiptalausna munu þurfa að leggja umtalsverða vinnu í breytingar og þróun á sínum lausnum þannig að þær styðji þá ferla sem fjallað er um í vegvísinum. Seljendur viðskiptalausna eru í flestum tilfellum lítil eða meðalstór fyrirtæki og því mikilvægt unnið sé að því að halda kostnaði þeirra við innleiðingu í lágmarki og að þeir njóti stuðnings stjórnvalda á þeirri vegferð.
Jafnframt telur Uniconta mikilvægt að lög um bókhald séu endurskoðuð og nýjir viðskiptaferlar lögfestir auk skyldu rekstraraðila til að halda rafrænt bókhald. Fjöldi lítilla rekstraraðila hefur enn ekki aðgang að rafrænu bókhaldskerfi og mörg meðalstór fyrirtæki notast við úreldan hugbúnað sem þarfnast uppfærslu til að styðja við ferlana.
Uniconta lýsir sig reiðubúið til þess að taka þátt í frekari samvinnu við undirbúning þeirra breytinga sem boðaðar eru í vegvísinum og koma að útfærslu þeirra.
Meðfylgjandi er umsögn Icepro um vegvísi NSG.
Kv. Bergljót Kristinsdóttir
ViðhengiGóðan dag,
Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka fjármálafyrirtækja og Litla Íslands um Vegvísinn.
Virðingarfyllst,
Heiðrún Björk Gísladóttir
Viðhengi